Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 26

 

Mánudaginn 26. janúar 2004.

Nr. 44/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur B. Ólafsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. mars 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms er varnaraðili grunaður um að hafa veitt A stunguáverka að kvöldi miðvikudagsins 7. janúar 2004. Samkvæmt skýrslum vitna fyrir lögreglu mun varnaraðili hafa sparkað upp hurð á svefnherbergi á heimili A með hníf í hendi og í beinu framhaldi þess lagt tvívegis til hans. Mun A hafa verið með tvö stungusár við komu á slysadeild, annars vegar í vinstri síðu milli 6. og 7. rifbeins og hins vegar vinstra megin ofan við viðbein. Þá mun hafa komið í ljós lítil loftrönd vinstra megin og þétting neðan til og yst á vinstra lunga. Samkvæmt læknisvottorði yfirlæknis á hjarta- lungna- og augnskurðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss 26. janúar 2004 reyndist ekki vera um að ræða lífshættulegar blæðingar þrátt fyrir að staðsetning stunguáverkanna hafi verið áhættusöm. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að varnaraðili hafi vísað lögreglu á hníf þann sem hann er grunaður um að hafa notað í umrætt sinn. Um er að ræða hníf með 9 cm löngu blaði, sem telja verður hættulegt vopn. Leikur sterkur grunur á að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Að þessu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi varnaraðaðili er sakaður um teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda getur brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og er þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur í dag sett fram kröfu þess efnis að krafist er að X [...], með dvalarstað [...], verði með dómsúrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi  á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 allt til fimmtudagsins 4. mars 2004 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglunnar í Reykjavík segir að hún rannsaki nú ætlaða tilraun til manndráps eða sérstaklega hættulega líkamsárás sem átt hafi sér stað að [...], að kvöldi miðvikudagsins 7. janúar 2004. Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa umrætt sinn lagt tvívegis til A, [...], með hnífi.

[...]         

          Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á og tvívegis lagt til A með hnífi á heimili hans að [...] 7. janúar sl. 

          Fyrir dómi 8. janúar sl. skýrði kærði frá því að hann hefði lent í átökum við A út af ágreiningi þeirra á milli [...].  Hann hafi verið með hníf í hægri hendi þegar hann ruddist inn í svefnherbergi A í íbúðinni og A hlaupið til sín og orðið fyrir hnífnum.  Framburður kærða að þessu leyti er ekki í samræmi við framburði vitna. 

          Samkvæmt bráðabirgðalæknisvottorði Torfa Þorkels Höskuldssonar, deildar­læknis á hjarta- og lungnadeild Landspítala við Hringbraut, dags. 8. janúar sl. reyndist A vera með tvö stungusár við komu á slysadeild spítalans í Fossvogi  Annað stungusárið reyndist vera á vinstri síðu á milli VI. og VII. rifbeins og hitt vinstra megin ofan við viðbein. Þá reyndist hann vera með loftbrjóst.

          Rannsókn málsins er langt á veg komin og hnífurinn fundinn.

          Ætlað brot kærða getur varðað við 211. gr. sbr. 20 gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.  Kærði beitti hættulegu vopni þegar hann framdi brot sitt.  Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af alvarleika brotsins teljast uppfyllt skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, enda geta brotin varðað að lögum 10 ára fangelsi.

          Verður krafa lögreglunnar í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurði.

                Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtu­dagsins 4. mars 2004 kl. 16.00.