Hæstiréttur íslands

Mál nr. 101/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit
  • Málamyndagerningur


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. apríl 2003.

Nr. 101/2003.

M

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

K

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit. Málamyndagerningur.

Fyrir Hæstarétti deildu M og K um það, hvort tiltekin húseign í Reykjavík og einkahlutafélagið F skyldu koma undir skipti til fjárslita við sambúðarslit aðila. M hafði stofnað félagið um verktakastarfsemi sína og greitt allt hlutafé þess. Samkvæmt stofnfundargerð F átti M einn sæti í stjórn félagsins og var hann jafnframt framkvæmdastjóri þess og prókúruhafi. Þá stöfuðu öll laun hans samkvæmt skattframtali 2001 frá félaginu. K hafði ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til félagsins. Var F samkvæmt þessu talið eign M og kom því ekki undir skiptin. Sú málsástæða M, að sú fasteign sem um var deilt skyldi ekki koma undir skiptin þar sem hún væri keypt eftir að aðilar slitu sambúðinni, hafði ekki verið borin fram fyrir héraðsdómi og varð því ekki á henni byggt við úrlausn málsins. Báðir málsaðilar voru tilgreindir sem kaupendur fasteignarinnar í kaupsamningi, en M hélt því fram að F hafi greitt kaupverðið og verið raunverulegur kaupandi eignarinnar. Þessar fullyrðingar M hlutu stoð í undirritaðri yfirlýsingu beggja málsaðila þar sem fram kom að kaupin væru gerð fyrir hönd F, sem væri réttur eigandi húseignarinnar, sem og í yfirliti yfir færslur af bankareikningi F. Var hafnað kröfu K um að fasteignin og einkahlutafélagið kæmu til skipta við opinber skipti til fjárslita á milli hennar og M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2003, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði að húseignin A í Reykjavík og einkahlutafélagið F komi undir skipti til fjárslita við sambúðarslit aðila. Til vara krefst hann þess að hafnað verði að varnaraðili eigi hlutdeild í eignarhlut sóknaraðila í einkahlutafélaginu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð með hléum á árunum 1981 til 2001, er samvistarslit urðu. Voru þau skráð í sambúð tímabilin frá 1. desember 1985 til 1. september 1993 og frá 28. maí 1995 til 1. mars 2001 og eignuðust saman tvö börn. Eftir lok sambúðarinnar kom upp ágreiningur milli aðila í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra, þar sem aðilar deildu meðal annars um hvort fasteignin A í Reykjavík og verktakafyrirtækið F ehf. skyldu koma til skipta og hvort sóknaraðila bæri að greiða varnaraðila endurgjald vegna afnota hans af fasteignunum að G og N í Reykjavík. Var leyst úr þessum ágreiningi aðilanna með úrskurði héraðsdóms, sem sóknaraðili hefur nú kært að því er varðar úrlausn um fasteignina A og einkahlutafélagið F. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Sóknaraðili hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er kauptilboð 12. júlí 2001 í umrædda fasteign, staðfesting þjóðskrár Hagstofu Íslands 21. mars 2001 um sambúðartíma málsaðila, yfirlit yfir bankareikning í eigu F ehf. fyrir tímabilið 16. til 27. ágúst 2001, stofnfundargerð einkahlutafélagsins 21. júní 1997 og vottorð hlutafélagaskrár Hagstofu Íslands vegna félagsins.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um að hafnað verði að einkahlutafélagið F komi til skipta á því að hann sé einn eigandi þess. Hafi hann stofnað félagið um verktakastarfsemi sína og greitt allt hlutafé þess. Samkvæmt gögnum málsins var einkahlutafélagið F stofnað í júní 1997 og skráði sóknaraðili sig einn fyrir hlutafé við stofnun þess. Er hlutafé félagsins 500.000 krónur. Samkvæmt stofnfundargerð félagsins átti sóknaraðili einn sæti í stjórn þess og var hann jafnframt ráðinn framkvæmdastjóri þess og fengin prókúra fyrir félagið. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár Hagstofu Íslands 21. mars 2003 er sú skipan enn óbreytt. Tilgangur félagsins er samkvæmt sama vottorði hlutafélagaskrár alhliða verktakastarfsemi, nýsmíði, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Stöfuðu öll laun sóknaraðila samkvæmt skattframtali 2001, sem vart duga þó til framfærslu, frá félaginu. Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til félagsins. Verður F ehf. samkvæmt þessu talið eign sóknaraðila og kemur því ekki undir skipti til fjárslita við sambúðarslit aðila.

Fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili kröfu sína um að fasteignin A komi ekki undir skiptin aðallega á því að eignin sé keypt eftir að aðilar slitu sambúðinni. Málsástæða þessi var ekki borin fram af sóknaraðila fyrir héraðsdómi og verður því ekki á henni byggt við úrlausn málsins samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994.

Þá reisir sóknaraðili kröfu sína varðandi A á því að F ehf. hafi verið kaupandi eignarinnar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði voru báðir málsaðilar tilgreindir sem kaupendur húseignarinnar A í kaupsamningi um eignina 23. ágúst 2001. Heldur sóknaraðili því á hinn bóginn fram að F ehf. hafi greitt kaupverðið og verið raunverulegur kaupandi hennar, en varnaraðili hafi ekki lagt fram fé til kaupanna. Vegna reglna Íbúðalánasjóðs um útgáfu fasteignaveðbréfa hafi málsaðilar verið tilgreindir sem kaupendur samkvæmt samningnum til þess að sjóðurinn samþykkti lán til kaupanna. Þessar fullyrðingar sóknaraðila hljóta stoð í yfirlýsingu 28. ágúst 2001 sem báðir málsaðilar hafa undirritað og vottuð er af löggiltum fasteignasala, sem annaðist sölu umræddrar fasteignar. Í yfirlýsingunni staðfestu aðilar að kaup þeirra á fasteigninni væru gerð fyrir hönd F ehf., sem væri því réttur eigandi húseignarinnar og varnaraðili muni ekki gera neinar kröfur í eignina komi til skipta á eignum málsaðila. Þá hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt kauptilboð F ehf. í eignina 12. júlí 2001, sem samþykkt var daginn eftir, og styður það einnig fullyrðingar hans um að tilgreining málsaðila í kaupsamningi hafi verið til málamynda. Fyrir Hæstarétt hefur sóknaraðili einnig lagt yfirlit yfir bankareikning í eigu félagsins fyrir tímabilið 16. til 27. ágúst 2001. Þar kemur fram að 24. þess mánaðar var skuldfærður á reikninginn tékki að fjárhæð 3.070.032 krónur, en daginn áður var sem fyrr segir skrifað undir kaupsamning málsaðila um kaup á umræddri fasteign og samkvæmt samningnum skyldu greiðast 3.000.000 krónur við undirritun kaupsamnings. Þótt ekki liggi fyrir af reikningsyfirlitinu hver fengið hafi greiðslu samkvæmt fyrrnefndum tékka verður að líta svo á, með vísan til alls framangreinds, að fram sé komin nægileg sönnun fyrir því að F ehf. hafi verið kaupandi umræddrar fasteignar. Þá hefur varnaraðili ekki fært sönnur á að hún hafi lagt fram fé til kaupanna. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila að þessu leyti og því hafnað að fasteignin A í Reykjavík komi undir skipti til fjárslita við sambúðarslit aðila.

Varnaraðili verður dæmd til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, K, um að fasteignin A í Reykjavík og einkahlutafélagið F komi til skipta við opinber skipti til fjárslita á milli hennar og sóknaraðila, M.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2003.

                Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. október 2002 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 5. febrúar 2003.

                Sóknaraðili er M, kt. [...],  en varnaraðili er K, kt. [...].

                Opinber skipti fara fram til fjárslita vegna sambúðarslita málsaðila.  Á skiptafundi 4. september 2002 kom fram ágreiningur milli aðila:

1.       Hvort þær eignir sem aðilar eignuðust á sambúðartímanum eigi að skiptast til helminga á milli þeirra nú við samvistarslitin eða í öðrum hlutföllum.

2.       Hvort manninum beri að greiða konunni endurgjald vegna afnota hans af fasteignunum að G og N í Reykjavík frá samvistarslitum og þá hvaða fjárhæð.

Málefninu var þá beint til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. laga nr. 20/1991.

