Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                              

Föstudaginn 8. mars 2013.

Nr. 140/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í skýrslu lögreglu 24. febrúar 2013 er haft eftir ökumanni bifreiðar þeirrar, sem ók brotaþola af vettvangi í kjölfar þess atburðar sem mál þetta er sprottið af, að hann hafi heyrt þegar varnaraðili öskraði á brotaþola „ég drep þig, ég drep þig.“ Í læknabréfi bráðalækninga Landspítala 25. febrúar 2013 kemur fram að þann dag hafi brotaþoli komið til skoðunar vegna líkamsárásar sem hún hafi orðið fyrir deginum áður. Hún sé með mjög greinilegt mar á vinstra gagnauga og vinstra megin á enni. Auk þess sé brotaþoli með eymsli mjög víða yfir höfuðkúpu, marblettir séu á fótleggjum, í kringum bæði hné og á vinstri upphandlegg, og geti þessir áverkar samrýmst því að hún hafi orðið fyrir endurteknum höggum eða spörkum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðinn verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, X, fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. mars 2013.

Með beiðni, sem móttekin var 28. febrúar 2013, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 25. febrúar 2013 þess efnis að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] eða dvalarstað hennar í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Af hálfu varnaraðila, X, er þess aðallega krafist að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að hinn 25. febrúar sl. hafi A óskað eftir nálgunarbanni á hendur barnsföður sínum, varnaraðila í máli þessu, en kvöldið áður hafi varnaraðili verið handtekinn vegna gruns um líkamsárás gegn henni. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi A sagt að varnaraðili hefði oft beitt sig ofbeldi en hún hafi aldrei lagt fram kæru á hendur honum áður. A og varnaraðili hafi á síðustu dögum dvalið á [...] þar sem þeim hafi fyrir skömmu verið gert að flytja út af heimili þeirra að [...] í [...]. Eftir árásina hafi A dvalið í [...].

Þau gögn sem liggi til grundvallar ákvörðun lögreglustjóra frá 25. febrúar sl. séu:

Mál lögreglunnar nr. 007-2013-[...]: Í málinu liggi varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa að kvöldi sunnudagsins 24. febrúar sl. þvingað A til að keyra frá hóteli þar sem þau dvöldu í [...], í átt að [...]. Á [...], skammt frá [...], hafi hann skipað A að fara út úr bifreiðinni og ganga með sér út í hraunið. Hann hafi síðan sparkað í hana og slegið hana í höfuðið þannig að henni hafi sortnað fyrir augun og fallið í jörðina. Varnaraðili hafi í framhaldinu hellt yfir hana gosdrykk og sprautað kveikjarabensíni á hana. A hafi hinsvegar komist undan honum og hlaupið upp á akbrautina þar sem hún hafi stöðvað bifreið sem átti þar leið, farið inn í hana og skipað ökumanninum að keyra með sig í burtu. Þegar bifreiðinni hafi verið ekið af stað hafi varnaraðili tekið í hurðarhúninn á bílnum og reynt að komast inn. A hafi hinsvegar skipað ökumanninum að halda áfram þar sem hún hafi verið hrædd um að varnaraðili ætlaði að drepa hana. Varnaraðili hafi hangið í bifreiðinni meðan henni hafi verið ekið af stað og vegna þessa framferðis slasast. Ökumaður bifreiðarinnar hafi stöðvað bifreiðina skammt frá og tilkynnt um atburðinn til Neyðarlínunnar. Við komu lögreglu á vettvang hafi mátt sjá að A hafi verið með áverka víða um líkamann, m.a. í andliti. Varnaraðili hafi verið handtekinn á vettvangi en hann neiti sök og segi m.a. að A hafi sjálf hellt yfir sig bensíni.

Fjöldi bókana sé að finna hjá lögreglu þar sem óskað hafi verið aðstoðar vegna heimilisofbeldis og heimiliserja á þáverandi heimilum varnaraðila og A, að [...] og [...] í [...]:

Bókun lögreglu nr. 007-2013-[...]: Þann 6. janúar sl. hafi verið tilkynnt um læti frá íbúð varnaraðila og A. Öskur hafi heyrst í konu og um einhverskonar barsmíðar hafi verið að ræða.

Bókun lögreglu nr. 007-2013-[...]: Þann 7. janúar sl. hafi nágranni tilkynnt að varnaraðili væri kolvitlaus að berja húsið að [...] allt að utan og kalla á A.

Bókun lögreglu nr. 007-2012-[...]: Þann 2. desember 2012 hafi lögreglu borist nafnlaus tilkynning þess efnis að varnaraðili gangi í skrokk á konu sinni og þremur dætrum þeirra nær daglega.

Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: Þann 24. júlí 2011 hafi verið tilkynnt um ágreining milli sambýlisfólks að [...] í [...]. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi vinkona varnaraðila verið þar og skýrt lögreglu frá því að varnaraðili legði oft hendur á Aog fyrr um daginn hefði hann m.a. slegið hana að börnum þeirra sjáandi.

