Hæstiréttur íslands
Mál nr. 503/2017
Lykilorð
- Verksamningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Símon Sigvaldason dómstjóri.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.364.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. október 2017. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, AK-gler ehf., greiði gagnáfrýjanda, Harald Ragnari Óskarssyni, samtals 1.250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2017.
I.
Mál þetta var höfðað þann 19. maí 2016 og dómtekið 19. apríl 2017.
Stefnandi er AK-gler ehf., Hjallahrauni 9, Hafnarfirði, en stefndi er Harald Ragnar Óskarsson, til heimilis að Fannafold 54a, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 1.364.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. október 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
II.
i)
Í máli þessu er deilt um greiðslu reiknings sem stefnandi, AK-gler ehf. gaf út á hendur stefnda, 28. september 2015 með gjalddaga 28. október 2015, að fjárhæð 1.364.000 krónur vegna vinnu Gunnars Svanbergs Jónssonar við uppsetningu einingahúss fyrir stefnda á Hellissandi á tímabilinu 3.-25. september 2015.
Samkvæmt reikningnum voru vinnustundir taldar nema 220 klst. og í tímaskýrslu sem fylgdi reikningnum kemur fram að um hafi verið að ræða vinnu við flutning á húsgögnum, undirbúning fyrir verk á Hellissandi, frágang fyrir uppsetningu KLH-eininga, slípun steypu, uppsetningu KLH-eininga, undirbúning fyrir klæðningu o.fl.
Með tölvuskeyti lögmanns stefnda til Gunnars Svanbergs 16. október 2015, var greiðsluskyldu hafnað með vísan til þess að ekki hafi verið gerður samningur um þá vinnu sem krafist væri greiðslu á. Segir jafnframt í tölvuskeytinu að stefndi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að sú vinna sem innt hafi verið af hendi „væri hluti af þeirri viðleitni GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf. að virða uppgjörssamkomulag“ sem umrædd félög gerðu við stefnda 31. ágúst 2015. Segir einnig í tölvuskeytinu að stefndi hafi aldrei samið um greiðslu fyrir þá þjónustu sem krafist væri greiðslu fyrir, umfang hennar og tímagjald.
Í tölvuskeyti lögmanns stefnda 4. nóvember 2015 til Gunnars Svanbergs eru fyrrgreind sjónarmið ítrekuð, en fallist á að greiða reikning AK-glers ehf., sem væri frá 30. október 2015, að fjárhæð 68.169 krónur, vegna kostnaðar við flutning á húsgögnum og fyrir akstur til Hellissands á sömu forsendum og stefndi hafi „fallist á að greiða húsaleigu og fæði fyrir ykkur Ríkharð á meðan á dvöl ykkar á Hellissandi stóð“. Segir jafnframt að stefndi líti á greiðslu þessa reiknings sem fullnaðaruppgjör við Gunnar og Ríkharð og fyrirtæki á þeirra vegum vegna viðveru þeirra á Hellissandi.
ii)
Aðdraganda að umræddri vinnu Gunnars Svanbergs, sem krafist er greiðslu fyrir, má rekja til þess að Gunnar var í fyrirsvari fyrir Visthús-KLH ehf. og GSJ Fjárfestingar ehf. sem seldu stefnda umræddar KLH-húseiningar sem framleiddar voru í Austurríki. Gerðu fyrrgreind félög og stefndi með sér samning með yfirskriftinni „Kaupsamningur/Verksamningur“, dags. 9. júní 2015 um kaup og uppsetningu á KLH-einingum og verksamning um fullnaðarfrágang á húsi að utan. Undir samninginn rituðu Gunnar Svanberg Jónsson, f.h. seljenda, þ.e. GSJ Fjárfestinga ehf. og Visthúsa-KLH ehf., og stefndi.
