Hæstiréttur íslands
Mál nr. 843/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ærumeiðingar
- Þjófnaður
- Hegningarauki
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2015. |
|
Nr. 843/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Ærumeiðingar. Þjófnaður. Hegningarauki. Skilorð. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir fimm líkamsárásir gegn fyrrum sambýliskonu sinni, A, sem talin voru varða við 1. mgr. 217. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. I. kafla ákæru, stórfelldar ærumeiðingar í hennar garð sem taldar voru varða við 233. gr. b. sömu laga, sbr. II. kafla ákæru, svo og þjófnað með því að hafa í tvígang millifært í heimildarleysi í gegnum heimabanka A peninga af bankareikninga hennar inn á eigin reikning, sbr. III. kafla ákæru. Hæstiréttur taldi sannað að X hefði gerst sekur um líkamsárásir samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gagnvart A samkvæmt 1. og 3. tölul. I. kafla ákæru. Héraðsdómur hafði sýknað X af ákæru um líkamsárás samkvæmt 2. tölul. I kafla ákærunnar og kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar fyrir réttinum. Þá var X sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 4. tölul. sem varðaði einnig við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá var X sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga samkvæmt 5. tölul. I. kafla ákærunnar, en um það sagði í dómi Hæstaréttar að þótt ekki væri fram komið að áverkar A hefðu haft varanlegar líkamlegar afleiðingar fyrir hana væri aðferð X, sem þá var á sokkaleistunum, við árásina sérstaklega hættuleg í ljósi þess að við spörk hans hefði höfuð A slegist utan í járnfót eða grind rúms. Í II. kafla ákærunnar voru X gefnar að sök stórfelldar ærumeiðingar annars vegar með þeim líkamsárásum sem greindi í I. kafla ákærunnar og hins vegar með því að hafa ítrekað móðgað og smánað A á sambúðartíma þeirra með því að tala niðrandi til A og um fjölskyldumeðlimi hennar. Hvað síðargreinda háttsemi varðaði taldi Hæstiréttur að hvorki yrði nægilega afmarkað hvernig X hefði almennt móðgað og smánað A, þannig að því yrði slegið föstu að það yrði metið sem stórfelldar ærumeiðingar, né væri getið hvaða orð X yrði gefið að sök að hafa látið falla í þessu samhengi. Var X því sýknaður af ákærunni að þessu leyti. Á hinn bóginn var af framkomu X í garð A og ummælum hans í hennar garð talið að leggja bæri til grundvallar að ásetningur hans með þeirri háttsemi, sem hann var sakfelldur fyrir í I. kafla ákæru, hefði ekki aðeins verið sá að beita A líkamlegu ofbeldi heldur einnig móðga hana og smána og var sú háttsemi hans því einnig metin sem stórfelldar ærumeiðingar í merkingu 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Með því að háttsemi X sem hann hafði gerst sekur um varðaði við 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga bar að miða fyrningarfrest brotanna við síðargreinda ákvæðið og voru brot X samkvæmt 1. og 3. tölul. I. kafla ákærunnar því ekki fyrnd við útgáfu hennar. Loks var X sakfelldur fyrir þjófnað vegna einnar millifærslu samkvæmt III. kafla ákæru, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga, en niðurstaða héraðsdóms um sýknu af ákæru vegna hinnar millifærslunnar kom ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Við ákvörðun refsingar X var litið til 78. gr. almennra hegningarlaga vegna hluta brotanna en að öðru leyti til 77. gr. sömu laga, auk þess sem tillit var tekið til 3. mgr. 70. gr. laganna. Var refsing X ákveðin fangelsi í 15 mánuði, skilorðsbundið að hluta, og honum gert að greiða A 800.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2014 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru vegna þeirrar háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. og 3. tölulið I. kafla ákæru og 7. tölulið III. kafla hennar en að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti um sakfellingu ákærða. Þá er þess krafist að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum í 4. tölulið I. kafla ákæru, II. kafla hennar og 7. tölulið III. kafla. Hann unir sakfellingu samkvæmt 5. tölulið I. kafla ákærunnar, en krefst mildunar á refsingu. Þá krefst hann lækkunar á dæmdum miskabótum til brotaþola. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2011 til 17. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi framið þau brot sem hann er ákærður fyrir í 1. og 3. tölulið I. kafla ákæru, en niðurstaða dómsins í fyrra tilvikinu er reist á framburði ákærða og brotaþola, sem hafa næga stoð í gögnum málsins. Jafnframt er fallist á heimfærslu brotanna til refsiákvæðis.
Þá er fallist á niðurstöðu dómsins um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt 4. tölulið I. kafla ákærunnar, sem réttilega er fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur játað þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í 5. tölulið sama kafla. Hann kvaðst hafa sparkað tvívegis í höfuð brotaþola í svefnherbergi sínu 7. febrúar 2013, en þá hafi hann verið á sokkaleistunum og ekki sparkað fast. Í héraðsdómi er lagt til grundvallar að áverkar á höfði brotaþola bendi til þess, sem svo í ákæru greinir, að höfuðið hafi slegist í eitthvað sem brotaþoli kveður hafa verið rúmgrind eða rúmfót. Áverkunum er lýst í héraðsdómi í samræmi við vottorð læknis sem hafði brotaþola til meðferðar í framhaldi af atlögunni. Þótt ekki sé fram komið að áverkarnir hafi haft varanlegar líkamlegar afleiðingar fyrir brotaþola var aðferð ákærða við árásina sérstaklega hættuleg í ljósi þess að við spörk hans slóst höfuð brotaþola utan í járnfót eða járngrind rúms. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að brotið verði fellt undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Í II. kafla ákæru eru ákærða gefnar að sök stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í 1. til 5. tölulið í I. kafla ákærunnar ítrekað móðgað og smánað brotaþola auk þess sem ákærði hafi móðgað og smánað hana ítrekað á sambúðartíma þeirra á tímabilinu 2010 til desember 2011 með því að tala niðrandi til hennar og um fjölskyldu hennar.
Fallist er á með héraðsdómi að ekki verði nægilega afmarkað hvernig ákærði hafi almennt móðgað og smánað brotaþola ítrekað á framangreindu tímabili með því að tala niðrandi til hennar og um fjölskyldu hennar, þannig að því verði slegið föstu að það verði metið sem stórfelldar ærumeiðingar, svo sem áskilið er í 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Í ákæru er þess heldur ekki getið hvaða orð ákærða er gefið að sök að hafa látið falla í þessu samhengi. Hann verður því ekki sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
Sannað er á hinn bóginn, meðal annars með framburði nágranna ákærða og brotaþola að sambúð þeirra var afar stormasöm. Nágrannarnir bera að mikill hávaði hafi verið frá íbúð þeirra og oftar en ekki hafi það verið ákærði sem viðhafði hávaða, blótsyrði og ógeðfelld orð í garð brotaþola. Þá bera þeir, eins og lýst er í héraðsdómi, að þegar ákærði gerðist sekur um þá háttsemi, sem 1. og 3. töluliður I. kafla ákærunnar tekur til, hafi hann samhliða ítrekað móðgað og smánað brotaþola í orðum. Af framkomu ákærða í garð brotaþola og ummælum hans í hennar garð er ekki varhugavert að leggja til grundvallar að ásetningur hans með þeirri háttsemi, sem hann er sakfelldur fyrir í I. kafla ákæru, hafi ekki aðeins verið sá að beita brotaþola líkamlegu ofbeldi heldur einnig að móðga hana og smána. Með þessum athugasemdum er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að meta beri þessa háttsemi hans einnig sem stórfelldar ærumeiðingar er varði við 233. gr. b. almennra hegningarlaga.
