Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2009
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 1. október 2009. |
|
Nr. 41/2009. |
Svava Liv Edgarsdóttir(Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Kornaxi ehf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Riftun.
S starfaði sem framkvæmdastjóri K ehf. Í málinu krafði hún félagið um laun í 6 mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Byggði S á því í málinu að með því að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á starfi hennar hefði félagið í raun einhliða rift starfssamningi hennar og framkvæmdastjórastaða hennar verið lögð niður. K ehf. hélt því hins vegar fram að S hefði látið af störfum af sjálfsdáðum og ætti því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Talið var að breytingar á starfi S hefðu verið framkvæmdar með fulltingi hennar en ekki yrði séð að hún hefði mótmælt þeim sérstaklega fyrr en rétt áður en hún lét af störfum. Var K ehf. sýknað af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2009. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.445.574 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 687.822 krónum frá 31. janúar til 28. febrúar 2007, af 1.510.358 krónum frá þeim degi til 31. mars sama ár, af 2.332.894 krónum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, af 3.155.430 krónum frá þeim degi til 31. maí sama ár, af 3.977.966 krónum frá þeim degi til 30. júní sama ár, af 4.800.502 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama ár, af 5.623.038 krónum frá þeim degi til 31. ágúst sama ár, en af 6.445.574 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Einn dómari, Hjördís Hákonardóttir, tekur fram að hún telji rétt að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Svava Liv Edgarsdóttir, greiði stefnda, Kornaxi ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2008.
I.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 5. mars 2008 og dómtekið 7. október 2008.
Stefnandi er Svava Liv Edgarsdóttir, Þingholtsbraut 76, Kópavogi.
Stefndi er Kornax ehf., Korngörðum 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.445.574 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 687.822 krónum frá 31. janúar 2007 til 28. febrúar 2007, en af 1.510.358 krónum, frá þeim degi til 31. mars 2007, en af 2.332.894 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2007, en af 3.155.430 krónum frá þeim degi til 31. maí 2007, en af 3.977.966 krónum frá þeim degi til 30. júní 2007, en af 4.800.502 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2007, en af 5.623.038 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2007, en af 6.445.574 krónum frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
II.
Málsatvik eru að talsverðu leyti umdeild. Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún sem matvælafræðingur hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnda 15. nóvember 2003 en hið stefnda félag, sem tók til starfa árið 1987, flytji inn korn til mölunar frá Evrópu og Ameríku og hafi um árabil séð stærsta hluta bakaraiðnaðarins á Íslandi fyrir hráefni en selji einnig hveiti og rúgmjöl á neytendamarkað. Hlutafé stefnanda sé 30.000.000 króna. Við ráðningu stefnanda hafi stefndi verið í eigu nokkurra aðila og haft með höndum sjálfstæða starfsemi að Korngörðum 11, Reykjavík. Undir stefnanda hafi heyrt tólf starfsmenn og stefnandi borið ábyrgð gagnvart stjórn með venjulegum hætti. Í ársbyrjun 2006 hafi Geri ehf. eignast 62,5% alls hlutafjár í Kornaxi ehf. en fyrir hafi systurfélag þess Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. átt 37,5% hlutafjárins. Allt hlutafé í Kornaxi ehf. hafi þar með verið komið á eina hendi og hafi Kristinn Björnsson, Pétur Gylfi Kristinsson og Þórir Haraldsson verið kjörnir í nýja stjórn á hluthafafundi 13. janúar 2006. Hafi Þórir Haraldsson komið fram fyrir hönd stjórnarinnar. Hafi Þórir átt fund með stefnanda og tjáði henni á fundinum að í kjölfar yfirtökunnar stæði ekki til að breyta hennar högum og stefnandi myndi því áfram gegna störfum framkvæmdastjóra stefnda.
Rétt fyrir páska 2006 hafi stefndi flutt skrifstofur sínar frá Korngörðum 11 í húsnæði Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. að Korngörðum 5. Stefnandi hafi fengið þar til afnota bráðabirgðaaðstöðu í stórum fundarsal þar sem fyrir hafi verið tveir starfsmenn með aðstöðu en stefnandi fullyrði að Þórir hafi fullvissað hana um að gera ætti tvær skrifstofur úr rýminu. Sú framkvæmd hafi dregist á langinn og Þórir borið fyrir sig að smiðirnir væru önnum kafnir. Stefnandi hafi boðist til þess að útvega smiði til verksins en Þórir hafnað því. Stefnandi hafi ítrekað kvartaði yfir aðstöðu við Þóri og jafnframt verið í stöðugu sambandi við þá iðnaðarmenn sem Þórir hafi ráðið til verksins. Í lok maímánaðar 2006 hafi stefnandi átt fund með Þóri vegna sinna mála þar sem Þórir hafi fullvissaði hana um að erfileikar samfara flutningum yrðu brátt að baki. Sumarið hafi því liðið án þess að lágmarksvinnuaðstöðu yrði komið upp.
Með haustinu 2006 hafi stefnandi orðið þess áskynja að loforð Þóris um óbreytt starf hennar sem framkvæmdarstjóra stefnda hafi reynst orðin tóm. Hún hafi í reynd verið svipt framkvæmdarstjórastöðunni með því að henni hafi verið gert að leita samþykkis Þóris fyrir venjulegum daglegum ákvörðunum, hún hafi þurft að lúta afskiptum hans og annarra starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. um hvaðeina, einkum fjármálastjóra og sölu- og markaðstjóra, hún hafi verið svipt mannaforráðum í fyrirtækinu að öllu verulegu og Þórir gert kröfu til að við endurnýjun bifreiðar, sem hún hafi haft til afnota, myndi hann verða af mun ódýrari gerð en sá gamli. Í lok nóvember 2006 hafi stefnandi því gengið aftur á fund Þóris í því augnamiði að semja við hann um hugsanleg starfslok. Aftur hafi þau fundað um málið 2. desember 2006 en án þess að komast að niðurstöðu enda hafi Þórir talið sig þurfa að ræða málið við aðra eigendur félagsins. Stefnandi hafi hins vegar engin svör fengið frá Þóri á jólaföstunni og ekki átt fund með honum aftur fyrr en 29. desember 2006. Þórir hafi þá ekkert nýtt haft fram að færa enda hafi hann staðhæft að hann hafi auglýst eftir nýjum starfsmanni og að umsóknarfrestur rynni út 2. janúar 2007. Fyrsta vika janúarmánaðar 2007 hafi liðið án þess að Þórir hafi komið að máli við stefnanda og hún því sinnt störfum sínum áfram. Föstudagsmorguninn 5. janúar 2007 hafi stefnandi fyrirhugað að skrifa undir mikilvægan viðskiptasamning en þá borið svo við að fjármálastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi krafist þess að fá að fylgja henni og við undirritun samningsins hrifsað til sín samninginn og undirritað hann sjálfur. Eftir hádegið hafi stefnandi rætt enn og aftur árangurslaust við Þóri um sín mál.
