Hæstiréttur íslands

Mál nr. 685/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 27. október 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. nóvember nk. kl. 16.00. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu aðstoði nú lögreglustjórann á Austurlandi við rannsókn á stórfelldum innflutningi fíkniefna hingað til lands.

Málsatvik séu þau að þriðjudaginn 3. október sl. hafi komið hingað til lands kærðu X og Y, á bifreiðinni [...] sem hafi komið hingað til hafnar á Seyðisfirði með farþegaferjunni Norrænu. Í eldsneytistanki bifreiðarinnar hafi verið falin 11,5 lítrar af amfetamínbasa. Eftir að efnin hafi fundist í bifreiðinni hafi báðir kærðu verið handteknir og þann 4. október sl. hafi þeim, með úrskurðum Héraðsdóms Austurlands, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 18. október sl. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur hafi kærðu verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag, 27. október 2017.

Kærðu hafi verið yfirheyrðir í þrígang. Upphaflega hafi þeir báðir sagst hafa komið hingað frá Póllandi í leit að vinnu. Hafi þeir komið keyrandi frá Póllandi í gegnum Þýskaland og Danmörku og þaðan tekið Norrænu til Seyðisfjarðar. Hafi það verið að frumkvæði Y.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að Y hafi síðan viðurkennt í skýrslutöku að tilgangur ferðarinnar hingað til lands hafi verið að sækja hingað peninga og fara með þá aftur til baka til Póllands fyrir mann sem hann þekki í Póllandi. Hafi sá aðili átt bifreiðina sem hann og X komu á. Hafi þeim verið uppálagt að keyra frá Seyðisfirði á höfuðborgarsvæðið þar sem þeir hafi átt að hitta aðila fyrir utan tiltekið hótel sem myndi afhenda þeim peningana sem þeir hafi átt að sækja. Fyrir þetta hafi hann átt að fá greiddar 10.000 zloty en X 5000 zloty. Aðspurður hafi Y neitað því að hafa vitað af fíkniefnum í bifreiðinni. Hann hafi einungis talið að tilgangur ferðarinnar hafi verið að sækja hingað peninga. X hafi aftur á móti haldið sig við að hafa komið hingað til lands að beiðni Y í leit að vinnu og neiti því að hafa vitað af fíkniefnum í bifreiðinni og kannist ekki við að þeir hafi komið hingað til lands til að sækja peninga.

Lögreglan hafi aflétt einangrun af kærðu eftir skýrslutökur í gær. Við þær skýrslutökur kvaðst kærði X hafa átt að fá 5000 zloty fyrir að aka bifreiðinni til landsins, en hann hafi neitað því að hafa vitað hvað væri í bifreiðinni. Y hafi að mestu neitað að tjá sig eða kvaðst ekki vilja eða geta svarað spurningum lögreglu.

Rannsókn málsins miði vel áfram. Lögregla hafi yfirheyrt kærðu í þrjú skipti og beri nokkuð á milli í framburðum þeirra. Af framburði Y hafi verið ljóst að fleiri aðilar tengist málinu. Rannsókn lögreglu hafi miðað að því að hafa upp á þeim aðilum, en annar þeirra sé búsettur í Póllandi og hafi staðið fyrir því að kærðu komu hingað til lands á bifreiðinni sem fíkniefnin fundust í og hinn aðilann hafi kærðu átt að hitta hér á landi fyrir utan tiltekið hótel. Í samstarfi við pólsk yfirvöld sé enn unnið að því að afla upplýsinga um mögulega samverkamenn, en það hafi ekki borið árangur hingað til.

Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að kærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008  sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins var kærði úrskurðaður á grundvelli rannsóknarhagsmuna í gæsluvarðhald í  Héraðsdómi Austurlands miðvikudaginn 4. október sl. til 18. ágúst sl. en þann dag i Héraðsdómi Reykjavíkur til dagsins í dag í málinu nr. [...]. Hann er grunaður um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem telst varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga  nr. 19/1940. Með vísan til kröfu lögreglustjóra svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

  Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins, er fallist á það mat lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot. Brot kærða samkvæmt framangreindu ákvæði almennra hegningarlaga getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Dómurinn fellst á það með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum.

Verður því á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála fallist á þá kröfu lögreglustjóra um að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. nóvember nk. til kl. 16.00.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. nóvember nk. kl. 16.00.