Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/2001
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fangelsi
- Gæsluvarðhald
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2001. |
|
Nr. 142/2001. |
Ólafur Gunnarsson(Jón Magnússon hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Fangelsi. Gæsluvarðhaldsvist.
Ó, sem varð fyrir árás í fangelsi, þar sem hann sætti gæsluvarðhaldi, krafði íslenska ríkið um skaðabætur, m.a. á þeim grundvelli að fullt tilefni hefði verið til að vista árásarmanninn í einangrun, enda hefði legið fyrir að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Við úrlausn málsins var litið til ákvæða 2. mgr. 16. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, svo og 25. gr. sömu laga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem um ræddi. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist. Ekki var talið að geðheilbrigðisrannsókn hefði borið með sér að nauðsynlegt hefði verið að vista árásarmanninn í einangrun vegna hættu á ofbeldi af hans hálfu og framkoma hans fyrir árásina gerði það ekki heldur. Ummæli Ó sjálfs fyrir dómi þóttu styðja þetta. Með því að ekkert þótti fram komið er leitt gæti til þess að íslenska ríkið yrði látið bera bótaábyrgð á tjóni Ó, var það sýknað af kröfum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 11.784.638 krónur, til vara 9.237.374 krónur, til þrautavara 5.008.269 krónur, en að því frágengnu 4.028.552 krónur. Verði ekki á það fallist krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða aðra lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi 2% ársvaxta frá 29. júní 1994 til 18. mars 1997, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.
Mál þetta er til komið vegna árásar, sem áfrýjandi varð fyrir 29. júní 1994 í fangelsinu við Síðumúla í Reykjavík, þar sem hann sætti gæsluvarðhaldi. Var hann hafður þar á svokölluðum lausagangi með öðrum gæsluvarðhaldsfanga. Skömmu eftir að klefar þeirra voru opnaðir þennan morgun réðst hinn fanginn á áfrýjanda og veitti honum mikla áverka, en málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í héraðsdómi.
Áfrýjandi reisir kröfur sínar meðal annars á því að fullt tilefni hafi verið til að vista árásarmanninn í einangrun, enda legið fyrir að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Hafi geðheilbrigðisrannsókn verið gerð á fanganum að beiðni rannsóknarlögreglu ríkisins og niðurstaða hennar afhent starfsmönnum fangelsisins síðdegis 27. júní 1994. Hafi hún tekið af öll tvímæli um að nauðsyn hafi borið til að einangra fangann.
Varðandi þetta er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist má fangi samkvæmt nánari reglum umgangast aðra fanga að degi til. Í 25. gr. sömu laga, eins og hún hljóðaði þá, var að finna heimildir til að einangra fanga ef þar til greindar ástæður gerðu slíkt nauðsynlegt. Þá hefur III. kafli reglugerðar nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist að geyma reglur um tilhögun gæsluvarðhalds, en samkvæmt 1. mgr. 15. gr. skal gæsluvarðhaldsföngum gefinn kostur á að umgangast aðra fanga að svo miklu leyti sem kostur er. Í 16. og 17. gr. reglugerðarinnar eru síðan ákvæði um einangrun gæsluvarðhaldsfanga. Getur forstöðumaður fangelsis ákveðið samkvæmt b. lið 17. gr. að fangi skuli hafður í einangrun ef það telst nauðsynlegt til að koma í veg fyrir ofbeldi fangans. Þá er samkvæmt 2. mgr. sömu greinar heimilt að grípa til þessa úrræðis til bráðabirgða ef það telst nauðsynlegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga eða með tilliti til hegðunar gæsluvarðhaldsfanga. Má þá einangrun standa á meðan um málið er fjallað þar til ákvörðun forstöðumanns liggur fyrir.