Stefnandi hafi tekið sér frí frá störfum og falið Árna Ármanni Árnasyni héraðsdómslögmanni að freista þess að ná samkomulagi við stjórnarformann Kornax hf., Kristin Björnsson, um ásættanleg starfslok en lögmaðurinn hafi bæði þekkt stefnanda og Kristinn ágætlega. Árni Ármann hafi ritað drög að starfslokasamningi, án þess að þar hafi farið sérstakt tilboð frá stefnanda til stefnda um starfslok. Þar hafi verið lagt til að stefnandi myndi láta af störfum hjá Kornax ehf. 15. janúar 2007, að hún fengi laun í þrjá mánuði og myndi aðstoða við að koma nýjum starfsmanni inn í hin ýmsu verkefni. Stefnandi hafi hins vegar engin viðbrögð fengið við uppkasti Árna Ármanns, hvorki frá Þóri né stjórnarformanninum. Stefnanda hafi óformlega verið tilkynnt af fjármálastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. að stefndi liti svo á að stefnandi hafi látið af störfum og að henni yrði einungis greitt samkvæmt tímagjaldi fyrir að setja nýja menn inn í störf sín.
Stefnandi hafi sent stjórn stefnda bréf 20. febrúar 2007 þar sem því hafi verið lýst að stefnandi teldi sig enn vera framkvæmdarstjóra félagsin enda hafi hún enn verið skráð sem slíkur hjá Hlutafélagskrá og borið ábyrgð samkvæmt því, auk þess sem ráðningarsamningi við hana hafi ekki verið slitið fyrir uppsögn samkvæmt 11. gr. hans. Þá hafi stefnda ennfremur verið tilkynnt að stefnandi rifti ráðningarsamningnum á grundvelli verulegra vanefnda af hálfu stefnda þar sem hann hafi í reynd slitið honum með framangreindri háttsemi Þóris Haraldssonar og að hún léti þar með af störfum fyrir félagið. Loks hafi því verið lýst að stefnandi teldi sig, samkvæmt almennum reglum vinnuréttar, eiga rétt á launagreiðslum í uppsagnarfresti eða til loka ágústmánaðar 2007, auk orlofsgreiðslna og greiðslna fyrir umsamin hlunnindi. Lögmaður stefnda hafi hafnað öllum kröfum stefnanda með bréfi til lögmanns stefnda 1. mars 2007. Stefnanda hafi því verið nauðsynlegt að höfða mál þetta á hendur stefnanda.
Stefnandi leit svo á að kynferði hennar hafi ráðið því að hún hafi í reynd verið svipt framkvæmdarstjórastarfi hjá stefnda. Hafi hún með kæru dagsettri 9. ágúst 2007 kært háttsemi stefnda til kærunefndar jafnréttismála samkvæmt 4. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla til þess m.a. að geta krafið stefnda um miskabætur samkvæmt heimildum 28. gr. sömu laga. Laut kæra stefnanda að því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laganna við leggja í reynd niður framkvæmdastjórastöðu hennar og við það að gefa henni ekki kost á að gera við hana sérstakan starfslokasamning í tengslum við óskir hennar um að láta af störfum. Með áliti kærunefndar hinn 29. janúar 2008 í máli nr. 9/2007 komst nefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu stefndi hefði ekki brotið gegn ákvæðum laganna.
Stefndi lýsir málsatvikum þannig að stefnandi hafi verið framkvæmdarstjóri stefnda þar til hún hafi hætti störfum að eigin ósk í árslok 2006. Stefnanda hafi hvorki verið sagt upp störfum né hafi þær breytingar sem gerðar hafi verið á starfi stefnanda eða starfsaðstæðum orsakað það að forsendur fyrir ráðningu hennar hafi brostið. Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi frá upphafi verið meðal eiganda Kornax ehf. og sameigendur þess verið danski hveitiframleiðandinn Valsemöllen og Fóðurblandan hf., aðalsamkeppnisaðili Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Samkeppnisyfirvöld hafi látið í ljós að þeim þætti óþægilegt frá sjónarmiði samkeppni hversu víðtækt samstarf væri með þessum tveimur stærstu seljendum kornvöru hér á landi. Félögin hafi tekið þessar ábendingar alvarlega og svo farið að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi keypti alla hluti í Kornax ehf. og þau viðskipti orðið virk þann 31. desember 2005. Eftir kaupin hafi verið rætt um hvort ekki yrði möguleiki að samnýta krafta í ýmsum þáttum stoðþjónustu s.s. við bókhald, launaútreikning og þess háttar. Jafnframt hafi blasað við að samstæðan hlyti að stýra fjármálum þannig að sem best kjör fengjust hjá lánastofnunum. Allt hafi þetta verið breytingar sem stefnandi hafi stutt enda miðað að því að gefa stefnanda aukið svigrúm til að sinna uppbyggingu félagsins.
Í samræmi við þetta hafi skrifstofuhaldi stefnda verið breytt í marsmánuði 2006 og stefnandi þá flutt starfsaðstöðu sína í húsakynni Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Stefnandi hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins með sama hætti og verið hafi og hluti af rekstrarverkefnum verið unnin eftir hennar fyrirsögn af starfsmönnum móðurfélagsins. Á þessum sama tíma hafi verið unnið að endurbótum á húsakynnum móðurfélagsins til að gera aðstæður starfmanna betri og nútímalegri en verið hafi. Skortur á iðnaðarmönnum hafi valdið því að framkvæmdir hafi dregist umfram það sem að hafi verið stefnt. Þær tafir og sú truflun sem framkvæmdirnar hafi haft í för með sér hafi ekki komið harðar niður á stefnanda en öðrum starfsmönnum stefnda eða móðurfélagi þess. Framkvæmdum hafi verið lokið áður en stefnandi hafi sagt starfi sínu lausu síðla í nóvember 2006.
