Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Tilraun
  • Fjársvik
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. maí 2003.

Nr. 70/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Brynjólfi Jónssyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Þjófnaður. Tilraun. Fjársvik. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.

B, sem var vanaafbrotamaður, var ákærður fyrir fjársvik og tvær tilraunir til þjófnaðar. B játaði brotin. Hafði hann frá árinu 1983 hlotið átján refsidóma og höfðu þrír þeirra ítrekunaráhrif á þessi brot hans. Var refsing hans ákveðin óskilorðsbundið fangelsi í 6 mánuði að teknu tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 71. gr., 72. gr. og 255. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing sín verði milduð og hún skilorðsbundin.

Eins og nánar er rakið í ákæru er ákærða gefin að sök tilraun til þjófnaðar í I. kafla ákæru með því að hafa 19. maí 2002 brotist inn í tvö nafngreind fyrirtæki í Kópavogi í þeim tilgangi að stela þar verðmætum. Samkvæmt II. kafla ákæru eru honum gefin að sök fjársvik með því að hafa 18. sama mánaðar notað í heimildarleysi greiðslukort nafngreinds manns til að svíkja út vörur að verðmæti samtals 48.445 krónur, í fimm nánar tilgreindum tilvikum. Loks er hann sakaður í III. kafla ákærunnar um tilraun til þjófnaðar með því að hafa 30. maí 2002 farið inn í bifreiðina SX-114, sem stóð utan við hús við Kársnesbraut, og fjarlægt þaðan verkfæri að verðmæti samtals 165.000 krónur. Við meðferð málsins í héraði, sem farið var með í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, játaði ákærði sakargiftir og samþykki fram komnar bótakröfur í málinu.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1983 hlotið átján refsidóma og gengist fjórum sinnum undir að greiða sektir, tvívegis vegna ölvunaraksturs, einu sinni fyrir umferðarlagabrot og einu sinni fyrir brot á lögum og reglum um ávana- og fíkniefni. Refsing samkvæmt nokkrum dómanna var ákveðin  með hliðsjón af því að um var að ræða hegningarauka við fyrri dóma. Fyrst var ákærði dæmdur árið 1983 í fangelsi í 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, og til greiðslu 5.000 króna sektar fyrir þjófnað. Næst var hann dæmdur árið 1984 í fangelsi í 5 mánuði, þar af 3 mánuði skilorðsbundið, fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot. Árið 1986 var ákærði dæmdur í fangelsi í 18 mánuði fyrir brennu, þjófnað og skemmdarverk. Næsta ár var hann dæmdur tvívegis, fyrst í fangelsi í 2 mánuði, hegningarauki, fyrir skjalafals og fjársvik og síðar í fangelsi í 4 mánuði fyrir fíkniefnalaga- og þjófnaðarbrot. Árið 1990 var hann dæmdur í fangelsi í 10 mánuði, þar af 7 mánuði skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað og fjársvik. Í sjöunda sinn var ákærði dæmdur árið 1991 og þá í fangelsi í 4 mánuði fyrir þjófnað. Áttundi og níundi dómur á hendur honum voru kveðnir upp á árinu 1994 og hann dæmdur í fyrra skiptið í fangelsi í 5 mánuði fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnað og ölvun og réttindaleysi við akstur og það síðara í fangelsi í 30 daga fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur. Í ágúst 1996 hlaut hann fangelsi í 30 daga fyrir fjársvik og í nóvember sama ár fangelsi í 2 mánuði, hegningarauki, fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur í apríl 1997 í fangelsi í 3 mánuði fyrir þjófnað. Hann hlaut tvo dóma á árinu 1998, þann fyrri 2. október fangelsi í 2 ár fyrir líkamsárás, húsbrot, þjófnað og fjárdrátt svo og brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar af var dæmd með 50 daga ólokin refsivist hans samkvæmt reynslulausn 17. ágúst 1997. Síðari dómurinn var kveðinn upp 29. október, fangelsi í 10 mánuði, hegningarauki, fyrir þjófnað og skjalafals. Í þeim dómi var meðal annars tekið mið af því við ákvörðun refsingar að hann hafði tekið sig á og farið í meðferð eftir margra ára vímuefnaneyslu. Hann hlaut þrjá refsidóma á árinu 1999, 4. júní fangelsi í 2 mánuði fyrir þjófnað, 23. júlí sektarrefsingu fyrir fíkniefnalagabrot og loks 6. ágúst fangelsi í 4 mánuði, hegningarauki, fyrir skjalafals. Síðast var hann dæmdur 19. júní 2001 í fangelsi í 2 mánuði fyrir skjalafals.

