Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2003


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Hlutabréf
  • Ógilding samnings
  • Svik
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2004.

Nr. 316/2003.

Sæmundur Hinriksson

(Jón G. Briem hrl.)

gegn

Jóhanni Þ. Ólafssyni

(Leó E. Löve hrl.)

 

Kaupsamningur. Hlutabréf. Ógilding samnings. Svik. Tómlæti.

S, sem keypt hafði hlutabréf af J í fyrirtækinu H, krafðist riftunar þess gernings, en til vara afsláttar. S færði engar sönnur fyrir fullyrðingum sínum um svik eða óheiðarleika af hálfu J. Þá þótti ekki ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að J bæri samninginn fyrir sig. Stóð það eitt eftir gagnvart J að væntingar S til kaupa á hlutabréfunum gengu ekki eftir. Sú aðstaða gat ekki leitt til þess að S gæti með réttu náð fram ógildingu samningsins á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, né heldur að honum yrði vikið til hliðar í heild eða hluta með stoð í 36. gr. sömu laga.  J var samkvæmt þessu sýknaður af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál  þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2003. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 2.000.000 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sæmundur Hinriksson, greiði stefnda, Jóhanni Þ. Ólafssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2003.

                Mál þetta, sem dómtekið var 21. f.m., er höfðað 14. október 2002 af Sæmundi Hinrikssyni, Vatnsholti 1C, Reykjanesbæ, á hendur Jóhanni Þ. Ólafssyni, Furulundi 2, Garðabæ.

Stefnandi gerir þá dómkröfu aðallega að ógiltur verði samningur málsaðila, dags. 26. maí 2000, um kaup stefnanda á hlutabréfum í Hunter-Fleming Ltd. af stefnda. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júní 2000 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að samningnum verði breytt á þann hátt að kaupverðið verði lækkað að mati dómsins og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda jafnvirði lækkunarinnar auk dráttarvaxta frá 2. júní 2000 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

                Málið á rót sína að rekja til kaupa stefnanda á hlutabréfum í óskráðu bresku hlutafélagi, Hunter-Fleming Ltd., af stefnda. Gerðu aðilar með sér skriflegan samning um þessi viðskipti þeirra og er hann dagsettur 26. maí 2000. Samkvæmt honum keypti stefnandi hlutabréf í félaginu að nafnverði 2.203 sterlingspund á genginu 8,0. Miðað við skráð gengi sterlingspunds á kaupsamningsdegi nam kaupverðið 2.000.000 króna. Samkvæmt samningnum var kaupverðið að fullu greitt við undirritun hans. Svo sem nánar verður rakið síðar er því haldið fram af hálfu stefnanda að í ljós hafi komið að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar um atriði sem vörðuðu forsendur hans fyrir kaupum á hlutabréfunum og að mikilvægum upplýsingum þar að lútandi hafi einnig verið haldið leyndum fyrir honum. Þessi aðstaða leiði til þess að fullnægt sé skilyrðum til að ógilda megi kaupsamninginn og gera stefnda að endurgreiða stefnanda kaupverð hlutabréfanna.

II.

                Í stefnu er lýst aðdraganda þess að stefnandi keypti þau hlutabréf sem mál þetta snýst um. Er því haldið fram að Karl Löve Jóhannsson, sem er sonur stefnda, hafi hringt í Sturlaug Ólafsson og sagt að hann gæti útvegað honum hlutabréf í Hunter-Fleming Ltd. á hagstæðu verði. Hafi Karl tekið fram að hann hefði öruggar upplýsingar um að fyrir dyrum stæði sameining félagsins við annað félag og að ljóst væri að af þeirri ástæðu myndi verð bréfanna hækka verulega frá kaupverðinu. Hafi hann fullyrt að þetta myndi gerast innan mjög fárra vikna og þess vegna væri um áhættulitla og örugga fjárfestingu að ræða fyrir stefnanda. Hafi hann hvatt Sturlaug til að láta vini sína og kunningja vita af þessu viðskiptatækifæri. Sturlaugur hafi haft samband við stefnanda og Jón Björn Sigtryggsson, sem í kjölfarið hefðu rætt við Karl. Hafi Karl veitt þeim sömu upplýsingar. Þá hafi Karl haft orð á því við þá báða að viðskiptin þyrftu að eiga sér stað strax, að öðrum kosti myndu þeir missa af þessu tækifæri. Jafnframt hafi Karl upplýst að hann hafi sjálfur keypt hlutabréf í félaginu á þessum sömu forsendum fyrir að minnsta kosti 20.000.000 króna. Hafi það ekki dregið úr trúverðugleika upplýsinganna að Karl ætlaði sjálfur að leggja fé í kaup á hlutabréfum í umræddu félagi. Hafi stefnandi umsvifalaust gengið frá kaupum á hlutabréfum fyrir 2.000.000 króna og lagt kaupverðið inn á bankareikning á nafni Karls 2. júní 2000. Þeir Sturlaugur og Jón Björn hefðu keypt hlutabréf fyrir samtals 6.500.000 krónur. Skömmu síðar hafi hverjum þeirra um sig borist kaupsamningur í tvíriti undirritaður af stefnda sem seljanda. Þá fyrst hafi komið fram hver hafi verið seljandi hlutabréfanna. Hafi þremenningunum verið ætlað að undirrita annað eintak síns kaupsamnings og endursenda það. Það hafi þeir gert.

