Hæstiréttur íslands

Mál nr. 251/1998


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Fasteign


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 4. febrúar 1999.

Nr. 251/1998.

Sveinn Ólafur Tryggvason

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Bónus sf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

Skaðabætur. Fasteign.

S kvaðst hafa orðið fyrir slysi við verslun B er hann rak fótinn í hurðarstoppara sem stóð upp úr gangstéttinni og féll, með þeim afleiðingum að lærleggur hans brotnaði. Krafðist hann bóta úr hendi B vegna tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og miska. S leitaði til slysadeildar sama kvöld og gaf skýrslu fyrir lögreglu mánuði síðar. Ekkert lá hins vegar fyrir um að B hefði verið gert viðvart um slysið fyrr en rúmum tveimur árum síðar. Ekki var talið sannað gegn eindregnum mótmælum B að S hafi hlotið meiðsl sín með þeim hætti sem hann hélt fram. Var héraðsdómur staðfestur og B sýknað af kröfum S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 1998. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.669.800 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 1992 til 23. febrúar 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi kveðst áfrýjandi hafa orðið fyrir slysi við verslun stefnda að Iðufelli 14 í Reykjavík síðdegis 31. júlí 1992. Hann lýsir atvikum að slysinu þannig að hann hafi staðið utan við verslunina ásamt barnabarni sínu á öðru ári. Barnið hafi séð til móður sinnar inn um glugga verslunarinnar og hlaupið skyndilega þar inn um dyrnar. Í dyrunum hafi verið sjálfvirkur hurðarbúnaður og hafi þær verið í þann mund að lokast. Áfrýjandi kveðst hafa óttast að barnið myndi klemmast milli stafs og hurðar. Hann hafi því hlaupið til og reynt að grípa í hurðina. Í vegi hans hafi hins vegar verið svokallaður hurðarstoppari, sem hafi staðið upp úr gangstéttinni. Áfrýjandi hafi rekið fótinn í hann og fallið á gangstéttina með þeim afleiðingum að hægri lærleggur hafi brotnað. Í málinu krefst áfrýjandi bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku og miska, sem hann kveður þetta slys hafa valdið sér.

Í læknisvottorði 26. mars 1994 greinir frá því að áfrýjandi hafi komið með sjúkraflutningabifreið á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík kl. 21 hinn 31. júlí 1992. Í vottorðinu segir að áfrýjandi hafi „þá skömmu áður dottið um hurðarstoppistaur utan við Bónus í Breiðholti.“ Áfrýjandi gaf skýrslu hjá lögreglunni í Reykjavík 28. ágúst 1992, þar sem hann lýsti atvikum að slysinu í meginatriðum á sama veg og áður greinir. Í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um að stefnda hafi verið gert kunnugt um þetta slys fyrr en með bréfi lögmanns áfrýjanda til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 15. ágúst 1994. Frásögn áfrýjanda um slysið fær ekki stuðning í öðrum gögnum málsins en þeim, sem hér að framan greinir, svo og framburði dóttur hans fyrir dómi, en hún kvaðst hafa verið stödd inni í verslun stefnda í umrætt sinn og séð föður sinn detta utan við glugga.

Í ljósi þess, sem að framan greinir, verður ekki talið sannað gegn eindregnum mótmælum stefnda að áfrýjandi hafi hlotið meiðsl sín með þeim hætti, sem hann heldur fram í málinu. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1998.

Ár 1998, miðvikudaginn 18. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli nr. E-3939/1997: Sveinn Ólafur Tryggvason gegn Bónus sf. og Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu.

                Mál þetta sem dómtekið var þann 23. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með stefnu birtri 10. september 1997 af Sveini Ólafi Tryggvasyni, kt. 010631-7859, Álfhólsvegi 53, Kópavogi, á hendur Bónusi sf., Skútuvogi 13, Reykjavík, kt. 670892-2479 og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, kt. 660269-2079, til réttargæslu.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Bónus sf. verði dæmdur til að greiða honum 2.669.800 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. júlí 1992 til 23. febrúar 1998 en með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti 30. maí 1995. Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjaldskrá lögmanns stefnanda og 49.390 krónur fyrir útlagðan kostnað. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda í málinu.

                Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins en til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni.

                Málsatvik eru þau að stefnandi var staddur fyrir framan aðalinngang verslunarinnar Bónus sf. við Eddufell í Reykjavík síðdegis þann 31. júlí 1992. Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi gætt ungrar dótturdóttur sinnar fyrir utan verslunina. Stúlkan hafi þá fyrirvaralaust hlaupið inn í verslunina í sama mund og sjálfvirkar dyrnar á versluninni hafi verið að lokast. Hann hafi óttast að barnið klemmdist á milli stafs og hurðar og hafi hann hlaupið til og reynt að grípa í hurðina en við það hafi hann rekið fótinn í hurðarstoppara og fallið í gangstéttina.

                Stefnandi fór á lögreglustöðina við Hverfisgötu þann 28. ágúst 1992 og gaf skýrslu um slysið. Lýsing hans á málavöxtum í lögregluskýrslu þann dag er í samræmi við það sem hér hefur verið rakið.

                Samkvæmt læknisvottorði frá 26. mars 1994 kom stefnandi í sjúkrabifreið á slysadeild Borgarspítalans kl. 21.00 að kvöldi dagsins sem slysið varð. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi dottið um „hurðarstoppistaur utan við Bónus í Breiðholti”. Hann hafi fallið á hægri mjöðm og hafi kvartað um verki þaðan. Hann hafi átt mjög erfitt með allar hreyfingar í mjaðmarliðnum. Stefnandi var á spítalanum til 4. ágúst. Þann 7. ágúst sama ár var hann aftur lagður inn á spítalann vegna brots á lærleggshálsi, sem þá hafði komið í ljós, en hann var úrskrifaður þann 10. ágúst eftir viðeigandi meðhöndlun á brotinu.

                Örorkumat Björns Önundarsonar læknis hefur verið lagt fram í málinu en það er dagsett 23. apríl 1994. Í því kemur fram að stefnandi hafi komið til viðtals og skoðunar hjá lækninum þann 19. apríl það ár. Hann hafi sagst þreytast óeðlilega mikið á hægra mjaðmarsvæðinu, t.d. ef hann stæði lengi kæmi fram verkur, einnig ætti hann bágt með gang og þyldi illa að ganga á ósléttu undirlagi og í stigum. Verkinn frá mjöðm leiddi stundum niður í fótlegg. Niðurstaða læknisins var sú að einkenni afleiðinga slyssins væru fyrst og fremst í formi verkjaónota og þreytu í hægri mjöðm og niður eftir hægra ganglim á miðjan kálfann. Þetta hamli stefnanda töluvert við störf hans en hann sé fiskverkandi og þurfi í því starfi oft að ganga og standa umtalsvert. Að mati læknisins var ekki að vænta frekari bata. Örorka stefnanda var metin 100% í þrjá mánuði og 50% í einn mánuð en varanleg örorka 10%.

                Stefnandi hefur höfðað málið til innheimtu skaðabóta vegna tjónsins sem hann telur sig hafa orðið fyrir í umræddu tilfelli. Bótakrafa hans er byggð á framangreindu örorkumati og örorkutjónsútreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 30. maí 1994 og 22. febrúar 1998.

                Í málinu er deilt um bótaskyldu stefnda. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að hann hafi rekið fótinn í hurðarstopparann á gangstéttinni en hann heldur því fram að hann hafi ekki varað sig á stopparanum sem hafi sést illa. Slysið verði því rakið til vanbúnaðar við aðkomu að versluninni sem stefndi beri ábyrgð á. Af hálfu stefndu er því mótmælt að stefnandi hafi fallið við að reka fótinn í hurðarstopparann. Jafnframt er því mótmælt að búnaðurinn við dyrnar hafi verið óforsvaranlegur en því haldið fram að fall stefnanda verði alfarið rakið til aðgæsluleysis hans sjálfs.

