Hæstiréttur íslands
Mál nr. 293/2007
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Hlutafélag
- Yfirtökutilboð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2008. |
|
Nr. 293/2007. |
Hilmar Þór Hilmarsson Bjargið ehf. Rafn Jónsson Kristín Alda Kjartansdóttir og Freyja Önundardóttir (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Svalbarðshreppi (Hróbjartur Jónatansson hrl. Einar Þór Sverrisson hdl.) Langanesbyggð og Fræi ehf. (Gísli Baldur Garðarsson hrl. Eyvindur Sólnes hdl.) |
Verðbréfaviðskipti. Hlutafélög. Yfirtökutilboð. Skaðabætur.
Aðilar máls deildu um hvort til yfirtökuskyldu F, Þ og S hefði stofnast er þeir keyptu árið 2004 samtals 67,5% hlutafjár í félaginu H. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að ljóst væri af gögnum málsins að F, Þ og S hefðu haft með sér samstöðu og samráð um ýmis atriði, er vörðuðu hlutafjárkaupin 2004, rekstur félagsins og ráðstöfun hluta sinna, frá því að kaupin voru gerð uns F, Þ og S seldu hlutina aftur um sex mánuðum síðar. Þau atvik gátu á hinn bóginn ekki valdið því að F, Þ og S bæri að gera áfrýjendum yfirtökutilboð í hluti þeirra í félaginu á grundvelli 4. töluliðar 1. mgr. 32. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma, enda ósannað að F eða Þ, annar eða báðir saman, hefðu með samningi fengið ráð yfir atkvæðisrétti, sem fylgdi hlut S í félaginu. Voru F, Þ og S sýknaðir af kröfu áfrýjenda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. maí 2007. Þau krefjast þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða áfrýjandanum Hilmari Þór Hilmarssyni 5.328.935 krónur, áfrýjandanum Bjarginu ehf. 2.520.000 krónur, áfrýjandanum Rafni Jónssyni 5.107.749 krónur, áfrýjandanum Kristínu Öldu Kjartansdóttur 556.895 krónur og áfrýjandanum Freyju Önundardóttur 153.017 krónur, í öllum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2005 til 7. júní 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi seldu nokkrir stærstu hluthafarnir í Hraðfrystihúsi Þórshafnar hf. hluti sína dagana 13. og 14. júní 2004. Stefndi Fræ ehf., sem þá var í eigu Þórshafnarhrepps, nú stefndu Langanesbyggðar, keypti 34% hlut í félaginu, en stefndi Svalbarðshreppur 26,9%. Sveitarfélögin tvö og stefndi Fræ ehf. áttu fyrir hluti í félaginu, þannig að eftir kaupin áttu stefndi Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur samtals 39,58% og stefndi Svalbarðshreppur 27,92%. Samanlagt áttu þessir hluthafar því orðið 67,5% hlutafjár í félaginu.
Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 32. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma, bar þeim, sem hafði á grundvelli samnings við aðra hluthafa öðlast rétt til að ráða yfir sem næmi 40% atkvæða í félagi, að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í hluti þeirra. Ljóst er af gögnum málsins að stefndu höfðu með sér samstöðu og samráð um ýmis atriði, er vörðuðu hlutafjárkaupin í júní 2004, rekstur félagsins og ráðstöfun hluta sinna, frá því að kaupin voru gerð uns stefndu seldu aftur í desember sama ár hlutina, sem þeir höfðu keypt. Þau atvik gátu á hinn bóginn ekki valdið því að stefndu bæri að gera áfrýjendum yfirtökutilboð í hluti þeirra í félaginu á grundvelli framangreinds lagaákvæðis, svo sem það hljóðaði á þeim tíma, enda er ósannað að stefndi Fræ ehf. eða Þórshafnarhreppur, annar eða báðir saman, hafi með samningi fengið ráð yfir atkvæðisrétti, sem fylgdi hlut stefnda Svalbarðshrepps í félaginu. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Hilmar Þór Hilmarsson, Bjargið ehf., Rafn Jónsson, Kristín Alda Kjartansdóttir og Freyja Önundardóttir, greiði í sameiningu stefnda Svalbarðshreppi 350.000 krónur og stefndu Langanesbyggð og Fræi ehf. hvorum um sig 175.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20 mars 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. janúar 2007, hefur Sjóvá hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, Hilmar Þór Hilmarsson, kt. 120758-5279, Búlandi 23, Reykjavík, Bjargið ehf., kt. 480304-2760, Bæjarási 3, Bakkafirði, Rafn Jónsson, kt. 171157-3589, Fjarðarvegi 23, Þórshöfn, Kristín Alda Kjartansdóttir, kt. 231154-2219, Fjarðarvegi 23, Þórshöfn, og Freyja Önundardóttir, kt. 040361-4059, Búlandi 23, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi á hendur Langanesbyggð, áður Þórshafnarhreppi, kt. 420369-1749, Fjarðarvegi 3, Þórshöfn og Fræi ehf., kt. 500197-2939, Fjarðarvegi 3, Langanesbyggð og Svalbarðshreppi, kt. 640269-1979, Svalbarðshreppi, með stefnu birtri stefndu 18. maí 2006.
Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum: Til að greiða Sjóvá hf. skaðabætur að fjárhæð kr. 14.232.796 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags;
til að greiða Hilmari Þór Hilmarssyni skaðabætur að fjárhæð kr. 5.238.935 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags;
til að greiða Bjarginu ehf. skaðabætur að fjárhæð kr. 2.520.000 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags;
til að greiða Rafni Jónssyni skaðabætur að fjárhæð kr. 5.107.799 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags;
til að greiða Kristínu Öldu Kjartansdóttur skaðabætur að fjárhæð kr. 556.895 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags;
til að greiða Freyju Önundardóttur skaðabætur að fjárhæð kr. 153.017 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 23. febrúar 2005 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu, Langanesbyggðar, áður Þórshafnarhrepps, og Fræsins ehf., eru að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða þeim málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, óskipt, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda Svalbarðshrepps eru þær, að aðallega krefst hann þess að öllum kröfum stefnenda verði vísað frá dómi og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað, en til vara að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnenda og þeim gert að greiða stefnda málskostnað. Til þrautavara krefst hann þess að dómkröfur stefnenda verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Stefnendur höfða mál þetta í sameiningu á grundvelli samlagsaðildar með vísan til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Undir rekstri málsins var nafni stefnanda Sjóvá-Almennra trygginga hf. breytt í Sjóvá hf.
Við sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps hinn 10. júní 2006 var tekið upp nýtt heiti á sveitarfélaginu og nefnist það nú í Langanesbyggð, og tók það við aðild í málinu.
I.
Mál þetta á rót sina að rekja til hlutabréfaviðskipta í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. á árinu 2004. Er ágreiningur með aðilum um yfirtökuskyldu samkvæmt ákvæðum 32. gr. laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti.
Í samþykktum Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. (HÞ) frá 5. maí 2000 segir að tilgangur félagsins sé að starfrækja útgerð og fiskvinnslu, en einnig sölustarfsemi, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annan skyldan atvinnurekstur. Heimili félagsins er að Eyrarvegi 16, Þórshöfn, nú Langanesbyggð. Hlutafé félagsins er kr. 489.975.000.
1. Samkvæmt hluthafaskrá var heildarfjöldi hluthafa í HÞ 138 þann 30. desember 2003. Á meðal hluthafanna voru stefnendur máls þessa, með samtals 21,25% hlutafjár, en einnig Þórshafnarhreppur með 2,96%, Fræ ehf. með 2,62% hlutafjár, en það félag var alfarið í eigu Þórshafnarhrepps, Efnaverksmiðjan Sjöfn hf. með 4,24%, Samherji hf. með 49,66%, Svalbarðshreppur með 1,02%, Tryggingamiðstöðin hf. með 2,11%, Kaldbakur, fjárfestingafélag með 5,09%. Hlutur félagsins í eigin bréfum var um nefnd áramót 0,06%.
2. Fyrir liggur að þann 16. júní 2004 seldi Samherji hf. allan hlut sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., samtals 49,66 %. Kaupendur voru Fræið ehf., sem keypti 34,20% og Svalbarðshreppur er keypti 15,46%. Var gengi bréfanna í þessum viðskiptum 3,96 fyrir hverja krónu nafnverðs. Í stefnu er staðhæft að samfara þessum kaupum hafi Samherji hf. verið leystur undan ábyrgð á málarekstri, sem rekið var gegn félaginu og varðaði viðskipti Samherja hf. og HÞ hf. með skip.
Samkvæmt stefnu keypti Svalbarðshreppur þann 14. júní 2004 eignarhlut Kaldbaks hf. í HÞ er nam 4,24%, en einnig hlut Sjafnar hf. er nam 5,09% og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er nam 2,11%.
