Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 29

 

Miðvikudaginn 29. mars 2006.

Nr. 171/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en gæsluvarðhaldi var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa í félagi við tvo aðra menn framið rán á bensínafgreiðslustöð. Ætlað brot varnaraðila er talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þeim rökstuðningi sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er fallist á með sóknaraðila að rannsóknarhagsmunir standi til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þó verður gæsluvarðhaldinu ekki markaður lengri tími en til 3. apríl 2006 kl. 16.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. apríl 2006, kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 6. apríl 2006, kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að um sé að ræða lögreglumál þar sem kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að því að hafa framið rán á bensínafgreiðslustöð [...]. Tilkynning um ránið hafi borist frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu kl. 23:38 í gærkvöldi og liggi kærði og tveir aðrir menn, A og B, undir rökstuddum grun um að hafa framið ránið. Samkvæmt framburði starfsmanns bensínstöðvarinnar hafi maður klæddur í gráa peysu og bláar gallabuxur komið inn í bensínstöðina með andlit sitt hulið með svartri peysu og sagst vera vopnaður hnífi. Hafi hann haft í frammi alvarlegar hótanir við starfsmann og viðskiptavin og heimtað peninga úr sjóðsvél. Þegar C viðskiptavinur hafi reynt að skerast í leikinn hafi hann gefið henni olnbogaskot í andlit og handlegg. Maðurinn hafi haft á brott með sér á milli kr. 50.000 og 60.000 í reiðufé. Myndbandsupptökuvél sé á bensínstöðinni og því náðst upptaka af ráninu. Í kjölfar þessa hafi grunur lögreglu beinst að kærða og félögum hans þar sem þeir höfðu verið handteknir kvöldið áður á bifreiðinni [...] fyrir vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Þeir hafi svo verið látnir lausir um kl. 18:30 í gærkvöldi. Þess megi geta að á þeim tíma hafi þeir aðeins haft kr. 2.000 í reiðufé í vörslum sínum. Aðeins um fjórum klukkustundum seinna hafi félagarnir þrír verið handteknir af lögreglu á bifreiðinni [...] á gatnamótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu í Hafnarfirði. Grá hettupeysa hafi fundist í bifreiðinni ásamt nokkru magni af peningaseðlum eða um kr. 40.000 í reiðufé. 

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin. Skýrslur hafi verið teknar af tveimur kærðu þar sem þeir neiti aðild sinni að ráninu. Þörf sé á ítarlegri skýrslum af kærða og meintum samverkamönnum hans. Þá þurfi að bera framburði þeirra saman með tilliti til ferða þeirra umrætt kvöld. Rannsókn sé því ólokið. Tæknivinnu eigi eftir að klára. Ekkert vopn hafi fundist en skv. framburði vitnis og starfsmanns bensínstöðvarinnar hafi ræninginn öskrað: ,,Ég er með hníf!“ Skýrslur hafi verið teknar af starfsmanni bensín­stöðvarinnar og vitninu. Þá hefur ránsfengurinn ekki fundist enn.

Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan ránsfeng og meintu vopni. Þá sé mikil hætta á því að kærða verði kleift að hafa áhrif á vitni eða hugsanlega samverkamenn gangi hann laus. Rannsóknarhagsmunir séu þannig ríkir á þessu stigi málsins og sé þar af leiðandi talið mikilvægt að orðið verði við kröfu embættisins. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot þar sem mjög alvarlegri aðferð hafi verið beitt og geti brotið varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannist.

Sakarefni málsins sé talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði hefur fyrir dómi í dag kannast við að hafa verið í umræddum bíl með þeim tveimur sem kærðir hafa verið með honum fyrir brotið. Segir hann A hafa farið úr bílnum og inn í bensínstöðvarhúsið og komið þaðan út aftur með eitthvað lítilsháttar af peningum. Hafi hann sagt þeim hinum að hann hefði rænt bensínstöðina og sagt kærða að aka strax á brott.

Kærði er undir rökstuddum grun um það að hafa í félagi við tvo aðra menn staðið að því að ræna peningum úr bensínstöðinni. Ber með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. oml. að taka kröfu lögreglustjórans til greina og ákveða að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. apríl 2006 kl. 16.00.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. apríl 2006 kl. 16.00.