Hæstiréttur íslands

Mál nr. 93/2000


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Þjófnaður
  • Tilraun


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. maí 2000.

Nr. 93/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sigurði Pétri Sigurðssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

                                              

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Þjófnaður. Tilraun.

S var ákærður fyrir ölvunarakstur, akstur sviptur ökuréttindum og þjófnað með þremur ákæruskjölum. Hann viðurkenndi fyrstgreindu háttsemina en taldi hins vegar að taka ætti tillit til vikmarka og vafa við heimfærslu hennar til 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Talið var, að S hefði notið alls vafa við ákvörðun alkóhólmagns í blóði með því að gerðar höfðu verið tvær sjálfstæðar mælingar og vikmörk ætluð frá miðtölugildi þeirra. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að heimfæra háttsemi hans til 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 50/1987, auk þess sem sakfelling S fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. var staðfest. Samanlögð refsing þótti hæfilega ákveðin í dómum héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar og 10. febrúar 2000 og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að samanlögð refsing, sem ákærða var gert að sæta með dómunum, verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 28. september 1999, en að öðru leyti að refsing samkvæmt héraðsdómunum verði milduð.

I.

Í málinu er ákærði borinn sökum með þremur ákærum. Í þeirri fyrstu, sem gefin var út 7. september 1999, var honum gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, með því að hafa 21. ágúst 1999 ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Þá var ákærði sóttur til saka með ákæru 28. september 1999 fyrir brot gegn 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi við nafngreindan mann að kvöldi 3. september 1999 farið í auðgunarskyni inn í íbúðarhús og leitað þar verðmæta. Loks var ákærði saksóttur með ákæru 1. febrúar 2000 fyrir að hafa 19. ágúst 1999 ekið bifreið sviptur ökurétti.

II.

Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru 7. september 1999. Hann andmælir ekki þeim niðurstöðum rannsókna á blóðsýni, sem héraðsdómur byggði á, en telur hins vegar að taka eigi tillit til vikmarka og vafa við heimfærslu háttseminnar til 45. gr. umferðarlaga og eigi hún þá undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. greinarinnar.

 Samkvæmt gögnum málsins voru gerðar tvær mælingar á blóði ákærða. Reyndist magn vínanda 1,33‰ við þá fyrri, en 1,34‰ við þá síðari. Meðaltal mælinganna var reiknað 1,34‰, frávik frá meðaltalinu 0,13‰ og endanleg niðurstaða 1,21‰. Ákærði telur sig ekki mundu njóta alls vafa nema miðað yrði við lægri tölu úr mælingu honum til hagsbóta. Hefði það verið gert hefði útkoman orðið 1,197‰, sem sé undir 1,20‰ mörkum 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga.

Í dómi Hæstaréttar 4. mars 1999 í málinu nr. 437/1998 var því lýst, að teknar hafi verið upp nýjar vinnureglur við að ákveða alkóhól í blóði. Gerðar séu tvær sjálfstæðar mælingar í stað einnar áður og tekið meðaltal. Var því slegið föstu, að með þessari nýju aðferð væri rétt að halda þeirri venju að ætla vikmörk frá miðtölugildi 10%, en þó ekki minna en sem svari 0,10‰ vínanda í blóði. Þessari aðferð hefur verið beitt í máli því, sem hér er til úrlausnar, og hefur ákærði því notið alls vafa. Eru andmæli hans því haldlaus. Verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða samkvæmt ákærunni.

III.

Ákærði krefst sýknu af ákæru 28. september 1999, sem hann var sakfelldur fyrir í héraði. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst framburði ákærða og meðákærða í héraði um för þeirra í kjallara hússins að Faxaskjóli 4 greindan dag. Meðákærði bar við lögreglurannsókn að ákærði hefði kallað til sín í kjallaranum: „Ég er kominn með læknatösku“, en hann hafi þá sagt: „Láttu hana vera“. Fyrir héraðsdómi bar meðákærði að á vettvangi hefði hann heyrt ákærða kalla til sín að ákærði væri með tösku. Við vettvangsrannsókn lögreglu kom fram að læknistaska í eigu húsráðanda hefði verið færð úr stað, en þó ekki opnuð. Að öllu þessu virtu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er fallist á þá niðurstöðu hans að ekki sé varhugavert að telja sannað að ákærði hafi farið inn í kjallarann í þjófnaðarskyni. Verður hann því staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann fimm sinnum áður sætt refsingu vegna ölvunaraksturs, eitt skipti eingöngu fyrir akstur án ökuréttar og þrívegis fyrir þjófnað. Að virtum sakaferli ákærða og að gættum ákvæðum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjuðu dómum.