Þá sé upplýst að faðir A, B, hafi óskað eftir nálgunarbanni á varnaraðila í janúar sl. (mál nr. 007-2012-[...]) en þrjár dætur varnaraðila og A séu búsettar á heimili C og taldi hann stúlkurnar verða fyrir miklu ónæði af hálfu varnaraðila (sjá bókanir lögreglu í málum nr. 007-2012-[...] og [...] frá 24 og 25. desember sl.). Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið ákvörðun um nálgunarbann en hún hafi ekki verið staðfest af Héraðsdómi Reykjaness, sem hafi fellt ákvörðun lögreglustjóra úr gildi.

Félagsþjónustan í [...], sem hafi málefni A og barna hennar til meðferðar, hafi einnig lýst yfir miklum áhyggjum af A sem hafi skýrt starfsfólki þar frá því að varnaraðili beiti hana ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, og þá hafi starfsmenn þar séð áverka á A.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að samkvæmt framansögðu séu skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili  hafi brotið gegn A og að hætta sé á að hann haldi áfram að raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé líklegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða.

Eins og rakið hefur verið hefur A, barnsmóðir varnaraðila, lýst því að varnaraðili hafi síðastliðið sunnudagskvöld þvingað hana til að fara með sér í bifreið og aka með hana frá [...] þar sem þau dvöldu. Þegar þau hafi verið komin á [...] , skammt frá [...], hafi hann skipað henni að fara út úr bifreiðinni og ganga með sér út í hraunið. Þar hafi hann ráðist á hana og hellt yfir hana gosdrykk og kveikjarabensíni. Hún kveðst hafa óttast um líf sitt og hlaupið út á götu þar sem hún hafi stöðvað bifreið sem átti þar leið hjá, sest upp í bifreiðina og beðið ökumanninn um að aka á brott.

Í lögregluskýrslu sem tekin var af ökumanni þeirrar bifreiðar kemur fram að þegar hann sá [...] hlaupa út á veginn og veifa til hans hafi hann haldið að eitthvað alvarlegt hefði gerst, jafnvel umferðarslys. Þegar [...] hafi komið upp í bifreiðina hafi maður verið um fimm metra á eftir henni og hann hafi tekið í hurðina á bifreiðinni og hangið á henni. [...] hafi endurtekið „hann ætlar að drepa mig“ og sagt ökumanninum að keyra áfram. Hún hafi verið í mjög miklu uppnámi, hún hafi verið blaut og með rispur í andlitinu. Ökumaðurinn kvaðst hafa ekið af stað og fundið dynk, þegar varnaraðili varð fyrir bifreiðinni. Ökumaðurinn sagði að hann hefði ætlað að snúa við til að athuga hvað hefði gerst en A hefði sagt ítrekað að maðurinn ætlaði að drepa hana. Eftir að hafa ekið um 300 metra hafi ökumaðurinn snúið við og hringt í Neyðarlínuna. Þá greindi ökumaðurinn frá því að þegar sjúkrabifreið kom á vettvang hefði hann farið og kannað nánar hvað hefði gerst. Jafnframt sagði ökumaðurinn að A hefði verið í það miklu uppnámi að hún hafi kastað upp er hún fór út úr bifreiðinni.

Í frumskýrslu lögreglu segir að tvö vitni, A og B, hafi verið á eftir bifreiðinni sem A settist upp í. Vitnin hafi séð A koma hlaupandi út á götuna í veg fyrir bifreiðina. Einnig hefðu þau séð mann hanga á farþegahurð bifreiðarinnar og reyna að koma í veg fyrir að bifreiðin kæmist af stað. Jafnframt hefðu þau séð þegar ekið hafi verið á manninn. Vitnið A hefði farið út og rætt við manninn, en hann hefði verið með kjaft og haldið um lærið á sér. Hann hefði síðan gengið á brott yfir [...] og inn [...] og sest í bifreið sem þar var. Vitnið D kvaðst hafa óttast um vitnið E meðan það ræddi við manninn. Þá kemur fram í frumskýrslu að þegar lögregla ræddi við varnaraðila á vettvangi hafi hann verið í mjög annarlegu ástandi og erfitt hafi verið að ræða við hann og hann hafi í fyrstu neitað að láta sjúkraflutningamenn skoða sig en svo hafi hann samþykkt að láta hlúa að sér.     

Bókanir lögreglu sem raktar eru í greinargerð lögreglustjóra veita rökstudda vísbendingu um að samband varnaraðila og A, barnsmóður hans, hafi verið stormasamt og er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa 24. febrúar sl. framið refsivert brot gagnvart barnsmóður sinni. Að mati dómsins er full ástæða til að líta það mál alvarlegum augum. Með vísan til framangreinds og a-liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, eru uppfyllt skilyrði til að varnaraðili sæti nálgunarbanni. Í ákvörðun lögreglustjóra frá 25. febrúar sl. kemur ekki fram hvar heimili eða dvalarstaður A sé, þar sem upplýsingar lágu ekki fyrir um það. Í kröfugerð lögreglustjóra, dags. 28. febrúar sl., er hins vegar tilgreint að heimili A sé að [...] í og hún hafi dvalarstað í [...]. Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., þykir hæfilega ákveðin 125.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. 

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, X, skal sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] eða dvalarstað hennar í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.