Í héraðsdómi er tekinn upp orðréttur hluti úr áðurnefndri geðheilbrigðisrannsókn. Hún bar ekki með sér að nauðsynlegt væri að vista fangann í einangrun vegna hættu á ofbeldi af hans hálfu og framkoma hans fyrir árásina á áfrýjanda gerði það ekki heldur. Þá var áfrýjandi sjálfur spurður fyrir dómi um samskipti hans við hinn fangann þær vikur, sem þeir umgengust hvor annan í gæsluvarðhaldi fram til 29. júní 1994. Svaraði hann því til að þau hefðu verið mjög góð og að fanginn „virkaði fullkomlega heilbrigður fyrir mig.“ Sérstaklega spurður um síðustu dagana fyrir árásina sagði áfrýjandi að „hann virkaði fullkomlega eðlilegur fyrir mér.“
Samkvæmt framanröktu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á með stefnda að ekkert sé fram komið í málinu, sem leitt getur til þess að hann verði látinn bera ábyrgð á tjóni áfrýjanda. Verður héraðsdómur samkvæmt því staðfestur.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ólafs Gunnarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 15. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Gunnarssyni, kt. 200455-3049, Barmahlíð 53, Reykjavík, með stefnu birtri 10. september 1998 á hendur íslenska ríkinu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að íslenska ríkinu verði gert að greiða honum kr. 12.055.560 með 2% ársvöxtum frá 29.06.1994 til 18.03.1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þær dómkröfur, að íslenska ríkinu verði gert að greiða honum kr. 9.347.354 með 2% vöxtum frá 29.06.1994 til 18.03.1997, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara gerir stefnandi kröfu um aðra og lægri fjárhæð að mati dómsins, auk vaxta og dráttarvaxta, svo sem mælt er fyrir um í aðalkröfu og varakröfu. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins, en til vara, að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar, og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
Málavextir:
Málsatvik eru þau, að þann 29. júní 1994 var stefnandi vistaður sem gæzluvarðhaldsfangi í Síðumúlafangelsi vegna brots á 1. mgr. 155. gr. og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á sama tíma var þar vistaður Bernard Granotier, franskur ríkisborgari, vegna gruns um íkveikju. Voru þeir báðir vistaðir á svokölluðum “lausagangi”, þar sem fangar eru án sérstaks eftirlits og geta haft samneyti sín á milli. Um kl. 800 þann 29. júní 1994 voru klefar á lausagangi opnaðir af fangaverði, sem einnig gekk úr skugga um að fangar væru vaknaðir. Var Bernard þá klæddur og sat uppréttur í rúmi sínu. Stefnandi lá hins vegar í rúmi sínu, en fangaverði virtist hann vera vakandi. Eftir að hafa opnað klefana yfirgaf fangavörður lausagang. Skömmu síðar réðst Bernard að stefnanda, þar sem hann lá í klefa sínum og barði hann í andlit með kaffikönnu, þannig að hún brotnaði. Lýsir stefnandi árásinni svo, að Bernard hafi einnig rifið harkalega í háls hans og bitið hann í hálsinn hægra megin, auk þess að veita honum fleiri áverka. Fangaverðir, sem voru þá í varðstofu og eldhúsi, heyrðu dynk, óp og köll um kl. 825 og brugðust þegar við stefnanda til hjálpar og losuðu Bernard af honum. Kallað var á sjúkrabifreið, og var stefnandi fluttur með henni á slysadeild. Í áverkavottorði frá slysa- og bæklunardeild Borgarspítalans kemur fram, að stefnandi hafi verið illa leikinn, með marga skurðáverka í andliti, mar yfir hægri kjálka og hægra megin á hálsi. Er áverkum lýst nánar í vottorðinu.
Stefnandi kveðst vera haldinn nær stöðugum höfuðverk eftir árásina, aðallega vinstra megin í enni, upp á hvirfil og aftur í hnakka, sem versni við allt álag, andlegt og líkamlegt. Sé hann einnig dofinn á efri vör og efri góm vinstra megin og í kinnbeini niður að munnviki. Hafi hann stöðugan þrýsting á tannhold vinstra megin og ofan til í munnholi. Þá kveðst hann vera haldinn geðrænum einkennum og persónuleikabreytingum eftir árásina, sem einkum birtist í þunglyndi, félagslegri einangrun, vonleysi og framtaksleysi. Séu vitræn einkenni aðallegar einbeitingarskortur á yrt, málbundið efni og skert minni á yrt efni, varðandi vistun, geymslu og endurheimt, auk þess sem erfiðleikar við að læra nýtt efni séu umtalsverðir.
Að beiðni stefnanda mat Björn Önundarson læknir örorku hans, og er matið dags. 18. október 1996. Er niðurstaða hans sú, að stefnandi búi við verulegan, og að því er bezt verði séð, varanlegan heilsubrest vegna afleiðinga árásarinnar. Metur læknirinn varanlegan miska stefnanda, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 65%, og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga einnig 65%. Þá telur læknirinn stefnanda hafa verið veikan, rúmliggjandi í 7 daga eftir árásina, en veikan, án þess að vera rúmfastur, í 90 daga.
Óskað var eftir mati örorkunefndar, og er álitsgerð hennar dags. 30. nóvember 1999. Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu, að varanlegur miski stefnanda vegna líkamsárásarinnar sé 25% og varanlega örorka 25%.
Að beiðni stefnanda voru því næst dómkvaddir tveir matsmenn til að meta varanlega örorku hans og miska. Er matsgerð þeirra dags. 20. marz 2000. Er niðurstaða þeirra sú, að varanlegur miski sér hæfilega ákveðinn 25%, varanleg örorka 30%, þjáningabætur hæfilega metnar í 12 mánuði án þess að vera rúmliggjandi, og rúmliggjandi hafi hann verið frá 29.06.1994 til 05.07. s.á.
Bótakröfu sína á hendur stefnda byggir stefnandi á því, að gæzla Bernards Granotiers hafi verið óverjandi og til þess fallin að valda stefnanda tjóni með tilliti til geðræns ástands Bernards.
Aðila greinir á um bótaábyrgð og bótafjárhæð.
