Hæstiréttur íslands

Mál nr. 343/2005


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2006.

Nr. 343/2005.

Lýsing hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Móa hf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Sératkvæði.

Fyrirtækið M hf. leitaði heimildar til greiðslustöðvunar 19. desember 2002, sem fallist var á með úrskurði 27. sama mánaðar. Síðar fékk félagið heimild til að leita nauðasamninga og var að lokum tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Þrotabú félagsins krafðist riftunar ýmissa greiðslna vegna vanskila þess við L hf. Fallist var á riftun greiðslu, sem fólst í yfirtöku L hf. á fasteign í eigu M hf., samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. M hf. hafði enn fremur greitt inn á vanskilaskuldina með sjö víxlum, sem ýmist fóru fram á greiðslustöðvunartíma eða meðan leitað var nauðasamninga án þess að fyrir lægi að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun og umsjónarmaður með nauðasamningsumleitun hefði samþykkt þær. Talið var að heimilt hefði verið að rifta þessum greiðslum hvort heldur væri samkvæmt 134. gr. eða 139. gr. laga nr. 21/1991, enda væru þar um að ræða sjálfstæðar og valkvæðar heimildir. Bar L hf. því að endurgreiða þrotabúi M hf. fjárhæð, sem svaraði til þessara greiðslna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. ágúst 2005. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar til nýrrar dómsálagningar. Til vara krefst hann sýknu af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 11. október 2005. Hann krefst þess aðallega að staðfest verði riftun á greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við aðaláfrýjanda að fjárhæð 40.059.276 krónur og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að endurgreiða gagnáfrýjanda samtals 30.687.013 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.382.424 krónum frá 1. september 2002 til 1. maí 2003, af 18.851.174 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 25.440.348 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 26.605.348 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 27.850.080 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 29.412.175 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, en síðan af 30.687.013 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann riftunar sömu greiðslu og í aðalkröfu og að aðaláfrýjanda verð gert að endurgreiða gagnáfrýjanda 17.382.424 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í aðal- og varakröfu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Ómerkingarkrafa aðaláfrýjanda er á því reist að samkvæmt dómsorði héraðsdóms sé rift sölu fasteignar og afhendingu víxla. Ákvæði 134. gr. og 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem riftunarkrafa gagnáfrýjanda sé byggð á, heimili riftun á greiðslu skuldar við tiltekin skilyrði enda hafi krafa gagnáfrýjanda verið um riftun á greiðslu viðskiptaskuldar. Dómsorðið sé því ekki í samræmi við kröfugerðina og beri því að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu aftur í hérað til dómsálagningar að nýju. Fallist er á það með aðaláfrýjanda að dómsorðið sé ekki í samræmi við kröfugerð gagnáfrýjanda. Hins vegar er í forsendum héraðsdóms tekin afstaða til kröfugerðar og málsástæðna gagnáfrýjanda á réttum grundvelli og er því ekki þörf á því að ómerkja héraðsdóm vegna framangreindra galla á dómsorði.

II.

Fram er komið að Móar hf. hafði staðið í viðskiptasambandi við aðaláfrýjanda um nokkurt skeið. Fólust viðskiptin í því að Móar hf. leigði með fjármögnunarleigusamningi ýmsa muni af aðaláfrýjanda til notkunar í rekstri félagsins og var þar aðallega um að ræða vinnslulínu sem notuð var í sláturhúsi þess. Í héraðsdómi kemur fram að beiðni Móa hf. um heimild til greiðslustöðvunar barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. desember 2002 og var fallist á hana með úrskurði 27. þess mánaðar. Þá var Móum hf. veitt heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði 9. apríl 2003. Lauk þá greiðslustöðvun samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 23. gr. laga um gjaldþrotaskipti og við tók tímabil þar sem gætti sambærilegra réttaráhrifa og við greiðslustöðvun, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Með dómi Hæstaréttar 7. október 2003 í máli nr. 303/2003 var hafnað kröfu félagsins um staðfestingu nauðasamnings og féll þá endanlega niður heimildin til að leita hans samkvæmt 6. tölulið 41. gr., sbr. 59. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Bú Móa hf. var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 2. gr. sömu laga var frestdagur við skiptin því 19. desember 2002.

 

 

III.

 Hinn 30. ágúst 2002 var gert samkomulag milli aðaláfrýjanda og Móa hf. vegna vanskila þess síðarnefnda. Samkvæmt samkomulaginu skyldi aðaláfrýjandi kaupa fasteignina að Bæjarflöt 6 í Reykjavík af Móum hf. fyrir 46.500.000 krónur. Kaupverðið yrði greitt með yfirtöku áhvílandi skulda og með greiðslu inn á vanskil Móa hf. hjá stefnda, sem varð 12.882.424 krónur. Auk þess veitti aðaláfrýjandi félaginu 4.500.000 króna afslátt af vanskilum. Miðar gagnááfrýjandi við að með kaupunum hafi aðaláfrýjandi fengið greiðslu alls að fjárhæð 17.382.424 krónur. Kaupsamningur um fasteignina var dagsettur 15. október 2002. Ekki verður á það fallist að þessi afsláttur hafi komið aðaláfrýjanda að notum sem greiðsla í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti og verður því ekki fallist á endurkröfu þeirrar fjárhæðar. Samkvæmt framangreindu samkomulagi aðaláfrýjanda og Móa hf. voru vanskilaskuldir félagsins að fjárhæð 12.882.424 krónur greiddar með yfirtöku hans á fasteigninni. Greitt var innan sex mánaða fyrir frestdag. Yfirtaka fasteigna var ekki venjulegur greiðslumáti í viðskiptum aðila. Ber að fallast á riftun greiðslu greindrar fjárhæðar samkvæmt 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti og niðurstöðu héraðsdóms um endurgreiðslu fjárhæðarinnar með vöxtum svo sem þar greinir.

IV.

