Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2009


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


                                                        

Miðvikudaginn 16. júní 2010.

Nr. 457/2009.

Rúnar Þór Róbertsson

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.

R krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna gæsluvarðhalds ósekju, en R var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins með dómi Hæstaréttar 29. maí 2008 í máli nr. 435/2007. R hafði verið handtekinn í tengslum við rannsókn á sakamáli sem hófst þegar tollgæslumenn fundu verulegt magn af mjög sterkum fíkniefnum í bifreið, sem beið þess verða leyst út frá Samskipum hf. Þegar á því stigi fyrir nafn þess manns, sem skráður var sem viðtakandi bifreiðarinnar, en við rannsókn lögreglu kom fram grunur um R væri réttu lagi , sem flytti hana inn, og þótti það staðfest þegar hann gaf sig fram til vitja hennar. Talið var R hefði orðið í þessu ljósi sæta því hann yrði svo stöddu talinn bera ábyrgð á fíkniefnunum, sem fundust í bifreiðinni, og skipti miklu fyrir framhald málsins hvernig skýringum hans yrði háttað. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var vísað til þess frásögn R hefði verið með ólíkindablæ. Talið var þótt R hefði verið stöðugur í skýrslum sínum um atvik máls væri þess gæta hann hefði neitað á öllum stigum greina frá nafni þess velgerðarmanns síns, sem hann kvað hafa gefið sér bifreiðina. R hefði verið undir allri rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi í lófa lagið upplýsa hver ætti í hlut, þannig leita mætti staðfestingar á því rétt væri greint frá. Það hefði R á hinn bóginn kosið gera ekki. Þótt honum hefði verið frjálst taka þessa afstöðu við rannsókn og rekstur sakamáls á hendur sér var talið óhjákvæmilegt líta svo á hann hefði með henni stuðlað því gæsluvarðhaldi sem hann sætti og krafðist skaðabóta fyrir, en í þeim efnum fengi engu breytt hann hefði verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í sakamálinu. Var íslenska ríkið sýknað af kröfu R.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 15.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins kom hingað til lands 15. nóvember 2006 með flutningaskipi á vegum Samskipa hf. notuð sendibifreið af gerðinni [...]. Samkvæmt farmbréfi var maður að nafni D viðtakandi bifreiðarinnar, sem var af árgerð [...], en kaupsamningur hafði verið gerður um hana í nafni hans í Þýskalandi 26. október 2006. Tollgæslumenn fundu 17. nóvember sama ár fíkniefni falin í miðstöðvarkerfi bifreiðarinnar, sem reyndust vera 3.778 g af kókaíni. Efni þessi voru fjarlægð úr bifreiðinni, en í stað þeirra var komið fyrir gerviefnum og ákveðið að bíða þess að hennar yrði vitjað hjá Samskipum hf. Af því varð 6. febrúar 2007 og var áfrýjandi þar að verki. Hann ók bifreiðinni 8. sama mánaðar að bænum [...] í [...] í [...], þar sem hann skildi hana eftir, en næsta dag fór hann þangað á ný eftir að hafa átt stefnumót við B á bensínstöð á Selfossi og fóru þeir báðir þaðan að [...]. Lögregla hafði komið fyrir í bifreiðinni búnaði til að nema hljóð. Þegar til átti að taka reyndist sá búnaður ekki sem skyldi, en þó var ætlað af því, sem tókst að greina, að unnið hafi verið að því að komast að þeim stað í bifreiðinni, þar sem fíkniefnin höfðu upphaflega verið falin, og að gerviefnin hafi verið tekin þaðan. Í framhaldi af þessu var áfrýjandi handtekinn í Reykjavík síðdegis 9. febrúar 2007, en B mun hafa farið frá [...] án þess að lögregla, sem fylgdist með aðgerðum þessum, næði að stöðva för hans.

