Hæstiréttur íslands

Mál nr. 22/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Ábyrgð fasteignareiganda
  • Sameign


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. febrúar 2005.

Nr. 22/2005.

Einar Oddsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Magnúsi Tómassyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Þinglýsing. Fasteign. Sameign.

Í ágúst 2002 gerðu þær I og B sem leigusalar lóðarleigusamning við E um spildu úr jörðinni A. Deilt var um hvort þeim hafi verið sú ráðstöfun heimil. Hvað sem leið ágreiningi um eðli samnings um skipti jarðarinnar frá 1955, var ekki talið að M væri bundinn af þeim samningi. Var því talið að I og B hafi brostið heimild til að ráðstafa umræddri spildu úr óskiptu landi jarðarinnar og staðfest sú ákvörðun sýslumanns að afmá lóðarleigusamninginn úr þinglýsingarbókum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. desember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi 3. maí 2004 um að afmá úr þinglýsingabókum lóðarleigusamning 31. ágúst 2002 um spildu úr landi Akra í Borgarbyggð milli annars vegar sóknaraðila sem leigutaka og hins vegar Ingibjargar Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur sem leigusala og stofnskjal 21. mars 2003 um sömu spildu. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins að afmá framangreindan lóðaleigusamning og stofnskjal úr þinglýsingabókum. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili skal greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Úrskurður héraðsdóms er staðfestur.

Sóknaraðili, Einar Oddsson, greiði varnaraðila, Magnúsi Tómassyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. desember 2004.

             Mál þetta barst dóminum 2. júní 2004 og var tekið til úrskurðar 13. desember sama ár. Sóknaraðili er Einar Oddsson, Hrauntungu 35 í Kópavogi, en varnaraðili er Magnús Tómasson, Vogaseli 7 í Reykjavík.

             Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi sem þinglýsingarstjóra að afmá úr þinglýsingabókum lóðarleigusamning 31. ágúst 2002 um spildu úr landi Akra I í Borgarbyggð, milli annars vegar sóknaraðila sem leigutaka og hins vegar Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur sem leigusala, og stofnskjal 21. mars 2003 um sömu spildu. Einnig krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

             Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hrundið og að framangreind ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar.

I.

             Í málinu deila aðilar um heimild Ingibjargar Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur til að leigja sóknaraðila spildu úr jörðinni Ökrum í fyrrum Hraunhreppi á Mýrum í Borgarfirði. Umrædd spilda er hluti af svonefndu Ísleifsstaðatúni. Til að leysa úr þessu sakarefni er nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir eignarhaldi jarðarinnar.

             Jörðin Akrar er fornt höfuðból og landnámsjörð. Á Ökrum var lengi tvíbýli og var þá rætt um Suðurbæ eða Akra I og Vesturbæ eða Akra II. Á sjötta áratug liðinnar aldar var síðan myndað nýbýlið Akrar III eða Norðurbær út úr Ökrum I, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir. Samkvæmt landamerkjabók Mýrasýslu er landamerkjabréf fyrir jörðina undirritað af Sigurði Benediktssyni 28. júní 1884 og lesið á manntalsþingi 3. júlí sama ár. Frá Ökrum voru margar hjáleigur þar á meðal Ísleifsstaðir.

             Hinn 14. maí 1919 fékk Helgi Ásgeirsson afsal fyrir hálfri jörðinni frá Sigríði Jóhannsdóttur. Var afsalið þinglesið á manntalsþingi 19. júní 1920. Helgi seldi síðan eignarhlut sinn í jörðinni til Ragnars P. Leví með kaupsamningi 1. desember 1923 og afsali 3. janúar 1924, sem þinglesið var á manntalsþingi 21. júní sama ár.