Eins og fyrr greinir voru brot ákærða, sem hér eru til meðferðar, framin 18., 19. og 30. maí 2002. Hafa dómarnir frá 2. og 29. október 1998 og 4. júní 1999 allir ítrekunaráhrif á þessi brot hans. Ber því að tiltaka refsingu hans með vísan til 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er vanaafbrotamaður og verður refsing hans því einnig ákveðin með hliðsjón af 72. gr. laganna. Þykir hún að teknu tilliti til 77. gr. sömu laga hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þrátt fyrir að brot ákærða séu ekki stórfelld og hann hafi nú aftur tekið sig á og farið í vímuefnameðferð þykir ekki verða hjá því komist vegna langs og óslitins sakaferils hans og þess að um margítrekuð brot er að ræða að refsingin verði dæmd óskilorðsbundin.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

        Ákærði, Brynjólfur Jónsson, skal sæta fangelsi í 6 mánuði.

          Ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar skal vera óraskað.

          Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

               

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2003.

                Mál þetta, sem dómtekið var 19. desember sl., var höfðað með ákæru sýslumannsins í Kópavogi 11. október 2002 á hendur Brynjólfi Jónssyni, kt. 260766-3419, Hafnarbraut 11, Kópavogi og Guðjóni Björgvini Guðmundssyni, kt. 070875-4389, Vesturhólum 17, Reykjavík ,,fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

 

I.              Á hendur ákærðu báðum fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. maí 2002, brotist inn í fyrirtækin Réttir bílar ehf. og Innviði-Valdberg ehf., Kársnesbraut 98, Kópavogi, í þeim tilgangi að stela þaðan verðmætum.

                Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegingarlaga nr. 19/1940.

 

II.            Á hendur ákærða Brynjólfi fyrir fjársvik með því að hafa laugardaginn 18. maí 2002, í heimildarleysi í neðangreindum tilvikum, notað debitkort Jóseps Steins Kristjánssonar, nr. 5893-2103-1908-2461, til að svíkja út vörur samtals að andvirði kr. 48.445,-.

 

1.             Greitt Vínbúðinni, Smáralind, Kópavogi, fyrir vörur að fjárhæð kr. 2.805,-.

2.             Greitt Vínbúðinni, Dalvegi 2, Kópavogi, fyrir vörur að fjárhæð kr. 9.000,-.

3.             Greitt Skóversluninni Ásta G, Smáralind, Kópavogi, fyrir vörur að fjárhæð kr. 9.995,-.

4.             Greitt Skóversluninni Ásta G, Smáralind, Kópavogi, fyrir vörur að fjárhæð kr. 9.995,-.

5.             Greitt versluninni Jack&Jones, Smáralind, Kópavogi, fyrir vörur að fjárhæð kr. 16.650,-.

                Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

 

III.           Á hendur ákærða Brynjólfi fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 30. maí 2002, farið inn í bifreiðina SX-114, sem stóð utan við Kársnesbraut 119-121 og var hann búinn að taka úr bifreiðinni borvél að verðmæti kr. 90.000,-, batterísborvél að verðmæti kr. 35.000,- og höggborvél að verðmæti kr. 40.000,- er hann var handtekinn á vettvangi.