Ákvæði héraðsdóma um sakarkostnað eru staðfest. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Pétur Sigurðsson, sæti fangelsi fjóra mánuði.

Ákvæði héraðsdóma um sakarkostnað eru staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2000.

Málið er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans í Reykjavík á hendur ákærðu, [...] og Sigurði Pétri Sigurðssyni, kt. 131071-4349, Viðarási 1, Reykjavík.

Í fyrsta lagi með ákæru, dagsettri 7. september sl. á hendur ákærða Sigurði Pétri einum, ”fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni GD-444, laugardaginn 21. ágúst 1999, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti norður Vatnagarða í Reykjavík.

Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48,1997 og 3. gr. laga nr. 57,1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44,1993 og 2. gr. laga nr. 23,1998”.

Í öðru lagi með ákæru, dagsettri 28. sama mánaðar á hendur báðum ákærðu, ”fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í félagi að kvöldi föstudagsins 3. sept­ember 1999, farið í auðgunarskyni inn í íbúðarhúsið að Faxaskjóli 4, Reykjavík, og leitað þar verðmæta og er húsráðandi kom að ákærðu á vettvangi flúði ákærði, [...], með lyklakippu að húsinu, en húsráðandi kom í veg fyrir að ákærði, Sigurður Pétur, flýði einnig þar til lögregla kom á vettvang.

Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar”.

Málavextir

I.

Ákærði Sigurður Pétur hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni GD-444 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti laugardagin 21. ágúst sl.  Í blóði ákærða mældust 1, 21 ‰ af vínanda.  Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt 5. ágúst sl.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsi­ákvæða. 

II.

Föstudaginn 3. september sl. var hringt til lögreglunnar í Reykjavík frá Faxa­skjóli 4 hér í borg og tilkynnt um innbrot.  Fóru lögreglumenn á vettvang og þegar þeir komu þangað var húsráðandinn, Sigurður Árnason, kt. 100449-8039, með mann í tökum úti á gangstétt.  Reyndist það vera ákærði, Sigurður Pétur.  Var hann hand­tekinn.  Húsráðandinn saknaði lyklakippu og kom hún í leitirnar þegar ákærði, [...], vísaði á hana heima hjá sér.  Verður nú rakið það sem fram hefur komið við meðferð málsins fyrir dómi.

   Ákærði, Sigurður Pétur, neitar sök.  Hann hefur sagt að hann hafa hitt með­ákærða, [...] í Sörlaskjóli 50 þennan dag.  Hjá lögreglunni bar hann hins vegar að þeir hefðu hist niðri í bæ og þeir hafi tekið saman leigubíl vestur eftir.  Hann segist hafa dregist inn á það að fara með [...] þarna inn í húsið því að [...]hafi sagt að hann þekkti húsráðanda.  Útidyrnar hafi verið galopnar og meðákærði beðið sig um að hinkra í ganginum á meðan hann brá sér inn fyrir.  Ákærði segist svo hafa þurft að fara á salerni, sem var innst inni í íbúðinni.  Þegar hann kom út aftur hafi húsráðandi verið kominn og [...] hlaupinn í burtu.  Segist hann alls ekki hafa ætlað að stela þarna nokkru og verið þarna í góðri trú.

   Ákærði, [...], neitar einnig sök.  Hann hefur sagt að hann hafi farið inn í húsið í Faxa­skjóli 4 með Sigurði Pétri, þar sem hann taldi að hann ætti heima þar.  Hefði hann enda verið búinn að bjóða sér heim.  Þeir hafi báðir verið drukknir.  Hann segist þekkja Sigurð Pétur „óljóst”.  Hafi þeir gengið inn um útidyrnar og Sigurður Pétur gengið þar inn og hafi hann talið að þeir væru komnir heim til hans.  Hann segist ekki hafa tekið eftir því hvort dyrnar væru opnar, lokaðar eða læstar en hann hafi gengið rakleiðis inn á eftir Sigurði Pétri.  Hann neitar því að þeir hafi farið inn um glugga.  Segir hann Sigurð Pétur hafa vísað sér inn í herbergi.  Hann kveðst svo hafa heyrt meðákærða kalla að hann væri með tösku og kveðst hann þá hafa fengið hugboð um að ekki væri allt með felldu.  Hann neitar því að hafa verið að gramsa í hirslum þarna í herberginu.  Ákærði segist ekki muna hvernig á lyklakippunnni standi.  Hann neitar því að hafa hlaupið út úr húsinu heldur segist hann hafa gengið út úr húsinu þegar meðákærði kallaði upp og ákærði heyrði einhverja skruðn­inga frá honum um leið.  Hann segist ekki hafa séð neinn annan þarna og ekki hafa séð til meðákærða þegar hann gekk út úr húsinu.

