Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2003


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Greiðsla
  • Skuldabréf
  • Gjalddagi


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003.

Nr. 189/2003.

Íslenska ríkið

(Björgvin Jónsson hrl.)

gegn

Önnu Fríðu Bernódusdóttur

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Fasteignakaup. Greiðsla. Skuldabréf. Gjalddagi.

Sökum vanefnda A á greiðslum, sem henni bar að inna af hendi samkvæmt kaupsamningi hennar við Í, krafðist Í þess að allar eftirstöðvar kaupverðsins yrðu gjaldfelldar. A reisti varnir sínar aðallega á því að ekki væri í kaupsamningnum heimild til gjaldfellingar. Fallist var á það með Í að vanefndir A væru verulegar og ollu þær því að allar eftirstöðvar kaupverðsins töldust fallnar í gjalddaga. Var A dæmd til að greiða þær ásamt dráttarvöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2003. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 14.221.240 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.000.000 krónum frá 16. janúar 2002 til 17. sama mánaðar, af 4.000.000 krónum frá þeim degi til 8. febrúar sama árs, af 1.034.344 krónum frá þeim degi til 15. apríl sama árs, en af 14.221.240 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði staðfestur með þeirri breytingu að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með kaupsamningi 16. janúar 2002 seldi áfrýjandi stefndu raðhús að Fífuseli 24 í Reykjavík. Er fram komið í málinu að eignin hafði áður verið seld á nauðungaruppboði að kröfu áfrýjanda og var uppboðsþoli eiginmaður stefndu. Kaupverð samkvæmt áðurnefndum samningi var 17.000.000 krónur og skyldi greiðast með 9.000.000 krónum í peningum og skuldabréfi, skiptanlegu fyrir húsbréf, að fjárhæð 8.000.000 krónur með 1. veðrétti í hinni seldu eign. Greiðslu skyldi nánar haga með þeim hætti að við undirskrift kaupsamnings átti að inna af hendi 1.000.000 krónur, degi síðar 3.000.000 krónur og 15. apríl sama árs 5.000.000 krónur. Gert var ráð fyrir að skuldabréfið, sem var verðtryggt miðað við tilgreinda vísitölu skyldi bera 5,1% vexti, sem skyldu reiknast frá 15. janúar 2002. Gat stefnda „valið um 4 eða 12 gjalddaga á ári”, en í reit fyrir fjölda afborgana voru þær tilgreindar 498. Átti fyrsti gjalddaginn að vera 15. apríl 2002 og þann dag skyldi seljandi gefa út afsal fyrir eigninni.

Stefnda greiddi ekkert við undirskrift samningsins og ekki heldur á gjalddaga degi síðar, en 8. febrúar 2002 greiddi hún áfrýjanda 2.965.656 krónur, er hún fékk útborgað lán að fjárhæð 3.000.000 krónur með 1. veðrétti í hinni seldu eign. Er ágreiningslaust að hún hafi ekki innt af hendi aðrar greiðslur samkvæmt samningnum. Með bréfi áfrýjanda 12. mars 2002 var skorað á stefndu að inna af hendi þær greiðslur sem í vanskilum væru, samtals 1.212.623 krónur. Var krafan sundurliðuð þannig að ógreiddur höfuðstóll næmi 4.000.000 krónum, dráttarvextir og kostnaður 158.875 krónum og virðisaukaskattur 19.404 krónum, en frá þessum fjárhæðum skyldi draga áðurnefnda innborgun að fjárhæð 2.965.656 krónur. Jafnframt var á það bent í bréfinu að stefnda ætti eftir að afhenda áfrýjanda umrætt skuldabréf og á hana skorað að gera það, ella yrði umsaminn höfuðstóll þess ásamt dráttarvöxtum og kostnaði innheimt innan 10 daga. Stefnda varð ekki við þessari áskorun og höfðaði áfrýjandi mál þetta 26. apríl 2002 til heimtu skuldarinnar. Krefur hann stefndu annars vegar um 6.034.344 krónur vegna vanskila á eftirstöðvum útborgunar og hins vegar 8.083.827 krónur samkvæmt ákvæðum samningsins um skuldabréfið, sem gefa átti út, ásamt áföllnum vöxtum að fjárhæð 103.069 krónur frá 15. janúar 2002 til 15. apríl sama árs, eða samtals 14.221.240 krónur, sem er stefnufjárhæðin. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

II.

