Hæstiréttur íslands
Mál nr. 346/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
- Veðréttindi
- Fasteign
|
Þriðjudaginn 15. júní 2010. |
|
|
Nr. 346/2010. |
A og B (Guðbjarni Eggertsson hdl.) gegn Héraðsdómi Reykjaness (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Talið var að A og B hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við greiðslugetu þeirra á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna hafi verið stofnað. Með vísan til 5. og 6. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 var því talið að ekki yrði hjá því komist að hafna beiðni A og B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að þeim yrði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna. Kæruheimild er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að fallist verði á beiðni þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignarveðkrafna, sem hvíla á eign þeirra að [...]. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2010.
A, kt. [...] og B, kt. [...], bæði til heimilis að [...], [...], hafa farið þess á leit með vísan til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009 að þeim verði veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna við lánardrottna sína.
Beiðni skuldara er dagsett 9. nóvember 2009 og var hún móttekin 13. nóvember sl. hjá Héraðsdómi Reykjaness. Beiðnin er reist á því að skuldarar séu ófærir um að standa í fullum skilum á greiðslu skulda sem tryggðar eru með veði í eigin húsnæði skuldara og að önnur greiðsluerfiðleikaúrræði hafi reynst ófullnægjandi. Samhliða beiðni þessari leggja skuldarar einnig fram beiðnir til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar skv. X kafla a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Af hálfu dómstólsins var óskað eftir ítarlegri greinargerðum í þeim málum sem og þessu máli. Þær greinargerðir bárust dóminum ekki fyrr en maí á þessu ári og má rekja drátt málsins að stórum hluta til þess.
Í beiðni skuldara kemur fram að skuldarar búi ásamt tveimur börnum sínum í eigin fasteign. A hafi misst atvinnu sína þann 1. desember 2008 en af skattframtölum hans má ráða að hann hafi starfað hjá [...]. Í beiðni skuldara kemur hins vegar ekki fram í hverju starf hans var fólgið hjá áðurgreindu fyrirtæki. Áður hafi hann starfað hjá [...]. Eftir að skuldari missti vinnu sína hafi hann fengið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. B sé öryrki eftir bílslys árið 2003 og hafi ekki verið úti á vinnumarkaðinum frá árinu 2006. Hún hafi fengið örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en sé nú í endurmati og hafi því verið án tekna frá því í júlí 2009.
Upphaf fjárhagsörðugleika skuldara megi rekja allt til ársins 1998 þegar skuldarar hafi stofnað fyrirtækið [...] ásamt móður A og þáverandi unnusta hennar. Fyrirtækið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi skiptalok átt sér stað í apríl 2004. A hafi unnið við rekstur fyrirtækisins sem hafi farið ágætlega af stað. Lán hafi verið tekin með persónulegum ábyrgðum eigenda samtals að fjárhæð 15 milljónum króna. Rekstur fyrirtækisins hafi falist í innflutningi á [...]. Þegar rekstur félagsins hafi verið kominn á réttan kjöl hafi meðeigandi skuldara að rekstrinum svikið hann og aðra eigendur og tekið yfir umboð og innflutning í gegnum félag sitt [...]. Eftir það hafi skuldarar og móðir A setið í skuldasúpu en margar samningskröfur skuldara megi rekja til persónulegra ábyrgða sem skuldarar hafi gengist í vegna rekstrarins. Samningskröfur skuldara séu m.a. kröfur með lánsveði í fasteign foreldra [...]. Aðstæður þessar hafi valdið því að skuldari hafi verið tekjulaus um tíma en lán hafi verið tekin til að brúa tekjutapið, auk þess sem taka hafi þurft lífeyrissjóðslán til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld og skatta. Nú sé svo komið að skuldarar geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Haustið 2009 hafi A hafið nám við háskólann í [...] í Bretlandi í meistaranámi í [...]. Um eins árs nám sé að ræða og því séu námslok áætluð haustið 2010. A fái nú námslán frá LÍN en þau séu umtalsvert hærri en atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið áður. Vonir standi til þess hjá A að hann fái atvinnu við sitt hæfi að námi loknu en hann hafi meðal annars ákveðið að hefja nám í því skyni að auka atvinnumöguleika sína.
Meginorsakir greiðsluerfiðleika skuldara megi því einkum rekja til gjaldþrots atvinnureksturs skuldara árið 2004, örorku B og atvinnuleysis A frá og með árinu 2008. Auk þess hafi greiðslubyrði lána hækkað gríðarlega í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.
Í beiðni skuldara kemur fram að þau eru þinglýstir eigendur húsnæðis að [...], [...]. Um sé að ræða einbýlishús, 137m2 að stærð og sé fasteignamat þess 27.550.000 krónur. Fasteignin hafi verið keypt árið 2005 og kaupverð hennar numið 27.900.000 krónur.
Kröfur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 eru þrjár talsins. Í fyrsta lagi sé verðtryggt lán nr. [...] hjá Íslandsbanka upphaflega að fjárhæð 22.300.000, nú 30.712.337 krónur, tekið 12. ágúst 2005. Í öðru lagi sé verðtryggt lán nr. [...] hjá Íslandsbanka að fjárhæð 2.500.000 króna, nú að fjárhæð 3.070.614 krónur, tekið 26. maí 2006 og í þriðja lagi verðtryggt lán nr. [...] hjá Íslandsbanka að fjárhæð 2.100.000 krónur, nú að fjárhæð 2.544.181 króna, tekið 26. janúar 2007. Eftirstöðvar veðlána miðað við að skuldari sé í skilum nemi því 36.327.132 krónum og í vanskilum séu 1.165.300 krónur. Í beiðni skuldara kemur fram að láni nr. [...] hafi verið varið til kaupa á fasteign skuldara [...]. Veðláni nr. [...] hafi verið varið til að greiða upp persónulega ábyrgð vegna skuldar hárgreiðslustofu [...] og loks hafi veðláni nr. [...] verið varið til að fjármagna fyrirtæki A, [...]. Það fyrirtæki hafi verið tekið yfir af [...] og skuldara sagt upp störfum í framhaldinu en skuldin staðið eftir.
Nettó laun A séu að fjárhæð 293.880 krónur á mánuði að meðtöldum vaxta- og barnabótum. Tekjur B nemi 181.917 krónum á mánuði en þær séu byggðar á áætlun en skuldari hafi ekki fengið greiðslur frá því um mitt síðasta ár. Samanlagt hafi skuldarar því 504.097 krónur til ráðstöfunar á mánuði. Samanlögð greiðslugeta þeirra sé neikvæð um 72.304 krónur á mánuði þegar tillit hafi verið tekið til framfærslukostnaðar, sem nemi 407.500 krónum á mánuði og afborgana af íbúðarhúsnæði en mánaðarlegar afborganir af því nemi 168.314 krónum á mánuði.
Umsækjendur hafi lagt fram staðfestingu frá Íslandsbanka hf. um að ekki hafi fundist lausn á greiðsluvanda þeirra þrátt fyrir þau úrræði sem bankinn bjóði upp á. Þá liggi einnig fyrir staðfesting á miðlun greiðslna frá bankanum.
Forsendur og niðurstaða:
Leitað er greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Því er lýst í beiðni skuldara að fasteignin hafi verið keypt árið 2005 með verðtryggðu láni hjá Íslandsbanka. Upphafleg lánsfjárhæð hafi verið 22.300.000 krónur en standi nú í tæplega 31 milljón króna. Viðbótarveðlán þau sem tekin hafi verið árin 2006 og 2007 hafi verið tekin til að fjármagna fyrirtækjarekstur skuldara og standi þau nú í 5.614.795 krónum. Áhvílandi veðskuldir vegna fasteignarinnar að [...] nemi því samtals 36.327.132 krónur.
Í 5. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kemur fram að hafna beri beiðni ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í 6. tl. 2. mgr. 4. gr. laganna segir ennfremur að hafna beri beiðni hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu skuldara á þeim tíma er síðasta veðlánið var tekið verður að telja að skuldarar hafi með þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á þeim tíma hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Samkvæmt skattframtali 2006 fyrir tekjuárið 2005, námu eftirstöðvar veðlána skuldara 26.566.183 krónum og aðrar skuldir námu 18.860.133 krónum. Samkvæmt skattframtali 2007 fyrir tekjuárið 2006 námu eftirstöðvar veðlána 28.067.710 krónum og aðrar skuldir námu samtals 20.480.090 krónum. Samkvæmt skattframtali 2008 fyrir tekjuárið 2007 námu eftirstöðvar veðlána skuldara 29.331.196 krónum og aðrar skuldir 22.171.128 krónum. Það ár tóku skuldarar veðlán að fjárhæð 2.100.000 krónur en tekjur A á árinu 2007 námu einungis 779.902 krónum en í gögnum málsins kemur fram að skuldari hugðist hefja rekstur að nýju sem síðan reyndist ekki vera grundvöllur fyrir. B taldi engar tekjur fram á þessu ári. Auk þess gerði A kaupleigusamning það ár um fjórhjól að fjárhæð tæplega 1.200.000 krónur en skuldarar voru fyrir með einn kaupleigusamning vegna bifreiðar. Af því sem að ofan greinir verður að telja að skuldarar hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu þeirra á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.
Með vísan til þess sem að ofan hefur verið rakið, sbr. 5. og 6. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009, verður ekki hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðsamnings til greiðsluaðlögunar
Ragnheiður Bragadóttir kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
A, kt. [...] og B, kt. [...], er synjað um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna við lánardrottna sína.