Stefnandi hafi fyrst fært í tal við fulltrúa stjórnar stefnda síðla hausts 2005 að hún vildi vegna heimilisaðstæðna annað tveggja minnka við sig vinnu eða hætta alveg. Úr því hafi ekki orðið þar sem hún hafi notið stuðnings eiganda félagsins til að halda starfi sínu áfram og áðurgreindar breytingar í stoðþjónustu verið til þess fallnar að létta henni starfið. Það hafi síðan verið síðla í nóvember 2006 að stefnandi hafi komið að máli við Þóri Haraldsson framkvæmdarstjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., sem hafi verið megintengiliður við stjórn félagsins og greint frá því að stefnandi vildi hætta störfum. Hafi stefnandi óskað þess að fá að hætta sem fyrst og helst ekki síðar en um áramótin 2006 til 2007. Þessum óskum hafi verið tekið af skilningi og það verið staðfest á fundi Þóris og stefnanda 1. desember 2006 að stefnandi myndi formlega hætta um áramót en aðstoða eftir það við frágang mála. Í framhaldi af þessum fundi hafi stefnandi boðað starfsmenn Kornax ehf. til fundar þann 4. desember 2006 og greint frá því að hún hafi sagt upp störfum og að fallist hafi verið á þá ósk hennar að hún fengi að hætta um áramótin. Stefnandi hafi jafnframt greint frá því að ástæða uppsagnar væru heimilisaðstæður.
Stefnandi hafi farið í nokkurra daga frí þann 7. desember 2006. Þá hafi stefnandi verið frá vinnu frá 21. desember 2006 vegna veikinda og hátíðanna til 29. desember 2006 er hún hafi komið til fundar við Þóri og ámálgaði þá í fyrsta sinn hvort hún ætti ekki að fá ,,starfslokasamning”. Þessi ósk hafi komið félaginu á óvart þar sem stefnandi hafi sjálf sagt upp starfi sínu og fengið sig lausa með skemmri fyrirvara en samningurinn áskildi. Hinsvegar hafi verið óskað eftir að stefnandi myndi aðstoða við að koma verkefnum í farveg eftir áramótin.
Stefnandi hafi mætt á starfsstöð stefnda 2. janúar 2007 og verið miðað við að hún ynni næstu daga að því að koma málum þannig fyrir að aðrir starfsmenn gætu tekið við þar sem stefnandi hyrfi frá. Hafi verið ætlunin að fara yfir stöðu mála að morgni föstudagsins 5. janúar 2007, en þá hafi stefnandi talið sig þurfa að undirbúa frágang á mikilvægum viðskiptasamningi sem beðið hafi undirritunar.
Mánudaginn 8. janúar 2007 hafi stefnandi sent fulltrúa stjórnar stefnda, Þóri Haraldssyni, tölvuskeyti þar sem hún hafi sagst vera í fríi og bíða þess að útnefndur yrði sérstakur ábyrgðarmaður til að sinna verkefnum sínum. Þessu hafi verið svarað sama dag og staðfest að stefnandi hafi að eigin ósk látið af störfum um áramót. Miðað hafi verið við að stefnandi gengi frá ófrágengum málum og fengi greitt samkvæmt viðveru. Hafi verið stungið upp á því að stefnandi kæmi á stjórnendafund daginn eftir en hún ekki komið.
Þann 16. janúar 2007 hafi stefnandi boðað í tölvuskeyti til fjármálastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. að hún hygðist koma til vinnu daginn eftir til að setja hann inn í eitthvað af sínum verkefnum. Því hafi verið vel tekið og áréttað að hún fengi þessa vinnu greidda um þá komandi mánaðarmót. Morguninn eftir hafi stefnandi tilkynnt fjármálastjóranum um ótímabundna frestun fundarins og hafi sá frestur ekki verið rofinn. Stefnandi hafi ekki komið á starfsstöð stefnda eftir 5. janúar 2007 og um áramótin hafi stefnandi skilað bifreið þeirri sem hún hafi haft til afnota s.s. eðlilegt hafi verið miðað við starfslok hennar á þeim tímamótum.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi sjálf skýrslu, sem og Kristinn Björnsson og Þórir Haraldsson fyrirsvarsmenn stefnda. Þá gaf vitnaskýrslu Snorri Gissurarson fjármálastjóri stefnda og Bjartur Logi Finnsson en Bjartur Logi starfaði sem söluráðgjafi hjá stefnda. Einnig gaf skýrslu Óli Örn Tryggvason en Óli Örn vann við bókhald, Helgi Hannesson bifreiðastjóri hjá stefnda, Valgerður Guðrún Halldórsdóttir auglýsingastjóri, Bergþóra Þorkelsdóttir sölu- og markaðsstjóri og loks Kristín Þorsteinsdóttir, en Kristín vann við bókhald hjá stefnda.
III.
Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt til fullra launa frá stefnda í 6 mánaða uppsagnafresti samkvæmt 11. gr. starfssamnings aðila vegna mánaðanna mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst 2007. Á því sé byggt að stefnanda hafi verið rétt að líta svo á að stefndi hafi einhliða rift starfssamningnum með því að leggja niður framkvæmdastjórastöðu hennar. Stefndi hafi þannig í reynd gert henni að láta af sjálfstæðu framkvæmdastjórastarfi og gert henni að taka við ósambærilegri stöðu hjá samsteypu stefnda og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Um einhliða, allverulega og niðurlægjandi breytingu á starfssviði stefnanda hafi verið að ræða sem henni hafi verið rétt að líta á sem fyrirvaralausa uppsögn. Stefnandi hafi því mátt neita að undirgangast þessar breytingar á starfinu og því ekki verið skylt að vinna í uppsagnarfresti.
Til þess að geta knúið fram breytingu á starfssviði stefnanda úr sjálfstæðu framkvæmdastjórastarfi í undirmannsstöðu hjá samsteypu stefnda og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., án samráðs við stefnanda eða samþykkis, hafi stefndi því fyrst orðið að segja upp gildandi starfssamningi og virða þá sjálfstæði hennar sem framkvæmdastjóra félagsins út uppsagnarfrestinn eða sætta sig ella við að henni yrði ekki skylt að vinna hann ef stefndi hafi viljað breyta starfssviðinu strax. Stefndi hafi hins vegar kosið að reyna að þvinga stefnanda til þess að sætta sig við þessar breytingar eða að þvinga hana sjálfa til að segja ella upp starfssamningnum, að því er virðist í þeirri villu, að þar með yrði hún skyldug til að vinna fullan uppsagnarfrestinn.
Á því sé byggt að framkvæmdastjórastaða sú sem stefnandi hafi verið ráðin til að gegna með starfssamningi aðila dagsettum 15. nóvember 2003 hafi í reynd verið lögð niður. Í eðli sínu skipti þá ekki máli hvor aðila hafi haft frumkvæði að ráðningarslitum varðandi rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti fyrst hún hafi kosið við þessar aðstæður að láta af störfum. Stefnandi hafi átt rétt til launanna hvort sem hún hefði unnið í uppsagnarfrestinum eða ekki.
Stefnandi vísi nánar til eftirtalinna staðreynda sem hver og ein og sameiginlega geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að telja að slíkar breytingar hafi verið gerðar á starfssviði hennar frá því sem fyrir sé mælt 12. gr. starfssamningsins og leiði af almennum reglum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, að þær jafngildi uppsögn stefnanda:
1. Stefnanda hafi verið gert að leita samþykkis Þóris Haraldssonar fyrir venjulegum daglegum ákvörðunum,
2. Stefnandi hafi þurft að lúta afskiptum Þóris Haraldssonar og annarra starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. um hvaðeina í rekstri stefnda, einkum fjármálastjóra og sölu- og markaðsstjóra,
3. Stefnandi hafi verið svipt mannaforráðum hjá stefnda að öllu verulegu og
4. Þórir Haraldsson hafi gert kröfu til að við endurnýjun bifreiðar sem stefnandi hafi haft til afnota myndi hann verða af mun ódýrari gerð en sá gamli.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. starfsamningsins skyldi uppsögn vera skrifleg. Uppsögnin skyldi miðast við mánaðarlok og vera með 6 mánaða fyrirvara. Stefndi hafi engri skriflegri uppsögn beint til stefnanda heldur hafi það komið í hlut stefnanda að senda skriflega tilkynningu til stefnda um niðurfellingu starfsskyldna sinna með bréfi lögmanns dagsettu 20. febrúar 2007. Stefnandi eigi því rétt til launa fyrir 6 næstu mánuði í samræmi við samningsbundinn uppsagnarfrest. Þá eigi stefnandi rétt til greiðslna fyrir umsamin bifreiðahlunnindi, fyrir orlof, orlofs- og desemberuppbót svo sem nánar verði rakið. Vegna þessa skýra samningsákvæðis um að uppsögn skuli vera skrifleg komi ekki til greina að miða við að raunverulega hafi starfslok verið ákveðin á einhverju fyrra tímamarki og beiðni stefnanda um að gera sérstakan samning við stefnda um starfslok verði ekki jafnað til skriflegrar uppsagnar hennar. Þá verði að telja að stefnandi hafi ekki glatað neinum réttindum í þessu sambandi fyrir tómlæti þegar samskipti hennar og Þóris Haraldssonar séu virt heildstætt. Í því sambandi sé einnig til þess að líta að stefnandi hafi verið skráð framkvæmdastjóri stefnda hjá fyrirtækjaskrá og hafi ekki verið tilkynnt til skrárinnar af hálfu stefnda að hún hafi látið af þeim störfum fyrr en 27. mars 2007. Í ljósi þeirrar ábyrgðar sem hvíli á skráðum framkvæmdastjóra komi ekki annað til greina en að telja að uppsagnarfrestur hafi tekið að líða frá og með upphafi marsmánaðar 2007 í samræmi við kröfur stefnanda.
Þá sé vísað til þess að eftir starfslok stefnanda hafi ekki verið ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri fyrir stefnda heldur hafi Þórir Haraldsson framkvæmdastjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. nú einnig tekið að sér framkvæmdastjórastörf fyrir stefnda, sbr. tilkynningu stefnda til fyrirtækjaskrár þar að lútandi og skráningu á heimasíðu og sé það í samræmi við þá staðreynd að staða stefnanda hafi í reynd verið lögð niður.
Stefnandi sundurliði dómkröfur sínar með eftirfarandi hætti. Stefnandi geri kröfu á hendur stefnda til greiðslu eftirstöðva launa fyrir janúarmánuð 2007, laun fyrir febrúarmánuð 2007 og laun í uppsagnarfresti vegna mánaðanna mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst 2007, auk orlofs, orlofsuppbótar, desemberuppbótar og reiknaðra bifreiðahlunninda.
Samkvæmt 5. gr. starfssamnings aðila hafi umsamin mánaðarlaun stefnanda verið 480.000 krónur fyrri hvern mánuð og skyldi greiða þau eftir à. Föst laun stefnanda hafi átt að endurskoða í upphafi hvers árs og taka breytingum með hliðsjón af hæsta kauptaxta Verslunarmannafélags Reykjavíkur hverju sinni. Samkvæmt launaseðlum stefnanda frá stefnda hafi mánaðarlaun hennar numið 575.925 krónum í lok ársins 2006. Laun hennar hafi átt að hækkað um 2,9% um þau áramót eins og kjarasamningar segðu til um eða upp í 592.627 krónur og beri launaseðill fyrir janúarmánuð 2007 með sér þá fjárhæð sem mánaðarlaun og miði stefnandi launakröfur sína við það. Stefnandi geri ennfremur kröfu til þess að til viðbótar launum verði stefnda gert að greiða sér orlof á launagreiðslur sem stefnandi miði við að eigi að nema 10,64% launa með því að hún hafi átt rétt á 25 orlofsdögum árlega. Stefnandi geri því kröfu um að stefndi greiði sér orlof fyrir hvern mánuð að fjárhæð 63.056 krónur (592.627 krónur x 10,64%). Þá beri stefndu að greiða stefnanda mánaðarlega 9% mótframlag í lífeyrissjóð 53.336 krónur. Stefnandi hafi samkvæmt 6. gr. samnings aðila haft bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser til frjálsra afnota frá stefnda. Reiknuð hlunnindi vegna bifreiðarinnar hafi verið 108.117 krónur á mánuði fram til júní 2006 en lækkað niður í 58.625 krónur eftir það vegna aldurs bifreiðarinnar. Um áramótin 2006/2007 hafi stefnandi hætt að nota bifreiðina en geri kröfu til þess að stefnda verði gert að greiða sér andvirði reiknaðra hlunninda af sambærilegri bifreið fyrir tímabilið frá 1. janúar 2007 út uppsagnarfrest eða til 31. ágúst 2007, samtals mánaðarlega að fjárhæð 108.117 krónur. Vísi stefnandi til 11. gr. starfssamningsins um að hún eigi að halda fullum launum í uppsagnarfresti. Loks geri stefnandi kröfu til að stefndi greiði sér fyrir hvern mánuð hlutdeild í orlofsuppbót 1/12 af 17.400 krónum eða 1.450 krónur og hlutdeild í desemberuppbót fyrir hvern mánuð 1/12 af 47.400 krónum eða 3.950 krónur. Vísað sé til kjarasamnings Verslunarmannafélags Reykjavíkur og viðsemjenda til stuðnings launakröfum.
Launakrafa stefnanda sundurliðist nánar þannig fyrir hvern mánuð að grunnlaun séu 592.627 krónur, orlof sé 63.056 krónur, lífeyrissjóðsframlag sé 53.336 krónur og bifreiðahlunnindagreiðsla sé 108.117 krónur, hlutdeild í orlofsuppbót 1.450 krónur og hlutdeild í desemberuppbót 3.950 krónur, samtals 822.536 krónur fyrir hvern mánuð. Stefndi hafi greitt stefnanda 124.580 krónur í laun fyrir janúarmánuð 2007 og reikni stefnandi einnig með að hann hafi greitt 9% af 112.599 krónum í lífeyrissjóð sem framlag sitt vegna þess mánaðar, eða 10.134 krónur og lækki stefnandi því kröfu vegna janúarmánaðar 2007 um 134.714 krónur (124.580 krónur + 10.134 krónur), þannig að hún verður að fjárhæð 687.822 krónur.
Gjalddagi launa sé síðasti dagur viðkomandi mánaðar. Heildarlaunagreiðslukrafa stefnanda sé því fyrir janúarmánuð 2007 687.822 krónur en fyrir febrúar til ágúst 2007, 822.536 krónur x 7 eða 5.757.752 krónur, samtals 6.445.574 krónur.
IV.
Stefndi byggir á því að kröfugerð stefnanda sé nú á því byggð að stefndi hafi einhliða rift starfssamningi með því að leggja niður framkvæmdastjórastöðu hennar. Þessari meginmálsástæðu stefnanda sé eindregið mótmælt og það af ýmsum ástæðum.
Í fyrsta lagi liggi fyrir að stefnandi hafi sjálf sagt upp starfi og farið fram á að fá að hætta um næstu mánaðarmót þar eftir. Stefnandi hafi borið því við að persónulegar ástæður lægju þessu til grundvallar; en hún þyrfti að gefa börnum sínum meiri tíma. Á þessi tilmæli hafi verið fallist og hún leyst frá störfum frá 1. janúar 2007 að telja, þá þannig að hún myndi aðstoða við yfirfærslu verkefna á næstu vikum þaðan í frá. Stefnandi hafi sjálf boðað starfsmenn sína til fundar þann 4. desember 2006 og greint þar frá þessum breytingum og ástæðum þeirra, sbr. fskj. með dskj. 21.
Stefnandi hafi aldrei skilyrt uppsögn sína með þeim hætti að hún áskyldi sér laun eftir starfslok. Það hafi fyrst verið í lok desember 2006 að sú hugsun hafi fæðst með stefnanda að henni bæri svonefndur ,,starfslokasamningur“ sem gæti fært henni greiðslur mánuðum saman án þess að þurfa að láta vinnuframlag koma á móti. Stefnanda hafi aldrei verið gefið tilefni til að ætla að hún fengi notið slíkra kjara við starfslok og fái stefnandi því ekki á því byggt. Þaðan af síður fái stefnandi á því byggt að venja sé fyrir því að þá framkvæmdastjóri félags láti af störfum beri honum að halda starfskjörum út uppsagnarfrest, hvort sem hann segi upp störfum eða honum hafi verið gert að hætta og vinnuframlag hans afþakkað. Mótmæli stefndi því að nokkur réttarregla, skráð eða óskráð, leggi þá skyldu á hann að greiða stefnanda laun eftir starfslok sem komin hafi verið til að hennar eigin ósk.
Stefndi mótmæli því einnig harðlega að stefnandi hafi mátt telja sig vera í starfi framkvæmdastjóra stefnda allt til 20. febrúar 2007 þegar lögmaður hennar riti fyrsta kröfubréf sitt og tilkynni að stefnandi hafi verið í starfi fram til þess tíma. Fullyrðingin sé efnislega röng og í andstöðu við þá staðreynd að stefnandi hafi sjálf óskað eftir starfslokum og tilkynnt starfsmönnum sínum að þau yrðu um áramót s.s. fyrr greini. Framferði stefnanda sjálfs eftir áramótin hafi borið þess enda glöggt vitni að hún hafi talið sig ekki starfandi framkvæmdastjóra stefnanda, s.s. rakið sé í málavaxtalýsingu. Hafi stefnandi enda ekki komið til starfa eftir að hún hafi komið að frágangi nokkurra verkefna 5. janúar 2007. Sjáist af því hversu fráleit fullyrðing hennar sé um að hún hafi áfram verið starfandi framkvæmdastjóri í nær tvo mánuði eftir þann tíma. Það því fremur að henni hafi ítrekað verið synjað um það að fá haldið launum án þess að sinna jafnframt starfsskyldum sínum.
Stefndi hafi athugasemdalaust tekið við launauppgjöri fyrir janúarmánuð 2007 þar sem greitt hafi verið fyrir uppsafnað orlof um áramót, s.s, skylt sé við starfslok. Þá hafi stefnandi fengið greitt fyrir þá fjóra daga í janúarmánuði 2007 sem hún hafi komið til vinnu til frágangs verkefna, s.s. um hafi verið samið. Hafi launaseðillinn borið glöggt með sér að stefndi hafi litið svo á að um lokauppgjör væri að ræða. Þá hafi stefnanda heldur ekki getað dulist af orðsendingu framkvæmdastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. og stjórnarmanns stefnda á dskj. 27 að hann hafi litið svo á að stefnandi hafi látið af starfi framkvæmdastjóra stefnda að eigin ósk þann 31. desember 2006. Stefnandi hafi engum mótmælum hreyft við þessari orðsendingu, né fullyrðingu um samkomulag um að hún fengi greidd tímalaun fyrir frágangsvinnu eftir áramótin. Sama endurtaki sig í skeytasendingum milli fjármálastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. og stefnanda 16. janúar 2007. Stefnandi hafi engum mótmælum hreyft við því að hún fengi greitt samkvæmt tímaskýrslu eftir áramótin, heldur hafi hún brugðist við með því að boða ótímabundinn frest til að upplýsa um stöðu þeirra verkefna sem hún hafi sinnt. Með framangreindum hætti hafi stefnandi staðfest enn að hún hafi hætt störfum sem framkvæmdastjóri stefnda.