 Samkvæmt skýrslu aðstoðarmanns Móa hf. á greiðslustöðvunartímanum stöðvaði viðskiptabanki félagsins öll viðskipti við það á þeim tíma, og hafi það gert rekstur þess mjög erfiðan. Vegna þessa hafi verið samið við stærstu viðskiptavini félagsins um að þeir greiddu andvirði keyptra afurða með viðskiptavíxlum. Víxlum þessum hafi svo verið ráðstafað sem greiðslu til annarra. Samkvæmt gögnum málsins greiddu Móar hf. aðaláfrýjanda með sjö slíkum víxlum að nafnvirði 22.083.744 krónur. Aðilar eru sammála um að af andvirði þessara víxla hafi aðaláfrýjandi fengið alls 13.304.589 krónur, sem þannig hafi nýst honum sem greiðsla á kröfum á hendur Móum hf., en afganginn hafi hann greitt félaginu í peningum. Fram er komið að í viðskiptum aðaláfrýjanda og Móa hf. höfðu greiðslur farið fram í peningum fyrir greiðslustöðvun félagsins. Almennt séð var því greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Það gat ekki farið fram hjá aðaláfrýjanda hver greiðslugeta Móa hf. var á þessum tíma. Af gögnum málsins verður ekki séð að greiðslur Móa hf. til aðaláfrýjanda, hvorki á meðan greiðslustöðvun stóð né nauðasamningsumleitunum, hafi fylgt gjalddögum og fjárhæðum fjármögnunarleigusamningsins. Var því ótvírætt um greiðslu á vanskilaskuld að ræða. Ein af þessum greiðslum fór fram á greiðslustöðvunartíma en hinar meðan leitað var nauðasamnings. Til þess að greiðslurnar væru heimilar urðu aðstoðarmaður við greiðslustöðvun og umsjónarmaður með nauðasamningsumleitun að samþykkja þær. Umsjónarmaðurinn sagðist í skýrslu ekki hafa samþykkt greiðslu nokkurra skulda og ósannað er að aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartímanum hafi samþykkt þessar greiðslur. Verður ekki annað af gögnum málsins ráðið en að riftun þessara greiðslna sé heimil hvort heldur er samkvæmt 134. gr. eða 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti, en hér er um að ræða sjálfstæðar og valkvæðar heimildir. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun og endurgreiðslu að þessu leyti, svo og ákvæði hans um vexti.

Samkvæmt þessari niðurstöðu skal aðaláfrýjandi greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennd er riftun á greiðslum Móa hf. til aðaláfrýjanda, Lýsingar hf., með kaupsamningi 15. október 2002 um fasteignina Bæjarflöt 6, Reykjavík og með sjö viðskiptavíxlum, samtals að fjárhæð 22.083.744 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda, þrotabúi Móa hf., 26.187.013 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 2005 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 800.000 krónur.


                        Sératkvæði      

                        Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er sammála I., II. og III. kafla í atkvæði meirihluta dómenda. Gagnáfrýjandi reisir kröfu sína um riftun á greiðslum Móa hf. til aðaláfrýjanda eftir frestdag, á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en einnig á 1. mgr. 139. gr. sem og sjálfstætt á 141. gr. laganna. Ákvæði XX. kafla laganna, um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl., hafa að geyma sérstakar reglur sem heimila riftun á greiðslu og ýmissa annarra ráðstafana þrotamanns að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Er í einstökum greinum kaflans fjallað um mismunandi tilvik þess að heimilt sé að víkja frá þeirri meginreglu að samningar séu skuldbindandi milli aðila. Í 134. gr. er kveðið á um heimild til riftunar greiðslu sem farið hefur fram á tilteknu tímamarki fyrir frestdag. Hins vegar fjallar 139. gr. um riftun á greiðslu skuldar eða annarra ráðstafana þrotamanns sem farið hafa fram eftir frestdag. Þá hefur 141. gr. laganna ekki að geyma sérstök tímamörk í þessu sambandi líkt og tvö áðurnefndu ákvæðin.

Greiðslur þær sem um er fjallað í IV. kafla atkvæðis meirihlutans voru inntar af hendi eftir frestdag. Í því tilviki á 1. mgr. 139. gr. við, en ekki 134. gr. laganna. Ég tel skilyrðum fyrrnefnda ákvæðisins fullnægt. Að þessu gættu er ég sammála forsendum meirihlutans og einnig niðurstöðu þeirra um málskostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 12. júlí 2004 og tekið til dóms 19. apríl sl. Stefnandi er Þrotabú Móa hf., Hafnarstræti 20, Reykjavík. Stefndi er Lýsing hf., Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Endanlegar kröfur stefnanda eru, aðallega, að staðfest verði með dómi riftun greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda að fjárhæð 40.059.276 krónur og stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda samtals 30.687.013 krónur ásamt dráttar­vöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 17.382.424 krónum frá 1. september 2002 til 1. maí 2003, af 18.851.174 krónum frá þeim degi til 1. júní 2003, af 25.440.348 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, af 26.605.348 krónum frá þeim degi til 1. september 2003, af 27.850.080 krónum frá þeim degi til 1. október 2003, af 29.412.175 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2003, og af 30.687.013 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi að staðfest verði með dómi riftun greiðslu sömu skuldar, en stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 17.382.424 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. september 2002. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

I.

Málsatvik

Atvik málsins eru ágreiningslaus. Bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 5. nóvember 2003. Áður hafði félagið haft heimild til greiðslustöðvunar frá 27. desember 2002 til 8. apríl 2003, en beiðni um greiðslustöðvun barst héraðsdómi fyrst 19. desember 2002 sem telst frestdagur við gjaldþrotaskiptin. Áður en greiðslustöðvunartímanum var lokið, þ.e. 2. apríl 2004, lögðu Móar hf. fram beiðni um heimild til að leita nauðasamninga. Með úrskurði héraðsdóms 7. apríl 2003 var Móum hf. veitt umbeðin heimild. Með úrskurði héraðsdóms 22. júlí 2003 var staðfestur nauðasamningur Móa hf. við lánadrottna sína. Úrskurður héraðsdóms var hins vegar felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 7. október 2003. Degi síðar, þ.e. 8. október 2004, krafðist einn af lánadrottnum Móa hf. þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Lyktaði þeirri beiðni með úrskurði um gjaldþrotaskipti 5. nóvember 2004 sem áður greinir.