Eins og fyrr greinir er óumdeilt að stefnda hefur ekki greitt áfrýjanda 6.034.344 krónur af 9.000.000 króna peningagreiðslu, sem hún átti að inna af hendi samkvæmt kaupsamningi málsaðila. Þá greinir hins vegar á um það hvort áfrýjandi hafi mátt gjaldfella alla skuldina, sem stefnda átti að greiða samkvæmt ákvæði samningsins um greiðslu með skuldabréfi. Heldur áfrýjandi því fram að vegna áðurnefndra vanskila sé öll skuldin samkvæmt skuldabréfinu fallin í gjalddaga, enda sé um verulega vanefnd að ræða. Hafi stefnda hvorki efnt þá skyldu sína samkvæmt samningnum að greiða áðurnefndar eftirstöðvar peningagreiðslunnar né afhent umrætt skuldabréf með þeim skilmálum sem um getur í samningnum. Áfrýjanda sé því heimilt að krefja stefndu um greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem inna átti af hendi samkvæmt skuldabréfinu ásamt vístöluhækkun, sem nemi 8.083.827 krónum, auk eftirstöðva útborgunar, 6.034.344 krónur. Stefnda reisir kröfu sína hvað fyrri fjárhæðina varðar á því að ekki hafi verið um verulega vanefnd að ræða af hennar hálfu. Í kaupsamningnum sé ekki að finna heimild til gjaldfellingar og því hvorki sjálfgefið að þessi hluti kaupverðsins sé fallinn í gjalddaga né að greiða eigi hann með peningum þegar í stað. Í samningnum sé enginn fyrirvari um það að hann öðlist ekki gildi ef samþykki Íbúðalánasjóðs fáist ekki og engin tímamörk séu á því hvenær bréfið skuli afhent seljanda. Í þinghaldi 10. mars 2003, fyrir munnlegan málflutning í héraði, lagði stefnda fram og bauð áfrýjanda skuldabréf að fjárhæð 8.000.000 krónur, útgefið 10. desember 2002 af stefndu til áfrýjanda með 2. veðrétti í hinni seldu eign. Skyldi bréfið koma í stað greiðslu samkvæmt því skuldabréfi, sem um var getið í kaupsamningi aðila og fyrsti gjalddagi vera 15. febrúar 2003, en vextir reiknast frá 15. janúar 2002. Hefur áfrýjandi hafnað þessu greiðsluboði stefndu.

III.

Stefnda hefur eins og áður segir einungis greitt áfrýjanda 2.965.656 krónur af kaupverðinu, sem var 17.000.000 krónur. Þá greiðslu innti hún fyrst af hendi 8. febrúar 2002, eða um þremur vikum eftir að tvær fyrstu peningagreiðslunnar af þremur, samtals 4.000.000 krónur, voru fallnar í gjalddaga. Hún hefur því hvorki greitt þær að fullu né neitt af þriðju afborguninni, sem er að fjárhæð 5.000.000 krónur. Samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins átti stefnda að auki að afhenda áfrýjanda umrætt skuldabréf og skyldi fyrsti gjalddagi þess vera sem fyrr segir 15. apríl 2002 eða sama dag og áfrýjandi átti að gefa út afsal og þar með ljúka öllum samningsskyldum sínum. Gefur því augaleið að stefnda átti í síðasta lagi að afhenda honum skuldabréfið þann dag. Er fallist á með áfrýjanda að þessar vanefndir stefndu séu verulegar og valdi því að allar eftirstöðvar kaupverðsins séu fallnar í gjalddaga, sbr. og dóma Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1954, bls. 534 og 1991, bls. 178. Ber því þegar af þeirri ástæðu að taka kröfu áfrýjanda til greina og dæma stefndu til að greiða honum 14.221.240 krónur ásamt dráttarvöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Stefnda verður dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi, eins og fram kemur í dómsorði.

