Hæstiréttur íslands
Mál nr. 742/2014
Lykilorð
- Veðleyfi
- Brostnar forsendur
- Ógilding samnings
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 11. júní 2015. |
|
Nr. 742/2014.
|
Bergþóra Eiríksdóttir Jónína Eggertsdóttir og Jón Heimir Örvar (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) og gagnsök |
Veðleyfi. Brostnar forsendur. Ógilding samnings. Málsástæða.
Í mars 2008 rituðu B o.fl. undir leyfi til veðsetningar nánar tiltekinnar fasteignar vegna veðskuldabréfs í tilgreindum erlendum myntum að jafnvirði 8.250.000 króna, en skuldari þess var T ehf. Í janúar 2013 endurútreiknaði Í hf. lánið þar sem það taldi að um hefði verið að ræða ólögmætt lán bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Í apríl sama ár var T ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti Í hf. kröfu í búið samkvæmt veðskuldabréfinu. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum samkvæmt því á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í maí 2013 krafði Í hf. B o.fl. um greiðslu eftirstöðva veðskuldabréfsins að fjárhæð 11.248.785 krónur auk vaxta og kostnaðar. Í dómi Hæstaréttar var hafnað þeirri málsástæðu B o.fl. að veðsetningin hefði verið ógild samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um brostnar forsendur þar sem í ljós hefði komið að um ólögmætt gengistryggt lán hefði verið að ræða, enda hafði veðsetningin hið minnsta náð til höfuðstóls skuldarinnar, eins og hann hafði verið endurreiknaður, og lögmætra vaxta af honum. Þá stoðaði B o.fl. ekki að bera fyrir sig að það hefði verið forsenda þeirra fyrir veðsetningunni að bú T ehf. yrði ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Þá hefðu þau engin haldbær rök fært fyrir því að lánveitingin hefði verið refsiverð eða að ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að bera veðskuldabréfið fyrir sig eða að það væri óheiðarlegt eftir ákvæðum 33. gr. sömu laga. Var því hafnað kröfu B o.fl. um ógildingu samningsins. Að lokum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að tilteknar málsástæður B o.fl. hefðu verið of seint fram komnar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2014. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að trygging þeirra samkvæmt nánar tilgreindu veðskuldabréfi, útgefnu af Trégaur ehf. 1. mars 2008, í eigninni Reynihvammi 5 í Kópavogi, fastanúmer 206-4724, skuli felld niður og að gagnáfrýjanda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 11. febrúar 2015. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Eins og í héraðsdómi greinir rituðu aðaláfrýjendur 1. mars 2008 undir leyfi til veðsetningar fasteignarinnar að Reynihvammi 5 í Kópavogi vegna veðskuldabréfs í tilgreindum erlendum myntum, að jafnvirði 8.250.000 króna, en skuldari þess var einkahlutafélagið Trégaur. Þar sem gagnáfrýjandi taldi í kjölfar dóma Hæstaréttar að um væri að ræða ólögmætt lán, bundið gengi erlendra gjaldmiða, endurreiknaði hann það og krafði skuldara 7. maí 2013 um greiðslu eftirstöðva veðskuldabréfsins að fjárhæð 11.248.785 krónur auk vaxta og kostnaðar. Hafði lánið þá verið fært niður um 9.536.279 krónur samkvæmt endurútreikningi gagnáfrýjanda. Fyrrgreint einkahlutafélag var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 11. apríl 2013 að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði og lýsti gagnáfrýjandi kröfu í búið samkvæmt veðskuldabréfinu að fjárhæð 11.743.228 krónur. Lýstar kröfur í búið námu samtals 22.142.184 krónum. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum samkvæmt því á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Aðaláfrýjendur rituðu undir leyfi til veðsetningar áðurnefndrar fasteignar fyrir láni, sem nam að höfuðstól jafnvirði 8.250.000 króna. Enda þótt í ljós hafi komið að um ólögmætt gengistryggt lán væri að ræða fær það því ekki breytt að veðsetningin náði hið minnsta til höfuðstóls skuldarinnar, eins og hann var endurreiknaður samkvæmt framansögðu, og lögmætra vaxta af honum. Geta aðaláfrýjendur því ekki með réttu byggt á því að veðsetningin hafi verið ógild samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um brostnar forsendur vegna þess að í ljós kom að um ólögmætt gengistryggt lán var að ræða. Þá stoðar aðaláfrýjendur ekki að bera fyrir sig að það hafi verið forsenda þeirra fyrir veðsetningunni að bú skuldara yrði ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Þeir hafa heldur engin haldbær rök fært fyrir því að lánveitingin hafi verið refsiverð eða að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að bera veðskuldabréfið fyrir sig eða það sé óheiðarlegt eftir ákvæðum 33. gr. sömu laga. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjendum verður eftir úrslitum málsins gert óskipt að greiða stefnda á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjendur, Bergþóra Eiríksdóttir, Jónína Eggertsdóttir og Jón Heimir Örvar, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 16. september 2014, var þingfest 2. apríl 2014. Stefnendur eru Bergþóra Eiríksdóttir, Reynihvammi 5, Kópavogi, Jónína Eggertsdóttir, Reynihvammi 5, Kópavogi, og Jón Heimir Örvar, Reynihvammi 5, Kópavogi. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi að trygging stefnenda samkvæmt veðskuldabréfi nr. 101ERLB08067003/4, nú með nýtt lánsnúmer 545-192571 (192572), útgefnu af Trégaur ehf., kt. [...], þann 1. mars 2008 í eigninni Reynihvammi 5, fastanúmer 206-4724, 200 Kópavogi, skuli felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að vera sýkn af kröfum stefnenda. Þá er gerð krafa um málskostnað.
I.
Málsatvik eru þau að hinn 1. mars 2008 rituðu stefnendur undir leyfi til veðsetningar fasteignarinnar að Reynihvammi 5 í Kópavogi, vegna veðskuldabréfs í erlendum myntum að jafnvirði 8.250.000 kr., í hlutföllum mynta þannig að 50% voru í svissneskum frönkum en 50% í japönskum jenum. Skuldari að bréfinu var Trégaur ehf. Stefnendur Jónína og Bergþóra rituðu undir veðskuldabréfið sem þinglýstir eigendur fasteignarinnar og samþykkir veðsetningu Reynihvamms 5, 200 Kópavogi, en stefnandi Jón Heimir sem samþykkur maki Bergþóru.
Samkvæmt ákvæðum veðskuldabréfsins skyldi það hvíla á 3. veðrétti eignarinnar. Lánveitandi var Byr sparisjóður, en stefndi hefur tekið yfir réttindi og skyldur sparisjóðsins samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. október 2011, með gildistöku 29. nóvember 2011. Samkvæmt skilmálum bréfsins var lánstíminn sex ár. Lánið skyldi greiðast til baka með 72 afborgunum á mánaðarfresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2008.
Með skilmálabreytingu 22. október 2008 var vöxtum og gjaldföllnum afborgunum bætt við höfuðstól lánsins og lengt í lánstímanum. Undir skilmálabreytinguna rita stefnendur Bergþóra og Jónína en ekki Jón Örvar.
Skilmálum veðskuldabréfsins var aftur breytt 24. ágúst 2009, m.a. með því að mánaðarlegar greiðslur voru festar í 104.000 kr. á mánuði á tilteknu tímabili. Undir skilmálabreytinguna rituðu allir stefnendur sem þinglýstir eigendur Reynihvamms 5.
Veðskuldabréfinu var svo skilmálabreytt 12. apríl 2010. Voru mánaðarlegar greiðslur festar í 29.000 kr. á tilteknu tímabili. Undir skilmálabreytinguna rita allir stefnendur sem þinglýstir eigendur Reynihvamms 5.
Hinn 10. september 2011 var gert árangurslaust fjárnám hjá Trégaur ehf., sem var lántaki samkvæmt ofangreindu veðskuldabréfi. Aftur var gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu 16. desember 2012.
Með bréfi 20. desember 2012 var Trégaur ehf. tilkynnt að umrætt veðskuldabréf, auk annars láns sem félagið hafði tekið hjá stefnda, hefða að geyma skilmála sambærilega þeim sem Hæstiréttur hefði dæmt ólöglega og yrðu lánin því endurreiknuð. Í bréfinu kemur fram að stefndi muni ekki senda út greiðsluseðla fyrir janúar, febrúar og mars 2013.
