Hæstiréttur íslands

Mál nr. 153/2014


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Matsgerð


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 153/2014.

RST Net ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

HI-verktökum ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Verksamningur. Matsgerð.

H ehf. höfðaði mál gegn R ehf. til heimtu skuldar vegna vinnu í þágu hins síðarnefnda við verkstjórn nýbyggingar. Laut deila aðila meðal annars að því hvort H ehf. væri réttur aðili að málinu en af hálfu R ehf. var á því byggt að aðkoma H ehf. að verkinu hefði verið bundin við fyrirsvarsmann félagsins persónulega og að um hefði verið að ræða vinnusamning á milli hans og R ehf. Þá byggði R ehf. á því að H ehf. hefði þegar fengið greitt að fullu fyrir verkið eða að félagið ætti í öllu falli gagnkröfu á hendur H ehf. vegna ætlaðra galla á verkinu sem næmi að minnsta kosti stefnufjárhæð málsins. Með vísan til þess að um tímabundið verk var að ræða, fyrirkomulags greiðslna til E ehf. og þess að R ehf. stóð hvorki skil á launatengdum gjöldum né hélt eftir staðgreiðslu opinberra gjalda var talið að um verksamning hafi verið að ræða en ekki vinnusamning. Ekki var talið að R ehf. hefði sýnt fram á að umkrafið tímagjald væri ósanngjarnt eða að tímar samkvæmt reikningnum væru ofskráðir. Þá var ekki talið að R ehf. hefði fært fram haldbær rök til stuðnings gagnkröfu til skuldajafnaðar. Var krafa H ehf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Tildrög máls þessa eru þau að vorið 2012 mun fyrirsvarsmaður áfrýjanda, Þórarinn Kristján Ólafsson, hafa sett sig í samband við fyrirsvarsmann stefnda, Ingólf Benediktsson, og farið þess á leit að hann aðstoðaði tímabundið við verkstjórn við nýbyggingu fasteignarinnar Álfhellu 6, Hafnarfirði. Hóf Ingólfur störf 22. maí 2012 en af gögnum málsins verður ráðið að aðkomu hans skyldi þannig háttað að hann aðstoðaði byggingarstjóra verksins við faglega þætti og hefði eftirlit með byggingu hússins. Þá fólst hlutverk hans meðal annars í því að flokka teikningar, útvega efni þegar verktakar þyrftu á að halda og sinna samskiptum við einstaka verktaka. Ekki var gerður skriflegur samningur en óumdeilt er að aðkomu Ingólfs að verkinu lauk í janúar 2013.

Á fyrrgreindu tímabili fékk stefndi greiddar samtals 3.000.000 krónur frá áfrýjanda vegna verksins. Þannig fékk stefndi greiddar 500.000 krónur í ágúst 2012, 700.000 krónur í september, 500.000 krónur í október, 300.000 krónur í nóvember og 500.000 krónur í desember sama ár. Loks greiddi áfrýjandi honum 500.000 krónur í janúar 2013. Með reikningi 22. janúar 2013 krafði stefndi áfrýjanda um greiðslu fyrir vinnuframlag Ingólfs á umræddu tímabili 22. maí 2012 til 22. janúar 2013, samtals 7.468.756 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en að eftirstöðvum 4.468.756 krónur að teknu tilliti til framangreindra innborgana. Áfrýjandi synjaði greiðslu og höfðaði stefndi mál þetta 22. maí 2013 til heimtu skuldar samkvæmt reikningnum.