Í ljósi þessa hlýtur sú málsástæða stefnanda að hún hafi enn verið í starfi framkvæmdastjóra stefnda meira en 40 dögum eftir að hún hafi móttekið orðsendingu á dskj. 27, og nær 50 dögum eftir að stefnandi hafi síðast komið á starfsstöð stefnda að vekja furðu. Þeirri staðhæfingu hafi enda verið mótmælt, enda gangi hún gegn staðreyndum málsins eins og þær liggi fyrir, m.a. með staðfestingu vitna. Breyti hér engu um þótt dráttur hafi orðið á að tilkynna fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra um þá breytingu. Stofnun eða slit ráðningarsamninga séu ekki háð tilkynningu til fyrirtækjaskrár og sé ekki vitað til þess að stefnandi hafi beðið tjón af þeirri yfirsjón stjórnar stefnda að draga að tilkynna um umrædda breytingu.
Loks sé því eindregið mótmælt að nokkrar þær breytingar hafi orðið á stöðu eða starfsaðstöðu stefnanda sem gefið hafi stefnanda tilefni til að líta svo á að stefndi hafi rift starfssamningi hennar þannig að stefnandi yrði laus undan vinnuskyldu en stefndi bundinn af greiðsluskyldu. Mótmæli sín grundvalli stefndi á þeirri staðreynd að stefnandi hafi aldrei haft uppi neinar kvartanir um það að útvistun rekstrarverkefna og hagræðing í skrifstofuhaldi kastaði rýrð á stöðu stefnanda sem framkvæmdastjóra. Þvert á móti hafi stefnandi tekið virkan þátt í þeim breytingum sem miða hafi átt að því að gefa henni aukið svigrúm til að þróa áfram félagið, þjónustu þess og markaðsstarf í samræmi við hugmyndir sem hún og stjórn þess voru sammála um.
Þegar stefnandi hafi sagt upp starfi og óskað eftir að fá að hætta fyrir lok tilskilins uppsagnarfrests hafi stefnandi engum slíkum athugasemdum hreyft né heldur hafi hún látið slíkt í ljós við aðra starfsmenn. Kröfur sínar um greiðslur eftir starfslok hafi stefnandi einungis rökstutt með því að það væri venja þá framkvæmdastjórar hættu störfum. Stefnandi hafi enda allan málflutning sinn fyrir kærunefnd jafnréttismála byggt upp á því að kynferði hennar hafi ráðið því að henni hafi ekki staðið slíkur samningur til boða. Sú hugmynd að eðli starfsins hafi breyst þannig að jafna mætti til uppsagnar hafi enda ekki kviknað fyrr en löngu eftir starfslokin og eigi sér enga stoð í neinu því sem hafi gerst áður en til þeirra kom. Hafi enda ekki verið á því byggt af lögmanni stefnanda sem leitað hafi eftir starfslokasamningi honum til handa sbr. dskj. 4. Hafi þannig liðið nær en ár frá því að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi eignast alla hluti í stefnda þar til stefnandi hafi hreyft því að það að Kornax hafi orðið hluti af samstæðu Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. hafi raska stöðu hennar á þann veg að jafna mætti til þess að starf framkvæmdastjóra væri lagt niður. Hafi stefnandi yfirhöfuð átt einhvern rétt til að byggja á þessari málsástæðu telji stefndi a.m.k. ljóst að stefnandi hafi fyrirgert þeim rétti með tómlæti sínu og athugasemdalausri þátttöku í þróun á skipulagi og starfsháttum stefnda.
Stefndi mótmæli því enda sem röngu að eðlisbreyting hafi orðið á starfi stefnanda eða stöðu hjá Kornax þegar Mjólkurfélag Reykjavíkur hf., sem áður hafði átt 1/3 hlutafjár, hafi eignast félagið að fullu. Sé enda ekkert fram komið í málinu sem styðji þessa fullyrðingu. Það að stjórn Kornax hafi falið einum stjórnarmanna sinna framkvæmdastjóra móðurfélagins, Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., að annast hin daglegu tengsl við framkvæmdastjórann, sé ákvörðun sem eigandanum hafi verið fullkomlega rétt að taka. Hafði stefnandi enda verið í miklum tengslum við hann allt frá því hann hóf störf hjá félaginu um hvað eina sem hafi lotið að rekstri félagsins. Þótt í starfssamningi stefnda segi að tengiliður hans við stjórn sé stjórnarformaður þá sé fjarstæða að byggja á því að verkaskipan innan stjórnar félagsins varði riftun á starfssamningi framkvæmdastjóra.
Því sé mótmælt að stefnandi hafi þurft að leita samþykkis stjórnarmannsins fyrir venjulegum daglegum ákvörðunum. Fyrirtækið hafi bæði fyrir og eftir breytingar á eignarhaldi verið háð samstarfi við eigendur sína um margvísleg samstarfsverkefni, en engin eðlisbreyting hafi orðið á því samstafi við það að félagið hafi komist að fullu í eigu Mjólkurfélags Reykjavíkur hf.
Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi verið svipt mannaforráðum að öllu eða verulegu leyti s.s. segi í stefnu. Fullyrðingin sé röng en kunni að eiga sér rót í fyrrgreindum ákvörðunum um útvistun rekstrarverkefna, aðallega bókhalds og fjármálaumsjón, en hvoru tveggja hafi stefnandi sjálf annast í fullu samkomulagi stjórnar og framkvæmdastjóra.
