Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2012


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Embættismenn
  • Lausn
  • Stjórnsýsla
  • Kjarasamningur
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Andmælaregla
  • Rannsóknarregla
  • Skaðabætur
  • Dráttarvextir


Miðvikudaginn 19. desember 2012.

Nr. 236/2012.

Sigríður Jónasdóttir

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Opinberir starfsmenn. Embættismenn. Lausn. Stjórnsýsla. Kjarasamningur. Stjórnvaldsákvörðun. Andmælaregla. Rannsóknarregla. Skaðabætur. Dráttarvextir.

S höfðaði mál gegn Í til heimtu bóta vegna starfsloka hennar sem fangavörður. S hafði verið í veikindaleyfi í kjölfar aðgerðar og er veikindaréttur hennar var að renna út var henni tilkynnt bréflega að meðan hún hefði ekki heilsu til að gegna starfi fangavarðar yrði ekki um endurkomu hennar í það starf að ræða. Var í bréfinu vísað til vottorðs trúnaðarlæknis F um starfshæfni S. Tæplega ári síðar var S tilkynnt að henni væri veitt lausn frá störfum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að S hafi verið embættismaður í merkingu laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og um lausn hennar frá embætti færi eftir VI. kafla laganna. Taldi Hæstiréttur að með fyrrgreindu bréfi hafi verið lagður grunnur að þeirri ákvörðun að veita S lausn frá embætti með stoð í áliti trúnaðarlæknis F. Slík ákvörðun væri stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi F borið að veita S færi á að kynna sér umrædd gögn og tjá sig um efni málsins áður en því hafi endanlega verið ráðið til lykta. Meðferð málsins hafi því ekki verið í samræmi við andmælareglu 13. gr. laga nr. 37/1993 og 1. mgr. 15. gr. laganna um aðgang að gögnum. Þá hafi málsmeðferðin einnig brotið í bága við 10. gr. sömu laga um rannsókn máls. Embættismissir S hafi því verið ólögmætur og bæri Í ábyrgð á honum eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Voru S dæmdar bætur að álitum en ekki voru talin lagaskilyrði til greiðslu miskabóta.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2012. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 5.322.339 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2006 til 20. apríl 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn niður falla.

I

Eins og greinir í héraðsdómi var áfrýjandi varðstjóri í fangelsinu við Kópavogsbraut, en hún hóf störf sem fangavörður í september 1982. Hún fór í veikindaleyfi 6. september 2005 vegna skemmda í hægri mjöðm, gekkst 19. desember sama ár undir mjaðmarskiptaaðgerð og var frá störfum af þessum sökum. Áfrýjandi framvísaði haustið 2005 og fyrri hluta árs 2006 vottorðum læknis á Heilsugæslunni í Kópavogi um óvinnufærni sína. Í vottorði læknisins 28. júní 2006 kom fram að áfrýjandi myndi vera óvinnufær með öllu til 31. ágúst sama ár.

Að tilhlutan Fangelsismálastofnunar ríkisins átti áfrýjandi 26. júlí 2006 viðtal við trúnaðarlækni stofnunarinnar, Guðmund Björnsson, sem er sérfræðingur í endurhæfingarlækningum. Að þeirri skoðun lokinni sagði í starfshæfnisvottorði, sem hann sendi stofnuninni sama dag og skoðun fór fram, að hann teldi áfrýjanda af heilsufarsástæðum óvinnufæra í starfi sem fangavörður í kvennafangelsi og væru horfur á breytingum á starfshæfni hennar litlar á næstunni. Í bréfi fangelsismálastofnunar til trúnaðarlæknisins 3. ágúst 2006 kom fram að stofnunin skildi fyrrgreint vottorð hans svo að áfrýjandi væri ekki lengur fær um að gegna starfi fangavarðar og þar sem  léttara starf væri ekki laust hjá stofnuninni mætti hún ekki hefja störf að nýju. Var óskað staðfestingar læknisins á að þessi skilningur stofnunarinnar væri réttur. Þessu erindi svaraði læknirinn með bréfi 10. ágúst 2006 og sagði í niðurlagi þess að hann teldi sem læknisfræðilegur ráðgjafi fangelsismálastofnunar að starf fangavarðar væri „líkamlega krefjandi starf, þar sem til staðar eru krefjandi ytri aðstæður“. Væri léttara starf ekki í boði teldust starfsmöguleikar áfrýjanda við stofnunina tæmdir.

Lögmaður áfrýjanda ritaði fangelsismálastofnun bréf 24. ágúst 2006. Sagði þar að sem kunnugt væri hefði áfrýjandi verið í veikindaleyfi undanfarið í framhaldi af skurðaðgerð á mjöðm. Hún hefði fyrir nokkru haft samband við lögmanninn til að láta vita af því að hún væri tilbúin að koma til starfa. Í framhaldinu hafi henni verið gert að mæta til viðtals hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar, en tíminn sem liðið hafi eftir viðtalið, án viðbragða, hafi gert áfrýjanda áhyggjufulla. Var áréttað að áfrýjandi sæi ekkert því til fyrirstöðu að hefja störf að nýju og byggði hún það á eigin líðan og álitum ráðgefandi lækna. Með bréfinu fylgdi vottorð fyrrnefnds heilsugæslulæknis 22. ágúst 2006 þar sem fram kom að áfrýjandi væri „andlega og líkamlega heilbrigð og full vinnufær eftir aðgerð.“ Af þessu tilefni sendi fangelsismálastofnun áðurnefndum trúnaðarlækni stofnunarinnar fyrirspurn með bréfi um hvort fyrri umsagnir hans um heilsufar áfrýjanda stæðu óhaggaðar eða hvort hann teldi ástæðu til að endurmeta þær í ljósi framkomins vottorðs. Fyrirspurninni svaraði læknirinn með bréfi 30. ágúst 2006 þar sem sagði: „Starf Sigríðar telur undirritaður líkamlega og andlega krefjandi. Undirritaður telur að eðli starfs Sigríðar sé með þeim hætti að henni geti verið heilsufarsleg hætta búin af því m.t.t. eðlis veikinda hennar og eftirstöðvum meðferðar. Af sömu ástæðum telst starfsgeta hennar í starfi sem fangavörður verulega skert vegna líkamlegrar færniskerðingar í kjölfar veikinda og meðferðar. Undirritaður hefur lagt til léttara starf. Sé það ekki í boði hjá vinnuveitanda, teljast starfsmöguleikar hennar þar að mati undirritaðs tæmdir.“

Fangelsismálastofnun ritaði lögmanni áfrýjanda bréf 30. ágúst 2006 þar sem málavextir voru raktir. Sagði þar meðal annars að vottorð heilsugæslulæknis áfrýjanda 22. ágúst 2006 um að áfrýjandi væri full vinnufær eftir aðgerð stangaðist á við áður útgefið vottorð sama læknis sem þá hafi úrskurðað hana óvinnufæra til 31. ágúst sama ár. Hafi áfrýjandi ekki haft samband við yfirmann sinn eða stofnunina frá því hún hafi skilað inn vottorðinu 28. júní 2006 eða á nokkurn hátt tjáð sig um að hún hefði vilja eða getu til að snúa aftur til starfa. Í bréfinu var vísað til eftirfarandi 12.3.1 greinar kjarasamnings Starfsmannafélags í almannaþágu og stefnda:  „Starfsmaður sem hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð eða lengur má ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi. Krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar.“ Í niðurlagi bréfsins sagði: „Fangelsismálastofnun telur rétt í þessu tilviki sem öðrum að hlíta ráðleggingum trúnaðarlæknisins. Meðan hann kveður Sigríði ekki hafa heilsu til þess að gegna því krefjandi starfi sem fangavarslan er getur því miður ekki orðið um endurkomu í það starf að ræða.“

Í bréfi lögmanns áfrýjanda 12. september 2006 til forstjóra fangelsismálastofnunar var frá því greint að áfrýjandi liti svo á að fyrrgreint bréf stofnunarinnar 30. ágúst sama ár væri ígildi uppsagnar sem stæðist hvorki ákvæði áðurnefnds kjarasamnings né stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt því að áskilja áfrýjanda rétt til að krefjast skaðabóta fyrir fjárjón og miska vegna ákvörðunarinnar var óskað eftir fundi með forstjóranum til að ræða framtíð hennar sem fangavarðar. Í framhaldinu átti lögmaður áfrýjanda fund með forstjóranum í þeim tilgangi að leysa ágreining aðila, en sá fundur leiddi ekki til lausnar á honum.