Af gögnum málsins verður ráðið að málsaðilar hafi átt í viðvarandi viðskiptum sem fólust í því að Móar hf. leigðu af stefnda, á grundvelli fjármögnunarleigusamnings, ýmsa muni til notkunar í rekstri sínu, einkum sláturlínu sem notuð var í sláturhúsi félagsins í Mosfellsbæ. Samkvæmt skýrslu endurskoðenda sem gerð var að tilhlutan skiptastjóra stefnanda nam skuld Móa hf. við stefnda 176.873.457 krónum 1. september 2001. Samkvæmt skýrslunni námu úttektir Móa hf. hjá stefnda á tímabilinu 1. september 2001 til 5. nóvember 2003 alls 44.665.843 krónum.

Samkvæmt aðilaskýrslu Ólafs Helga Ólafssonar framkvæmdastjóra stefnda höfðu um nokkurt skeið átt sér stað óformlegar viðræður um vanskil Móa hf. við stefnda. Með bréfi 25. janúar 2002 var Móum hf. sent bréf þar sem óskað var eftir fundi með forsvarsmönnum félagsins vegna vanskila þess. Samkvæmt bréfi stefnda 5. febrúar sama árs, sem ritað var í framhaldi af fundi forsvarsmanna Móa hf. og stefnda, samþykkti stefndi að skuldbreyta hluta af vanskilum stefnda og breyta skilmálum samninga með nánar tilteknum hætti. Samkvæmt aðilaskýrslu Ólafs Helga Ólafssonar framkvæmdastjóra stefnda byggði afstaða stefnda á yfirlýsingum forsvarsmanna Móa hf. um að í félaginu væru duldar eignir í formi fasteigna svo og að von væri á hlutafjáraukningu. Þrátt fyrir framangreindar tilslakanir stefnda tókst Móum hf. ekki að standa í skilum.

Hinn 30. ágúst 2002 var gert samkomulag milli stefnda og Móa hf. vegna vanskila hins síðarnefnda. Samkvæmt samkomulaginu keypti stefndi fasteignina að Bæjarflöt 6 af Móum hf. á 46,5 milljónir króna, en áður hafði löggiltur fasteignasali metið eignina á 47,5 milljónir. Kaupverðið skyldi annars vegar greiðast með yfirtöku áhvílandi veðskulda, en hins vegar með greiðslu vanskila Móa hf. hjá stefnda. Samkvæmt upplýsingum stefnda, sem ekki er deilt um í málinu nam mismunur áhvílandi veðskulda og gjalda sem stefndi greiddi annars vegar og tilgreinds söluverðs hins vegar alls 12.882.424 krónum. Hins vegar sagði í samkomulaginu að stefndi myndi veita afslátt af vanskilum sem næmi 4,5 milljónum. Er í málatilbúnaði stefnanda miðað við að stefndi hafi því með kaupum eignarinnar fengið greiðslu sem nemur 17.382.424 krónum, eins og nánar greinir síðar í umfjöllun um málsástæður og lagarök hans. Þá kom fram í samkomulaginu að ef stefnda tækist að selja eignina fyrir hærri fjárhæð en sem næmi 48 milljónum fyrir næstu áramót skyldi því, sem umfram væri, ráðstafað inn á samning Móa hf. Þá var í samkomulaginu kveðið á um breytingar á samningum Móa hf. við stefnda auk þess sem Móar hf. skuldbundu sig til að ráðast ekki í fjárfrekar framkvæmdir eða fjárfestingar án samráðs við stefnda. Einnig kom fram í samkomulaginu að Móar hf. hefðu í hyggju að auka hlutafé sitt um a.m.k. 250 milljónir króna fyrir næstkomandi áramót. Kaupsamningur um fasteignina er dagsettur 15. október 2002.

Samkvæmt aðilaskýrslu Ólafs Helga Ólafssonar framkvæmdastjóra stefnda var umrætt samkomulag gert til þess að rekstur stefnda gæti haldið áfram og hlutafjáraukning væri möguleg. Samkvæmt skýrslu hans var umrædd eign keypt á 46,5 milljónir, enda hafi eignin ekki selst á því verði sem Móar hf. höfðu sett upp sem var um 57 milljónir. Sá afsláttur að fjárhæð 4,5 milljónir, sem kveðið hafi verið á um í samkomulaginu, hafi verið áfallnir dráttarvextir og innheimtukostnaður. Í skýrslu nefnds Ólafs Helga kom fram að stefndi hafi svo selt umrædda eign í nóvember 2003, þá þannig að eignin hafi verið notuð í skiptum við kaup á annarri fasteign. Eignin hafi í þessum skiptum verið metin á 50 milljónir.

Eins og áður greinir fengu Móar hf. heimild til greiðslustöðvunar 27. desember 2002, en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 5. nóvember sama árs. Samkvæmt skýrslu skipaðs aðstoðarmanns Móa hf. á greiðslustöðvunartímanum hafði viðskiptabanki félagsins stöðvað öll viðskipti félagsins á þessum tíma sem gerði rekstur þess mjög erfiðan. Hafi því stærstu viðskiptavinir félagsins verið settir í viðskipti með víxla og það gert með vitund og samþykki bankans. Víxlum þessum hafi svo í nokkrum tilvikum verið ráðstafað sem greiðslu til annarra með skriflegu samþykki aðstoðarmanns. Samkvæmt gögnum, sem stefnandi hefur lagt fram, inntu Móar hf. á þessu tímabili greiðslur af hendi til stefnda með alls sjö víxlum sem gefnir voru út af þriðju aðilum, samanlagt að nafnvirði 22.083.744 krónur. Er ágreiningslaust með aðilum að andvirði þessara víxla hafi numið 13.304.589 krónum.