Sigurður Árnason, húsráðandi í Faxaskjóli 4, segist hafa verið staddur uppi í stofu í húsi sínu, sem er tvílyft einbýlis­hús með kjallara.  Stofan sé á miðhæðinni og hafi hann heyrt umgang í kjallaranum, en þar séu aðeins herbergi en ekki sjálfstæð íbúð.  Þar sem ekki var kallað neðan úr kjallaranum og spurt hvort einhver væri heima eins og venja sé hjá heimilisfólkinu hafi hann farið að athuga þetta.  Þegar hann kom niður hafi hann fundið reykingarlykt og séð að útidyrnar voru opnar og þá séð að ekki var allt með felldu en þær séu alltaf hafðar vendilega læstar.  Segist hann hafa gengið þar um sjálfur hálf­tíma áður og læst.  Dyrnar séu ekki kviklæstar og einungis hægt að opna dyrnar innanfrá og einnig með lykli utanfrá.  Hann hafi svo komið að manni sem hefði verið að róta í skrifborði.  Maður sá hafi verið frekar hávaxinn, grannur og lotinn og með áberandi nef eins og ákærði [...] -sem er með kónganef- og vitnið  hefur séð í dóminum.  Maður þessi hafi æpt upp „Siggi, Siggi, komdu”, og horfið.  Næst hafi annar maður komið út af klósetti og segist vitnið hafa tekið hann og haldið þar til lögreglan kom.  Hann segist hafa séð merki þess að mennirnir hefðu komið inn í kjallarann um þvottahúsglugga.  Hafi glugginn verið galopinn og óhrein­indi í gluggakistu, á veggn­um og á gólfi. Þá hafi læknistaska hans, sem geymd sé í skáp verið komin fram á gang, og eins hafi verið búið að róta í fatahengi sem er á vegg og taka þaðan lyklakippu, sem lögreglan hafi svo fært þeim.

   Katrín Eva Erlarsdóttir lögreglumaður, hefur skýrt frá því að þegar þau lög­reglumennirnir komu á vettvang hafi húsráðandi verið með mann í tökum fyrir utan húsið og sagt að mennirnir hefðu verið tveir.  Á eftir hafi hann sýnt þeim lögreglu­mönnunum hvernig umhorfs var í kjallaranum.  Hefði verið búið að róta, að hans sögn, inni í tölvuherbergi, færa til læknistösku hans og eins hefði þvottahúsgluggi verið opinn en hún segist ekki muna eftir óhreinindum eða raski við gluggann.  Þá hafi húsráðandi sagt að útidyrnar á kjallaranum hefðu verið opnar þegar hann kom þangað niður.

   Ólafur Páll Magnússon lögreglumaður, segist hafa komið á vettvang ásamt Katrínu Evu lögreglumanni.  Hafi húsráðandi verið þar fyrir með mann í tökum, Sigurð að nafni.  Segist hann hafa leitað á manni þessum en ekki fundið neitt sem saknað var úr húsinu og hafi hann hand­járnað manninn og lokað hann inni í lögreglubíl.  Hann segist ekki hafa rann­sakað vettvanginn en Katrín Eva hafi tekið það að sér.  Sigurður þessi hafi gefið þá skýringu á veru sinni í húsinu að maður sem hann kallaði [...], hafi sagst vera í einhverjum tengslum við íbúana og hefði [...] dregið sig þangað inn og hefðu þeir farið inn um dyrnar.