Samkvæmt samningnum áttu húseiningarnar að afhendast stefnda uppsettar á verkstað af hálfu seljanda, að Hellisbraut 6, Hellissandi. Var gert ráð fyrir að húseiningarnar kæmu til Íslands eigi síðar en 11. ágúst 2015 og átti uppsetningu þeirra að vera lokið eigi síðar en 1. september 2015.
Samningurinn var tvíþættur. Í fyrri hluta hans var mælt fyrir um afhendingu KLH-eininganna og uppsetningu þeirra og nam kaupverðið 14.796.283 krónum sem skyldi greiðast með eftirfarandi hætti:
Við undirritun kaupsamnings (40%) 5.918.513 krónur,
við afhendingu á verkstað (20%) 2.959.257 krónur og
við verklok uppsetningar KLH-eininga 5.918.513 krónur.
Í síðari hluta samningsins var mælt fyrir um frágang hússins að utan og nam samningsupphæðin vegna þess þáttar 7.254.000 krónum.
Þegar húseiningarnar komu til landsins frá Austurríki var staðan þannig að seljendur, Visthús-KLH ehf. og GSJ Fjárfestingar ehf. gátu ekki greitt flutnings- og aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar. Þeir gátu því ekki leyst út einingarnar og afhent stefnda þær. Gerðu seljandi, GSJ fjárfestingar ehf., f.h. Visthúsa ehf., og kaupandi, þ.e. stefndi í máli þessu, því með sér „Samkomulag um uppgjör“ sem er í 12 töluliðum og dagsett er 31. ágúst 2015. Er samkomulagið undirritað af Gunnari Svanberg Jónssyni f.h. seljenda, GJS fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., og stefnda, Harald Óskarssyni.
Samkvæmt samkomulagi þessu var stefndi leystur undan stærstum hluta kaup- og verksamningsins þar sem seljendur töldu sig ekki geta efnt alla þætti samningsins.
Í 4. tölulið samkomulagsins sagði að seljandi hefði þegar greitt framleiðanda KLH-eininganna í Austurríki fyrir þær og óskaði hann eftir því við kaupanda að hann leysti seljanda að stærstum hluta undan samningsskuldbindingum sínum, en seljandi myndi ekki geta staðið við eftirfarandi þætti samningsins:
Greiðslu aðflutningsgjalda (skv. uppl. frá Eimskip) 2.135.058 krónur.
Greiðslu flutningskostnaðar (skv., upplýsingum frá seljanda) 1.698.600 krónur.
Að reisa KLH-hús á Hellissandi (áætlun seljanda) 2.000.000 krónur.
Setja upp raflagnaloft 1.500.000 krónur (áætlun byggð á byggingarlykli).
Annan hluta samnings í heild sinni 7.254.000 krónur.
Samtals ekki efnt 14.587.658 krónur
Samkvæmt 5. tölulið samkomulagsins féllst seljandi á að til viðbótar við að tryggja að kaupandi fengi KLH-einingarnar afhentar og tollafgreiddar myndi hann greiða kaupanda mismun þeirra greiðslna sem kaupandi hefði þegar innt af hendi og verðmæti KLH-eininganna, samtals 755.888 krónur auk lögfræðikostnaðar 100.000 krónur eða samtals 855.888 krónur.
Í 6. tölulið samkomulagsins var samið um að stefndi félli frá fyrrgreindri kröfu á hendur stefnanda samkvæmt 5. lið samkomulagsins, með því skilyrði að „seljandi, GSJ Fjárfestingar ehf., útveguðu stefnda iðnaðarmenn þannig að kaupanda yrði unnt að ljúka við alla þá verkþætti sem upphaflega hafði verið samið um fyrir sama heildarverð og upphaflegur samningur gerði ráð fyrir og innan þeirra tímamarka sem gert hefði verið ráð fyrir í þeim samningi, þ.e. fyrir 1. október 2015“.