Með því að háttsemi ákærða, sem hann hefur gerst sekur um, samkvæmt 1. og 3. tölulið I. kafla ákæru varðar bæði við 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga leiðir af 4. mgr. 81. gr. laganna að miða ber fyrningarfrest brotanna við ákvæði 233. gr. b. sem geymir þyngri refsimörk, en þau eru allt að tveggja ára fangelsi. Voru því brot ákærða samkvæmt 1. og 3. tölulið I. kafla ákæru ekki fyrnd þegar hún var gefin út 14. janúar 2014.
Háttsemi sú, sem ákærða er gefin að sök í 7. tölulið III. kafla ákæru, og hann hefur játað, fólst í því að hann notfærði sér vitneskju um aðgangsorð að heimabanka brotaþola og ráðstafaði einhliða 119.000 krónum af reikningi hennar 7. febrúar 2013 inn á eigin reikning, án hennar heimildar. Þurfti hann engan atbeina viðskiptabanka brotaþola til þessarar ráðstöfunar. Varðar háttsemi hans við 244. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði greiddi samkvæmt gögnum málsins 109.000 krónur til baka inn á reikning brotaþola daginn eftir.
III
Ákærði er sakfelldur í málinu fyrir að hafa í þremur tilvikum gerst brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, í einu tilviki við 2. mgr. 218. gr. og í öllum fjórum við 233. gr. b. í sömu lögum. Þá er hann sakfelldur fyrir brot á 244. gr. laganna. Eins og í héraðsdómi greinir var ákærði með tveimur dómum í júní 2012 dæmdur til að sæta samtals 90 daga fangelsi og ævilangri ökuréttarsviptingu. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til 78. gr. almennra hegningarlaga að því leyti sem varðar brot samkvæmt 1. og 3. tölulið I. kafla ákæru og að hluta vegna brota á 233. gr. b. en að öðru leyti til 77. gr. laganna. Þá verður tekið tillit til 3. mgr. 70. gr. þeirra við ákvörðun refsingar. Verður ákærði dæmdur í fangelsi í 15 mánuði, en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni enda haldi hann almennt skilorð á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Brotaþoli krefst 800.000 króna í miskabætur úr hendi ákærða. Í málinu liggja fyrir vottorð lækna um áverka þá sem hún hlaut af atlögum ákærða, sem hann er sakfelldur fyrir. Þá hafa verið lögð fyrir Hæstarétt vottorð heimilislæknis 20. febrúar 2015 um slæma andlega líðan brotaþola og umsögn sálfræðings við Sjúkrahúsið á Akureyri 16. mars 2015 um viðtöl við brotaþola og mat á afleiðingum brota ákærða sem um ræðir. Í niðurstöðukafla umsagnarinnar kemur fram að brotaþoli glími við alvarlegar andlegar afleiðingar brotanna og þurfi að gangast undir langvarandi meðferð hjá sálfræðingi. Með vísan til þessa er kröfu brotaþola um miskabætur í hóf stillt og verður hún tekin til greina að fullu. Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um vexti og dráttarvexti á kröfuna enda stofnaðist krafan í heild fyrst 7. febrúar 2013.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og verða fjárhæðir sem þar eru ákveðnar staðfestar.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnað réttargæslumannsins, allt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði brotaþola, A, 800.000 krónur með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði með þeim fjárhæðum sem greinir í héraðsdómi.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 883.807 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, og ferðakostnað hennar, 30.200 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. október 2014.
Mál þetta sem dómtekið var 26. maí sl., en endurupptekið og dómtekið á ný 26. september sl., höfðaði ríkissaksóknari 14. janúar 2014 á hendur X, kt. [...], [...], [...];
„fyrir neðangreind hegningarlagabrot framin á Akureyri svo sem hér greinir:
I.
Líkamsárás gegn fyrrum sambýliskonu sinni, A:
1. Með því að hafa miðvikudaginn 9. nóvember 2011 í íbúð að [...] slegið A í handleggi, andlit og höfuð, tekið hana hálstaki og sett hné í kvið hennar, en A var þá gengin rúma 21 viku með barn sitt og ákærða. Af þessu hlaut A glóðarauga, mar á kinnbeini og hægra augnloki, kúlu aftan á hnakka, mar á hægri og vinstri handlegg og eymsli yfir miðhandarbeinum hægri handar.
2. Með því að hafa fimmtudaginn 1. desember 2011 í íbúð að [...], slegið A í andlitið, ýtt henni í gólfið, rifið í hár hennar og hert að hálsi hennar með báðum höndum.
3. Með því að hafa föstudaginn 2. desember 2011 framan við fjölbýlishúsið að [...], veist með ofbeldi að A með því að slá hana með flötum lófa í andlitið inni í bifreið sem lagt á bifreiðastæði og rifið í hár hennar, því næst elt A út úr bifreiðinni og, er hún féll í jörðina, rifið í hár hennar, slegið hana nokkrum sinnum í andlitið og sparkað tvisvar til þrisvar í bak hennar og fætur.
Afleiðingar líkamsárásanna í ákæruliðum 2 og 3 voru þær að A hlaut blóðnasir, eymsli yfir hársverði, kúlu og bólgu á hnakka, mar og bólgu á nefbeini, sár vinstra megin á neðri vör, marblett framan á háls, eymsli víðsvegar á baki og yfir hálshryggjarliðum og marga marbletti á læri, hné og leggi.
Brot framin fimmtudaginn 7. febrúar 2013:
4. Með því að hafa í bifreið á leið frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi að heimili ákærða að [...], veist að A, tekið hana hálstaki og rifið í hár hennar.
5. Með því að hafa stuttu síðar í svefnherbergi ákærða að [...], ýtt A í gólfið og sparkað ítrekað í höfuð hennar og búk en við spörkin slóst höfuð hennar utan í rúmgrind og rúmföt úr járni.
Afleiðingar líkamsárásar í ákæruliðum 4 og 5 voru þær að A hlaut húðblæðingu á hálsi vinstra megin, kúlu í hársverði vinstra megin yfir gagnauga, þreifieymsli yfir hægra gagnauga, mar framan við hægra eyra, þreifieymsli yfir neðri kjálka vinstra megin, sár neðan við efri vör vinstra megin og mar neðan við hægri olnboga.
Teljast brot ákærða samkvæmt ákæruliðum I/1 til I/4 varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot samkvæmt ákærulið I/5 varða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
II.
Stórfelldar ærumeiðingar gegn fyrrum sambýliskonu sinni A, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum I/1 til I/5, ítrekað móðgað og smánað A, auk þess sem ákærði móðgaði og smánaði A ítrekað á sambúðartíma þeirra á tímabilinu 2010 til desember 2011 með því að tala niðrandi til hennar og um fjölskyldumeðlimi hennar.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
III.
Þjófnað með því að hafa í neðangreind skipti millifært fjármuni í gegnum heimabanka A af bankareikningi hennar, nr. [...] í útibúi [...] inn á eigin bankareikning án þess að hafa heimild A til millifærslnanna, en ákærði hafði upplýsingar um aðgangsorð inn á heimabanka A og leyninúmer á bankareikningi hennar.
6. Með því að hafa þriðjudaginn 5. febrúar 2013 millifært kr. 60.000.
7. Með því að hafa fimmtudaginn 7. febrúar 2013 millifært kr. 119.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 800.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. desember 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá því einum mánuði eftir að ákærða var birt bótakrafan til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að viðbættum virðisaukaskatti að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi verði slíkur reikningur lagður fram.“
Ákærði neitar sök, að öðru leyti en því að hann kannast við að hafa sparkað tvívegis í höfuð brotaþola, sbr. 5. tl. I. kafla ákæru. Hann krefst sýknu af öðrum ákæruliðum og að verða dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila vegna ákæruliðar I/5 og að bótakrafa verði lækkuð verulega.
Ákærði og brotaþoli munu hafa byrjað sambúð í byrjun árs 2010. Í nóvember og desember 2011, þegar atvik samkvæmt 1.-3. tl. I. kafla ákæru áttu sér stað, bjuggu þau saman að [...], [...]. Þegar atvik í 4. tl. og 5. tl. sama kafla áttu sér stað bjó ákærði hjá foreldrum sínum að [...], [...], en brotaþoli á [...]. Þau eignuðust dóttur í mars 2012. Segir í greinargerð ákærða að þau hafi verið búin að slíta sambúð þá en haldið sambandi samt sem áður fram í ársbyrjun 2013.