   Úlfar Jónsson rannsóknarlögreglu­maður, segist hafa tekið skýrslur af báðum ákærðu vegna málsins 4. september sl.  Hafi ákærði [...] talað um að heima hjá honum væru lyklar sem hann kannaðist ekki við.  Þeir hafi því farið með ákærða heim til hans, sótt lyklana og skilað þeim í Faxaskjól 4.  Þar hafi verið fyrir dóttir hús­ráð­anda sem kannaðist við lyklana.  Hann segist hafa athugað þvottahúsgluggann sem snúi út að bílskúr.  Opnanlegt fag á þeim glugga hafi verið 36 cm á breidd og 41 cm á hæð og því auðvelt fyrir mann að komast þarna inn.  Gluggajárnið hafi verið gamaldags gatajárn.  Stúlkan hafi talað um að þvottur sem hefði legið á borði undir glugganum hefði verið kominn niður á gólf og segir hann þvottinn hafa legið ennþá á gólfinu.  Þá hafi vírnetsrammi sem hafður sé innan á glugganum verið kominn úr skorðum og legið þarna hjá.  Hann segist ekki hafa tekið eftir fótsporum eða óhrein­indum í eða við gluggann.

Niðurstaða

Frásögn ákærðu um ástæðu þess að þeir fór inn í kjallarann í Faxaskjóli 4 er ósamrýmanleg og fjarstæðukennd.  Þá er ljóst af frásögn Sigurðar Árnasonar að rótað hafði verið til í kjallaranum og einnig verður að telja upplýst með vætti Sigurðar og Úlfars Jónssonar rannsóknarlögreglu­manns, að þangað hafði verið farið inn um þvotta­húsgluggann.  Loks ber Sigurður að ákærði, [...], hafi hrópað á með­ákærða þegar Sigurður birtist í kjallaranum.  Er ekki varhugavert að telja sannað að ákærðu hafi farið inn í kjallarann í þjófnaðarskyni og þannig brotið gegn 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.  

Viðurlög og sakarkostnaður

Ákærði, Sigurður Pétur, hefur til þessa hlotið sjö refsidóma, ýmist fyrir hegn­ingar- eða umferðarlagabrot.  Síðast var hann dæmdur í 3ja mánaða fangelsi 5. ágúst sl.  Auk þess hefur hann verið sektaður sex sinnum fyrir ýmis brot.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði, [...], hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot en aftur á móti hefur hann hlotið þrjá dóma fyrir skjalafals og þá í eitt skiptið fyrir stórfellda líkamsárás.  Þá hefur honum verið refsað fimmtán sinnum fyrir ýmisleg brot, aðallega ölvun og réttindaleysi við akstur.  Ákærði hafði þó ekki brotið af sér frá því í októberr 1995 þegar mál þetta kom upp.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Dæma ber ákærða, Sigurð Pétur, til þess að vera sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Dæma ber ákærða, Sigurð Pétur, til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 45.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða, [...], til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. 65.000 krónur í málsvarnarlaun.  Kostnað vegna alkóhólrannsóknar, 8.950 krónur, greiði ákærði, Sigurður Pétur, en ekki er kunnugt um annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð

Ákærði, Sigurður Pétur Sigurðsson, sæti fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði, [...], sæti fangelsi í 60 daga. Frestað er fram­kvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skil­orð hegningarlaganna.

Ákærði, Sigurður Pétur, sæti sviptingu ökuréttar ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði, Sigurður Pétur, greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 45.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, [...], greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl. 65.000 krónur í málsvarnarlaun. 

Sakarkostnað vegna alkóhólrannsóknar greiði ákærði, Sigurður Pétur.

                                                                  

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 10. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 220/2000:  Ákæruvaldið (Sturla Þórðarson) gegn Sigurði Pétri Sigurðssyni (Kristján Stefánsson hrl.) sem tekið var til dóms samdægurs.

                Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 1. febrúar  sl. á hendur ákærða, Sigurði Pétri Sigurðssyni, kt. 301071-4349, Viðarási 1, Reykja­vík, "fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni GD-444, að kvöldi fimmtu­dagsins 19. ágúst 1999, sviptur ökurétti, frá Valshólum í Reykjavík, uns lög­regla stöðvaði aksturinn á Stekkjarbakka, skammt vestan Höfðabakka.

                Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57,1997.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar".

                Málavextir.

                Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.  Þykir refsing hans, sem er hegningarauki, vera hæfilega ákveðin fangelsi í  30 daga.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjandans, Kristjáns Stefánssonar hrl., 30.000 krónur.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Sigurður Pétur Sigurðsson, sæti fangelsi í 30 daga.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hrl., 30.000 krónur.