Áfrýjandi gaf skýrslu hjá lögreglu 10. febrúar 2007, þar sem hann lýsti meðal annars því að hann hafi undanfarin ár átt við fjárhagserfiðleika að stríða og bága heilsu, auk þess að hafa afplánað fangelsisdóm erlendis verulegan hluta ársins 2005. Í júní eða júlí 2006 hafi maður, sem hann vildi ekki nafngreina, boðið sér að fá bifreið til þess að hann „kæmist á fætur“ og hafi hann þegið þetta, enda hafi hann talið sig geta notað bifreið af þeim toga, sem rætt hafi verið um, til vinnu, sem hann stundaði með áðurnefndum D, eða haft af bifreiðinni ábata með því að selja hana. Áfrýjandi kvaðst vegna fjárhagsstöðu sinnar hafa fengið heimild D til að flytja bifreiðina hingað á nafni hans. Tafir hafi orðið á því að leysa hana út vegna heilsubrests áfrýjanda og óreglu, en hann hafi loks greitt flutningskostnað og aðflutningsgjöld og fengið hana afhenta. Bifreiðin hafi reynst vera biluð og hann því rætt við kunningja sinn, sem byggi á [...], um að fá að færa hana þangað og njóta aðstoðar þess manns til viðgerða. Daginn eftir að áfrýjandi hafi flutt bifreiðina að [...] hafi ónafngreindi maðurinn komið til sín í heimsókn, þeir hafi rætt um ástand hennar og sá maður boðist til að útvega bifvélavirkja til að gera við hana. Það hafi orðið úr og maðurinn sagt áfrýjanda að hann ætti að hitta bifvélavirkjann á tilteknum stað á Selfossi næsta morgun. Þetta hafi áfrýjandi gert og hafi bifvélavirkinn, sem hann kvaðst hvorki hafa hitt áður né vita hvað héti, hafist handa við viðgerðir, meðal annars á miðstöðvarkerfi bifreiðarinnar. Meðan á því stóð hafi áfrýjandi unnið að endurbótum á báti, sem hann hafi haft í geymslu að [...], og hafi hann lítið fylgst með gerðum bifvélavirkjans. Sá hafi síðan hætt verki sínu án þess að bæta úr öllu því, sem bifreiðinni var áfátt, og farið af vettvangi. Með úrskurði héraðsdóms 10. febrúar 2007 var áfrýjanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 2. mars sama ár og var sá úrskurður, sem reistur var á a. lið 1. mgr. 103. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, staðfestur með dómi Hæstaréttar 13. febrúar 2007. Gæsluvarðhaldið var síðan framlengt á sama lagagrunni til 16. mars 2007 með úrskurði héraðsdóms 2. þess mánaðar, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 7. sama mánaðar. Enn leitaði lögregla framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir áfrýjanda, en í það sinn á grundvelli 2. mgr. 103. gr. fyrrnefndra laga. Krafa um það var tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 20. sama mánaðar Enn var gæsluvarðhaldið framlengt með stoð í sömu lagaheimild með úrskurðum héraðsdóms 11. maí og 11. júní 2007 og voru þeir staðfestir með dómum Hæstaréttar 15. maí og 13. júní sama ár.