Samkvæmt gögnum átti Svalbarðshreppur eftir þessi viðskipti 27,91% hlut í HÞ, en Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur samtals 39,5%.
Samkvæmt gögnum hafði Fræ ehf. fyrir kaupin fengið í hendur lögfræðilega álitsgerð um álitaefni er vörðuðu ákvæði laga nr. 33, 2003, m.a. um yfirtökureglur.
Samkvæmt framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðila voru ofangreind viðskipti stefnda Fræs ehf. fjármögnuð með lánveitingum frá Sparisjóðabanka Íslands hf. í erlendum gjaldmiðlum, en lánsskjöl þar um eru dagsett 23. og 30. júní og 1. október 2004. Gjalddagi í lánsskjölunum er tiltekinn 30. desember 2004, en með mögulegum þremur framlengingum, allt til 30. júní 2005 og var því lokagjalddagi 30. september það ár. Til tryggingar greiðslu er skráð í lánssamninga að Sparisjóðabankinn hafi handveð í hlutabréfum Fræs ehf. í HÞ., en einnig er tekið fram að félagið gefi út tryggingavíxil að fjárhæð 1.200.000 kr. og að Þórshafnarhreppur gefi út yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð.
Fyrir liggur að greind kaup stefnda Svalbarðshrepps í HÞ voru einnig fjármögnuð með lánveitingum frá Sparisjóðabanka Íslands hf., en með milligöngu Fræs ehf., sbr. dskj. 36 og 40. Er þessa getið í endurriti fundargerðar sveitarstjórnar frá 30. september 2004. Með handveðssamningi við Sparisjóðabankann, sem dagsettur er 23. júní 2004 voru hlutabréf hreppsins í HÞ sett til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum. Lokagjalddagi greiðslna við lánveitandann var 30. september 2005.
Fyrir liggur að þann 20. nóvember 2004 gerðu stefnendurnir Hilmar Þór og Rafn Jónsson tilboð í eignarhlut stefnda Svalbarðshrepps í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., 27,92%, á genginu 4,0. Var tilboðsupphæðin því 547.225.252 kr. Tilboðið gilti til kl. 12:00 þann 24. nóvember 2004, en með fyrirvara um að fjármögnun næðist fyrir 30. nóvember sama ár.
Tilboð nefndra aðila var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar stefnda Svalbarðshrepps þann 22. nóvember sama ár og er þá bókað samkvæmt framlögðu endurriti:
,,Ákveðið var að byrja á að bjóða Þórshafnarhreppi kauprétt á eignarhlutanum. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Þórshafnarhrepps, mætti á fund kl. 20:30. Hann óskaði eftir að Þórshafnarhreppur fengi svigrúm til að skoða hvaða möguleika þeir hefðu. Í framhaldi af því var ákveðið að óska eftir lengri umhugsunarfresti varðandi tilboð þeirra Hilmars og Rafns, en hafna ekki tilboðinu. Oddvita falið að leita eftir lengri fresti hjá tilboðsgjöfum“.
Samkvæmt gögnum var afráðið í lok ársins 2004 að Fræ ehf., Fjárfestingafélag Sparisjóðanna og Vátryggingafélag Íslands hf. stofnuðu með sér einkahlutafélagið Símatún ehf. um kaup og rekstur á Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Liggur fyrir að stefndu, Þórshafnarhreppur og Fræ ehf. seldu hlutabréf sín til Símatúns ehf. og samkvæmt fundargerð hreppsnefndar Svalbarðshrepps var samþykkt á fundi þann 28. desember að sveitarfélagið seldi einnig eignarhlut sinn í Hraðfrystistöðinni til félagsins, að því frátöldu að haldið var eftir 1,02% eignarhluta, sem hreppurinn hafði átt áður en viðskiptin frá júní áttu sér stað, gegn yfirtöku allra skulda og vaxta sem urðu til við kaupin.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnenda var gengið frá undirritun samninga vegna kaupa Símatúns ehf. þann 30. desember 2004 og var gengi hlutabréfa í viðskiptunum kr. 3,68 á hverja krónu nafnverðs. Hafi Símatún ehf. með þessum hætti eignast 66,67% hlutafjár í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf.
Í málavaxtalýsingu sinni greina stefnendur svo frá, sem einnig er í samræmi við framlögð gögn, að þann 21. janúar 2005 hafi Símatún ehf. gert yfirtökutilboð í hluti annarra í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Tilboðið hafi verið sett fram á grundvelli 32. gr. laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti, en samkvæmt því beri aðila sem öðlast hefur tiltekin réttindi í félagi að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Stefnendur hafi sem hluthafar í HÞ verið á meðal tilboðshafa. Samkvæmt tilboðsyfirliti Símatúns ehf. hafi tilboðsverð fyrir hlut annarra hluthafa, þ.á.m. hluti stefnenda, verið kr. 3,68 fyrir hverja krónu nafnverðs í félaginu og því verið á sama verði og Símatún ehf. greiddi fyrir hluti í félaginu hinn 30. desember 2004. Ástæða þess að tilboðsverðið hafi verið miðað við þessi viðskipti, hafi og verið að samkvæmt 33. gr. laga um verðbréfaviðskipti skal verð það, sem sett er fram í yfirtökutilboði samkvæmt 32. gr. svara til hæsta verðs sem tilboðsgjafi hefur greitt fyrir hlutabréf, sem hann hefur eignast í félaginu síðustu sex mánuði áður en tilboðið var sett fram.
Stefnendur hafi verið ósáttir við tilboðsverðið og því leitað eftir upplýsingum hjá Þórshafnarhreppi og Svalbarðshreppi um viðskipti þeirra með þá hluti í HÞ, sem að framan var lýst, m.a. til að fá úr því skorið hvort stefndu hefði borið að gera þeim yfirtökutilboð á hærra gengi en gengi Símatúns ehf. hljóðaði um. Erfiðlega hafi gengið að afla upplýsinga um þetta. Í febrúar 2005 hafi stefnendur ákveðið að taka yfirtökutilboði Símatúns ehf. að hluta til. Ástæðan hafi verði sú að tilboðsfrestur hafi verið að renna út og að ljóst hafi verið að hagsmunir stefnenda kröfðust þess að þeir losuðu sig við hluti sína enda hefði nýr meirihluti myndast í félaginu. Hins vegar hafi stefnendur allir gefið yfirlýsingar um að þeir teldu að vegna framangreindra atburða, hefði þeim átt að standa til boða hærra verð í yfirtökutilboðinu en raun varð á. Hafi stefnendur þar haft í huga framangreind viðskipti stefndu, sem stefnendur hafi talið sterkar líkur á að hefðu leitt til yfirtökuskyldu þeirra. Hafi allir stefnendur áskilið sér rétt til kröfugerðar á hendur þeim sem ábyrgð bæru á því að stefnendur fengu ekki hærra verð. Stefnendur greina frá því að í framhaldi af þessu hafi stefnandinn Sjóvá hf. freistað þess að fá nánari upplýsingar um viðskipti Þórshafnarhrepps og Svalbarðshrepps, en án árangurs. Hafi þá verið gripið til þess ráðs að höfða vitnamál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í þeirri viðleitni að fram kæmu nánari upplýsingar um málið. Sú vitnaleiðsla hafi farið fram 16. desember 2005, en þá hafi komið fyrir dóminn nokkrir hreppsnefndarmenn í þáverandi Þórshafnarhreppi og Svalbarðshreppi. Hafi það verið mat stefnenda að eftir þær skýrslutökur hafi komið fram upplýsingar er hafi staðfest það sem stefnendur hafi talið augljóst að nefndir hreppar og Fræið ehf. hefðu haft með sér slíka samstöðu um eignarhald á hlutum sínum í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og einnig haft með sér sameiginlega ákvörðunartöku um hvernig þeim yrði ráðstafað að það hefði átt að leiða til yfirtökutilboðs frá þeim í samræmi við ákvæði laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti, en með því að það hafi ekki verið gert hafi stefnendum verið bakað tjón. Stefnendur hafi leitað eftir afstöðu stefndu til bótaskyldu og bótauppgjörs en ekki fengið svör og hafi því málshöfðun þessi verið óumflýjanleg.