             Með afsali Úlfars Bergssonar 10. ágúst 1923 seldu hann Tómasi Tómasyni ¼ hluta jarðarinnar. Hinn 28. sama mánaðar framseldi Tómas síðan Ragnari P. Leví rétt samkvæmt afsalinu. Með kaupsamningi og afsali 4. maí 1928 seldi síðan Ragnar sama hlut í jörðinni til Helga Jakobssonar, en tekið er fram að um sé að ræða þann hluta er Ragnar eignaðist með afsalinu frá Tómasi, auk þess sem sagt er að Ragnar hafi verið eigandi að ¾ hluta jarðarinnar.

             Með kaupsamningi 15. apríl 1929 og afsali 8. maí sama ár keypti fyrrgreindur Helgi Jakobssonar til viðbótar ¼ hluta jarðarinnar, nánar tiltekið hálft býlið Akrar I auk hjáleigunnar Akratangi, af Jóni Sigurðssyni. Var afsalið móttekið til þinglesturs 6. júní 1929. Með gjafabréfi 9. maí 1948 ráðstafaðir Helgi eignarhluta sínum í jörðinni að engu undanskildu til fóstursonar síns Ásmundar Ásmundssonar. Með gjafaafsali 4. janúar 2001 ráðstafaði Ásmundur síðan helmingi af eignarhluta sínum í jörðinni til Oddnýjar Þorsteinsdóttur. Er tekið fram í afsalinu að um sé að ræða Akra II en sá bær hefur einnig verið nefndur Vesturbærinn, svo sem áður greinir. Þá er tekið fram í afsalinu að afsalshafa sé kunnugt um að land Akra I, Akra II og Akra III sé að mestu óskipt þar sem landskipti hafi ekki farið fram.

             Með afsali 15. apríl 1933 seldi Bjarni Ásgeirsson, Kjartan Thors og Guðbrandur Sigurðsson hálfa jörðina, sem nánar er tilgreind sem suðurbæjarparturinn (Akrar I) með hjáleigunni Ísleifsstaðir, til bræðranna Guðmundar, Þorkels og Þórðar Benediktssona. Í afsalinu er tekið fram að jörðin sé seld með öllum gögnum og gæðum eins og seljendur eignuðust hana með uppboðsafsali frá sýslumanni Mýrasýslu.

             Hinn 15. júlí 1954 gaf Þorkell Benediktsson út yfirlýsingu, sem móttekin var til þinglýsingar sama dag, þar sem hann ráðstafar sínum eignarhluta í Ökrum I til bróðursonar síns Ólafs Þórðarsonar. Í kjölfarið fékk Ólafur heimild menntamálaráðherra á grundvelli laga nr. 35/1953 um bæjarnöfn o.fl. til að taka upp nafnið Akrar III á nýbýli sem hann hafði reist á jörðinni. Með afsali 23. maí 1971 1971, sem móttekið var til þinglýsingar 25. sama mánaðar, fékk Ólafur síðan eignarhluta föður síns Þórðar Benediktssonar í Ökrum I.

             Þessir eignarhlutar í jörðinni sem ráðstafað var til Ólafs Þórðarsonar lögðust til býlisins Akrar III. Hinn 29. júlí 1988 gerði Ólafur kaupsamning við varnaraðila þar sem hann seldi honum býlið ásamt öllum gögnum og gæðum að engu undanskildu eins og Ólafur hafði öðlast eignina með fyrrgreindum afsölum 15. júlí 1954 og 23. maí 1971. Í kaupsamningnum var einnig tekið fram að varnaraðila væri kunnugt um að landsskipti hefðu ekki farið fram á milli Akra I, II og III. Á grundvelli kaupsamningsins gaf Ólafur síðan út afsal til varnaraðila 15. ágúst 1989 fyrir Ökrum III. Var afsalið móttekið til þinglýsingar 18. október 1989 og þinglýst sama dag.

             Hinn 7. október 1962 andaðist Guðmundur Benediktsson. Við skipti á dánarbúinu kom eignarhlutdeild í jörðinni í hlut erfingjanna Ingigerðar og Jónu Benediktsdætra. Jóna seldi síðan Ólafi Þórðarsyni hlut sinn í jörðinni með afsali 1. júní 1984, sem þinglýst var 7. sama mánaðar. Hinn 27. mars 2000 gerði Ólafur og eiginkona hans Ingibjörg Jóhannsdóttir kaupmála, en samkvæmt honum varð umræddur hlutur Ólafs í jörðinni séreign Ingibjargar.

             Ingigerður Benediktsdóttir, sem fengið hafði hlut í jörðinni í arf eftir Guðmund Benediktsson, andaðist 10. nóvember 1979. Við skipti á dánarbúinu fékk Benedikt Geirsson eignarhlutann í jörðinni í arf og var skiptayfirlýsingu þess efnis þinglýst á jörðina 5. desember 1979. Benedikt andaðist 24. júlí 1998 og situr eftirlifandi maki hans Brynhildur Pálsdóttir í óskiptu búi eftir mann sinn samkvæmt leyfi sýslumannsins í Reykjavík frá 9. október 1998.

II.

             Hinn 26. júní 1955 undirrituðu Guðmundur Benediktsson, Þórður Benediktsson og Ásmundur Ásmundsson svohljóðandi yfirlýsingu:

 

Við undirritaðir bændur á jörðinni Akrar I höfum orðið ásáttir um skifti jarðarinnar, á túni og ræktarlandi þannig, að Guðmundur fái tún það, er tilheyrði Ísleifsstöðum, Ólafur og Þórður skifti heimatúninu að jöfnu, eftir því sem hér segir: Ólafur hefir tún, sem liggur framan svonefndan Kastala og sjófit heim að bænum. Þórður það sem liggur heiman Kastala og vestan að tröð. Ræktarland fær nýbýli Ólafs Þórðarsonar úrskift á Akrasandi 5 hektara að stærð. Engar engjar fylgja jörðinni, sem máli skifta. Beitiland verður óskift áfram, ræktarland nýbýlisins er skift úr óskiftu ræktarlandi jarðanna Akrar I og Akrar II, og skrifar Ásmundur Ásmundsson, bóndi Ökrum II undir við skifti á ræktarlandi jarðanna.

              

             Samkvæmt bréfi sýslumannsins í Borgarnesi 4. nóvember 2002 var skjalinu framvísað til þinglýsingar 7. júlí 1955 og þinglýst sama dag. Hins vegar hafi komið í ljós að láðst hafi að færa þinglýsinguna í þingþinglýsingarbækur embættisins.

III.

             Í nokkrum mæli hefur spildum verið ráðstafað úr landi Akra. Þykja efni til að greina í helstu atriðum frá þeim samningum.

             Hinn 5. maí 1978 leigði Ragnar O. Arinbjarnar spildu til 50 ára, en stærð hennar nemur um 5.000 fermetrum. Land þetta eru svonefndar Mjóddir. Undir leigusamninginn ritar af hálfu eigenda jarðarinnar Ólafur Þórðarson, Ásmundur Ásmundsson, Jóna Benediktsdóttir og Ingigerður Benediktsdóttir. Samningurinn var móttekinn til þinglýsingar 20. júní 1978.

Í apríl 2002 var gert samkomulag um að Þóranna Tómasdóttir Gröndal fengi spildu úr jörðinni, en spildan er norður af hlöðu á Ökrum III. Var samkomulagið gert á grundvelli gjafabréfs varnaraðila þar sem hann ráðstafar allt að 5% af Ökrum III undir lóð fyrir sumarbústað Þórönnu. Einnig er tekið fram í samkomulaginu að eignarhlutinn skerðist úr óskiptu landi Akra III til jafns við séreignarhluta Þórunnar. Undir samkomulagið rita Ingibjörg Jóhannsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir vegna Akra I, Ásmundur Ásmundsson og Oddný Þorsteinsdóttir vegna Akra II og varnaraðili og Þóranna Tómasdóttir Gröndal vegna Akra III. Stofnskal vegna lóðarinnar var móttekið til þinglýsingar 4. nóvember 2002 og þinglýst sama dag.