Þá sé því mótmælt að umræða um endurnýjun á bifreið framkvæmdastjórans geti verið tilefni fyrirvaralausrar uppsagnar af hálfu stefnanda. Engin ákvæði séu í starfssamningi stefnanda um það hvers konar bifreið henni skuli lögð til og því fullkomlega eðlilegt að um það færi fram samtal áður en að endurnýjun kæmi. Ekki hafi hins vegar verið komið að endurnýjun bifreiðarinnar þegar framkvæmdastjórinn hafi sagt upp starfi sínu í enda nóvember 2006 og ákvörðun því ótímabær.
Fullyrðingar um að starf stefnanda hafi verið lagt niður eiga sér enga stoð. Það að sami aðili gegni stöðu framkvæmdastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. og stefnda eftir að stefnandi hafi horfið úr starfi sínu fyrirvaralítið sé engin sönnun þess að framkvæmdastjórastarfið hafi verið lagt niður, hvað þá að það hafi verið lagt niður meðan stefnandi hafi gegnt því.
Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu stefnanda að skrifleg uppsögn sé skilyrði starfsloka samkvæmt starfssamningi hennar. Þetta sé misskilningur. Samkomulag hafi orðið um það með stefnanda og stefnda að stefnandi myndi hætta sem framkvæmdastjóri Kornax ehf. frá áramótum 2006 til 2007 að telja. Frá þessu hafi stefnandi greint eigin starfsmönnum í vitna viðurvist og að eigin frumkvæði 4. desember 2006. Stefnandi hafi fengið samþykki fyrir flýttum starfslokum og ekki hafi verið gengið eftir skriflegri uppsögn, enda nægjanlega staðfest með vitnisburði fjölda starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. og Kornax ehf. að hún sjálf hafi staðfest starfslok sín frá þessum tíma. Í samræmi við samkomulagið hafi stefnandi komið til starfa fjóra fyrstu daga janúar 2007 til frágangs á málum sem henni hafi ekki unnist tími til að ljúka í desembermánuði 2006, m.a. vegna fjarvista hjá henni. Sú vinna hafi verið greidd sem tímavinna en engu breytt um það að stefnandi hafi látið af starfi framkvæmdastjóra í lok árs 2006.
Kröfugerð stefnanda sé mótmælt í heild sinni, enda hafi hún að fullu fengið uppgert óútekið orlof og dagparta sem hún hafi unnið við frágang verkefna eftir að hún hafi látið af störfum. Eigi stefnandi því enga kröfu á hendur félaginu fremur en aðrir þeir sem segi upp starfi og hætti án þess að vinna út uppsagnarfrest.
Varakröfu um verulega lækkun dómkrafna byggi stefndi á því að stefnandi hafi látið af störfum í lok desember 2006. Kröfur um upphaf uppsagnafrests geti þegar af þeirri ástæðu aldrei miðast við síðara tímamark. Þá sé því mótmælt að stefnandi eigi kröfu á ígildi bifreiðahlunninda eftir starfslok. Stefnandi hafi skilað sjálf bifreið þeirri sem hún hafi haft til umráða og enga kröfu gert um að fá aðra bifreið í hennar stað. Stefnandi hafi því fyrir tómlæti fyrirgert hugsanlegum rétti í þessu efni, fari svo að hún verði talin eiga rétt til launa eftir starfslok. Loks sé því mótmælt að stefnandi eigi kröfu til orlofs vegna launa á hugsanlegum uppsagnarfresti. Í því fjarlægja tilviki að stefnandi þætti eiga rétt til launa á 6 mánaða uppsagnarfesti, þá eigi stefnandi allt að einu ekki kröfu á orlofi ofan á þann tíma þar sem henni hafi borið að taka út orlof af þessum hluta innan orlofstökutímabilsins sem sé samkvæmt lögum og kjarasamningum á tímabilinu frá 15. maí til 15. september ár hvert.
V.
Stefnandi var ráðin til starfa sem framkvæmdastjóri stefnda með starfssamningi 15. nóvember 2003 og kom hún til starfa hjá félaginu þann dag. Í starfssamningi er m.a. kveðið á um ábyrgðar- og starfssvið framkvæmdastjóra, laun og önnur hlunnindi og uppsögn eða breytingu á starfi. Undir samninginn ritar stefnandi og Þórir Haraldsson f.h. stefnda. Stefndi var á þessum tíma með starfsemi sína að Korngörðum 11 í Reykjavík og í eigu Mjólkurfélags Reykjavíkur hf., hins danska aðila Valsemöllen og Fóðurblöndunnar hf. Breytingar voru gerðar á eignarhaldinu er Mjólkurfélag Reykjavíkur hf., fyrir milligöngu einkahlutafélagsins Gera, keypti alla hluti í stefnda 31. desember 2005. Nýjar samþykktir voru gerðar fyrir félagið 12. janúar 2006, en samkvæmt fundi í félaginu 13. janúar 2006 var Kristinn Björnsson áfram stjórnarformaður en Þórir Haraldsson meðstjórnandi. Samkvæmt gögnum málsins voru gerðar nýjar samþykktir fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. 30. desember 2005 en samkvæmt fundi í stjórn sama dag var Kristinn Björnsson formaður stjórnar en Þórir Haraldsson framkvæmdastjóri. Fram er komið að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi aðallega verið með starfsemi sína á lóðum nr. 5, 7 og 8 við Korngarða í Reykjavík.
