Hæstiréttur íslands
Mál nr. 186/2004
Lykilorð
- Gerðardómur
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 18. nóvember 2004. |
|
Nr. 186/2004. |
Páll Ólafsson(Jóhann H. Níelsson hrl.) gegn dánarbúi Jóns Ólafssonar (enginn) |
Gerðardómur. Skriflega flutt mál.
P og J, sem ráku félagsbúskap á jörðinni B, gerðu 15. mars 2000 samkomulag um slit á rekstrinum, uppgjör skulda sem tilheyrðu honum svo og um skiptingu eigna. Þá skuldbundu þeir sig til að leggja ágreining um framangreind atriði til úrskurðar gerðardóms. Skyldi gerðardómurinn ljúka skiptum á landi eigi síðar en 15. apríl 2000 og á fasteignum og tækjum 25. sama mánaðar. Um skipan gerðardómsins var tekið fram að í honum sætu lögmenn aðila ásamt oddamanni sem þeir kæmu sér saman um en yrði ella dómkvaddur. Ekki náðist samkomulag um skipun oddamanns og beiddist J þess að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur skipaði oddamann. Var A skipaður oddamaður í september 2000. Gerðardómurinn lauk störfum í apríl 2002. Höfðaði P í framhaldi af því mál þetta og krafðist þess að gerðardómurinn yrði ógiltur með vísan til þess í fyrsta lagi að gerðarsamningurinn hafi verið útrunninn, í öðru lagi að skipun oddamanns í gerðardóminn hafi verið áfátt og í þriðja lagi að dómurinn sjálfur hafi í mörgum atriðum verið órökstuddur og ekki reistur á gögnum málsins. Að því er snerti fyrstnefnda atriðið var bent á að engin viðmiðunarmörk hafi verið tilgreind varðandi uppgjör á samrekstri aðila. Þá hafi P ekki sýnt fram á að mótmæli hafi komið frá honum varðandi tímamörk um skipun dómsins eða starfstíma hans meðan á málsmeðferðinni fyrir gerðardómnum stóð. Báðir aðilar hafi sett fram kröfur og flutt mál sitt fyrir gerðardóminum og þannig í verki sætt sig við úrskurðarvald hans. Að því er snerti skipun oddamanns hafi skipun A verið samkvæmt 4. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma og hafi P ekki haft uppi athugasemdir vegna þessa. Yrði því að telja að skipun oddamanns hafi verið rétt að formi til. Um gerðardóminn sjálfan var tekið fram að ekki yrði annað séð en að hann væri unninn á grundvelli fyrirliggjandi gagna og í samræmi við 8. gr. laga nr. 53/1989. Hafi P ekki sýnt fram á að gerðardómurinn væri bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum sem leiða ættu til ógildingar hans í heild sinni á grundvelli 6. töluliðar 12. gr. sömu laga. Var kröfu P því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 13. mars 2004, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. maí sama ár. Var héraðsdómi áfrýjað öðru sinni 11. sama mánaðar með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Áfrýjandi krefst þess að ógiltur verði gerðardómur 4. apríl 2002 í máli milli hans og Jóns Ólafssonar um slit á samrekstri þeirra, uppgjör skulda og skiptingu eigna að Brautarholti á Kjalarnesi. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Ber því að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 eins og þeim var breytt með 12. gr. laga nr. 38/1994.
Málið var skriflega flutt fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt, lést Jón Ólafsson, sem var stefndi í héraði, 14. júní 2004. Mun skiptum ekki lokið á dánarbúi hans, sem tekur því við aðild að málinu hér fyrir dómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Páli Ólafssyni, kt. 160330-3849, Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík, gegn Jóni Ólafssyni, kt. 260432-2819, Brautarholti 2, Kjalarnesi, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að ógiltur verði með dómi gerðardómur, uppkveðinn 4. apríl 2002, um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna stefnanda og stefnda í Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík.
Til vara :
1. Að ógiltir verði með dómi eftirfarandi kaflar í gerðardómi, uppkveðnum 4. apríl 2002, um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna stefnanda og stefnda í Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík:
a. kafli I að því er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar.
b. kafli II, 3 að því er varðar rekstur kaffistofu.
c. kafli II, 4.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 21.535.199,50 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2002 til greiðsludags.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Loks er þess krafist að dómari ákveði að fresta réttaráhrifum gerðardóms meðan málið er leitt til lykta.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Með úrskurði uppkveðnum 15. ágúst 2003 var réttaráhrifum gerðardóms aðila frestað meðan mál þetta er leitt til lykta. Í þinghaldi í málinu 17. september sl. var fallist á beiðni stefnanda um skiptingu sakarefnis þannig að fyrst verði sérstaklega dæmt um aðalkröfu málsins og er sú krafa hér til úrlausnar.