II.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að líkamstjón hans megi rekja til stórfellds gáleysis fangavarða og/eða lögreglu- og fangelsismálayfirvalda, þar sem þeir hafi vitað eða mátt vita, að Bernard Granotier væri stórhættulegur umhverfi sínu og því hafi verið með öllu óverjandi að vista hann án sérstaks eftirlits á svokölluðum. “lausagangi” með stefnanda. Hafi legið fyrir, að Bernard hefði verið gert að sæta geðrannsókn, sbr. Hrd. 1994:1154, þar sem ástæða hafi þótt til að efast um sakhæfi hans, m.a. vegna þess að hann hefði, árið 1987, verið dæmdur í Noregi fyrir brot gegn þarlendum hegningarlögum, en ekki gerð refsing sökum geðveiki og ákæruvaldi veitt heimild til að grípa til öryggisaðgerða gagnvart honum í 10 ár.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til geðheilbrigðisrannsóknar Hannesar Péturssonar forstöðulæknis, dags. 20. júní 1994, sem afhent hafi verið settum varðstjóra í Síðumúlafangelsi þann 27. júní 1994, tveimur dögum fyrir árásina. Þar komi fram, að veikindi Bernards séu alvarleg og sakhæfi hans skert. Komi þar einnig fram, að vegna þess hversu hann eigi erfitt með sjálfsstjórn, geti viðbrögð hans við aðstæðum orðið óvænt og heiftarleg. Þá segi, að veikindi Granotier séu “... langvarandi og alvarleg og hafa á stundum skert dómgreind hans og sjálfsstjórn og viðbrögð geta því orðið óvænt og afdrifarík.”
Í skýrslutöku yfir Einari Andréssyni, varðstjóra í Síðumúlafangelsi, komi fram, að fenginn hafi verið aukamaður á vakt að hans beiðni kvöldið fyrir nefnda árás, þar sem honum hafi þótt hegðun Bernards undarleg og hann óvenju ör í skapi undanfarna þrjá daga. Segi einnig í skýrslu Sigmars Hjartarsonar fangavarðar, að fangavörðum hafi þótt hegðun Bernards þannig undanfarna daga, að ástæða væri til að fylgjast sérstaklega með honum.
Þrátt fyrir það sem fram komi í framangreindri geðheilbrigðisrannsókn um Bernard Granotier, og jafnvel þótt fangaverðir hafi gert sér grein fyrir undarlegu háttalagi hans, hafi hann verið skilinn eftir án eftirlits á svokölluðum “lausagangi” með stefnanda morguninn 29. júní 1994, þegar fullt tilefni hafi verið til að hafa hann í einangrun eða undir stöðugu eftirliti fangavarða. Eftir að fangaverðir höfðu opnað klefa hans, hafi þeir hins vegar farið inn í varðstofu, þar sem þeir hlustuðu á útvarp og spjölluðu saman. Hafi því enginn þeirra verið nálægur, þegar Bernard Granotier réðst með grimmilegum hætti að stefnanda, þar sem hann lá í rúmi sínu.
Stefnandi kveður sýnt, að gæzla Bernards Granotier hafi verið óverjandi og til þess fallin að valda stefnanda tjóni, þar sem bæði geðheilbrigðisrannsóknin og hegðun Bernards síðustu daga fyrir árásina hafi gefið sterklega til kynna, að hann gæti verið hættulegur umhverfi sínu. Samkvæmt geðheilbrigðisrannsókninni sé niðurstaðan sú, að Bernard Granotier hafi verið ósakhæfur, en áður hafi norskir dómstólar komizt að sömu niðurstöðu, og hafi bæði lögreglu- og fangelsismálayfirvöldum hér á landi verið kunnugt um það. Vegna þessa hafi verið nærtækast að vista hann á geðdeild eða á réttargeðdeildinni að Sogni fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Að vista hann, án sérstaks eftirlits, með stefnanda hljóti a.m.k. að teljast með öllu óverjandi. Á nefndum mistökum starfsmanna sinna beri íslenska ríkið bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.
Stefnandi hafi verið vistaður samkvæmt ákvörðun og á ábyrgð yfirvalda í Síðumúlafangelsi. Hljóti þau því að bera ábyrgð á tjóni, sem hann varð fyrir vegna árásar Bernhards Granotier, sem þrátt fyrir allt hafi verið vistaður þar með honum, án sérstaks eftirlits. Hafi honum verið vísað úr landi skömmu eftir greinda árás, og eftir því sem næst verður komizt, hafi hann þegar verið lagður inn á sjúkrastofnun fyrir ósakhæfa afbrotamenn í heimalandi sínu, Frakklandi, við komuna þangað.
Aðalkrafa stefnanda sundurliðast sem hér segir:
l. Þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga kr.291.130
2.Miskabætur skv. 4. gr. skaðabótalaga kr.2.855.881
3.Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga kr.8.908.253
Samtals kr.12.055.264
Þá sé krafizt 2% vaxta frá slysdegi til 18. marz 1997, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, eða mánuði eftir að kröfubréf var sent dóms- og kirkjumálaráðherra.
Krafa um þjáningarbætur styðjist við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en samkvæmt mati Björns Önundarsonar læknis hafi stefnandi verið rúmfastur í sjö daga, en veikur, án þess að vera rúmfastur, í 90 daga. Í samræmi við það mat sé gerð krafa um kr. 291.130 í þjáningarbætur (7x1.440 + 365x770).
Miskabótakrafa styðjist við 4. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt nefndu mati Björns Önundarsonar teljist miski stefnanda 65% vegna afleiðinga árásarinnar. Í samræmi við það sé gerð krafa um miskabætur, að fjárhæð kr. 2.855.881 (4.000.000 x 3605/3282 x 65%).