Hinn 5. nóvember 2003, þegar bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta nam skuld félagsins við stefnda 177.436.652 krónum samkvæmt upphaflegri könnun endurskoðenda stefnanda, en úttektir Móa hf. hjá stefnda á tímabilinu 1. september 2001 til 5. nóvember 2003 námu alls 44.665.843 krónum. Það athugast þó að samkvæmt leiðréttingum endurskoðendanna, sem fram koma í bréfi 29. mars 2005 og lagt var fram undir meðferð málsins, munu vanskil félagsins við stefnda þó hafa numið nokkru hærri fjárhæð, en endanlegar tölur um þetta atriði hafa ekki verið settar fram. Á tímabilinu 1. september 2001 til 5. nóvember 2003 greiddi stefndi 22.083.744 krónur með peningum en aðrar greiðslur voru í formi framangreindrar fasteignar og þriðju manns víxla. Eins og áður greinir eru aðilar sammála um að andvirði þessara víxla hafi numið 13.304.589 krónum. Að því er varðar andvirði fasteignarinnar að Bæjarflöt 6 er ágreiningslaust að mismunur kaupverðs og áhvílandi veðskulda auk gjalda nam  12.882.424 krónum. Aðilar deila hins vegar um hvort líta beri svo á, að sá afsláttur á vanskilum að fjárhæð 4,5 milljónir, sem kveðið var á um í tengslum við þessi fasteignaviðskipti, skuli bætast við þessa fjárhæð. Að öðru leyti er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum í málinu.

Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Ólafur Helgi Ólafsson framkvæmdastjóri auk þess sem fyrir dóminn kom sem vitni Friðbjörn Björnsson löggiltur endurskoðandi. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að almenn skilyrði til riftunar séu fyrir hendi. Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa til að fá fullnustu krafna aukist ef riftun nái fram að ganga og einnig sé ljóst að greiðsla viðskiptaskuldarinnar til stefnda hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar kröfuhafa.

Kröfu sína um riftun byggir stefnandi í fyrsta lagi á því að greiðsla viðskiptaskuldar Móa hf. hafi verið innt af hendi með þriðjamannsvíxlum og afhendingu fasteignar, sem teljist óvenjulegur greiðslueyrir úr hendi Móa hf., og sé því riftanleg með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur engan vafa á því að um greiðslu skuldar sé að ræða og vísar um það atriði til könnunar á bókhaldi Móa hf., þar sem fram komi að viðskiptaskuld félagsins hafi verið til staðar á frestdegi 19. desember 2002. Beri skýrslan með sér að greiðsla sú, sem hér um ræðir, hafi verið greiðsla skuldar sem stofnast hafði milli aðila áður en greiðslan var innt af hendi og hafi greiðslan gengið til lækkunar á þeirri skuld. Þá hafi greiðslurnar annað hvort verið inntar af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag eða eftir frestdag. Skilyrði greinarinnar um tímamark sé því uppfyllt. Að lokum vísar stefnandi til þess að í skiptum Móa hf. og stefnda hafi verið tíðkanlegt að greiðslur væru í formi peninga. Þær greiðslur sem hér um ræði séu í formi víxla, samþykktum af þriðja aðila, og fasteignar, en ekki verður séð að slíkir greiðsluhættir hafi áður tíðkast eða verið venjulegir milli aðila.  Sé því um óvenjulegan greiðslueyri að ræða.

Stefnandi byggir ennfremur á heimild 139. gr. laga nr. 21/1991 að því er varðar þær greiðslur sem fram fóru eftir frestdag 19. desember 2002. Stefnandi telur sýnt að reglur XVII. kafla nr. 21/1991 hefðu ekki leitt til þess að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti. Vísar hann til þess að ljóst sé að ekkert muni koma upp í greiðslur almennra krafna við skiptin og krafa stefnanda, að því marki sem til hennar stofnaðist fyrir frestdag, verði því ekki greidd. Þá vísar stefnandi til þess að ekkert muni koma upp í samþykktar búskröfur nema stefnandi vinni einhver þeirra riftunarmála sem hann hefur höfðað. Stefnandi telur að ekkert sé fram komið um að greiðslur Móa hf. hafi verið nauðsynlegar til að komast hjá tjóni. Vísar hann til þess að stefndi hafi ekki getað komið fram vanefndaúrræðum samkvæmt samningum sínum vegna ákvæða 1. mgr. 22. gr. gþl. nr. 21/1991. Þá vísar stefnandi til þess að samþykki aðstoðarmanns við greiðslustöðvun eða umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum hafi verið fyrir hendi.

Stefnandi byggir kröfu sína um riftun einnig sjálfstætt á því að greiðslurnar hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanleg með vísan til 141. gr. nr. 21/1991. Hafi stefndi verið grandsamur um ógjaldfærni Móa hf. þegar greiðslurnar hafi átt sér stað sem geri það að verkum að þær hafi verið ótilhlýðilegar.

Varakrafa stefnanda er á því reist að þær greiðslur sem fram fóru fyrir frestdag, þ.e. afhending fasteignarinnar, geti ekki talist heimilar, jafnvel þótt komist sé að annarri niðurstöðu varðandi greiðslur sem inntar voru af hendi eftir frestdag.

