Hæstiréttur íslands

Mál nr. 270/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


                                     

Miðvikudaginn 25. apríl 2012.

Nr. 270/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána 132 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta afplánun á 132 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010 og 17. nóvember 2011, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 12. apríl 2012. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að niðurstaða hans um þóknun verjanda varnaraðila verði endurskoðuð. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir sterkum grun um að hafa aðfaranótt 20. apríl 2012 framið brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem við liggur allt að 6 ára fangelsisrefsing. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðila verði gert að afplána 132 daga eftirstöðvar fyrrgreindrar refsingar.

Héraðsdómara bar að réttu lagi að ákveða þóknun skipaðs verjanda varnaraðila með bókun í þingbók eða skriflega á annan hátt, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en ekki í úrskurði, svo sem gert var. Ákvörðun um þóknun í máli, sem er ólokið, sætir ekki kæru til Hæstaréttar samkvæmt XXX. kafla fyrrnefndra laga og kemur því ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að varnaraðila, X, verði gert að afplána 132 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010 og 17. nóvember 2011.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 132 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. nóvember 2011 og 4. júní 2010, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn þann 12. apríl sl.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að um kl. 03:30 í nótt hafi lögreglu borist tilkynning um mikil brothljóð í verslunarmiðstöð við [...] í [...]. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi þeir séð svartklæddan mann koma út úr Apóteki [...] með bláa tösku meðferðis. Er hann hafi orðið var við lögreglu hafi hann reynt að flýja af vettvangi. Hafi lögreglumaður farið á eftir honum og gefið fyrirmæli um að hann skyldi stöðva og leggjast niður. Hafi hann ekki orðið við þeim skipunum þrátt fyrir að lögregla hafi dregið upp úðavopn heldur hafi hann sagst vera vopnaður og í kjölfarið dregið upp slagahamar sem hann hafi otað að lögreglumanni og kastað loks í átt að honum. Stuttu síðar hafi lögregla hins vegar náð að yfirbuga hann og handtaka. Í töskunni sem hann hafi haft meðferðis hafi 5 lyfjabox fundist. Stuttu síðar hafi komið í ljós að maðurinn væri kærði en ekki hafi verið unnt að kynna fyrir honum réttarstöðu þar sem hann var greinilega undir áhrifum örvandi efna. Hafi hann í kjölfarið verið vistaður í fangageymslu.

Við skoðun á vettvangi hafi komið í ljós að brotnar hafi verið samtals 7 rúður í verslunarmiðstöðinni auk þess sem töluverðar skemmdir hafa verið unnar inni í verslun [...]. Þá hafi einnig fundist á gangi við norðurinngang verslunarmiðstöðvarinnar 7 lyfjabox og því samtals verðmæti þess sem reynt hafi verið að stela kr. 45.993. 

Að mati lögreglu hafi kærði með þessu rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 6 ára fangelsi, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 13. apríl sl. á 132 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur. Annars vegar frá 4. júní 2010, þar sem kærði hafi verið dæmdur í 6 mánaða fangelsi óskilorðsbundið, og hins vegar frá 17. nóvember 2011,  þar sem kærði hafi verið dæmdur í 9 mánaða óskilorðsbundið fangelsi, eða samtals 15 mánuðir. Eftirstöðvar samanlagðar refsingar séu nú 132 dagar. Full ástæða sé til að kærði afpláni nú þegar umræddar eftirstöðvar í ljósi þess að einungis tæp vika sé liðin frá því að honum hafi verið veitt reynslulausn og þar til hann hafi í nótt verið handtekinn sterklega grunaður um innbrot og þjófnað í lyfjaverslun auk þess sem hann hafi greinilega verið undir áhrifum fíkniefna. Bendir háttsemi kærða því eindregið til þess að hann hafi ekki haft í hyggju að virða skilyrði reynslulausnarinnar.

Kærði sé undir sterkum grun um brot gegn 244. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er sett fram.

Niðurstaða:

Kærða var veitt reynslulausn á eftirstöðum fangelsisrefsingar 12. apríl sl. Í ákvörðuninni Fangelsismálastofnunar um það segir til samræmis við 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005, að skilyrði hennar séu: ,,Að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum.“ Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa gerst sekur um brot sem fellur undir 244. gr. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er hann braust inn í lyfjaverslun í nótt, þ.e. einungis rúmri viku eftir að honum var veitt reynslulausn, og hafði á brott með sér lyf sem hann ætlaði til eigin nota. Braut kærði rúður til að komast inn í verslunina en hann hafði meðferðis hamar og kúbein. Þá dulbjó hann sig er hann framkvæmdi brotið. Virðist brot hans þannig hafa verið þaulskipulagt. Með hliðsjón af atvikum máls þykir fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 40/2005 um að hann hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar. Ber því að fallast á kröfu lögreglu.

Þóknun skipaðs verjanda kærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. 55.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], [...], [...], skal á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga sæta afplánun á 132 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. nóvember 2011 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. júní 2010, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn þann 12. apríl sl.

Þóknun skipaðs verjanda kærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl. 55.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.