Áðurnefndur B var handtekinn 1. mars 2007. Í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu sama dag, sagði hann að maður, sem hann vildi ekki nafngreina, hafi fengið sig til að hitta annan mann á tilteknum stað á Selfossi að morgni 9. febrúar sama ár og hafi hann átt að hjálpa þeim síðastnefnda við að fjarlægja pakkningar úr bifreið og farga þeim. B kvaðst hafa orðið við þessu og hitt á tilsettum stað og tíma manninn, sem reyndist vera áfrýjandi, en B hafi ekki þekkt hann fyrir. Þeir hafi ekið að einhverju býli í [...] og farið þar í hlöðu, þar sem bifreiðin, sem málið varðar, hafi staðið. Áfrýjandi hafi opnað vélarlokið, bent B á staðinn, þar sem pakkningarnar hafi átt að vera, og hafi sá síðarnefndi byrjað að fjarlægja hluti úr bifreiðinni til að komast að þeim. Ekki hafi tekist að komast að pakkningunum á þann hátt og hafi því þurft að taka upp mælaborð bifreiðarinnar í því skyni. Hann sagði áfrýjanda hafa hjálpað sér að ná í pakkningarnar, áfrýjandi hafi síðan komið með pappakassa, sem þeir hafi sett þær í, og B loks sett kassann í bifreið sína og haldið á brott. Eftir þetta hafi hann haldið heim til sín, farið þar inn með kassann og fargað efnum úr þessum pakkningum ofan í salerni. Í framhaldi af þessari skýrslugjöf sætti B gæsluvarðhaldi á samsvarandi hátt og áfrýjandi.

Áfrýjandi gaf frekari skýrslur hjá lögreglu 12., 21. og 28. febrúar, 6., 14. og 16. mars og 25. apríl 2007. Um þau atriði, sem áður greinir, hélst frásögn hans óbreytt og neitaði hann á öllum stigum að hafa vitað af því að fíkniefni hafi verið flutt til landsins í bifreiðinni eða að hann hafi átt þar að öðru leyti hlut að máli. Þá gaf B frekari skýrslur hjá lögreglu og var frásögn hans að sama skapi þar óbreytt frá því, sem áður segir.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur áfrýjanda og B 11. maí 2007, þar sem þeim fyrrnefnda var gefið að sök að hafa ásamt óþekktum samverkamanni flutt áðurgreind fíkniefni til landsins, en þeim síðarnefnda að hafa ásamt áfrýjanda fjarlægt ætluð fíkniefni úr bifreiðinni og tekið þau í sínar vörslur til söludreifingar. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2007 var vísað til þess að áfrýjandi og B hafi hvor fyrir sitt leyti borið frá upphafi efnislega á sama veg og framburður þeirra verið stöðugur um flest. Við fyrstu sýn gæti framburður þeirra virst ótrúverðugur og reyfarakenndur á köflum, en það væri mat dómsins að svo væri ekki og væru engin gögn í málinu, sem leiða ættu til þess að hafna framburðinum. Ekki hafi tekist að upplýsa málið við rannsókn og yrðu áfrýjandi og B ekki látnir bera af því hallann. Í dóminum var þetta síðan rökstutt frekar og þeir sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 29. maí 2008 í máli nr. 435/2007, þar sem sagði meðal annars: „Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar skýrslur ákærðu. Þótt þær séu í ýmsu með ólíkindablæ verður ekki komist hjá að fallast á forsendur héraðsdómara fyrir því að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir sakargiftum á hendur ákærðu.“

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 4. nóvember 2008 og krefst í því skaðabóta úr hendi stefnda. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti er skaðabótakrafa hans nú reist á því einu að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju.

II

Sem fyrr segir hóf lögregla rannsókn á sakamálinu, sem þetta mál á rætur að rekja til, þegar tollgæslumenn höfðu fundið verulegt magn af mjög sterkum fíkniefnum í bifreið, sem beið þess að verða leyst út frá Samskipum hf. Þegar á því stigi lá fyrir nafn þess manns, sem skráður var sem viðtakandi bifreiðarinnar, en við rannsókn lögreglu kom fram meðan bifreiðin var enn í vörslum farmflytjandans grunur um að áfrýjandi væri að réttu lagi sá, sem flytti hana inn, og þótti það staðfest þegar hann gaf sig fram til að vitja hennar. Áfrýjandi varð í þessu ljósi að sæta því að hann yrði að svo stöddu talinn bera ábyrgð á fíkniefnunum, sem fundust í bifreiðinni, og skipti miklu fyrir framhald málsins hvernig skýringum hans yrði háttað, ekki aðeins fyrir framvindu rannsóknarinnar heldur einnig fyrir stöðu hans sjálfs. Við þessar aðstæður var knýjandi að áfrýjandi myndi skýra undanbragðalaust og greinilega frá öllum atriðum, sem vörðuðu aðdraganda þess að hann leysti til sín bifreiðina, þannig að afla mætti staðfestingar á því að rétt væri greint frá. Eins og slegið hefur verið föstu meðal annars í dómi Hæstaréttar 12. október 2000 í máli nr. 175/2000 átti þetta við án tillits til þeirrar meginreglu að sakborningi sé óskylt að svara spurningum um refsiverða hegðun, sem honum er gefin að sök.