Um atvik í kjölfar þess að stefnandi festi kaup á umræddum hlutabréfum segir í stefnu að stefnandi hafi allt frá upphafi og þrátt fyrir að hann sé skráður hluthafi í Hunter-Fleming Ltd. átt í erfiðleikum með að fá upplýsingar um félagið. Hann hafi þannig ekki fengið fréttabréf hlutahafa eða aðrar upplýsingar um rekstur félagsins. Að liðnum nokkrum tíma frá því að kaup hans á hlutabréfunum áttu sér stað hafi honum og þeim Sturlaugi Ólafssyni og Jóni Birni Sigtryggssyni tekist að ná sambandi við Ægi Birgisson verðbréfamiðlara, sem þekkt hafi til félagsins, en hann var á þeim tíma sem hér um ræðir starfsmaður hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. (FBA). Með aðstoð hans hafi þremenningarnir reynt að fylgjast með því hvort sameining Hunter-Fleming við annað félag hefði átt sér stað eða væri í burðarliðnum. Að lokum hafi þeim orðið ljóst að ekkert yrði af fyrirhugðari sameiningu og að þeim hafi reyndar virst sem sameining hafi í raun ekki verið yfirvofandi þegar Karl hafi gefið annað til kynna í samtölum við þá fyrir hlutabréfakaup þeirra. Þessu til viðbótar hafi komið upplýsingar um að Karl hafi í febrúar 2000 verið þátttakandi í einhvers konar frumútboði hér á landi á hlutum í Hunter-Fleming, en það hafi verið í höndum FBA. Á fundi sem þá hafi verið haldinn hafi viðskiptaáætlun félagsins verið kynnt og viðstöddum boðið að kaupa hlutabréf í því á genginu 4,2 sterlingspund á hlut. Þessu hafi Karl haldið leyndu fyrir stefnanda. Telur stefnandi að Karl hafi keypt hlutabréf í þessu útboði fyrir drjúga fjárhæð. Þá er því haldið fram að hann hafi um miðjan maí 2000 skráð þau hlutabréf sem hann hafi keypt í tengslum við framangreint útboð á nafn stefnda. Ekkert liggi fyrir um gengi hlutabréfanna í þeim viðskiptum og reyndar dragi stefnandi það í efa að um raunveruleg viðskipti hafi verið að ræða.

Dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi byggðar á því að stefndi hafi vitað eða mátt vita um gengi hlutabréfa í Hunter-Fleming þá er Karl sonur hans hafi fest kaup á þeim í febrúar eða mars 2000 og að stefnda hafi þar með verið ljóst að Karl hafi, sem umboðsmaður hans, gefið stefnanda rangar upplýsingar um eðlilegt markaðsverð þeirra. Ennfremur byggir stefnandi á því að stefndi hafi vitað eða mátt vita að engar þreifingar um sameiningu Hunter-Fleming við annað eða önnur félög hafi verið í gangi þá er Karl bauð stefnanda hlutabréf í félaginu til kaups. Telur stefnandi mögulegt að stefndi sem seljandi og Karl sem umboðsmaður hans hafi staðið sameiginlega að því að leyna stefnanda upplýsingum og líka gefið rangar upplýsingar til að fá hann til að kaupa hlutabréf yfirleitt og á því háa verði sem raun varð á. Ljóst sé að Karli hafi verið kunnugt um gengi hlutabréfa í Hunter-Fleming í febrúar eða mars 2000 og að honum hafi þá verið ljóst að engin rök stæðu til þess að það hefði frá þeim tíma til söludags til stefnanda hækkað úr 4,2 sterlingspundum á hlut í 8,0.