Með bréfi 8. janúar 2013 tilkynnti stefndi um endurútreikning erlends láns samkvæmt ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, með síðari breytingum. Voru eftirstöðvar lánsins 11.043.785 kr. og mynduðu nýjan höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands skyldu reiknast af nýjum höfuðstól frá 2. janúar 2013. Lánið skyldi vera með 61 afborgun á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2013. Staða lánsins fyrir endurútreikninginn var 20.580.054 kr.
Í stefnu segir að hinn 20. mars 2013 hafi öllum stefnendum borist tilkynningar og yfirlit yfir áhvílandi lánsveð í lok árs 2012, en í yfirlitum frá mars 2013 sé ekki að finna upplýsingar um nýja stöðu lána og staða veðskuldabréfs með veði í Reynihvammi 5 tilgreind 20.728.164 kr.
Með bréfi, dags. 27. mars 2013, var Trégaur ehf. tilkynnt að endurútreikningur lána félagsins lægi ekki fyrir og að ekki væri unnt að standa við fyrra boðað tímamark um að hann lægi fyrir í mars 2013. Var í bréfinu tilkynnt að ekki yrðu gefnir út greiðsluseðlar vegna gjalddaga í apríl, maí og júní 2013, nema endurútreikningi yrði lokið fyrir þann tíma.
Trégaur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 11. apríl. 2013, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Stefndi lýsti kröfu í búið samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, á grundvelli veðskuldabréfsins að fjárhæð 8.124.711 kr., auk annarra skulda óviðkomandi máli þessu. Var skiptum lokið í búinu á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 þar sem búið var eignalaust. Stefndi lýsti kröfu í búið á grundvelli endurútreiknings.
Stefndi sendi stefnendum innheimtubréf, dags. 7. maí 2013, þar sem skorað var á þau sem veðsala að greiða 11.844.991 kr. innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins þar sem skuldin væri öll gjaldfallin. Innheimtubréfinu var mótmælt með bréfi, dags. 17. maí 2013. Þá var stefnendum send greiðsluáskorun, dags. 4. júlí 2013, á grundvelli veðs stefnda í Reynihvammi 5. Var skorað á stefnendur að greiða 12.103.050 kr., innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins. Stefndi brást við erindinu með svari 16. september 2013 þar sem fram kom að eftirstöðvar veðskuldabréfs máls þessa, með veði í Reynihvammi 5, hefði verið endurreiknað og væru eftirstöðvar bréfsins hinn 16. september 2013 að fjárhæð 10.534.915 kr. Með bréfi 23. september 2013 var óskað viðræðna við bankann vegna uppgjörs á skuldum Trégaurs ehf. Ekki hefur náðst samkomulag um gildi veðsetningar stefnda og hafa stefnendur því höfðað mál þetta til að fá umræddum veðréttindum aflýst af eign þeirra.
II.
Stefnendur byggja á því að það hafi verið brostnar forsendur fyrir samþykki þeirra á veðsetningu Reynihvamms. Stefnendur hafi veitt samþykki sitt fyrir veðsetningu í íbúðarhúsnæði þeirra út frá þeim forsendum sem fyrir lágu við undirritun veðskuldabréfsins. Við útgáfu veðskuldabréfsins hafi fjárhæð þess í íslenskum krónum verið tilgreind 8.250.000 kr. Við veitingu samþykkis síns hafi stefnendur m.a. litið til þess að vextir á umræddu láni hafi verið lægri en vextir á íslenskum lánum. Til samanburðar megi geta þess að vextir samkvæmt kjörvaxtaþrepi 1 hjá Landsbankanum hafi í mars verið 19,07% á óverðtryggðum lánum en á verðtryggðum lánum 9,55%. Vextir bankanna á þessum tíma hafi verið mjög sambærilegir. Vegnir meðaltalsvextir á undirritunardegi skuldabréfsins hafi verið 6,58% og hafi gengi þeirra gjaldmiðla sem lánið var tengt við, þ.e. svissneska franka og japönsk jen, styrkst verulega gagnvart krónunni. Samkvæmt áætluðu greiðsluflæði veðskuldabréfsins, sem sjá megi á kaupkvittun frá upphaflegum lánveitanda, hafi afborgun og vextir af jen-hluta lánsins verið áætluð miðað við þáverandi gengi 0,6602, 73.868 kr., og af svissneska franka-hluta lánsins miðað við þáverandi gengi 66,0, 78.485 kr. Samtals því 152.354 kr. á 1. gjalddaga lánsins 1. apríl 2008, sbr. fyrirliggjandi útreikning stefnenda miðað við forsendur lánveitanda.