3. Af hálfu stefndu, Langanesbyggðar, áður Þórshafnarhrepps og Fræs ehf., er varðandi málsatvik vísað til þess að umrædd viðskipti með hlutabréf í HÞ sumarið 2004 hafi átt þann aðdraganda að fyrir hafi legið að stærsti eignaraðilinn, Samherji hf. hefði verið með áform um að selja aflaheimildir og skip, sem hefði haft í för með sér verulegar breytingar á rekstri félagsins. Það hafi verið mikið hagsmunamál fyrir Þórshafnarhrepp, en einnig Svalbarðshrepp, að langstærsti atvinnurekandi byggðalaganna héldi starfsemi áfram í óbreyttri mynd á Þórshöfn. Vegna þessa hafi fyrirsvarsmenn Þórshafnarhrepps ásamt stjórnarmönnum í Fræinu ehf. tekið upp viðræður við stjórnendur Samherja hf. um framangreind kaup, í nafni Fræs ehf. Af hálfu fyrirsvarsmanna kaupenda hafi ekki komið til álita að kaupa stærri eignarhlut í HÞ en raun varð á vegna lagareglna um yfirtökuskyldu, en ekki hafi verið fjárhagslegt bolmagn til slíks. Kaupin hafi verið fjármögnuð með lántökum hjá Sparisjóðabanka Íslands, í erlendri mynt. Og til að ganga úr skugga um hvort slík yfirtökuskylda myndi myndast við kaup greindra aðila, þ.e. þáverandi Þórshafnarhrepps og Fræsins ehf. hafi verið fengið lögfræðilegt álit frá LEX lögmannsstofu ehf., sbr. dskj. nr. 42, og hafi megin niðurstaðan verið að slík skylda yrði ekki fyrir hendi, enda eignarhlutur þeirra eftir kaup innan við 40%. Í kjölfar þessara viðskipta hafi stefndi Svalbarðshreppur lýst yfir áhuga á kaupum á hlutabréfum í HÞ og jafnframt óskað eftir milligöngu Fræs ehf. varðandi fjármögnun hjá Sparisjóðabankanum, gegn handveði í hinum keyptu hlutabréfum. Hafi það gengið eftir þannig að Fræ ehf. hafi fengið heildarlán hjá Sparisjóðabankanum vegna kaupanna, en félagið síðan lánað stefnda Svalbarðshreppi vegna kaupa hreppsins, en til tryggingar lánunum hafi í öllum tilfellum verið sjálf hlutabréfin.
4. Málavöxtum af hálfu stefnda, Svalbarðshrepps, er lýst á þann veg, að hlutabréfakaup hreppsins hafi átt þá forsögu að stjórnendur Samherja hf. hafi kynnt öðrum hluthöfum félagsins og sveitarstjórnarmönnum á Þórshöfn og aðliggjandi sveitarfélaga, þ.m.t. Svalbarðshreppi, að áform væru um að leggja aðalrekstur HÞ niður á Þórshöfn sumarið 2004, m.a. með því að selja uppsjávarkvóta félagsins og skip til Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað. Hafi það verið mat sveitarstjórnarmanna stefnda Svalbarðshrepps að gengi þetta eftir myndi rekstur frystihússins að mestu leggjast niður, en eftir stæðu húsbyggingar sem og kúfiskvinnsla, á algeru tilraunastigi. Sveitarstjórnir byggðarlaganna hafi lýst yfir andstöðu við greind áform af augljósum ástæðum og í stað þess að fara í þessar aðgerðir í trássi við heimamenn hafi Samherji h.f. og aðrir sem farið hafi með meirihluta í félaginu ákveðið að gefa öðrum hluthöfum, er bjuggu á atvinnusvæði félagsins, tækifæri til að kaupa allt hlutafé þeirra, er hafi verið um 70%. Og eftir að hafa kynnt sér álit lögmannsstofu, sem sveitarstjórnarmenn í Þórshafnarhreppi hafi aflað, þess efnis að yfirtökuskylda myndaðist ekki hjá Þórshafnarhreppi og Fræi ehf. ef samanlagður eignarréttur þeirra færi ekki í 40% heildarhlutafjár, hafi fyrirsvarsmenn stefnda, Svalbarðshrepps, kannað um kaup eftir hvatningu þeirra fyrrnefndu. Hafi og legið fyrir að Sparisjóðabankinn myndi veita Fræi ehf. heildarlán fyrir kaupunum og að það félag gæti síðan endurlánað Svalbarðshreppi fyrir kaupverði hlutabréfanna, enda væri handveð í hlutabréfunum næg veðtrygging að mati bankans. En vegna allra þessara áforma hafi þáverandi oddviti hreppsins átt samtal við forstjóra KS á Sauðárkróki, sem þá hafi jafnframt verið stjórnarformaður VÍS hf. og fengið um það fyrirheit og upplýsingar að KS myndi vilja skoða kaup á hlutabréfum í HÞ síðar, ef föl væru og óskir bærust um slíkt. Og með þetta í farteskinu hefðu sveitarstjórnarmenn stefnda Svalbarðshrepps ákveðið kaup á nefndum hlutabréfum í HÞ, þ.e. af Kaldbaki ehf., Tryggingamiðstöðinni hf., Sjöfn hf. og Samherja hf. Hafi heildareign hreppsins, að meðtalinni eigin eign, eftir kaupin verið 27,91% í félaginu.
Í greinargerð er af hálfu stefnda, Svalbarðshrepps, þeirri málavaxtalýsingu stefnenda andmælt, að samfara nefndum kaupum hafi sveitarfélagið tekið það á sig að halda Samherja hf. skaðlausu af málssókn tiltekinna hluthafa í HÞ vegna skipaviðskipta. Kannast stefndi ekkert við slíkt og bendir á að nefnt mál hafi verið fellt niður þegar í ljós hafi komið að staðhæfingar stefnenda hafi ekki fengið stuðning í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Stefndi, Svalbarðshreppur, vísar að öðru leyti til þess, að eftir kaupin sumarið 2004 hafi aðilar farið að leita hófanna með sölu á nefndum eignarhluta í HÞ. Í desembermánuði nefnt ár hafi komið fram vilji hjá VÍS hf., Sparisjóðabankanum og Fræi ehf., til að stofna eignarhaldsfélag um HÞ og halda áfram óbreyttum rekstri félagins á Þórshöfn. Og þar sem nefnd áform hafi farið saman við hagsmuni stefnda hafi umrædd hlutabréf verið seld hinu nýstofnaða félagi í lok árs og svo um samið að kaupverð skyldi vera yfirtaka á þeim lánum, sem stefndi hafði stofnað til vegna kaupanna. Hafi stefndi því orðið skaðlaus af framangreindum viðskiptum, en haldið eftir 1,02% hlutafjár í HÞ, sem hann hafi átt fyrir margnefnd kaup.
II.
Stefnendur byggja kröfur sínar á eftirgreindum málsástæðum:
Stefnendur vísa til þess að Hraðfrystihús Þórshafnar hf. (HÞ) hafi verið skráð í Kauphöll Íslands og hafi þannig fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Um viðskipti með hluti í félaginu hafi því gilt m.a. ákvæði laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti, er lúti að yfirtöku, en um hana sé sérstaklega fjallað í 1. mgr. 32. gr. laganna.
Stefnendur vísa til hluthafalista í HÞ frá 31. desember 2003 og þar sem Fræ ehf. hafi að öllu leyti verið í eigu Þórshafnarhrepps hafi borið að líta á þá sem einn aðila viðvíkjandi eignarhlut í félaginu.
Í viðskiptunum í júnímánuði 2004 hafi Fræ ehf. eignast 34% þess hlutafjár sem Samherji hf. átti og hafi samanlagður eignarhlutur Fræs ehf. og Þórshafnarhrepps því verið 39,58%. Er í því sambandi á það bent að hefði annað hvort Þórshafnarhreppur eða Fræ ehf. eignast 0,40% meiri hlut í félaginu hefðu þeir orðið skyldugir til að gera öllum hluthöfum í HÞ yfirtökutilboð þar sem þeir hefðu þá beinlínis eignast 40% atkvæðaréttar í félaginu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 33, 2003.