iii)
Samkvæmt gögnum málsins og skýrslum málsaðila og vitna fyrir dóminum sá Gunnar Svanberg um að útvega stefnda iðnaðarmenn til þess að reisa húseiningarnar á Hellissandi, eins og mælt var fyrir um í fyrrgreindu samkomulag um uppgjör, dags. 31. ágúst 2015. Einnig útvegaði Gunnar húsnæði og fæði fyrir iðnaðarmennina. Greiddi stefndi þennan kostnað. Einnig greiddi stefndi fyrir húsnæði og fæði Gunnars á meðan hann dvaldi á Hellissandi, sbr. fyrrgreint tölvuskeyti lögmanns stefnda til Gunnars, 4. nóvember 2015.
iv)
Stefnandi, AK-gler ehf. var stofnað 22. júlí 2015. Í árslok 2015 var hlutafé félagsins í eigu Ægis Jónssonar, bróður Gunnars Svanbergs, og Eignamálunar ehf. Var tilgangur félagsins heildverslun og smásala. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2015, starfaði einn starfsmaður hjá félaginu á því ári og námu launagreiðslur 296.380 krónum. Í ársreikningum kemur fram að seld vara og þjónusta hafi verið 2.595.905 krónur á rekstrarárinu 2015, vörunotkun 1.936.196 krónur, laun og launatengd gjöld 296.380 krónur og skammtímakröfur 1.623.740 krónur.
Vitnið Ægir Jónsson bar fyrir dóminum að félagið hefði upphaflega verið stofnað til að setja upp svalalokanir. Markmiðið hefði verið að Gunnar Svanberg keypti sig síðar inn í fyrirtækið. Gunnar hefði verið með reynslu og hefði áður rekið fyrirtækið Gler og brautir ehf. Kvað vitnið að AK-gler ehf. hefði lagt Gunnari Svanbergssyni til bíl, verkfæri og stiga fyrir verkið á Hellissandi.
v)
Skýrslur fyrir dóminum gáfu Harald Ragnar Óskarsson, Mariana Candi, Gunnar Svanberg Jónsson, Stefán Hrafn Ólafsson, Ólafur Ragnarsson, Eiður Björnsson og fyrrnefndur Ægir Jónsson.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda á reikningi útgefnum 28. september 2015 að fjárhæð 1.364.000 krónur vegnu vinnu starfsmanns stefnda, Gunnars Svanbergs Jónssonar, við uppsetningu og annað vegna húsbyggingar stefnda að Hellisbraut 6, Hellissandi.
Stefnandi byggir á því að Gunnar Svanberg hafi unnið við flutning og uppsetningu húss stefnda sem starfsmaður stefnanda.
Stefnandi tekur fram að félögin Visthús KLH ehf. og GSJ ráðgjöf ehf. séu honum óviðkomandi svo og fyrri samningar þessara félaga við stefnda.
Stefndi hafi ekki bent á neina galla á þeirri þjónustu sem stefnandi hafi veitt honum, heldur hafi þjónusta stefnanda verið til þess fallin að forða stefnda frá tjóni. Verðið fyrir þjónustuna hafi verið eðlilegt tímagjald.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi tekur fram að samkvæmt „Samkomulagi um uppgjör“ frá 31. ágúst 2015, hafi það komið í hlut GSJ fjárfestinga ehf. að útvega stefnda iðnaðarmenn til þess að stefnda væri unnt að ljúka við alla þá verkþætti sem upphaflega hafi verið samið um fyrir sama heildarverð og innan þeirra tímamarka sem upphaflegur samningur hafi gert ráð fyrir, sbr. 6. gr. samkomulags um uppgjör á milli GSJ fjárfestinga ehf., f.h. Visthúsa ehf., og stefnda í máli þessu. Að öðrum kosti ætti stefndi rétt á greiðslu að fjárhæð 855.888 krónur úr hendi GSJ fjárfestinga ehf.