Áður hafa í meginatriðum verið raktar þær skýringar, sem áfrýjandi gaf á því hvernig hann væri kominn að eignarrétti að bifreiðinni, sem hér um ræðir, svo og að hann hafi á öllum stigum neitað að hafa vitað um að flytja ætti til landsins fíkniefni í henni. Sú frásögn var með ólíkindablæ, svo sem vísað var til í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 29. maí 2008. Þótt áfrýjandi hafi verið stöðugur í skýrslum sínum um þessi atvik er þess að gæta að hann neitaði einnig á öllum stigum að greina frá nafni þess velgerðarmanns síns, sem hann kvað hafa gefið sér bifreiðina, og neitaði jafnframt að svara frekar en áður segir af hvaða ástæðum þessa örlætis hafi gætt. Áfrýjanda var undir allri rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi í lófa lagið að upplýsa hver ætti hér í hlut, þannig að leita mætti staðfestingar á því að rétt væri greint frá. Það kaus áfrýjandi á hinn bóginn að gera ekki. Þótt honum hafi verið frjálst að taka þessa afstöðu við rannsókn og rekstur sakamáls á hendur sér er óhjákvæmilegt að líta svo á að hann hafi með henni stuðlað að því gæsluvarðhaldi, sem hann sætti og krefst nú skaðabóta fyrir, en í þeim efnum fær engu breytt að hann hafi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í sakamálinu. Með vísan til síðari málsliðar 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Rúnars Þórs Róbertssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2009.

Mál þetta höfðaði Rúnar Þór Róbertsson, kt. 220868-3629, Flétturima 15, Reykjavík, með stefnu birtri 4. nóvember 2008 á hendur íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, en fyrir þess hönd er forsætisráðherra stefnt.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu á 15.000.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn 1. desember 2008.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Til vara krefst hann þess að bætur verði lækkaðar.

Hinn 17. nóvember 2006 fundu tollverðir fíkniefni í bifreið sem flutt hafði verið til landsins með [...] frá [...] í Þýskalandi. Lagði lögregla hald á efnin. Var aflað heimildar til að hlera síma viðtakanda bifreiðarinnar. Kom fljótlega í ljós að hann var ekki raunverulegur innflytjandi, heldur skráður í stað stefnanda þessa máls. Var sími stefnanda einnig hleraður. Bifreiðin var ekki tollafgreidd fyrr en 7. febrúar. Var farið með bifreiðina að [...] í [...] daginn eftir. Stefnandi kom þangað degi síðar, 9. febrúar.

Efnin sem fundust í bifreiðinni reyndist vera 3,7 kg af kókaíni og 36 g af amfetamíni. Lögreglan hafði í stað efnanna komið fyrir svokölluðu fingrafaradufti.

Stefnandi var handtekinn í Reykjavík síðdegis þann 9. febrúar 2007. Eftir handtöku hans var skráð upplýsingaskýrsla þar sem Guðbrandur Hansson, lögreglu­fulltrúi, skrifar að í viðræðum við stefnanda hafi komið fram að hann þyrði ekki að segja frá samverkamönnum sínum í málinu af ótta við hefndaraðgerðir.