Á dómþingi 22. október 2002 krafðist varnaraðili að fasteignin A í Reykjavík kæmi undir skipti og viðurkenndur yrði réttur varnaraðila til helmings þeirrar eignar.  Þá gerði varnaraðili kröfu til helmingseignarhluta í F ehf. og kröfu um helming leigutekna af A, frá 1. október 2001 til 22. október 2002.  Einnig krafðist varnaraðili að sóknaraðili greiddi varnaraðila 100.000 kr. á mánuði vegna leigutekna af G frá sambúðarslitum til 1. júní 2002 og 40.000 kr. á mánuði frá 1. júní 2002 fyrir afnot sóknaraðila af eignarhluta varnaraðila að N.

Á dómþingi 5. nóvember 2002 lagði sóknaraðili fram greinargerð og krafðist þess að öllum kröfum varnaraðila, sem fram komu í þinghaldi 22. október 2002, yrði hafnað.  Þá var einnig krafist þess, að kæmu fram frekari kröfur af hálfu varnaraðila í greinargerð síðar, yrði þeim einnig hafnað.  Þá var og krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu.

Á dómþingi 29. nóvember  2002 lagði varnaraðili fram greinargerð og gerði eftirfarandi dómkröfur:

1.       Að fasteignin A, eign málsaðila skv. kaupsamningi, komi undir skipti og að varnaraðili verði talinn eigandi helmings þeirrar fasteignar.

2.       Að hlutafélagið F ehf. komi undir skipti og varnaraðili verði talinn eigandi helmings þeirrar eignar.

3.       Þess er krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 1.500.000 með dráttarvöxtum skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2002 til greiðsludags.  [Við aðalmeðferð málsins 5. febrúar sl. lækkaði varnaraðili þennan lið í 900.000 kr. með dráttarvöxtum.]

4.       Þess er krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 40.000 fyrir hvern mánuð frá og með 1. júní 2002 til greiðsludags og að sú fjárhæð beri dráttarvexti skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní s.l. til greiðsludags.

5.       Þess er krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 975.000 með dráttarvöxtum skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. desember 2002 til greiðsludags.

6.       Þá er þess krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 75.000 á mánuði frá og með 1. nóvember 2002 og fjárhæðin beri dráttarvexti skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

7.       Þá gerir varnaraðili kröfu til þess að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 560.000 frá 1. júní 2002 til greiðsludags og að fjárhæð beri dráttarvexti skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.

8.       Málskostnaðar er krafist úr hendi sóknaraðila, varnaraðila að skaðlausu.

Sóknaraðili byggir á því að F ehf. eigi umdeilda fasteign að A,  varnaraðili hafi ekki lagt fjármuni til kaupa á þessari eign og vísar sóknaraðili til yfirlýsingar á dskj. nr. 5 í því sambandi.  Þá reisir sóknaraðili kröfu þess efnis að hafna beri kröfu sóknaraðila um að F ehf. komi undir skipti aðila á því, að sóknaraðili hafi einn myndað þessa eign með vinnu sinni og varnaraðili hafi enga fjármuni eða vinnu lagt til félagsins.  Kröfum varnaraðila um helming leigutekna af A beri einnig að hafna, enda sé húseignin í eigu F ehf., auk þess sem leigutekjur hafi ekki staðið undir útgjöldum vegna fjármögnunar á kaupunum.

Þá beri að hafna fjárkröfum varnaraðila, sem byggðar séu á því, að sóknaraðili hafi haft afnot af húseigninni að G, eftir að varnaraðili fór þaðan í mars 2001, og afnot af húseigninni að N síðar.  Sem eigandi að óskiptri sameign hafi sóknaraðili rétt til afnota sem ekki eru til baga fyrir sameiganda.  Á það beri að líta að engin krafa hafi komið um greiðslu fyrir afnot fyrr en á skiptafundi 24. maí 2002.  Að lokum ber að hafna fjárkröfum varnaraðila um helming af leigutekjum sem órökstuddum og vanreifuðum.

Varnaraðili byggir á því að allar eignir í búi málsaðila hafi orðið til á sambúðartíma þeirra.  Þau hafi fest kaup á fasteigninni að A í Reykjavík eins og lýst sé í kaupsamningi 23. ágúst 2001.  Þau hafi að vísu áformað að F ehf. yrði skráð fyrir kaupunum, en það hefði ekki gengið eftir.  Þá byggir varnaraðili á því að verðmæti, sem felist í F ehf., eigi að koma undir skipti aðila og skiptast til helminga.