Þeim er gáfu skýrslu fyrir dómi ber saman um að í framhaldi af breytingu á eignarhaldi stefnda um áramótin 2005 til 2006 hafi verið ákveðið að ná fram aukinni hagræðingu í sameiginlegum rekstri þessara tveggja félaga. Um það báru Kristinn Björnsson stjórnarformaður, Þórir Haraldsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður, Snorri Gissurarson fjármálastjóri og Bergþóra Þorkelsdóttir sölu- og markaðsstjóri. Stefnandi hefur kannast við þetta atriði en um það atriði bar hún m.a. sjálf í aðilaskýrslu að hafa hitt Kristin Björnsson og Þóri Haraldsson á fundi eftir að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. hafi keypt hluti í stefnda en þar hafi m.a. verið fjallað um samnýtingu félaganna. Verður ráðið af framburðum aðila og vitna að samnýting þessi hafi einkum snúist um sameiginlegt skrifstofuhald, bókhald og launaútreikning. Þá verður einnig ráðið af gögnum málsins og skýrslum vitna að samnýting hafi einnig að ákveðnu leyti átt við um útkeyrslu, en bæði félögin höfðu slíka starfsemi með höndum. Á forsendum um samnýtingu var skrifstofuaðstaða stefnda flutt frá Korngörðum 11 í Reykjavík í húsnæði Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. að Korngörðum 5 í Reykjavík um eða fyrir páska 2006. Hafi m.a. verið komið upp bráðabirgðaskrifstofuaðstöðu fyrir stefnanda í stórum fundarsal að Korngörðum 5. Hefur Þórir Haraldsson kannast við að stefnanda hafi verið lofað skrifstofuaðstöðu í kjölfar flutnings en sökum skorts á iðnaðarmönnum hafi illa gengið að fá menn til verksins. Hafi stefnandi þar af leiðandi fyrst um sinn ásamt tveim öðrum starfsmönnum þurft að notast við aðstöðuna í fundarsalnum. Ekki hafi komið til álita að ráða menn til starfans er stefnandi hafi mælt með þar sem þegar hafi verið búið að semja við aðra iðnaðarmenn um verkið.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnanda hafi verið rétt að líta svo á að stefndi hafi einhliða rift starfssamningi aðila frá 15. nóvember 2003 með því að leggja niður framkvæmdastjóra stöðu hennar. Hafi henni í reynd verið gert að láta af sjálfstæðu starfi framkvæmdastjóra og gert að taka við ósambærilegri stöðu hjá samsteypu stefnda og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Um einhliða, allverulega og niðurlægjandi breytingu á starfssviði stefnanda hafi verið að ræða, sem stefnanda hafi verið heimilt að neita að undirgangast og því ekki skylt að vinna í uppsagnarfresti. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á framkvæmdastjórastarfi hennar hafi einkum falist í því í fyrsta lagi að stefnanda hafi verið gert að leita samþykkis Þóris Haraldssonar fyrir venjulegum daglegum ákvörðunum. Í öðru lagi hafi hún þurft að lúta afskiptum Þóris og annarra starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. um hvaðeina í rekstri stefnda, einkum fjármálastjóra og sölu- og markaðsstjóra. Í þriðja lagi hafi stefnandi verið svipt mannaforráðum hjá stefnda að öllu verulegu og loks hafi Þórir í fjórða lagi gert kröfu til þess að við endurnýjun bifreiðar sem stefnandi hafi haft til afnota myndi hann verða af mun ódýrari gerð en sá gamli. Með hliðsjón af þessu hafi slíkar breytingar verið gerðar á starfssviði hennar frá því sem fyrir væri mælt í 2. gr. starfssamningsins og leiði af almennum reglum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að jafngildi uppsögn.
Starf framkvæmdastjóra rekstrarfélags er á hverjum tíma að verulegu leyti háð ákvörðunum eigenda félagsins um áherslur í rekstri. Getur framkvæmdastjóri ekki gengið út frá þeirri forsendu að starf hans haldist óbreytt alla tíð að þessu leytinu til. Slíkra sjónarmiða sér stað í 5. mgr. 2. gr. starfssamnings aðila þar sem m.a. er kveðið á um að stjórn ákveði stefnu og starfsaðferðir félags. Engum vafa er undirorpið að talsverðar breytingar hafi orðið á starfi stefnanda við þær tilfærslur er áður var gerð grein fyrir varðandi rekstur stefnda, en áður hafði hún með höndum rekstur fyrirtækis með 11 eða 12 starfsmenn, sem telja verður tiltölulega litla rekstrareiningu. Verður ekki annað ráðið af því sem fram er komið í málinu en að breytingar þessar hafi verið framkvæmdar með fulltingi stefnanda. Þá verður ekki séð að hún hafi mótmælt þessum breytingum á starfssviði sínu sérstaklega fyrr en í lok árs 2006, skömmu áður en hún lét af störfum.
Telja verður að eðlilegt að formaður stjórnar félags, eða eftir atvikum aðrir úr stjórn félagsins fyrir hennar hönd, komi sjónarmiðum um áherslur í rekstri félags áleiðis til framkvæmdastjóra. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt fram á að Þórir Haraldsson hafi haft afskipti af daglegum störfum stefnanda umfram það sem eðlilegt mátti telja miðað við stöðu hans hjá stefnda og Mjólkurfélagi Reykjavíkur hf. á tíma sem rekstrarleg samstaða var með félögunum tveim. Þá hefur stefnandi ekki heldur sýnt fram á að hún hafi þurft að lúta afskiptum annarra starfsmanna Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. um rekstur, en í því sambandi skiptir máli að á síðari hluta árs 2006 var vinnsla á bókhaldi og fjárreiður stefnda og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. töluvert samtvinnað í rekstri og starfsmenn á skrifstofu í sameiginlegri starfsaðstöðu.
Þá er fram komið að reynt hafi verið að láta þá starfsmenn stefnda er útkeyrslu höfðu með höndum njóta nálægðar við bifreiðastjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. þannig að unnt hafi verið að láta þessa starfsmenn leysa hvorn annan af hólmi ef þörf væri á. Fram er komið að með þessu hafi ætlunin verið að nýta samlegðaráhrif félaganna að þessu leyti. Þrátt fyrir þetta er ekkert fram komið í málinu um að stefnandi hafi verið svipt mannaforráðum í öllu verulegu umfram það sem eðlilegt mátti telja miðað við þessar breytingar og dómurinn telur sannað með hliðsjón af framburðum vitna að stefnandi hafi gefið samþykki sitt fyrir.
Að því er bifreiðahlunnindi stefnanda varðar liggur fyrir að í 6. gr. starfssamnings stefnanda og stefnda er einungis kveðið á um að félagið leggi framkvæmdastjóra til bifreið. Er ekki kveðið á um hvers konar bifreið stefnandi skyldi hafa til afnota eða neinskonar viðmið í því efni. Í því ljósi er ekki unnt að líta svo á að ódýrari bifreið en stefndi hafði yfir að ráða fullnægi ekki ákvæðum starfssamningsins að þessu leyti. Í ljósi alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi með aðgerðum sínum einhliða rift starfssamningi aðila. Miðað við þá niðurstöðu lét stefnandi að eigin ósk fyrirvaralaust af störfum fyrir stefnda og vann ekki út uppsagnarfrest. Þegar á þessum forsendum verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til úrslita málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 350.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Þór Árnason hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Þórarinn V. Þórarinsson héraðsdómslögmaður.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Kornax ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Svövu Liv Edgarsdóttur.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.