                Telst þetta varða við 244. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

IV.           Á hendur ákærða Guðjóni Björgvini fyrir nytjastuld, með því að taka í heimildarleysi, fimmtudaginn 16. maí 2002, bifreiðina UZ-717 frá Hafnarbraut, Kópavogi og aka henni þaðan að Hafnarbraut 11, Kópavogi.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                Eftirtaldar bótakröfur eru gerðar í málinu:

                1.             Þorgeir Baldursson, kt. 170752-7919, gerir þá kröfu f.h. Vínbúðarinnar, kt. 410169-4369, að ákærði Brynjólfur verði dæmdur til að greiða Vínbúðinni kr. 2.805,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 18.05.2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags.

                2.             Tinna María Sigurðardóttir, kt. 200981-3089, gerir þá kröfu f.h. Skæði ehf., kt. 460588-1389, að ákærði Brynjólfur verði dæmdur til að greiða Skæði ehf., kr. 9.995,- auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 18.05.2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

 

    Við meðferð málsins fyrir dómi viðurkenndi ákærði Brynjólfur að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru.  Ákærði samþykkti einnig framkomnar bótakröfur á hendur sér. 

    Ákærði Guðjón hefur hins vegar neitað sök og fór fram aðalmeðferð 19. desember sl. varðandi hans þátt í málinu.

I.

    Sunnudaginn 19. maí 2002, kl. 01:51, var lögreglunni í Kópavogi tilkynnt um að sést hefði til tveggja grunsamlegra manna við fyrirtæki að Kársnesbraut 98, Kópavogi.  Þegar lögreglan kom á staðinn sá hún til tveggja manna á hlaupum í norðurátt milli Kársnesbrautar 98 og 100.  Mönnunum var veitt eftirför og þeir handteknir stuttu síðar.

Hjá lögreglu mundi ákærði Guðjón ekkert frá atburðum kvöldsins.  Hann minnti þó helst að meðákærði  Brynjólfur hafi farið inn í fyrirtækið og hann farið á eftir honum í þeim tilgangi að stöðva hann við innbrotið.  Hjá lögreglu sagði ákærði Brynjólfur aftur á móti að hann hefði verið að aðstoða Guðjón við innbrotið vegna þess að Guðjón hafi skuldað honum 250.000 krónur.  Fyrir dómi sagði ákærði Guðjón að hann hefði verið í mikilli óreglu á þessum tíma og búið í húsi við Hafnarbraut, skammt frá innbrotsstað.  Þeir Brynjólfur hafi setið að sumbli þetta kvöld og ákveðið að fara út að ganga.  Brynjólfur hafi þá stungið upp á því að brjótast inn í fyrirtækið Innviði-Valdberg ehf. við Kársnesbraut 98 í Kópavogi.  Hann hafi reynt að aftra því en ekki tekist.  Brynjólfur hafi því farið inn í fyrirtækið en hann staðið fyrir utan.  Hann hafi heyrt brothljóð og þá gengið í burtu.  Stuttu síðar hafi lögreglan komið og hafi hann þá hlaupið í burtu en lögreglan handtekið hann. 

Ákærði Brynjólfur skýrði svo frá fyrir dómi að þeir hefðu setið við drykkju umrætt kvöld en síðan ákveðið að ganga niður í bæ.  Brynjólfur sagðist hafa ákveðið að brjótast inn í fyrirtæki við Kársnesbraut en Guðjón reynt að fá hann ofan af því.  Hann hafi brotið rúðu í fyrirtækin og farið inn en þegar hann heyrði til lögreglunnar hafi hann hlaupið út og reynt að koma sér undan.  Ákærði kvaðst hafa skýrt vísvitandi rangt frá hjá lögreglu til þess að reyna að bjarga eigin skinni.  Hann hafi verið mjög drukkinn í umrætt sinn og hugsað um það eitt að vera samvinnuþýður við lögregluna til þess að sleppa laus.  Hann hafi hins vegar skýrt satt og rétt frá fyrir dómi. 