Þá sé gerð krafa um bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5., sbr. 6., 7. og 9. gr. skaðabótalaga. Björn Önundarson hafi metið varanlega örorku stefnanda 65% vegna líkamsárásarinnar. Stefnandi hafi setið í fangelsi í u.þ.b. 3 ár frá 2. september 1993. Þar sem hann hafi engar vinnutekjur haft næstliðið ár fyrir 29. júní 1994 verði að meta árslaun hans samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi hafi lokið grunnskólaprófi, en hann hafi auk þess lokið einni önn í Iðnskólanum í Reykjavík á tölvu- og viðskiptabraut. Hann hafi m.a. unnið við rafmagnsstörf í Svíþjóð um tveggja ára skeið og í 8 ár á skrifstofu hjá Landssambandi byggingamanna. Síðustu árin áður en stefnandi fór í fangelsi, hafi hann hins vegar verið að mestu til sjós, þar sem hann hafi unnið á fraktskipum, fiskiskipum og hjá Landhelgisgæzlunni. Vegna áverka, sem stefnandi hlaut af framangreindri árás, hafi hann hins vegar lítið getað unnið, hvort sem sé til lands eða sjós. Þegar tekjur stefnanda séu metnar, þyki því rétt að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna, þar sem ekki séu til aðgengilegar upplýsingar um meðaltekjur sjómanna, hvorki hjá opinberum aðilum né aðilum vinnumarkaðarins. Sé sú tekjuviðmiðun í raun hófleg, að teknu tilliti til reynslu stefnanda. Samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar hafi meðallaun iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu numið kr. 1.863.00 á ári næstliðið ár fyrir tjón stefnanda. Að meðtöldu 6% mótframlagi til lífeyrissjóðs nemi áætlaðar tekjur hans samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga því samtals kr. 1.975.098. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku nemi því, samkvæmt 6., sbr. 9. og 15. gr., skaðabótalaga, samtals kr. 8.908.253 (1.975.098 x 3605/3351 x 7,5 x 65% x 86%).
Verði ekki fallizt á framangreinda tekjuviðmiðun, leggi stefnandi til vara til grundvallar laun verkamanna, en samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknarnefndar hafi meðallaun verkakarla á höfuðborgarsvæðinu næstliðið ár fyrir tjón hans numið kr. 1.333.500. Að meðtöldu 6% mótframlagi í lífeyrissjóð geri það samtals kr. 1.410.330. Nemi varakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku því samtals kr. 6.360.989 (1.410.330 x 3605/3351 x 7,5 x 65% x 86%) og varakrafa í heild kr. 9.508.000 (6.360.989 + 2.855.881 + 291.130).
Stefnandi hafi sett fram bótakröfu á hendur íslenska ríkinu með bréfi, dags. 18. febrúar 1997. Hafi bótaskyldu íslenska ríkisins verið hafnað með bréfi ríkislögmanns, dags. 8. apríl 1997. Af þeim sökum sjái stefnandi sig knúinn til að höfða mál þetta fyrir dómstólum.
Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til almennu skaðabótareglunnar (sakarreglunnar) og almennra reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993.
Dráttarvaxtakafa er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.
Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði er byggð á 1. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður stefnda:
Aðalkrafa:
Stefndi kveður Bernard Granotier hafa verið færðan í Síðumúlafangelsið vegna rannsóknar á íkveikju þann 28. apríl 1994. Hann hafi verið vistaður þar í einangrun til 20. maí 1994 vegna rannsóknarhagsmuna. Eftir það hafi einangrun verið aflétt og hann fluttur á fremri gang, þar sem stefnandi var einnig vistaður. Hegðun Bernards Granotier hafi yfirleitt verið góð, að sögn fangavarða, og sveiflur í skapi og þunglyndiseinkenni á stundum hafi ekki gefið ástæðu til, að fanginn væri, vegna öryggis fangelsis, einangraður frá öðrum föngum. Settum varðstjóra, Einari Andréssyni, hafi hins vegar þótt ástæða til, vegna öryggis Bernards sjálfs, að geta þess í dagbók 27. júní, að fylgzt skyldi vel með honum vegna ranghugmynda hans og þunglyndis.
Geðheilbrigðisrannsókn Hannesar Péturssonar forstöðulæknis á dskj. nr. 16 hafi borizt settum varðstjóra í Síðumúlafangelsi sem trúnaðarmál frá Erni Clausen, lögmanni Bernards, kl. 1615 þann 27. júní 1994. Skýrslan muni ekki hafa borizt Fangelsismálastofnun ríkisins fyrr en eftir atburðinn. Fangaverðir hafi kynnt sér efni skýrslunnar, eftir því sem vaktir þeirra gáfu tilefni til, fyrir 29. júní. Hafi fátt komið fram í samantekt geðlæknisins, sem hafi komið fangavörðum á óvart, sem höfðu umgengizt Bernard um nokkurra vikna skeið, sbr. frásögn af upplýsingum fengnum hjá fangavörðunum, Sigmari Hjartarsyni og Rúnari Harðarsyni, neðst á bls. 8 - 9, um hegðun Bernards, þar sem fram komi, að svefn og matarvenjur hafi verið innan eðlilegra marka, og þeir hafi ekki getað merkt neina hegðun, er gat gefið vísbendingu um sturlun (pcychosis).