Um lagarök fyrir aðalkröfu sinni vísar stefnandi til 1. mgr. 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Er í tengslum við tilgreiningu stefnanda á lagarökum á því byggt að hann hefði aldrei átt umrædd viðskipti ef ekki hefði komið til sú staðhæfing Karls sonar stefnda að sameining Hunter-Fleming við annað eða önnur félög væri að bresta á. Það hafi verið forsenda hjá honum að um nokkuð örugga skammtímafjárfestingu hafi verið að ræða. Ennfremur að kaupverð hafi verið ósanngjart, umboðsmaður stefnda hafi haft yfirburði gagnvart honum hvað varðar þekkingu á verðbréfaviðskiptum og hraðinn í viðskiptunum hafi gert honum erfitt fyrir að kanna hvort um eðlilegt verð væri að ræða. Þá hafi sú staðreynd að um óskráð félag er að ræða leitt til þess að hann hafi orðið að treysta á upplýsingar umboðsmanns stefnda. Um varakröfu sína vísar stefnandi til 36. gr. tilvitnaðra laga. Tiltekur hann að ef samningi aðila yrði ekki vikið til hliðar í heild samkvæmt því lagaákvæði mætti breyta samningnum og þá til dæmis á þann veg að miðað yrði við að stefnandi greiddi fyrir hina keyptu hluti á genginu 4,2.

III.

                Í greinargerð eru reifaðir helstu málavextir út frá sjónarhóli stefnda. Þar kemur fram að stefndi hafi í maí 2000 sett í sölu hlutabréf sem hann þá hafi átt í Hunter-Fleming Ltd. Sonur hans Karl hafi þá tjáð honum að hann vissi um aðila sem hefðu áhuga á að kaupa bréfin. Hafi orðið úr að stefndi seldi hópi manna þessi hlutabréf. Hafi hann notið liðsinnis Karls sonar síns við söluna, en ekki falið honum að annast hana. Stefndi hafi þannig ekki veitt Karli umboð til að vinna að málinu fyrir sína hönd og hann hafi sjálfur undirritað sölusamninga. Hafi stefndi ekki haft vitneskju um annað en að þessi sala á hlutabréfum hans í Hunter-Fleming hafi gengið eðlilega fyrir sig. Það hafi því komið honum mjög á óvart þegar hann hafi fengið bréf frá lögmanni stefnanda rúmum tveimur árum síðar sem gefið hafi annað til kynna.

                Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ekkert sé fram komið varðandi hin umdeildu viðskipti aðila sem réttlæti það að taka megi ógildingarkröfu stefnanda til greina. Hið sama eigi við um varakröfu hans um breytingu á þeim samningi aðila málsins sem ágreiningur þeirra lýtur að. Hér eigi við sú meginregla íslensks réttar að samningar skuli standa. Þess utan sé til þess að líta að þegar horft sé annars vegar til þess langa tíma sem leið frá kaupum stefnanda á hlutabréfunum og þar til fram komu athugasemdir hans varðandi þau og hins vegar sinnuleysis um kynningu á ætluðum rétti stefnanda til ógildingar á kaupsamningi um hlutabréfin eða breytingu á honum geti ekki komið til þess að unnt sé að viðurkenna slíkan rétt hafi hann á annað borð stofnast. Loks heldur stefndi því fram til stuðnings sýknukröfu sinni að samkvæmt gögnum sem hann hafi lagt fram í málinu hafi verð það sem stefnandi innti af hendi fyrir hlutabréfin verið síst of hátt, en í þeim komi fram að á sama tíma hafi Sparisjóðurinn í Keflavík selt hlutabréf í Hunter-Fleming eða haft milligöngu um sölu gegn sama eða hærra verði.

IV.

