Hæstiréttur íslands

Mál nr. 567/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala


                                                         

Þriðjudaginn 1. nóvember 2011.

Nr. 567/2011.

Hrafnanna ehf.

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu H ehf. um ógildingu nauðungarsölu á fasteign sem fram fór að beiðni Í hf. Byggði H meðal annars á því að ekki lægi fyrir hvernig Í hf. gæti talist eigandi þeirrar kröfu sem nauðungarsalan byggðist á, enda hefði H ekki gefið umrætt skuldaskjal út til Í hf. Í dómi Hæstaréttar sagði að eins og í hinum kærða úrskurði greindi lægi fyrir í málinu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. sem nú héti Í hf. Sú ákvörðun hefði byggt á heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjaness 7. október 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala sýslumannsins í Hafnarfirði 6. apríl 2011 yrði felld úr gildi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 85. gr., sbr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu,  auk 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og áðurgreind nauðungarsala felld úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og í hinum kærða úrskurði greinir liggur fyrir í málinu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. sem nú heitir Íslandsbanki hf. Sú ákvörðun byggði á heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hrafnanna ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.         

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. september 2011.

Mál þetta sem barst dómstólnum 4. maí 2011 var fellt niður með úrskurði þann 22. júní 2011 eftir að þingsókn hafði fallið niður af hálfu sóknaraðila. Málið var síðan endurupptekið ágreiningslaust vegna forfalla sóknaraðila þann 27. júní 2011 og dómtekið að loknum málflutningi þann 14. september 2011.

Sóknaraðili málsins er Hrafnanna ehf., Melabraut 22, Hafnarfirði.

Varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.

Kæruheimild er í 80. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Lögmaður sóknaraðila lagði fram fyrir málflutning leiðréttingu vegna misritunar í greinargerð hans þar sem sagt var að nauðungarsala sú sem deilt er um hafi farið fram á grundvelli fjárnáms vegna hins gengistryggða láns sem um er rætt í greinargerðinni, en ekki á grundvelli 17.600.000 króna láns eins og raunin var. Lögmaður varnaraðila féllst á að leiðréttingin væri réttmæt og samþykkti að hún kæmist að í málinu.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsölugerð nr. 036-2010-518 hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði frá 6. apríl 2011 verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið og nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirði í málinu nr. 036-2010-518 dags. 6. apríl 2011 standi óbreytt. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Málsatvik, málsástæður og lagarök.

Sóknaraðili rekur sjónarmið sín í kæru sinni og greinargerð með þeirri leiðréttingu sem fyrir liggur í dómskjali nr. 10.

Lýsir hann því að sú fjárnámsgerð sem er grundvöllur nauðungarsölubeiðnanna og fór fram hinn 24. ágúst 2010, sé í íslenskum krónum í samræmi við kröfur í fjárnámsbeiðni en vekur sérstaklega athygli á því að sóknaraðili hafi aldrei í framangreindu ferli séð frumrit skuldaskjals varnaraðila, né framsal á því til varnaraðila, en óumdeilt sé að sóknaraðili hafi í upphafi gefið út skuldaskjalið til Glitnis banka hf.  Engin gögn hafi því verið lögð fram um það með hvaða hætti varnaraðili telji sig hafa eignast kröfu þá sem um er deilt í málinu. Við aðfarargerð sýslumannsins í Kópavogi hafi einungis legið frammi ljósrit skuldaskjalsins sem hafi ekki borið með sér að hafa verið framselt varnaraðila. Bendir sóknaraðili á að greiðslubyrði sóknaraðila til varnaraðila vegna lána sem að hans mati voru með ólögmæta gengistryggingu og greiðslur í samræmi við hana hafi verið aðalástæða þess að félagið gat ekki lengur greitt af lánum sínum, þ.m.t. láninu sem nauðungarsalan grundvallaðist á upphaflega að fjárhæð 17.600.000 krónur. Sóknaraðili bendir á að nauðsynlegt sé að skoða stöðuna heildstætt að því er þetta varðar, enda telji hann sig eiga skuldajafnaðarkröfu á varnaraðila vegna ofgreiðslna sinna sbr. 18. sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sem að öllum líkindum leiði til þess að lán hans til varnaraðila séu í fullum skilum í raun.  Telur sóknaraðili að það standi upp á varnaraðila að leggja fram endurútreikninga á lánum hans til sóknaraðila, þannig að lögmætar forsendur liggi fyrir um stöðu þeirra í raun, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin. Er það mat sóknaraðila að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að ganga að honum með nauðungarsölu á grundvelli fyrirliggjandi fjárnáms án þess að heildarstaða hans gagnvart varnaraðila sé skýrð þ.m.t. ofgreiðslur vegna gengistryggðs lánasamnings sem ekki liggur til grundvallar fjárnáminu sem nauðungarsalan er grundvölluð á eins og segir í áðurnefndri leiðréttingu vegna misritunar í greinargerð.