Samkvæmt framburði fangavarða og stefnanda fyrir lögreglu, sbr. dskj. 5 og 8, hafi samkomulag milli hans og Bernards Granotier verið með bezta móti á lausaganginum. Engum sögum hafi farið af ósætti eða illindum þeirra á milli eða einhverju, sem hefði valdið því, að stefnandi óttaðist hann, eða að starfsmenn sæju ástæðu til að stía þeim í sundur, eða gæta þess sérstaklega, að hann yrði ekki fyrir árás eða áreitni af hálfu Bernards Granotier. Þvert á móti beri mönnum saman um, að stefnandi hafi lagt sig fram við að aðstoða hann við bréfaskriftir og annað, ýmist inni í klefa hans, eða í sínum klefa.
Um aðdraganda árásar Bernards Granotier á stefnanda liggi ekki annað fyrir en frásögn stefnanda sjálfs í lögregluskýrslu. Í framburði hans komi fram, að hann telji sig hafa sofið fast, eða verið þungan vegna lyfjanotkunar, og því hafi hann verið seinn til að vakna og bregðast við árásinni. Samkvæmt athugun Fangelsismálastofnunar á lyfjaskrá fangelsisins hafi stefnandi verið á morgunlyfjum, sem hann hafi ekki verið búinn að fá kl. 825, en einu kvöldlyfin, sem hann fékk, hafi verið 2 stk. 25 mgr. phenergan, sem ekki sé skilgreint sem svefnlyf.
Samkvæmt læknisvottorði Helga Kristbjarnarsonar fangelsislæknis frá 1. júlí 1994, hafi hann litið á Bernard að morgni 29. júní. Hafi hann ekki verið ógnandi, en hins vegar frábitinn allri samvinnu og hafi marglýst því yfir, að stefnandi væri glæpamaður, sem hefði átt þetta skilið. Hvorki hafi komið fram merki um truflun í hugsanagangi, né greinileg sturlunareinkenni.
Í niðurstöðu geðheilbrigðisrannsóknar komi fram það álit geðlæknis, að Bernard hefði verið haldinn geðhvarfasýki sl. tvo áratugi, sem líklega hafi einkennzt af sveiflukenndu ferli, þar sem oflæti hafi verið mest áberandi, en á stundum fylgt mismunandi löng þunglyndistímabil. Í skýrslu geðlæknisins hafi hins vegar ekki verið að finna neinar upplýsingar eða vísbendingar í þá veru að búast mætti við, að sjúkdómur Bernards Granotier gæti brotizt út í beitingu alvarlegs, líkamlegs ofbeldis gagnvart öðrum, þó að hann ætti sögu um íkveikjur. Verði þannig ekki á það fallizt, að upplýsingar, er lágu fyrir um heilbrigðisástand hans eða hegðun hans fyrir atburðinn og um morguninn, hafi mátt gefa fangavörðum tilefni til að ætla, að hann gæti verið öðrum föngum hættulegur.
Sé þannig ekki unnt að fallast á, að gæzla á Bernards Granotier í Síðumúlafangelsinu hafi verið óverjandi, þannig að varðað geti bótaábyrgð. Samkvæmt því sé því hafnað, að skaðabótaskylda ríkisins sé fyrir hendi.
Varakrafa:
Stefndi mótmælir örorkumati, er stefnukröfur grundvallist á, sem röngu og allt of háu. Gildi það jafnt varðandi mat á miska sem varanlegri örorku.
Í örorkumati sé komizt að þeirri niðurstöðu, að stefnandi sé líkamlega hamlaður til erfiðari starfa vegna verkja frá stoðkerfi, einkum hálshluta hryggjar og mjóhluta hryggjar. Enn fremur til skrifstofustarfa vegna andlegrar heilsu sinnar, varðandi geðræn einkenni, persónuleikabreytingar, svo og skerðingu á vitrænu starfi. Þannig sé hann óhæfur til flestra starfa.