Óumdeilt sé að verðtryggðir vextir á Íslandi á umræddum tíma hafi verið mun hærri sem og óverðtryggðir vextir. Forsvarsmaður Trégaurs ehf., þ.e. lántaki, hafi enn fremur sagt stefnendum að samkvæmt þeim ráðleggingum sem stefndi hafi veitt honum væri afar líklegt að gengi íslensku krónunnar hefði náð lágmarki sínu og myndi taka að styrkjast að nýju fljótlega, sem myndi gera það að verkum að afborganir yrðu enn lægri í krónum talið.
Nú liggi fyrir að veðskuldabréf nr. 101ERLB080670003/4 hafi verið ólöglegt gengistryggt lán sem hafi brotið gegn ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Hafi stefndi endurreiknað lánið í samræmi við þá Hæstaréttardóma sem um slík lán hafi fallið.
Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi hafi gengi íslensku krónunnar hrunið og þær skuldbindingar sem hafi verið ólöglega tengdar gengi erlendra gjaldmiðla hafi hækkað gríðarlega.
Stefnendur hafi ekki vitað betur, þegar þeir veittu samþykki sitt fyrir veðsetningunni í íbúðarhúsnæði þeirra til tryggingar á skuldum Trégaurs ehf., sem var fyrirtæki í eigu tengdasonar stefnanda Jónínu, en að umrætt veðskuldabréf væri lögleg fjárskuldbinding. Í dag liggi hins vegar fyrir að um ólögmæta gengistryggingu hafi verið að ræða í veðskuldabréfinu og þar með brot á ófrávíkjanlegum reglum VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Brot á ákvæðum þess kafla laganna varði sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum, sbr. 17. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
Á meðan skuld samkvæmt hinu ólöglega veðskuldabréfi hafi hækkað stórkostlega hafi greiðsluerfiðleikar skuldara bréfsins, Trégaurs ehf., aukist jöfnum höndum og sú stökkbreyting sem hafi orðið á láninu frá því að vera að jafnvirði 8.250.000 kr. á útgáfudegi skuldabréfsins 1. mars 2008 og 20.728.164 kr. hinn 20. mars 2013, hafi orðið til þess að félagið hefði engan rekstrargrundvöll og farið í þrot og skilið stefnendur eftir með ábyrgð sína. Ljóst sé því að hin ólögmæta gengistrygging og refsiverð háttsemi stefnda hafi orðið til þess að stefnendur sitji nú uppi með veð í íbúðarhúsnæði þeirra sem orðið hafi til vegna þess að stefnendur hafi veitt tryggingu fyrir fjárskuldbindingu sem frá upphafi hafi verið bundin við ólögmæta gengistryggingu. Allar forsendur fyrir samþykki stefnenda á veðsetningu íbúðarhúsnæðis þeirra að Reynihvammi 5 séu því brostnar. Hin ólögmæta gengistrygging hafi orðið þess valdandi að lántaki hafi ekki getað greitt fjárskuldbindingar sínar og stefndu sitji því uppi með ábyrgð sína.