Málsatvik
Aðilar máls þessa, sem eru bræður, hafa um áratugaskeið rekið félagsbúskap á óðalsjörðinni Brautarholti á Kjalarnesi, Reykjavík. Aðalframleiðslugrein á búinu var mjólkurframleiðsla á árunum 1954-1963. Árið 1967 tóku þeir bræður við jörðinni af foreldrum sínum. Það ár var kúabúskapur lagður niður á jörðinni og framleiðsla hófst á hraðþurrkuðu fóðri, grasmjöli. Árið 1972 hófst framleiðsla á graskögglum, sem síðan var aðalframleiðslugrein á jörðinni næstu áratugina.
Um rekstur graskögglaverksmiðju aðila eða annan sameiginlegan búrekstur þeirra var aldrei stofnað neitt formlegt félag. Var reksturinn í nafni og kennitölu þeirra persónulega og á ábyrgð þeirra beggja.
Stefndi sett fram ákveðnar athugasemdir við drög að ársreikningi fyrir samreksturinn fyrir árin 1997 og 1998. Athugasemdir stefnda lutu að ýmsum þáttum í rekstrinum eins og nánar er rakið í kröfugerð stefnda fyrir gerðardómi.
Hinn 15. mars 2000 gerðu aðilar mál þessa með sér samkomulag um slit á samrekstri og uppgjör skulda sem honum tilheyrðu, svo og um skiptingu eigna. Var þar rætt um skiptingu lands, mannvirkja og hlunninda, uppgjör á samrekstri aðila og skiptingu véla og tækja. Í IV. kafla samkomulagsins sagði að aðilar þess skuldbundu sig til að leggja ágreining um skiptingu eigna og uppgjör skulda og samrekstrar, svo og önnur atriði sem lúta að skiptum aðila, til úrskurðar gerðardóms. Skyldi dómurinn ljúka skiptum á landi eigi síðar en 15. apríl 2000 og skiptingu á fasteignum og tækjum eigi síðar en 25. apríl 2000. Gerðardómur skyldi skipaður lögmönnum beggja aðila og einum oddamanni sem þeir kæmu sér saman um ella yrði hann dómkvaddur. Ekki varð samkomulag með aðilum um skipun oddamanns í dóminn og óskaði stefndi eftir því með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2000, til Héraðsdóms Reykjavíkur að skipaður yrði oddamaður gerðardóms. Skipaði dómstjóri Arngrím Ísberg héraðsdómara sem oddamann gerðardóms hinn 6. september 2000.
Undir meðferð málsins hjá gerðardóminum var aðilum gefin kostur á að leggja fram greinargerðir og gögn til stuðnings kröfugerðum sínum. Að auki var endurskoðendum aðila falið að fara yfir ágreiningefni um uppgjör samrekstrar þeirra til þess að setja fram sjónarmið um hvernig taka bæri á einstökum álitaefnum.
Eins og fram kemur í gerðardóminum þá kvaddi gerðardómurinn sérfræðinga til aðstoðar um ýmsa þætti í uppgjörinu. Einar Ingimarsson arkitekt vann að skiptingu lands, Freyr Jóhannesson tæknifræðingur og Magnús Leópoldsson fasteignasali voru fengnir til ráðgjafar um mat á húsum og lóðum og Sverrir Ingólfsson endurskoðandi var fengin til ráðgjafar um uppgjör á samrekstri aðila. Málsaðilum var fyrirfram gerð grein fyrir því að þessir aðilar yrðu fengnir til ráðgjafar og voru engar athugasemdir gerðar við ráðningu þeirra af aðilum málsins.