Við munnlegan flutning málsins var því lýst yfir að krafa um endurgreiðslu byggðist aðeins á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 og væri því ekki haldið fram að stefndi ætti að endurgreiða hærri fjárhæð en sem næmi fé samkvæmt því ákvæði. Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við að reikna eigi dráttarvexti frá þeim degi sem stefnda naut hverrar greiðslu eða frá 1. degi næsta mánaðar eftir afhendingu hverrar greiðslu.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að heimild Móa hf. til nýtingar leigumuna í eigu stefnda hafi verið forsenda fyrir rekstri félagsins, jafn fyrir og eftir frestdag. Enginn vafi sé um að leigugreiðslur fyrir hinn leigða búnað og tæki teljist til útgjalda sem falli undir 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 19 og 21. gr. laganna. Stefndi vísar til þess að eftir að heimild til greiðslustöðvunar var veitt hafi verið tekin ákvörðun, með samþykki aðstoðarmanns skuldara, um að halda áfram rekstri kjúklingasláturhússins. Í því hafi falist ákvörðun um áframhaldandi not á leigumunum stefnda. Allar kröfur um endurgjald fyrir afnot af búnaðinum séu því búskröfur og hafi stöðu samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi vísar til framburðar aðstoðarmanns skuldara á greiðslustöðvunartímabilinu fyrir skiptastjóra. Þar komi fram að hann hafi gefið forráðamönnum Móa hf. fyrirmæli um að stofna ekki til nýrra skuldbindinga utan þeirra sem nauðsynlegar væru til þess að halda daglegum rekstri gangandi í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991. Í framburði aðstoðarmannsins hafi svo komið fram að rekstri félagsins hafi ekki orðið haldið áfram „án þess að bregða að nokkru út af þeirri meginlínu sem að annars gilti um greiðslur og daglega fjármálastjórnun.“ Í framburðinum hafi sagt að í janúar 2003 hafi því stærstu viðskiptavinir verið settir í viðskipti með víxla og það hafi verið gert með vitund og samþykki viðskiptabanka Móa hf. Víxlum þessum hafi svo í nokkrum tilvikum verið ráðstafað sem greiðslu til annarra aðila með skriflegu samþykki aðstoðarmannsins.

Að því er varðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 telur stefndi í fyrsta lagi ekki um greiðslu skuldar að ræða. Hann vísar til þess að á því tímabili sem stefnandi vísi til hafi úttekt Móa hf. hjá stefnda verið u.þ.b. 14,5 mkr.  hærri en sem nam greiðslum Móa hf. Þannig hafi skuld Móa hf. við stefnda vaxið í stað þess að greiðast, eins og haldið sé fram af stefnanda. Á því er jafnframt byggt, að eins og á stóð, hafi leigugreiðslur Móa hf., til stefnda, þ.m.t. með sölu víxla og fasteignar, verið venjulegar eftir atvikum. Vísast til framburðar aðstoðarmanns Móa hf. við greiðslustöðvun sem áður greinir um að  greiðslur til helstu viðskiptamanna Móa hf. hafi verið inntar af hendi með víxlum.

Að því er varðar 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 telur stefndi að hér hafi ekki verið um greiðslu skuldar að ræða, en auk þess telur hann að undantekningar ákvæðisins eigi allar við. Í fyrsta lagi njóti krafa stefnda fyrir afnot leigumunanna stöðu samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 og ætti sú krafa greiðst við skiptin samkvæmt XVII. kafla laganna. Þá liggi fyrir að stefnandi hefði orðið fyrir tjóni ef leigusamningum hefði verið rift, eins og hótað var á árinu 2002. Greiðslur þess árs hafi verið nauðsynlegar til þess að tryggja Móum hf. áframhaldandi afnot sláturbúnaðarins. Þá er á því byggt að greiðsla leigu fyrir afnot tækja til atvinnurekstrar hafi verið eðlileg eftir atvikum og fyrir hafi legið samþykki aðstoðarmanns við greiðslustöðvun og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum með því að báðir samþykktu áframhaldandi atvinnurekstur á vegum Móa hf. sem fól í sér notkun leigumuna stefnda.

Að því er varðar 141. gr. laga nr. 21/1991 mótmælir stefndi því að huglægum skilyrðum til beitingar ákvæðisins sé fullnægt. Stefndi hafi engar sérstakar upplýsingar haft um fjárhagsstöðu Móa hf. umfram aðra lánardrottna. Þá sé það fráleitt að halda því fram að greiðslur til stefnda hafi verið ótilhlýðilegar þegar fyrir liggi að úttektir gagnaðila hjá stefnda á sama tímabili hafi verið meiri, eins og áður er rakið.

Stefnandi telur skilyrðum 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ekki fullnægt til endurgreiðslu. Hann vísar til þess að hefði samkomulag Móa hf. og stefnda 20. ágúst 2002 ekki verið gert hefði stefndi rift samningum við Móa hf. og því tilviki hefði rekstur Móa hf. stöðvast í ágúst 2002 og það leitt til gjaldþrots félagsins þegar í stað. Hefðu Móar hf. orðið gjaldþrota haustið 2002 hefði nýr aðili eflaust tekið við rekstrinum og tekið yfir skuldbindingar leigutaka gagnvart stefnda með svipuðum hætti og gerðist nokkrum dögum eftir að bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Afleiðing samkomulags stefnda og Móa hf. í ágúst 2002 hafi orðið sú að stefndi fékk til sín greiðslur sem voru verulega lægri en nam úttektum Móa hf. fram að gjaldþroti félagsins. Það sé því alveg ljóst að stefndi hafði engan þann „hag“ af ráðstöfuninni sem geti verið grundvöllur endurgreiðslukröfu. Þvert á móti sé ástæða til þess að ætla að hann hefði haft hag af því að nýr aðili hefði tekið við rekstrinum strax haustið 2002. Á sama hátt hafi stefnandi ekki orðið fyrir tjóni vegna umræddra ráðstafana, enda hafi Móar hf. getað haldið áfram afnotum af eignum stefnda og greitt fyrir þau afnot mun lægri fjárhæðir en sem nam umsömdu leigugjaldi. Að lokum bendir stefndi á að endurgreiðslukröfur séu skaðabótakröfur og beri þær ekki dráttarvexti, eins og stefnandi krefjist, heldur vexti samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar annars vegar um sölu Móa hf. á  fasteign að Bæjarflöt 6 til stefnda sem fram fór um tveimur mánuðum áður en Móar hf. óskuðu eftir greiðslustöðvun, en hins vegar er ágreiningur um greiðslu Móa hf. til stefnda með sjö víxlum, á meðan á greiðslustöðvun og nauðasamningsumleitunum stóð, sem allir voru gefnir út af þriðju aðilum. Að því er varðar afhendingu fasteignarinnar er ágreiningslaust að mismunur kaupverðs og áhvílandi veðskulda auk gjalda, sem stefndi greiddi, nam 12.882.424 krónum. Aðilar deila hins vegar um hvort líta beri svo á, að afsláttur á vanskilum að fjárhæð 4,5 milljónir, sem kveðið var á um í tengslum við þessi fasteignaviðskipti, skuli bætast við þessa fjárhæð og teljast stefnda til hagnaðar, ef fallist verður á kröfu stefnanda um endurgreiðslu. Að því er varðar afhendingu umræddra víxla er ágreiningslaust að andvirði þeirra hafi numið 13.304.589 krónum. Dómari leggur þann skilning í fyrri lið aðalkröfu og varakröfu stefnanda að hann krefjist þess að viðurkennd verði riftun hans á framangreindum ráðstöfunum.