Telja stefnendur að kaup stefnda Svalbarðshrepps á þeim öðrum hlutum í HÞ sem viðskipti urðu með í júní 2004, er hækkuðu eignarhlut hreppsins í HÞ úr 1,02 í 28,5%, hafi verið gerð með það að markmiði að komast hjá yfirtökuskyldu gagnvart öðrum hluthöfum í félaginu. Er af hálfu stefnenda það lagt til grundvallar hvað sem öðru líði, að telja verði að slík samstaða hafi verið með Svalbarðshreppi og öðrum stefndu varðandi kaup þessi og ráðstöfun eignarhlutarins, að líta beri svo á að þeir hafi, beint eða óbeint, yfirtekið hluti í félaginu og þannig ráðið sameiginlega meira en 40% atkvæðaréttar í HÞ. Færa stefnendur svofelld rök fyrir greindri afstöðu sinni:
1. Með bréfum, dags. 1. febrúar 2005 hafi stefnandinn, Sjóvá h.f., óskað eftir upplýsingum frá Þórshafnarhreppi og Svalbarðshreppi um atvik þessa máls. Svar Svalbarðshrepps, sé dagsett 16. febrúar 2005, en meðfylgjandi því hafi verið afrit úr fundargerðarbók hreppsnefndar vegna þriggja funda hennar. Í fundargerð, dags. 30. september 2004, komi fram að hreppsnefnd Svalbarðshrepps hafi samþykkt að setja hlutabréf hreppsins í HÞ að veði til tryggingar láni Fræs ehf. hjá Sparisjóðabanka Íslands. Liggi þannig fyrir að öll kaup Svalbarðshrepps og Fræs ehf. á hlutabréfum í HÞ á árinu 2004 hafi verið fjármögnuð með einu láni, sem Fræ ehf. tók hjá Sparisjóðabanka Íslands. Svalbarðshreppur hafi svo látið hlutabréf sín að veði til tryggingar greiðslu lánsins. Telja stefnendur þetta augljósa vísbendingu um að aðild Svalbarðshrepps á þessum kaupum hafi eingöngu verið til málamynda og að það hafi í raun verið Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur sem stóðu fyrir þessum viðskiptum. Telja stefnendur að hvað sem öðru líði sé ljóst að með þessu hafi nefndir aðilar bundist böndum um eignarhlut Svalbarðshrepps í HÞ og að stefndi Svalbarðshreppur hafi ekki verið frjáls að því að ráðstafa eignarhlut sínum eða atkvæðisrétti án samráðs við Fræ ehf. og þar með einnig Þórshafnarhrepp.
2. Viðbrögð stefnda Svalbarðshrepps við áður nefndu kauptilboði stefnendanna Hilmars Þórs og Rafns frá í nóvember 2004 séu einnig því til stuðnings að slík samstaða hafi verið með stefndu að yfirtökuskylda hafi stofnast. Í því sambandi benda stefnendu til áður rakinnar fundargerðar stefnda Svalbarðshrepps frá 22. nóvember 2004 þar sem nefnt tilboð hafi verið tekið fyrir, en það ákveðið að byrjað skyldi að bjóða stefnda Þórshafnarhreppi kauprétt að eignarhlutanum. Telja stefnendur að á því geti ekki verið önnur skýring en sú að stefndi Svalbarðshreppur hafi ekki talið sig frjálsan að því að ráðstafa eignarhluta sínum í HÞ án samráðs við Þórshafnarhrepp. Í því sambandi benda stefnendur enn fremur á að í fundargerðinni komi það fram að Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Þórshafnarhrepps, hafi mætt á nefndan hreppsstjórnarfund umrætt kvöld og borið fram ósk um að Þórshafnarhreppi yrði veitt svigrúm til að skoða hvaða möguleika hreppurinn hefði. Staðhæfa stefnendur að niðurstaða málsins hafi og orðið sú, að Svalbarðshreppur hafi ekki tekið tilboði þeirra Hilmars Þórs og Rafns Jónssonar. Telja stefnendur þá ákvörðun að hafna nefndu kauptilboði lítt skiljanlega þegar litið er til þess gengis sem í boði var og að stefndi Svalbarðshreppur seldi eignarhlut sinn í HÞ skömmu síðar eða í lok desember 2004 á genginu 3,68 fyrir hverja krónu nafnverðs. Í því sambandi verði að hafa í huga að áliti stefnenda að á sama tíma hafi stefndu Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur selt alla hluti sína í HÞ til Símatúns ehf. fyrir sama verð. Verði ekki dregin önnur ályktun af þessu ferli að áliti stefnenda en að Svalbarðshreppur hafi ekki mátt ráðstafa eignarhluta sínum til tilboðsgjafanna Hilmars Þórs og Rafns Jónssonar nema með samþykki Þórshafnarhrepps. Af því leiði að Þórshafnarhreppur hafi í raun haft vald til að stjórna eignarhluta Svalbarðshrepps í HÞ.
3. Enn fremur telja stefnendur það vekja sérstaka athygli í tengslum við framangreinda atburðarás, að fyrir viðskiptin með hlutabréfin í HÞ í júnímánuði 2004 hafi Svalbarðshreppur átt 1,02% hlut í félaginu, en eftir söluna til Símatúns í desember 2004 hafi hreppurinn átt áfram sama hlut í félaginu. Telja stefnendur þetta augljósa vísbendingu um að kaup hreppsins í hlut HÞ á árinu 2004 hafi verið til málamynda og gerð í því skyni að Þórshafnarhreppur og Fræ ehf. kæmust hjá yfirtökuskyldu í félaginu.
4. Af hálfu stefnenda er til þess vísað að fyrir höfðun þessa máls hafi nokkrir hreppsnefndarmenn í Þórshafnarhreppi og Svalbarðshreppi komið fyrir dóm til skýrslugjafar að kröfu stefnanda Sjóvár h.f. Telja stefnendur að það sem þá hafi komið fram staðfesti sjónarmið stefnenda hér að ofan. Þ.á.m. hafi það vakið athygli hversu illa margir nefndarmenn mundu eftir nefndum viðskiptum með hlutabréf í Hraðfrystistöð Þórshafnar h.f. sumarið 2004 og þá ekki síst þegar litið sé til þess að hrepparnir voru að stofna til skuldbindinga er námu rúmlega 960 milljónum króna og að um mikla áhættu var að ræða og loks hversu litlar viðræður virðast hafa átt sér stað í hreppsnefndunum vegna nefndra viðskipta. Telja stefnendur að draga megi eftirtaldar ályktanir af nefndum skýrslum, en vísa að öðru leyti til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála þar um:
Að nefndir hreppar stóðu saman að því að eignast eignarhlut Samherja h.f. í HÞ í því skyni að koma í veg fyrir að störf flyttust úr byggðarlaginu, að eignarhald stefndu á hlutabréfum í HÞ og ráðstöfun þeirra á eignarhlutunum byggði ekki á fjárfestingar- eða arðsemissjónarmiðum heldur á félagslegum markmiðum um atvinnustig í sveitarfélögunum, að kaup stefndu á hlutum í HÞ voru fjármögnuð sameiginlega með láni stefnda Fræs ehf. hjá Sparisjóðabankanum, en um það ferli og tengsl verði ekki síst litið til 32. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33, 2003, að Svalbarðshreppur var ekki frjáls að því að ráðstafa eignarhluta sínum með sölu til þriðja aðila, en varð að taka tillit til hagsmuna Þórshafnarhrepps, að fjármögnunaraðili vegna greindra kaupa, Sparisjóðabankinn var um síðir einn af aðstandendum Símatúns ehf., sem eignaðist nálega allan hlut stefndu í HÞ, en stefnendur telja að það hafi verið eitt af upphaflegum markmiðum stefndu að eignarhlutanum yrði ráðstafað til eins aðila. Að stefndu seldu Símatúni ehf. hlut sinn rétt rúmlega 6 mánuðum eftir að þeir keyptu hlutinn af Samherja h.f., en með tímamörkunum hafi stefndu viljað forðast fyrra gengi bréfanna vegna yfirtökuskyldu kaupandans, að sölugengi hlutabréfanna hafi ekki miðast við markaðsvirði þeirra heldur hafi verið notast við gengi er hafi nægt til að stefndu slyppu skaðlausir frá kaupum sínum á hlutum Samherja h.f., og að við sölu Svalbarðshrepps á nefndum hlutum til Símatúns ehf. hafi hreppurinn veitt Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra Þórshafnarhrepps, umboð sitt, en að áliti stefnenda sé það skýr vísbending um samstöðu um eignarhaldið og meðferð á nefndum hlutum.
Að öllu framangreindu er það álit stefnenda að augljósir hagsmunir þeirra hafi verið fyrir borð bornir. Þannig hafi verðmæti hluta þeirra í félaginu verið rýrt til þess að stefndu næðu fram einkamarkmiðum sínum til að halda HÞ í byggðarlaginu og njóta þar með skatttekna o.fl. vegna starfsemi fyrirtækisins og verja þau störf sem heimamenn sinntu þar. Þessi markmið stefndu með greindu eignarhaldi á bréfum í HÞ hafi verið sameiginleg með þeim einum og hafi ekkert átt skylt með hagsmunum stefnenda í máli þessu.