                Varnaraðili reisir kröfur á því að hafa verið hrakin af heimili málsaðila í mars 2001 og sóknaraðili hafi eftir það nýtt sér einn eignina að G.  Málsaðilar hafi leigt íbúðarherbergi í húsinu og sóknaraðili hafi tekið undir sig leigutekjurnar og hvorki staðið varnaraðila skil á þeim né varið leigutekjum til greiðslu á sameiginlegum skuldum þeirra.

                Varnaraðili krefst þess að helmingur af leigutekjum frá mars 2001 til 1. júní 2002 komi til jafnra skipta.  Leigutekjur á mánuði reiknist vægilega 120.000 kr. Helmingur leigutekna fyrir 15 mánuði séu því 900.000 kr.

                Þá byggir varnaraðili á því að hafa orðið að leigja íbúð fyrir sig og börn málsaðila fyrir 40.000 kr. á mánuði.  Því eigi varnaraðili rétt á að sóknaraðili greiði varnaraðila í leigu fyrir persónuleg afnot sóknaraðila af eignarhluta varnaraðila í G að fjárhæð 40.000 kr. á mánuði frá 1. apríl 2001 til 1. júní 2002, eða í alls 14 mánuði x 40.000, eða 560.000 kr.

                Við sölu á G hafi málsaðilar fengið sem hluta af söluverði fasteignina N.  Varnaraðili reisir kröfu á því að sóknaraðili hafi gegn andmælum varnaraðila tekið undir sig eignina og flutt þangað 1. júní 2001.  Varnaraðili krefst leigu fyrir eignarhlut sinn að fjárhæð 40.000 kr. fyrir hvern byrjaðan mánuð frá 1. júní 2002 með áfallandi dráttarvöxtum.

                Varnaraðili byggir kröfu á því að fasteigninni að A hafi verið skipt í tvær íbúðir sem báðar hafi verið í útleigu frá því í október 2001.  Sóknaraðili hafi ekki viljað upplýsa um leigutekjur.  Varnaraðili krefst þess að fá í sinn hlut helming leigutekna og leiga fyrir íbúðirnar verði metnar 150.000 kr. á mánuði, helmingur leigutekna þannig metninna fyrir tímabilið 1. nóvember 2001 til 1. desember 2002 sé því 975.000 kr.  Þá krefst varnaraðili 75.000 kr. í leiguafnot fyrir hvern byrjaðan mánuð frá 1. desember 2002 til greiðsludags fyrir fasteignina að A.

 

Niðurstaða:  Varnaraðili krefst þess að fasteignin A í Reykjavík komi undir skipti og varnaraðili verði talinn eigandi helmings þeirrar fasteignar.  Sóknaraðili hafnar þessari kröfu.

Fram kemur að samkvæmt kaupsamningi 23. ágúst 2001 keyptu aðilar saman fasteignin A af R.  Í málinu liggur hins vegar fyrir yfirlýsing frá sóknaraðila, dags. 28. ágúst 2001, þar sem segir:

 

Ég undirrituð, K, kt. [...], staðfesti hér með að kaup okkar M, kt. [...], eru gerð fyrir hönd F ehf. [...], sem er því réttur eigandi húseignarinnar.  Ég mun því ekki gera neinar fjárkröfur í framangreinda húseign komi til skipta á eignum okkar M.  Til staðfestu ofanskráðu rita ég nafn hér undir í viðurvist tveggja votta.

 

Engin frekari gögn liggja fyrir um fasteignina að A í málinu.  Sóknaraðili fullyrðir hins vegar að F ehf. hafi keypt þessa eign og greitt kaupverðið, en vegna reglna íbúðarlánasjóðs um útgáfu fasteignaverðbréfa hafi verið þörf á því að aðilar þessa máls væru hinir formlegu kaupendur.  Gagnvart F ehf. hafi aðilar gefið út vottfesta yfirlýsingu með hvaða hætti kaup þessi voru gerð og hver væri eigandi eignarinnar.  Varnaraðili hafi því ekki verið kaupandi að helmingi eignarinnar og ekki lagt til fjármuni til kaupanna.  Af hálfu varnaraðila er á hinn bóginn staðhæft að aðilar hafi að vísu áformað að F ehf. yrði skráð fyrir kaupunum en það hefði ekki gengið eftir.