                Þeir Sturlaugur Ólafsson og Jón Björn Sigtryggsson hafa með sama hætti og stefnandi höfðað mál á hendur stefnanda til ógildingar á þeim samningum sem þeir gerðu við stefnanda um kaup á hlutabréfum í Hunter-Fleming Ltd. og til endurgreiðslu á umsömdu kaupverði.

                Í skýrslum sem stefnandi og Jón Björn Sigtryggsson hafi gefið fyrir dómi vegna þessara viðskipta þeirra og Sturlaugs Ólafssonar kom fram að Sturlaugur hafi látið þá vita af því vorið 2000 að þeim stæði til boða að kaupa hlutabréf í Hunter-Fleming, að Karl Löve Jóhannsson hefði með málið að gera og að hann hefði sagt Sturlaugi að um álitlegan kost væri að ræða. Karl hafi stuttu síðar hringt í þá og tjáð þeim báðum að gott kauptækifæri væri þarna á ferðinni þar sem sameining við annað félag væri á döfinni og að hlutabréf í félaginu myndu hækka verulega af þeim sökum. Í skýrslu sinni lýsti stefnandi þessu svo að Karl hefði sagt við hann „að það stæði til og væri á döfinni bara á næstunni sameining við annað félag sem síðan mundi leiða til þess að félagið færi á markað og varlega áætlað gæti það þýtt jafnvel tvöföldun og mér fannst þetta góð rök og svona þetta varð til þess að ég lét slag standa“. Hefðu stefnandi og Sturlaugur og Jón Björn báðir talið að Karl væri sjálfur að fjárfesta í hlutabréfum í félaginu og þeim hafi ekki orðið það ljóst fyrr en í maí í fyrra að gengi hlutabréfa í Hunter-Fleming í febrúar 2000 hafi verið 4,2, en þá hafi lögmaður þeirra fært þeim þær fréttir. Þá hafi Karl gert þeim grein fyrir því að þeir þyrftu að hafa snör handtök því ella gæti þetta kauptækifæri gengið þeim úr greipum. Hafi þar í mesta lagi verið um 2-3 daga að ræða. Loks verður af skýrslum þeirra beggja ráðið að þeir hafi fljótlega gefist upp á því að spyrjast fyrir um málið hjá Karli og snúið sér að Ægi Birgissyni, en upplýsingar frá honum hafi þó verið af skornum skammti.

Stefnandi, Sturlaugur Ólafsson og Sæmundur Hinriksson báru allir á þann veg fyrir dómi að þeir hefðu allir rætt við Karl áður en þeir ákváðu að kaupa hlutabréf í Hunter-Fleming vorið 2000. Í skýrslu sem Sturlaugur gaf í því máli sem hann hefur höfðað á hendur stefnda, en sú skýrslu liggur frammi í þessu máli, lýsti hann þessu svo að Karl hafi í símtali við hann sagt að hann ætti „kost á að fara inn í álitlegan pakka sem hefði verið í útboði og það lægi fyrir sameining við skráð fyrirtæki og að þessi bréf myndu hækka mjög fljótlega“ í verði. Hafi Karl eindregið hvatt Sturlaug  til að láta slag standa. Karl hafi áður en þetta kom til bent Sturlaugi á ágæt viðskiptatækifæri. Samskipti þeirra hafi verið góð og hafi Sturlaugur ekki haft ástæðu til annars en að treysta honum í þetta sinn. Í þessu símatali hafi Karl nefnt það hvort félagar Sturlaugs kynnu að hafa áhuga á þessu og hafi Sturlaugur sagt Karli að hann yrði að kanna það sjálfur. Auk þess sem að framan greinir hafi komið fram hjá Karli í samtali hans við Sturlaug að verðið sem hann væri að bjóða stefnanda og félögum hans upp á væri pundi lægra en unnt yrði á fá fyrir hlutabréfin daginn eftir þannig að áhættan væri nánast engin. Þá hafi hann tekið fram að það yrði að ganga frá þessu fyrir helgina því annars gæti það orðið of seint. Nánar aðspurður um þetta kvað Sturlaugur að verið gæti að hann hafi fengið einhvern greiðslufrest, en þrýst hafi verið á hann með það að staðfesta kaup sín án mikillar tafar. Ekki hafi á þessu stigi komið fram hver væri eigandi hlutabréfanna. Þá hafi Karl haft orð á því að hann yrði sjálfur með í þessum pakka, það þyrfti nokkra til að safna saman í hann og verðið sem í boði væri kæmi til af því að um „stóran pakka“ væri að ræða. Löngu síðar hafi komið í ljós að Karl hafi ekki fjárfest í bréfum og að hann hafi verið að selja bréf sem faðir hans, stefndi í málinu, hafi átt. Þá hafi Sturlaugi orðið það fyrst ljóst í maí 2002 hvert hafi verið gengi á hlutabréfum í Hunter-Fleming í febrúar 2000, það er 4,2. Áður en að þessu dró og fyrst eftir kaupin hafi Sturlaugur verið í sambandi við Karl og spurt hann hvort af sameiningu hefði orðið og hvort sú hækkun á gengi hlutabréfanna sem hann hafi talað um væri komin fram. Fátt hafi verið um svör. Í byrjun árs 2001 hafi Sturlaugur engar upplýsingar fengið er vörðuðu þessa hlutabréfaeign hans og hafi hann þá í kjölfarið og samkvæmt ábendingu frá Karli haft samband við Ægi Birgisson hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ægir hafi tjáð honum að hann væri skráður hluthafi í Hunter-Fleming, en frekari upplýsingar sem máli skiptu hafi ekki fengist í þessu samtali né í samtölum sem þeir hafi síðar átt.