Dómsorð:

         Stefnda, Anna Fríða Bernódusdóttir, greiði áfrýjanda, íslenska ríkinu, 14.221.240 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.000.000 krónum frá 16. janúar 2002 til 17. sama mánaðar, af 4.000.000 krónum frá þeim degi til 8. febrúar sama árs, af 1.034.344 krónum frá þeim degi til 15. apríl sama árs og af 14.221.240 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefnda greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 10. f.m. er höfðað með stefnu útgefinni 22. apríl 2002 og var málið þingfest þann 7. maí 2002.

          Stefnandi er Ríkissjóður Íslands, kt. 540269-6459, Sölfhólsgötu 7, Reykjavík.

          Stefnda er Anna Fríða Bernódusdóttir, kt. 070649-4549, Fífuseli 24, Reykjavík.

 

          Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 14.221.240 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2002 af kr. 1.000.000 til 17. janúar 2002, en af kr. 4.000.000 frá þeim degi til 8. febrúar 2002, en af kr. 1.034.344 frá þeim degi til 15. apríl 2002, en af kr. 14.221.240 frá þeim degi til greiðsludags.       

          Þá gerir stefnandi þær dómkröfur, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns stefnanda, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæðina skv. ákvæðum laga nr. 50/1988.

          Dómkröfur stefndu eru, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.

          Málavextir:

          Með kaupsamningi dagsettum 16. janúar 2002 keypti stefnda af stefnanda fasteignina að Fífuseli 24, Reykjavík.  

          Kaupverð var umsamið kr. 17.000.000, sem stefnda skyldi greiða þannig:

 

 

          Við undirritun kaupsamnings                                   kr.   1.000.000

          Þann 17. janúar 2002                                                  kr.   3.000.000

          Þann 15. apríl 2002                                                     kr.   5.000.000

 

          Með útgáfu fasteignaveðbréfs að fjárhæð

          skiptanlegum fyrir húsbréf. Skyldi

          skuldabréfið bera vexti frá 15. janúar 2002.            kr.   8.000.000

                                                                                Samtals  kr. 17.000.000

 

          Af ofangreindu hefur stefnda einungis greitt kr. 2.965.656, þann 8. febrúar 2002.

          Þann 10. desember 2002 gaf stefnda út fasteignaveðbréf að fjárhæð kr. 8.000.000 og hefur undir rekstri málsins boðið það fram sem greiðslu samkvæmt kaupsamningi.

          Málsástæður stefnanda:

          Af hálfu stefnanda er vísað til þess, að stefnda hafi með undirritun sinni undir kaupsamninginn skuldbundið sig til þess að greiða kaupverð hinnar seldu eignar í samræmi við þá skilmála, sem þar eru tilteknir. Af útborgun þeirri sem um var samið samtals kr. 9.000.000 hefur stefnda greitt kr. 2.965.656.

          Þegar mál þetta var höfðað þann 22. apríl 2002 hafði stefnda ekki enn gefið út fasteignaveðbréf það, sem samkvæmt kaupsamningi átti að hljóða á um kr. 8.000.000, vísitölutryggt með vísitölu neysluverðs og grunnvísitölu 219,5 stig. Bréfið skyldi bera vexti frá 15. janúar 2002 og fyrsti gjalddagi þess vera 15. apríl 2002. Þar sem stefnda hafði ekki gefið út umrætt fasteignaveðbréf, er málið var höfðað, er í kröfugerð krafist greiðslu á þeirri fjárhæð sem vera átti fjárhæð bréfsins að viðbættri verðbótahækkun á henni úr grunnvísitölu bréfsins í vísitölu aprílmánaðar 2002, sem sé 221,8 stig og nemi þá uppreiknaður höfuðstóll bréfsins kr. 8.083.827. Þá nemi áfallnir samningsvextir af bréfinu á tímabilinu frá 15. janúar 2002 til 15. apríl 2002 samtals kr. 103.069. Samtals nemi því vanskil stefndu vegna C liðar kaupsamningsins kr. 8.186.896 auk dráttarvaxta á þá fjárhæð frá 15. apríl 2002.

 

          Dómkröfur stefnanda séu þannig fundnar, að vanskil á kaupsamningsgreiðslum vegna útborgunar kaupverðs að höfuðstól kr. 6.034.344 og vegna fasteignaveðbréfs kr. 8.186.896, eða samtals að fjárhæð kr. 14.221.240. Krafist er dráttarvaxta á hverja kaupsamningsgreiðslu vegna útborgunar kaupverðs frá gjalddaga hennar í kaupsamningi og af ofangreindum höfuðstól greiðslu vegna fasteignaveðbréfs frá 15. apríl 2002.

 

          Af hálfu stefnanda er vísað til reglna á sviði fasteignaviðskipta, reglna samninga- og kauparéttar um skuldbindingagildi samninga. Þá er vísað til reglna á sviði kröfuréttar, m.a. reglna um efndir fjárskuldbindinga. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001.

          Málsástæður stefnda:

          Stefnda fellst á kröfu stefnanda að nokkru leyti, þ.e. að stefndi skuldi rúmar 6 milljónir króna vegna útborgunar greiðslna, sem áttu að koma 17. janúar 2002 og 15. apríl 2002, auk dráttarvaxta frá réttum gjalddögum. Hins vegar hafnar stefnda því, að gjaldfella þann hluta kaupverðs sem átti að greiða með fasteignaveðbréfi, enda hafi stefnda, eftir að mál þetta var höfðað, gefið bréfið út og boðið það fram til efnda á skuldbindingum samkvæmt kaupsamningnum. Stefnda bendir á, að atbeina stefnanda þurfi einnig til til þess að unnt sé að efna þennan hluta samnings, m.a. með veðheimild.

          Stefnda vísar til almennra reglna samningaráttar varðandi vanefndaúrræði og reglna kauparéttar um sama efni.

          Niðurstaða:

          Stefnandi hefur gert kröfu til þess, að stefnda verði dæmd til þess, að greiða með peningum kr. 8.000.000 auk verðbóta og vaxta, sem samið var um í kaupsamningi, að hún greiddi með fasteignaveðbréfi, skiptanlegu fyrir húsbréf. Af samningnum má ráða, að bréfið skyldi vera til 42 ára. Ekki er tekið fram í kaupsamningi, hvenær bréf þetta skyldi útgefið og óumdeilt er, að það hafði ekki verið gefið út þegar mál þetta var höfðað. Í kaupsamningi segir, að fasteignaveðbréf skuli hafa borist Íbúðalánasjóði fyrir lokun viðkomandi húsbréfa flokks, þó eigi síðar en ári frá undirritun kaupsamnings. Stefndi gaf út fasteignaveðbréfið þann 10. desember 2002 og bauð það fram, til fullnægju skyldu sinni samkvæmt kaupsamningi aðilanna. Stefnandi hafnaði þessu greiðsluboði stefnda og hélt fast við kröfu sína um greiðslu ofangreindrar fjárhæðar í peningum.

          Ekki er að finna í kaupsamningi aðilanna neina heimild til þess að gjaldfella með þeim hætti sem stefnandi krefst þann hluta kaupverðs, sem samið er um að verði greiddur með fasteignaveðbréfi að þessu tagi. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á, að stefnandi hafi borið neinn skaða af því, að fasteignaveðbréf þetta er svo seint út gefið. Er því ekki unnt að taka til greina kröfu stefnanda um greiðslu þessa hluta kaupverðsins í peningum þegar í stað.

          Stefnda hefur viðurkennt að öðru leyti kröfur stefnanda bæði um höfuðstól og dráttarvexti og verður hún því dæmd til að greiða stefnanda kr. 6.034.344, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 1.000.000 frá 16. janúar 2002 til 17. janúar s.á., af kr. 4.000.000 frá þeim degi til 8. febrúar s.á., af kr. 1.034.344 frá þeim degi til 15. apríl s.á. og af kr. 6.034.344 frá þeim degi til greiðsludags.

          Með vísan til atvika málsins þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

          Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

          Stefnda, Anna Fríða Bernódusdóttir, greiði stefnanda, Ríkissjóði Íslands, kr. 6.034.344  með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 1.000.000 frá 16. janúar 2002 til 17. janúar s.á., af kr. 4.000.000 frá þeim degi til 8. febrúar s.á., af kr. 1.034.344 frá þeim degi til 15. apríl s.á. og af kr. 6.034.344 frá þeim degi til greiðsludags.

          Málskostnaður fellur niður.