Hæstiréttur íslands

Mál nr. 534/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. desember 2002.

Nr. 534/2002.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Valborg Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Gjafsókn.

Krafa K um dómkvaðningu matsmanns í tilefni af áfrýjun hennar á máli þar sem hún deildi við M um forsjá barnsins X, var tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2002, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað, en til vara að annar matsmaður en sá, sem varnaraðili tilgreini í beiðninni, verði kvaddur til starfans. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hafi verið veitt.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður án tillits til gjafsóknar, sem henni hafi verið veitt.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu. Gjafsóknarkostnaður verður ekki dæmdur, enda er mál þetta þáttur í forsjármáli, sem nú er rekið fyrir Hæstarétti og aðilarnir njóta báðir gjafsóknar í, en við lyktir þess verður þá meðal annars í einu lagi tekin afstaða til alls gjafsóknarkostnaðar af því.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2002.

Mál þetta var þingfest 8. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. nóvember sl.

Matsbeiðandi er K.

Matsþoli er M.

Með beiðni móttekinni 5. nóvember fór matsbeiðandi þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til að framkvæma viðbótarmat á tilgreindum atriðum sem varða hagi X, með tilliti til forsjár fyrir X, sbr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992 og VI. kafla þeirra laga.

Er matsbeiðni þessi var tekin fyrir á dómþingi 8. nóvember sl. var matsbeiðninni mótmælt af hálfu matsþola og var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hans hálfu.

Dómkröfur matsþola eru þær aðallega að kröfu matsbeiðanda um skipun matsmanns verði hafnað. Til vara að kröfu matsbeiðanda um að A verði skipaður matsmaður verði hafnað og annar matsmaður verði skipaður í hans stað. Í báðum tilvikum er þess krafist að matsbeiðandi verði dæmdur til að greiða matsþola málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Matsbeiðandi mótmælir kröfum matsþola og krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi matsþola í þessum hluta málsins samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

[...]

Niðurstaða

Samkvæmt 76. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að afla gagna í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Skal þá ákvæðum 75. gr. laganna beitt við gagnaöflun fyrir héraðsdómi. Í 1. mgr. 75. gr. segir að þegar gagnaöflun eftir fyrirmælum XI. kafla fer fram fyrir dómi hér á landi skuli farið eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla eftir því sem átt getur við. Um matsgerð sem sönnunargagn í einkamálum er fjallað í IX. kafla laganna. Matsbeiðandi hefur farið þess á leit að A verði dómkvaddur til að framkvæma viðbótarmat á tilgreindum atriðum sem varða hagi X, með tilliti til forsjár fyrir X. Matsgerð þessa hyggst matsbeiðandi leggja fram í Hæstarétti

Framlögð matsbeiðni uppfyllir skilyrði 1. mgr. 61. gr. laganna um dómkvaðningu matsmanns.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hefur aðili forræði á því hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi, en þær kröfur eru ekki til skoðunar í þessu máli. Ekki eru reistar sérstakar skorður við því að beðið sé um mat á atriðum sem áður hafa verið metin en hafa ekki endanlega verið leidd til lykta fyrir dómi. Enn síður er fyrir það girt að aflað sé nýrrar matsgerðar til viðbótar eldri matsgerð. Ekki er hægt að slá því föstu að matsgerð geti í þessu tilviki ekki skipt máli um úrlausn ágreinings aðila og matsbeiðandi ber jafnframt kostnað af matsgerð samkvæmt 2. mgr. 63. gr., nema að því leyti sem kann að vera tekið tillit til hans við ákvörðun málskostnaðar síðar. Enn fremur ber á það að líta að mat á því hvort eða með hverjum hætti byggt verði á matsgerð sem matsbeiðandi hyggst afla, á ekki undir héraðsdómara sem leitað er til um dómkvaðningu, heldur kemur það í hlut þess dómara sem leysir úr málinu efnislega, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns, efni hennar og uppsetning er þannig á ábyrgð hans og ber hann áhættuna af því ef matsgerð telst hafa takmarkað sönnunargildi fyrir þeim dómi sem sönnunarfærslan fer fram fyrir. Matsþoli hefur ekki fært fyrir því haldbær rök að A skuli ekki verða dómkvaddur til að framkvæma viðbótarmat við fyrri álitsgerð sína.

Samkvæmt framansögðu þykja hvorki ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 né IX. kafli sömu laga standa dómkvaðningu í vegi. Verður því að hafna framkomnum mótmælum matsþola og málsástæðum gegn umbeðinni dómkvaðningu og skal hún fara fram.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Framlögð gjafsóknarleyfi aðila voru takmörkuð við rekstur máls þeirra [...] fyrir héraðsdómi og koma því ekki til álita í matsmáli þessu.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umbeðin dómkvaðning matsmanns skal fara fram.

Málskostnaður fellur niður.