Með samningi 7. júlí 2002 fengu Gunnar Þór Ólafsson og Sigrún Bryndís Pétursdóttir á leigu til 30 ára spildu úr óskiptu landi jarðarinnar, svonefnt Móholt austan akvegar gengt Höfðum. Undir samkomulagið rita Ásmundur Ásmundsson, Brynhildur Pálsdóttir, Ingibjörg Jóhannsdóttir, Oddný Þorsteinsdóttir, Þóranna Tómasdóttir Gröndal og varnaraðili. Samkomulagið var lagt inn til þinglýsingar 4. desember 2002 og þinglýst sama dag.

             Með samkomulagi 30. ágúst 2002 fékk Brynhildur Pálsdóttir skipt út 5.138 fermetra spildu úr jörðinni við syðri enda Nýpur, en spildan liggur meðfram vesturhlið Nýlenduvatns frá suðri til norðurs. Er tekið fram í samkomulaginu að spildan skuli vera séreignarhluti Brynhildar af óskiptri sameign úr jarðarhluta Akra I og skerðast þá til jafns við nefndan séreignarhluta. Samkomulagið er undirritað af Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur vegna Akra I, Ásmundi Ásmundssyni og Oddný Þorsteinsdóttur vegna Akra II og varnaraðila vegna Akra III. Samningurinn var lagður inn til þinglýsingar 4. nóvember 2002 og þinglýst sama dag.

             Hinn 22. september 2002 var gert samkomulag um að 5.000 fermetra spilda norður af íbúðarhúsi Akra II skyldi vera séreignarhluti Oddnýjar Þorsteinsdóttur. Tekið er fram í samkomulaginu að eignarhluti Oddnýjar í Ökrum II skerðist úr óskiptu landi Akra II til jafns við lóð hennar samkvæmt samkomulaginu. Undir samkomulagið rita Ingibjörg Jóhannsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir vegna Akra I, Ásmundur Ásmundsson og Oddný Þorsteinsdóttir vegna Akra II og Magnús Tómasson og Þóranna Tómasdóttir Gröndal vegna Akra III. Stofnskal vegna lóðarinnar var móttekið til þinglýsingar 4. nóvember 2002 og þinglýst sama dag.

IV.

             Svo sem áður er rakið leiða Ingibjörg Jóhannsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir eignarheimild sína í jörðinni Ökrum frá Guðmundi Benediktssyni, sem eignaðist hálfa jörðina ásamt bræðrum sínum Þorkeli og Þórði með afsali 15. apríl 1933. Þær Ingibjörg og Brynhildur gerðu síðan lóðarleigusamning til 35 ára við sóknaraðila 31. ágúst 2002 um spildu úr jörðinni, en ágreiningur málsins lýstur að því hvort þeim hafi verið sú ráðstöfun heimil, svo sem áður er getið.

Lóðarleigusamningi sóknaraðila og stofnskjali á grundvelli samningsins var þinglýst 2. maí 2003 í kjölfar þess að Jarðanefnd Mýrasýslu og Bæjarstjórn Borgarbyggðar höfðu samþykkt samninginn 20. mars sama ár. Með bréfi lögmanns varnaraðila 23. júlí 2003 var þess krafist að skjöl þessi yrðu afmáð úr þinglýsingabókum þar sem óskiptu landi jarðarinnar hefði verið ráðstafað án samþykkis varnaraðila. Eftir nokkur bréfaskipti milli sýslumanns og lögmannsins tók sýslumaður þá ákvörðun 3. maí 2004 að afmá skjölin. Var sú ákvörðun tekin á grundvelli 27. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, þar sem sýslumaður taldi Ingibjörgu og Brynhildi hafa brostið þinglýsta heimild til þessarar ráðstöfunar. Hefði því átt að vísa skjölunum frá þinglýsingu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga, sbr. 24. og 25. gr. sömu laga.