Í máli þessu er því í fyrsta lagi haldið fram af stefnda að þær greiðslur sem hann móttók frá Móum hf. hafi ekki verið greiðsla skuldar í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Verður málatilbúnaður stefnda skilinn á þá leið að hann vísi til þess að leigu samkvæmt samningi stefnda og Móa hf. hafi átt að greiða fyrir fram mánaðarlega. Þótt reikningsskilavenjur hafi staðið til þess að ráðstafa greiðslum frá Móum hf. inn á elstu gjaldföllnu greiðslur, verði að líta til þess að á því tímabili, sem hér um ræði, hafi Móar hf. í raun ekki gert annað en að greiða upp í þá leigu sem gjaldféll á tímabilinu. Sé því um að ræða staðgreiðsluviðskipti en ekki greiðslur á skuld.

Dómari fellst á að það almenna sjónarmið stefnda að fyrirframgreiðsla leigu sé ekki greiðsla á skuld samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Verður og að leggja til grundvallar að slík krafa um leigu verði ekki að skuld fyrr en hún er gjaldfallin samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Frá þeim tíma að leigugreiðslur komast í vanskil stendur leigusali hins vegar frammi fyrir sömu freistingu og aðrir skuldareigendur þrotamanns, það er að tryggja greiðslu á kröfu sinni án tillits til hagsmuna annarra. Riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 er ætlað að stemma stigu við slíkum ráðstöfunum og tryggja jafnræði kröfuhafa þrotamanns að þessu leyti, m.a. þannig að almennt er litið á greiðslu skuldar með öðrum greiðslueyri en peningum skömmu fyrir gjaldþrot sem ráðstöfun, sem hljóti að miða að því að tryggja hagsmuni tiltekins kröfuhafa vegna yfirvofandi gjaldþrotaskipta, og geti ekki, nema í undantekningartilvikum, helgast af venjulegum viðskipta- eða rekstrarlegum ástæðum, sbr. nánari fyrirmæli 134. gr. laga nr. 21/1991. Víkur því næst að sölu Móa hf. á fasteigninni að Bæjarflöt 6 til stefnda.

Í máli þessu liggur fyrir að á þeim tíma sem umrædd sala fór fram höfðu Móar hf. vanefnt greiðslur samkvæmt leigusamningum sínum við stefnda. Stóð félagið þannig ótvírætt í skuld við stefnda í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 á þessum tíma. Í samkomulagi stefnda og Móa hf. 30. ágúst 2002, þar sem kveðið er á um sölu á fasteigninni að Bæjarflöt 6 segir orðrétt að kaupverðinu verði ráðstafað til greiðslu vanskila Móa hf. hjá stefnda. Verður þannig ekki séð að stefndi hafi leitast við að sérgreina þær greiðslur, sem hann móttók frá Móum hf., þannig að þær rynnu til greiðslu fyrir fram greiddrar leigu sem síðar gjaldfélli. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á að afhending á fasteigninni að Bæjarflöt 6 hafi falið í sér staðgreiðsluviðskipti sem falli utan efnislýsingar 134. gr. laga nr. 21/1991.

Að mati dómara er greiðsla leigu með afhendingu fasteignar ótvírætt óvenjulegur greiðslueyrir þegar um er ræða fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og sölu matvæla. Er ekkert komið fram sem styður að líta megi svo á að greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum, sbr. lokaorð 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Af hálfu stefnda hefur verið lögð á það áhersla að afhending umræddrar fasteignar hafi verið þáttur í endurskipulagningu fjármála Móa hf. og hafi rekstrarstöðvun og gjaldþrot félagsins verið yfirvofandi, ef umræddur samningur hefði ekki verið gerður. Dómari fellst á það almenna sjónarmið stefnda að það sé almennt skilyrði riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 að ráðstöfun valdi þrotabúi tjóni. Þegar fyrir liggur að fjármunir hafa verið afhentir með þeim hætti að efnislýsing einhverra riftunarreglna kaflans á við, ber viðtakandi fjármunanna hins vegar sönnunarbyrðina fyrir því að viðkomandi ráðstöfun hafi verið nauðsynleg til að tryggja hagsmuni búsins þannig að riftun komi ekki til greina af þeim sökum. Eiga þessi rök því frekar við að með áðurnefndri málsástæðu sinni hefur stefndi viðurkennt að afhending umræddrar fasteignar hafi beinlínis verið gerð vegna yfirvofandi gjaldþrots Móa hf. Er því eðlilegt að hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að hinum óvenjulega greiðslueyri hafi ekki verið ætlað að tryggja hagsmuni hans eins á kostnað annarra kröfuhafa.

Í málinu hafa engin töluleg gögn verið lögð fram um það hvort rekstur Móa hf. hafi skilað hagnaði frá því samkomulag félagsins við stefnda var gert í ágústlok 2002. Gögn málsins bera þó fremur með sér að æ meir hafi sigið á ógæfuhliðina hjá félaginu frá og með þessum tíma og hafi áframhaldandi rekstur félagsins þannig fremur rýrt hagsmuni kröfuhafa en tryggt þá. Er það því niðurstaða dómara að stefnda hafi hvorki tekist að sýna fram á að afhending fasteignarinnar hafi verið nauðsynleg til að afstýra tjóni né að það hafi orðið raunin. Verður því fallist á að sala fasteignarinnar að Bæjarflöt 6 með kaupsamningi 15. október 2002 sé riftanleg samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991.