                Sóknaraðili hefur ekki með framlagningu á skattframtali og öðrum gögnum í bókhaldi F ehf. - sem er bókhaldsskylt lögum samkvæmt - rennt stoðum undir þá staðhæfingu sóknaraðila að ekki sé að byggja á umræddum kaupsamningi frá 23. ágúst 2001 um sameiginlegan eignarétt aðila að A.  Verður því ekki talið að yfirlýsingin frá 28. ágúst 2001 hafi breytt því að aðilar séu samkvæmt þessum kaupsamningi sameiginlega eigendur að A.

Varnaraðili krefst þess að F ehf. komi undir skipti og varnaraðili verði talinn eigandi helmings þeirrar eignar. Sóknaraðili hafnar þessari kröfu.

                Varnaraðili vísar til þess að í sameiginlegu skattframtali aðila 2001 séu 500.000 kr. taldar fram sem hlutabréfaeign aðila í félaginu sem eign í árslok.   Sóknaraðili byggir hins vegar á þeirri staðhæfingu að hann hafi einn myndað þessa eign með vinnu sinni og að varnaraðili hafi enga fjármuni eða vinnu lagt til félagsins.  Félagið hafi verið stofnað af honum og hann einn séð um rekstur félagsins alla tíð.

                Samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994, 2. mgr. 1. gr., skal hlutafé í einkahlutafélagi minnst vera 500.000 kr.  Gögn um stofnun og skráningu F ehf. liggja ekki fyrir í málinu.  Raunar eru einu gögnin í málinu, sem draga má ályktanir af varðandi félagið, yfirlýsing varnaraðila frá 28. ágúst 2001 og upplýsingar er fram koma um félagið í skattframtali aðila 2001.  En af skattframtalinu má ráða að eini launagreiðandi sóknaraðila er F ehf.  Af gögnum málsins verður því ekki dregin sú ályktun að varnaraðili hafi einn myndað þessa eign með vinnu sinni en sóknaraðili hafi ekkert lagt af mörkum.

                Samkvæmt framangreindu verður því fallist á með varnaraðila að F ehf. hafi orðið til á sambúðartímanum fyrir tilstilli beggja aðila.  Hafi varnaraðili lagt sitt af mörkum, m.a. með því að annast heimili og barn aðila auk fjárframlaga.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði henni 900.000 kr. með dráttarvöxtum frá 1. júní 2002 til greiðsludags.  Varnaraðili reisir kröfu sína á því að sóknaraðili hafi einn nýtt sér eignina að G frá því í mars 2001 til 1. júní 2002, en leigutekjur hafi verið 120.000 kr. á mánuði, vægilega metnar, og beri varnaraðila að standa henni skil á helmingi leigutekna.

Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu sem órökstuddri og vanreifaðri.  Auk þess hafi hann, sem eigandi að óskiptri sameign, átt rétt til afnota af eigninni sem ekki voru til baga fyrir varnaraðila.

Ekki liggja fyrir í málinu nein afdráttarlaus gögn um það hvernig nýtingu húsnæðisins að G var háttað frá því í mars 2001 til 1. júní 2002 að öðru leyti en því að upplýst er að sóknaraðili bjó þar.  Fallist verður á það með sóknaraðila að hann hafi átt rétt á að búa þar án þess að greiða varnaraðila, sameiganda hans af eigninni, leigu.  En ósannað er að hann hafi hrakið varnaraðila af heimilinu í mars 2001 svo sem varnaraðili heldur fram.  Verður því ekki fallist á að af sameiginlegum eignum aðila, sem eru undir skiptum, komi að óskiptu 900.000 kr. í hlut varnaraðila. 

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði henni 40.000 kr. fyrir hvern mánuð frá og með 1. júní 2002 til greiðsludags með dráttarvöxtum frá sama tíma.  Byggir varnaraðili á því að við sölu á G hafi málsaðilar fengið sem hlut af söluverði fasteignina N.  Sóknaraðili hafi tekið undir sig eignina gegn andmælum varnaraðila og flutt þangað 1. júní 2002.  Varnaraðili eigi því rétt á leigu frá sóknaraðila fyrir eignarhluta sinn í N að fjárhæð 40.000 kr. á mánuði.  Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu sem órökstuddri og vanreifaðri.  Auk þess eigi hann, sem eigandi af óskiptri sameign, rétt til afnota af eigninni sem ekki eru til baga fyrir varnaraðila.