Ekki verði séð, að lýsingar á einkennum séu í samræmi við þau læknisvottorð, er liggi fyrir um afleiðingar árásarinnar og meðferð í kjölfar hennar. Í því sambandi sé vakin athygli á vottorðum Borgarspítala á dskj. 6 og 18 og CT rannsókn frá 2/8 1994, sbr. fskj. með dskj. 17 og upplýsingum í vottorði fangelsislæknis frá ágúst 1995 á dskj. nr. 17, en þar komi fram, að á þeim tíma, er stefnandi sat á Litla-Hrauni, fram til 21. júlí 1995, hafi hann verið til meðferðar hjá augnlækni og tannlækni, en annars hafi hann virzt við góða líkamlega líðan, en andlega stundum dálítill taugaóróleiki. Án nokkurra læknisfræðilegra gagna sé lagt til grundvallar í örorkumati og taugasálfræðilegu mati, að lyktar- og bragðskyn sé skert. Engra gagna njóti þó við um það, að stefnandi hafi, eftir árásina, verið til meðferðar hjá háls- nef og eyrnalækni, er hafi framkvæmt skoðanir og prófanir með tilliti til þess. Örorkumatið beri með sér, að ekki hafi farið fram sjálfstæð könnun á því, hvort til séu gögn varðandi fyrri sjúkrasögu stefnanda. Sé í því efni byggt á einhliða frásögn hans og gildir hið sama í hinu taugasálfræðilega mati frá 16. október 1996, að þar séu einhliða upplýsingar stefnanda og þáverandi eiginkonu hans, sem sé ekki sú, sem hann var giftur 1993 - 1995, sbr. framtöl 1994 - 1996, lagðar til grundvallar varðandi þær breytingar, er orðið hafi á honum eftir árásina. Vakin sé athygli á því, að frásögn stefnanda fyrir taugasáfræðingi um hagi sína í gæzluvarðhaldinu og árásina, sé vægast sagt skrautleg og í engu samræmi við gögn málsins. Gildi hið sama um þær upplýsingar hans, að upphaf þess, að hann komst í kast við lög, hafi verið mál það, sem hafi verið ástæða gæzluvarðhaldsins. Allt aðra sögu sé að lesa úr dómasafni Hæstaréttar. Af dómum Hæstaréttar 1987 á bls. 203 - 210, þar sem staðfestir hafi verið þrír gæzluvarðhaldsúrskurðir yfir stefnanda og tveimur öðrum mönnum, komi fram, að í byrjun þess árs hafi hann verið handtekinn við komu til landsins frá Kaupmannahöfn með tæplega 500 gr. af hassi í fórum sínum. Í dómi Hæstaréttar 9. desember 1993 á bls. 2262, þar sem staðfest hafi verið framlenging á gæzluvarðhaldi stefnanda, komi fram, að hinn 18. janúar 1993 hafi stefnandi verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið í eitt ár vegna fyrri brota á fikniefnalöggjöf. Gæzluvarðhald stefnanda nú komi til vegna rannsóknar á ákæru, er laut að tímabilinu 1992/1993, sbr. Hrd. 1994:213. Er árásin átti sér stað, hafi stefnandi sætt gæzluvarðhaldi í kjölfar héraðsdóms, er kveðinn hafi verið upp 20. júní 1994, unz ákvörðun hefði verið tekin um það, hvort áfrýja skyldi dóminum, sbr. dóm Hæstaréttar 24. júní 1994 bls. 1539. Með dómi héraðsdóms hafi stefnandi verið dæmdur í fangelsi í fjögur ár og sex mánuði, og hafi verið um að ræða sakfellingu fyrir stórfelld brot. Af hálfu stefnda sé, í ljósi alls framangreinds, talið nauðsynlegt, að örorkunefnd leggi mat á varanlegan miska og varanlega örorku.
Tölulegum forsendum í útreikningi stefnanda sé einnig mótmælt. Af hálfu stefnanda sé aðallega byggt á viðmiðun við meðaltekjur iðnaðarmanna, en til vara við tekjur verkamanna. Sé því mótmælt, að á þeim verði byggt. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að leggja til grundvallar upplýsingar um vinnutekjur næstu árin á undan, séu þær fyrir hendi. Þá er tímaviðmiðun vísitölu mótmælt, en stefnandi höfði mál þetta í september, og hafi viðmiðunarvísitala þá verið 3605 stig en ekki 3625, eins og gengið sé út frá í útreikningi hans.
Kröfum um þjáningarbætur í 97 daga, sem ekki eigi stoð í vottorðum um læknismeðferð á tímabilinu umfram dagana 29/6 - 5/7, sé mótmælt sem of háum.
Upphafstíma dráttarvaxta sé mótmælt.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur vitnin, Einar Andrésson fangavörður, Sigmar Hjartarson kennari, Ragnar Magnús Hauksson umsjónarmaður, Einar Loftur Högnason fangavörður, Helgi Kristbjarnarson læknir, Þuríður Jóhanna Jónsdóttir taugasálfræðingur, Stefán Már Stefánsson prófessor og Atli Þór Ólason læknir.
Með hliðsjón af framburði Einars Andréssonar, Sigmars Hjartarsonar, Ragnars Haukssonar og Einars Lofts Högnasonar fyrir dómi og hjá lögreglu, sbr. og framburð stefnanda fyrir dómi, þykir upplýst, að fanginn Bernard Granotier réðst, að því er virðist að tilefnislausu og án nokkurs aðdraganda með hrottalegum hætti á stefnanda, þar sem hann lá í rúmi sínu. Fangaverðir munu hafa heyrt læti gegnum hátalarakerfi fangelsisins og brugðist við þegar í stað. Fyrstur á vettvang mun hafa verið Rúnar Harðarson fangavörður, sem sneri þegar við til að kalla eftir hjálp með aðstoð neyðarhnapps. Á hæla honum komu þeir Ragnar Hauksson og Sigmar Hjartarson og tókst þeim að yfirbuga árásarmanninn, setja hann í járn og færa hann í öryggisklefa.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að tjón hans megi rekja til stórfellds gáleysis við vistun og eftirlit með gæzlufanganum Bernard Granotier. Vísar stefnandi, máli sínu til stuðnings, einkum til geðheilbrigðisrannsóknar Hannesar Péturssonar læknis á fanganum, dags. 20.06.1994, sem og til hegðunar fangans dagana fyrir árásina.