                Stefnandi, Sturlaugur og Jón Björn báru allir á þann veg að þeir hefðu ekki haft samband við stefnda í tengslum við kaup þeirra á hlutabréfum í Hunter-Fleming. Þá kváðust þeir hafa reynt að selja þessi hlutabréf sín, en án árangurs. Loks kváðust þeir allir hafa keypt hlutabréf í óskráðum félögum áður en umrædd hlutabréfakaup þeirra áttu sér stað.

                Í aðilaskýrslu sem stefndi gaf fyrir dómi í máli því sem Sturlaugur Ólafsson hefur höfðað á hendur honum, en sú skýrsla hefur verið lögð fram í þessu máli, kom fram að hann hafi keypt þau hlutabréf sem hann seldi stefnanda og þeim Sturlaugi Ólafssyni og Jóni Birni Sigtryggssyni af syni sínum Karli. Kvaðst hann aðspurður ekki muna hvert hafi verið gengi hlutabréfanna er hann festi kaup á þeim. Karl hafi greinilega haft mikla trú á þessu félagi og aðstoðað stefnda við kaup á hlutbréfum í því. Þá hafi Karl einnig komið með vissum hætti að sölu hlutabréfanna. Stefndi hafi sjálfur haft samband við einhvern starfsmann hjá Sparisjóði Keflavíkur og hafi sjóðurinn tekið að sér að selja bréfin. Líklega hafi Karl bent stefnda á að hann gæti haft þennan hátt á við sölu bréfanna. Karl hafi síðan hringt í stefnda og sagt honum frá því að hann vissi um aðila sem hefðu áhuga á að kaupa umrædd hlutabréf. Hafi stefndi ekkert séð því til fyrirstöðu að selja þessum aðilum bréfin. Stefndi hafi hins vegar ekki falið Karli að selja þau.