Við mat á endurgreiðslukröfu stefnanda ber að líta til þess hvaða hag stefndi hafði af umræddri ráðstöfun, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt gögnum málsins var kaupverð umræddrar fasteignar 46.500.000 krónur. Ekki hefur verið gert líklegt að markaðsvirði eignarinnar hafi verið meira en sem nemur kaupverði þannig að líta beri svo á að stefndi fengið meira í sinn hlut en sem því nemur. Hefur það ekki þýðingu í þessu sambandi hvernig stefndi lét þá fjárhæð, sem hann fékk í sinn hlut, ganga hlutfallslega til greiðslu skuldar Móa hf., enda er það alkunna að raunvirði kröfu kann að vera mun lægra en bókfært verð hennar. Verður því fallist á málsástæður stefnda um endurgreiðslu vegna umræddra fasteignaviðskipta, þ.e. að stefndi greiði stefnanda einungis 12.882.424 krónur sem er mismunur kaupverðs og áhvílandi veðskulda auk gjalda sem stefndi tók að sér að greiða. Víkur því næst að afhendingu þeirra sjö víxla sem áður greinir.

Að því er varðar afhendingu umræddra víxla hefur stefndi í fyrsta lagi lagt á það áherslu að aðstoðarmaður hafi vitað um og samþykkt greiðslur með víxlum útgefnum af þriðju aðilum. Bendir stefndi á að af skýrslu Sigmundar Hannessonar hrl., aðstoðarmanns við greiðslustöðvun Móa hf., fyrir skiptastjóra stefnanda, megi draga þá ályktun að hann hafi samþykkt að Móar hf. stofnuðu til skuldbindinga, sem væru nauðsynlegar fyrir daglegan rekstur, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991. Þá komi fram í skýrslunni að stærstu viðskipavinir félagsins hafi verið „settir í viðskipti með víxla“ frá og með janúar 2003 og hafi þessum víxlum í nokkrum tilvikum verið ráðstafað sem greiðslu til annarra aðila með skriflegu samþykki aðstoðarmannsins. Í annan stað hefur verið bent á af hálfu stefnda að honum hafi verið heimilt að grípa til vanefndaúrræða vegna vanskila Móa hf. þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991. Hafi því daglegur rekstur Móa hf. ekki getað haldið áfram nema með samkomulagi við stefnda og hafi greiðslur félagsins til stefnda því verið nauðsynlegar til að afstýra tjóni sem leitt hefði af fyrirvaralausri rekstrarstöðvun.

Í upphafi telur dómari rétt að benda á að samkvæmt 3. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 verður greiðslu eða annarri ráðstöfun, sem aðstoðarmaður við greiðslustöðvun hefur samþykkt, ekki rift nema samþykkið hafi bersýnilega verið gefið í andstöðu við fyrirmæli laganna. Telur dómari að þessi fyrirvari 3. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 eigi almennt við um riftun samkvæmt XX. kafla laganna og ráði því ekki úrslitum í þessu sambandi hvort riftun er grundvölluð á umræddri 139. gr. eða öðrum heimildum. Við mat á riftanleika ráðstöfunar, sem gerð hefur verið á greiðslustöðvunartíma eða meðan á heimild til nauðasamninga hefur staðið, verður því að taka afstöðu til þess hvort samþykki aðstoðarmanns lá fyrir og hvort það var í samræmi við 19. til 21. gr. laga nr. 21/1991. Ef slíkt samþykki aðstoðarmanns er talið liggja fyrir getur hins vegar þurft að taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort samþykkið hafi verið bersýnilega andstætt riftunarreglum XX. kafla laganna.

Samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. laga nr. 21/1991 er meðal annars heimilt, meðan á greiðslustöðvun stendur, að verja tekjum í atvinnurekstri skuldara til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri hans. Í þessu sambandi verður þó að gæta þess að það er hlutverk aðstoðarmanns við greiðslustöðvun að taka afstöðu til þess, annað hvort almennt eða í hverju einstöku tilviki, hvað séu nauðsynleg útgjöld, svo og til þess hvernig ráðstafa beri tilteknum eignum til að greiða þessi útgjöld, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Jafnvel þótt ákveðnar ráðstafanir séu heimilar skuldara samkvæmt 20. og 21. gr. laga nr. 21/1991 á skuldari þannig almennt ekki sjálfdæmi um þessar ráðstafanir heldur verður hann að leita eftir atbeina aðstoðarmanns við greiðslustöðvun. Samkvæmt þessu verður afhending umræddra sjö víxla til stefndu ekki reist á því að greiðslurnar hafi verið nauðsynlegar til að standa undir daglegum rekstri Móa hf. nema einnig liggi fyrir að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun hafi samþykkt þessa afhendingu og einnig að hann hafi mátt samþykkja hana samkvæmt nánari reglum IV. kafla laga nr. 21/1991.

Af framangreindri skýrslu Sigmundar Hannessonar hrl., aðstoðarmanns við greiðslustöðvun Móa hf., fyrir skiptastjóra stefnanda, verður ráðið að hann hafi veitt Móum hf. almenna heimild til að verja fjármunum til að standa straum af reglubundnum eða nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri félagsins. Að virtum þessum framburði aðstoðarmannsins, svo og með hliðsjón af atvikum málsins í heild, telur dómari óhætt að ganga út frá því að áframhaldandi leiga Móa hf. á munum frá stefnda hafi verið talin nauðsynleg til áframhaldandi reksturs og því samþykkt af aðstoðarmanninum. Dómari telur einnig að ráðið verði af atvikum málsins að aðstoðarmaður hafi samþykkt að Móar hf. notuðu þá víxla, sem gefnir voru út af þriðju aðilum, sem greiðslur í þessu sambandi. Kemur því næst til skoðunar hvort umræddum sjö víxlum hafi verið ráðstafað í samræmi við umrædda ákvörðun aðstoðarmanns við greiðslustöðvun.

