Hæstiréttur íslands

Mál nr. 302/2000


Lykilorð

  • Starfsábyrgð
  • Bifreiðasali
  • Ökutæki
  • Stjórnsýsla


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2001.

Nr. 302/2000.

Sigurður Helgason

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

                                                   

Starfsábyrgð. Bifreiðasali. Ökutæki. Stjórnsýsla.

S keypti 12. september 1996 bifreið af G ehf. Án vitneskju S lét R, forráðamaður G ehf., færa veðskuld yfir á bifreiðina og bakaði S með því tjón, sem S reyndi árangurslaust að fá bætt af R. Höfðaði S þá mál til heimtu bóta úr ríkissjóði með þeim rökum að sýslumanni hefði borið að ganga úr skugga um að bréf Sparisjóðs M þess efnis að R hefði fengið hjá sparisjóðnum starfsábyrgðartryggingu fyrir B ehf. vegna sölu notaðra ökutækja, væri ófalsað, en útlit bréfsins hefði gefið fullt tilefni til þess. Þá hefði skort á eftirlit með starfsemi R. Með þessu hefði S verið bakað tjón með saknæmum hætti, sem íslenska ríkið bæri ábyrgð á gagnvart honum. Við úrlausn málsins var litið til þess að um var að ræða tilkynningu um að starfsábyrgð hefði verið veitt, en ekki tryggingarskjalið sjálft, en sú aðferð væri ekki andstæð fyrirmælum 4. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994. Var ekki talið að útlit bréfsins hefði verið með þeim hætti að í því hefði falist saknæm vanræksla af hálfu sýslumanns að taka bréfið gilt í stað þess að rannsaka sjálfstætt hvort það væri ófalsað. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2000. Krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.257.349 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

I.

Eins og rakið er í héraðsdómi á ágreiningur aðila rætur að rekja til þess að áfrýjandi keypti 12. september 1996 bifreiðina UB-027 af Gosum ehf. Fóru viðskiptin fram fyrir milligöngu Bílatorgs ehf., en forráðamaður þess félags, Ragnar Lövdal, hafði fengið leyfi sýslumannsins í Reykjavík 12. júlí 1995 til að annast sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögum nr. 69/1994. Var Ragnar jafnframt fyrirsvarsmaður Gosa ehf. Án vitneskju áfrýjanda lét hann færa veðskuld yfir á bifreiðina, sem áfrýjandi keypti, og bakaði hinum síðarnefnda með því tjón, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Tilraunir áfrýjanda til að fá tjón sitt bætt af tjónvaldinum hafa reynst árangurslausar.

Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti Ragnari áðurnefnt starfsleyfi að fenginni umsókn hans. Meðal fylgiskjala með henni var bréf Sparisjóðs Mýrasýslu 10. júní 1995 þess efnis, að Ragnar hafi fengið hjá sparisjóðnum starfsábyrgðartryggingu fyrir Bílatorg ehf. vegna sölu notaðra ökutækja. Bréfið, sem Ragnar símsendi til sýslumanns, reyndist falsað, en ekki komst upp um þessa háttsemi Ragnars fyrr en í byrjun árs 1998. Reisir áfrýjandi kröfu sína á því að sýslumanninum hafi borið að ganga úr skugga um að bréf sparisjóðsins væri ófalsað, en útlit þess hafi gefið fullt tilefni til þess, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi. Þá hafi skort á eftirlit með starfsemi Ragnars. Með þessu hafi áfrýjanda verið bakað tjón með saknæmum hætti, sem stefndi beri ábyrgð á gagnvart honum.

Í tveim fyrri dómum Hæstaréttar hefur verið dæmt um kröfur annarra tjónþola á hendur stefnda vegna viðskipta þeirra með bifreiðir við Gosa ehf., þar sem reyndi á ábyrgð stefnda vegna starfa Ragnars Lövdal sem bifreiðasala. Eru þeir frá 16. desember 1999 í máli nr. 326/1999 og 14. desember 2000 í máli nr. 219/2000. Voru kröfur þar reistar á sömu málsástæðum og hafðar eru uppi í þessu máli. Í báðum tilvikum var stefndi sýknaður með vísan til þess að tjónþolarnir hafi átt persónuleg viðskipti við Ragnar fyrir hönd Gosa ehf. og tekið áhættu í þeim viðskiptum. Yrði tjón þeirra ekki rakið til starfa Ragnars sem bifreiðasala. Sú aðstaða er ekki fyrir hendi hér og þessi málsástæða ekki borin fyrir af hálfu stefnda.

II.

Stefndi reisir kröfu sína um sýknu meðal annars á því að ekki hafi falist í því saknæm vanræksla af hálfu sýslumanns að hlutast ekki sjálfstætt til um athugun á því að bréf Sparisjóðs Mýrasýslu, sem áður er getið, væri ófalsað. Almennt megi ekki búast við slíkri háttsemi umsækjanda um opinbert leyfi. Viðbrögð stjórnvalds, sem fælu í sér sérstaka rannsókn, væru því óeðlileg nema ákveðnar vísbendingar væru fram komnar, auk þess sem almenn könnun á falsleysi skjala væri óframkvæmanleg í ljósi umfangs stjórnsýslunnar.

Við úrlausn um þetta atriði verður litið til þess að um var að ræða tilkynningu um að starfsábyrgð hefði verið veitt, en ekki tryggingarskjalið sjálft. Sú aðferð var ekki andstæð fyrirmælum 4. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994, sem mælti fyrir um að skilríki skyldu lögð fram með umsókn um starfsleyfi því til sönnunar að umsækjandi hefði gilda tryggingu. Samkvæmt því gaf það ekki sérstakt tilefni til tortryggni að einungis nafn sparisjóðsstjórans var ritað undir bréfið eða að þar skyldi ekki sérstaklega tekið fram til hve langs tíma ábyrgðin gilti. Venja, sem áfrýjandi telur vera fyrir hendi um að tveir starfsmenn lánastofnunar undirriti jafnan ábyrgðarskjal, skiptir því ekki máli um úrlausn ágreiningsefnisins. Varðandi útlit bréfsins að öðru leyti verður fallist á með stefnda að það hafi ekki verið með þeim hætti að í því hafi falist saknæm vanræksla af hálfu sýslumanns að taka bréfið gilt í stað þess að rannsaka sjálfstætt hvort það væri ófalsað. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest um annað en málskostnað, en rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum áfrýjanda, Sigurðar Helgasonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2000.

I

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 23. september 1999, var dómtekið 13. f.m.

Stefnandi er Sigurður Helgason, kt. 010547-2459, Arnarhrauni 38, Hafnarfirði.

Stefndu eru sýslumaðurinn í Reykjavík, viðskiptaráðherra vegna viðskipta­ráðuneytisins og fjármálaráðherra vegna fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ríkissjóðs.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir óskipt til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.257.349 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. maí 1999 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Af hálfu stefndu er þess krafist aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

II

Þann 12. júlí 1995 gaf sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfi til handa Ragnari Kornelíusi Lövdal, kt. 280958-2559, til sölu notaðra ökutækja í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 69/1994, sbr. reglugerðir nr. 406 og 407/1994.  Bílasalan yrði að Funahöfða 1, Reykjavík og var gildistími leyfisins til 12. júlí 2000.  Um bílasöluna var stofnað einkahlutafélagið Bílatorg þar sem Ragnar Lövdal (þannig nefndur hér á eftir) er annar eigenda, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri með prókúruumboð.  Hinn eigandinn mun vera eiginkona hans.

Þann 12. september 1996 keypti stefnandi bifreiðina UB-027, Nissan patrol árgerð 1989, af Gosum ehf.  Upp í söluverð bifreiðarinnar, 1.150.000 krónur, gekk  bifreið stefnanda SJ-289, sem var metin á 850.000 krónur, og 300.000 krónur greiddi stefnandi í peningum.  Á bifreiðunum hvíldu engar veðskuldir eða önnur eignabönd eftir því sem segir í afsölum.  Viðskiptin fóru fram í bifreiðasölunni Bílatorgi, Funahöfða 1, Reykjavík og naut stefnandi aðstoðar Ragnars Lövdal við þau, en hann undirritaði einnig afsölin fyrir hönd Gosa ehf. þar sem hann er annar eigenda, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri með prókúruumboð.  Hinn eigandinn mun vera eiginkona hans.

Eigendaskipti á bifreiðinni UB-027 voru skráð 13. september 1996.

Daginn fyrir umrædd bifreiðakaup hafði verið gengið frá veðflutningsskjali þar sem Ragnar Lövdal lét flytja veð af 1. veðrétti bifreiðarinnar JÞ-846 yfir á 1. veðrétt bifreiðarinnar UB-027.  Skjalið var móttekið til þinglýsingar 12. september  1996 og innfært 13. s.m.  Veðið skyldi vera til tryggingar skuldabréfi útgefnu 22. janúar 1996 af Ragnari Lövdal, upphaflega að fjárhæð 1.217.990 krónur, vísitölutryggt með föstum ársvöxtum 9%.  Kröfuhafi er tilgreindur á bréfinu Samvinnusjóður Íslands hf.

Þann 19. nóvember 1997 fékk stefnandi, sem veðþoli vegna bifreiðarinnar UB-027, sent innheimtubréf frá Lögfangi ehf. vegna framangreinds skuldabréfs í eigu Samvinnusjóðs Íslands hf.  Krafan nam samtals 1.227.463 krónum.  Næsta dag bar stefnandi fram kæru á hendur Ragnari Lövdal vegna svika í bifreiðaviðskiptum við rannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík.  Þar greindi hann frá því að það hefði ekki verið fyrr en daginn áður sem Ragnar Lövdal hefði sagt sér frá veðinu, sem væri á bifreiðinni fyrir mistök, og að hann ætti von á bréfi vegna þess.  Einnig sagði hann að hann hefði staðið í þeirri trú að Gosar ehf. væri ekkert tilheyrandi Ragnari Lövdal og hefði hann ekki komist að hinu sanna um það fyrr en sama dag og hann lagði fram kæruna.

Ragnar Lövdal var ákærður 6. október 1998, m.a. á grundvelli kæru stefnanda, og sakfelldur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 26. janúar 1999.  Sakfelling, að því er tók til athæfis hans gagnvart stefnanda, var staðfest með dómi  Hæstaréttar 20. maí 1999 (mál nr. 93/1999).

Þann 26. janúar 1998 barst stefnanda greiðsluáskorun sem veðþola samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi og nam krafan þá 1.284.262 krónum.  Samkvæmt samningi við kröfueiganda innti stefnanda af hendi 1.008.761 krónu sem fullnaðargreiðslu á skuldinni 9. mars 1998 og var krafan samkvæmt veðskuldabréfinu þannig innleyst af honum.  Lögmaður stefnanda sendi Ragnari Lövdal þ. 11. mars 1998 greiðsluáskorun vegna veðskuldabréfsins en henni var ekki sinnt.  Í  framhaldi af því, eða 2. apríl 1998, var óskað fjárnáms í eignum Ragnars Lövdal til tryggingar á skuld hans samkvæmt veðskuldabréfinu.  Við aðfarargerð 17. apríl 1998 var því lýst yfir að gerðarþoli væri eignalaus.

Með bréfi lögmanns stefnanda 24. apríl 1998 til Sparisjóðs Mýrasýslu var skýrt frá framangreindum svikum, sem hann hefði orðið fyrir í bifreiðaviðskiptum við Ragnar Lövdal þannig að félli undir starfsábyrgðartryggingu hans.  Vísað var til þess að samkvæmt upplýsingum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins hefði hann haft starfsábyrgðartryggingu hjá Sparisjóði Mýrasýslu allt frá árinu 1995.  Í svarbréfi, undirrituðu sama dag af Sigfúsi  Sumarliðasyni f.h. Sparisjóðs Mýrasýslu,  var staðfest að téð ábyrgð væri fölsuð og hefði athæfi Ragnars Lövdal verið kært til Lögreglunnar í Reykjavík.

Bú Ragnars Lövdal var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 12. október 1998.  Fyrir hönd stefnanda var þ. 11. nóvember 1998 lýst kröfu í búið að upphæð 1.257.349 krónur á grundvelli umrædds veðskuldabréfs.  Samkvæmt skrá bústjóra um lýstar kröfur nema þær samtals 55.370.555 krónum.  Segir í stefnu að það sé borin von að nokkuð fáist greitt upp í þann skaða sem stefnandi hafi orðið fyrir.

Með bréfi 10. maí 1999 setti lögmaður stefnanda fram við sýslumanninn í Reykjavík skaðabótakröfu vegna leyfisveitingar sýslumannsembættisins til handa Ragnari Lövdal til sölu notaðra ökutækja frá 12. júlí 1995 og skorts á eftirlitsskyldu.  Í svarbréfi sýslumannsins í Reykjavík 11.maí 1999 var tilkynnt að erindið hefði verið framsent ríkislögmanni.  Þar kom m.a. fram að við embættið væru engin gögn vegna útgáfu leyfa til sölu á notuðum  ökutækjum samkvæmt lögum nr. 69/1994 þar sem þau  hafi á árinu 1997 verið send viðskiptaráðuneytinu en útgáfa leyfa þessara hafi flust þangað með lögum nr. 20/1997.  Bótaskyldu íslenska ríkisins var síðan hafnað með bréfi ríkislögmanns 19. maí 1999.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna.

Starfsmenn stjórnsýslunnar hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni með bifreiða­salanum Ragnari Lövdal og látið blekkjast á of auðveldan hátt þegar þeir hafi tekið sem góð og gild símbréf um starfsábyrgðartryggingar frá Sparisjóði Mýrasýslu, sem séu ekki ritaðar á bréfsefni frá viðkomandi sparisjóði, tímamarka ekki getið í yfirlýsingunni frá 10. júní 1995, en báðar séu þær aðeins undirritaðar af einum starfsmanni og síðan símsendar frá fyrirtæki þess, sem ætlað er að hafa slíka tryggingu, en ekki frá sparisjóðnum (um yfirlýsingar þessar sjá IV. kafla dómsins).  Vísar stefnandi til 10. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993  og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/1994.

Skilríki, samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994, hafi aldrei borist til viðkomandi stjórnvalda frá Ragnari Lövdal, sem hafi verið skilyrði þess að sérstakt leyfi mætti gefa honum til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki.  Myndbréf geti ekki talist skilríki í þeirri merkingu sem í það orð sé lagt í lagatexta.

Stefnandi hafi treyst því að Ragnar Lövdal uppfyllti lagaskilyrði til þess að vera löggiltur bifreiðasali, enda hafi slíkum opinberum gögnum verið til að dreifa á veggjum starfsstofu hans að Funahöfða 1 í Reykjavík.

Starfsábyrgðartryggingin skyldi nema 20.000.000 króna vegna hvers tryggingar­tímabils og bæta viðskiptavinum tjón sem þeir kynnu að verða fyrir vegna ásetnings eða gáleysis bifreiðasala.  Ganga verði út frá því að þessi fjárhæð hefði bætt að fullu tjón sem Ragnar Lövdal hafi valdið á tryggingatímabilinu frá 12.  júlí 1996 til 12. júlí 1997.

Stefnandi vísar til þess að fullnaðardómur hafi gengið um vanefnd Ragnars Lövdal gagnvart stefnanda í hæstaréttarmálinu nr. 93/1999 og með vísun einnig til árangurslausra fullnustutilrauna stefnanda uppfylli bótakrafa hans skilyrði laga fyrir stofnun bótaréttar úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiðasala samkvæmt 3. gr. laga nr. 69/1994 hefði hennar notið við.