                Einnig er ágreiningur um bótafjárhæð og þær forsendur sem byggt er á af hálfu stefnanda við útreikninga á tjóninu. Tímabundnu tjóni stefnanda er ennfremur mótmælt svo og vaxtakröfum.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir kröfur sínar um skaðabætur úr hendi stefnda á því að stefndi beri ábyrgð á tjóninu sem stefnandi hafi orðið fyrir á athafnasvæði stefnda þar sem það verði rakið til ófullnægjandi og hættulegs búnaðar á aðkomusvæði verslunarinnar. Tappinn sem slysið verði ótvírætt rakið til hafi verið settur niður við aðalinngang verslunarinnar þar sem ávallt sé gríðarlega mikill umgangur. Slíkt sé ekki forsvaranlegt af hálfu stefnda þar sem alltaf sé hætta á að einhver reki fótinn í tappann og slasist. Verði að líta svo á að það eitt að hægt sé að rekja tjón til búnaðar sem stefndi hafi komið fyrir á aðkomusvæði verslunar sinnar sýni að aðstæður hafi ekki verið eins og þær hafi átt að vera. Auðvelt hafi verið fyrir stefnda að notast við aðrar aðferðir til að stoppa hurðina eða staðsetja tappann annars staðar svo sem í lofti. Beri að gera strangar kröfur til stefnda um aðkomu þar sem stefndi hvetji fólk til að koma í verslanir sínar með auglýsingum.

                Það verði ekki talið gáleysi af hálfu stefnanda að reka fótinn í tappann. Stefnanda hafi enginn tími gefist til aðgæslu þar sem brýn hætta hafi steðjað að barnabarni hans, auk þess sem hann hafi mátt treysta því að inngangur verslunarinnar væri ekki þannig úr garði gerður að við hann væri nokkur hlutur sem hægt væri að reka sig á. Ennfremur hafi stefnanda hvorki verið ljóst né mátt vera ljóst að tappinn væri í vegi hans enda hafi hann verið samlitur stéttinni og ekki gerðar neinar þær ráðstafanir af hálfu stefnda svo hægt hafi verið að vara sig á honum.

                Stefnandi telur að vegna þessa verði að leggja óskipta bótaábyrgð á stefnda. Afleiðingar slyssins hafi samkvæmt mati Björns Önundarsonar læknis verið 100% örorka í þrjá mánuði, 50% örorka í einn mánuð og 10% varanleg örorka. Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hafi reiknað út fjárhagslegt tjón stefnanda á grundvelli örorkumatsins. Samkvæmt útreikningi hans dags. 30. maí 1994 hafi höfuðstólsverðmæti vegna tímabundinnar örorku verið reiknað 449.300 krónur og samkvæmt útreikningi dags. 22. febrúar 1998 vegna varanlegrar örorku 2.070.500 krónur. Krafist er 150.000 króna vegna miska og er krafa stefnanda því samtals 2.669.800 krónur. Fram kemur í málatilbúnaði stefnanda að lögmaður hans hafi með bréfi dagsettu 15. ágúst 1994 krafið réttargæslustefnda um bætur en stefndi hafi þá verið tryggður hjá honum. Stefndu hafi synjað bótagreiðslu og hafi stefnandi því verið neyddur til að höfða málið. 

                Stefnandi byggir bótakröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 en málskostnaðarkrafan styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefndu.

                Stefndu telja ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir þessum meiðslum á þann hátt er hann haldi fram. Stefnandi hafi ekki látið vita af meiðslum sínum í versluninni. Lögregluskýrsla hafi ekki verið gefin fyrr en u.þ.b. mánuði eftir að þetta hafi átt að hafa gerst. Aldrei hafi verið haft samband við forráðamenn stefnda vegna þessa og það hafi fyrst verið með bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda dags. 15. ágúst 1994 að vitneskja hafi borist um óhappið.