Stefnendur byggja á því að framan raktar aðstæður séu nákvæmlega þær, sem 32. gr. laga um verðbréfaviðskipti hafi verið ætlað að taka á. Samkvæmt ákvæðinu skipti ekki máli hvort eignarhlutur í félagi hafi verið yfirtekinn beint eða óbeint og telja stefnendur augljóst að skýra verði orðalag greinarinnar svo að aðilar geti ekki komið sér undan yfirtökuskyldu með því að dreifa eignarhaldi á fleiri en einn aðila, sem þó fylgist allir að hvað varði ráðstöfun eignarhluta og meðferð yfirráða yfir félaginu. Í því samhengi og til samanburðar og skýringa vísa stefnendur til tilskipunar ESB um yfirtökutilboð þar sem kveðið sé á um að leggja skuli saman eignarhald hluthafa og annarra sem fylgja honum að málum (e. persons acting in consert). Viðkomandi aðilar séu skilgreindir svo: Einstaklingar eða lögaðilar sem starfa með tilboðsgjafanum eða viðkomandi útgefanda á grundvelli samnings, annað hvort formlegs eða óformlegs, skriflegs eða munnlegs, sem hefur það að markmiði að ná yfirráðum í viðkomandi útgefanda eða koma í veg fyrir að yfirtökutilboð annars nái fram að ganga.“ Stefnendur byggja á því að augljóst sé að túlka verði orðalagið „hlutur beint eða óbeint í fyrirtæki“ í nefndri 32. gr. laga um verðbréfaviðskipti svo að hún taki til þeirrar samvinnu um eignarhald og ráðstöfun hluta sem að framan hafi verið lýst að hafi verið á milli stefndu varðandi hluti í HÞ. Byggja stefnendur á því jafnframt að ákvæði 4. tl. 1. mgr. 32. gr. leiði til sömu niðurstöðu, ýmist beint eftir orðanna hljóðan eða á grundvelli samanburðarskýringar með framangreindu orðalagi 1. mgr. að öðru leyti. Að öðrum kosti séu hagsmunir þeirra sem minnihluta hluthafa algerlega fyrir borð bornir. Stefnendur byggja á því, með vísan til alls framangreinds, að leggja beri sönnunarbyrði á stefndu um að þeir sýni fram á, að ekki hafi verið slík samstaða með þeim um eignarhald og ráðstöfun eignarhluta og atkvæðisréttar í HÞ frá miðju ári 2004 til ársloka þess árs, að skylda hafi stofnast hjá þeim um að gera yfirtökutilboð í hluti annarra hluthafa í félaginu, þ.á.m. hluti stefnenda. Beri að hafa í huga álit stefnenda í því sambandi að stefndu Þórshafnarhreppur og Svalbarðshreppur hafi verið ófúsir til að leggja fram gögn og gefa upplýsingar um þessi viðskipti.
Stefnendur byggja jafnframt á því að önnur skilyrði 32. gr. fyrir yfirtökuskyldu séu og uppfyllt, svo sem að stefndu hafi farið með atkvæðisrétt til samræmis við eignarhluta í félaginu, en ljóst sé að þeir fóru með tæplega 70% eignarhlut í félaginu á tímabilinu frá júní til loka desember 2004.
Stefnendur segjast beina kröfum sínum að öllum stefndu in solidum með þeim rökum að stefndu hafi allir tekið þátt í því að valda stefnendum tjóni með þeim ráðstöfunum sem að framan hafi verið lýst, en um ábyrgð að því leyti er vísað til nefndrar 1. mgr. 32. gr. þar sem segi, að sá er öðlist rétt yfir hlut skuli gera yfirtökutilboð. Það sé álit stefnenda að stefndu hafi allir sameiginlega ráðið yfir þeim eignarhlutum sem þeir hafi verið skráðir fyrir og hafi yfirtökuskylda því hvílt á þeim öllum sameiginlega, en um þetta sé jafnframt vísað til megin reglna skaðabótaréttar og um heimild hvers stefnenda til að höfða mál er vísað til 24. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en augljóst sé af atvikum að stefnendur hafi lögvarða hagsmuni af kröfugerð sinni í málinu.
Dómkröfur stefnenda eru sundurliðaðar sem hér segir:
Í tilfelli allra stefnenda er lagður til grundvallar útreikningi dómkröfu sá fjöldi hluta sem viðkomandi stefnandi seldi Símatúni ehf. á grundvelli yfirtökutilboðs félagsins. Kaupgengi allra hluta var kr. 3,68 á hverja krónu nafnverðs. Allir stefnendur byggja á því að stefndu hefði lögum samkvæmt borið að gera þeim yfirtökuboð þegar stefndu urðu yfirtökuskyldir samkvæmt framansögðu. Vegna ákvæðis 33. gr. laga um verðbréfaviðskipti hefði kaupgengi í slíku yfirtökuboði ekki getað orðið lægra en kr. 3,96 á hverja krónu nafnverðs, enda var það gengið sem notast var við þegar stefndu keyptu bréf Samherja h.f. Af þessu leiðir að dómkrafa hvers stefnanda verður mismunurinn á fjölda seldra hluta margfölduðum með genginu 3,96 og fjölda seldra hluta margfölduðum með genginu 3,68. Sá mismunur samsvarar því tjóni sem hver stefnandi varð fyrir við það að stefndu virtu ekki yfirtökuskyldu sína.
Nánar tiltekið sundurliðast krafan þannig:
Sjóvá-almennar tryggingar h.f.
Seldir hlutir 50.831.349
Verðmæti miðað við gengi 3,96 kr. 201.292.142
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 187.059.346
Mismunur kr. 14.232.796
Hilmar Þór Hilmarsson
Seldir hlutir 19.031.875
Verðmæti miðað við gengi 3,96 kr. 75.366.225
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 70.037.300
Mismunur kr. 5.328.925
Bjargið ehf.
Seldir hlutir 9.000.000
Verðmæti miðað við gengi 3,96 kr. 35.640.000
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 33.120.000
Mismunur kr. 2.520.000
Rafn Jónsson
Seldir hlutir 18.241.962
Verðmæti miðað við gengi 3,96 kr. 72.238.169
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 67.130.420
Mismunur kr. 5.107.749
Kristín Alda Kjartansdóttir
Seldir hlutir 1.988.908
Verðmæti miðað við gengi 3,96 kr. 7.876.076
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 7.139.181
Mismunur kr. 556.895
Freyja Önundardóttir
Seldir hlutir 546.491
Verðmæti miðað við gegni 3,96 kr. 2.164.104
Verðmæti miðað við gengi 3,68 kr. 2.011.087
Mismunur kr. 153.017“
Um lagarök vísa stefnendur til áður nefndra lagaákvæða laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti til stuðnings dómkröfum sínum. Um málskostnaðarkröfur er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Um vaxta- og dráttarvaxtakröfu er vísað til ákvæða laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 6., 8. og 9. gr. laganna.
Málsástæður og lagarök stefndu, Langanesbyggðar, áður Þórshafnarhrepps og Fræs ehf.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að þeir hafi við hlutafjárkaup sín í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. verið algjörlega sjálfstæðir og því ráðið yfir eignum sínum. Um allan aðdraganda kaupanna og fjármögnun vísa stefndu til áður rakinnar málavaxtalýsingar, en einnig til þess að fyrir kaupin hafi þeir leitað lögfræðilegs álits hjá LEX lögmannsstofu ehf. um gildandi rétt.
Varðandi fjármögnun kaupanna, bæði af hálfu Fræs ehf. og Svalbarðshrepps, benda stefndu sérstaklega á að tryggingar á lánunum hafi í öllum tilfellum verið sjálf hlutabréfin, líkt og eðlilegt hafi verið og að í lánssamningunum hafi ekki verið kveðið á um aðrar takmarkanir á eignarhaldi á bréfunum. Hafi stefndu, líkt og stefndi Svalbarðshreppur því haft fullan ráðstöfunarrétt á hlutabréfum sínum og jafnframt haft óskoraðan atkvæðisrétt á grundvelli þeirra. Af hálfu stefndu er að þessu leyti öllum málatilbúnaði stefnenda varðandi tengsl við stefnda Svalbarðshrepp, um fjármögnun og lánveitingar, varðandi ráðstöfun og ályktunum um skýrslugjafir vitna andmælt sem rakalausum og ósönnuðum fullyrðingum.
Af hálfu stefnda, Langanesbyggðar, áður Þórshafnarhrepps, er til þess vísað að sveitarfélaginu, líkt og stefnda Svalbarðshreppi, hafi verið það sameiginlegt að vilja halda háu atvinnustigi í byggðarlaginu og hafi kaup Fræs ehf. og eignarhald hreppsins komið til vegna þess að sveitarstjórnarmenn hafi haft áhyggjur af því að Hraðfrystistöð Þórshafnar myndi minnka umsvif sín á svæðinu. Telja stefndu að væntanlega hafi það sama átt við fyrirsvarsmenn hjá stefnda Svalbarðshreppi.