II

Ágreiningslaust er með aðilum að samningur komst á um þátttöku Ingólfs Benediktssonar í umræddu verkefni með framangreindum hætti. Þeir deila hins vegar um hvort stefndi sé réttur aðili að máli þessu og hvaða endurgjald áfrýjandi hafi átt að inna af hendi fyrir verkið. Áfrýjandi heldur því aðallega fram að aðkoma stefnda að verkinu hafi verið bundin við Ingólf persónulega og að samningur aðila hafi verið vinnusamningur á milli hans og áfrýjanda. Því beri að sýkna áfrýjanda vegna aðildarskorts stefnda. Þá byggir áfrýjandi á því að stefndi  hafi þegar fengið greitt að fullu með fyrrnefndum greiðslum á tímabilinu ágúst 2012 til janúar 2013. Af þeim leiði að meðalmánaðarlaun hafi numið 375.000 krónum, sem sé eðlilegt endurgjald fyrir verkið. Eigi það sama við þó að fallist yrði á þá málsástæðu stefnda að um verksamning hafi verið að ræða. Loks byggir áfrýjandi á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnda vegna ætlaðra galla á verkinu sem nemi að minnsta kosti stefnufjárhæð málsins. Stefndi reisir málatilbúnað sinn á hinn bóginn á því að komist hafi á munnlegt samkomulag um verkið og að áfrýjandi hafi ekki greitt samkvæmt framangreindum reikningi. Í reikningnum sé miðað við unnar stundir við verkið sem hafi verið 1384 og tímagjald sem nemi 4.300 krónum. Fyrrgreindar greiðslur áfrýjanda hafi eingöngu verið innborganir og hafi verið tekið tillit til þeirra í fyrrnefndum reikningi.

Eftir að héraðsdómur gekk aflaði áfrýjandi matsgerðar 16. apríl 2014 um verkið og sanngjarnt endurgjald fyrir það. Í matsbeiðni var þess óskað að með matsgerðinni væri látið í té álit á því: 1) Hvert hafi verið raunverulegt vinnuframlag Ingólfs Benediktssonar við verkið í vinnustundum talið. 2) Hvort vinnuframlag Ingólfs hafi verið hæfilegt miðað við það verk sem hann hafi verið fenginn til að sinna. 3) Hver væri hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður af því verki sem unnið var af Ingólfi fyrir áfrýjanda og ef ekki væri mögulegt að meta það verk sem unnið var í raun hver væri þá hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður af sambærilegu verki. 4) Hver væri hæfileg og sanngjörn launagreiðsla fyrir þá vinnu sem innt hafi verið af hendi af hálfu Ingólfs við umrætt verk.

III

Meðal gagna málsins er hreyfingalisti úr bókhaldi áfrýjanda vegna greiðslna til stefnda 21. júní 2013. Á hreyfingalistanum er stefndi, en ekki Ingólfur Benediktsson, skráður viðskiptamaður og þær sex greiðslur, sem greiddar voru stefnda listaðar upp. Svo sem þar kemur fram voru greiðslurnar ekki reglulegar en fyrsta greiðslan er innt af hendi 3. ágúst 2012, önnur greiðslan 7. september 2012, þriðja greiðslan 9. október 2012, fjórða greiðslan 14. nóvember 2012, fimmta greiðslan 7. desember 2012 og sú sjötta og síðasta 14. janúar 2013. Þær eru, svo sem fram hefur komið, ekki allar sömu fjárhæðar og í skýringum með fyrstu, annarri og fjórðu greiðslu er meðal annars tilgreint að um sé að ræða „Greiðsla á reikningi“. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að samningur aðila hafi verið verksamningur.

Undir áfrýjun málsins hefur áfrýjandi lagt fram nokkur ný gögn í þeim tilgangi að sýna fram á það að fjárhæð samkvæmt framangreindum reikningi 22. janúar 2013 sé úr hófi og að hann hafi nú þegar fullgreitt stefnda. Í niðurstöðum fyrrnefndrar matsgerðar 16. apríl 2014 kemur meðal annars fram að ekki sé fært að staðreyna hvert raunverulegt vinnuframlag af hálfu Ingólfs Benediktssonar hafi verið en fyrir liggi að ætlast hafi verið til þess að Ingólfur væri öllum stundum á verkstað og því verði að ætla að hæfilegt vinnuframlag sé allur sá tími sem hann var á staðnum. Nauðsynlegt vinnuframlag fyrir það verk sem um var að ræða sé hins vegar minna þar sem vinna hefði mátt verkið á skemmri tíma. Eðlilegur tímafjöldi verksins, sem Ingólfur innti af hendi á vegum stefnda, var talinn nema 302 klukkustundum og miðað við 4.300 krónur í tímagjald næmi heildargreiðsla vegna verksins 1.298.600 krónum án virðisaukaskatts.