Ákærði segir að þau hafi í öndverðu bæði verið kannabisneytendur og hann hafi drukkið bjór til muna meira en brotaþoli. Rifrildi þeirra hafi sífellt orðið heiftarlegri. Framan til á meðgöngutíma hafi þau rifist og verið með læti, en hann hafi ekki beitt ofbeldi í neinni líkingu við það sem brotaþoli lýsi. Auk þess að rífast hafi þau oft verið að ýtast á og hún stundum greitt honum kinnhest án þess að hann léti það á sig fá.
Ákærði segir að eftir á að hyggja hafi áfengisneysla hans verið vandamál. Hann kveðst ekki hafa beitt brotaþola ofbeldi nema að því marki sem hann hafi játað sakargiftir í ákæru. Það hafi þó e.t.v. verið einhverjir pústrar, þótt þeir yrðu ekki að slagsmálum. Spurður um andlegt ofbeldi sagði hann sér ekki finnast það andlegt ofbeldi þegar tveir deili. Hann hafi raunar hallmælt móður hennar, því að þau eigi ekki skap saman. Brotaþoli hafi rakkað fjölskyldu hans niður.
Brotaþoli kvað sambúðina í fyrstu hafa gengið vel, en síðan hefðu þau farið að rífast og ,,kýtingur“ verið milli þeirra. Kvartað hefði verið yfir hávaða og öskrum þar sem þau hefðu búið áður en þau fluttu í [...] og þau ekki fengið leigusamning endurnýjaðan. Vinnuveitandi hennar hefði verið búinn að sjá á henni áverka þegar hún hefði mætt í vinnu. Síðan hefði hún orðið ófrísk og þau hefðu flutt saman í [...]. Ákærði hefði á þessum tíma drukkið mikið og verið ofbeldisfullur og reiður með áfengi. Hann hefði sífellt lítillækkað hana, kallað hana heimska og sagt að hún væri sori og viðbjóður.
B, móðir brotaþola, bar að samband ákærða og brotaþola hefði verið hryllilegt. Hún hefði fylgst með því í hálft annað ár að hann kúgaði hana með gríðarlegu andlegu ofbeldi. Um tíma hefði brotaþoli forðast móður sína, enda ekki viljað þiggja ráð um að hún ætti ekki að vera í sambandi við ákærða. Hún hefði um tíma reynt að leyna ástandi, en ekki tekist það, verið með kúlur, marbletti og slíkt, sem hún hefði reynt að skýra með því að hún hefði rekið sig í og þar fram eftir götunum. Andlega ofbeldinu hefði hún bæði orðið vitni að og brotaþoli sagt henni frá því. Í eitt sinn hefði vitnið sent leigubíl eftir brotaþola, sem hefði verið blóðug og grátandi.
Ákærði hefði gengið í skrokk á brotaþola, bæði á meðgöngu og eftir að barnið fæddist. Ljósmóðir hefði lýst áhyggjum við vitnið. Brotaþoli hefði verið sem hengd upp á þráð. Hún hefði óttast að allt sem í kringum hana gerðist myndi leiða til þess að ákærði berði hana. Sjálfsmynd hennar hefði verið slæm.
Vitnið kvaðst ekki sjálft hafa séð ákærða beita brotaþola ofbeldi umfram það að rífa í hana og hrinda henni til.
Vitnið kvað það hafa farið að gerast í seinni tíð að brotaþoli fengi blóðnasir án tilefnis.
Fyrir nokkrum árum hefði brotaþoli verið hraustleg ung kona, en ekki sé unnt að segja að hún sé það nú. Vitnið teldi það vera beina afleiðingu af sambandinu.
Vitnið C, faðir brotaþola, sagði að sér hefði raunar verið haldið nokkuð utan við, en hann hefði vitað af því að sambandið gengi upp og niður. Atvik 2013 hefði verið eina skiptið sem hann hefði komið á vettvang vegna ofbeldis.
Brotaþoli hefði verið spennt á þessu tímabili og stuttur í henni þráðurinn. Hann hefði eitt sinn fylgt henni á slysadeild vegna atviks, sem hefði gerst fyrir jól, áður en brotaþoli eignaðist barnið.
Aðspurður mundi hann eftir að D vinkona brotaþola hefði hringt og sagt frá ofbeldi af hálfu ákærða. Fleiri hefðu verið búnir að segja honum frá slíku. Hann hefði því vitað vel að þetta væri í gangi. Eitt sinn hefði hann hjólað framhjá og séð inn um glugga að þau væru að rífast. Hann hefði bankað upp á til að grennslast fyrir um hvað gengi á. Brotaþoli hefði beðið hann að fara og hann hefði orðið við því.
Hann hefði jafnan ráðlagt þegar haft hefði verið samband við hann að leitað yrði til lögreglu og aðstoð fengin ef ofbeldi ætti sér stað.
Víkur nú að einstökum ákæruliðum.
1. tl. I. kafla ákæru
Lögreglu var tilkynnt klukkan 18:41 þann 9. nóvember 2011, um að maður hefði sést leggja hendur á konu inni í íbúð á jarðhæð að [...], [...]og síðan hefði heyrst þaðan háreysti og öskur. Fóru á staðinn lögreglumennirnir E og F. Í skýrslu sem hinn síðarnefndi ritaði, kemur fram að ekki hefði verið háreysti er þeir komu á staðinn. Ákærði hefði komið í forstofu en ekki viljað opna. Hann hefði virst æstur og ausið þá skömmum og svívirðingum. Þeir hefðu séð brotaþola í holi innan við forstofu og skilið bendingar hennar þannig að hún vildi ekki afskipti þeirra. Þeir hefðu fylgst með í nokkra stund. Tvívegis hefði ákærði opnað og hreytt í þá skömmum, en þegar í stað lokað aftur. Þeir hefðu metið það svo að afskipta þeirra væri ekki óskað og farið af vettvangi. Þeir hefðu ekið hjá nokkrum sinnum og þá allt virst vera með kyrrum kjörum.
Í sömu skýrslu segir að klukkan 21:02 hafi verið tilkynnt um mikil læti úr íbúðinni. Hefðu lögreglumennirnir G og H farið á vettvang. Þar hefðu þau fengið upplýsingar um að ákærði og brotaþoli hefðu ekið á brott. Vitni hefðu sagt ástand á heimili þeirra oft vera slæmt. Ákærði gengi í skrokk á brotaþola oft og illa, þrátt fyrir að hún væri þunguð. Hann kallaði hana einnig öllum illum nöfnum og hótaði henni líkamsmeiðingum og dauða.
Meðan lögreglumennirnir hefðu verið á vettvangi hefði brotaþoli komið heim, en hraðað sér snöktandi inn og ekkert viljað við lögreglumenn tala. Hefði þeim ekki verið unnt að aðhafast frekar.
Í áverkavottorði I læknis, dagsettu 8. mars 2013, segir að brotaþoli hafi leitað á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri og læknirinn hitt hana þar þann 9. nóvember 2011. Við komu hafi hún lýst því að hún hefði orðið fyrir heimilisofbeldi frá unnusta sínum og barnsföður, sem hefði gengið í skrokk á henni þann 7. nóvember 2011 og aftur að kvöldi komudags. Hann hefði lamið hana í handleggi, andlit og höfuð og ýtt í kvið. Þá hefði hann tekið hana hálstaki og lyft upp. Hún hefði leitað á kvennadeild vegna áhyggna af fóstri, sem hún hafi verið gengin með í 21 viku og sex dögum betur.