Stefndu vísa varðandi ofangreint til þess, að það að hluthafar í skráðum félögum deili framtíðarsýn eða stefnu að einhverju leyti og vinni að framgangi hennar, leiði ekki til yfirtöku samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 33, 2003, líkt og haldið sé fram af hálfu stefnenda. Telja stefndu að hafa verði í huga að umrætt lagaákvæði sé afar íþyngjandi og beri því að skýra það með þrengjandi lögskýringu. Rúmri túlkun stefnenda sé því alfarið andmælt, enda verði ekki séð að hún hafi neina stoð í lögskýringagögnum. Þá telja stefndu að þrátt fyrir að ákvæðið væri skýrt með rúmum hætti myndi það þó ekki geta leitt til þess að yfirtökuskylda myndaðist, enda algjörlega ósannað að einhver atvik hafi gerst er hafi leitt til þess að skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt. Málatilbúnaður stefnenda sé þvert á mót byggður á getgátum og dylgjum og eigi sér enga stoð í gögnum málsins, enda sé ljóst að ekkert samstarf eða samstaða hafi verið með stefndu í máli þessu sem hafi getað leitt til þess að yfirtökuskylda hafi myndast í skilningi nefnds ákvæðis.
Af hálfu stefndu, Langanesbyggðar og Fræs ehf., er því andmælt að frá upphafi hafi staðið til að ráðstafa eignarhluta allra stefndu í einu lagi til nýs eiganda. Er á það bent að hvað varðar sölu Fræs ehf. og Þórshafnarhrepps á hlutabréfum í HÞ í lok árs 2004 hafi viðræður þar um hafist í desember það ár. Þeim viðræðum hafi síðan lokið með samkomulagi um kaup Símatúns ehf. á hlutabréfum Fræs ehf. og þáverandi Þórshafnarhrepps þann 29. desember sama ár. Þegar það hafi legið fyrir hafi stefndi Svalbarðshreppur jafnframt ákveðið að selja stærsta hlutann af sínum bréfum til Símatúns ehf. Af hálfu stefndu er og staðhæft að ávallt hafi það legið fyrir að Fræ ehf. hafi ætlað að fá fleiri fjárfesta að HÞ, en ákvörðun um að selja til Símatúns ehf. hafi hins vegar ekki legið fyrir fyrr en í viðræðum þeirra í lok desember nefnt ár. Við þá sölu hafi gengið 3,68 verið talið ásættanlegt með vísan til þess að lítil eða engin viðskipti hafi verið með bréf í HÞ. Því hafi verið um markaðsverð að ræða, en ljóst hafi verið að Fræ ehf. hafi ekki getað tekið lægra tilboði, enda hafi það þá leitt til taps á fjárfestingunni.
Af hálfu stefndu er á því byggt að eignarhlutur Fræs ehf. og Þórshafnarhrepps hafi í umræddum viðskiptum numið samanlagt 39,58% af heildarfé HÞ. Er á því byggt að stefndu hafi því hvorki beint né óbeint eignast 40% atkvæðisréttar í félaginu, þeir hafi heldur aldrei öðlast rétt til að tilnefna eða setja af meirihluta stjórnar og heldur aldrei fengið rétt til að stjórna félaginu á grundvelli samþykkta eða á annan hátt með samningi. Þá er á því byggt að ósannað sé að hin stefndu hafi á grundvelli samnings við stefnda Svalbarðshrepp, eða aðra hluthafa í HÞ, haft rétt til að ráða yfir sem nemur 40% atkvæða í félaginu. Ákvæði 32. gr. laga nr. 33, 2003 eigi því ekki við og þar af leiðandi hafi engin yfirtökuskylda myndast.
Af hálfu stefndu er þeirri málsástæðu stefnenda, að leggja beri sönnunarbyrði á þá í málinu alfarið mótmælt, enda hljóti stefnendur að þurfa að sanna það með beinum hætti að einhver hinna stefndu hafi beint eða óbeint yfirtekið hlut í félaginu með þeim hætti að eitthvert skilyrða nefndrar 32. gr. eigi við. Slíkt hafi stefnendum alls ekki tekist, enda hafi allur málatilbúnaður þeirra byggst á getgátum og haldlausum fullyrðingum um atvik máls. Verði því að taka sýknukröfu stefndu til greina.
Stefndu mótmæla því jafnframt að yfirtökuskylda geti hvílt á öllum stefndu sameiginlega líkt og haldið sé fram í stefnu. Benda þeir á að ákvæði 32. gr. laga nr. 33, 2003 geri klárlega ráð fyrir því að það sé einn aðili er verði yfirtökuskyldur ef skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Þannig segi í ákvæðinu að „sá er öðlast rétt yfir hlutnum“ skuli gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Verði yfirtökuskylda talin hafa myndast geti hún því einungis hafa myndast á hendur einum aðila. Þar sem stefnendur geri kröfu sína á hendur öllum stefndu sé óljóst á hendur hverjum þeir telja skylduna hafa myndast. Sé athygli dómsins vakin á þessum óskýrleika og bent á að þessi málatilbúnaður kunni að valda frávísun ex officio, sbr. e-lið 80. gr. laga nr. 90, 1991, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga.
Hvað sem öðru líður telji stefndu augljóst að einungis verði hægt að dæma stefnukröfur á hendur einum hinna stefndu, enda séu skilyrði skaðabótaskyldu ekki fyrir hendi vegna þeirra stefndu er ekki teljist yfirtökuskyldir.
Um lagarök vísa stefndu til áður tilgreindra lagaákvæða, en að öðru leyti vísa þeir varðandi málskostnað til 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum, en um virðisaukaskatt af málskostnaði vísa þeir til laga nr. 50, 1988.
Málsástæður og lagarök stefnda, Svalbarðshrepps.
Af hálfu stefnda, Svalbarðshrepps, er til þess vísað að 32. gr. laga nr. 33, 2003 byggi á því að tilboðsskylda nái til allra þeirra sem náð hafi yfirráðum á skráðum félögum með þeim hætti sem nánar sé lýst í 1.-4. tl. 1. mgr. greinarinnar. Telur stefndi að með yfirráðum sé átt við að aðili ráði atkvæðisréttinum í reynd, þ.e. geti að megin stefnu til ráðið hvernig réttindum sem hlutnum fylgi sé ráðstafað.
Aðalkröfu sína um frávísun byggir stefndi, Svalbarðshreppur á eftirtöldum málsástæðum:
Stefndi telur málatilbúnað stefnenda misvísandi um aðild hans. Bendir hann á að stefnendur telji augljóst að „ aðild Svalbarðshrepps að þessum kaupum hafi eingöngu verið til málamynda og það hafi í raun verið Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur sem stóðu fyrir þessum viðskiptum “ og hafi Svalbarðshreppur ekki verið frjáls „ að því að ráðstafa atkvæðisrétti sínum án samráðs við Fræ ehf. og þar með einnig Þórshafnarhrepp “. Hafi leitt af meintum samblæstri stefndu í málinu að „ Þórshafnarhreppur hafði í raun vald til að stjórna eignarhlut Svalbarðshrepps í HÞ “. Telur stefndi af framangreindu ótvírætt að stefnendur byggi málatilbúnað sinn á því að Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur hafi náð yfirráðum í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., haft öll ráð yfir þeim atkvæðisrétti er fylgdi hlutabréfum Svalbarðshrepps og þau því stjórnað Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. í krafti samanlagðs atkvæðamagns þeirra og Svalbarðshrepps, en um lagarök vísi stefnendur fyrir meintri greiðsluskyldu allra stefndu til þáverandi 4. tl. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 33, 2003. Ekki sé hins vegar byggt á því af hálfu stefnenda að 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 32. gr. eigi við í málinu. Vísar stefndi til þess að af lagagreininni sé ljóst að yfirtökuskyldan myndist aðeins hjá þeim aðila sem fái, í tilfelli nefnds 4. tl. ráð yfir 40% atkvæðamagns með samningi við aðra.
Telur stefndi, Svalbarðshreppur, að með ofangreindum málatilbúnaði stefnenda, þ.e. að Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur hafi fengið yfirráð yfir þeim atkvæðisrétti, er fylgt hafi hlutafjáreign Svalbarðshrepps í HÞ, sé ljóst að ekki séu lagaskilyrði til þess að dómurinn felli greiðsluskyldu á hann, eins og krafist sé af hálfu stefnenda, þar sem yfirtökuskylda skv. nefndri 32. gr. geti aðeins stofnast hjá þeim aðila er fari með 40% atkvæðisréttar eða meira. Telur stefndi að bersýnilega skorti rökrétt lögfræðilegt samræmi milli dómkrafna stefnenda á hendur stefnda Svalbarðshreppi og svo þeirra málsástæðna sem stefnendur byggi mál sitt á. Málatilbúnaður fullnægi því ekki ákvæðum d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91, 1991 og eins og málið sé vaxið hafi stefnendur því ekki hagsmuni að lögum af því að gera kröfu á hendur stefnda í málinu og beri því að vísa því frá dómi að því er varðar hann.