Í vitnisburði Karls í sama máli, en sú skýrslu liggur frammi í þessu máli, kom fram að hann hafi hringt í Sturlaug Ólafsson á sínum tíma og sagt honum frá því að hlutabréf í Hunter-Fleming væru til sölu, en þeir hefðu oft verið í sambandi vegna hlutabréfakaupa. Jafnframt hafi vitnið sagt Sturlaugi að Sparisjóðurinn í Keflavík væri að kaupa þessi bréf á genginu 8 og að vitnið hefði fengið þá frétt frá sameiginlegum kunningja þess og Sturlaugs, Trausta Sigurðssyni, að félagið ætti í viðræðum við tvö félög frekar en eitt um sameiningu. Jafnframt hafi vitnið haft orð á því að niðurstaða viðræðna um sameiningu gæti legið fyrir hvenær sem væri, en þó væri við það miðað ljóst yrði eigi síðar en um næstkomandi áramót hvort af henni yrði. Loks hafi vitnið innt Sturlaug eftir hvort hann hefði áhuga á að kaupa þessi hlutabréf og að auki nefnt það hvort vera kynni að stefnandi og Jón Björn Sigtryggsson hefðu líka áhuga á að eignast bréf. Sturlaugur hafi hringt í vitnið nokkrum dögum seinna og þá tilkynnt að auk hans, Jóns Björns og stefnanda vildu tveir aðrir menn, þeir Gunnar Þórarinsson og Ragnar Gerald Ragnarsson, kaupa hlutabréf í Hunter-Fleming. Í kjölfarið hafi greiðsla fyrir hlutabréfin frá fimmmenningunum verið lögð inn á bankareikning vitnsins sem síðan hafi ráðstafað henni til stefnda. Aðspurt kvaðst vitnið hafna því að einhver tímapressa hafi verið sett á stefnanda varðandi hlutabréfakaupin. Gögn málsins staðfesti að ekkert slíkt hafi verið í gangi. Þá kvaðst vitnið örugglega hafa haft um það vitneskju þá er það hafði samband við Sturlaug að hlutabréf í Hunter-Fleming hefðu verið boðin til sölu á genginu 4,2 í febrúar 2000. Kaupgengi í viðskiptum stefnanda hafi ekkert verið óeðlilegt í ljósi þessa enda sé það eðli hlutabréfa að lækka og hækka í verði. Loks kom fram hjá vitninu að það hafi átt hlutabréf í Hunter-Fleming sem það hafi selt í apríl 2000, svo og að það hafi að nýju keypt hlutabréf fyrir „einhverjar milljónir“ í félaginu í janúar 2001 á genginu 7.

Gunnar Þórarinsson, sem nefndur er hér að framan, kom fyrir dóminn sem vitni við aðalmeðferð málsins. Þar staðfesti hann að hann hefði keypt hlutabréf í Hunter Fleming af stefnda um mánaðamótin maí/júní 2000. Í vitnisburði hans kom fram að Karl Löve Jóhannsson og Sturlaugur Ólafsson hefðu á sínum tíma haft samband við hann og rætt við hann um kaup á hlutabréfunum. Hafi Karl haft orð á því að sameining við annað félag stæði fyrir dyrum. Hann hafi líka tekið fram að áhætta fylgdi kaupunum, en það hafi að mati vitnisins verið óþarft þar sem félagið var ekki skráð á verðbréfamarkaði. Þá hafi Karl sagt að góður markaður væri fyrir þessi bréf.

V.

                Af gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi í maí 2000 selt hlutabréf í Hunter-Fleming Ltd. fyrir að nafnverði samtals 26.668 sterlingspund. Gengi hlutabréfanna í þessum viðskiptum var eftir því sem best verður séð á bilinu 8 til 8,8. Hafa stefnandi og tveir aðrir einstaklingar, sem keyptu hlutabréf af stefnda fyrir að nafnverði samtals 9.363 sterlingspund, höfðað mál á hendur stefnda til ógildingar á kaupsamningnum sem gerðir voru um viðskiptin. Ekki liggur fyrir að aðrir kaupendur hafi gert slíka kröfu eða hafi það sérstaklega í hyggju.

Kröfur stefnanda í þessu máli eru alfarið reistar á nánar tilgreindum ógildingarreglum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Reynir þannig ekki á það í málinu hvort skilyrði kunni að vera til að rifta samningi aðila á grundvelli þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup eða hvort réttur til afsláttar af kaupverði hafi stofnast.

