Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-8

A (Berglind Svavarsdóttir lögmaður)
gegn
B (Valgerður Valdimarsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 422/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um forsjá sonar þeirra og heimild gagnaðila til að fara með drenginn í utanlandsferðir til upprunalands síns. Umsókn um áfrýjunarleyfi varðar eingöngu niðurstöðu Landsréttar um rétt gagnaðila til að fara með drenginn í utanlandsferðir.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að aðilar skyldu fara sameiginlega með forsjá sonar síns og um að viðurkenna rétt gagnaðila til að fara með drenginn í utanlandsferðir til upprunalands síns, frá og með sumri 2022, þegar feðgarnir nytu sumarumgengi samkvæmt úrskurði sýslumanns. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um frávísun á kröfu gagnaðila um viðurkenningu á rétti hans til að fara með drenginn í utanlandsferðir til upprunalands síns. Landsréttur vísaði til þess að ráða mætti af 51. gr. a barnalaga nr. 76/2003 að með ákvæðinu væri verið að opna skjótvirka leið til að leysa úr ágreiningi foreldra um einstakar utanlandsferðir. Dómstólar hefðu samkvæmt 5. mgr. 34. gr. barnalaga vald til að kveða á um inntak umgengnisréttar og væri ákvörðun um það í hvaða landi umgengni gæti farið fram almennt hluti af ákvörðun um inntak umgengnisréttar. Ágreiningur málsaðila lyti eingöngu að afmörkuðum þætti í umgengnisrétti gagnaðila og hefði engin þörf verið á því að hann krefðist heildarendurskoðunar á inntaki þess umgengnisréttar sem sýslumaður hafði úrskurðað um heldur var honum heimilt að leggja þetta tiltekna ágreiningsefni fyrir dóm til úrlausnar. Í dómi héraðsdóms sem staðfestur var með vísan til forsendna í Landsrétti kom fram að dómurinn teldi með vísan til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og tilgreindra ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, að feðgarnir ættu rétt til þess að fara saman í sumarleyfi til upprunalands gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Hún vísar til þess að í málinu reyni sérstaklega á túlkun 5. mgr. 34. gr. og 51. gr. a barnalaga, þýðingu þeirra lagaákvæða innbyrðis og samspil ákvæðanna við önnur ákvæði barnalaga, svo og stjórnarskrá. Þá telur hún að dómkrafa gagnaðila lúti ekki að inntaki umgengnisréttar, hvorki í heild né að hluta, og að niðurstaða Landsréttar leiði til ákveðinnar óvissu um túlkun og réttaráhrif 51. gr. a barnalaga, hlutverks sýslumanns þar að lútandi og síðast en ekki síst valdmörk dómstóla og stjórnvalda, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Leyfisbeiðandi telur auk þess að almenn, ótímabundin og skilyrðislaus heimild fyrir annan forsjáraðilann til þess að fara með barn úr landi sé ekki í samræmi við meginreglur barnalaga. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að umgengni barna við forsjáraðila sína. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.