Varakröfu sína um sýknu byggir stefndi, Svalbarðshreppur, á eftirtöldum málsástæðum.
Stefndi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki séu lagaskilyrði til þess að dæma hann greiðsluskyldan þar eð stefnendur reisi mál sitt á því að Þórshafnarhreppur og Fræ ehf. hafi náð yfirráðum í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og því ráðið atkvæðisréttinum og að Svalbarðshreppur hafi aðeins átt hlutabréfin til málamynda til að forða Þórshafnarhreppi og Fræi ehf. frá yfirtökuskyldu skv. 32. gr. laga nr. 33, 2003, sbr. umfjöllun frávísunarkröfu hér að framan. Því hafi yfirtökuskylda aldrei stofnast hvað stefnda Svalbarðshrepp snertir og verði því að sýkna hann af öllum kröfum stefnenda af þessum ástæðum.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að fullyrðingar stefnenda um samninga milli stefndu um meðferð atkvæðisréttar í HÞ séu alrangar og án nokkurs stuðnings í gögnum málsins. Sé ljóst að málatilbúnaður stefnenda einkennist af dylgjum og staðhæfingum, sem eigi sér enga stoð. Hafi hvorki verið til að dreifa munnlegum né skriflegum samningum milli stefndu sem hafi fært Þórshafnarhreppi og Fræi ehf. ráð yfir hlutabréfum Svalbarðshrepps í félaginu við kaup Svalbarðshrepps á hlutabréfunum eða síðar. Hafi Svalbarðshreppur þvert á móti tekið ákvörðun um kaup á eigin forsendum, borið alla áhættu af kaupunum og haft full ráð yfir hlutabréfunum og þeim atkvæðisrétti sem fylgdi þeim. Hafi í ljósi þessa ekki verið til að dreifa neinum samningum við meðstefndu um að þeir skyldu halda Svalbarðshreppi skaðlausum af kaupum og sölu á bréfunum eins og hlyti að hafa verið raunin ef atvik væru með þeim hætti sem stefnendur haldi fram.
Af hálfu stefnda, Svalbarðshrepps, er til þess vísað að ákvörðun hreppsins um að kaupa hlutabréfin í Hraðfrystistöðinni hafi verið grundvölluð á því að hreppurinn hafi viljað sporna gegn því að rekstur félagsins og aflaheimildir flyttust úr byggðarlaginu. Er á það bent að hreppurinn hafi, að höfðu samráði við fjársterka aðila, er hafi lýst yfir áhuga á að kaupa hlutabréfin síðar á forsendum hans, ákveðið að ganga að kaupunum og í framhaldi af því þegið boð Fræs ehf. um fjármögnun gegn handveði í hlutabréfunum til Sparisjóðabankans, enda hafi engar íþyngjandi afleiðingar fylgt því, sbr. áður fengið lögfræðiálit Lex Lögfræðistofu fyrir stefnda Þórshafnarhrepp, en þar hafi m.a. legið fyrir að stefndi, Svalbarðshreppur, myndi fara með atkvæðisrétt á grundvelli hins veðsetta hlutar.
Af hálfu stefnda, Svalbarðshrepps, er því alfarið andmælt að samstaða um kaup á hlutabréfum í skráðum félögum eða beiting atkvæðisréttar með sama hætti leiði til yfirtökuskyldu hlutaðeigandi líkt og stefnendur virðist telja að sé inntak áður rakinnar 32. gr. laga nr. 33, 2003. Áréttar stefndi, Svalbarðshreppur, þá staðreynd að forsenda allra stefndu með kaupunum hafi verið að sporna gegn því að rekstur og aflaheimildir HÞ yrðu seldar úr byggðarlaginu, en það leiði hins vegar fráleitt til þess að allir meðstefndu teljist hafa gert með sér samning um meðferð atkvæðisréttar á HÞ í skilningi nefndrar lagagreinar. Væri slíkt raunin telur stefndi að þá myndi yfirtökuskylda myndast hjá öllum þeim hluthöfum er hefðu sameiginlega sýn á framtíð skráðra félaga á markaði eða sameiginlega hagsmuni varðandi rekstur þeirra, en sú sé ekki raunin. Telur stefndi að skýra beri lagagreinina þröngri skýringu, enda sé verulega íþyngjandi að taka á sig skyldu til innlausnar samkvæmt greininni. Verði því að vera um að ræða samning er mæli fyrir um að tiltekinn aðili fari með ráð yfir 40% atkvæðisréttar eða meira í félagi, sem skráð sé á skipulegan verðbréfamarkað. Með því að engum slíkum samningum hafi verið til að dreifa milli stefndu í máli þessu beri að sýkna stefnda, Svalbarðshrepp, af kröfum stefnenda.
Og að því er varði vangaveltur stefnenda um að söluverð hlutar Svalbarðshrepps hafi verið til marks um meinta samninga stefndu um hlutabréfin áréttar stefndi, Svalbarðshreppur, að söluverðið 3,68% per hlut hafi nægt til þess að leysa hreppinn frá öllum skuldbindingum sínum við Fræ ehf. vegna kaupanna. Vísar stefndi til þess að fjármögnun kaupanna hafi verið í erlendum myntum og er hlutabréfin hafi verið seld hafi íslenska krónan styrkst nokkuð með þeim afleiðingum að lánið hafi lækkað í krónum talið. Stefndi hafi ekkert greitt af kaupverðinu og því hafi ekki verið ástæða til að freista hærra verðs fyrir hlutabréfin en raun varð á, enda hafi það verið eðlilegt og sanngjarnt. Vísar stefndi til þess að í því efni verði að hafa í huga að sveiflur séu á hlutabréfamarkaði með skráð verðbréf og sé verð því breytilegt frá einum tíma til annars, allt eftir markaðsástæðum hverju sinni. Breyting á hlutabréfaverði frá kaupum stefnda til sölu, þ.e. 3,96-3,68, hafi verið u.þ.b. 7%, er verði að telja fyllilega eðlilegt á 6 mánaða tímabili og þar sem tilgangur stefnda með hlutabréfakaupunum hafi verið sá að tryggja að rekstur Hraðfrystihúss Þórshafnar yrði óbreyttur og þar eð Símatún ehf. hafi lýst því yfir að það ætlaði að halda rekstrinum óbreyttum, hafi það verið mat stefnda að meiri ávinningur hafi verið að selja Símatúni ehf. hlut sinn að skaðlausu heldur en að freista sölu með þeirri áhættu sem því hafi fylgt, á e.t.v. einhverju hærra gengi til aðila, sem hefði viljað selja reksturinn og aflaheimildirnar burtu, en það hefði rýrt framtíðarvirði félagsins þó svo að stundarhagnaður hefði e.t.v. orðið meiri. Söluverðið hafi því að öllu þessu virtu verið eðlilegt og raunar hafi það verið mikilvægt fyrir stefnda að losna undan fjárhagslegri áhættu vegna áður greindra kaupa.
III.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur, stefnendurnir Hilmar Þór Hilmarsson og Rafn Jónsson, en einnig sveitarstjóri stefnda Langanesbyggðar, áður Þórshafnarhrepps, Björn Ingimarsson. Þá gáfu vitnaskýrslur Jóhannes Sigfússon bóndi og fyrrverandi oddviti Svalbarðshrepps, Sigurður Jens Sverrisson bóndi og hreppsnefndarmaður í Svalbarðshreppi, Friðrik Guðmundsson sjómaður og hreppsnefndarmaður í Svalbarðshreppi. Þá gáfu vitnaskýrslur fyrir dómi fyrir höfðun málsins, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91, 1991 þau Fanney Ásgeirsdóttir og Hreinn Geirsson, bæði hreppsnefndarmenn í Svalbarðshreppi, svo og Sigurgeir Stefánsson, Sóley Ólafsdóttir og Kristján Indriðason, hreppsnefndarmenn í Þórshafnarhreppi, nú Langanesbyggð.
Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið á mál þetta rót sína að rekja til þeirra viðskipta sem urðu með hlutabréf í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. (HÞ) á árinu 2004. Liggur fyrir að stærsti eignaraðilinn, Samherji hf., átti er atvik gerðust 49,66% af hlutafé félagsins. Hann seldi Fræi ehf., sem alfarið var í eigu Þórshafnarhrepps, nú Langanesbyggðar, í júnímánuði rúm 34% af þeirri eign, en Svalbarðshreppi rúm 15%.
1. Af hálfu stefnenda er í máli þessu bótakröfu beint að öllum stefndu in solidum með þeim rökum að þeir hafi haft sameiginleg ráð yfir eignarhlutum í HÞ, en vanrækt yfirtökuskyldu og þannig valdið því tjóni sem haldið er fram.