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að samningur aðila hafi verið verksamningur en ekki vinnusamningur. Þá er óumdeilt að í upphafi verks samdist aðilum svo um að starfsmaður stefnda, Ingólfur Benediktsson, skyldi sinna verkefninu í fullu starfi og á verktímanum sinnti hann ekki öðrum verkum. Þessar forsendur fyrir framkvæmd og umfangi verksins verða ekki endurskoðaðar eftir á með stoð í matsgerð þar sem lagður er annar grundvöllur að útfærslu sambærilegs verks. Þá hefur áfrýjandi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir gagnkröfu sinni til skuldajafnaðar. Að þessu virtu sem og því að áfrýjandi hefur hvorki sýnt fram á að umkrafið tímagjald, 4.300 krónur, sé ósanngjarnt né að tímar samkvæmt reikningnum frá 22. janúar 2013 séu ofskráðir, verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu áfrýjanda, fjárhæð kröfu og dráttarvexti.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, RST Net ehf., greiði stefnda, HI-verktökum ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. janúar 2014.

                Mál þetta, sem var höfðað 22. maí 2013, var dómtekið 10. desember 2013. Stefnandi er HI-verktakar ehf., kt. 671101-3240, Lóuási 5, 221 Hafnarfirði. Stefndi er RST Net ehf., kt. 530198-2359, Álfhellu 6, 221 Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.468.756 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22.02.2013 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilfellum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

I.

                Stefnandi lýsir málsatvikum þannig í stefnu að mál þetta sé höfðað vegna reiknings, dags. 22. janúar 2013, að fjárhæð 7.468.756 kr., fyrir verkstjórn við nýbyggingu fasteignarinnar Álfhellu 6, Hafnarfirði, á tímabilinu 22. maí 2012 til og með 22. janúar 2013. Inn á reikninginn hafi verið greiddar 3.000.000 kr. og hafi verið tekið tillit til þess við gerð dómkröfunnar. Stefndi hafi ekki greitt reikninginn og stefnandi þurfi því að höfða mál þetta.

                Stefndi kveður forsögu málsins vera þá að um mitt ár 2012 hafi hann sóst eftir að ráða Ingólf Benediktsson, stjórnarmann og framkvæmdastjóra stefnanda, í tímabundið verkefni sem ljúka átti í desember s.á. Hlutverk Ingólfs hafi átt að vera að aðstoða byggingarstjóra stálgrindarhúss á lóð að Álfhellu 6 við faglega þætti og hafa eftirlit með byggingu hússins, auk þess að hafa samskipti og eftirlit með verktökum við klæðningu stálgrindarhússins o.fl. Ingólfur hafi hafið störf í maí 2012, þrátt fyrir að ekki hefði verið gengið formlega frá ráðningu hans. Stefndi heldur því fram að gengið hafi verið á eftir Ingólfi um að ganga frá ráðningu hans og starfskjörum og m.a. hafi stefndi óskað eftir því að hitta Ingólf á fundi 17. nóvember 2012 sem Ingólfur mætti ekki á. Þessu mótmælir stefnandi.

                Fyrir liggur að stefndi greiddi eftirfarandi greiðslur inn á reikning stefnanda, að beiðni Ingólfs: 

