Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2006


Lykilorð

  • Rán
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. maí 2006.

Nr. 41/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Kristófer Hansen

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Rán. Skilorðsrof.

K játaði að hafa í félagi við annan mann framið rán í apóteki vopnaður hnífi og var dæmdur til tólf mánaða fangelsisvistar. Þegar litið var til þess hversu alvarlegt brot hans var þótti ekki koma til álita að skilorðsbinda refsinguna líkt og gert hafði verið í héraði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

Ekki er fyrir Hæstarétti krafist endurskoðunar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur.

Eftir að héraðsdómur gekk var ákærði dæmdur til sektargreiðslu fyrir fíkniefnalagabrot.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um að ákærði skuli sæta fangelsi í 12 mánuði staðfest. Þegar litið er til þess hversu alvarlegt brot hans var þykir ekki koma til álita að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest að því er ákærða varðar. Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Af hálfu ákæruvalds hefur ekki verið gerð krafa um að hann greiði annan kostnað af áfrýjun málsins.

Dómsorð:

Ákærði, Kristófer Hansen, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað að því er ákærða varðar.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2005.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 18. maí 2005 á hendur: 

,,Kristófer Hansen, kennitala 150679-4949,

án lögheimilis, og

Y, kennitala [...],

[...], Reykjavík,

fyrir rán með því að hafa laugardaginn 19. febrúar 2005, um k. 12, komið inn í Árbæjarapótek, Hraunbæ 102A, Reykjavík, með andlit sín hulin, ákærði Y vopnaður hnífi og hamri og ákærði Kristófer vopnaður hnífi, stokkið yfir afgreiðsluborð og ógnað starfsmönnum A og B með vopnunum og heimtað að þær létu ákærðu hafa lyfið rítalín.  Ákærði Y reyndi án árangurs að opna sjóðsvél apóteksins en ákærði Kristófer hrifsaði ýmis lyf úr skúffu að verðmæti kr. 77.756 sem ákærðu höfuð á brott með sér.

Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Vátryggingafélag Íslands hf. krefst bóta að fjárhæð kr. 100.166 auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 frá 19. febrúar 2005 til greiðsludags.“

Verjandi beggja ákærðu krefst vægustu refsingars, sem lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti eða að hluta skilorðsbundin hjá báðum ákærðu. Komi til refsivistar ákærða Y er þess krafsist að gælsuvarðhaldsvist hans komi til frádráttar. Bótakrafan sem í ákæru greinir er samþykkt. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 19. febrúar sl. var lögreglan kölluð að Árbæjarapóteki kl. 12.13 þennan dag vegna atburðarins, sem lýst er í ákærunni.  Starfsmenn apóteksins, sem lögreglan ræddi við á vettvangi, greindu svo frá að tveir menn, klæddir bláum samfestingum og með lambúshettu á höfði, hefðu skömmu áður komið inn í apótekið vopnaðir hnífum og hamri.  Annar mannanna hefði árangurslaust reynt að opna peningakassa með hníf og hamri. Hinn maðurinn hefði tekið rítalín úr skúffu, þar sem lyfið var geymt.  Fram kemur í skýrslunni að mennirnir hafi hlaupið á brott skömmu síðar.  Rannsóknargögn eru meðal annars vettvangsrannsókn lögreglu og þá er lýst aðgerðum lögreglunnar og viðbrögðum vegna málsins.  Ekki þykir ástæða til þess að rekja þessi gögn eins og á stendur.

Ákærði, Y, var handtekinn 23. febrúar sl. Hann játaði strax aðild sína að málinu við skýrslutöku hjá lögreglunni sama dag.

Ákærði, Kristófer, var handtekinn 25. febrúar sl. Hann játaði sömuleiðs aðild sína að málinu við skýrslutöku hjá lögreglunni samdægurs.

Ákærðu hafa báðir játað brot sitt skýlaust fyrir dómi.

Ákærði, Kristófer, kvaðst hafa haldið inn í apótekið vopnaður hnífi og meðákærði, Y, hafi verið vopnaður hnífi og hamri.  Kvaðst hann hafa stokkið yfir afgreiðsluborðið og ógnað starfsmönnum eins og lýst er í ákærunni.  Ákærði kvað þá ákærðu hafa heimtað rítalín, en hann kvaðst hafa verið rítalínsjúkur í tvö ár og það hafi ráðið för hans og gerðum í þetta sinn.  Ákærði kvað meðákærða, Y, árangurslaust hafa reynt að opna sjóðsvél.  Áður en ákærðu héldu út úr apótekinu hafi ákærði hrifsað lyf úr skúffu eins og lýst er í ákærunni. 

Ákærði, Y, kvað báða ákærðu hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma.  Þá hafi vantað lyf til þess að halda neyslunni áfram og ákveðið í skyndi að halda inn í apótekið í því skyni að verða sér úti um lyf.  Þeir hafi hulið andlit sín áður en þeir héldu inn í apótekið, þar sem þeir stukku yfir afgreiðsluborðið og meðákærði tók að leita lyfja meðan ákærði kvaðst hafa reynt að opna peningakassa.  Ákærði kvað lýsinguna í ákærunni rétta, en tók fram að ákærðu hefðu ekki ætlað að ráðast á neinn og þeir hafi verið vopnaðir eins og lýst er í ákærunni til að ekki yrði ráðist á þá.