Af hálfu stefnda Svalbarðshrepps var í greinargerð krafist frávísunar máls. Að áliti dómsins er sú krafa öðrum þræði byggð á efnisatriðum fremur en formsatriðum, sbr. 2. ml. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91, 1991 og þegar til þess er litið að með kaupum sínum juku stefndu óumdeilanlega við eignarhluti sína í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og kröfugerð stefnenda þykir nægilega skýr varðandi ágreiningsefnið eru ekki efni til, með hliðsjón af d og e lið 80. gr. laga nr. 91, 1991, að fallast á að málinu verði vísað frá dómi við svo búið.
2. Samkvæmt því sem áður er rakið var Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. er atvik máls gerðust skráð í Kauphöll Íslands og giltu því um viðskipti með hluti í félaginu þágildandi ákvæði, 1. mgr. 32. gr. áðurnefndra laga nr. 33, 2003 um verðbréfaviðskipti, en þar segir:
„Hafi hlutur beint eða óbeint verið yfirtekinn í hlutafélagi sem hefur fengið skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulögðum verðbréfamarkaði, skal sá er öðlast rétt yfir hlutnum, eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirtakan átti sér stað, gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að afhenda honum hlut sinn, enda hafi yfirtakan haft í för með sér að hann:
1. Hefur eignast 40% atkvæðaréttar í félaginu,
2. Hefur öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meirihluta stjórnar í félaginu,
3. Hefur fengið rétt til þess að stjórna félaginu á grundvelli samþykktar þess eða
á annan hátt með samningi við félagið eða,
4. Hefur á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur
40% atkvæða í félaginu.“
Af framburði allra þeirra aðila er gáfu skýrslur fyrir dómi verður ráðið að megin forsendan fyrir kaupum stefndu á hlutafjáreign Samherja hf. og tengdra aðila sumarið 2004 hafi verið áhyggjur sveitarstjórnarmanna um að fyrir dyrum stæðu verulegar breytingar á rekstri stærsta atvinnurekanda héraðsins, Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf.
Liggur fyrir að eftir hlutafjárkaupin voru stefndu Þórshafnarhreppur og Fræ ehf. eignaraðilar að um 39,50% í HÞ og stefndi Svalbarðshreppur að rúmlega 28%. Verður og ráðið að stefnendur hafi verið eigendur að rúmlega 21% eignarhlut.
Óumdeilt er að Sparisjóðabanki Íslands annaðist fjármögnun á hlutafjáraukningu stefndu í HÞ með lánveitingum í erlendum myntum, og að stefnda Fræ ehf. hafði milligöngu um lánveitinguna til stefnda Svalbarðshrepps. Er til þess að líta að í samningi bankans vegna láns Svalbarðshrepps, þar sem hreppurinn veðsetur hlutabréf sín í HÞ, er svofellt ákvæði: ,,Veðsali (Svalbarðshreppur) skal fara með þann atkvæðisrétt, sem fylgir hlutabréfunum “
Í málinu liggur það fyrir að þann 11. júní 2004, þ.e. nokkrum dögum fyrir greind viðskipti, fékk stefnda Fræ ehf. í hendur minnisblað frá lögmannstofunni Lex varðandi ákvæði verðbréfaviðskiptalaga nr. 33, 2003. Af blaði þessu verður ráðið að fyrirsvarmenn hins stefnda félags hafi verið að spyrjast fyrir um gildandi rétt, þ.á.m. um yfirtökureglur, en einnig um atkvæðisrétt Svalbarðshrepps vegna nefndrar fyrirgreiðslu félagsins varðandi lánveitingu Sparisjóðabankans.
Samkvæmt framansögðu hafa stefndu í máli þessu andmælt öllum málsástæðum stefnenda varðandi samráð í skilningi laganna um verðbréfaviðskipti nr. 33, 2003.
Þegar framangreint er virt er að áliti dómsins ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnenda, að lýst kaup stefnda Svalbarðshrepps í HÞ hafi verið málmyndagerningur eða að stefndu Fræ ehf. og Þórshafnarhreppur hafi með kaupum sínum myndað bein eða óbein yfirráð um eignarhlut í félaginu. Eru að áliti dómsins ekki forsendur til annars en að fallast á þær málsástæður stefndu, annars vegar Þórshafnarhrepps og Fræs ehf. og hins vegar Svalbarðshrepps, að þeir hafi hvor í sínu lagi farið með þann atkvæðisrétt sem fylgdi hlutabréfaeign þeirra í HÞ, en upplýst er að eftir kaupin sátu fulltrúar þeirra í stjórn félagins.
Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi áttu fyrirsvarsmenn Fræs ehf. og Þórshafnarhrepps í viðræðum við nokkra fjárfesta í sjávarútvegi sumarið 2004 um aðkomu að rekstri HÞ. Og er þær viðræður báru ekki tilætlaðan árangur hafi stefnendurnir Hilmar Þór og Rafn Jónsson afráðið að senda stefnda Svalbarðshreppi kauptilboð sitt, með þeirri ætlan að mynda meirihluta ásamt þeim aðilum sem stóðu þeim að baki. Í málinu liggur fyrir endurrit úr fundargerðarbók stefnda Svalbarðshrepps frá 20. nóvember 2004, en þar kemur m.a fram að sveitarstjóri Þórshafnarhrepps hafi komið á fund hreppsnefndarinnar. Hafa sveitarstjórnarmenn Svalbarðshrepps greint frá því, að tilgangur þeirra með boðun sveitarstjórans hafi verið að fá fregnir um fyrirætlanir Þórshafnarhrepps varðandi rekstur og eignarhald á HÞ. Þeir hafi jafnframt staðfastlega borið að Svalbarðshreppur hafi á þessum tímapunkti, sem endranær, verið frjáls af því að ráðstafa eignarhlutanum í HÞ, þ.á.m. til meðeigendanna Hilmars Þórs og Rafns Jónssonar, en að því leyti staðfestu vitnin efnisatriði bókunarinnar, um að kauptilboði stefnenda hafi ekki verið hafnað, heldur hafi verið óskað eftir lengri umhugsunarfresti. Af frásögn stefnenda, Hilmars Þórs og Rafns, sem er í samræmi við framburð þáverandi oddvita Svalbarðshrepps, var kauptilboðinu aldrei hafnað með formlegum hætti, en látið í það skína, a.m.k. af oddvitanum, að hreppsnefndinni hugnaðist það frekar með hliðsjón af framtíð HÞ að nýr meirihlutaeigandi í félaginu ætti stærri eignarhlut en stefnendur gerðu ráð fyrir í boði sínu.
Þegar framangreint er virt ásamt því að í ljós þykir leitt að fyrirsvarsmenn stefndu Fræs ehf. og Þórshafnarhrepps miðuðu kaup sín á eignarhlutanum í HÞ í upphafi við að þau leiddu ekki til yfirtökuskyldu verður fallist á þau rök þeirra í málinu að þeir hafi engin áform haft um að stofna til slíkrar skyldu. Og af framburði fyrirsvarsmanna sveitarfélaganna, líkt og allra annarra er gáfu skýrslu fyrir dómi, verður það lagt til grundvallar í málinu að markmiðið hafi verið að halda rekstri HÞ áfram til hagsbóta fyrir mannalíf í byggðarlögunum báðum. Verður því litið svo á að samhugur hafi verið á meðal hluthafanna um framtíðarstefnu félagsins.
Er nefnd atvik gerðust, er til þess að líta að ekki hafði að lögum verið innleidd tilskipun ESB nr. 2004/25/EB, sbr. nú lög 31, 2005 og koma þær reglur því ekki til álita í málinu. Og þegar framangreint er virt í heild verður að áliti dómsins ekki fallist á málsástæður stefnenda eða staðhæfingar þeirra í málinu gegn andmælum stefndu, að stefndu eða fyrirsvarsmenn þeirra hafi með hátterni sínu fyrir kaupin eða með því samstarfi sem tókst með þeim við stjórn HÞ eftir þau, þ.á.m. um að vinna að framgangi nefndrar stefnu og enn síðar með sölu til þriðja aðila í lok árs 2004, leitt til yfirtökuskyldu í skilningi þágildandi ákvæðis 32. gr., laga um verðbréfaviðskipti nr. 33, 2003. Verða stefndu því sýknaðir af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir atvikum og með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður í máli þessu.
Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991, sbr. framlagðar yfirlýsingar lögmanna.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Langanesbyggð, Fræ ehf. og Svalbarðshreppur, eru sýkn af kröfum stefnenda, Sjóvár hf., Hilmars Þórs Hilmarssonar, Bjargsins ehf., Rafns Jónssonar, Kristínar Öldu Kjartansdóttur og Freyju Önundardóttur.
Málskostnaður fellur niður.