Júní                    0

Júlí                      0

Ágúst                  500.000

September         700.000

Október             500.000

Nóvember         300.000

Desember          500.000

Janúar                500.000

Samtals             3.000.000

Stefndi kveður að í janúar 2013 hafi komið í ljós að hlé yrði gert á framkvæmdum við húsbygginguna vegna þeirra vinnubragða sem verktakar hefðu viðhaft mánuðina á undan. Á þeim tíma hafi stefnda einnig orðið ljóst að Ingólfur hefði ekki staðið sig í þeim störfum sem hann var ráðinn til að sinna. Jafnframt hafi komið í ljós að Ingólfur væri hvorki húsasmiður né húsasmíðameistari, eins og hann hafi látið í veðri vaka, en hann hafi kynnt sig gjarnan sem smið. Stefndi kveðst hafa boðað Ingólf á fund, nokkrum dögum eftir að hann lauk störfum, til að ganga frá málum er vörðuðu starfslok hans. Stefndi hafi boðist til að koma til móts við Ingólf til að klára mál er sneru að störfum hans hjá stefnda. Ingólfur hafi tekið sér frest til umhugsunar en hann hafi ekki haft samband aftur heldur sent umræddan reikning, dags. 22. janúar 2013. Stefndi kveðst ítrekað hafa reynt að ná sáttum við Ingólf, en án árangurs.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Ingólfur Benediktsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Arnhildur Ásdís Kolbeins, fyrirsvarsmaður stefnda, Þórarinn Kristján Ólafsson, framkvæmdarstjóri stefnda og eiginmaður Arnhildar Ásdísar, og Pálmi Gíslason, verkefnastjóri hjá stefnda. Verður vísað til framburðar þeirra síðar eftir því sem ástæða er til.

II.

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á reikningi, dags. 22. janúar 2013, að fjárhæð 7.468.756 kr. Stefnandi kveður reikninginn vera vegna vinnu stefnanda sem verkstjóri við nýbyggingu fasteignarinnar Álfhellu 6, Hafnarfirði, á tímabilinu 22. maí 2012 til og með 22. janúar 2013. Stefndi sé eigandi fasteignarinnar og verkkaupi af stefnanda.

Inn á reikninginn hafi verið greiddar 3.000.000 kr. og hafi þegar verið tekið tillit til þess við gerð dómkröfunnar. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi stefnanda verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuld­bindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi einkum til meginreglu 49. gr. sömu laga.

Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.

Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

III.

                Af hálfu stefnda er sýknukrafa í fyrsta lagi byggð á því að stefnandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur stefnda og því sé um aðildarskort að ræða. Í öðru lagi er byggt á því að krafan sé að fullu greidd, en til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfu stefnanda. Verði talið að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda byggir stefndi á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda sem sé í það minnsta jafnhá stefnufjárhæð máls þessa og því beri að sýkna hann af öllum kröfum í málinu.

Málsástæða stefnda um aðildarskort er byggð á því að stefnandi eigi ekki þá kröfu sem hann byggir málatilbúnað sinn á, en ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnanda og stefnda. Þvert á móti hafi Ingólfur Benediktsson og stefndi gert með sér munnlegan samning um að hann tæki að sér tímabundna vinnu fyrir stefnda. Ingólfur hafi verið launamaður hjá stefnda, enda hafi hann haft skrifstofuaðstöðu hjá stefnda og stefndi skaffað Ingólfi tölvu, síma, vinnufatnað, öryggisbúnað og öll þau verkfæri sem hann hafi þurft á að halda við vinnu sína. Jafnframt hafi Ingólfur haft aðgang að mötuneyti stefnda á kostnað stefnda. Að auki hafi verkefnið verið bundið við að Ingólfur myndi vinna það og hafi verið lagt upp með það að endurgjald vegna starfa Ingólfs miðaðist við tímalengd verks. Hafi dómaframkvæmd leitt í ljós að þegar svo stendur á sé um að ræða vinnusamband milli aðila, í þessu tilviki milli Ingólfs og stefnda, en ekki verksamband milli aðila þessa máls. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Verði ekki fallist á að sýkna beri stefnda á grundvelli aðildarskorts byggir stefndi á því að stefnandi hafi fengið í sinn hlut þær greiðslur sem hann átti rétt á og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefnandi hafi ekki fært fram nein rök fyrir því að hann eigi rétt til þeirrar greiðslu sem hann byggir málatilbúnað sinn á.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi athugasemdalaust móttekið greiðslur að fjárhæð 3.000.000 kr. úr hendi stefnda, en greiðslurnar hafi verið inntar af hendi mánaðarlega frá byrjun ágúst og þar til Ingólfur hætti störfum um miðjan janúar 2013. Á því tímabili hafi stefndi margoft óskað eftir því við Ingólf að setjast niður og ganga frá málum er vörðuðu endurgjald fyrir það verk sem hann innti af hendi fyrir stefnda. Þrátt fyrir það hafi ekkert orðið úr því og hafi stefndi því mátt ætla að sameiginlegur skilningur aðila væri sá að um væri að ræða fullnaðargreiðslur vegna þess verks sem stefnandi tók að sér. Stefndi byggir á því að stefnandi verði að bera hallann af þessu athafnaleysi sínu.