Tæpu ári síðar, eða með bréfi 22. ágúst 2007, tilkynnti fangelsismálastofnun áfrýjanda að henni hafi verið veitt lausn frá störfum. Þar var vísað til þess að í 12.4.2 grein áðurnefnds kjarasamnings væri mælt fyrir um að veita mætti starfsmanni lausn frá störfum vegna heilsubrests þegar hann hefði verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni. Þar sem liðinn væri sá tími, sem áfrýjandi hafi átt kost á að vera fjarverandi frá vinnu, væri henni veitt lausn frá störfum frá og með 27. ágúst 2007 í samræmi við nefnt kjarasamningsákvæði og 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tekið var fram að áfrýjandi héldi föstum launum í þrjá mánuði frá þeim tíma í samræmi við tilgreint ákvæði kjarasamningsins.

Fyrir liggur að áfrýjandi fékk greidd laun sem fangavörður til 31. ágúst 2006. Ennfremur voru henni greidd laun í þrjá mánuði haustið 2007 í samræmi við 12.5.1 grein áðurnefnds kjarasamnings eftir að henni hafði verið veitt lausn frá störfum samkvæmt því sem að framan greinir.

II

Fangaverðir teljast til embættismanna samkvæmt 9. tölulið 22. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt 25. gr. þeirra laga ber að líta svo á að maður, sem skipaður hefur verið í embætti, skuli gegna því þar til þær ástæður koma upp sem greinir í 1. til 9. tölulið ákvæðisins. Meðal þeirra atriða, sem þar eru talin upp og leiða til starfsloka, er að embættismaður fullnægi ekki skilyrðum 3. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laganna um nauðsynlega heilbrigði til að gegna þeim starfa sem hverju sinni er um að ræða.

Í lögum nr. 70/1996 er gerður greinarmunur á réttarstöðu embættismanna annars vegar og annarra starfsmanna ríkisins hins vegar. Þar sem áfrýjandi var embættismaður í merkingu laganna giltu ákvæði VI. kafla þeirra er henni var veitt lausn frá embætti, hvort sem það var gert af því að hún fullnægði ekki lengur skilyrðum 6. gr., sbr. 2. tölulið 25. gr., eða vegna heilsubrests, sbr. 4. tölulið sömu greinar. Í umræddum kafla er mælt fyrir um réttindi embættismanna við starfslok og geta ákvæði kjarasamninga einstakra stéttarfélaga við stefnda, sem gerðir hafa verið á grundvelli 39. gr. laganna, ekki skert þau lögmæltu réttindi. Hafi stefndi samið um rýmri rétt til handa embættismönnum í slíkum samningum er hann á hinn bóginn af því bundinn.

Eins og atvikum var háttað er rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að áfrýjanda hafi verið veitt lausn frá embætti vegna heilsubrests. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 70/1996 skal veita embættismanni lausn frá embætti af þeirri ástæðu ef hann hefur verið frá störfum vegna sjúkdóma eða slysa samfellt í eitt ár eða 1/18 af samfelldum tíma hans hjá stefnda, ef sá tími er lengri en eitt ár. Þar sem áfrýjandi hafði starfað hjá stefnda frá 1982 mátti ekki leysa hana frá störfum samkvæmt þessu ákvæði fyrr en hún hafði verið samfellt frá störfum sökum heilsubrests í um það bil 16 mánuði. Þó naut hún þeirra réttinda, umfram þennan lögbundna rétt, samkvæmt 12.4.2 grein, sbr. 12.2.1 grein áðurnefnds kjarasamnings að halda starfi sínu í 720 daga, þar af 360 á launum og 360 launalaust. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 skal veita embættismanni lausn skriflega og þar jafnan greindar orsakir hennar, svo sem vegna heilsubrests. Eftir 2. mgr. sömu greinar skal embættismanni, sem víkja á úr embætti, veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin.

Að framan hefur verið gerð grein fyrir efni bréfs þess sem fangelsismálastofnun sendi áfrýjanda 30. ágúst 2006. Í ljósi orðalags bréfsins verður að líta svo á að með því hafi verið lagður grundvöllur að þeirri ákvörðun að veita áfrýjanda lausn frá embætti með stoð í áliti trúnaðarlæknis stofnunarinnar. Í lok bréfsins var vitnað til álits læknisins og sagt að „meðan hann kveður Sigríði ekki hafa heilsu til að gegna því krefjandi starfi sem fangavarslan er getur því miður ekki orðið um endurkomu í það starf að ræða.“ Gaf þetta orðalag áfrýjanda ástæðu til að ætla að ekki væri um endanlega ákvörðun að ræða, heldur kynni ákvörðuninni að verða breytt ef heilsa hennar breyttist til hins betra á því ári sem samkvæmt framansögðu var eftir af veikindaleyfi hennar.

Ákvörðun um að veita manni lausn úr embætti er stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra. Í samræmi við 13. gr. laganna, sbr. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996, átti af þeim sökum að gefa áfrýjanda kost á að tjá sig um þá fyrirætlan að leysa hana frá störfum áður en sú ákvörðun var endanlega tekin og tilkynnt henni með bréfi fangelsismálastofnunar 22. ágúst 2007. Auk þess átti hún rétt á að fá að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið vörðuðu, sbr. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hvíldi sú skylda á stofnuninni samkvæmt 10. gr. sömu laga að sjá til þess að málið væri nægilega upplýst áður en því yrði ráðið endanlega til lykta.

III

Eins og áður greinir verður að líta svo á að með bréfi fangelsismálastofnunar 30. ágúst 2006 til áfrýjanda hafi verið lagður grunnur að þeirri ákvörðun að veita henni lausn frá embætti. Skömmu áður hafði áfrýjandi lagt fram vottorð læknis um að hún væri full vinnufær eftir þá aðgerð sem hún hafði gengist undir. Þótt stofnunin hafi borið efni vottorðsins undir trúnaðarlækni sinn áður en fyrrgreint bréf var sent áfrýjanda fylgdi sú umsögn því ekki. Þá hafði áfrýjandi heldur ekki fengið aðgang að vottorði trúnaðarlæknisins 26. júlí 2006 um starfshæfni hennar eða bréfi hans 10. ágúst sama ár þar sem það álit, sem fram kom í vottorðinu, var frekar rökstutt. Þar sem umrædd gögn höfðu að geyma upplýsingar um heilsuhagi áfrýjanda og virðast hafa ráðið þeirri afstöðu stofnunarinnar, sem birtist í niðurlagi bréfsins 30. ágúst 2006, bar samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga að gefa áfrýjanda færi á að kynna sér gögnin og tjá sig að því búnu um efni málsins áður en því yrði ráðið til lykta. Úr því að þessa var ekki gætt af hálfu stofnunarinnar á þessu stigi málsmeðferðar var henni skylt að veita áfrýjanda aðgang að gögnum málsins og gefa henni kost á að tjá sig um málsefnið áður en að því kom að endanleg ákvörðun yrði tekin um lausn hennar úr embætti ári síðar. Eins og atvikum var háttað hefði stofnuninni einnig borið, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, að láta ganga úr skugga um hvort líkamleg heilsa áfrýjanda hefði þá enn staðið því í vegi að hún gæti tekið á ný við starfi fangavarðar, til dæmis með því að gera henni að gangast undir læknisskoðun að nýju, sbr. 12.3.1 grein áðurnefnds kjarasamnings.