Stefndi byggir á því að ekkert samningssamband hafi stofnast á milli hans og stefnanda. Stefndi hafi aldrei óskað eftir þjónustu eða vinnu stefnanda. Stefnandi sé því ekki rétthafi þeirra hagsmuna sem krafist sé. Um sé að ræða aðildarskort til sóknar sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telur að raunverulegur viðsemjandi hans hafi verið GSJ fjárfestingar ehf., sbr. fyrirliggjandi samninga á milli þeirra, dags. 9. júní, 29. júlí og 31. ágúst 2015. Auk þess hafi Gunnar Svanberg Jónsson ekki haft heimild frá stefnda til að semja við aðra aðila fyrir hans hönd.
Verði ekki fallist á málatilbúnað stefnda um aðildarskort til sóknar, telur stefndi að um aðildarskort til varnar sé að ræða. Kröfunni sé ranglega beint að honum. Öll vinnan samkvæmt reikningi þeim sem krafist er greiðslu á, hafi verið liður í viðleitni GSJ fjárfestinga ehf., viðsemjanda stefnda, til að bæta fyrir vanefndir á samningum aðila. Ef ætlunin er að fá greitt fyrir vinnu sem stefnandi hafi ef til vill innt af hendi í því samhengi verði stefnandi að beina kröfu sinni að GSJ fjárfestingum ehf.
Stefndi mótmælir því að samningssamband milli hans og þriðja aðila geti réttlætt kröfu stefnanda á hendur honum. Enginn samningur, verkbeiðni eða bindandi yfirlýsing liggi fyrir. Hvort Gunnar Svanberg Jónsson hafi verið starfsmaður stefnanda sé stefnda óviðkomandi. Engin gögn liggi fyrir um að Gunnar hafi verið starfsmaður stefnanda, auk þess sem hann hafi hvorki verið stjórnarmaður né framkvæmdastjóri stefnanda.
Stefndi telur að stefnandi hafi verið fenginn til að gefa út hinn umdeilda reikning til þess eins að GSJ fjárfestingar ehf., Visthús ehf. og eftir atvikum Gunnar Svanberg persónulega geti vikið sér undan kröfum stefnda vegna verulegra vanefnda fyrrgreindra aðila á samningum sínum við stefnda.
Verði fallist á að kröfu sé réttilega beint að stefnda, telur stefndi að allar kröfur hafi verið greiddar að fullu sem leiði til sýknu, en að öðrum kosti verði að lækka kröfu stefnanda verulega. Vísar stefndi til samkomulags aðila 31. ágúst 2015, þar sem gert var ráð fyrir að kostnaður við uppsetningu hússins næmi 2.000.000 króna, en stefndi hafi þegar greitt tæplega 3.600.000 krónur fyrir uppsetningu hússins.
Stefndi telur að með tilliti til þeirra forsendna sem hann hafi lagt upp sé ljóst að endurgjald sem stefnandi krefji stefnda nú um sé fjarri því sem talist geti eðlilegt og sanngjarnt í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, hann hefði átt að upplýsa stefnda um fyrirhugaða vinnu og leita samþykkis fyrir endurgjaldinu, sbr. 6. gr. laga nr. 42/2000.
Stefndi vísar til 6. tölul. uppgjörssamkomulagsins frá 31. ágúst 2015, þar sem áréttað sé að stefnda verði unnt að ljúka við alla verkþætti sem upphaflega hafi verið samið um fyrir sama heildarverð. Gunnari Svanberg hafi því mátt vera ljóst að krafa hans samrýmdist ekki fyrirliggjandi samningi.
Telur stefndi að krafa stefnanda á hendur honum sé ósönnuð og órökstudd með vísan til framangreinds og leiði til sýknu, að minnsta kosti verði að lækka hana verulega þannig að stefnda verði ekki gert að greiða meira en 2.000.000 króna.