Fallist verður á það með sóknaraðila að hann eigi rétt á að búa að N sem sameigandi varnaraðila af eigninni.  En ósannað er að varnaraðili hafi krafið hann um leigu fyrr en á skiptafundi 24. maí 2002.  Verður því ekki fallist á að af sameiginlegum eignum aðila, sem eru undir skiptum, komi að óskiptu í hlut varnaraðila sérstaklega umkrafin fjárhæð.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði henni 975.000 kr. með dráttarvöxtum frá 1. desember 2002 til greiðsludags.  Byggir varnaraðili á því að íbúðir að A séu báðar í útleigu frá því í október 2001 en sóknaraðili hafi ekki viljað upplýsa um leigutekjur.  Varnaraðili geri því kröfu til þess að leiga fyrir íbúðirnar verði reiknuð 150.000 kr. á mánuði og eigi hún rétt á helmingi þeirrar fjárhæðar, eða 75.000 kr. á mánuði fyrir tímabilið 1. nóvember 2001 til 1. desember 2002, sem samtals geri 975.000 kr.  Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu sem órökstuddri og vanreifaðri.

                Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gert kröfu í þessa veru á skiptafundi.  Liggur því ekki fyrir hver afstaða skiptastjóra mun verða þegar hann hefur fengið upplýsingar um leigutekjurnar og reynt að jafna ágreining aðila.  Verður því að vísa þessari kröfu frá dómi að svo stöddu.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði henni 75.000 kr. á mánuði frá og með 1. nóvember 2002 með dráttarvöxtum til greiðsludags í leiguafnot fyrir fasteignina A.  Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu sem órökstuddri og vanreifaðri.

                Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gert kröfu í þessa veru á skiptafundi.  Ekki liggur því fyrir hver afstaða skiptastjóra muni verða þegar hann hefur fengið upplýsingar um leigutekjurnar og reynt að jafna ágreining aðila.  Verður því að vísa þessari kröfu frá dómi að svo stöddu.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili greiði henni 560.000 kr. „frá 1. júní 2002 til greiðsludags og að fjárhæðin beri dráttarvexti skv. ákv. vaxtalaga nr. 38/2002 til greiðsludags."  Byggir varnaraðili á því að hún hafi orðið að leigja fyrir sig og börn málsaðila afnot að íbúð hjá móður fyrir 40.000 kr. á mánuði.  Hún eigi því kröfu til þess að sóknaraðili greiði henni í leigu fyrir persónuleg afnot hans af eignarhluta hennar í G að fjárhæð 40.000 kr. á mánuði frá 1. apríl 2001 til 1. júní 2002.  Sóknaraðili mótmælti þessari kröfu og telur enga lagastoð fyrir henni.

                Varnaraðili hefur ekki sannað með ótvíræðum hætti að hafa ekki getað nýtt húseignina að G og síðan húseignina að N fyrir sig og börn málsaðila til jafns við sóknaraðila sökum ofríkis sóknaraðila.  Þá liggja heldur ekki fyrir í málinu nein gögn um það að varnaraðili hafi greitt 40.000 kr. á mánuði í húsaleigu frá 1. júní 2002. Verður því ekki fallist á að af sameiginlegum eignum aðila, sem eru undir skiptum, komi að óskiptu í hlut varnaraðila sérstaklega umkrafin fjárhæð.

Rétt er að aðilar beri hvor fyrir sig málskostnað sinn í máli þessu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, kemur til opinberra skipta við slit á óvígðri sambúð þeirra raðhúsið nr. 12 A í Reykjavík.  Þá kemur til skipta einkahlutafélagið F.

                Ekki er fallist á að 900.000 kr. komi að óskiptu í hlut varnaraðila við skiptin.  Þá er ekki fallist á að 40.000 kr. fyrir hvern mánuð frá 1. júní 2002 til greiðsludags með dráttarvöxtum frá 1. júní 2002 komi að óskiptu í hlut varnaraðila né að 560.000 kr. komi að óskiptu í hlut varnaraðila við skiptin.

                Vísað er frá dómi að svo stöddu kröfu varnaraðila um að sóknaraðili greiði henni annars vegar 975.000 kr. með dráttarvöxtum frá 1. desember 2002 til greiðsludags og hins vegar kröfu varnaraðila um að sóknaraðili greiði henni 75.000 kr. á mánuði frá og með 1. nóvember 2002 með dráttarvöxtum til greiðsludags.

                Málskostnaður fellur niður.