Tveir lögreglumenn sem unnu að rannsókn málsins gáfu skýrslu við aðalmeðferð þessa máls, þeir Húnbogi Jóhannsson Andersen og Hörður Lilliendahl. Þeir báru báðir að fingrafaraduftið hefði verið mjög greinilegt á höndum stefnanda er hann var handtekinn.

Með úrskurði héraðsdóms 10. febrúar var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi. Staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn 13. febrúar. Úrskurðurinn var byggður á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldið var framlengt með úrskurði héraðsdóms 2. mars. Var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 7. mars. Var aftur byggt á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Varðhaldið var enn framlengt með úrskurði héraðsdóms 16. mars, sem Hæstiréttur staðfesti 20. sama mánaðar. Var nú byggt á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var gæsluvarðhaldið síðan framlengt á ný með úrskurðum 11. maí og 11. júní, sem báðir voru staðfestir í Hæstarétti. Ákæra hafði þá verið gefin út þann 11. maí og var dómur kveðinn upp 12. júlí 2007. Var stefnandi þar sýknaður af ákærunni. Var hann látinn laus sama dag. Málinu var áfrýjað af hálfu ákæruvalds, en dómurinn var staðfestur í Hæstarétti 29. maí 2008.

Í fyrstu sætti stefnandi einangrun í varðhaldinu, eða til 16. mars. Frá þeim tíma var hann í svokallaðri lausagæslu, þ.e. hann sætti ekki sérstökum takmörkunum í varð­haldinu.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 10. febrúar. Hann neitaði þar aðild að inn­flutningi fíkniefna. Gaf hann skýringar á innflutningnum, svo og því hvers vegna dróst að tollafgreiða bifreiðina. Er ekki nauðsynlegt að rekja þær skýringar hans.

Stefnandi gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 12. og 21. febrúar 2007. Neitaði hann þá m.a. að svara spurningum, sem sneru beint að fíkniefnainnflutningi.

Í byrjun yfirheyrslu 28. febrúar tilkynnti stefnandi að hann vildi ekki svara neinum spurningum í mótmælaskyni, en hann hafði ekki fengið að hitta son sinn.

Stefnandi neitaði stöðugt sök og breyttist sá framburður hans ekki, en teknar voru skýrslur af honum fjórum sinnum á tímabilinu frá 6. mars til 25. apríl 2007.

B hafði verið með stefnanda að vinna við bifreiðina í skemmunni að [...]. Hann bar við meðferð sakamálsins allt frá fyrstu skýrslutöku að maður sem hann vildi ekki nafngreina hefði fengið sig til að fjarlægja gerviefni úr bifreiðinni og henda þeim síðan. Um þátt stefnanda sagði hann fátt í skýrslum hjá lögreglu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að Hæstiréttur hafi sýknað hann m.a. með vísan til þess sem segir í héraðsdómi, að engin fyrirliggjandi gögn, hvorki vitnisburður né önnur sönnunargögn, leiði til þess að við sönnunarmat eigi að hafna framburði hans og með­ákærða. Þá segi að ekkert hafi komið fram við símhlerun sem tengi hann við innflutning fíkniefna. Sama máli gegni um leit á heimili hans, í bifreið, rannsókn tölvugagna og far­síma, hljóðupptökur frá því er efni voru fjarlægð úr bifreiðinni og lok framburður vitnisins C. Telur stefndi að sjá megi af forsendum dómsins að engin efni hafi verið til að hneppa hann í gæsluvarðhald eins gert var. Því beri stefnda að greiða honum skaðabætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar.

Stefndi segir að ekki hafi verið nægt tilefni til að handtaka hann og hneppa í gæsluvarðhald. Ekki hafi heldur verið nægilegt tilefni til að ákæra hann. A.m.k. sé ljóst að ekki hafi verið tilefni til að láta hann sæta gæsluvarðhaldi í 152 daga, eða þá einangrun í varðhaldinu í 34 sólarhringa. Hann hafi borið á sama veg frá byrjun. Hann hafi neitað því að hafa nokkra vitneskju um þau fíkniefni sem fundust í bifreiðinni. Þessi framburður hafi verið lagður til grundvallar sýknudómi. Því sé ljóst að rannsóknaraðilar og dómstólar hafi áður lagt rangt mat á stöðu stefnanda og að rangt hafi verið að láta hann sæta gæsluvarðhaldi og ákæra hann. Aðgerðirnar séu ámælisverðar.