Stefnendur halda því fram að stefndi sem lánastofnun geti ekki borið fyrir sig að veð stefnda í íbúðarhúsnæði þeirra haldi gildi sínu, þegar fyrir liggi að veðskuldabréf stefnda hafi verið bundið ólöglegri gengistryggingu. Gera verði kröfu til stefnda um að þeir löggerningar sem hann leggi fram og fái tryggingarréttindi þriðja aðila fyrir standist í fyrsta lagi lög, séu skýrir og glöggir og breytist ekki á samningstímanum að efni eða skuldbindingargildi. Sú niðurstaða fái ekki staðist í réttarríki að stefnendur sem neytendur og ábyrgðarveitendur og aðilar sem ekki hafi haft nein tök á að koma að samningsgerðinni verði áfram bundnir við samning sem haldinn sé ólöglegri gengistryggingu eða samning sem á samningstímanum er gjörbreyttur hvað varðar lánakjör, vexti og gjaldmiðil, hvort sem umbreyting í íslenskar krónur er í samræmi við lög eða ekki. Forsendur þeirra fyrir veitingu veðsins séu algerlega brostnar. Fyrir liggi nú að umræddu skuldabréfi hafi verið breytt í lán í íslenskum krónum. Samkvæmt yfirliti yfir greiðslur á því láni, nr. 192572, hafi áætluð greiðslubyrði þess á gjalddaga 1. ágúst 2013 verið 239.447 kr. og á gjalddaga 1. mars 2014 verið 216.166 kr. Slík greiðslubyrði sé mun hærri en sú sem fyrirhuguð hafi verið á upphaflega láninu. Forsendur stefnenda fyrir veitingu veðs síns fyrir láninu séu því allt aðrar að teknu tilliti til þessa þáttar eingöngu að öllu öðru slepptu.
Hin ólögmæta gengistrygging í umræddu veðskuldabréfi hafi haft það í för með sér að gríðarleg óvissa hafi verið í mörg ár um eðli fjárskuldbindingar lántaka, þ.e. félagsins Trégaurs ehf. Fjölmargir viðaukar hafi verið gerðir við veðskuldabréfið þar sem lengt hafi verið í greiðslum og vaxtagreiðslur höfuðstólsfærðar. Á endanum hafi þetta haft það í för með sér að félagið hafi orðið gjaldþrota 11. apríl 2013. Hin ólögmæta gengistrygging sé því bein orsök þess að stefnendur sitji nú uppi með veð í íbúðarhúsnæði þeirra, sem veitt hafi verið til stefnda á grundvelli allt annarra forsendna en síðar hafi komið í ljós og stefnda hafi verið ljósar. Þó að lán félagsins Trégaurs ehf. hafi síðar verið endurreiknuð í íslenskar krónur í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána breyti það engu um stöðu stefnenda. Þeir séu nú krafðir um greiðslu samkvæmt nýrri uppreiknaðri stöðu lánanna í íslenskum krónum með annarri greiðslubyrði með öðrum vöxtum en á grundvelli veðs stefnda í eign þeirra.
Stefnendur halda því fram að þrátt fyrir hina almennu reglu um að samningar skuli standa sé það enn fremur viðurkennt sjónarmið að einstaklingar eigi ekki að vera bundnir við samninga sem gangi gegn almennum reglum, lögum og almennu siðferði. Frá sjónarhóli laga uppfylli krafa þeirra um ógildingu á skuldbindingu þeirra á grundvelli brostinna forsendna öll skilyrði forsendubrests.
Stefnendur byggja jafnframt á ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnendur telja að það sé bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, að stefndi haldi rétti sínum til tryggingar í eign stefnenda, þrátt fyrir að sá samningur sem stefndi byggir rétt sinn á hafi verið haldinn ólöglegum skilmálum og tekið grundvallarbreytingum á samningstímanum.
Enn fremur er á því byggt að bæði atvik sem voru til staðar við samningsgerðina, sem stefnendum hafi verið ókunnugt um, og síðari atvik eftir samningsgerðina, geri það bersýnilega ósanngjarnt að stefndi haldi tryggingarrétti sínum í eign þeirra, enda hafi orðið grundvallarbreyting á skuldbindingu þeirra sem ekki sé í samræmi við réttmætar forsendur þeirra fyrir veitingu ábyrgðarinnar. Í þessu sambandi vísa stefnendur til þess að stefndi hafi ekki fallist á að koma til móts við stefnendur að neinu leyti þrátt fyrir að vegna atvika er vörðuðu ólögmæt skilyrði samnings sem stefndi beri ábyrgð á séu stefnendur nú í afar slæmri stöðu. Telja stefnendur að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 heimili að ákvæði veðskuldabréfs stefnda um tryggingarréttindi í íbúðarhúsnæði þeirra verði vikið til hliðar.