Samkvæmt skoðun var brotaþoli með marbletti á andliti, glóðarauga, mar á kinnbeini og á hægra augnloki. Kúla var á hnakka, með eymslum. Á hægri handlegg var mar og eymsli yfir miðhandarbeinum 3 og 4, bæði bein og óbein eymsli. Á vinstri handlegg var mar og eymsli. Á fótleggjum voru marblettir sem virtust misgamlir.
Læknirinn staðfesti efni vottorðsins fyrir dómi.
Ákærði bar fyrir dómnum að í verknaðarlýsingu í ákæru sé búið að bæta miklu við. Sé uppspuni að hann hafi tekið brotaþola hálstaki og sett hné í kvið hennar. Hann geti hafa gripið til hennar og hún slegið til baka. Ákærði kvaðst ekki játa að hafa slegið brotaþola, en spurður um orsök áverka sagði hann að þeir væru væntanlega af sínum völdum.
Brotaþoli bar fyrir dómi um þetta atvik að ákærði hefði verið ölvaður og þau hefðu rifist. Hann hefði hent henni á sófa og tekið hana hálstaki. Hún hefði fengið blóðnasir og verið afar hrædd. Þá hefði hann, inni á baðherbergi, haldið henni niðri, barið í höndina á henni og sett hné á kvið. Hún hefði verið með verki í kviðnum eftir þetta. Hún hefði óttast um fóstrið og leitað til læknis. Hún hefði á þessum tíma ekki þorað að leita aðstoðar lögreglu eða þiggja slíka aðstoð.
Vitnið J, sem var nágranni ákærða og brotaþola, bar fyrir dómi að almennt hefði verið mikið um hávaða og högg í íbúð ákærða og brotaþola. Það hefði einkum verið af hálfu ákærða og í garð brotaþola. Ekki hefði verið búandi þarna fyrir höggum, hávaða, blótsyrðum og ógeðfelldum orðum ákærða í garð brotaþola.
Hún hefði eitt kvöld komið heim um kvöldmatarleyti og séð inn um glugga að ákærði sló til brotaþola þar sem þau voru inni í svefnherbergi. Sér hefði fundist sem hann slægi með flötum lófa og hún geti ekki verið viss um hvort höggið hafi lent á brotaþola eða ekki. Hann hefði áttað sig á að til hans sæist og dregið fyrir gluggann. Þegar hún hefði komið heim hefði kona sem gætti barns lýst því að mikið hefði verið um hávaða og læti í hálfa til eina klukkustund. Vitnið kveðst hafa hringt til lögreglu og staðfesti að hafa hringt úr númeri sem getið er í dagbók lögreglu um þetta tilvik.
Vitnið K kvensjúkdómalæknir skoðaði brotaþola þann 10. nóvember 2011. Kveður hún skoðunina hafa verið í tilefni af því að ótti hefði verið um að eitthvað hefði komið fyrir fóstrið, en skoðun hefði ekki leitt neitt slíkt í ljós.
Vitnið kveðst hafa skráð hjá sér athugasemd um að frásögn brotaþola hefði verið um að högg hefði komið á vinstri hlið kviðar, en ekki séð nein ummerki eftir högg.
Vitnið F staðfesti frumskýrslu sína.
Vitnið H lögreglumaður staðfesti að hafa komið að [...] vegna síðari tilkynningarinnar. Tilkynningin hefði hljóðað um hávaða og læti og meint heimilisofbeldi. Enginn hefði verið heima. Brotaþoli hefði síðan komið heim akandi og gengið beint inn og virt lögreglumenn að vettugi. Rætt hefði verið við nágranna og komið fram það sem rakið væri í frumskýrslu um hávaða og meint heimilisofbeldi.
Vitnið G lögreglumaður staðfesti að hafa komið á vettvang. Þá hefðu konur verið fyrir utan, sem hefðu sagt að ákærði og brotaþoli væru farin. Brotaþoli hefði komið heim, en ekki viljað tala við lögreglumennina.
Vitnið L bar að þennan dag hefði vinur sonar hennar komið í heimsókn og sagt að lögreglan væri fyrir utan og karlmaður væri úti með læti. Síðan hefði hún verið að fara út með rusl, þegar hún hefði heyrt öskur og læti frá íbúð ákærða og brotaþola. Hefði ákærði sagt: ,,Ætlar þú að koma mér í fangelsi helvítið þitt, ég drep þig, þú átt það svo skilið að vera lamin.“ Sér hefði þótt greinilegt að ákærði væri að ráðast á brotaþola. Hún hefði farið inn og hringt til lögreglu. Síðan hefði hún farið út aftur ásamt M, systur sinni. Brotaþoli hefði séð þær og komið út. Hún hefði verið útgrátin. Hún hefði beðið þær að hringja ekki til lögreglu, en þær sagt henni að það hefði verið gert. Hún hefði þá talað um að fara burt með ákærða svo lögregla næði honum ekki. Skömmu síðar hefðu ákærði og brotaþoli ekið á brott.
Vitnið M kvaðst eitt sinn hafa verið úti með systur sinni og þær heyrt hljóð annað slagið. Þá hefði hún heyrt ákærða öskra: ,,Ég nýt þess að berja þig ógeðið þitt.“ Þær hefðu hringt til lögreglu. Brotaþoli hefði beðið þær að hringja ekki til lögreglu. Hún hefði verið í mikilli geðshræringu. Hún hefði ekki hleypt lögreglunni inn. Þetta geti hafa verið 9. nóvember 2011.
2. tl. I. kafla ákæru
Rannsókn á þessu atviki hófst ekki fyrr en samhliða rannsókn á atvikum 2. desember 2011, sbr. næsta kafla.
Ákærði bar um þetta fyrir dómi að þetta hefði verið eitt af þessum skiptum sem þau hefðu verið að rífast og það endað með því að brotaþoli hefði farið og hann viti núna að hún hefði farið til vinkonu sinnar.
Spurður hvort hann hefði beitt ofbeldi kvaðst hann neita því.
Brotaþoli bar fyrir dómi að ákærði hefði veist að sér í þetta sinn og hún hefði tekið á móti. Ákærði hefði hrint henni og tekið hana hálstaki. Hún hefði fengið blóðnasir. Hún hefði farið inn í herbergi og lagst í rúm. Ákærði hefði komið og lyft dýnunni. Hún hefði flúið út og farið niður í biðskýli, síðan með leigubifreið heim til D vinkonu sinnar. Ákærði hefði komið akandi þangað, ölvaður. D hefði hringt til lögreglu, sem hefði komið og handtekið ákærða.
Vitnið D bar almennt um samband ákærða og brotaþola, að brotaþoli sem hún kveðst hafa þekkt síðan árið 2007, hefði leynt mörgu fyrir henni. Hún hefði séð merki um ofbeldi. Tvívegis hefði brotaþoli komið til hennar blóðug. Þetta hefði líklega verið í nóvember og desember, þegar brotaþoli hefði verið barnshafandi.
Síðara tilvikið hefði verið verra. Brotaþoli hefði þá verið í sjokki, hefði fengið blóðnasir og sýnilega hefði blætt mikið. Hún hefði sagt vitninu að ákærði hefði ráðist á hana og slegið hana með flötum lófa. Hún hefði verið aum í hársverði. Hún hefði gist hjá vitninu um nóttina. Ákærði hefði komið og barið að dyrum, en vitnið ekki hleypt honum inn. Vitnið hefði hringt til lögreglu. Vitnið taldi að þetta hefði verið eftir atvikið á bílaplaninu, sem lýst er í 3. tl. I. kafla ákæru, en tók fram að kvöldið áður hefði brotaþoli líka komið til hennar, en þá farið heim eða til móður sinnar.
3. tl. I. kafla ákæru
Hinn 2. desember 2011, klukkan 18:45, hafði móðir brotaþola samband við lögreglu og greindi frá því að skömmu fyrr hefði ákærði ráðist á brotaþola. Segir í frumskýrslu að tilkynningin hafi komið á sama tíma og ákærði hefði verið handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur.