Varnaraðili byggir kröfu sína um að nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirði í málinu nr. 036-2010-518 dags. 6. apríl 2011 standi óbreytt á því að þann 24. ágúst 2010 hafi varnaraðili gert fjárnám í fasteign sóknaraðila Melabraut 22, Hafnarfirði, fnr. 207-7826, í réttindum skv. tryggingarbréfi nr. 123011. Fjárnámsbeiðni varnaraðila byggði á skuldabréfi nr. 537-74-968971, útgefnu þann 8. febrúar 2006, upphaflega að fjárhæð 17.600.000 krónur.

Umrætt skuldabréf sé í íslenskum krónum, útgefið af sóknaraðila til Íslandsbanka, þann 8. febrúar 2006 og framselt Nýja Glitni banka hf., nú Íslandsbanki hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. þann 14. október 2008. Varnaraðili sé því réttur eigandi kröfu þessarar á hendur sóknaraðila. Skuldabréf þetta hafi verið vanskilum frá 1. september 2009. Samkvæmt skilmálum bréfsins var heimilt að gjaldfella alla skuldina við vanskil og gera aðför til fullnustu skuldarinnar skv. 7. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför. Frumrit skuldabréfs hafi fylgt aðfararbeiðninni eins og fram komi í framlögðu endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Kópavogi í aðfararmálinu nr. 037-2010-02208. Í aðfararbeiðninni komi skýrt fram að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila sé vegna þessa tiltekna skuldabréfs. Skuldabréfið sé á meðal framlagðra gagna hjá sýslumanni ásamt greiðsluáskorun birtri fyrir sóknaraðila þann 9. febrúar 2010.

Nauðungarsölubeiðni hafi verið send sýslumanninum í Hafnarfirði þann 16. september 2010  sem leiddi til nauðungarsölu á eigninni sjálfri þann 6. apríl 2011 þar sem varnaraðili var hæstbjóðandi.

Varnaraðili byggir á því að nauðungarsalan hafi farið fram á grundvelli lögmæts fjárnáms sem tekið var í fasteigninni þann 24. ágúst 2010 og eigi því að standa. Fjárnámsgerðin byggði á skuldabréfi í íslenskum krónum útgefnu af sóknaraðila og allar aðgerðir við innheimtu skuldabréfs þessa hafi verið  í lögmætu formi.

Við nauðungarsöluna var öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila lýst undir tryggingarbréf tryggðu með veði í eigninni, þ.m.t. skuldabréfi í erlendum myntum útgefið 22. mars 2007 af sóknaraðila til Glitnis banka hf. Skuldabréf þetta var á sama hátt framselt Nýja Glitni banka hf., nú Íslandsbanka hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. Það skuldabréf var upphaflega að fjárhæð CHF 538.060 og JPY 28.078.130.

Nauðungarsalan hafi engu að síður farið fram á grundvelli fjárnáms sem tekið var í eigninni á grundvelli skuldabréfs í íslenskum krónum og rök sóknaraðila um meint ólögmæti skuldabréfs í erlendum myntum eigi því ekki við í máli þessu.

Niðurstaða

Að mati dómara verður að líta svo á að sóknaraðili reisi kröfu sína um ógildingu nauðungarsölunnar m.a. á því að fjárnámsgerðin frá 24. ágúst 2010 sem er grundvöllur nauðungarsölunnar í máli þessu hafi ekki verið framkvæmd með lögmætum hætti. Hvorki hafi frumrit skuldaskjals verið til staðar né framsal á því til varnaraðila og engin gögn lögð fram með hvaða hætti varnaraðili hafi eignast kröfu þá sem um er deilt í málinu.