Áfrýjandi heldur því fram að hún hafi verið fullfær um að taka við starfi fangavarðar í ágúst 2006. Stefndi hefur hins vegar fært nokkur rök fyrir því, með skírskotun til álits trúnaðarlæknis fangelsismálastofnunar, sem jafnframt er sérfræðingur í endurhæfingarlækningum, að svo hafi ekki verið. Þótt þar með séu líkur á að áfrýjandi hafi á þeim tíma ekki fullnægt því skilyrði um líkamlega heilsu sem eðli máls samkvæmt verður að gera til fangavarða, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996, er meiri vafi á að sú hafi verið raunin í ágúst 2007 þegar henni var veitt lausn úr embætti. Þegar litið er til þeirra ágalla á meðferð málsins, sem gerð hefur verið grein fyrir að framan, verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Þar með telst ósannað að heilsu áfrýjanda hafi verið svo farið þegar hún var leyst frá embætti fangavarðar að hún hafi ekki getað gegnt því sem skyldi. Embættismissir áfrýjanda var því ólögmætur og ber stefndi fébótaábyrgð á honum eftir almennum reglum skaðabótaréttar.

IV

Við ákvörðun bóta til handa áfrýjanda verður litið til þess að hún var embættismaður samkvæmt lögum nr. 70/1996 og mátti að öllu óbreyttu búast við að halda stöðu sinni þar til hún næði hámarksaldri starfsmanna ríkisins, sbr. 5. tölulið 25. gr. laganna. Áfrýjandi hafði gegnt starfi fangavarðar frá 1982 og allt þar til henni var veitt lausn frá því embætti, en þá var hún 66 ára.

Áfrýjandi miðar kröfu sína um fjártjón við þau laun sem hún hafi notið á tólf mánuðum „eftir að uppsögnin kom til“, eins og sagði í héraðsstefnu. Voru þar lögð til grundvallar meðallaun samkvæmt launaseðlum, útgefnum á árinu 2006. Áfrýjanda var veitt lausn frá 27. ágúst 2007. Tekjur hennar á því ári námu alls 3.905.237 krónum, en þar af greiddi stefndi henni 1.785.054 krónur í lausnarlaun og uppsafnað orlof vegna fyrri ára. Að þessu virtu og með hliðsjón af 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996 eru bætur til handa áfrýjanda hæfilega ákveðnar að álitum 3.000.000 krónur. Með heimild í niðurlagsákvæði 9. gr. laga nr. 38/2001 skal sú fjárhæð bera dráttarvexti frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ekki eru lagaskilyrði til að dæma miskabætur, svo sem áfrýjandi krefst.

Með vísan til óskýrs málatilbúnaðar áfrýjanda er rétt að málskostnaður milli aðila í héraði falli niður svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Eftir úrslitum málsins verður stefndi hins vegar dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað hér fyrir dómi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sigríði Jónasdóttur, 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., er höfðað 19. apríl 2010.

Stefnandi er Sigríður Jónasdóttir, Engihjalla 19, Kópavogi.

Stefndi er íslenska ríkið vegna Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.322.339 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. september 2006 til þingfestingardags, en dráttarvaxta frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf. og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

Stefndi krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir

Stefnandi var um árabil varðstjóri í Fangelsinu við Kópavogsbraut. Fangelsið heyrir undir Fangelsismálastofnun ríkisins og er ríkisstofnun. Stefnandi er félagsmaður í SFR – Starfsmannafélagi í almannaþágu og fóru laun hennar og kjör eftir kjarasamningi stéttarfélagsins og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Haustið 2005 gekkst stefnandi undir mjaðmaskiptaaðgerð. Aðgerðin var gerð 19. desember 2005 og var hún í leyfi frá störfum allt frá 6. september 2005. Hún fékk greidd laun í veikindaforföllunum samkvæmt reglum í gr. 12 í kjarasamningnum, en samkvæmt þeim átti hún rétt á að fá greidd laun í veikindaforföllum í samfellt 360 daga. Stefnandi skilaði inn læknisvottorðum frá heimilislækni sínum til staðfestingar á óvinnufærninni meðan hún var í leyfinu.

Hinn 31. ágúst 2006 rann út 360 daga veikindaréttur stefnanda.

Sumarið 2006 óskaði Fangelsismálastofnun eftir því við stefnanda að hún mætti í skoðun hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar, Guðmundi Björnssyni. Hún varð við þeirri kröfu og hitti Guðmund 26. júlí 2006. Sama dag gaf Guðmundur út starfshæfnisvottorð vegna hennar. Í vottorðinu segir:

Undirritaður hefur í dag átt viðtal við og skoðað ofanritaða. Undirritaður hefði talið hana óvinnufæra í starfi sem fangavörður í kvennafangelsi af heilsufarsástæðum. Æskilegt væri að hún fengi léttara starf við hæfi. Horfur á breytingum á starfshæfni hennar eru litlar á næstunni.

Fangelsismálastofnun hafði aftur samband við Guðmund og gerði honum grein fyrir að um léttara starf væri ekki að ræða hjá stofnuninni og óskaði eftir ítarlegri umsögn. Í bréfi Guðmundar, dags. 10. ágúst 2006, segir að hann, sem læknisfræðilegur ráðgjafi Fangelsismálastofnunar ríkisins, telji að starf fangavarðar sé líkamlega krefjandi starf þar sem til staðar séu krefjandi ytri aðstæður. Sé léttara starf ekki í boði teljist starfsmöguleikar stefnanda við stofnunina tæmdir.

Í bréfi lögmanns stefnanda til Fangelsismálastofnunar, dags. 24. ágúst 2006, kemur fram að stefnandi hefði haft samband við stofnunina og látið vita af því að hún væri tilbúin að koma til starfa. Í framhaldi af því hafi henni verið gert að mæta til viðtals hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar, Guðmundi Björnssyni. Lýsti hún áhyggjum sínum yfir því að hafa ekkert heyrt frá Fangelsismálastofnun. Meðfylgjandi bréfi hennar var vottorð Kristjönu Kjartansdóttur um að hún væri fullvinnufær eftir aðgerðina.

Fangelsismálastofnun svaraði með bréfi, dags. 30. ágúst 2006. Í bréfinu kemur fram að stofnunin telur vottorð heilsugæslulæknis, dags. 22. ágúst 2006, stangast á við áður útgefið vottorð sama læknis, sem þá hafði úrskurðað stefnanda óvinnufæra til 31. ágúst 2006, og vottorð trúnaðarlæknis. Þá segir að stefnandi hafi ekki haft samband við yfirmann sinn, Guðmund Gíslason, forstöðumann fangelsa á höfuðborgarsvæðinu, eða stofnunina frá því að hún skilaði inn vottorði, dags. 28. júní, eða á nokkurn hátt tjáð sig um að hún hefði vilja og/eða getu til þess að snúa aftur til starfa. Forstöðumaðurinn hefði hins vegar haft samband við hana þennan sama dag og tjáð henni efni bréfsins. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að á meðan trúnaðarlæknir telji stefnanda ekki hafa heilsu til að gegna því krefjandi starfi sem fangavarslan sé geti því miður ekki orðið um endurkomu í það starf að ræða.

Stefnandi heldur því hins vegar fram að hún hafi áður verið í sambandi við Guðmund Gíslason og tilkynnt honum að hún væri að verða góð eftir aðgerðina. Honum hafi því verið kunnugt um að stefnandi væri væntanleg til starfa að loknum sumarleyfistíma. Ekki hafi verið fundið að þeim læknisvottorðum sem hún hafi framvísað eða sambandsleysi, eins og því sem lýst sé í framangreindu bréfi.