Lögreglumaðurinn N ræddi við vitnið O símleiðis, sem lýsti því að hafa heyrt ákærða öskra: ,,ég skal brenna allt sem þú átt.“ Hún hefði síðan séð að brotaþoli lá á götunni og ákærði var að sparka í hana. Brotaþoli hefði staðið upp og ákærði farið á eftir henni, rifið í hana og slegið hana ítrekað í andlitið.
Þá ræddi N við vitnið L, sem kvaðst hafa verið stödd á vettvangi ásamt O og lýsti því að hafa heyrt öskur. Brotaþoli hefði kallað ,,hættu, hættu“ og ákærði sagt henni ,,að drullast á lappir.“ Hann hefði síðan sparkað í hana og slegið hana.
Einnig ræddi N við vitnið M, sem kvaðst hafa verið í bifreið við [...], þegar hún hefði séð bifreið lagt í stæði, Brotaþoli hefði ekið. Þau ákærði hefðu verið að rífast inni í bifreiðinni og skyndilega hefði hann slegið hana með krepptum hnefa. Hann hefði síðan gripið í búk hennar við hálsinn og togað hana að sér, hrist hana og öskrað á hana. Hann hefði síðan slegið hana eitthvað meira. Vitnið kvaðst hafa unnið með brotaþola sumarið áður og oft hafa séð á henni nýja áverka á höndum og á andliti.
Samkvæmt skýrslu um leit í bifreiðinni mátti sjá blóðslettur á báðum hurðarspjöldum framhurða, í ökumannssæti, á stokk milli framsæta, á mælaborði við miðja bifreiðina og á stýri hennar.
Í vottorði I læknis segir að brotaþoli hafi leitað á kvennadeild þann 3. desember 2011. Hún hafi þá verið gengin 26 vikur í meðgöngu. Hún hafi sagt tildrög komunnar þau að sambýlismaður hefði gengið í skrokk á henni 1. desember og 2. desember, hrint henni, barið, dregið hana á hárinu, lamið í andlit og sparkað í hana. Hún hefði áhyggjur af fóstrinu.
Við skoðun hefði brotaþoli verið með eymsli þegar þreifað hefði verið á hársverði og bólga og eymsli hefðu verið efst á hnakka, einnig rétt ofan við hárlínu aftan á hálsi. Á hnakka hefði verið bólga og það hefði þreifast kúla þar. Það hefði ekki verið sjáanleg blæðandi sár. Greinilegt mar hefði verið á nefbeini og bólga. Á neðri vör vinstra megin hefði verið sár. Eymsli hefðu verið þegar þreifað hefði verið yfir vöðvum meðfram hrygg og einnig eymsli þegar þreifað hefði verið yfir neðstu hálshryggjarliðum, meira þegar þreifað hefði verið yfir vöðvum meðfram hrygg vinstra megin. Það hefðu einnig verið þreifieymsli þegar þreifað hefði verið yfir spjaldhrygg. Þá hefði verið marblettur framan á hálsi, rétt hliðlægt við tiltekinn vöðva rétt ofan við viðbeinið.
Á fótleggjum hefðu verið margir marblettir, bæði á lærum, hnjám og leggjum. Þeir hefðu verið misgamlir af lit þeirra að dæma. Fætur hefðu verið kaldir, en ekki sjáanleg áverkamerki þar. Á hægri hendi hefðu verið eymsli þegar þreifað hefði verið yfir miðhandarbeini 5. Þessi eymsli hefðu einnig verið til staðar við skoðunina 9. nóvember 2011. Ákveðið hefði verið að brotaþoli fengi endurkomutíma þann 5. desember til mats og mögulega röntgenmyndatöku. Hún hefði ekki leitað aftur til göngudeildar kvennadeildar vegna þessa.
Ákærði bar fyrir dómi að hann myndi ekki vel hvað gerðist um daginn. Þau hefðu verið í bifreið fyrir utan [...] og verið að rífast. Þau hefðu síðan verið á leið inn. Brotaþoli hefði gengið aftur fyrir næstu bifreið og fallið þar, án þess að hann viti ástæðu þess, en það hefði verið hált. Hún hefði setið þar. Ákærði hefði viljað koma henni í hús og tekið í hettu hennar og sagt henni að standa upp, en hún hefði neitað. Hún hefði farið þangað sem systir hans hafi búið í næstu húsalengju og hann á eftir. Þá hefði einhver komið og sagt honum að hætta. Hann hefði þá farið heim. Hann kvaðst hvorki hafa slegið brotaþola né sparkað í hana.
Spurður um atvik inni í bifreiðinni kvaðst ákærði hvorki hafa slegið brotaþola þar né rifið í hár hennar. Þau hefðu aðeins rifist. Spurður um blóðnasir sem brotaþoli fékk, giskaði hann á að hún hefði fengið þær af æsingi. Ákærði gat þess að hún ætti það til að fá blóðnasir án nokkurrar ástæðu. Spurður um áverka samkvæmt vottorði vísaði hann til þess að hann hefði tekið í hettu hennar og að brotaþoli hefði fallið.
Í skýrslu brotaþola fyrir lögreglu 3. desember 2011 kom fram að hún hefði gist hjá D vinkonu sinni aðfaranótt 2. desember. Ákærði hefði verið mjög afsakandi vegna atburða daginn áður og viljað gera gott úr öllu. Hún hefði ákveðið að fara heim. Fyrir dómi bar hún að hún hefði sótt ákærða í vinnu og hann verið ölvaður. Hún hefði fundið að þessu og þau hefðu rifist. Hún hefði ætlað til móður sinnar og ákærði verið afar ósáttur við það. Hann hefði farið að hárreyta hana, síðan slegið hana í andlitið og hún fengið blóðnasir. Hann hefði viljað að hún kæmi inn. Hún hefði farið út úr bifreiðinni og ætlað til systur ákærða. Hún hefði fallið. Ákærði hefði staðið yfir henni og sparkað í hana. Hann hefði rifið í hettu á úlpu hennar og rifið hana af. Nágrannakonur hefðu verið úti við og komið að og reynt að stöðva ákærða. Hún hefði staðið upp og farið til systur ákærða. Hún myndi ekki eftir að ákærði hefði hrint henni og slegið hana á ný rétt áður en hún hefði komið til systurinnar. Þaðan hefði hún farið til móður sinnar í leigubíl. Móðir hennar hefði hringt til lögreglu.
Hún hefði farið upp á kvennadeild daginn eftir. Hún hefði fyrst og fremst verið að hugsa um fóstrið og viljað vera viss um að ekkert amaði að því.
Vitnið N staðfesti frumskýrslu sína fyrir dómnum. Atvik hefðu verið með þeim hætti að lögregla hefði stöðvað för ákærða og handtekið hann vegna gruns um ölvunarakstur, áður en tilkynning um líkamsárás hefði borist.
Vitnið I staðfesti áverkavottorð. Hún kvaðst telja að áverkar samrýmdust vel sögu brotaþola. Vitnið staðfesti sérstaklega að bólga í hnakka gæti vel samrýmst því að tekið hefði verið í hár brotaþola.
Vitnið O sem var nágranni ákærða og brotaþola, bar að hún hefði oft orðið vitni að öskrum, hurðarskellum og slíku. Þá hefði hún heyrt ákærða vera orðljótan í garð brotaþola, með því að segja henni til dæmis að hún væri ógeðsleg og að hún væri hóra.
Eitt sinn hefði vitnið verið fyrir utan ásamt nágrannakonu sinni. Þá hefðu þær heyrt öskur og hefði ákærði verið að sparka í brotaþola liggjandi úti á götu. Þær hefðu kallað til hans. Brotaþoli hefði þá hlaupið aðeins niður götuna. Vitnið hefði farið á eftir og komið að, þar sem ákærði hefði verið að slá brotaþola þar sem hún hefði legið samanhnipruð. Hann hefði slegið hana af alefli nokkrum sinnum. Hún hefði verið blóðug. Hann hefði verið í slæmu ástandi, reiður yfir afskiptum vitnisins og augnaráðið tómlegt. Hann hefði hrint vitninu. Maður hefði komið út í glugga og vitnið beðið hann að hringja til lögreglu. Vitnið hefði svo fylgt brotaþola heim til systur ákærða.