Umrædd geðheilbrigðisrannsókn liggur fyrir í málinu á dskj. nr. 16. Er þar rakin persónusaga Bernards og geðsaga. Álitsgerð þessi var unnin að beiðni rannsóknarlögreglu ríkisins í tengslum við íkveikju, sem Bernard var grunaður um að hafa framið. Samkvæmt framburði Einars Andréssonar afhenti Örn Clausen hrl. vitninu skýrsluna tveimur dögum fyrir árás þá, sem hér er fjallað um, þar sem í henni var vitnað í tvo fangaverði, sem unnu í Síðumúlafangelsinu. Er í skýrslunni m.a. að finna sögu um rúðubrot, tilraun til flugvélaráns með ímyndaðri byssu, íkveikjur, skapofsa og ranghugmyndir. Þá kemur fram, að Bernard hafi nokkrum sinnum verið vistaður á geðsjúkrahúsum, verið sviptur sjálfræði í Frakklandi árið 1978 og verið vistaður í öryggisgæzlu í Noregi árið 1987. Í kafla álitsgerðarinnar, sem fjallar um geðskoðun segir svo m.a.:
“Bernard var fremur málgefinn en ekki greindust nein merki um hugarflug. Geðslag hans einkenndist nokkuð af spennu og það var stutt í pirring og reiði. ..... Einnig örlaði á stórmennskuhugmyndum, þó ekki væri hægt að greina með vissu ranghugmyndir þess efnis. ..... Hann virtist fremur spenntur og í viðtali við Rúnar Harðarson og Sigmar Hjartarson, starfsmenn í fangelsinu við Síðumúla, kom fram að undanfarið hefur borið meira á spennu hjá Bernard, hann verður pirraður og æsir sig upp út af smámunum. Að öðru leyti hefur Bernard verið rólegur, kurteis og nákvæmur í öllum háttum. Ekki er vitað til annars en að svefn og matarvenjur séu innan eðlilegra marka og framangreindir starfsmenn hafa ekki merkt neina hegðun sem gæti gefið vísbendingu um sturlun (psychosis).
Bernard hefur virzt fyllilega áttaður á stað og stund og eigin persónu. Hann virðist reyna að halda aftur af einkennum sjúkdóms sín, en það er erfitt að meta að hve miklu leyti hann hefur innsæi í veikindi sín og aðstæður.”
Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar segir svo m.a.:
“Að mati undirritaðs hefur Bernard Granotier verið haldinn formlegum geðsjúkdómi (psychosis maniodepressiva) að líkindum að minnsta kosti tvo undanfarna áratugi. Af mennta- og starfsferli hans ásamt almennri þekkingu má ráða að greindarstig hans er að minnsta kosti í meðallagi og að líkindum nokkuð hærra. Þó erfiðlega hafi gengið að afla upplýsinga um sjúkdómsferil, en Bernard var því m.a. mótfallinn að undirritaður hefði samband við lækna hans í Frakklandi, þá er ljóst að hann hefur til margra ára átt við að stríða alvarleg sjúkdómseinkenni. Geðhvarfasýki (psychosis maniodepressiva) einkennist oftast af mislöngum tímabilum þar sem skiptast á tímabil oflætis (mania) og þunglyndis. Blönduð sjúkdómsmynd er einnig þekkt. Af þeim takmörkuðu upplýsingum sem liggja fyrir virðist sjúkdómur Bernards hafa einkennst af sveiflukenndum ferli þar sem oflæti hefur verið mest áberandi en einnig er líklegt að á stundum hafi fylgt mismunandi löng þunglyndistímabil. Oflætisástand einkennist m.a. af hröðum hugsanagangi, hömluleysi og skertri dómgreind og raunveruleikamati. Hugsanlegt er að á veikindatímabilum upplifi viðkomandi einstaklingur ranghugmyndir auk hefðbundinna oflætiseinkenna. Svefnörðugleikar, ofvirkni og óróleiki eru oft samfara sveiflóttu geðslagi sem getur lýst sér í reiði og æsingi. Við þessar aðstæður er oft erfitt að tryggja nægilega samvinnu, sérstaklega í sambandi við reglubundnar lyfjagjafir og hefur það að líkindum háð Bernard verulega á undanförnum árum.
Það er álit undirritaðs að á þeirri stundu er verknaður sá gerðist er Bernard er nú grunaður um hafi sjúkdómseinkenni verið talsvert áberandi. Sú niðurstaða byggist á viðtali og skoðun undirritaðs á Bernard, en enn fremur á bréfum hans og öðrum skriflegum gögnum auk framburðar vitna. Það er einnig mat undirritaðs að geðslag Bernardas hafi verið sjúklegt á þeirri stundu er framangreindur verknaður átti sér stað, þó ekki sé hægt að fullyrða um það hvort ranghugmyndir hafi verið til staðar eða að hve miklu leyti dómgreind og raunveruleikamat hafi verið skert. Verði Bernard hins vegar fundinn sekur um þann verknað er hann er grunaður um er ljóst að veikindi hans hafa orðið til þess að hann hefur átt erfitt með sjálfsstjórn og að viðbrögð hans við aðstæðum hafi orðið óvænt og eins heiftarleg og raun ber vitni.”