Sóknaraðila barst tilkynning um ákvörðun sýslumanns 6. maí 2004. Með bréfi lögmanns sóknaraðili 18. sama mánaðar var ákvörðun sýslumanns mótmælt og þess krafist að þinglýsing skjalanna yrði færð í fyrra horf. Með bréfi 2. júní sama ár, sem barst dóminum samdægurs, var ákvörðun sýslumanns borinn undir dóminn á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga. Með bréfi 3. sama mánaðar var sýslumanni síðan tilkynnt um málskotið, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga.

V.

             Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að lóð sú sem honum var leigð sé hluti af Ísleifstaðatúni, en túnið hafi við landskipti milli eigenda Akra I komið í hlut Guðmundar Benediktssonar. Sá eignarhluti sé nú í eigu þeirra Ingibjargar Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur, en þær séu sameigendur að þeim hluta jarðarinnar sem nú teljist til Akra I. Því hafi þeim fráleitt brostið þinglýsta heimild til ráðstöfunarinnar.

             Sóknaraðili andmælir því að varnaraðili geti talið til réttar yfir jörðinni Akrar I. Varnaraðili sé hins vegar eigandi jarðarinnar Akrar III en engin bein tengsl séu á milli eigenda Akra I og Akra III. Jarðirnar sjálfar, þar með talin tún, hús, ræktun og önnur mannvirki séu algerlega sjálfstæðar fasteignir. Því sé beinlínis rangt hjá sýslumanni að reisa úrlausn sína á því að varnaraðili sé einn af eigendum Akra I.

             Sóknaraðili telur engu breyta þótt Ólafur Þórðarson hafi á tímabili átt Akra III og hlut í Ökrum I. Jörðin Akrar III hafi síðar verið seld varnaraðila, en sú sala hafi með engu móti varðað Akra I, enda hafi engin réttindi tengd þeirri jörð fylgt með við söluna. Tekur sóknaraðili fram að eina sameiginlega málefni Akra I og Akra III sé óskipt beitiland jarðanna.

VI.

             Varnaraðili bendir á að jörðin Akrar I hafi aldrei verið afmörkuð sérstaklega, enda hafi ekki farið fram landskipti milli Akra I, Akra II og Akra III. Land jarðanna sé því í óskiptri sameign. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að skjal frá 26. júní 1955 feli ekki í sér landskipti heldur eingöngu nytjasamning, enda sé hvergi í skjalinu minnst á eignarrétt af neinu tagi eða land mælt á einhvern veg. Þá felist hvorki í skjalinu afsal né eignatilfærsla á landi jarðarinnar.

Varnaraðili telur þennan skilning á skjalinu frá 26. júní 1955 í fullu samræmi við það sem eigendur jarðarinnar hafa sjálfir talið og bendir í því sambandi sérstaklega á að tekið sé fram í gjafaafsali 4. janúar 2001 fyrir eignarhluta í Ökrum II að jörðin sé í óskiptri sameign með Ökrum I og Ökrum III, enda hafi landskipti ekki farið fram. Sama telur varnaraðili að verði einnig ráðið af því að allir eigendur jarðarinnar hafi undirritað samninga þar sem spildum er ráðstafað úr jörðinni til eignar eða á leigu.

Þá bendir varnaraðili á að Ólafur Þórðarson, sem hann leiði rétt sinn frá, hafi ekki undirritað skjalið heldur eingöngu faðir og föðurbróðir hans og Ásmundur Ásmundsson. Þannig hafi Ólafur ekki verið bundinn af því sem fram komi í skjalinu og sama eigi einnig við um varnaraðila.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur varnaraðili að Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur hafi brostið heimild til að ráðstafa spildu úr óskiptu landi jarðarinnar. Af þeim sökum beri að hafna kröfu sóknaraðila þannig að ákvörðun sýslumanns um að afmá lóðarleigusamning við sóknaraðila og stofnskjal úr þinglýsingabókum standi óhögguð.