Vitnið L kvaðst hafa verið úti ásamt nágrannakonu sinni. Þær hefðu séð að brotaþoli lá og ákærði var yfir henni og sparkaði í hana. Vitnið hefði sagt honum að hætta. Brotaþoli hefði staðið upp og farið niður götuna, ákærði á eftir, en vitnið hefði farið og líklega hringt til lögreglu. Brotaþoli hefði verið blóðug í framan.
Vitnið kvaðst hafa séð aðrar árásir af hálfu ákærða á brotaþola og heyrt hávaða og öskur hans, þar sem hann hefði meðal annars sagt henni að hún ætti skilið að vera lamin. Nefndi vitnið tilvik þegar lögregla hefði komið en ekki verið hleypt inn. Þetta hefði verið í nóvember 2011.
Vitnið M kvaðst hafa unnið á sama stað og brotaþoli, á að giska í maí til ágúst 2011. Stundum hefði mátt sjá á henni að eitthvað hefði gerst, hún hefði til dæmis verið grátbólgin og merki um að hún hefði borið farða yfir áverka á gagnauga.
Vitnið kvaðst hafa farið með dóttur sína í pössun til L systur sinnar í [...] að kvöldi 2. desember 2011. Hún hefði séð ákærða slá til brotaþola, þar sem þau hefði verið inni í bifreið, en ekki vera viss um það hvort slegið var með flötum lófa eða krepptum hnefa. Vitnið kvaðst ekki hafa gert neitt, en farið til systur sinnar með dótturina.
4. tl. og 5. tl. I. kafla ákæru
Faðir ákærða hringdi í Neyðarlínu 7. febrúar 2013 klukkan 16:44 og bað um aðstoð, þar sem hann réði ekki við son sinn. Lögregla fór heim til hans og handtók ákærða, sem varðist handtökunni af öllum mætti og var æstur, ölvaður og blóðugur í andliti og á höndum, eftir því sem segir í frumskýrslu P lögreglumanns. Faðirinn greindi frá því að ákærði hefði lagt hendur á brotaþola eftir rifrildi og brotið rúðu á efri hæð hússins. Faðir brotaþola var á vettvangi og sagði að brotaþoli væri eitthvað meidd. Lögregla færði ákærða í fangahús, en faðir brotaþola fylgdi henni á slysadeild.
Í áverkavottorði Q læknis, dagsettu 28. febrúar 2013, segir að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku í fylgd föður síns þann 7. febrúar. Er eftir henni haft um atvik að hún hafi verið stödd á heimili barnsföður og ætlað til föður síns. Hinn fyrrnefndi muni þá hafa tryllst og ráðist að henni með höggum og spörkum. Hún hafi fengið spark í hægri framhandlegg, högg í andlit vinstra megin og einnig högg á höfuð hægra megin og höfuðið þá slegist ítrekað í rúmgafl. Tengdafaðir hennar hafi komið að og gengið á milli. Dóttir brotaþola hafi verið á staðnum, 10 mánaða gömul.
Brotaþoli hafi verið með kúlu í hársverði vinstra megin yfir gagnauga og einnig þreifieymsli yfir gagnauga hægra megin. Framan við hægra eyra hafi verið að myndast mar. Hún hafi útskýrt það með því að árásarmaður hefði lamið höfði ítrekað við rúmgafl. Þreifieymsli hafi verið yfir neðri kjálka vinstra megin en ekki hafi verið sjáanlegt mar. Húðblæðing hafi verið á hálsi vinstra megin eins og eftir þrýsting og neðan við efri vör vinstra megin í andliti hafi verið um 1 cm langt sár, sem hafi verið grunnt og ekki blætt úr því. Á hægri handlegg hafi verið mar neðan við olnboga. Brotaþoli hafi fundið fyrir verkjum við hreyfingar og einnig við að hreyfa fingur. Hún hafi sagst vera með verki í úlnlið eftir eldri áverka.
Röntgenmynd af hægri handlegg hafi ekki sýnt brotáverka. Brotaþoli hafi ekki leitað til bráðamóttökunnar á ný.
Lögregla yfirheyrði ákærða 8. febrúar og kvaðst hann ekkert muna, en fyrir dómi bar hann að hann myndi vel eftir atvikum. Þau brotaþoli hefðu verið hætt að leigja saman, þar sem þau hefðu ekki fengið leigusamning endurnýjaðan og hún flutt heim til móður sinnar, sem býr í öðru héraði, en hann til foreldra sinna. Þau hefðu þó verið saman ennþá. Brotaþoli hefði komið og gist, með dóttur þeirra. Ákærði hefði fengið sér bjór og reynt að dylja það fyrir brotaþola. Þau hefðu farið á Glerártorg seinni hluta dags. Þaðan hefðu þau ekið heim til ákærða. Á heimleið hefðu þau farið að rífast og enn verið að rífast þegar þau hefðu komið heim. Þau hefðu farið upp í herbergi og rifist. Ákærði hefði haldið á dóttur þeirra. Brotaþoli hefði slegið hann í öxlina. Hann hefði hrint henni á rúmið, hún síðan fallið á gólfið og hann þá sparkað tvisvar í hana. Hann kvaðst iðrast þessa afar mikið. Spörkin hefðu farið í höfuð hennar, en hann hefði ekki sparkað fast. Hann hefði verið á sokkaleistunum. Hann kvaðst telja ólíklegt að höfuð hennar hefði slegist í eitthvað. Faðir hans hefði komið í sama mund og ákærði hefði hætt. Brotaþoli hefði staðið upp og farið inn í annað herbergi. Örskömmu síðar hefði faðir hennar komið og síðan lögreglan.
Brotaþoli bar að ákærði hefði ekki hætt að drekka eftir að barnið var fætt. Sjálfsálit sitt hefði verið mjög lítið og hún hefði ekki haft neina trú á sjálfri sér. Hún hefði einnig alltaf vonað að ákærði myndi bæta sig. Í febrúar hefði hann fullvissað sig um að hann væri hættur að drekka. Hún hefði farið í heimsókn til Akureyrar.
Hún hefði orðið vör við að ákærði væri undir áhrifum áfengis, þegar þau fóru á Glerártorg fimmtudaginn 7. febrúar. Þetta hefðu verið mikil vonbrigði. Á heimleið hefðu þau farið að rífast. Ákærði hefði rifið í hár hennar og slegið hana með flötum lófa. Hann hefði tekið í handhemil, en hún hefði ekið hægt, svo að henni hefði ekki fipast við aksturinn. Þau hefðu farið heim til ákærða. Hún hefði ætlað að pakka saman og fara. Faðir ákærða hefði tekið barnið af ákærða og gengið til stofu. Brotaþoli hefði farið upp, en ákærði hefði hrint henni á leiðinni. Líklega hefði hann þá verið kominn með barnið aftur. Hann hefði síðan elt hana upp, haldið á barninu, hrint henni og sparkað nokkrum sinnum í höfuð hennar, sem hefði slegist í rúmfótinn. Faðir ákærða hefði komið og á einhverjum tímapunkti hefði hann tekið barnið af ákærða. Hún hefði komist á fætur, tekið barnið og farið inn í annað herbergi. Ákærði hefði brotið rúðu með því að skalla í hana. Hún hefði hringt í föður sinn og hann síðan komið. Skömmu síðar hefði lögreglan komið. Hún hefði farið á slysadeild skömmu síðar.
Vitnið P lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sína.