Bendir stefnandi á að í málinu liggi fyrir þrjú sams konar vottorð Guðmundar Björnssonar læknis. Stefnandi hafi ekki verið höfð með í ráðum hvað þessa vottorðagjöf varðar og kveðst raunar ekkert vita hvað fram fór milli læknisins og Fangelsismálastofnunar. Fyrir henni hafi þetta verið laumuspil.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 12. september 2006, var afstöðu Fangelsismálastofnunar mótmælt og bent á að sá galli væri á vottorði Guðmundar Björnssonar að áður en hann ritaði vottorðið hefði hann ekki aflað neinna upplýsinga hjá læknum stefnanda, þ.e. heimilislækni og meðferðarlækni. Stefnandi teldi niðurstöðu trúnaðarlæknisins ranga og að hún stæðist ekki læknisfræðilega skoðun. Hún líti á afstöðu Fangelsismálastofnunar sem ólögmæta uppsögn og hafi áskilið sér rétt til skaðabóta. Í framhaldi af bréfinu kveður stefnandi lögmann sinn hafa átt fund með Valtý Sigurðssyni, sem þá var forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, í þeim tilgangi að leita lausnar á ágreiningi aðila en sá fundur hafi engan árangur borið.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að með ákvörðun Fangelsismálastofnunar, um að taka stefnanda af launaskrá, hafi henni verið vikið frá störfum, með öðrum orðum sagt upp. Ákvörðunin hafi verið ólögmæt stjórnvaldsákvörðun og án lögmæts tilefnis. Stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna uppsagnarinnar samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Vísist til dómaframkvæmdar á þessu sviði stjórnsýslu- og skaðabótaréttar.

Starfsuppsögn stefnanda hafi verið afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun í hennar garð. Áður en stefnanda var meinað að mæta til vinnu sökum þess að hún væri veik hafi borið að fara í hvívetna eftir málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýslulaganna nr. 37/1993, þannig að réttaröryggi stefnanda yrði ekki fyrir borð borið.

Fangelsismálastofnun hafi brotið gegn nokkrum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Í fyrsta lagi hafi mál stefnanda ekki verið rannsakað sem skyldi. Eins og að framan greini hafði stefnandi framvísað starfshæfnisvottorði heimilislæknis síns. Er heimilislæknirinn gaf út vottorðið hafi hann verið bundinn af þeim ströngu reglum sem gildi um störf lækna. Vottorðið hafi ekki verið vefengt og hafi hvorki stefnandi né læknirinn verið spurð út í það. Stefnandi hafi hins vegar verið boðuð í viðtal hjá trúnaðarlækni Fangelsismálastofnunar án þess að vera upplýst um í hverju það viðtal ætti að felast eða um þýðingu þess. Trúnaðarlæknirinn hafi hvorki spurt stefnanda út í vottorð heimilislæknisins né leitað upplýsinga beint hjá heimilislækninum eða meðferðarlækni stefnanda vegna skurðaðgerðarinnar. Stefnandi hafi heldur ekki verið spurð út í afstöðu sína til vottorðanna sem trúnaðarlæknirinn lét Fangelsismálastofnun í té. Raunar hafi hún ekki verið upplýst tilhlýðilega um efni vottorðanna.

Þá byggir stefnandi á því að fyrst ágreiningur var um starfshæfni hennar hafi borið að gefa henni raunhæft tækifæri til að sýna fram á starfshæfni sína, eftir atvikum með nýju vottorði. Fangelsismálastofnun hafi einnig, eins og á stóð, átt að gefa stefnanda kost á að reyna sig aftur í starfi og láta þannig reyna á starfshæfnina. Með framangreindu hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaganna verið brotin.

Í öðru lagi hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 11. gr. laganna. Eins og áður segi hafi uppsögnin verið eins íþyngjandi og verið gat í kjölfar veikinda stefnanda. Vægari úrræði, m.a. þau sem hér að framan hafi verið nefnd, hefðu fyllilega dugað í tilviki stefnanda.

Í þriðja lagi hafi verið brotið gegn leiðbeiningarskyldu gagnvart stefnanda og gegn andmælarétti hennar, með því að hún hafi ekki verið nægilega upplýst um tilgang viðtals við trúnaðarlækni, að henni hafi ekki verið gerð grein fyrir því að henni bæri ekki skylda til að tala við hann vildi hún það ekki, og með því að henni var ekki gefinn kostur á að tjá sig um vottorðin áður en ákveðið var að hún fengi ekki að koma aftur til starfa. Til viðbótar vísar stefnandi til réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, en samkvæmt henni má ekki taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun nema á grundvelli réttra forsendna og lögmæts tilefnis. Með því að Fangelsismálastofnun sýndi ekki fram á að stefnandi hefði verið óstarfhæf hafi stofnunin brotið gegn þessari reglu.

Stefnandi leggi ríka áherslu á að trúnaðarlæknir Fangelsismálastofnunar hafi ekki verið læknir stefnanda. Hann hafi eingöngu unnið í þágu og á ábyrgð stofnunarinnar. Stefnandi hafi ekki átt í neinu trúnaðarsambandi við trúnaðarlækninn og hafi ekki borið trúnaðartraust til hans Vottorðin, sem trúnaðarlæknirinn hafi látið í té, hafi verið illa unnin í alla staði, án eiginlegs rökstuðnings, og án þess að trúnaðarlæknirinn hafi leitað upplýsinga hjá heimilislækni stefnanda eða Jóni Ingvari Ragnarssyni, meðferðarlækni stefnanda. Eins og málið horfi við stefnanda hafi það verið samantekin ráð stofnunarinnar og trúnaðarlæknisins að flæma hana burt úr starfi. Við vottorðagjöfina hafi trúnaðarlæknirinn brotið gegn ákvæðum 11. gr. læknalaga nr. 53/1988 og ákvæðum reglugerðar nr. 586/1991 um gerð og útgáfu læknisvottorða. Stefnandi telur enn fremur að trúnaðarlækninum hafi ekki verið heimilt að láta stefnda í té vottorð um samskipti, sem hann hafi átti beint við stefnanda.

Stefnandi vísar til 20. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Samkvæmt ákvæðinu á sjúklingur rétt á að leita til þess læknis sem honum hentar best. Sjúklingi sé í sjálfsvald sett að leita til þeirra lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks sem viðkomandi treysti til viðtals, sjúkdómsgreiningar, meðferðar, vottorðagerðar og annars vegna veikinda sinna. Stefnandi hafi aldrei samþykkt að fela trúnaðarlækninum læknisverk fyrir sig. Vísist í þessu sambandi til bréfs Landlæknis til trúnaðarmanna hjá Strætó bs. frá 19. maí 2008, þar sem látin hafi verið í té afstaða Landlæknis til afskipta trúnaðarlækna sem trúnaðarmennirnir hafi talið á skjön við ofangreind lög. Í svari Landlæknis sé vísað til 20. gr. og um hlutverk trúnaðarlæknis vinnuveitanda og þar segi:

Alengt er að fyrirtæki hafi sérstakan trúnaðarlækni starfsfólks, s.s. vegna forvarna á vinnustað og vegna veikinda starfsfólks. Það er álit landlæknisembættisins að samband sjúklings og læknis eða annars heilbrigðisstarfsfólks sé trúnaðarsamband um viðkvæm persónuleg málefni og slíkt samband verði ekki fært til fyrirtækis án samþykkis sjúklings. Trúnaðarlækni fyrirtækis þess, sem sjúklingur starfar hjá, er heimilt að leita upplýsinga hjá þeim lækni sem ritað hefur vottorð vegna óvinnufærni starfsmannsins, en trúnaðarlækni er óheimilt að ræða veikindi einstakra starfsmanna við atvinnurekanda, nema með samþykki sjúklings.

