Hæstiréttur íslands

Mál nr. 96/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Miðvikudaginn 3. mars 2010.

Nr. 96/2010.

A

(sjálf)

gegn

Héraðsdómi Suðurlands

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að ekkert kæmi fram til skýringar verulegri hækkun skulda síðastliðið ár. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. c., sbr. 1. tölulið 34. gr., laga nr. 21/1991 verði m.a. að koma fram í beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar viðhlítandi greinargerð um hvað hafi valdið skuldastöðu þess er eftir henni leiti. Með því að þessi annmarki væri á málatilbúnaði A yrði að hafna beiðninni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að henni yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fallist verði á beiðni hennar um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, en til vara að málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir tekjum sóknaraðila undanfarin ár og helstu skuldum sem á henni hvíla. Meðal gagna málsins er skattframtal sóknaraðila vegna ársins 2008 þar sem fram kemur að skuldir hennar í lok þess hafi verið 15.525.203 krónur. Í greiðsluáætlun sóknaraðila samkvæmt 2. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991, sbr. 2. gr. laga nr. 24/2009, sem tekur mið af stöðu hennar 29. janúar 2010, kemur á hinn bóginn fram að skuldir hennar nemi 24.791.642 krónum. Samanburður á þessum gögnum leiðir í ljós að á þessu rúmlega eins árs tímabili hækkuðu skuldir sóknaraðila við Íslandsbanka hf., sem sundurgreindar voru í fjóra liði, um 456.626 krónur. Þá hækkuðu skuldir við Arion banka hf. um 4.244.929 krónur. Stofnað var til nýrrar skuldar við NBI hf. sem samkvæmt greiðsluáætlun nemur 1.193.300 krónum og við Kreditkort hf. samtals 409.687 krónum. Á þessu tímabili lækkaði skuld sóknaraðila við SP-Fjármögnun hf. um 275.340 krónur, en skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna hækkaði um 3.058.730 krónur. Í greiðsluáætlun er jafnframt getið um ýmsar lausaskuldir að fjárhæð samtals 178.507 krónur. Samkvæmt þessu hækkuðu skuldir sóknaraðila um samtals 9.266.439 krónur á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 29. janúar 2010. Þótt augljós ástæða sé fyrir hækkun skulda við Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur ekkert fram til skýringar á verulegri hækkun skulda að öðru leyti, einkum við Arion banka hf. og NBI hf. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. c., sbr. 1. tölulið 34. gr. laga nr. 21/1991 verður meðal annars að koma fram í beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar viðhlítandi greinargerð um hvað hafi valdið skuldastöðu þess sem eftir henni leitar. Með því að þessi annmarki er á málatilbúnaði sóknaraðila verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 2010.

Með bréfi er barst dóminum 2. febrúar sl. hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi hafi lokið námi í [...]. Þegar atvinnuleit skilaði ekki árangri hefði umsækjandi hafið [...]nám í [...]. Umsækjandi eigi fimm börn og séu þrjú yngstu á framfæri hennar auk þess að næstelsta barnið, sem eigi lögheimili hjá föður sínum, búi hjá umsækjanda og sé að mestu á framfæri hennar. Þau búi í 180 fm leiguhúsnæði á B. Telur umsækjandi að hún verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Umsækjandi kveðst hafa skilið eftir stormasamt hjónaband á árinu 2001 og hafa glímt við fjárhagserfiðleika síðan. Umsækjandi hefði kynnst manni á árinu 2004 og eignast með honum tvo drengi, árið 2005 og 2006. Þau búi ekki saman í dag en umsækjandi fari með forsjá drengjanna. Kveðst umsækjandi búa í húsi barnsföður síns og greiði hún hóflega leigu fyrir húsið en á móti greiði hann ekki meðlag með drengjum þeirra. Umsækjandi kveðst hafa hafið nám í [...]. Kvaðst umsækjandi hafa stundað námið í fjarnámi en námið hafi verið dýrt. Hún hefði útskrifast [...]. Nú stundi hún nám í [...] en um tveggja ára nám sé að ræða. Hún þurfi að fara til C eina viku í mánuði í tengslum við námið og kostnaður við ferðirnar sé töluverður. Kveðst umsækjandi að mestu hafa framfleytt sér og börnum sínum með námslánum á sl. árum og þurft að stofna til skammtímaskulda til að brúa bilið þegar námslánin hafi ekki dugað til. Því hafi skuldir umsækjanda aukist jafnt og þétt. Haustið 2008 kvaðst umsækjandi hafa flutt inn bifreið, og áttu það að vera góð kaup. Bifreiðin hafi komið til landsins í nóvember 2008, um svipað leyti og gengi gjaldmiðla hækkaði verulega, og þegar upp var staðið hefði bifreiðin kostað einni milljón króna meira en upphaflega stóð til. Kaupin hafi verið fjármögnuð með bílaláni hjá SP-fjármögnun hf. Afborganir af láninu hafi reynst hærri en reiknað var með og því verið erfitt að standa í skilum með lánið. Nú sé verið að vinna í því að hafa eigendaskipti á bifreiðinni og bílaláninu. Kveður umsækjandi nú svo komið að hún sé víða komin í vandræði vegna skulda sinna, aðallega yfirdráttarskulda. Þau lán umsækjanda séu að mestu tilkomin vegna skuldbreytinga á uppsöfnuðum vanskilum. Hún sé með ógreidda greiðslukortareikninga, leikskólagjöld, áskriftargjöld, bifreiðagjöld og álagningu skatta. Hafi hún verið að velta skuldaboltanum á undan sér og ekki náð að saxa á hann.