Vitnið R, faðir ákærða, kvaðst hafa verið heima hjá sér og verið á neðri hússins, er ákærði og brotaþoli hefðu komið heim og farið upp á efri hæð. Skömmu síðar hefði hann heyrt hávaða og farið upp. Hann hefði séð brotaþola slá ákærða í öxlina. Ákærði hefði hrint brotaþola, sem hefði fallið á rúmið og þaðan á gólfið. Vitnið hefði tekið barnið sem ákærði hefði haldið á. Í framhaldi af þessu hefði brotaþoli staðið upp og vitnið farið með hana og barnið í annað herbergi. Ákærði hefði brotið rúðu. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði sparkað tvisvar í brotaþola, en vitnið hefði ekki séð hvar spörkin lentu. Atburðarásin hefði verið hröð og stutt.
Vitnið kvaðst ekki vilja tjá sig um samband ákærða og brotaþola. Vitnið staðfesti að ákærði hefði farið í meðferð, stundaði vinnu og héldi bindindi.
Vitnið C, faðir brotaþola, bar að brotaþoli hefði verið búin að hringja og segjast ætla að koma í heimsókn. Síðar hefði hún hringt og greint frá því að ákærði væri búinn að ráðast á hana. Hann hefði þegar farið heim til ákærða og jafnframt hringt til lögreglu. Hann hefði séð ákærða, en ekki skipt sér af honum, heldur sinnt brotaþola, sem hefði verið grátandi og algerlega miður sín.
Vitnið Q læknir staðfesti vottorð sitt. Hún sagði áverka vel geta samrýmst því að högg hefðu komið sitt hvorum megin á höfuð. Ummerki á hálsi, húðblæðing, væri væntanlega annað hvort eftir högg eða þrýsting. Brotaþoli hefði verið í uppnámi og verið grátandi í fyrstu. Það hefði tekið hana nokkra stund að segja frá atvikum.
II. kafli ákæru
Af hálfu ákæruvaldsins er einkum á því byggt að líkamsárásir, svo og orð sem ákærði hafi látið falla við brotaþola samkvæmt frásögn brotaþola og vitna, varði honum refsingu samkvæmt 233. gr. b almennra hegningarlaga. Er því mótmælt af hálfu ákærða að hann hafi í orði eða verki móðgað eða smánað brotaþola, þannig að við ákvæðið varði. Kvaðst ákærði aldrei hafa leitast við að móðga brotaþola þótt þau hefðu rifist og tekið hvort í annað.
III. kafli ákæru
Ákærði bar um þetta að brotaþoli hefði verið með bifreið hans. Hann hefði verið atvinnulaus og ekki haft tekjur. Hann hefði millifært 60.000 krónur með vitund og vilja brotaþola til að greiða af bifreiðinni. Þau brotaþoli hefðu haft aðgang að heimabanka hvors annars. Raunar væri hann ekki viss um það hvort þeirra hefði millifært peningana.
Eftir atvikið í [...] hefði hann millifært peninga, líklega til að brotaþoli færi ekki að eyða þeim. Hann kvaðst þó ekki alveg vita hvað honum hefði gengið til. Hann hefði skilað peningunum þegar hann hefði farið að átta sig.
Brotaþoli bar að ákærði hefði þekkt bankaaðgangsorð hennar. Hann hefði verið búinn að nefna það við hana að hjálpa sér við að greiða af bifreið, en hún hefði aldrei verið búin að samþykkja það. Hún hefði ekki sagt neitt sem hann hefði getað skilið sem samþykki hennar. Þau hefðu ekki verið par á þessum tíma, en hann hefði að sönnu lánað henni bifreiðina, til að hún gæti komið til Akureyrar með dótturina af og til, til að leyfa honum að hitta hana.
Niðurstaða um 1. tl. I. kafla ákæru
Eins og rakið er hér að framan kölluðu nágrannar ákærða og brotaþola lögreglu tvívegis til að kvöldi 9. nóvember 2011 vegna ófriðar. Vitnið J, sem hafði samband við lögreglu í fyrra sinnið, kveðst hafa séð inn um glugga að ákærði sló til brotaþola. Er hún eina vitnið, að brotaþola frátalinni, að ofbeldi af hálfu ákærða þennan dag.
Samkvæmt framburði ákærða og brotaþola rifust þau heiftarlega þennan dag og kom til átaka, þótt ákærði geri ekki mikið úr þeim.
Að framan er rakið vottorð læknis, þar sem áverkum brotaþola er lýst. Ákærði rengdi ekki að hafa valdið þessum áverkum. Með vísan til þess, framburðar brotaþola, lýsingar hennar fyrir lækni á verknaði ákærða og framburðar vitna um ófrið á heimili ákærða og brotaþola, þykir nægilega sannað að ákærði hafi valdið áverkunum. Verður hann talinn sannur að sök um þann verknað, sem í þessum ákærulið er lýst, að því undanteknu að gegn neitun hans og með hliðsjón af áverkum, verður ekki talið sannað að hann hafi tekið brotaþola hálstaki og sett hné í kvið hennar. Verknaðurinn varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði var yfirheyrður um þetta atvik af lögreglu þann 3. desember 2011. Rannsókn stöðvaðist síðan, allt til útgáfu ákæru 14. janúar 2014. Var sök þá fyrnd, sbr. 1. tl. 1. mgr. og 5. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Verður ekki á það fallist með ákæruvaldinu að meta beri háttsemi sem rakin er í I. kafla ákæru sem framhaldsbrot, þar sem verknaðir beindust að líkama brotaþolans og ekki er uppfyllt skilyrði um framhaldandi röð atvika, þar sem langur tími leið milli þriggja fyrstu atvikanna og hins fjórða.
Samkvæmt þessu verður ákærða ekki refsað fyrir háttsemina, sbr. lokamálsgrein 81. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Ber því að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins hvað þennan ákærulið varðar.
Niðurstaða um 2. tl. I. kafla ákæru
Um þetta tilvik liggur aðeins fyrir framburður ákærða og brotaþola. Neitar ákærði sök. Vitnið D staðfesti að brotaþoli hefði komið til hennar, en taldi að það hefði hún einnig gert kvöldið eftir, eftir atvik sem fjallað er um í næsta kafla. Ekki verður slegið föstu að áverkar samkvæmt vottorði hafi að einhverju leyti komið til fyrra kvöldið. Gegn neitun ákærða þykir því varhugavert að telja nægilega sannað að hann hafi beitt brotaþola valdi í þetta sinn. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins hvað þennan lið varðar.
Niðurstaða um 3. tl. I. kafla ákæru
Brotaþoli lýsir því að ákærði hafi slegið hana í andlit í þetta sinn, þar sem þau hafi setið inni í bifreið fyrir utan heimili þeirra, með þeim afleiðingum að hún hafi fengið blóðnasir. Ummerki í bifreiðinni styðja það að hún hafi fengið blóðnasir þar inni. Vitnið M kveðst hafa séð ákærða slá til brotaþola inni í bifreiðinni. Í áverkavottorði kemur fram að greinilegt mar og bólga hafi verið á nefbeini brotaþola. Að þessu virtu verður talið nægilega sannað að ákærði hafi slegið brotaþola inni í bifreiðinni eins og honum er gefið að sök. Eymsli og bólga í hársverði og bólga og eymsli á hnakka sem lýst er í áverkavottorði, styðja það að tekið hafi verið í hár brotaþola, en því verður ekki slegið föstu hvort það hafi verið gert inni í bifreiðinni og aftur er út var komið, eða aðeins í annað sinnið.
Með framburði brotaþola og vitnanna L og O, svo og með vottorði um áverka brotaþola, telst nægilega sannað að ákærði hafi veist með ofbeldi að brotaþola er út úr bifreiðinni var komið og greitt henni högg og spörk, með þeim afleiðingum sem í ákæru er lýst. Varðar verknaðurinn við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Af sömu ástæðum og raktar eru í niðurstöðu um 1. tl. þessa kafla ákæru, er sök fyrnd. Verður ákærði samkvæmt því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins hvað þennan lið varðar.