Starfsfólk getur eðli máls samkvæmt þurft að leggja fram læknisvottorð til vinnuveitanda, s.s. frá heimilislækni, vegna fjarvista sem rekja má til veikinda eða frá trúnaðarlækni ef svo ber undir. Telur landlæknisembættið stjórnendur fyrirtækis ekki geta gert þá kröfu að starfsfólk tilkynni veikindi sín og veiti nánari upplýsingar um sjúkdóma sína til annars læknis en það kýs sjálft að leita til.

Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni og miska við starfsuppsögnina. Hún vísi til almennu skaðabótareglunnar og fordæma Hæstaréttar í málum vegna ólögmætra uppsagna ríkisstarfsmanna. Bótakrafa stefnanda sundurliðist þannig:

Bætur vegna fjártjóns

4.896.548 krónur

Miskabætur

    500.000 krónur

Krafa samtals

5.396.548 krónur

Fjárhæð kröfu sé jöfn þeim launum sem stefnandi hafði notið á tólf mánuðum eftir að uppsögnin kom til. Miðað sé við meðallaun samkvæmt launaseðlum útgefnum á árinu 2006, en þau hafi verið 365.960 krónur en við þá fjárhæð bætist töpuð lífeyrisréttindi. Mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð (A-deild LSR) hafi verið 11,5%. Þannig reiknist tekjutjón (launamissir og töpuð lífeyrisréttindi) samtals 408.045 krónur, eða 4.896.548 krónur miðað við tólf mánaða tímabil. Eftir að uppsögnin kom til fékk stefnandi starf sem aðstoðarmaður á leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi. Heildarlaun þar á árinu 2007 hafi verið 601.114 krónur, sem sé bara brot af þeim launum sem hún hafi notið hjá stefnda. Tekjutjón stefnanda sé því verulegt og krafa hennar um bætur vegna fjártjóns mjög hófleg. Stefnandi leggi til viðbótar fram gögn um lausnarlaun sem stefndi mun hafa greitt á árinu 2007, en byggt sé á því að bótakrafa stefnanda sé það hófleg að ekki beri að draga frá lausnarlaunin.

Við mat á fjártjóni beri að líta til aldurs stefnanda, kyns, menntunar, starfsreynslu og aðstæðna að öðru leyti. Stefnandi hafi verið fangavörður um árabil og hún hafi ekki haft til annarra starfa að hverfa á því sviði, eins og hér hafi verið rakið. Bótakrafan sé að álitum þar sem miðað sé við mánaðarlaun. Kröfuna beri ekki að skilja þannig að eingöngu sé gerð krafa um laun á næstu tólf mánuðum eftir uppsögn.

Miskabótakrafa stefnanda sé gerð með stoð í 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi telur skilyrði ákvæðisins til greiðslu miskabóta vera uppfyllt. Með því að segja stefnanda upp störfum með þeim rökum, og á grundvelli þeirrar málsmeðferðar sem var viðhöfð, hafi verið vegið að æru stefnanda, starfsheiðri og persónu. Ákvörðunin hafi grundvallast á rakalausum fullyrðingum um veikindi stefnanda. Veikindi séu í eðli sínu afar persónulegt málefni sem falli undir friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnda hafi borið að viðhafa ýtrustu nærgætni gagnvart stefnanda af þeim sökum. Fráleitt sé að stefndi hafi getað komið stefnanda frá störfum og skýlt sér á bak við vottorð sem hann hafi aflað einhliða og haldin voru jafn alvarlegum göllum og hér að framan hafi verið gerð grein fyrir.

Verði ekki fallist á bótakröfu stefnanda að öllu leyti felst í henni varakrafa um bætur lægri fjárhæða að álitum samkvæmt mati réttarins.

Stefnandi krefst skaðabótavaxta með vísan til ákvæða 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er uppsögnin kom til framkvæmda til þingfestingardags en dráttarvaxta frá þingfestingardegi með vísan til ákvæða III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af aðkeyptri lögmannsþjónustu sé skaðleysiskrafa þar sem stefnandi muni ekki eignast frádráttarrétt vegna skattsins.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi mótmælir því að um ólögmæta og bótaskylda uppsögn stefnanda hafi verið að ræða. Í niðurlagi bréfs Fangelsismálastofnunar til lögmanns stefnanda, dags. 30. ágúst 2006, komi fram að stofnunin telji rétt í þessu tilviki, sem öðrum, að hlíta ráðleggingum trúnaðarlæknisins og þar sem hann hafi talið að stefnandi hefði ekki haft heilsu til þess að gegna því krefjandi starfi sem fangavarsla er, gæti ekki orðið um endurkomu í það starf að ræða. Stefndi mótmæli því að í þessu svarbréfi hafi falist ígildi uppsagnar eða uppsögn eins og haldið sé fram af stefnanda hálfu.

Eins og fram kemur í grein 12.4.2 í kjarasamningi þeim er stefnandi falli undir, má leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests þegar hann hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt gr. 12.2.1. Stefnandi hafi því haft tækifæri til að framvísa nýju starfshæfnisvottorði í heilt ár og fá nýtt mat trúnaðarlæknis Fangelsismálastofnunar um vinnufærni, eins og kjarasamningur aðila kveði á um, áður en stofnunin veitti henni lausn frá störfum og lausnarlaun samkvæmt greinum 12.4.2 og 12.5.1. Ef starfsmaður hefur verið samfellt frá störfum vegna veikinda launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni, megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Hér sé við það miðað að þegar starfsmaður hafi tæmt rétt sinn til launa í fjarvistum, og hafi til viðbótar verið fjarverandi í jafnlangan tíma án launa, megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests, sbr. grein 12.4.2. Þegar starfsmaður sé leystur frá störfum vegna langvarandi eða endurtekinnar óvinnufærni vegna veikinda skuli hann halda föstum launum í þrjá mánuði (grein 12.2.6).

Í seinni málslið greinar 12.3.1 sé heimild fyrir vinnuveitanda að krefjast vottorðs trúnaðarlæknis um starfshæfni starfsmanns, auk þess sem almenn heimild sé í 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000 fyrir Fangelsismálastofnun til að láta trúnaðarlækni stofnunarinnar skoða stefnanda með tilliti til þess hvort hún fullægi skilyrðum um líkamlegt atgervi fangavarða. Almennt séu trúnaðarlæknar læknar sem fyrirtæki og stofnanir ráði til starfa, en samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000 sé beinlínis gert ráð fyrir því að stofnunin hafi trúnaðarlækni til að meta hvort fangavörður uppfylli ákvæði reglugerðarinnar um að þeir skulu vera vel á sig komnir hvað varðar líkamlegt atgervi. Samkvæmt almennum reglum, sem Læknafélag Íslands hafi mótað, veiti trúnaðarlæknir forráðamönnum fyrirtækja og stofnana ráðgjöf varðandi læknisfræðileg málefni viðkomandi rekstri. Trúnaðarlæknir veiti ráðgjöf vegna fjarvista starfsmanna í veikinda- og slysa­tilfellum, meðal annars varðandi læknisvottorð. Trúnaðarlæknir fyrirtækis gefi almennt ekki út læknisvottorð starfsmanna til fyrirtækisins. Ef aðilar séu sammála um slíkt geti trúnaðarlæknir annast reglubundið heilsufarseftirlit meðal starfsfólks, enda verði um það samið sérstaklega. Í samráði við vinnuveitanda ákveði trúnaðarlæknir nánar um alla framkvæmd á heilsufarseftirliti. Trúnaðarlæknir bjóði upp á fastan viðverutíma í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar með 100 starfsmenn eða fleiri. Trúnaðarlækni sé skylt að gæta hagsmuna starfsmanna varðandi allt sem gæti spillt heilsu þeirra í starfi. Samráð skuli haft við Vinnueftirlit ríkisins þegar ástæða þyki til. Trúnaðarlæknir gegni ekki hlutverki heimilislæknis fyrir starfsfólk. Honum beri ekki skylda til að sinna veikindum eða slysatilfellum sem upp koma nema í neyðartilvikum enda hafi viðkomandi aðgang að heimilislækni eða slysavarðstofu. Æskilegt sé að trúnaðarlæknir sé ekki jafnframt heimilislæknir starfsmanna fyrirtækisins. Í starfi sínu fari trúnaðarlæknir ávallt eftir ákvæðum siðareglna lækna og læknalaga.

