Hæstiréttur íslands

Mál nr. 487/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. nóvember 2002.

Nr. 487/2002.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

gegn

X og

Y

(enginn)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Héraðsdómarinn J var ekki vanhæfur til að fara með mál barnaverndarnefndar R á hendur X og dóttur hennar, Y, þar sem krafist var að Y yrði vistuð á meðferðarheimili í tólf mánuði. Hafði J vikið sæti á þeim grundvelli að hann væri samstarfsmaður héraðsdómarans G, sem væri jafnframt formaður barnaverndnarnefndar, og því mætti með réttu draga óhlutdrægni hans í efa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2002, þar sem Jón Finnbjörnsson héraðsdómari vék sæti í máli þessu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins bar sóknaraðili fram við Héraðsdóm Reykjavíkur 14. október 2002 kröfu í eigin nafni, sbr. 1. mgr. 62. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, um að varnaraðilinn Y, sem lúti forsjá varnaraðilans X, yrði vistuð á meðferðarheimili í tólf mánuði á grundvelli heimildar í 28. gr. laganna. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var þetta gert á grundvelli ákvörðunar, sem barnaverndarnefndin tók á fundi 24. september 2002, en honum stýrði formaður nefndarinnar, Greta Baldursdóttir, sem að aðalstarfi er héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Jón Finnbjörnsson héraðsdómari tók þessa kröfu fyrir á dómþingi 23. október 2002. Vék hann sæti með hinum kærða úrskurði á þeirri forsendu að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa vegna þess að formaður sóknaraðila væri samstarfsmaður hans, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt þeirri meginreglu, sem kemur fram í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, er héraðsdómari sjálfstæður í dómstörfum og leysir þau af hendi á eigin ábyrgð. Skal hann fara eingöngu eftir lögum við úrlausn máls og aldrei lúta þar boðvaldi annarra. Á þessum grunni verður héraðsdómari aldrei stöðu sinnar vegna vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að það varði persónu, störf eða hagsmuni annars héraðsdómara. Í forsendum hins kærða úrskurðar er í engu getið atriða, sem gefið gætu til kynna að meiri tengsl standi milli héraðsdómarans, sem fór með málið, og héraðsdómarans, sem jafnframt er formaður sóknaraðila í aukastarfi, en almennt má ætla að séu fyrir hendi milli manna, sem starfa báðir á nokkuð fjölmennum vinnustað. Slík aðstaða er ekki að réttu lagi fallin til að draga í máli þessu í efa óhlutdrægni héraðsdómarans, sem fékk það til meðferðar. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2002.

Í máli þessu sem barst dóminum 15. október sl. krefst Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þess að Y verði vistuð á meðferðarheimili í allt að 12 mánuði. Mál þetta er rekið fyrir dóminum samkvæmt XI. kafla laga nr. 80/2002. Dómstjóri úthlutaði málinu til Jóns Finnbjörnssonar 16. október.

Samkvæmt 62. gr. laganna er barnaverndarnefnd sóknaraðili þessa máls. Ákvörðun um að reka mál þetta var tekin af nefndinni með úrskurði 24. september sl. Formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur er Gréta Baldursdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Þar sem samstarfsmaður dómara málsins er formaður þeirrar nefndar sem sækir mál þetta, er þar komið fram tilefni til að draga óhlutdrægni dómara málsins í efa. Tilvísanir til sjálfstæðrar stöðu hvers dómara nægja ekki til að kveða slíkar efasemdaraddir niður. Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 61. gr. laga nr. 80/2002, ákveður því dómari að víkja sæti í máli þessu.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, víkur sæti í máli þessu.