-----

Af hálfu stefndu er ekki fallist á að það verði virt sýslumannsembættinu í Reykjavík til sakar að hafa gefið út hinn 12. júlí 1995 leyfi til handa Ragnari Lövdal til sölu notaðra ökutækja í Reykjavík.  Í lögum sé gert ráð fyrir að umsækjendur leggi fram öll nauðsynleg gögn og vottorð til staðfestingar á því að fullnægt sé skilyrðum til útgáfu leyfis.  Hins vegar sé ekki lögð sérstök skylda á stjórnvöld til þess að rannsaka og fá staðfest frá útgefendum gagnanna að þau séu í raun ófölsuð.  Engum þeim atriðum hafi verið til að dreifa varðandi yfirlýsingu um starfsábyrgðartryggingu sem hafi átt að vekja sérstakar grunsemdir þess starfsmanns sýslumannsembættisins sem fjallaði um leyfisveitinguna. 

Ekki sé heldur unnt að fallast á að stjórnvöld hafi á saknæman hátt brugðist eftirlitsskyldu sinni með leyfishafanum.  Eftirlitsskyldur opinberra aðila markist af því sem þeir viti eða megi vita um.  Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 406/1994 skyldi vátryggingarfélag, banki eða sparisjóður tilkynna sýslumanni þegar í stað félli trygging eða ábyrgð úr gildi.  Af hálfu stefnanda hafi ekki verið bent á nein þau atvik eftir að leyfið var gefið út, sem hefðu gefið vísbendingu um vöntun starfsábyrgðartryggingar, fram til þess tíma er í ljós kom að yfirlýsing varðandi starfsábyrgðartryggingu var fölsuð.

Því er mótmælt að trygging bifreiðasala, hefði henni verið til að dreifa, hefði tekið til tjóns stefnanda.  Um það er vísað til þess að starfsábyrgðartryggingum sé almennt ætlað að veita vernd gegn mistökum í starfi en ekki refsiverðum ásetningsbrotum. 

Ekki séu uppfyllt þau skilyrði í lögum nr. 69/1994 og reglugerð nr. 406/1994 fyrir rétti til greiðslu á tryggingarfé að fullnaðardómur eða réttarsátt hafi gengið um skaðabótaskyldu bifreiðasalans og upphæð bótanna verið ákveðin.

Þá takmarkist heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers 12 mánaða tryggingatímabils við 9 milljónir króna, sbr. 1. mgr. 4. gr. rglg. nr. 406/1994.   Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að sú takmörkun vegna tryggingatímabilsins frá 12. júlí 1996 til 12. júlí 1997 standi ekki í vegi fyrir bótakröfu hans.

Bótakröfu stefnanda er til vara mótmælt sem of hárri og er um það vísað til framangreindra sjónarmiða um takmörkun bótagreiðslna.

IV

Af hálfu stefndu hefur ekki verið gerð athugasemd um aðild neins þeirra.

Með bréfi 11. júlí 1995 til sýslumannsins í Reykjavík sótti Ragnar Kornelíus Lövdal um leyfi til sölu notaðra ökutækja í samræmi við lög nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja.  Umsókninni fylgdu gögn sem sýndu að fullnægt væri skilyrðum samkvæmt 1. – 5. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. einnig rglg. nr. 406/1994 um tryggingarskyldu við sölu notaðra ökutækja sem sett var með heimild í greindum lögum.  Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar segir að falli vátrygging eða bankaábyrgð úr gildi skuli hlutaðeigandi vátryggingarfélag, viðskiptabanki eða sparisjóður með sannanlegum hætti tilkynna það þegar í stað sýslumanni á þeim stað þar sem leyfið var gefið út.  Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar skal með tryggingunni greiða bætur allt að 3.000.000 króna vegna hvers einstaks tjónsatviks sem verður á hverju tólf mánaða tryggingartímabili.  Heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tólf mánaða tryggingartímabils getur þó ekki orðið hærri en 9.000.000 króna.  Í 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 er kveðið á um 20.000.000 króna hámarksfjárhæð bótanna.  Samkvæmt því ákvæði skyldu umsækjendur leggja fram skilríki því til sönnunar að þeir hefðu gilda tryggingu sem bætti viðskiptavinum tjón er þeir kynnu að verða fyrir vegna ásetnings eða gáleysis bifreiðasala.  Í samræmi við það fylgdi umsókn Ragnars Lövdal yfirlýsing, dags. 10. júní 1995, sem tjáðist vera frá Sparisjóði Mýrasýslu og undirrituð af Sigfúsi Sumarliðasyni fyrir hönd hans en sem reyndist vera fölsuð eins og áður er fram komið.  Yfirlýsingin var stíluð “til þeirra er málið varðar” og var þar staðfest að Ragnar Lövdal hefði starfsábyrgðartryggingu vegna sölu notaðra ökutækja hjá sparisjóðnum vegna Bílatorgs Funahöfða 1.