Gerðardómur kvað upp dóm sinn 4. apríl 2002. Í dómsorði var kveðið á um skiptingu óskipts lands, húseigna, véla og annarra eigna þeirra bræðra, auk þess sem stefnanda var gert að greiða stefnda 1.886.752 krónur við uppgjör samreksturs þeirra.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 15. apríl 2002, var stefnda tilkynnt að stefnandi mótmælti niðurstöðu gerðardóms í heild sinni og áskildi sér rétt til að fá dóminn ógiltan að hluta eða öllu leyti með málsókn í héraði.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta aðallega til að fá gerðardóminn ógiltan. Til vara beinist málsóknin að því að fá ógilta með dómi kafla I að því er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar, kafla II 3 að því er varðar rekstur kaffistofu og kafla II 4. Í kafla I var húsum og landi skipt. Í kafla II 3 var stefnanda gert að greiða til samreksturs síns og stefnda 782.333 kr. sem færðar höfðu verið í samrekstrinum sem kostnaður við rekstur mötuneytis en meirihluti gerðardóms leit svo á að væri einkaneysla stefnanda. Í kafla II 4 taldi meirihluti gerðardóms sannað að stefnandi hafi tekið 10.061.573 kr. út úr samrekstrinum og bæri honum því að endurgreiða þá fjárhæð til samrekstrarins.
Stefnandi telur fyrrgreinda kafla gerðardóms bersýnilega reista á ólögmætum sjónarmiðum og hefur því höfðað mál þetta til ógildingar köflunum, sbr. 6. tölulið. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53, 1989 um samningsbundna gerðardóma. Þá krefur stefnandi stefnda um 21.535.199,50 kr. Sundurliðast krafan svo að annars vegar er krafist 20.000.000 kr. vegna verðmismunar á húseignum og landi sem kom í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar.
Málsástæður stefnanda
Aðalkrafa stefnanda um ógildingu gerðardóms, uppkveðins 4. apríl 2002, er á því byggð að hann sé haldinn svo alvarlegum ágöllum að formi og efni að hann beri að ógilda í heild sinni samkvæmt 12. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma.
Stefnandi byggir á því að gerðarsamningur hafi verið útrunninn þegar gerðardómur var skipaður og þar af leiðandi hafi hann verið ógildur, sbr. 1. tölulið. 1. mgr. 12. gr. gerðardómslaga. Í "samkomulagi um slit á samrekstri og uppgjöri skulda er honum tileyra svo og skiptingu sameigna" frá 15. mars 2000 komi fram að aðilar séu sammála um að leggja ágreining um efni samningsins til úrskurðar gerðardóms. Þar segir að gerðardómur skuli ljúka skiptum á landi eigi síðar en 15. apríl 2000 og skiptingu á fasteignum og tækjum eigi síðar en 25. apríl 2000. Gerðardómur hafi ekki verið skipaður innan þeirra tímamarka sem samkomulagið áskildi og hafi stefnandi gert fyrirvara um gildi þess sem löglegs gerðarsamnings við upphaf málsmeðferðar. Stefnandi bendir sérstaklega á að forsenda þess að hann léði máls á því að deilur aðila yrðu útkljáðar í gerðardómi hafi verið sú að málsmeðferðin tæki stuttan tíma eða fyrir sumartíð í búrekstri 2000. Sú forsenda hafi verið brostin þegar gerðardómur var loks skipaður um haustið það ár. Gerðarsamningurinn hafi þar af leiðandi ekki heldur staðist kröfur um gildi loforða enda var loforðið sem í samningi aðila fólst tímabundið. Þegar tímamörk loforðsins voru liðin lauk réttaráhrifum þess. Með vísan til alls þessa megi ljóst vera að gerðardómurinn hafi verið kveðinn upp á grundvelli ógilds gerðarsamnings og hafi þar af leiðandi verið ógildanlegur.
Einnig er á það bent að samkvæmt samningi aðila skyldi oddamaður dómkvaddur. Það hafi ekki verið gert heldur hafi dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur skipað oddamann að ósk stefnda, þannig að rétts forms hafi ekki verið gætt.
Af hálfu stefnanda er á það bent að gerðardómur skuli vera skriflegur, skýr, rökstuddur í meginatriðum og undirritaður af þeim gerðarmönnum sem að dómi standa, sbr. 8. gr. gerðardómslaga. Verulega hafi skort á að gerðardómur uppfyllti þessar kröfur. Því sé dómurinn bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum, sem leiða eigi til ógildingar hans á grundvelli 6. tölulið. 12. gr. gerðardómslaga. Niðurstaðan sé í mörgum tilvikum órökstudd og í engu byggð á staðreyndum eða gögnum málsins og sé því augljóslega reist á ólögmætum sjónarmiðum.