                Við úrlausn málsins þykir rétt að taka fyrst afstöðu til þeirrar málsástæðu stefnanda að Karl Löve Jóhannsson hafi verið umboðsmaður stefnda í þeim viðskiptum málsaðila sem hér um ræðir. Ljóst er að Karl, sem er sonur stefnda, hafði í öllu falli milligöngu um að koma á samningi um kaup stefnanda á hlutabréfum stefnda í Hunter-Fleming. Stefndi undirritaði kaupsamninginn sjálfur og ekkert hefur komið fram um það í málinu að hann hafi veitt Karli umboð til að koma fram fyrir sína hönd í þessum viðskiptum aðila. Þá hefur því ekki verið haldið fram að Karl hafi sjálfur lýst því yfir að hann kæmi fram í umboði seljanda hlutabréfanna. Það að Karl er sonur stefnda getur ekki eitt og sér leitt til þess að á hann verði litið sem umboðsmann stefnda. Þá verður sú ályktun ekki heldur dregin af framgöngu hans í aðdraganda kaupsamnings að stefnandi hafi með réttu mátt líta svo á að um umboðsmennsku væri að ræða. Þegar málsatvik eru virt heildstætt, en einkum litið til framangreindra atriða, eru ekki næg efni til að líta svo á við úrlausn málsins að Karl hafi komið fram í umboði stefnda í skilningi laga í þeim viðskiptum aðila sem hér eru til umfjöllunar. Af því leiðir að sú málsástæða stefnanda að svikum hafi verið beitt kemur því aðeins til álita að stefndi hafi sjálfur beitt þeim eða hann hafi vitað eða mátt vita að kaupsamningi aðila hafi verið komið á fyrir svik annars manns.

Fráleitt er að líta svo á að færðar hafi verið sönnur fyrir því að stefndi hafi sjálfur með svikum fengið stefnanda til að gera þau kaup sem kröfugerð stefnanda í málinu tekur til. Af hálfu stefnda hefur verið vísað til þess að hann hafi ekki vitað betur en að viðskipti aðila hafi átt sér eðlilegan aðdraganda og að það hafi komið honum á óvart þegar annað hafi verið gefið í skyn í bréfi lögmanns stefnanda tveimur árum eftir að kaup komust á. Í málinu er ekkert það fram komið sem er í sjálfu sér til þess fallið að hnekkja þessari staðhæfingu stefnda um viðskipti aðila. Er þá meðal annars til þess að líta að með því sem áður er rakið verður við það að miða að stefndi hafi í maí 2000 selt hlutabréf í Hunter-Fleming Ltd. fyrir að nafnverði samtals 17.305 sterlingspund á genginu 8 til 8,8 til aðila sem ekki hafa, svo vitað sé, gert kröfur á hendur honum vegna þeirra viðskipta. Á stefnanda hvílir sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi vitað eða mátt vita að svikum hafi verið beitt í því skyni að koma hinum umdeildu kaupum á. Eru ríkar kröfur gerðar til sönnunar um svik. Í málatilbúnaði stefnanda er byggt á því að hin meintu svik hafi falist í því að því hafi verið haldið leyndu fyrir honum að gengi umræddra hlutabréfa hafi verið 4,2 sterlingspund á hlut í febrúar 2000 og viðsemjandanum hafi verið ljóst að engin rök stæðu til þess að gengið væri komið upp í 8 í maí sama árs. Þá hafi stefndi vitað eða mátt vita að engar þreifingar hafi verið í gangi um sameiningu Hunter-Fleming við annað félag á þeim tíma sem hér skipti máli. Einnig hefur af hálfu stefnanda verið bent á að sonur stefnda hafi vakið þá trú hjá stefnanda að hann ætlaði sjálfur að kaupa bréf í félaginu og að hann hafi leynt stefnanda því að faðir hans væri seljandi hlutabréfanna. Kemur og fram sú fullyrðing stefnanda að stefndi hafi stuttu fyrir kaupin keypt umrædd hlutabréf af Karli syni sínum og látið er að því liggja að umrædd viðskipti hafi verið gerð til málamynda og að Karl hafi verið raunverulegur eigandi bréfanna. Án þess að tekin verði í þessu máli afstaða til þess hvort sonur stefnda hafi í aðdraganda kaupsamnings veitt stefnanda upplýsingar eða leynt hann upplýsingum sem falið gætu í sér svik af hans hálfu liggur að mati dómsins ekki fyrir sönnun þess að stefndi sjálfur hafi vitað eða mátt vita að rangar upplýsingar hafi verið látnar í té fyrir gerð kaupsamnings eða að stefnandi hafi verið leyndur upplýsingum sem máli gátu skipt. Þá getur það eitt að stefndi hefur ekki upplýst um þau viðskipti sem lágu að baki eignarhaldi hans á hlutabréfum í Hunter-Fleming ekki leitt til þess að ályktað verði á þann veg að svik af hans hálfu teljist sönnuð. Er samkvæmt þessu ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi vitað eða mátt vita að kaupsamningur aðila hafi af hálfu þess fyrrnefnda verið gerður fyrir svik annars manns.