Það hafi verið fyrst í febrúar 2013, eftir að Ingólfur hafði lokið störfum sínum hjá stefnda, sem stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu sem sé nær tvöfalt hærri en það endurgjald sem stefndi hafði þegar greitt stefnanda. Stefndi telur ljóst að stefnandi geti ekki einhliða ákveðið endurgjald sitt fyrir það verk sem hann hefur innt af hendi.

Stefndi telur að fjárhæð reiknings stefnanda samsvari rúmlega 530.000 kr. í dagvinnulaun á mánuði en það sé hærra en nokkur starfsmaður stefnda hafi haft í laun. Þá byggir stefndi á því að meðallaun verkstjóra samkvæmt nýjustu launakönnun Capacent Gallup fyrir Verkstjórasambandið séu um 430.000 kr. á mánuði, sem samsvari 3.225 kr./klst. fyrir verktakavinnu (2.480 kr./klst. í vinnusambandi). Ingólfur hafi hvorki verið verkstjóri né sé hann faglærður í því verki sem hann hafi tekið að sér. Meðalgreiðslur til stefnanda á mánuði hafi numið 375.000 kr. sem verði að telja bæði sanngjarnt og eðlilegt. Því beri að leggja það til grundvallar, einkum með vísan til meginreglu 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Í nefndu ákvæði sé að finna þá meginreglu að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skuli greiða það verð sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé. Stefnandi hafi ekki fært nein rök fyrir því að endurgjaldið sem stefndi innti af hendi sé ósanngjarnt miðað við það verk sem var unnið, en telja verði að hann beri sönnunarbyrði fyrir því. Verði sem fyrr segir ekki litið framhjá því að stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við greiðslum úr hendi stefnda í um sex mánuði og því ljóst að stefnandi hafi sætt sig við það fyrirkomulag og endurgjald fyrir vinnu­framlagið.

Jafnframt telur stefndi að rangfærslur séu í reikningi stefnanda. Þannig skrifi stefnandi út 8 klst. vinnu á dag í 173 daga. Sá dagafjöldi sé meiri en fjöldi virkra daga á tímabili verksins, en að meðtöldum bæði 22. maí 2012 og 22. janúar 2013 séu dagarnir 171. Þá sé ekki tekið tillit til veikindadaga Ingólfs né orlofs sem hann hafi tekið út. Enn fremur fylgi engar vinnuskýrslur né vinnuyfirlit reikningnum, né yfirlit yfir fjarvistardaga, en samkvæmt því sem stefndi kemst næst hafi Ingólfur einungis verið í vinnu í 155 daga á nefndu tímabili, en sé miðað við fyrrgreind meðallaun verkstjóra nemi verktakagreiðsla fyrir 8 klst. vinnu pr. dag í 155 daga 3.999.000 kr. Auk þess hafi stefnandi ekki starfað við verkstjórn líkt og reikningurinn gefi til kynna, enda hafi Ingólfur ekki haft mannaforráð, heldur hafi hann verið til aðstoðar byggingarstjóra og til eftirlits.

Þykir stefnda því ljóst, með vísan til framangreinds og með vísan til meginreglna kröfuréttar, að krafa stefnanda hafi að fullu verið greidd og krefst því sýknu af kröfu stefnanda.

Verði ekki fallist á með stefnda að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda byggir stefndi á því að honum beri í mesta lagi að greiða stefnanda fjárhæð sem nemi virðisaukaskatti, 765.000 kr., sbr. eftirfarandi töflu:

Greiðsla

Fjárhæð

 

 Vsk

Júní

0

0

Júlí

0

0

Ágúst

500.000

127.500

September

700.000

178.500

Október

500.000

127.500

Nóvember

300.000

76.500

Desember

500.000

127.500

Janúar

500.000

 

127.500

Samtals

3.000.000

   765.000

Meðaltal

375.000

 

 

Stefndi mótmælir jafnframt upphafsdegi dráttarvaxta, en reikningur stefnda hafi ekki verið póstlagður fyrr en 12. febrúar 2013. Því beri í fyrsta lagi að miða upphafsdag dráttarvaxta við 12. mars 2013 en ekki 22. febrúar 2013.