                Stefnandi hafi einn verið til frásagnar um að hann hafi rekið fótinn í hurðarstopparann. Því sé ljóst að um þá fullyrðingu hans liggi ekki fyrir lögfull sönnun. Hafi stefnandi hrasað þarna eins og hann haldi fram geti það allt eins verið af öðrum orsökum. Af hálfu stefndu er vakin athygli á því að stefnandi hafi lent í slysi þann 25. maí 1992 og meiðst á hægri rist og vinstri mjöðm og óvíst að hann hafi verið búinn að ná sér til fulls af þeim meiðslum þann 31. júlí 1992 eins og fram komi á læknisvottorðinu frá 26. mars 1994.

                Verði ekki fallist á þessi sjónarmið stefndu og frásögn stefnanda lögð til grundvallar er því mótmælt að umræddur umbúnaður geti talist óforsvaranlegur. Útbúnaðurinn sé alvanalegur og tíðkist bæði við atvinnuhúsnæði og á einkaheimilum og eigi ekki að valda hættu fyrir vegfarendur sé eðlileg aðgát höfð. Eins og sjáist á ljósmyndum af vettvangi sé hér um að ræða dyr sem eingöngu séu ætlaðar til þess að fara út úr versluninni og séu þær staðsettar þannig að umferð ætti að vera í lágmarki en því er mótmælt að hurðarstopparinn sé í gönguleið eins og stefnandi haldi fram. Málsástæðum stefnanda um að hurðarstoppari sá er hann segist hafa rekið fótinn í teljist ófullnægjandi og hættulegur búnaður á aðkomusvæði verslunar stefnda er því mótmælt af stefndu hálfu.

                Eins og stefnandi lýsi óhappinu sé ljóst að ef hann hefði gætt barnabarns síns betur hefði slysið aldrei orðið og af því hljóti hann að bera hallann auk þess sem hann hafi vitanlega tekið það upp hjá sjálfum sér að rjúka af stað á eftir barninu. Verði slysið því eingöngu rakið til vangæslu stefnanda sjálfs eða óhappatilviks en ekki vegna þess að aðstæður hafi verið ófullnægjandi eða hættulegar þannig að stefndi beri á því ábyrgð að lögum. Hér beri og að hafa í huga þá meginreglu að menn eigi almennt að kunna fótum sínum forráð og geti þeir ekki, ef illa tekst til í þeim efnum, sett ábyrgðina yfir á aðra.

                Varðandi lækkunarkröfu stefndu er byggt á því að leiði framanritað ekki til sýknu þá hljóti það a.m.k. að hafa í för með sér verulega eigin sök hjá stefnanda því eins og áður hafi verið rakið þá hafi stefnandi sjálfur algerlega stjórnað atburðarrásinni og hafi stefndu hvergi komið þar nærri.

                Tjónsútreikningi stefnanda er mótmælt af hálfu stefndu og þess krafist að undir engum kringumstæðum verði miðað við hærri útreikning en samsvari meðallaunum stefnanda seinustu þrjú ár fyrir slys eins og tíðkanlegt sé í málum sem þessum. Hafa stefndu lagt fram útreikninga Jóns Erlings Þorlákssonar, dags. 12. febrúar 1998, þar sem örorkutjón stefnanda er reiknað út með þeirri viðmiðun.

                Þá er þess krafist að bætur verði lækkaðar vegna skattfrelsis þeirra og hagræðis af eingreiðslu og að allar greiðslur er stefnandi kunni að hafa fengið vegna slyss þessa dragist frá.

                Tímabundnu tjóni stefnanda er mótmælt enda komi fram í læknisvottorði frá 26. mars 1994 að stefnandi hafi verið í læknismeðferð þegar slysið varð vegna meiðsla er hann hafi hlotið í maí 1992. Engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu tjóni og sé því þar af leiðandi engu slíku til að dreifa.