Tveir lögreglumenn komu fyrir dóm og skýrðu svo frá að þeir hefðu séð ákærðu hlaupa samsíða í burtu frá vettvangi.

II.

    Fimmtudaginn 16. maí 2002, kl. 14:43 veitti lögreglan í Kópavogi bifreiðinni UZ-717 athygli þar sem henni var ekið á bifreiðastæði við Hafnarbraut 11, Kópavogi.  Lögreglan hafði grun um að bifreiðinni hefði verið stolið og var því ökumaður hennar, ákærði Guðjón, handtekinn.  Á vettvangi kvaðst ákærði hafa fengið bifreiðina að láni hjá Mikka vini sínum.  Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi.  Strákur, sem kallaður væri Mikki, hafi lánað honum bílinn.  Hann hafi hitt þennan Mikka fyrir utan hús við Hafnarbraut 11 í Kópavogi en þekki hann ekki neitt og viti ekkert um hvar hægt sé að finna hann.

    Fyrir dómi sagði ákærði að hann hafi verið í mikilli óreglu á þessum tíma og búið að Hafnarbraut 11 í Kópavogi.  Þar hafi jafnframt búið fleira óreglufólk og enn fleiri slíkir vanið komur sínar þangað.  Hann hafi kynnst Mikka þetta kvöld á Hafnarbrautinni og gert ráð fyrir að hann byggi þar.  Að öðru leyti vissi ákærði ekki nein deili á umræddum Mikka.

III.

    Eins og framan er rakið báru báðir ákærðu fyrir dómi að það hafi verið Brynjólfur sem hafi brotist inn að Kársnesbraut 98, Kópavogi og að ákærði Guðjón hafi staðið fyrir utan á meðan.  Þegar lögreglan kom á vettvang voru báðir ákærðu á hlaupum frá brotastað.  Verður að leggja þennan framburð ákærðu til grundvallar og þar af leiðandi að sýkna ákærða Guðjón af ákærulið I.

Hins vegar þykir sök ákærða Guðjóns sönnuð varðandi ákærulið IV enda hefur hann ekki gefið viðhlítandi skýringu á því hvernig hann komst yfir bifreiðina UZ-717 sem hafði verið stolið.

Ákærði Guðjón hefur 9 sinnum hlotið dóma og 4 sinnum undirgengist sáttir. 

Refsing ákærða Guðjóns nú þykir hæfilega ákveðin 1 mánaðar fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar  og falli hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

   

Ákærði Brynjólfur játaði sök við meðferð málsins fyrir dómi og samþykkti bótakröfur.  Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins þykir sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi er í ákæru greinir og þar er réttilega færð til refsiákvæða.  Ákærði hefur 18 sinnum hlotið dóma og 4 sinnum undirgengist sáttir, aðallega fyrir brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.  Síðast hlaut ákærði 2 mánaða fangelsisdóm 19. júní 2001 fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing ákærða Brynjólfs þykir með hliðsjón af sakarferli hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði.

 

Ákærði Guðjón greiði skipuðum verjanda sínum, Jóni Egilssyni hdl., 80.000 krónur í málsvarnarlaun.  Ákærði Brynjólfur greiði skipuðum verjanda sínum, Sigurði Georgssyni hrl., 50.000 krónur í málsvarnarlaun.  Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað.

 

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

    Ákærði, Guðjón Björgvin Guðmundsson, sæti fangelsi í 1 mánuð en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Brynjólfur Jónsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. 

Ákærði, Brynjólfur, greiði Vínbúðinni, kt. 410169-4369, 2.805 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. maí 2002 til greiðsludags.

Ákærði, Brynjólfur, greiði Skæði ehf., kt. 460588-1389, 9.995 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. maí 2002 til greiðsludags.

Ákærði, Guðjón, greiði skipuðum verjanda sínum Jóni Egilssyni hdl. 80.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði, Brynjólfur, greiði skipuðum verjanda sínum Sigurði Georgssyni hrl. 50.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað.