Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2018

Steingrímur Erlendsson (sjálfur)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem S var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á hendur L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2018, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 30. maí 2018, en með honum var tekin til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur honum þar fyrir dómi. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Steingrímur Erlendsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Landsréttar 30. maí 2018.

Landsréttardómararnir Hervör Þorvaldsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð þennan.

Sakarefni

      Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjanda til greiðslu yfirdráttarskuldar á bankareikningi að fjárhæð 8.428.880 krónur. Áfrýjandi tók til varna og krafðist sýknu með þeim rökum að krafa stefnda byggðist á lögbrotum, blekkingum og svikum af hálfu stefnda auk rangrar og villandi upplýsingagjafar. Hafi framgangan farið í bága við III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fjármunirnir sem stefndi krefjist greiðslu á hafi verið notaðir í verðbréfaviðskiptum þar sem áfrýjandi og einkahlutafélag hans hafi verið skilgreind sem fagfjárfestar þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði þess. Byggir áfrýjandi á að bankinn hafi, með því að heimila honum og félagi hans slík viðskipti, brotið gegn margs konar löggjöf er lúti að bankastarfsemi, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti.

      Áfrýjandi hefur haft uppi gagnkröfur, skaðabótakröfu að fjárhæð 35.000.000 króna, og kröfu um að stefnda verði gert að aflétta tryggingarveðbréfi af fasteign sem áfrýjandi átti og nú hefur verði seld nauðungarsölu. Báðum kröfunum var vísað frá héraðsdómi án kröfu, þeirri fyrri vegna vanreifunar en þeirri síðari með vísan til þess að gagnsök hefði ekki verið höfðuð. Öllum málsástæðum áfrýjanda var hafnað með rökstuddum hætti í dómi héraðsdóms og þar sem áfrýjanda hefði ekki tekist að hnekkja framlögðu reikningsyfirliti sem krafa stefnda byggðist á var hann dæmdur til greiðslu yfirdráttarskuldarinnar í samræmi við kröfugerð stefnda.

      Áfrýjandi, sem er ólöglærður, áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar með áfrýjunarstefnu 25. janúar 2018 og krefst þess að dómi héraðsdóms verði hrundið auk þess sem hafðar eru uppi kröfur á hendur stefnda. Boðað er að kröfurnar muni meðal annars byggjast á niðurstöðu mats dómkvadds matsmanns sem krafist er að verði dómkvaddur svo að „kröfum Steingríms verði þannig komið með réttu í fjárhæð“.

Grundvöllur kröfu um málskostnaðartryggingu

      Stefndi krafðist málskostnaðartryggingar að fjárhæð 1.000.000 króna, með bréfi dagsettu 12. febrúar 2018, á þeim grunni að líkur væru á að áfrýjandi væri ófær um greiðslu málskostnaðar með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá áfrýjanda 15. desember 2017 vegna dómkröfu þessa máls með áföllnum vöxtum og kostnaði, samtals að fjárhæð 17.414.336 krónur.

      Áfrýjandi andmælti kröfunni um málskostnaðartryggingu meðal annars með vísan til þess að með kröfugerð sem dómur héraðsdóms byggðist á hefði stefndi tekið þennan þátt viðskipta aðila úr samhengi við aðra þætti viðskiptasambands þeirra sem lokið hefði í ágúst og september 2008 þegar bankinn hefði leyst til sín eignasafn á móti yfirdráttarskuld með lokun afleiðusamninga. Áfrýjandi byggir sérstaklega á því að krafa um málskostnaðartryggingu byggist á undantekningarreglu sem yrði honum þung í skauti í efnislega flóknu máli sem gæti um leið skert rétt hans til aðgangs að dómstólum. Undantekningarákvæðið eigi að túlka þröngt með vísan til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Niðurstaða

      Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði fjárnám hjá áfrýjanda 15. desember 2017 til fullnustu kröfu samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og lauk fjárnáminu án árangurs. Áfrýjandi hefur hvorki sýnt fram á að úrlausn sýslumanns sé haldin annmörkum né að hún gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans. Á grundvelli hinnar árangurslausu fjárnámsgerðar getur hver sá sem á gjaldfallna kröfu á hendur áfrýjanda krafist þess að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

      Með vísan til framangreinds hafa verið leiddar líkur að því að áfrýjandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar komi til þess að málskostnaður verði dæmdur stefnda, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru skilyrði að öðru leyti fyrir því að krafa stefnda um málskostnaðartryggingu verði tekin til greina.

      Samkvæmt framangreindu verður áfrýjanda gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar málskostnaðartryggingu, sem er hæfilega ákveðin 1.000.000 króna, í formi reiðufjár eða bankatryggingar, en að öðrum kosti verður málinu vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

Úrskurðarorð:

Áfrýjanda, Steingrími Erlendssyni, ber innan tveggja vikna frá uppsögu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi reiðufjár eða bankatryggingar að fjárhæð 1.000.000 króna fyrir greiðslu málskostnaðar í máli nr. 126/2018 fyrir Landsrétti.