Stefnandi segir að maður sem handtekinn hafi verið og látinn sæta gæsluvarðhaldi eigi rétt á skaðabótum fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón, ef háttsemi reynist ósaknæm eða sönnun hefur ekki fengist. Skilyrði bóta séu til staðar hér. Þá beri einnig að greiða bætur þar sem hann hafi verið ranglega ákærður. Stefnandi kveðst ekki hafa stuðlað að handtöku eða gæsluvarðhaldi. Því komi ekki til greina að lækka eða fella bætur niður af þeim sökum.

Stefnandi kveðst leggja áherslu á að frá því að hann var handtekinn og þar til dómur Hæstaréttar gekk hafi hann verið stimplaður sem sakamaður. Bendir hann á umfjöllun í fjölmiðlum þar sem hann hafi verið nafngreindur. Hann hafi þjáðst í varð­haldinu og einangrunin hafi verið honum þungbær. Hann bendir á að mjög langur tími hafi liðið frá því að héraðsdómi var áfrýjað og þar til dómur gekk í Hæstarétti. Því fylgi mikil vanlíðan að vera borinn þungum sökum. Mannorð sitt sé eyðilagt og honum hafi verið valdið miklum miska.

Stefnandi byggir bótakröfu á því að skilyrði hafi ekki verið til að beita gæslu­varðhaldi. Þá hafi það staðið lengur en ástæða var til. Rangt hafi verið að ákæra hann og loks beri stefndi bótaábyrgð á þeim drætti sem varð á málsmeðferð, m.a. við áfrýjun þess.

Stefnandi styður kröfur sínar við 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Hér sé mælt fyrir um bótarétt þess sem hafi verið sviptur frelsi að ósekju. Telur stefnandi að skýra beri ákvæðið svo að rétt til bóta eigi sá sem hafi verið sviptur frelsi saklaus eða að ástæðulausu. Handtaka og innilokun séu mjög íþyngjandi inngrip í líf manna og frelsi. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar verndi bótarétt hans, hvað sem líði skýringu á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991. Þá vísar stefnandi einnig til 15. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur vísar stefnandi til nefnds kafla laga nr. 19/1991, 1. mgr. 175. og 176. gr.

Stefnandi tekur fram að hann telji að b-liður 176. gr. stangist á við 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki megi synja um bætur fyrir það eitt að nægilegt tilefni teljist hafa verið til aðgerða. Þá ítrekar stefnandi það sem áður segir að ekki hafi verið neitt tilefni til aðgerðanna. Skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 hafi ekki verið uppfyllt. Þegar gæsluvarðhald var byggt á þessari heimild hafi legið fyrir allar þær upplýsingar er leiddu til þess að hann var sýknaður.

Stefnandi krefst bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Miðar stefnandi bæði við þann tíma er hann sætti varðhaldi og þann tíma er mál hans var fyrir dómstólum.

Loks vísar stefnandi til reglna skaðabóta- og refsiréttar, laga nr. 19/1991, skaðabótalaga, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir að nærri fjögur kg af mjög sterku kókaíni hafi fundist í umræddri bifreið. Hlerun síma hafi sýnt að samband var á milli innflytjanda bifreiðarinnar og stefnanda. Stefnandi hafi leyst bifreiðina úr tolli 6. febrúar 2007. Tveimur dögum síðar hafi hann ekið henni austur að [...]. Hafi stefnandi unnið að því degi síðar ásamt B að fjarlægja pakkningar úr bifreiðinni. Hafi hann síðan verið handtekinn. Á honum hafi fundist duft sem lögreglan hefði sett á pakkningarnar. Hann hafi því verið undir rökstuddum grun um að hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna. Þá hafi hann gefið ótrúverðugar skýringar. Hafi verið nauðsynlegt að beita gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins og að láta stefnanda sæta takmörkunum í varðhaldinu.