Stefnandi leggur áherslu á að sjónarmið um réttaröryggi mæli með þeirri niðurstöðu að ógilda gerðardóminn vegna ofangreindra annmarka enda hafi aðilar afsalað sér því réttaröryggi sem fylgir almennri dómstólameðferð. Þá verði að gera ríkar kröfur bæði til gerðarsamningsins og málsmeðferðar gerðardóms.
Málsástæður stefnda
Sýknukrafa stefnda, að því er aðalkröfu varðar, er byggð á því að gerðadómurinn uppfylli öll skilyrði laga sem gerð séu til forms og efnis gerðadóma. Engin af þeim skilyrðum 12. gr. laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989 sem geta verið forsendur fyrir ógildingu gerðardóms og stefnandi vísar til séu fyrir hendi. Hafa verði í huga varðandi sýknukröfu stefnda að aðalreglan um gerðardóma sé að þeir séu endanleg niðurstaða um sakarefni og að þeim verði að jafnaði ekki hnekkt og sé ógildingu gerðardóma mjög þröngur stakkur skorinn í 12. gr. gerðardómslaganna. Sé því ljóst að mikið þurfi til að koma svo að gerðardómur verði ógiltur.
Ákvæði gerðarsamningsins um tímamörk til þess að ljúka úrlausn um einstök atriði hafi eingöngu verið sett fram til viðmiðunar fyrir aðila. Því er mótmælt að það hafi verið forsenda stefnanda fyrir samkomulaginu að gerðardómurinn lyki störfum á framangreindum tímamörkum. Athygli er vakin á því að viðmiðunarmörkin lúta eingöngu að skiptingu lands og skiptingu á fasteignum og tækjum en ekki að uppgjöri á samrekstri aðila eða ákvörðun um fjárhæð sem aðilar skyldu greiða til þess að jafna verðmun á milli fasteigna. Af þessu sé ljóst að þau ágreiningsefni sem stefnandi hafi uppi í málinu hafi ekki þurft að leysa fyrir umrædd tímamörk. Ekki liggi neitt fyrir í málinu um að seinkun á ákvörðun gerðardómsins hafi með einhverjum hætti skaðað hagsmuni stefnanda enda hafi hann nýtt land, fasteignir og tæki samrekstrarins meðan á meðferð gerðardómsins stóð. Þá er á það bent að í gerðarsamningnum sé tekið fram að gerðardómurinn hafi val um það hvort hann ljúki öllum þáttum gerðarinnar í einu eða afgreiði einstaka þætti “eftir því sem efni standa til". Þar sem ekki hafi náðst samkomulag á milli aðila að afgreiða einstök ágreiningsefni fyrir umrædd viðmiðunarmörk hafi það verið ákvörðun gerðardómsins að afgreiða öll álitefnin í einu lagi.
Þá verði ekki séð af framlögðum gögnum stefnanda í málinu að mótmæli hafi komið frá stefnanda varðandi tímamörk gerðardómsins meðan á málsmeðferðinni stóð, en samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um samningsbundna gerðardóma, verði gerðardómur ekki ógiltur nema mótmæli hafi áður komið fram um þau atriði sem málsókn sé reist á, nema mótmælin skipti ekki máli eða afsakanlegt hafi verið að slík mótmæli kæmu ekki fram.
Drátt á skipun gerðardómsins megi rekja til þess að lögmenn aðila hafi talið rétt að reyna til þrautar að ná samkomulagi á milli málsaðila áður en gerðardómurinn var skipaður. Einnig hafi aðilar ekki komið sér saman um skipan oddmanns í gerðardóminn og hafi því verið óhjákvæmilegt að málsmeðferðin mundi dragast. Þá verði ekki séð af gögnum málsins að stefnandi hafi gert athugasemd við málsmeðferðina á þessari forsendu.
Oddamaður gerðardómsins hafi verið tilkvaddur af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og hafi skipan gerðardómsins því verið í samræmi við efni samkomulags aðila.
Því er mótmælt að gerðardómurinn sé órökstuddur og að hann byggi í engu á staðreyndum eða gögnum málsins. Þvert á móti liggi fyrir að gerðardómurinn hafi unnið málið á grundvelli þeirra gagna sem til voru um samrekstur aðila og lögð voru fyrir hann. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nein atriði sem styðji þessa fullyrðingu hans. Á það er einnig bent að í 8. gr. laga um samningsbundna gerðardóma er einungis tekið fram að gerðardómur skuli vera “rökstuddur í meginatriðum".