Staða samningsaðila við samningsgerð sé með þeim hætti að stefndi verði að bera hallann af því að hafa lagt fyrir stefnendur að ábyrgjast fjárskuldbindingu sem haldin hafi verið ólögmætri gengistryggingu. Sú háttsemi stefnda hafi beinlínis leitt til þess að aðalskuldara hafi verið ómögulegt að uppfylla skuldbindingar sínar og orðið gjaldþrota og stefnendur sitji nú eftir með veð í íbúðarhúsnæði þeirra.
Stefnendur byggja jafnframt á því að það sé óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, að bera fyrir sig ákvæði umrædds skuldabréfs, enda sé ljóst að stefndi hafi hinn 29. nóvember 2011, þegar hann hafi tekið yfir réttindi og skyldur fyrri lánveitanda, mátt vita að skuldabréfið innihélt ólögmæt skilyrði og geti því ekki borið fyrir sig öll ákvæði skuldabréfsins eins og á stendur í máli þessu. Stefndi hefði fyrir yfirtöku á umræddu skuldabréfi getað gætt réttar síns og kunni jafnvel að hafa yfirtekið skuldbindinguna með afföllum, þótt stefnendum sé ókunnugt hvort svo sé. Byggt er á því að það sé óheiðarlegt af hálfu stefnda að bera fyrir sig ákvæði veðskuldabréfsins í ljósi þess forsendubrests sem orðið hafi fyrir veitingu tryggingarinnar af hálfu stefnenda.
Enn fremur er byggt á því að það sé andstætt viðurkenndum réttarsjónarmiðum og eðli máls ef stefnendur verði í ljósi allra aðstæðna bundnir við veitingu tryggingar í íbúðarhúsi sínu. Það fái ekki staðist þær meginreglur sem íslenskt réttarkerfi byggist á. Stefndi, sem sé með yfirburðastöðu gagnvart stefnendum, hafi tekið yfir réttindi samkvæmt umræddu veðskuldabréfi og hafi við það haft tækifæri til að gæta réttar síns með mati á réttindum samkvæmt bréfinu og tryggingum þess. Þar sem stefndi beri að stórum hluta ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir lántaka og stefnendum er byggt á því að það fá ekki staðist meginreglur laga og eðli máls að stefndi geti nú, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, haldið fast í veðréttindi sín og séu þau því í rauninni það eina í málinu sem haldist óbreytt. Slík niðurstaða fari gegn meginreglum íslensks réttar, eðli máls og réttlætisvitund sem íslenskt samfélag byggist á.
Þá er byggt á því í máli þessu að það sé andstætt jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að stefndi haldi tryggingarréttindum sínum. Stefndi hafi yfirtekið skuldbindingar samkvæmt veðskuldabréfi máls þessa og haft aðkomu að þeirri yfirtöku. Hann hafi haft tækifæri til að fá hina upphaflegu skuld metna og tryggingarréttindin metin samhliða yfirtöku sinni á skuldinni. Stefnendur hafi aldrei haft aðkomu að ákvörðunartöku hvað þetta varðar og hafi stefnda þannig verið veitt sérstök réttindi umfram stefnendur máls þessa. Fari þetta í bága við nefnd ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu. Er enn fremur á því byggt að ákvæði laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þar sem kveðið sé á um útreikning og meðferð mála þar sem kröfuhafi hefur með ólögmætum hætti tekið vexti eða beitt ólögmætri verðtryggingu, séu andstæð ofangreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. Telja stefndu ljóst að jafnræðis sé ekki gætt í ofangreindum lögum. Ákvæði laganna taki ekki á því með neinum hætti hvernig hagsmunum þeirra sem veita veð eða tryggingar á grundvelli ólöglegra lána samkvæmt lögunum skuli gætt. Fari það í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála þar sem réttindi þessara aðila séu með engum hætti tryggð í lögum eins og 65. gr. stjórnarskrár og 14. gr. mannréttindasáttmálans kveði á um.
Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og óskráðu meginreglunnar um brostnar forsendur og til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. gr. og 36. gr. Einnig er vísað til meginreglna laga og eðlis máls. Þá er vísað til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Krafan um málskostnað er studd við 130. gr. laga og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnenda. Hvað varðar þá málsástæðu stefnenda að forsendur fyrir veðsetningunni séu brostnar byggir stefndi á því að almennt hafi verið talið að skilyrðin fyrir brostnum forsendum séu einkum þrenns konar: Í fyrsta lagi þurfi forsendan að vera ákvörðunarástæða loforðsgjafa, þ.e. veruleg forsenda. Í öðru lagi þurfi forsendan að hafa verið ljós eða mátt vera ljós gagnaðila við samningsgerð. Í þriðja lagi þurfi ástæðan að vera mikilvæg og hér þurfi að líta til hagsmuna beggja aðila þannig að reglan leiði ekki til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir annan aðilann. Uppfylla þurfi öll skilyrðin en stefndi andmælir því að stefnendum hafi tekist að sanna að þessi skilyrði séu uppfyllt. Að mati stefnda sé í stefnu fjallað um fyrsta skilyrðið án þess að gerð sé tilraun til að sýna fram á að seinni tvö skilyrðin séu uppfyllt í málinu. Þegar af þessum sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Hvað varðar fyrsta skilyrðið, um að forsendan hafi verið ákvörðunarástæða loforðsgjafa, séu í stefnu ákvörðunarástæður stefnenda raktar nokkuð handahófskennt og margt tínt til. Stefnendur haldi því fram að það hafi annars vegar verið hinir lágu vextir sem hafi verið ástæða þess að þau samþykktu veðsetninguna. Einnig hafi þau gert það í þeirri trú að lánin væru lögmæt auk þess sem skilja verði stefnu þannig að stefnendur hafi gengið út frá því að afborganir og skuldin myndu ekki hækka verulega, sem og að aðalskuldari myndi greiða skuldbindingu sína. Stefndi hafnar þessu sem röngu og ósönnuðu.
Telja verði ljóst að stefnendur hafi samþykkt, bæði í upphafi og síðar, að vilji þeirra hafi verið sá að veðsetja eignina fyrir a.m.k. höfuðstól lánsins sem hafi að jafnvirði verið 8.250.000 kr., auk vaxta og annars kostnaðar. Beri að hafa í huga í þessu sambandi að vöxtum hafi verið bætt við höfuðstól með skilmálabreytingum sem stefnendur samþykktu. Þá verði ekki hjá því litið að forsenda stefnda fyrir veitingu lánsins, á þeim kjörum sem veitt voru, hafi verið hin ólögmæta gengistrygging og að ekki hafi verið möguleiki á að fá þessi kjör vegna lána í íslenskum krónum. Þetta sjónarmið hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar, t.d. dómi réttarins frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010.
Stefndi telur málflutning í stefnu mótsagnakenndan þegar kemur að frekari útlistun á forsendum stefnenda er lúti að trú þeirra á að um lögmætt lán væri að ræða og því að hin ólögmæta gengistrygging hafi valdið gjaldþroti aðalskuldara og þar með orðið til þess að skuldabréfið féll á stefnendur. Mótsögn stefnenda sé fólgin í því að lögmætt lán í erlendum myntum hefði haft sambærileg áhrif á stöðu þess láns í íslenskum krónum og hið ólögmæta gengistryggða lán. Hið sama gildi um greiðslubyrði lánsins ef hún væri metin í íslenskum krónum. Þó svo að fallist yrði á það með stefnendum að gengistryggingin hafi valdið því að aðalskuldari fór í þrot þá hefði það engu breytt ef lánið hefði verið lögmætt erlent lán. Þessi forsenda geti því hvorki talist veruleg né svo mikilvæg að fyrsta og þriðja skilyrði þess að ógilda samning vegna brostinna forsendna geti átt við. Ekki sé hægt að velja eftir því hvernig litið er á málið hvaða forsendur hafi verið verulegar. Stefnendur geti m.ö.o. ekki bæði haldið og sleppt í þessu samhengi.