Umsækjandi hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Tekjur umsækjanda eru samkvæmt greiðsluáætlun nú alls 387.893 krónur á mánuði, þar af eru barnabætur, meðlag og mæðralaun samtals 106.611 krónur en tekjur hennar eru aðallega framfærsla frá LÍN eða 281.282 krónur á mánuði.

Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Íslandsbanka, samtals 2.896.953 krónur, Arion banka, samtals 4.198.802 krónur, Landsbankann, 93.300 krónur,  Kreditkort, 216.252 krónur, LÍN, 10.004.295 krónur, og Birting útgáfufélag, Árvakur, IP-fjarskipti, TM og opinber gjöld, samtals 178.507 krónur. Eftirstöðvar samningskrafna miðað við skil eru sagðar vera um 14,3 milljónir króna og gjaldfallnar kröfur eru sagðar nema um 7,6 milljónum króna.  

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er sögð vera 56.740 krónur á mánuði.

Tillaga umsækjanda er að hún greiði 50.000 krónur á mánuði í fimm ár en vegna óvissu með tekjur yfir sumarmánuðina á meðan á námi stendur, er gerð tillaga að greiðslufresti í júní, júlí og ágúst árin 2010 og 2011. Að fimm árum liðnum verði eftirstöðvar samningskrafna felldar niður.   

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991. 

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Mál þetta barst upphaflega dóminum þann 2. febrúar sl. Þann 5. febrúar sl. mætti umsækjandi fyrir dóminn samkvæmt boðun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Umsækjandi upplýsti að hún teldi gagnaöflun lokið og var málið þá tekið til úrskurðar.

Í skattframtölum umsækjanda kemur fram að hún hafi árið 2005 verið með 1.714.376 krónur í árstekjur eftir skatt, sem eru að meðaltali 142.865 krónur á mánuði, árið 2006 hafi hún haft 1.360.365 krónur í árstekjur eftir skatt, sem eru að meðaltali 113.364 krónur á mánuði, árið 2007 hafi hún verið með 1.615.110 krónur í árstekjur eftir skatt, sem eru að meðaltali 134.592 krónur á mánuði, og árið 2008 hafi hún haft 1.250.711 krónur í árstekjur eftir skatt, sem eru að meðaltali 104.226 krónur á mánuði.

Í greiðsluáætlun umsækjanda er gert ráð fyrir 174.200 krónum til framfærslu, auk 156.953 króna í önnur útgjöld, samtals 331.153 krónur á mánuði. Stærsti hluti tekna umsækjanda er framfærslulán frá LÍN, 281.282 krónur á mánuði. Umsækjandi kveðst ljúka námi árið 2011 og hljóta þá greiðslur frá LÍN að falla niður. Umsækjandi óskar eftir því að fái hún heimild til að leita greiðsluaðlögunar þá falli greiðslur niður í júní, júlí og ágúst árin 2010 og 2011 þar sem óvíst sé um innkomu þá mánuði sem greiðslur frá LÍN falla niður. Verður því ekki séð á hvaða samningi umsækjandi reisir væntanlegar tekjur sínar næstu þrjú árin eftir að námi lýkur vorið 2011. Verður ekki séð að þessu leyti að umsækjandi uppfylli skilyrði 1. tl. 63. gr. d, laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Þá er umsækjandi í [...]námi í [...]. Kveðst hún vænta þess að fá vinnu við [...] eftir að námi lýkur. Verði svo, er ekki fyrirséð að umsækjandi muni verða ógreiðslufær næstu fimm árin.

Umsækjandi kveður skuld sína við LÍN vera annars vegar frá árinu 1999, 691.719 krónur, og hins vegar lán frá árinu 2006, 9.312.576 krónur. Er fyrra lánið í greiðslufresti þar sem umsækjandi er í námi en innheimta er ekki hafin á seinna láninu. Að frádregnum skuldum við LÍN og láninu við SP fjármögnun, sem telst ekki vera samningskrafa, eru eftirstöðvar lána umsækjanda samtals 4.337.325 krónur og í vanskilum samtals 7.563.438 krónur. Er til þessara skulda stofnað á árunum 2006 til 2009. Á þeim sama tíma var umsækjandi með, fyrir utan ofantalin mánaðarlaun samkvæmt skattskýrslum, að jafnaði 258.666 krónur í framfærslulán frá LÍN ef gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi verið með jafnar mánaðargreiðslur allt árið í þrjú ár þann tíma sem hún stundaði nám við Háskólann á Bifröst. Því er annaðhvort um að ræða að umsækjandi hafi ekki greitt af skuldum sínum á þeim tíma er til þeirra var stofnað á árunum 2006 til 2009, þrátt fyrir að vera gjaldfær miðað við þær tekjur sem umsækjandi hafði, bæði í formi launagreiðslna og framfærslulána frá LÍN, eða að umsækjandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. 3. og 5. tl. 63. gr. d laga nr. 21/1991.

Verður því, með vísan til þessa, að hafna beiðni umsækjanda um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er hafnað.