Þá byggir stefndi á því, verði talið að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda, að sýkna beri stefnda þar sem hann eigi hærri kröfur á hendur stefnanda. Gagnkrafa stefnda byggist á kröfu um afslátt og/eða skaðabætur úr hendi stefnanda sem nemi að minnsta kosti stefnufjárhæð málsins. Stefnandi hafi tekið að sér að aðstoða við faglega þætti og hafa eftirlit með verktökum við byggingu stálgrindarhúss að Álfhellu 6. Við verklok stefnda hafi húsið hvorki haldið vatni né vindum.

Samkvæmt því sem fram komi í skýrslu Verkfræðistofunnar EFLU, dags. 31. janúar 2013, hafi vinnubrögð við ísetningu og frágang glugga verið algerlega ófullnægjandi og í engu samrýmst vönduðum og faglegum vinnubrögðum. Samkvæmt skýrslunni hafi blasað við að fagleg kunnátta og metnaður þeirra sem verkið unnu hafi verið lítil sem engin og greinilegt að ekki hafi verið farið eftir fyrirliggjandi teikningum nema að litlu leyti. Þá hafi verið bent á að enn hafi ekki verið gengið frá áfellu og rennu á þakbrún og samskeyti veggja og þaks því opin fyrir veðri og vindum. Auk þess hafi verið bent á að veggeiningar liggi þétt upp að þakeiningum og tilraunir til að setja frauð inn í skilin hafi ekki tekist vel til þar sem bilið sé of lítið. Samkvæmt skýrslunni virðist festingu veggeininga vera mjög ábótavant og gætu þær auðveldlega fokið af í slæmu veðri. Loks hafi verið bent á að þrjár lausar skrúfur væru við glugga á gafli byggingarinnar sem stæðu langt út úr klæðningunni og því væri ekki full festing.

Af framangreindu telur stefndi ljóst að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar sem eftirlitsmaður með fagatriðum og verktökum, á alvarlegan og verulegan hátt. Ingólfur hafi ávallt gefið það í skyn að hann væri faglærður húsasmiður, en svo var ekki. Hafi stefndi ráðið hann til starfa í þeirri trú og hafi stefnandi verið meðvitaður um þá forsendu stefnda. Stefndi telur ljóst að undir öllum kringumstæðum hefði stefnanda átt að vera ljóst hvernig framkvæmdum vatt fram að Álfhellu 6, sbr. ástandslýsingu í skýrslu Verkfræðistofunnar EFLU. Stefnandi hafi algerlega brugðist eftirlitshlutverki sínu og með því valdið stefnda stórtjóni. Stefnandi hafi þannig vanefnt verksamning aðila verulega með saknæmum hætti og eigi stefndi því rétt til afsláttar og/eða skaðabóta sem nemur beinu og óbeinu fjártjóni hans. Fjárhæð gagnkröfu sé að minnsta kosti jafnhá stefnufjárhæð og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, jafnvel þó að fallist yrði á með stefnanda að stefndi væri í 4.468.756 kr. skuld við stefnanda.

Stefndi byggir gagnkröfu til skuldajafnaðar á heimild í 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Öll skilyrði til skuldajafnaðar séu uppfyllt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Kröfur séu milli sömu aðila og snúist báðar um gjaldkræfar peningafjárhæðir.

Loks krefst stefndi sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meginreglna fjármuna- og samningaréttarins um skuldbindingar­gildi samninga, sem stoð eigi m.a. í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar og verktakaréttar. Til stuðnings gagnkröfum sínum vísar stefndi til 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi til almennu skaðabótareglunnar og reglu kröfuréttar um afslátt.

Stefndi krefst sýknu af málskostnaðarkröfu stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda. Krafa um málskostnað byggist á XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan byggist á því að stefndi hafi margítrekað óskað eftir því við fyrirsvarsmann stefnanda að þeir myndu setjast niður og ræða þau mál og ná lendingu en stefnandi hafi litið framhjá því og höfðað mál þetta án þess að gefa gaum að tilboði stefnda. Um þetta er vísað til a-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Eins og rakið hefur verið liggur ekki fyrir skriflegur samningur um þá vinnu sem Ingólfur Benediktsson, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri stefnda, innti af hendi fyrir stefnda. Stefndi heldur því fram að um vinnusamband hafi verið að ræða en ekki verksamning. Því til stuðnings bendir stefndi á að Ingólfur hafi sjálfur þurft að vinna verkið og ekki getað falið öðrum það, hann hafi haft skrifstofuaðstöðu hjá stefnda og stefndi útvegað honum tölvu, síma, öryggisfatnað, öryggisbúnað og verkfæri sem hann hafi þurft á að halda við vinnu sína. Þá hafi Ingólfur fengið mat í mötuneyti stefnda. Við aðalmeðferð málsins sagði Ingólfur að hann hafi litið svo á að hann hafi sjálfur þurft að inna vinnuna af hendi og hann kvaðst hafa haft vinnuaðstöðu í gámi. Eina verkfærið sem hann hafi þurft að nota hafi verið tölva sem var þar. Þá kvaðst hann hafa haft aðgang að mötuneyti stefnda og verið með síma frá stefnda. Þótt þessi atriði styðji það að um vinnusamband hafi verið að ræða verður ekki framhjá því litið að um tímabundið verk var að ræða, sem átti að vinna frá maí til desember 2013, ekki var um reglulegar greiðslur að ræða í hverjum mánuði og stefndi greiddi þær athugasemdalaust inn á reikning stefnanda en ekki Ingólfs. Þá var ekki um uppsagnarfrest að ræða og stefndi stóð ekki skil á launatengdum gjöldum eða hélt eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af umræddum greiðslum. Með vísan til alls framangreinds verður að líta svo á að um verksamning hafi verið að ræða en ekki vinnusamning. Er sýknukröfu stefnda um aðildarskort því hafnað.

                Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi þegar fengið í sinn hlut þær greiðslur sem hann eigi rétt á, en hann hefur fengið greiddar 3.000.000 króna. Stefndi byggir í þessu sambandi á því að stefnandi hafi athugasemdalaust móttekið greiðslur, en það hefur ekki þýðingu, enda leit stefnandi svo á að ekki væri um fullnaðar­greiðslur að ræða og stefnda mátti vera það ljóst þar sem greiðslur voru misjafnar milli mánaða þótt vinnuframlagið væri það sama eða svipað í hverjum mánuði. Þá heldur stefndi því fram að fyrirsvarsmenn stefnda hafi margoft óskað eftir því við Ingólf að setjast niður og ganga frá samkomulagi um endurgjald fyrir vinnu hans en ekkert hafi orðið úr því. Fyrir dómi sagði Ingólfur að Þórarinn Kristján, sem var byggingar­stjórinn og framkvæmda­stjóri stefnda, hefði ekki náðst að samningaborðinu. Þannig hefði það ekki verið vegna sín sem ekki var gengið frá samkomulagi. Þetta fær stoð í framburði Arnhildar Ásdísar fyrir dómi en hún sagði að allir hefðu verið uppteknir og ekki náð saman til að ganga frá samningi. Ingólfur hefði hins vegar verið boðaður á fund 17. nóvember 2013 en hann hefði ekki mætt. Að þessu virtu og þar sem engin gögn liggja fyrir sem styðja fullyrðingu stefnda um að stefnandi hafi verið boðaður á téðan fund er ósannað að það hafi staðið á stefnanda að ganga frá samkomulagi.

Til stuðnings því að sú fjárhæð sem stefnandi hefur þegar fengið greidda sé sanngjörn og eðlileg vísar stefndi til þess að meðallaun verkstjóra samkvæmt nýjustu launa­könnun Capacent Gallup fyrir Verkstjórasambandið séu um 430.000 krónur á mánuði, en reikningur stefnanda samsvari rúmlega 530.000 krónum á mánuði. Stefndi hefur lagt fram skjal með launatöflum sem stefnandi hefur mótmælt, enda komi þar ekki fram frá hvaða tíma þær séu og þær geti ekki haft gildi þar sem ekki sé um að ræða vinnusamband milli aðila. Samkvæmt þessu og með vísan til þess að dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að um verksamning hafi verið að ræða getur stefndi ekki byggt á umræddum launatöflum. Hvað varðar athugasemdir stefnda um fjölda vinnudaga, þ.e. að virkir dagar á umræddu tímabili hafi verið 171 en ekki 173, er til þess að líta að fyrir dómi kom fram skýring á þessu misræmi, en Ingólfur fór utan á vegum stefnda 14.-18. júní og skráði á sig tvo vinnudaga vegna þess. Verður það að teljast hóflegt. Stefndi heldur því einnig fram að Ingólfur hafi tekið orlof og veikindadaga á umræddum tíma en þessu mótmælir stefnandi. Fyrir dómi kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda vera með skrá yfir fjarvistir en hún hefur ekki verið lögð fram í málinu og verður stefndi að bera hallann af því. Getgátur stefnda um vinnuframlag stefnanda sem eru byggðar á úttektum í mötuneyti stefnda duga ekki gegn mótmælum stefnanda sem sönnun um vinnuframlag. Samkvæmt öllu framan­sögðu er ósannað að tímafjöldi stefnanda sé rangur og þegar litið er til eðlis verksins, og starfsreynslu Ingólfs, verður að telja tímagjaldið, 4.300 krónur, sanngjarnt.

Stefndi byggir enn fremur á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda þar sem Ingólfur hafi vanefnt skyldur sínar sem eftirlitsmaður með verktökum á alvarlegan og verulegan hátt. Stefndi kveðst hafa ráðið Ingólf til starfa í þeirri trú að hann væri faglærður húsasmiður þar sem hann hafi kynnt sig sem smið, en hann hafi ekki verið húsasmíðameistari. Fram kom fyrir dómi að Ingólfur er skipasmiður en hann hefur mikla starfsreynslu við húsbyggingar. Verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki beðið um nánari upplýsingar um menntun Ingólfs. Þá vísar stefndi um meinta vanrækslu stefnanda til skýrslu Verkfræði­stofunnar Eflu hf., dags. 31. janúar 2013, vegna úttektar á vinnubrögðum og frágangi við glugga­ísetningu á fasteigninni að Álfhellu 6. Í téðri skýrslu er fjallað um vinnubrögð verktakans en ekki eftirlits­manns, en í henni kemur fram að verulegur leki sé með gluggum og vinnubrögð við ísetningu þeirra séu „meingölluð og eru ekki eins og gera má ráð fyrir að „vanur“ verktaki skili af sér verki“. Í skýrslunni er svo tekið fram að frágangi af hendi verktaka væri ekki lokið. Fyrir dómi greindi Ingólfur frá því að aldrei hefðu verið gerðar athugasemdir við störf hans. Hann kvaðst hafa gert athugasemdir við vinnu verktakanna og að vinnubrögð verktakans hefðu ekki verið í lagi og hann hafi viljað láta fara fram úttekt á verkinu. Fram kom fyrir dómi hjá Þórarni Kristjáni að Ingólfur hefði talað um það að verktakinn væri ekki að standa sig. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um það hvort verktakinn hafi bætt úr göllum, í hverju tjón stefnda felst og hvert það hafi verið. Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að hann eigi kröfu sem komið getur til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnanda, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til alls framangreinds ber stefnda að greiða umkrafða kröfu, að fjárhæð 4.468.756 krónur, ásamt dráttarvöxtum. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu dráttarvextir reiknast frá 12. mars 2013, þar sem ekki liggur fyrir að stefnandi hafi sannanlega sent stefnda kröfu sína fyrr en 12. febrúar s.á.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Stefndi, RST Net ehf., greiði stefnanda, HI-verktökum, 4.468.756 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. mars 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.