Þá er því mótmælt að sjónarmið um réttaröryggi mæli með því að ógilda gerðardóminn. Málsmeðferð gerðardómsins hafi verið mjög vönduð og aðilum var gefin kostur á að koma að athugasemdum og sjónarmiðum um öll atriði sem deilt var um. Í ljósi þess að um mjög flókið uppgjör hafi verið að ræða var aðilum jafnframt heimilað að fá endurskoðendur sína til þess að leggja fram gögn og sjónarmið til stuðnings kröfugerð.
Niðurstaða
Aðalkrafa stefnanda um ógildingu gerðardómsins er á því byggð að hann sé haldinn svo alvarlegum göllum að formi og efni að hann beri að ógilda í heild sinni samkvæmt 12. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að gerðarsamningur hafi verið útrunninn þegar gerðardómur var skipaður sem leiði til ógildis hans, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 12. gr. gerðardómslaga. Samkvæmt samkomulagi um slit á samrekstri og uppgjöri skulda er honum tilheyra svo og skiptingu sameigna frá 15. mars 2000 skuldbundu aðilar sig til þess að leggja ágreining um efni samningsins til úrskurðar gerðardóms. Var við það miðað að gerðardómur skyldi skipaður ef aðilar næðu ekki saman um þau atriði sem tilgreind voru í fyrrgreindu samkomulagi þeirra fyrir 20. mars 2000. Tekið var fram að gerðardómur skyldi ljúka skiptum á landi eigi síðar en 15. apríl 2000 og skiptingu á fasteignum og tækjum eigi síðar en 25. apríl 2000, en engin viðmiðunarmörk voru tilgreind varðandi uppgjör á samrekstri aðila. Var þannig ekki gert ráð fyrir því að gerðardómur lyki störfum sínum á svo skömmum tíma enda var raunin sú að dómurinn var ekki fullskipaður fyrr en um haustið 2000. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á samkvæmt gögnum máls að mótmæli hafi komið frá honum varðandi tímamörk um skipan dómsins eða starfstíma hans meðan á málsmeðferðinni fyrir gerðardómi stóð svo sem tilskilið er samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989. Báðir aðilar settu fram kröfur og fluttu mál sitt fyrir gerðardóminum og hafa þannig í verki sætt sig við úrskurðarvald hans. Verður því ekki fallist á það að ógilda beri gerðardóminn sökum þess að skipun hans hafi ekki farið fram innan tilgreindra tímamarka í gerðarsamningi.
Þar sem ekki tókst samkomulag með aðilum um skipun oddamanns í gerðardóminn var leitað til dómstjórans við Héraðsdóm Reykjavíkur um tilnefningu oddamanns í dóminn. Með bréfi dómstjóra dags. 6. september 2000 var tilkynnt um að Arngrímur Ísberg héraðsdómari hefði verið skipaður sem oddamaður í gerðardóminum. Var sú skipun samkvæmt heimild í 4. gr. laga nr. 53/1989 og gerð með sérstöku skipunarbréfi. Þá liggur ekki fyrir samkvæmt gögnum máls að stefnandi hafi haft uppi athugasemdir vegna þessa. Verður því að telja að skipun oddamanns hafi verið rétt að formi til.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að gerðarsamningur hafi verið ógildur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989.
Í gerðardómi er gerð grein fyrir kröfugerðum aðila, lið fyrir lið, og tekin afstaða til hvers liðar með rökstuddum hætti og síðan er niðurstaða gerðardómsins dregin saman í dómsorð. Verður ekki annað séð en gerðardómur sé unnin á grundvelli þeirra gagna sem fyrir hann voru lögð og í samræmi við ákvæði 8. gr. laga nr. 53/1989. Stefnandi hefur ekki rennt nægum stoðum undir þær fullyrðingar sínar að gerðardómurinn sé bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum sem leiða eigi til ógildingar hans í heild sinni á grundvelli 6. tl. 12. gr. gerðardómslaga og er þeirri málsástæðu hafnað.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda í málinu um það að ógiltur verði með dómi gerðardómur, uppkveðinn 4. apríl 2002, um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna aðila í Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður í þessum þætti málsins.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Jón Ólafsson, skal vera sýkn af aðalkröfu stefnanda, Páls Ólafssonar, um það að ógiltur verði með dómi gerðardómur, uppkveðinn 4. apríl 2002, um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna aðila í Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík.
Málskostnaður fellur niður.