                Dráttarvaxtakröfu er mótmælt og því haldið fram að dráttarvextir komi einungis til álita eftir endanlega dómsuppsögu, sbr. t.d. Hrd. 1989 bls. 1330. Jafnframt er byggt á því að vextir eldri en fjögurra ára miðað við stefnubirtingardag séu fyrndir, sbr. 3. gr. 2. tl. laga 14/1905 og er þess krafist að fyrndir vextir verði felldir niður.

Niðurstöður.

                Í málinu hefur komið fram að dyrnar sem hér um ræðir opnast út úr versluninni með sjálfvirkum búnaði þegar gengið er út um þær en hurðin stöðvast við hurðarstopparann í 90° horni. Að umgangi loknum fellur hurðin aftur sjálfkrafa að stöfum. Þegar dyrnar eru lokaðar stendur hurðarstopparinn stakur á gangstéttinni.

                Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um það hvernig unnt hefði verið að koma útbúnaði þessum fyrir á annan hátt eins og stefnandi heldur fram að stefnda hafi borið að gera til að koma í veg fyrir hættu. Þó liggur fyrir að í stað tappans sem stoppaði hurðina hefur nú verið komið fyrir stálbita, þar sem tappinn var áður, en hann gegnir sama hlutverki og tappinn gerði sem hurðarstoppari. Stálbitinn er stærri en tappinn, sem sést á ljósmyndum á dskj. nr. 7, og þar af leiðandi meira áberandi en dómarinn skoðaði hann og aðrar aðstæður við verslunina þegar gengið var á vettvang við aðalmeðferð þann 23. febrúar sl.

                 Þótt engin sönnunarfærsla hafi farið fram af hálfu stefnanda um þá staðhæfingu hans að hann hafi rekið fótinn í hurðarstopparann og fallið við það þykir rétt að líta svo á að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi hefur lýst enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til annars en að frásögn hans af málsatvikum sé rétt. Er reyndar óumdeilt að stefnandi hafi fallið í umræddu tilfelli á gangstéttina fyrir utan dyrnar þar sem hurðarstopparinn er staðsettur þótt því sé hins vegar mótmælt af hálfu stefnda að það hafi gerst á þann hátt sem stefnandi hefur lýst. 

                Við úrlausn á því hvort bótaskylda verði lögð á stefnda verður að líta til þess að hurðarstopparinn gegnir því hlutverki að varna hurðinni að fara lengra en að stopparanum. Ekki hefur annað komið fram í málinu en að hurðarstopparinn sé eðlilegur hluti af hurðarbúnaðinum. Stefnanda voru þessar aðstæður kunnar.

                Ástæðulaust var fyrir þá sem þarna áttu leið um að ganga á svæðinu bak við hina sjálfvirku hurð þar sem hurðarstopparinn var og því verður ekki haldið fram með réttu að hurðarstopparinn hafi verið í venjulegri gönguleið. Að þessum aðstæðum virtum verður ekki fallist á þær röksemdir stefnanda að sérstök slysahætta hafi stafað af hurðarstopparanum. Þykir þvert á móti rökréttara að líta svo á að búnaðurinn hafi verið hættulaus öllum þeim sem sýndu eðlilega aðgæslu við þær aðstæður sem þarna voru. Hlaut stefnanda sem og öðrum sem þarna áttu leið um að vera ljóst að nauðsynlegt var að sýna aðgæslu í umgengni við hurðina. Telja verður að óhappatilviljun og aðgæsluleysi stefnanda hafi ráðið því að stefnandi rak fótinn í hurðarstopparann er hann ætlaði að hlaupa til og grípa í hurðina til að forða því að barnabarn hans klemmdist á milli. Tjón stefnanda verður því ekki rakið til ófullnægjandi eða hættulegs búnaðar við verslunina eða annarra atvika sem stefndi ber ábyrgð á. Af því leiðir að sýkna ber stefnda af kröfum stefnanda í málinu.  

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

                Stefndi, Bónus sf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Sveins Ólafs Tryggvasonar, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.