Vitnið, A, var við störf sín í apótekinu, er ákærðu frömdu ránið.  Hún lýsti því er tveir menn komu inn í apótekið, annar með hníf og hamar í hendi.  Mennirnir hafi báðir stokkið yfir búðarborðið og annar haldið þangað, sem lyfjafræðingur var við störf, en hinn tekið til við að reyna að brjóta upp peningakassa.  Kvaðst A þá hafa spurt manninn að því hvort hann ætlaði að eyðileggja kassann.  Maðurinn hafi þá otað að henni hnífnum og skipað henni að leggjast í gólfið.  Hún kvaðst ekki hafa orðið við því, heldur staðið álengdar.  A kvað sér hafa liðið mjög illa af þessum sökum og verið hrædd um líf sitt.  Hún kvaðst hafa fengið áfallahjálp eftir á.  Hún staðfesti að mennirnir hafi brotið sjóðsvél og tekið með sér lyf.

Vitnið, B lyfjafræðingur, var við störf í apótekinu á þessum tíma.  Hún lýsti því er tveir menn, klæddir vinnugalla með lambúshettu á höfði, komu inn í apótekið á þeim tíma sem hér um ræðir.  Fóru þeir yfir afgreiðsluborðið, annar fór í peningakassann, en hinn hafi heimtað lyf.  Báðir mennirnir voru vopnaðir hníf og annar auk þess með hamar meðferðis.  Hún lýsti viðbrögðum sínum við þessu og því að hún hafi orðið hrædd eftir á, en hún kvaðst hafa fengið áfallahjálp af þessum sökum.

Niðurstaða.

Sannað er með skýlausri játningu beggja ákærðu fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærðu hafi gerst brotlegir eins og lýst er í ákærunni og varðar háttsemi þeirra við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot ákærðu eru alvarleg.  Þeir héldu vopnaðir inn í apótekið og var háttsemi þeirra til þess fallin að vekja ótta starfsmanna eins og kom á daginn, en starfsmenn fengu áfallahjálp eftir ránið.  Er þetta virt báðum ákærðu til refsiþyngingar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70 gr. almennra hegningarlaga.Þá er við refsiákvörðun beggja ákærðu litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar, þar sem ákærðu frömdu brotið í sameiningu.

Á hinn bóginn hafa ákærðu báðir játað brot sitt hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar hjá báðum.

Ákærði, Kristófer, hlaut skilorðsbundna ákærufrestun fyrir þjófnað á árinu 1997 og  á sama ári hlaut hann 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað.  Síðan hefur ákærði hlotið tvo dóma, annars vegar sektardóm fyrir umferðarlagabrot á árinu 2000 og hins vegar 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 3 ár fyrir þjófnað og vopnalagabrot, sem hann hlaut með dómi 4. febrúar sl.  Þá gekkst hann undir lögreglustjórasátt sama dag fyrir fíkniefnabrot. Aðeins liðu rúmar 2 vikur frá því ákærði hlaut skilorðsdóminn, 4. febrúar sl., uns hann framdi ránsbrotið.  Hann hefur því rofið skilorð þess dóms og er hann dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða, Kristófers, hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði.Þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 9 mánaða af refsivist ákærða skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Y, hefur ekki áður hlotið refsingu. Vísað er til sjónarmiða, sem rakin voru að ofan, sem höfð verða til hliðsjónar við ákvörðun refsingar beggja ákærðu.  Með vísan til þess þykir refsing ákærða, Y, hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði.  Ákærði, Y, hefur ekki áður hlotið refsingu.  Hann er þriggja barna faðir og er nú í sambúð.  Hann hefur átt við fíkniefnavanda að stríða, sem hann hefur nú reynt með aðstoð að vinna bug á.  Að öllu þessu virtu þykir rétt að fresta fullnustu refsingar ákærða, Y, skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Komi til afplánunar refsingar ákærða, Y, skal draga frá henni gæsluvarðhaldsvist, sem hann sætti í þágu rannsóknar málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu samþykkja bótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. og eru þeir dæmdir til greiðslu kröfunnar óskipt auk vaxta, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. febrúar  2005 til 7. júlí 2005, en með dráttarvöxtum frá 7. júlí 2005, en þá var mánuður liðinn frá því að krafan var birt, og til greiðsludags.

Ákærði, Y, greiði 32.868 krónur vegna sakarkostnaðar á rannsóknarstigi málsins.

Ákærðu greiði óskipt 224.100 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Kristófer Hansen, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivist ákærða skilorðsbundið í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð, sbr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Komi til afplánunar refsivistar ákærða, Y, skal draga frá henni gæsluvarðhaldsvist, er hann sætti vegna málsins.

Ákærðu greiði Vátryggingafélagi Íslands hf. óskipt 100.166 krónur auk vaxta, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. febrúar 2005 til 7. júlí 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi og til greiðsludags.

Ákærði, Y, greiði 32.868 krónur í sakarkostnað á rannsóknarstigi.

Ákærðu greiði óskipt 224.100 krónur í málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.