Stefndi mótmæli því sem haldið sé fram í stefnu að niðurstaða trúnaðarlæknisins sé röng og að hún standist ekki læknisfræðilega skoðun. Einnig sé þeirri fullyrðingu stefnanda mótmælt að galli sé á vottorði trúnaðarlæknisins þar sem hann hafi ekki aflað upplýsinga hjá læknum stefnanda, þ.e. heimilislækni og meðferðarlækni. Stefnandi hafi þurft að gangast undir mjaðmaliðskipta­aðgerð hinn 19. desember 2005. Hafi hún skilað inn læknisvottorðum vegna þess. Þegar líða tók að lokum réttar stefnanda til launa í veikindum óskaði Fangelsismálastofnun eftir því að trúnaðarlæknir stofnunarinnar skoðaði stefnanda. Hafi það verið gert með heimild í kjarasamningi aðila og 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000. Trúnaðarlæknirinn sé sérfræðingur í endurhæfingar­lækningum CIME (Certified Independent Medical Examiner) en það sé viðurkenning sem læknar með sérfræðiviðurkenningu í læknisfræði hljóta eftir að hafa lokið prófi bandarísku læknasamtakanna (AMA) í örorkumati. Sérfræðingar, sem teljast hafa nægilega reynslu í sinni sérgrein, að mati ABIME (nefnd á vegum bandarísku lækna­samtakanna, American Board of Independent Medical Examiners) ljúka námskeiði og svo prófi í reglum AMA í læknisfræðilegu örorkumati (impairment evaluation) til að öðlast þessi réttindi.

Í ljósi sérfræðimenntunar trúnaðarlæknisins og skoðunar hans á stefnanda hafi ekki verið þörf á að trúnaðarlæknirinn aflaði upplýsinga frá læknum stefnanda áður en hann gaf út vottorð sitt um starfshæfni stefnanda, sbr. reglur nr. 586/1991 um gerð og útgáfu læknisvottorða. Það hafi verið mat trúnaðarlæknisins að stefnandi væri óvinnufær í starf fangavarðar og æskilegt væri að hún fengi léttara starf við sitt hæfi. Þegar í ljós kom að ekki var um léttara starf fyrir stefnanda að ræða hjá Fangelsismálastofnun hafi trúnaðarlæknirinn talið að starfsmöguleikar stefnanda hjá stofnuninni væru tæmdir. Eftir að hafa kynnt sér andmæli lögmanns stefnanda með bréfi frá 24. ágúst 2006 og vottorð Kristjönu Kjartansdóttur frá 22. ágúst 2006 hafi trúnaðarlæknirinn gefið út nýtt vottorð, þar sem fram kom að hann teldi starf stefnanda líkamlega og andlega krefjandi og einnig að eðli starfsins væri með þeim hætti að henni gæti verið heilsufarsleg hætta búin af því m.t.t. eðlis veikinda hennar og eftirstöðva meðferðar. Af sömu ástæðum hafi trúnaðarlæknirinn talið starfsgetu stefnanda í starfi fangavarðar verulega skerta vegna líkamlegrar færnisskerðingar í kjölfar veikinda og meðferðar. Trúnaðarlæknirinn hafi lagt til léttara starf en þar sem það var ekki í boði hafi hann talið að starfsmöguleikar stefnanda hjá stofnuninni væru tæmdir. Með vísan til þessa sé því mótmælt að vottorð þau sem trúnaðarlæknirinn lét í té hafi verið illa unnin í alla staði, án eiginlegs rök­stuðnings og án þess að trúnaðarlæknirinn hafi leitað upplýsinga hjá læknum stefnanda, eins og haldið sé fram í stefnu. Trúnaðarlæknirinn hafi hvorki brotið gegn 11. gr. læknalaga nr. 53/1988 né ákvæðum reglna nr. 586/1991 um gerð og útgáfu læknis­vottorða. Trúnaðarlæknirinn hafi haft heimild til að láta Fangelsismálastofnun í té vottorð um líkamlegt atgervi stefnanda, sbr. 12. kafla kjarasamnings aðila og 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000. Jafnframt sé því mótmælt sem röngu að það hafi verið samantekin ráð Fangelsismálastofnunar og trúnaðarlæknisins að flæma stefnanda burt úr starfi. Stofnunin hafi einungis stuðst við ákvæði kjarasamnings aðila og reglugerðar nr. 304/2000 þegar tekin var ákvörðun um að veita stefnanda lausn frá störfum vegna heilsubrests. Trúnaðarlæknirinn hafi metið það svo að stefnandi væri óvinnufær en óvinnufærni hafi verið skilgreind svo að ástand manns, andlegt eða líkamlegt, sé með þeim hætti að það meini honum að vinna starf sitt. Ástand starfsmannsins þurfi því að vera þannig að honum sé ókleift að vinna venjulegt starf sitt eða annað starf, sem af sanngirni megi ætlast til að hann vinni í þágu vinnuveitanda, sem hann starfar hjá.

Stefnandi byggi á 20. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Samkvæmt ákvæðinu eigi sjúklingur rétt á að leita til þess læknis sem honum hentar best. Hins vegar eigi Fangelsismálastofnun þann rétt að láta trúnaðarlækni skoða og meta fangaverði reglubundið að því er snertir líkamlegt eða andlegt ástand, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000. Samkvæmt. grein 12.3.1 í kjarasamningi aðila geti stofnunin einnig krafist vottorðs trúnaðarlæknis áður en starfsmaður tekur aftur til starfa ef hann hefur verið óvinnufær vegna veikinda samfellt í einn mánuð eða lengur. Það atvik sem Landlæknir fjalli um í bréfi til trúnaðarmanna hjá Strætó bs., og stefnandi vitni til í stefnu, sé ekki sambærilegt máli þessu. Strætó bs. hafi gert þá kröfu til starfsmannanna að tilkynna átti veikindi til tveggja aðila. Annars vegar til fyrirtækisins og hins vegar til Heilsuverndarstöðvarinnar Impro. Í bréfi landlæknisembættisins komi fram að stjórnendur fyrirtækis geti ekki gert þá kröfu að starfsfólk tilkynni veikindi sín og veiti nánari upplýsingar um sjúkdóma sína til annars læknis en það kýs sjálft. Í máli Strætó bs. hafi því reynt á kröfu um hvert starfsmenn á almennum vinnumarkaði ættu að tilkynna veikindi sín, hvort þeim bæri að veita upplýsingar um sjúkdóma sína öðrum lækni en það kýs sjálft að leita til og kröfu um kerfisbundna skráningu viðkvæmra persónuupplýsinga. Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði komi hins vegar fram að starfsmanni beri að tilkynna yfirmanni sínum um óvinnufærni vegna veikinda, sbr. grein 12.1.1. 

Af hálfu stefnda sé því mótmælt að Fangelsismálastofnun hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýslu­réttarins. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli stjórnunarréttar vinnuveitanda og kjarasamnings. Lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, geri ráð fyrir að kjarasamningar sem gerðir séu á grundvelli þeirra séu gerðir á samningsréttarlegum forsendum þar sem aðilar taki á sig tilteknar skyldur og skapi sér ákveðin réttindi. Hér sé því ekki um að ræða samninga sem lúta reglum stjórnsýsluréttar, heldur reglum vinnumarkaðsréttar. Ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um skilning eða framkvæmd kjarasamninga verður skotið til samstarfsnefndar eða eftir atvikum Félagsdóms. Hvað veikindarétt varðar skal samráðsnefnd samningsaðila fjalla um túlkun og útfærslu einstakra ákvæða um veikindarétt, sbr. grein 12.9.1 í kjarasamningi aðila. Það fái því ekki staðist, að mati stefnda, að úrslausn ágreinings sem varðar framkvæmd eða skilning kjarasamnings á ákvæðum hans um veikindarétt feli í sér ákvörðun í skilningi 2. gr. stjórnsýslulaga.