Stefndi segir að rannsókn málsins hafi verið tímafrek. Henni hafi verið lokið 30. apríl 2007. Málið hafi verið dæmt í héraði 11. júlí 2007. Miðað við umfang málsins hafi rannsókn og dómsmeðferð tekið skamman tíma. Sjá megi af rannsóknargögnum að unnið hafi verið sleitulaust að málinu. Því sé ekki hægt að halda því fram að gæsluvarðhaldsvist stefnanda hafi orðið lengri en þörf var á vegna þess að rannsókn seinkaði. Þá hafi ákærusmíð tekið skamman tíma. Þá hafi málsmeðferð í héraði gengið greiðlega, en líta beri til þess að dómari stýri meðferð fyrir dómi. Stefndi beri því ekki ábyrgð á þeim tíma sem meðferð máls taki eftir útgáfu ákæru.

Þá telur stefndi að málsmeðferð í Hæstarétti hafi ekki tekið langan tíma. Ákæruvald hafi heldur ekki stjórn á því. Telur stefndi að líta beri á hvern þátt við meðferð málsins þegar metið sé hvort of löngum tíma hafi verið eytt í málið. Svo sé alls ekki.

Stefndi kveðst ekki bera ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla. Ósannað sé að starfsmenn stefnda hafi veitt fjölmiðlum óeðlilegar upplýsingar um málið.

Þá telur stefndi að málsmeðferð fyrir dómi leiði ekki til bótaskyldu.

Stefndi segir ósannað að stærð klefa þess sem stefnandi var vistaður brjóti í bága við reglur.

Stefndi telur að mannorðsmissir stefnanda sé ósannaður. Bendir hann á að stefnandi hafi verið sakfelldur í Danmörku fyrir fíkniefnabrot og afplánað þar fangelsisrefsingu.

Stefndi segir að sú staðreynd að stefnandi hafi verið sýknaður af ákæru í málinu leiði ekki til þess að hann eigi rétt á bótum. Stefnandi hafi ekki vísað til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda. Miða verði við hvort tilefni hafi verið til aðgerðanna þegar gripið var til þeirra. Ekki megi miða við sýknudóm er gangi síðar við mat á því. Ósannað sé að dómstólar hafi lagt rangt mat á stöðu stefnanda.

Stefndi segir að framburður stefnanda hjá lögreglu hafi verið ótrúverðugur. Hann hafi neitað að svara mörgum spurningum og gefið röng svör. Hann hafi ítrekað sagt ósatt um fjármál og kaup á gjaldeyri. Hann hafi sjálfur með framburði sínum stuðlað að aðgerðum gegn sér.

Stefndi segir að nægilegt tilefni hafi verið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi. Þannig sé ekki fullnægt skilyrðum 176. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi aðgerðir lögreglu ekki verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Gæsluvarð­hald samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laganna hafi verið í samræmi við dómvenju, enda stefnandi undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot er varðað gat fangelsi í 10 ár.

Verði bætur dæmdar telur stefndi að bótakrafa stefnanda sé allt of há og ekki í neinu samræmi við dómvenju. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu. Vísar hann til 9. gr. vaxtalaga, en ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi gögn til að meta tjón stefnanda.

Forsendur og niðurstaða

Í stefnu er skorað á forsætisráðherra að sækja þing og halda uppi vörnum fyrir ríkissjóð. Stefndi ríkissjóður gerir ekki athugasemd við þennan hátt og má því dæma málið eins og réttum aðila sé stefnt til fyrirsvars fyrir ríkissjóð.