Þau lagaákvæði sem vísað hefur verið til af hálfu stefnanda til stuðnings kröfum hans í málinu eru, svo sem fram er komið, í III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í 1. mgr. 30. gr. laganna er kveðið á um það að löggerningur skuldbindi eigi þann mann sem gerði hann ef hann var fenginn til þess með svikum og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða vissi eða mátti vita að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns. Af framangreindu leiðir að ekki eru skilyrði til að ógilda þau kaup stefnanda á hlutabréfum af stefnda sem hér um ræðir á grundvelli þessa lagaákvæðis.

Í 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986, er kveðið á um að löggerning, sem ella mundi talinn gildur, geti sá maður, er við honum tók eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að að hann hafi haft vitneskju um. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, má síðan víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

                Ljóst má vera að hlutafjárkaupum fylgir almennt nokkur áhætta. Getur kaupandi hlutabréfa þannig almennt ekki gengið út frá því að ekki verði tap á slíkri fjárfestingu og því síður að hún skili hagnaði. Er þessi áhætta ennþá meiri en ella þegar um er að ræða kaup á hlutafé í félagi sem ekki er skráð á verðbréfamarkaði. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar er um að ræða erlent félag sem að auki er óskráð í framangreindum skilningi. Á stefnanda hvíldi skylda til að afla sér upplýsinga sem að gagni mættu koma við töku ákvörðunar um hvort af kaupum á hlutabréfum yrði. Gagnvart stefnda stoðar stefnanda ekki að vísa til samskipta við son stefnda þar að lútandi. Þannig gat stefnandi hvað sem öðru líður búið þannig um hnútana að honum væri fært að afla sér upplýsinga frá seljanda hlutabréfanna og eftir atvikum frá sérfróðum mönnum um viðskipti með hlutabréf. Þá er ekkert fram komið í málinu sem mælir gegn því að stefnandi hafi í maí 2000 getað aflað sér upplýsinga um gengi hlutabréfa í Hunter-Fleming í því hlutafjárútboði sem fram fór á vegum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. í febrúar 2000 og vísað er meðal annars til í bréfi lögmanns hans til Karls Löve Jóhannssonar 5. júní 2002 eða í seinni viðskiptum með þau. Þá er stefnanda ekki heldur hald í því að bera það fyrir sig gagnvart stefnda, þegar afstaða er tekin til ógildingarkröfu hans, að slík tímapressa hafi verið sett á hann að honum hafi af þeim sökum ekki reynst unnt að afla sér annarra upplýsinga en þeirra sem sonur stefnda veitti honum.

Að öllu framangreindu sögðu stendur að mati dómsins það eitt eftir gagnvart stefnda að væntingar stefnanda til kaupa á hlutabréfum í Hunter-Fleming Ltd. gengu ekki eftir. Sú aðstaða getur ekki leitt til þess að stefnandi geti með réttu náð fram ógildingu á þeim samningi aðila sem hér um ræðir á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936, né heldur að honum verði vikið til hliðar í heild eða hluta með stoð í 36. gr. sömu laga.

                Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið og án þess að annað þurfi til að koma ná dómkröfur stefnanda í málinu ekki fram að ganga og ber því að sýkna stefnda af þeim. Það er hins vegar álit dómsins að stefnandi hafi hvað sem öðru líður sýnt af sér slíkt aðgerðarleysi við gæslu þess réttar sem hann sækir sér til handa með málssókn þessari að hann hafi með því fyrirgert honum. Er þá sérstaklega horft til þess að enda þótt stefnandi haldi því fram að upplýsingaöflun af hans hálfu hafi verið takmörk sett sökum þess að sonur stefnda hafi þrýst á hann að ganga án tafar frá kaupum sínum er ljóst, að í huga stefnda kom fljótlega eftir að hann innti kaupverið af hendi upp afgerandi óvissa varðandi þessi viðskipti hans og grundvöll þeirra.

                Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Við ákvörðun hans er horft til þess að mál þetta er samkynja tveimur öðrum málum, sem dómur er lagður á í dag. Þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

                Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

                Stefndi, Jóhann Þ. Ólafsson, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Sæmundar Hinrikssonar, í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.