Ekki er um það deilt að skuldabréf það sem hér um ræðir og var upphaflega að fjárhæð 17.600.000 krónur var gefið út af sóknaraðila þann 8. febrúar 2006 til Íslandsbanka hf. sem síðar varð Glitnir banki hf. sem aftur varð Nýi Glitnir banki hf. og síðan aftur Íslandsbanki hf. sem er varnaraðili í málinu. Í málinu hefur verið lögð fram ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf. þann 14. október 2008 sem ekki er deilt um að nú er Íslandsbanki hf. Styðst ákvörðun þessi við heimild í 100. gr. a í lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í ljósi þessa telur dómari að umrætt skuldabréf hafi með ákvörðun þessari orðið réttmæt eign varnaraðila. Í endurriti úr gerðarbók sýslumanns af aðfarargerð nr. 037-20100228 er ofangreint skuldabréf lagt fram í frumriti og aðila greinir ekki á um að krafa varnaraðila er vegna þessa tiltekna skuldabréfs eins og glöggt má sjá í leiðréttingu sóknaraðila vegna misritunar samkvæmt dómskjali nr. 10. Að þessu virtu verður því ofangreindum málsástæðum sóknaraðila hafnað og staðfest að fjárnámsgerðin frá 24. ágúst hafi að þessu leyti verið fullnægjandi heimild varnaraðila til þess að krefjast nauðungarsölu á Melabraut 22, Hafnarfirði.

Sóknaraðili hefur einnig haft uppi þá mótbáru að ekki hafi mátt ganga að honum með nauðungarsölugerð vegna þess að hann hafi ofgreitt annan lánasamning og að hann eigi af þeim sökum hærri endurgreiðslukröfur á hendur vararaðila til skuldajafnaðar á móti þeim lánssamningi sem umþrætt fjárnám var gert fyrir. Telur sóknaraðili það í verkahring varnaraðila að leiða í ljós þessa kröfu og vitnar til skyldu lánveitanda til þess að endurútreikna lán sem eiga undir ákvæði laga nr. 151/2010. Eftir leiðréttingu sóknaraðila vegna misritunar sem liggur fyrir sem dómskjal nr. 10 á þessi málsástæða sóknaraðila ekki lengur við í málinu og þykja ekki efni til að fjalla um hana frekar í málinu.

Samkvæmt 1. mgr.  92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er málsaðilum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Þegar sá frestur er liðinn verður ágreiningur um aðfarargerð þó lagður fyrir héraðsdómara meðal annars ef til ágreinings kemur um gerðina vegna kröfu gerðarbeiðanda um nauðungarsölu eða aðra lögmæta ráðstöfun á eign sem tekin hefur verið fjárnámi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þessa heimild, 2. mgr., verður eðli máls samkvæmt að binda því skilyrði að úrlausn um ágreining um aðfarargerðina skipti máli um það hvort nauðungarsala eða önnur lögmæt ráðstöfun á fjárnámsandlaginu fari fram. Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að nauðungarsöluheimild varnaraðilans hafi að öðru leyti verið fullnægjandi. Hvort sóknaraðili kunni að eiga umdeilda og óútkljáða skuldajafnaðarkröfu á hendur varnaraðila vegna annarra lánasamninga þykir ekki skipta hér máli um það hvort nauðungarsalan hafi mátt fara fram og eru engin efni til að leysa úr þeim ágreiningi í þessu máli. Telst því nauðungasöluheimild varnaraðila í öllum greinum vera fullnægjandi.

Samkvæmt framanrituðu skal nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirði í málinu nr. 036-2010-518 dags. 6. apríl 2011 standa óbreytt.

Sóknaraðili verður dæmdur til þess að greiða varnaraðila málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirði í málinu nr. 036-2010-518, dags. 6. apríl 2011, skal standa óbreytt.

Sóknaraðili, Hrafnanna ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 150.000 í málskostnað.