Ekki verður ráðið af niðurstöðu álitsgerðarinnar eða geðsögu Bernards, sem í álitsgerðinni er rakin, að hann hafi verið almennt ofbeldishneigður, þannig að búast mætti við viðbrögðum frá honum í þá veru sem stefnandi varð fyrir, og kemur reyndar engin bein saga fram þar um líkamlegt ofbeldi. Ekki er fallizt á, að álitsgerðin gefi tilefni til að ætla, að nauðsynlegt hafi verið að hafa sérstakar gætur á Bernard vegna hættu á að hann myndi skaða samfanga sinn eða starfsmenn fangelsins. Þá gefur sjúkdómsgreiningin, sem þar kemur fram, ein og sér, ekki tilefni til þess.
Aðspurðir um þá aukavakt, sem fengin var í fangelsið vegna breytinga á hegðun Bernards skýrði Einar Andrésson svo frá, að hann hafi virzt orðinn undarlegur í háttum, og þeir hafi óttazt, að hann kynni að skaða sjálfan sig, en hann hafði orðið fyrir áfalli daginn fyrir árásina, þegar honum hafði verið kynnt brottvísun úr landi. Í sama streng tók Sigmar Hjartarson. Báðir báru þeir, að samband og samkomulag Bernards við stefnanda hefði verið mjög gott, og hefði stefnandi m.a. aðstoðað Bernard við bréfaskriftir. Stefnandi bar sjálfur fyrir dómi, að samskipti hans og Bernards hefðu verið mjög góð, hann hefði m.a. lánað Bernard aðgang að tölvu sinni, og Bernard hefði virkað fullkomlega heilbrigður á hann. Þeir hefðu verið saman í 3-4 mánuði í fangelsinu, og hann hafði ekki tekið eftir neinum breytingum á Bernard, hvorki þegar til lengri tíma var litið né heldur fyrir árásina. Þá kvaðst stefnandi aðspurður ekki hafa tekið eftir neinu sérkennilegu í fari Bernards, þegar hann kom fyrst inn í klefa hans um morguninn, sem árásin var gerð. Hann hafi komið inn í klefann skömmu eftir að klefadyrnar voru opnaðar kl. 8 um morguninn, og kvaðst stefnandi hafa vaknað við það. Bernard hafi þá spurt hann, hvort hann væri sofandi, og hafi stefnandi jánkað því. Hafi Bernard þá sagzt ætla að kíkja inn seinna.
Einar Andrésson lýsti Bernard þannig, að hann hafi alltaf verið ákaflega kurteis og virzt nákvæmur. Hann hafi ekki talað mikið umfram það nauðsynlegasta, en hann hafi lengst af verið þægilegur í umgengni.
Sigmar Hjartarson lýsti honum sem nákvæmum, rólegum og útreiknanlegum, en seinustu dagana hafi hann virzt örari, sneggri, hreyfingar hans hafi verið öðruvísi en venjulega, hann hafi verið smámunasamari og sýnt greinilegar breytingar, án þess að fyrirséð væri, hvert þær stefndu. Það hafi verið erfitt að benda á eitthvert sérstakt atferli. Hann kvað Bernard hafa setið alkæddan uppi í rúmi, þegar hann opnaði klefadyr hans um morguninn, sem árásin var framin. Hann hafi verið mjög rólegur, frekar glaðlegur og tekið undir kveðju fangavarðarins. Vitnið kvað það örugglega ekki hafa verið vana Bernards að vera svona brattur á morgnana. Hann hafi verið búinn að ganga frá öllu í klefanum, uppbúið rúmið, og hafi vitninu fundizt það ánægjulegt, því hann hafi verið hýrari í bragði en hann hafði verið áður, og hafi vitnið ekki greint nein hættumerki. Fas hans hafi virzt afskaplega rólegt og ástand hans stöðugt.
Með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem liggja fyrir um sjúkra- og atferlissögu Bernards Granotiers og hegðun hans í fangelsinu bæði til lengri tíma litið, sem og til daganna fyrir atvikið, samskipta hans við stefnanda almennt, sem og við fangaverði, er ekki fallizt á, að fangavörðum eða fangelsisyfirvöldum hafi mátt vera ljós sú hætta, sem af fanganum stafaði og í ljós kom að morgni 29. júní 1994, er hann réðst að samfanga sínum, stefnanda þessa máls. Fangavarzla hafði verið styrkt að deginum með tilliti til skapgerðarbreytinga fangans, og voru fangaverðir þá fremur með í huga eigið öryggi fangans sem og öryggi fangavarðanna, enda ekkert í samskiptum fanganna tveggja, sem gaf vísbendingu um, að stefnanda gæti stafað hætta af samfanga sínum, svo sem rakið hefur verið. Er því ekki fallizt á að fangaverðir, lögreglu- eða fangelsismálayfirvöld hafi sýnt stófellt gáleysi við vistun og/eða gæzlu fangans Bernards Granotiers. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 900.000, þ.m.t. útlagður kostnaður. Ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn, en uppkvaðning hans hefur dregizt vegna embættisanna dómarans.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Ólafs Gunnarssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 900.000, greiðist úr ríkissjóði.