Dómari telur ótvírætt leiða af 1. mgr. 22. gr. laganna, eins og það ákvæði verður skýrt með hliðsjón af öðrum ákvæðum IV. kafla laga nr. 21/1991 og markmiðum greiðslustöðvunar, að stefnda hafi ekki verið heimilt að grípa til vanefndaúrræða vegna vanskila Móa hf. sem til komu áður en greiðslustöðvun hófst. Hins vegar fellst dómari á það með stefnda að honum hafi verið heimilt, í samræmi við almennar reglur kröfuréttar og þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 22. gr. laganna, að krefjast samningsbundins endurgjalds fyrir leigu Móa hf. af munum í eigu stefnda sem gjaldféll á greiðslustöðvunartímanum og grípa til tiltækra vanefndaúrræða, ef þetta gjald var ekki innt af hendi. Í samræmi við þetta verður að skýra það samþykki aðstoðarmannsins, sem áður greinir, á þá leið að Móum hf. hafi verið heimilt að greiða stefnda leigugreiðslur sem gjaldféllu á greiðslustöðvunartímabilinu, sem og eftir að heimild til að leita nauðasamninga lá fyrir, enda voru þessar greiðslur nauðsynleg útgjöld til að halda áfram rekstri Móa hf. líkt og áður greinir. Hins vegar verður umrætt samþykki ekki túlkað svo rúmt að Móum hf. hafi verið heimilt að greiða eldri skuld Móa hf. við stefnda, enda hefði með þeirri niðurstöðu verið gengið gegn fyrirmælum 1. mgr. 21. gr. laga nr. 21/1991.

Í málinu liggur ekki fyrir að aðstoðarmanni við greiðslustöðvun, og síðar skipuðum umsjónarmanni við nauðasamninga, hafi verið kunnugt um greiðslur til stefnda með umræddum sjö víxlum. Þannig liggur hvorki fyrir afstaða þeirra til þess hvort þær voru nauðsynlegar til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri Móa hf., né til þess hvernig þessum greiðslum skyldi nákvæmlega ráðstafað í lögskiptum Móa hf. og stefnda. Liggur því ekki fyrir að andvirði umræddra sjö víxla hafi verið sérstaklega ætlað til að greiða fyrir þá leigu sem gjaldféll á greiðslustöðvunartímanum eða meðan á nauðasamningsumleitunum stóð. Af málatilbúnaði stefnda sjálfs verður ekki annað ráðið en að þessum greiðslum hafi verið ráðstafað ótiltekið inn á skuld Móa hf. við stefnda. Verður stefndi að bera hallann af óvissu um þetta atriði. Eins og málið liggur fyrir verður því að ganga út frá því að greiðslu með umræddum víxlum hafi verið varið til að greiða skuld Móa hf. við stefnda. Var ráðstöfun víxlanna því ekki innan marka samþykkis umsjónarmanns við greiðslustöðvun og hefur stefndi þannig ekki sýnt fram á að umræddar greiðslur hafi verið heimilar samkvæmt 19. til 21. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum sökum verður ekki talið að 3. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 sé því til fyrirstöðu að fallist sé á kröfu stefnanda um riftun á afhendingu umræddra víxla.

Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi er ljóst að krafa stefnda, að því marki sem hún var greidd með umræddum víxlum, mun ekki greiðast samkvæmt reglum XVII. laga nr. 21/1991 við úthlutun til kröfuhafa. Að því er varðar þá málsástæðu að greiðslurnar hafi verið nauðsynlegar til að komast hjá tjóni, áréttar dómari það sem áður segir að engin töluleg gögn liggja fyrir um rekstur Móa hf. á því tímabili sem hér um ræðir, en gögn málsins benda þó fremur til þess að æ meir hafi sigið á ógæfuhliðina hjá félaginu eftir því sem rekstri þess vatt fram. Dómari telur að jafnvel þótt stefndi kunni að hafa haft heimild til riftunar á tímabili greiðslustöðvunar og nauðasamningsumleitana og jafnvel þótt stefnandi kynni að hafa nýtt þessa heimild sína sé ósannað að eignir þrotabús Móa hf. hefðu rýrnað við þetta, hagsmunum kröfuhafa Móa hf. til tjóns. Ekki er ágreiningur um að stefnda var kunnugt um heimildir Móa hf. til greiðslustöðvunar og nauðasamninga. Samkvæmt framangreindu er fullnægt skilyrðum til að taka til greina kröfu stefnanda um riftun umræddra sjö víxla með vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991.

Ekki er ágreiningur um að andvirði þeirra sjö víxla sem áður ræðir hafi numið 13.304.589 krónum, en eins og áður segir verður stefndi talinn hafa hagnast um 12.882.424 krónur vegna kaupa á fasteigninni að Bæjarflöt 6. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 1. mgr. 142. gr. verður því fallist á kröfu stefnanda um endurkröfu alls 26.187.013 króna.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, dæmdir frá 14. júní 2005, en stefnandi lýsti fyrst yfir riftun umræddra ráðstafana og gerði kröfu um endurgreiðslu með bréfi 14. maí 2004.

Með hliðsjón af úrslitum málsins svo og því að stefnandi hefur lækkað kröfur sínar verulega undir gangi þess verður stefndi aðeins dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að hluta. Þykir hann hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af umfangi málsins, 200.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ástráður Haraldsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Gestur Jónsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennd er riftun stefnanda, þrotabús Móa hf., á sölu Móa hf. á fasteign að Bæjarflöt 6, Reykjavík, til stefnda, Lýsingar hf., með kaupsamningi 15. október 2002 og á afhendingu Móa hf. á sjö víxlum, samtals að nafnvirði 22.083.744 krónur, til stefnda á tímabilinu 1. janúar 2003 til 5. nóvember 2003.

Stefndi, Lýsing hf., greiði stefnanda, þrotabúi Móa hf., 26.187.013 krónur með dráttarvöxtum frá 14. júní 2005 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.