VII.

             Svo sem hér hefur verið rakið leigði sóknaraðili spildu úr jörðinni Akrar af Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur með samningi 31. ágúst 2002. Er stærð spildunnar 5.000 fermertrar og er hún hluti af svonefndu Ísleifsstaðatúni. Úrslit málsins velta á því hvort landsvæði þetta sé í einkaeigu Ingibjargar og Brynhildar eða hvort um sé að ræða óskipt land jarðarinnar.

             Jörðin Akrar er í óskiptri sameign jarðeiganda að því frátöldu að einstaka spildum hefur verið ráðstafað til eignar eða á leigu. Þá var gerður samningur um skipti á túni jarðarinnar og ræktarlandi 26. júní 1955. Samkvæmt því samkomulagi kom fyrrgreint Ísleifsstaðatún í hlut Guðmundar Benediktssonar, en Ingibjörg og Brynhildur leiða rétt sinn frá honum, eins og áður er komið fram. Málsaðilar deila hins vegar um hvort samningurinn hafi falið í sér skipti á landi jarðarinnar eða nytjaskipti án þess að breyting hafi verið gerð á eignarhaldi landsins.

Hvað sem líður þeim ágreiningi aðila verður ekki hjá því litið að Ólafur skuldbatt sig ekki með undirritun sinni undir samninginn, en við gerð hans hafði Ólafur fengið afsal frá föðurbróður sínum Þorkeli Benediktssyni útgefið og móttekið til þinglýsingar 15. júní 1954. Þannig var Ólafur við umrædd landskipti eigandi að jörðinni til jafns við föður sinn Þórð Benediktsson og föðurbróður Guðmund Benediktsson.

Af hálfu sóknaraðila var því hreyft við munnlegan flutning málsins að Ólafur hafi með eftirfarandi aðgerðum sínum orðið skuldbundinn af umræddum samningi um landskipti. Fyrir þessu hafa hins vegar ekki verið færð viðhlítandi rök. Þvert á móti tók Ólafur fram í kaupsamningi 29. júlí 1988 og í afsali 15. ágúst 1989 til varnaraðila að landskipti hefðu ekki farið fram milli Akra I, Akra II og Akra III og getur í engu um samninginn um landskiptin frá 26. júní 1955. Þar fyrir utan virðast eigendur jarðarinnar hafa litið svo á að nauðsynlegt væri að allir jarðeigendur kæmu að ráðstöfunum á spildum úr jörðinni og á það jafnvel við þótt um hafi verið að ræða landsvæði sem umræddur samningur um landskipti tók til, eins og þegar Þórunn Tómasdóttir Gröndal fékk spildu úr jörðinni norður af hlöðu Akra III með samkomulagi í apríl 2002.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að varnaraðili, sem leiðir eignarheimild sína frá Ólafi Þórðarsyni, sé bundinn af samningnum um landskipti frá 26. júní 1955. Brast Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildi Pálsdóttur því þinglýsta heimild til að ráðstafa spildu úr Ísleifsstaðatúni til sóknaraðila. Að þessu gættu verður því kröfu sóknaraðila hafnað og stendur því óhögguð ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi frá 3. maí 2004.

Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, svo sem í úrskurðarorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A O R Ð:

             Hafnað er kröfu sóknaraðila, Einars Oddssonar, um að felld verði út gildi ákvörðun sýslumannsins í Borgarnesi frá 3. maí 2004 um að afmá úr þinglýsingabókum lóðarleigusamning 31. ágúst 2002 um spildu úr landi Akra í Borgarbyggð, milli annars vegar sóknaraðila sem leigutaka og hins vegar Ingibjörgu Jóhannsdóttur og Brynhildar Pálsdóttur sem leigusala, og stofnskjal 21. mars 2003 um sömu spildu.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Magnúsi Tómassyni, 120.000 krónur í málskostnað.