Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Fullnusta refsingar
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
|
Nr. 345/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Fullnusta refsingar.
Fallist var á kröfu L um að X skyldi afplána 240 daga eftirstöðvar refsingar sem honum hafði verið veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Taldi Hæstiréttur að fyrir lægi sterkur grunur um að X hefði framið nýtt brot sem varðað gæti sex ára fangelsi og hann því gróflega rofið almenn skilyrði reynslulausnar sinnar sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2011, þar sem varnaraðila var gert að afplána 240 daga ,,eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. ágúst 2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins 29. september 2010“. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að fyrir liggi sterkur grunur um að varnaraðili hafi 10. til 11. maí 2011 framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi. Hefur hann því gróflega rofið almenn skilyrði reynslulausnar sinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal afplána 240 daga eftirstöðvar refsingar, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 29. september 2010.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að X, kt. [...], verði gert að afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 767/2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 29. september 2010.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 218. gr., 2. mgr. 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans og öðrum gögnum málsins kemur m.a. fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2009 hafi kærði hlotið tveggja ára fangelsisdóm fyrir brennubrot með því að hafa í félagi við meðákærðu lagt eld að íbúðarhúsnæði í Reykjavík með þeim afleiðingum að almannahætta hafi skapast. Kærði hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögreglan hafi nú til rannsóknar ofbeldis-, hótunar- og frelsissviptingarbrot kærða þar sem honum sé gefið að sök að hafa í félagi við meðkærða Y að kvöldi þriðjudagsins 11. maí og aðfaranótt 12. maí sl. svipt A frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili sínu að [...], Hafnarfirði og í geymsluhúsnæði að [...], Reykjavík, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti. Brotin séu talin varða til 218. gr., 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.
Málavextir séu í stuttu máli þeir að þann 11. maí sl. hafi brotaþoli leitað til lögreglu og skýrt frá því að kærði, ásamt Y, hafi haldið sér í gíslingu og misþyrmt sér á heimili kærða að [...] í Hafnarfirði og í bifreið Y. Kærði og Y hafi verið handteknir og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. til 20. maí 2011, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands nr. 293/2011 og 294/2011. Gæsluvarðhaldinu hafi verið framlengt til dagsins í dag, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og dóm Hæstaréttar nr. 322/2011.
Brotaþoli hafi skýrt svo frá hjá lögreglu að hann hafi mátt þola margvíslegar árásir af hálfu kærðu og verið laminn margítrekað í höfuð og líkama með ýmsum áhöldum. Hann hafi verið hýddur með þykkri rafmagnssnúru, honum hótað að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum. Barsmíðarnar hafi staðið lengi yfir og loks hafi hann verið fluttur í annað húsnæði um nóttina með einhvers konar hettu yfir höfðinu. Þar hafi honum verið haldið til morguns er Y hafi sótt hann og ekið honum aftur að heimili kærða. Á leiðinni hafi Y tekið hettuna af honum og hent út um glugga bifreiðarinnar. Þeir hafi þá verið staddir rétt við Sprengisand við Reykjanesbraut. Lögreglan hafi fundið húfu við Sprengisand sem hún telji að sett hafi verið yfir höfuð brotaþola. Brotaþoli hafi sagt að hann hafi verið klæddur í brúnar Carhart-buxur og nærbuxur gráar og marglitar. Buxurnar hafi rifnað í átökunum og hann hafi jafnframt misst saur í buxurnar. Kærði hafi þá sótt aðrar buxur handa honum og hent Carhart-buxunum og nærbuxunum inn í þvottahús. Lögreglan hafi fundið báðar buxurnar í umræddu þvottahúsi. Við leit í íbúð kærða hafi mátt sjá blóðbletti á vegg, gangi og í svefnherbergi sem lögreglan telji að komi frá brotaþola. Þá hafi lögreglan einnig fundið í íbúðinni samskonar sverð, hníf og leðurbelti sem brotaþoli hafi lýst. Fundist hafi blóð í bifreið kærða Y sem lögreglan telji að stafi frá brotaþola. Í síma kærða hafi fundist drög að smáskilaboðum til brotaþola þar sem fram komi grófar hótanir um líkamlegt ofbeldi greiði hann ekki tiltekna skuld. Lögreglan hafi gert könnun á staðsetningum á símum kærðu og brotaþola á umræddu tímabili, með tilliti til framburðar brotaþola, og komi staðsetningarnar vel heim og saman við frásögn brotaþola. Brotaþoli hafi hlotið talsverða áverka eftir barsmíðar kærðu m.a. nefbrot, fjölda yfirborðsáverka og tognanir auk þess sem hann hafi haft sjóntruflanir og verið með ógleði.
Kærði hafi alfarið neitað sök í málinu en sé undir sterkum grun um að hafa í félagi við Y svipt brotaþola frelsi sínu og misþyrmt honum. Framburður brotaþola hafi verið greinargóður og skýr. Þau sönnunargögn sem lögreglan hafi aflað í málinu styðji ótvírætt frásögn brotaþola. Framburður kærða sé hins vegar ótrúverðugur og algjörlega á skjön við það sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Þá gæti mikils ósamræmis í framburði kærða og meðkærða Y.
Fyrir liggur að kærða var veitt reynslulausn 29. september 2010 á 240 dögum vegna tveggja ára fangelsisdóms sem hann hlaut 31. ágúst 2009. Fallist verður á með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og getur ennfremur varðað við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hefur því gróflega rofið almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingar nr. 49/2005. Samkvæmt framansögðu þykja uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 240 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt ofangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 29. september 2010.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kærða, X, er gert að afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. ágúst 2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 29. september 2010.