Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/1999
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 1999. |
|
Nr. 252/1999. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
X var ákærður fyrir að hafa átt í kynferðissamabandi við þrettán ára gamla stúlku. Við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi bar stúlkan, að X hefði komið til síðbúinnar fermingarveislu sinnar og þá verið kunnugt um tilefnið, en upplýsingar um þetta komu ekki fram í rannsóknargögnum lögreglu. Talið var, að fullt tilefni hefði verið til frekari skýringar þessa atriðis við meðferð málsins í héraði, en ekkert var vikið að þessu í niðurstöðum héraðsdóms. Þótti ekki verða séð, að héraðsdómari hefði lagt sérstakt mat á trúverðuleika framburðar stúlkunnar og væri mat hans á framburði X óskýrt. Að þessu virtu þótti ekki verða hjá því komist að ómerkja sýknudóm héraðsdóms og vísa málinu heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins 11. júní 1999 til endurskoðunar á grundvelli 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, til sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.
Ákærði krefst þess, að héraðsdómur verði staðfestur.
I.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 1999, þremur mánuðum eftir uppsögu héraðsdóms, óskaði ríkissaksóknari eftir því, að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af þremur vitnum, þar á meðal föður kæranda og fyrrverandi unnustu ákærða, og var vísað til 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Með fylgdi upplýsingaskýrsla lögreglu, þar sem fram kom, að vitnin gætu gefið upplýsingar um þá vitneskju, er ákærði kynni að hafa haft um aldur kæranda og fermingu hennar í apríl 1996. Vitnamál var háð fyrir héraðsdómi 20. ágúst 1999 og skýrslur teknar af vitnunum. Hafa þær verið lagðar fyrir Hæstarétt.
Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið réttlætt, hvers vegna vitnin voru ekki kvödd fyrir héraðsdóm, þegar málið var þar til dómsmeðferðar. Ekki kemur fram í rannsóknargögnum lögreglu, að reynt hafi verið að grafast fyrir um vitneskju þessara eða annarra vitna um kynni ákærða af kæranda, þegar frá er talinn sá maður, sem ákærði bjó hjá frá miðju ári 1996 til vors 1997. Einkum sýnist þó ærin ástæða hafa verið til að taka skýrslur af föður kæranda og fyrrverandi unnustu ákærða, sem höfðu fylgst með umgengni þeirra mánuðum saman í hesthúsunum [...] við [...] eða frá því í febrúar 1996.
II.
Kærandi bar við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi, að hún hefði haldið síðbúna fermingarveislu í hesthúsunum 29. apríl 1996 og ákærði hefði komið þangað og þegið veitingar. Hefði honum verið kunnugt um tilefnið og raunar einnig verið boðið í sjálfa fermingarveisluna daginn áður, en hann hefði ekki verið þar. Upplýsingar um þetta komu ekki fram í rannsóknargögnum lögreglu.
Við mat á því, hvort ákærða hafi verið eða mátt vera kunnugt um aldur kæranda, þegar þau hófu kynferðissamband sitt, hlýtur að skipta verulegu máli, hvort hann hafi vitað um fermingu hennar í apríl 1996. Þegar kærandi hafði borið fyrir héraðsdómi með framangreindum hætti var fullt tilefni til viðbragða, bæði af hálfu ákæruvalds og dómara málsins, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Héraðsdómari átti auk þess kost á því eftir dómtöku að ákveða framhaldsmeðferð í samráði við sakflytjendur og kveða á um frekari gagnaöflun, sbr. 131. gr. laga nr. 19/1991. Ekkert var þó að gert og dómari víkur ekki að þessum framburði í niðurstöðukafla héraðsdóms. Þá verður ekki séð, að héraðsdómari hafi lagt sérstakt mat á trúverðugleika framburðar kæranda, og mat hans á framburði ákærða er óskýrt.
III.
Með hliðsjón af framangreindu þykir ekki verða hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og málsmeðferð í héraði frá upphafi aðalmeðferðar og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, sbr. 2. málslið 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991.
Eftir þessum úrslitum ber að greiða úr ríkissjóði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 23. apríl 1999 eiga að vera ómerk og er málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur sakarkostnaður í héraði til þessa og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.