Lögreglan rannsakaði innflutning á miklu magni sterkra fíkniefna. Stefnandi máls þessa var í reynd innflytjandi bifreiðarinnar þar sem efnin voru falin. Hann tollafgreiddi bifreiðina og var nærstaddur er leitað var að efnunum og pakkningar fjarlægðar. Með þessu var fram kominn rökstuddur grunur um að hann stæði sjálfur að eða ætti hlut að innflutningi efnanna. Sú frásögn B við lögreglurannsókn málsins að hann hafi verið fenginn til að fjarlægja gerviefni úr bifreiðinni er ótrúverðug, en hann var ekki handtekinn fyrr un þremur vikum á eftir stefnanda.

Um bótakröfu stefnanda verður að dæma eftir lögum nr. 19/1991 sem í gildi voru er hann sætti varðhaldinu og er hann höfðaði mál þetta. Samkvæmt 176. gr. laganna mátti dæma bætur vegna gæsluvarðhalds ef lögmæt skilyrði hefur brostið til að beita því, eða ef ekki var eins og á stóð nægilegt tilefni til að beita því, eða það framkvæmt á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Þau atvik sem að framan greinir, einkum sú staðreynd að stefnandi stóð að inn­flutningi bifreiðarinnar og kom henni fyrir í skemmu utan borgarinnar og unnið var að því að komast að efnunum sem falin höfðu verið, felldu með réttu sterkan grun á stefnanda um að hafa staðið fyrir innflutningi fíkniefnanna. Þau gögn sem lögregla aflaði, m.a. með símhlustun, veittu ekki vísbendingu um að aðrir aðilar ættu hlut að máli. Þannig var í upphafi örugglega fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Jafnframt var í framhaldinu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laganna. Lögmælt skilyrði voru því uppfyllt til að gera stefnanda að sæta varðhaldi. Jafnframt verður að telja að fullt tilefni hafi verið til þess að beita gæsluvarðhaldi allt þar til að dómur héraðsdóms var kveðinn upp, en þá var stefnanda sleppt úr haldi. Því á stefnandi ekki rétt á bótum vegna gæslu­varðhaldsins, þótt hann hafi verið sýknaður af ákæru í málinu. Ákvæði 70. gr. stjórnar­skrárinnar, eða reglur Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, breyta ekki þessari niðurstöðu sem byggja verður á lögum nr. 19/1991.

Rannsókn umrædds fíkniefnamáls hjá lögreglu, útgáfa ákæru og málsmeðferð fyrir héraðsdómi tók skamman tíma. Dómur gekk í Hæstarétti rúmum tíu mánuðum eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Þessi málsmeðferðartími er ekki óeðlilega langur og stefnandi hefur ekki sýnt fram á að brotið hafi verið á réttindum hans. Er þess að gæta að ekki var ólöglegt að höfða málið í öndverðu og telja verður að tilefni hafi verið áfrýjunar. Getur stefnandi ekki krafist bóta vegna þess tíma er málið var til meðferðar.

Ósannað er að illa hafi verið búið að stefnanda í varðhaldinu. Lögmaður hans gerði þá tillögu við undirbúning aðalmeðferðar að gengið yrði á vettvang og aðstæður í fangelsinu á Litla-Hrauni skoðaðar. Á þetta féllst dómari ekki, enda eðlilegast er að færa fram sönnun um þetta atriði með skoðunargerð dómkvadds matsmanns.

Samkvæmt þessu er öllum málsástæðum stefnanda hafnað. Verður stefndi sýknaður af kröfum hans.

Rétt er að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn. Málflutnings­þóknun lögmanns hans er ákveðin 700.000 krónur með virðisaukaskatti.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, ríkissjóður, er sýknaður af kröfum stefnanda, Rúnars Þórs Róbertssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Þorsteins Einarssonar hæstaréttar­lögmanns, greiðist úr ríkissjóði, 700.000 krónur.