Framangreind  yfirlýsing samrýmist merkingu orðsins skilríki (sönnunargagn, skjal).  Almenn regla um skyldu stjórnvalds til að rannsaka hvort skjal eins og það, sem hér um ræðir, sé falsað eða ófalsað verður ekki reist á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Það gerði hana ekki tortryggilega að hún var aðeins undirrituð af einum starfsmanni sparisjóðsins. Þá verður það ekki talið hafa verið óeðlilegt að ekki var getið tímamarka.  Undirritun (Sigfús Sumarliðason) ásamt heiti sparisjóðsins í prentuðu formi eru því sem næst eins og á bréfi Sparisjóð Mýrasýslu frá 24. apríl 1998 sem liggur frammi í málinu.  Hins vegar var yfirlýsingin ekki rituð á bréfsefni, þ.e. með “bréfhaus”, sparisjóðsins.  Það verður þó ekki talið hafa verið starfsmönnum sýslumannsembættisins tilefni rannsóknar.

Samkvæmt þessu er fallist á það með stefndu að það verði ekki virt sýslumannsembættinu í Reykjavík til sakar að hafa gefið út  leyfi til handa Ragnari Lövdal til sölu notaðra ökutækja. 

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/1994 var eftirlit með starfsemi bifreiða­sala í höndum sýslumanna.  Með lögum nr. 20/1997 um breytingu á lögum nr. 69/1994 var eftirlit með starfsemi bifreiðasala fengið lögreglustjórum og útgáfa nýrra leyfa er í höndum viðskiptaráðherra.  Frammi liggur yfirlýsing, dags. 25. ágúst 1997, um starfsábyrgðartryggingu Sparisjóðs Mýrasýslu til handa Ragnari Lövdal, eins að efni og formi sem hin fyrri að öðru leyti en því að tekið er fram að gildistími sé til 12. júlí 2000, og var hún einnig fölsuð. Yfirlýsingin var send iðnaðar- og viðskipta­ráðuneytinu í símbréfi frá bifreiðasölunni Bílatorgi.  Ekki er upplýst um tilefni yfirlýsingarinnar.  Sending hennar verður ekki talin hafa veitt sérstaka ástæðu til rannsóknar.

Samkvæmt þessu er fallist á það með stefndu að ekki hafi verið sýnt fram á nein atvik eftir útgáfu umrædds leyfis, fram til þess tíma er í ljós kom að yfirlýsingar um starfsábyrgðartryggingar voru falsaðar, sem gæfu vísbendingu um vöntun starfsábyrgðartryggingar til handa Ragnari Lövdal.

Samkvæmt framangreindu er ekki sýnt fram á grundvöll skaðabótaábyrgðar stefndu á tjóni stefnanda og ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna þá af kröfum hans.  Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu óskipt málskostnað sem er ákveðinn 100.000 krónur.

 Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, sýslumaðurinn í Reykjavík, viðskiptaráðuneytið, og fjármálaráðu­neytið fyrir hönd ríkissjóðs, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Sigurðar Helgasonar.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 100.000 krónur í málskostnað.