Stefndi mótmæli því einnig að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að veita stefnanda lausn frá störfum vegna heilsubrests á grundvelli greina 12.4.2 og 12.5.1 í kjarasamningi aðila sé stjórnvaldsákvörðun og lúti ákvæðum stjórnsýslulaga. Ákvörðun um lausn stefnanda sé ákvörðun byggð á stjórnunarrétti vinnuveitanda og sé því ekki um að ræða ákvörðun sem lúti reglum stjórnsýsluréttar, heldur reglum vinnumarkaðsréttar. Á grundvelli stjórnunarréttar síns geti stofnunin veitt stefnanda lausn frá störfum vegna heilsubrests. Þetta geti hún gert að beiðni starfsmanns eða með einhliða tilkynningu til starfsmannsins. Forstöðumenn stofnana ríkisins fari með almennar stjórnunar­heimildir og vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna við hlutaðeigandi stofnun. Almennt verði ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármálaráðuneytis, sbr. 49. gr. laga nr. 70/1996. Sé um að ræða sérákvæði, m.t.t. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, sem gangi framar almennum lögum. Almennt byggi samskipti starfsmanns og stjórnenda á einkaréttarlegum forsendum og falli því utan ákvæða stjórnsýslulaga eins og ráðið verði af athugasemdum með frumvarpi að stjórnsýslulögum, einkum um 1. gr. þeirra.

Verði ekki fallist á það að ákvörðun Fangelsismálastofnunar sé vinnuréttareðlis þá mótmæli stefndi því að stofnunin hafi brotið gegn rannsóknar-, meðalhófs- og andmælareglu stjórnsýslulaga ásamt því að hafa brotið gegn leiðbeiningarskyldu.

Sú ákvörðun sem deilt sé um hafi ekki varðað 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun um að veita stefnanda lausn hafi byggst á vottorði trúnaðarlæknisins með heimild í kjarasamningi aðila og 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000. Við þessar aðstæður hafi ekki verið leiðir til að taka aðra eða vægari ákvörðun. Ekki hafi verið unnt að færa stefnanda til í starfi, eða fela henni önnur verkefni í stað þess að veita henni lausn frá störfum vegna heilsubrests. Meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi því verið fylgt og samkvæmt vottorðum trúnaðarlæknisins hafi stefnandi verið óvinnufær og ljóst að ekki hefði dugað að ganga skemur en gert var samkvæmt ákvæðum kjarasamnings aðila.

Því sé mótmælt að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Málið hafi verið nægjanlega upplýst með vottorðum trúnaðarlæknisins sem skoðaði stefnanda og hafi lagt til grundvallar læknisfræðilegt mat. Fangelsismálastofnun hafi í þrígang óskað eftir vottorði frá trúnaðarlækni með heimild í kjarasamningi aðila og reglugerð nr. 304/2000 þannig að taka mætti ákvörðun um lausn stefnanda úr starfi vegna heilsubrests.

Stefnandi hafi haft næg tækifæri til andmæla og verði ekki betur séð en að hún hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri bæði sjálf og með fulltingi lögmanns. Lögmaður stefnanda hafi gert athugasemdir með bréfi til stofnunarinnar þann 24. ágúst 2006 og 12. september 2006. Stefnanda hafi því gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um lausn úr starfi vegna heilsubrests. Einnig sé rétt að vekja athygli á því að eftir að greiðslu launa í veikindum lauk hafi stefnandi haft heilt ár til afla sér frekari vottorða um að hún væri fær um að gegna starfi sínu og óska eftir að koma aftur til starfa áður en henni var veitt lausn vegna heilsubrests. Verði því ekki séð að neitt hafi skort á í þeim efnum.

Með vottorði trúnaðarlæknisins hafi Fangelsismálastofnun sýnt fram á að stefnandi hafi verið óvinnufær. Á grundvelli ákvæða kjarasamnings aðila og reglugerðar nr. 304/2000 hafi stofnunin tekið þá ákvörðun að veita stefnanda lausn frá störfum vegna heilsubrests. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli lögmætra og réttra forsendna og á engan hátt hafi verið brotið gegn réttmætisreglu. Stefnandi hafi verið skoðuð af sérfræðingi og hafi læknisfræðilegri niðurstöðu hans ekki verið hnekkt í málinu, en gera verði ráð fyrir að hann hafi haft nægar upplýsingar og gögn til að leggja mat á heilsu stefnanda. Í málinu liggi þannig fyrir sérfræðilegt mat trúnaðarlæknis, sem stefnandi hafi ekki hnekkt. Hún hafi ekki sýnt fram á að hún hafi verið fær til að gegna starfi fangavarðar. Sérfræðilegt mat trúnaðarlæknisins sé því óhrakið og málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar fái ekki breytt þeirri niðurstöðu. Ekkert orsakasamband sé þannig í málinu tengt málsmeðferðarreglum, heldur stafi starfslok stefnanda af því að hún hafi ekki haft heilsu til að gegna starfi sínu hjá Fangelsismálastofnun. Sé þannig ekki stoð fyrir bótakröfu stefnanda.

Af hálfu stefnda sé bótakröfu stefnanda mótmælt svo sem fyrr greini. Stefnandi hafi fengið greidd veikindalaun í tólf mánuði. Hún hafi haldið starfi sínu í aðra tólf mánuði eftir að greiðslu veikindalauna lauk, en þá hafi Fangelsismálastofnun tilkynnt stefnanda að henni hefði verið veitt lausn frá starfi vegna veikinda og hafi stefnandi þá fengið greidd þriggja mánaða launsnarlaun. Hafi þetta verið í samræmi við greinar 12.4.2 og 12.5.1 í kjarasamningi aðila. Með greiðslu veikindalauna í tólf mánuði og lausnarlauna í þrjá mánuði hafi stofnunin uppfyllt skyldu sína gagnvart stefnanda til greiðslu launa og sé það í samræmi við ýtrasta rétt stefnanda samkvæmt kjarasamningi og lagareglum.

Þar sem tilefni starfsloka stefnanda megi rekja til veikinda stefnanda verði ekki séð að nokkur grundvöllur sé fyrir skaðabótakröfu hennar. Málsmeðferð Fangelsismálastofnunar hafi verið byggð á kjarasamningi aðila og reglugerð nr. 304/2000 og því verið lögmæt. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings aðila og 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000 hafi stofnuninni verið heimilt að bera læknisvottorð stefnanda undir trúnaðarlækni stofnunarinnar.

Stefnandi geri kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 500.000 krónur þar sem stefndi hafi á grundvelli þeirrar málsmeðferðar sem viðhöfð var, vegið að æru stefnanda, starfsheiðri og persónu. Stefndi mótmæli miskabótakröfu stefnanda. Engar þær hvatir eða ástæður er stefnandi nefni í stefnu hafi legið að baki uppsögninni. Ákvörðun Fangelsismálastofnunar hafi á engan hátt beinst gegn stefnanda persónulega, starfsheiðri hennar, æru eða persónu, hvað þá að í henni hafi falist meingerð í hennar garð. Ákvörðunin hafi miðast við ákvæði 12. kafla kjarasamnings aðila og 9. gr. reglugerðar nr. 304/2000. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðuninni hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993.