Niðurstöður um 4. tl. og 5. tl. I. kafla ákæru
Í 4. tl. I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa veist að brotaþola með ofbeldi í bifreið, tekið hana hálstaki og rifið í hár hennar. Ákærði neitar sök að þessu leyti, en til þess verður að líta að hann kvaðst ekki muna eftir atvikum er hann gaf skýrslu fyrir lögreglu. Það styrkir hins vegar framburð brotaþola, sem ákæruvaldið byggir einkum á, að samkvæmt læknisvottorði var húðblæðing á hálsi eins og eftir þrýsting. Getur þetta vel samrýmst því að tekið hafi verið um háls brotaþola. Að þessu athuguðu þykir rétt að leggja framburð hennar til grundvallar um þetta. Samkvæmt því telst nægilega sannað að ákærði hafi veist að brotaþola eins og greint er í þessum lið ákæru. Varðar verknaðurinn við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur játað sök samkvæmt 5. tl. I. kafla ákærðu, að því marki að hann kveðst hafa sparkað tvívegis í brotaþola. Hljóðar framburður föður hans einnig um tvö spörk. Með hliðsjón af þessu, framburði brotaþola og vottorði um áverka hennar er nægilega sannað að ákærði hafi sparkað ítrekað í höfuð brotaþola. Áverkarnir benda einnig til þess að við það hafi höfuð hennar slegist í eitthvað, sem brotaþoli segir hafa rúmgrind eða rúmfót. Fallist verður á það með ákæruvaldinu, þótt miðað sé við að ákærði hafi verið á sokkaleistunum, að þessi verknaðaraðferð falli undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt því ákvæði.
Niðurstaða um II. kafla ákæru.
Hér að framan er rakið hvernig foreldrar brotaþola lýstu sambandi ákærða og brotaþola. Framburður móður brotaþola og hennar sjálfrar hljóðar almennt um að ákærði hafi oft í sambúð þeirra verið móðgandi með orðum. Dómurinn telur hins vegar að ekki verði afmarkað nægilega hvernig ákærði hafi almennt móðgað og smánað brotaþola ítrekað á tímabilinu 2010 til desember 2011 með því að tala niðrandi til hennar og um fjölskyldumeðlimi hennar, þannig að því verði slegið föstu að það verði metið sem stórfelldar ærumeiðingar, svo sem áskilið er í 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Er heldur ekki tekið fram í ákæru hvaða orð ákærða er gefið að sök að hafa látið falla í þessu samhengi.
Þá kemur til athugunar hvort fallast beri á það að ákærði hafi með þeirri háttsemi sem lýst er í I. kafla ákæru brotið gegn ákvæði 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Í niðurstöðum um 2. lið þess kafla var komist að því að ekki væri nægilega sannað að ákærði hefði framið verknað sem þar er lýst og kemur hann því ekki til álita hér. Að öðru leyti var komist að því að brotaþoli hefði sætt líkamsárásum af hálfu ákærða eins og nánar er rakið í niðurstöðum um hvern lið fyrir sig.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 27/2006 segir um 3. gr., en með henni var leidd í lög 233. gr. b. almennra hegningarlaga, að markmið ákvæðisins sé einkum að sporna við því að höfð séu í frammi ummæli eða athafnir á milli nákominna sem taldar verði á grundvelli almenns og hlutlægs mælikvarða fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, svo sem ýmsar athugasemdir eða athafnir geranda sem m.a. beinist að útliti, persónulegum eiginleika eða hátterni brotaþola. Þá segir að meiri líkur verði taldar á að fullnægt sé skilyrðinu um stórfelldar ærumeiðingar ef fyrir liggi að móðgandi eða smánandi orðbragð eða athafnir á milli nákominna sé endurtekið.
Fyrir liggur að ákærði réðst ítrekað að brotaþola með líkamlegu valdi og veitti henni sýnilega áverka, síðast í febrúar 2013. Dómurinn telur samkvæmt framansögðu að fallast verði á það með ákæruvaldinu að meta beri þessa háttsemi sem móðganir og smánanir í verki, sem að teknu tilliti til endurtekningar háttseminnar verði að telja stórfelldar ærumeiðingar, þannig að varði við 233. gr. b. almennra hegningarlaga.
Niðurstaða um III. kafla ákæru
Ákærða er hér gefið að sök að hafa tvívegis brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með því að færa fé af bankareikningi brotaþola.
Ákærði nýtti sér að hann hafði nauðsynleg aðgangsorð að heimabanka brotaþola. Hann staðhæfir að 60.000 krónur sem voru færðar 5. febrúar 2013 hafi verið samkvæmt samkomulagi þeirra brotaþola um að hún stæði straum af afborgun og vátryggingum vegna bifreiðar hans, sem brotaþoli hafði til umráða. Ákærði hefur lagt fram afrit af bankayfirliti þar sem kemur fram að hann hafi samdægurs greitt vátryggingarfélagi og fjármögnunarleigu rúmlega 54.000 krónur samtals. Brotaþoli kannast við að ákærði hafi rætt um þetta við sig, en hún hafi aldrei gefið samþykki fyrir þessu. Dómurinn telur að þessu athuguðu að skynsamlegur vafi leiki á því að ákærða hafi mátt vera ljóst á verknaðarstundinni að hann hefði ekki heimild brotaþola til að verja fé hennar í þessu skyni. Vegna þessa vafa verður verknaðurinn ekki metinn honum saknæmur. Ber því að sýkna hann af þessu ákæruatriði.
Hvað síðari millifærsluna varðar er ljóst að ákærði hafði enga heimild til hennar og enga réttmæta ástæðu til að ætla að hann hefði slíka heimild.
Með því að fá fé fært milli reikninga eftir að hafa opnað heimabanka með aðgangsorði brotaþola, þannig að viðskiptabanki hennar gat ekki vitað betur en að brotaþoli stæði sjálf að verki, blekkti ákærði viðskiptabankann til að færa fé af reikningi hennar og hafði þannig fé af henni. Varðar þetta við 248. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða verður refsað samkvæmt því ákvæði, samkvæmt heimild í 180. gr. laga nr. 88/2008.
Ákvörðun refsingar, skaðabóta og sakarkostnaðar.
Ákærði hefur hér verið fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr., 2. mgr. 218. gr., 233. gr. b. og 248. gr. almennra hegningarlaga.
Sakaferill ákærða fram til ársins 2012 hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Með tveimur dómum í júní það ár sætti hann samtals 90 daga fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt fyrir brot gegn umferðarlögum. Ber að gæta ákvæðis 78. gr. almennra hegningarlaga, að því marki sem brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga voru framin fyrr, en að öðru leyti reglna 77. gr. laganna. Þá ber að gæta ákvæðis 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Að þessu gættu þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði hefur farið í meðferð vegna áfengisvanda síns. Liggur ekki annað fyrir en að hann hafi haldið bindindi og stundi vinnu. Þá ber að líta til þess að nokkur tími er liðinn frá því að brotin voru framin. Að þessu athuguðu þykir fært að skilorðsbinda refsingu hans að fullu, eins og nánar greinir í dómsorði.
Bótakröfu er getið í ákæru og var hún reifuð við munnlegan málflutning. Ákærði hefur bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta. Þykja þær hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Vextir verða dæmdir frá því er síðasta brot var framið, þ.e. 7. febrúar 2013 og dráttarvextir frá 17. apríl 2014, en þá var liðinn mánuður frá því að bótakrafa var birt.
Eftir þessum málsúrslitum verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.
Útlagður sakarkostnaður nemur samkvæmt yfirliti 166.088 krónum. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Berglindar Jónasardóttur hdl. og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur hdl., ákveðast eins og greinir í dómsorði, að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði greiði A 600.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. febrúar 2013 til 17. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 396.794 krónur í sakarkostnað, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Berglindar Jónasardóttur héraðsdómslögmanns, sem í heild ákveðast 376.500 krónur og helming réttargæslulauna skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur héraðsdómslögmanns, sem í heild ákveðast 251.000 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.