Verði fallist á að stefnandi geti sett fram kröfu vegna vinnu Gunnars í stað viðsemjenda stefnda, GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., er krafist skuldajöfnunar að fjárhæð 855.888 krónur, sbr. 5. tölul. fyrrgreinds samkomulags.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda, eru ítrekuð sjónarmið stefnda um frávísun málsins vegna vanreifunar stefnanda. Stefnandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann eigi kröfu á stefnda með vísan til fyrrgreindra lögskipta stefnda við Gunnar Svanberg og félögin GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf.
Stefndi telur að sönnunarbyrði hvíli á stefnanda, þar sem stefnandi sé félag í byggingariðnaði. Þá er mótmælt upphafstíma dráttarvaxta, sem miða beri við dómsuppsögu, en að öðrum kosti mánuði frá þingfestingu.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um skyldu til greiðslu reiknings vegna vinnu starfsmanns stefnanda, Gunnars Svanbergs Jónssonar við uppsetningu húseininga fyrir stefnda á Hellissandi á tímabilinu 3.-25. september 2015.
Stefndi hafnar greiðslu reikningsins þar sem hann hafi ekki óskað eftir vinnu starfsmanns stefnanda en hann telji að viðvera Gunnars Svanbergs á verkstað á umræddu tímabili hafa verið hluta af viðleitni Gunnars til að efna skuldbindingar seljenda húseininganna, GSJ fjárfestinga ehf. og Visthúsa ehf., gagnvart stefnda.
Með „Samkomulagi um uppgjör“, dags. 31. ágúst 2015, tók stefndi yfir samningsskuldbindingar seljanda m.a. vegna afhendingar húseininganna og uppsetningar þeirra á Hellissandi og voru GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf. leyst undan skuldbindingum sínum eins og nánar er gerð grein fyrir í II. kafla dómsins. Það þýddi að stefndi tók sjálfur að sér að leysa úr þeim verkþáttum sem seljendur gátu ekki staðið við.
Í samkomulaginu var þó samið um að seljandi húseininganna útvegaði stefnda iðnaðarmenn til að ljúka við þá verkþætti sem upphaflega hafði verið samið um. Að öðru leyti var ekki mælt frekar fyrir um vinnuframlag seljenda húseininganna í þágu stefnda. GSJ fjárfestingar ehf. og Visthús ehf. útveguðu stefnda umrædda iðnaðarmenn til þess að vinna að uppsetningu hússins á Hellissandi og verður að telja að með því hafi lögskiptum aðila samningsins á grundvelli samkomulagsins um uppgjör verið lokið.
Samkvæmt tímaskýrslu sem fylgdi með hinum umdeilda reikningi stefnanda til stefnda var stefndi krafinn um greiðslu fyrir akstur með húsgögn frá Hvolsvelli til Hellissands, undirbúning verksins á Hellissandi, slípun steypu og frágang fyrir uppsetningu KLH-eininga og undirbúning fyrir klæðningu, fyrir að fullskrúfa einingar og leggja tjörupappa á sökkul og klæðningu, fyrir að klæða og taka á móti gluggum og setja lektur, fyrir klæðningu og frágang að innan, fyrir að skrúfa gólfvinkla, fyrir frágang á þaki, torflögn o.fl.
Enginn skriflegur samningur var gerður á milli stefnanda og stefnda um fyrrgreinda vinnu stefnanda sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á. Engin gögn liggja fyrir um að stefndi hafi óskað eftir umræddri vinnu stefnanda sem tilgreind er í tímaskýrslunni. Á stefnanda hvílir sönnunarbyrði um að samningur hafi tekist með honum og stefnda um umrætt vinnuframlag. Gegn andmælum stefnda verður ekki talið að sú sönnun hafi tekist. Verður stefndi því þegar af þeirri ástæðu, sýknaður af kröfu stefnanda um greiðslu reiknings að fjárhæð 1.364.000 krónur.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta af þeim kostnaði sem hlotist hefur af rekstri málsins og hefur þá verið tekið tillit til frávísunarþáttar málsins.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Harald Ragnar Óskarsson er sýknaður af kröfum stefnanda, AK-glers ehf. í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.