Verði fallist á bótaskyldu sé vísað til allra málsástæðna að framan, en stórfelldrar lækkunar krafist til vara. Í því efni sé einnig vísað til dómaframkvæmdar um ákvörðun bóta, aldurs stefnanda og menntunar. Ekki liggi fyrir starfsumsóknir stefnanda eða hvort hún hefur notið launa í fullu starfi annars staðar frá. Upplýsingar um laun frá Kópavogsbæ séu ónákvæmar, en sýni að þar sé a.m.k. ekki um fullt starf að ræða. Í stefnu segi að við tölulega framsetningu skaðabóta í máli þessu sé að mati stefnanda eðlilegast að skaðabætur teldust nema tekjumissi stefnanda í eitt ár frá þeim tíma sem launagreiðslum lauk. Verði fallist á að stefnandi eigi rétt á skaðabótum þá sé skaðabótakrafa stefnanda of há að mati stefnda. Starfsmenn ríkisins geti almennt búist við því að breytingar geti orðið á högum þeirra. Starfsmaður, sem ráðinn hafi verið ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti, geti því ekki gengið út frá því að hann haldi störfum hjá stofnun alla starfsævina. Lækka beri kröfur verulega í því tilviki. Verði talið að lausn vegna heilsubrests hafi verið ólögmæt hljóti laun stefnanda á árinu 2007 og lausnarlaun að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda. Aldur stefnanda við starfslok ætti ekki að verða henni fjötur um fót við atvinnuleit. Vísist hér til hliðsjónar til 2. mgr. 32. gr. starfsmannalaga.

Af hálfu stefnda er kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, einkum upphafstíma þeirra, sbr. ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi starfaði sem fangavörður í fangelsinu við Kópavogsbraut. Hinn 19. desember 2005 fór stefnandi í liðskiptaaðgerð á mjöðm og var hún í leyfi frá störfum vegna þess frá 6. september 2005. Hinn 31. ágúst 2006 rann út sá veikindaréttur sem stefnandi átti. Með bréfi Fangelsismálastofnunar, dags. 30. ágúst 2006, var stefnanda tilkynnt að um endurkomu hennar í starf fangavarðar yrði ekki að ræða. Var þessi ákvörðun stofnunarinnar byggð á vottorði trúnaðarlæknis, Guðmundar Björnssonar, um að stefnandi teldist óvinnufær í starfi sem fangavörður af heilsufarsástæðum. Stefnandi var ósátt við þessa niðurstöðu þar sem hún taldi sig fullhrausta og reiðubúna að hefja störf að nýju. Hefur hún nú höfðað mál þetta á hendur íslenska ríkinu fyrir hönd Fangelsismálastofnunar ríkisins. Lítur stefnandi svo á að henni hafi verið sagt upp störfum. Sú ákvörðun hafi verið ólögmæt stjórnvaldsákvörðun og án tilefnis og hafi bakað henni tjón sem stefndi beri bótaábyrgð á.

Samkvæmt 9. tl. 22. gr. laga nr. 70/1006 teljast fangaverðir til embættismanna. Um laun og kjör stefnanda fór samkvæmt kjarasamningi Stéttarfélags í almannaþjónustu og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

Í kjarasamningi aðila er að finna ákvæði er lúta að lausn frá störfum vegna endurtekinnar eða langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa.

Í grein 12.4.1 í kjarasamningnum segir að þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinn, samkvæmt gr. 12.2.1, má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Í grein 12.4.3 segir að krefjast megi vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar. Þá heimild er einnig að finna í reglugerð nr. 304/2000 um menntun fangavarða og skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður en þar segir m.a. í 9. gr. að fangaverðir skuli ávallt vera vel á sig komnir hvað varðar líkamlegt atgervi og að trúnaðarlæknir Fangelsismálastofnunar geti reglubundið skoðað og metið fangaverði að því er snertir líkamlegt eða andlegt ástand.

Guðmundur Björnsson, sem er endurhæfingarlæknir að mennt, kom fyrir dóminn. Hann bar að fram hefði farið hefðbundin stöðluð skoðun á stefnanda. Ganglimir hefðu verið skoðaðir og bornir saman, athugað hvort um styttingu á ganglimum væri að ræða, kannað hvort um vöðvarýrnanir, taugaskaða eða lamanir gæti verið að ræða og hafi kraftar á mjaðmasvæði og hreyfiferlar í mjöðm verið kannaðir. Bar Guðmundur að þegar hann skoðaði stefnanda hafi hún verið með óþægindi í mjöðm og hreyfiskerðingu. Kvað hann aðila sem er með gervilið vera mun viðkvæmari fyrir hnjaski en einstakling sem er með heilan lið, jafnvel þótt hann sé slitinn. Kvað hann svona gerviliði vera mjög viðkvæma og læknum sé umhugað um að gerviliðurinn losni ekki vegna hugsanlegs hnjasks í vinnu eða vegna álags eða átaka sem geti átt sér stað miðað við eðli starfs. Kvað Guðmundur vottorð sín byggð á þeirri skoðun er fór fram.

Í vottorði Guðmundar, dags.10. ágúst 2006, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins sé, við mat á því hvort starf er líkamlega erfitt, litið til starfa þar sem viðkomandi þurfi mikið að bogra eða lyfta þungum byrðum, um sé að ræða erfiðar vinnustellingar eða að til staðar séu krefjandi ytri aðstæður. Segir í vottorðinu að hann telji sem læknisfræðilegur ráðgjafi Fangelsismálastofnunar ríkisins að starf fangavarðar sé líkamlega krefjandi starf þar sem til staðar séu krefjandi ytri aðstæður. Sé léttara starf ekki í boði fyrir stefnanda teljist starfsmöguleikar hennar við stofnunina tæmdir.

Stefnandi byggir á því að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja stefnanda um frekara starf hjá stofnuninni hafi falið í sér brot á stjórnsýslulögum, einkum 10. og 11. gr. laganna.

Stefnandi var, samkvæmt vottorðum sem hún lagði fram, óvinnufær og frá störfum í 360 daga vegna þeirrar aðgerðar sem hún hafði gengist undir. Með hliðsjón af því, og þeim kröfum sem gerðar eru um líkamlegt atgervi fangavarða og þeirra reglna er um það gilda, verður að telja að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því hvert var tilefni þess að óskað var eftir því að hún færi til skoðunar hjá trúnaðarlækni Fangelsismálastofnunar. Stefnandi hafði framvísað vottorði heilsugæslulæknis um að hún væri vinnufær. Í vottorðinu er hins vegar ekki gerð grein fyrir því hvort stefnandi uppfylli þær sérstöku kröfur sem gerðar eru um líkamlegt atgervi fangavarða.

 Samkvæmt framburði Guðmundar Björnssonar trúnaðarlæknis mat hann ástand stefnanda eins og það var við skoðun hans og eru vottorð hans byggð á því. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi upplýsti hann hana um að hann teldi hana ekki hæfa til að sinna starfi fangavarðar og tilkynnti henni jafnframt að hann myndi senda umsögn sína til Fangelsismálastofnunar. Verður ekki séð að lækninum hafi borðið skylda til að afla upplýsinga um stefnanda hjá læknum hennar í þessu tilviki eða að það hefði breytt niðurstöðu hans. Verður að telja að útgáfa læknisvottorða hans hafi verið í fullu samræmi við 11. gr. læknalaga nr. 53/1988. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn í málinu er hnekki framangreindu mati trúnaðarlæknisins.

Ekki verður séð, eins og á stóð, að unnt hefði verði að gefa stefnanda tækifæri til að reyna sig aftur í starfi þar sem fyrir lá, að mati trúnaðarlæknis, að hún uppfyllti ekki skilyrði um líkamlegt atgervi til þess að hún teldist hæf til starfa sem fangavörður.

Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að sú ákvörðun stefnda að synja stefnanda um áframhaldandi starf hafi verið án lögmæts tilefnis eða hún hafi brotið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga.

Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Efir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið vegna Fangelsismálastofnunar ríkisins, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigríðar Jónasdóttur.

Málskostnaður fellur niður.