Þá verði ekki hjá því litið að fjárhæð skuldabréfsins hafi verið leiðrétt u.þ.b. um helming við endurreikning, m.a. vegna þess að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða um fullnaðarkvittanir, og reiknaðir samningsvextir (þ.e. LIBOR-vextir) á lánið fram að því að endurreikningur hafi verið framkvæmdur. Þannig hafi bæði aðalskuldari og stefnendur notið þess hagræðis að fá vexti af svissneskum frönkum og japönsku jeni á lán í íslenskum krónum um nokkurra ára skeið. Ein af frumforsendum stefnda hafi því brostið við lánveitinguna, þ.e. hin órjúfanlega tenging milli vaxtakjaranna sem í boði voru og gengistryggingarinnar. Niðurstaðan sé því mun lægri skuld samkvæmt skuldabréfinu en nokkrar forsendur eða væntingar sem stefnendur hafi getað með réttu haft til skuldarinnar og þar með ábyrgðar sinnar.
Þá sé ljóst af gögnum málsins að það hafi ekki verið hin ólögmæta gengistrygging sem hafi valdið því að aðalskuldari, Trégaur ehf., fór í þrot. Raunar hafi úrskurður um gjaldþrotaskipti félagsins farið fram á meðan verið var að vinna að endurreikningi og ekki hafi verið gefnir út greiðsluseðlar vegna bréfsins. Þá komi fram í fundargerð skiptafundar í þb. Trégaurs ehf. að skiptastjóri teldi félagið vera eignalaust og af bókhaldi þess væri ljóst að lítil starfsemi hafi verið í félaginu um nokkra hríð. Verði varla önnur ályktun dregin af þessu en að verkefnaskortur hjá félaginu hafi valdið því að það fór í þrot. Auk þess verður ekki hjá því litið að það hafi ekki verið stefndi sem hafi sett félagið í þrot heldur embætti sýslumannsins í Hafnarfirði vegna opinberra gjalda. Þannig standist ekki sú fullyrðing stefnenda að stefndi hafi með veitingu ólögmæts láns að endingu orðið félaginu að falli. Aðalskuldari hafi ekki nýtt sér, eða ekki getað nýtt sér, það svigrúm sem hafi myndast við frestun greiðslna af hinu umdeilda skuldabréfi til að greiða af öðrum skuldum sínum. Slíkt geti ekki verið á ábyrgð eða kostnað stefnda. Þá hafi dómstólar margsinnis staðfest að almennar efnahagslegar aðstæður á Íslandi geti ekki talist til brostinna forsenda, sjá t.d. í máli nr. E-260/2010 hjá Héraðsdómi Suðurlands.
Auk þessa hafnar stefndi því alfarið að hann hafi með refsiverðri háttsemi valdið því að stefnendur sitja uppi með ábyrgð sína. Stefnda hafi ekki verið gerð refsing vegna skuldabréfs þess sem gefið var út í málinu né vegna annarra sambærilegra útlána. Raunar sé ekki neitt slíkt mál yfir höfuð í rannsókn. Dylgjum stefnenda hvað þetta varðar sé því hafnað sem alröngum og ósönnuðum.
Stefnendur halda fram að breytt kjör á láninu í kjölfar endurreiknings valdi því að allar forsendur þeirra fyrir veitingu veðsins hafi brostið. Þessu hafnar stefndi, enda fór breytingin fram á grundvelli skýrra dómafordæma og laga. Þá er einnig alþekkt að gengi íslensku krónunnar sveiflast mjög þannig að ef lánið hefði verið lögmætt erlent lán og aðalskuldari eingöngu með tekjur í íslenskum krónum er ljóst að áhrifin á fjárhag aðalskuldara væru þau sömu auk þess sem skuldin væri mun hærri, svo sem áður var rakið.
Stefndi telur fullljóst að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eða sanna að skilyrði fyrir ógildingu samnings á grundvelli brostinna forsendna séu til staðar. Umfjöllun í stefnu um tvö seinni skilyrði þess að hægt sé að ógilda samninga vegna brostinna forsendna sé lítil sem engin. Stefnendur víki raunar ekkert að því að stefnda hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um meintar forsendur þeirra þegar ritað var undir samning. Hins vegar sé alveg ljóst að forsenda stefnda fyrir veitingu lánsins hafi verið að fá tryggingu í fasteign stefnenda. Ógilding veðsins myndi því þýða að önnur frumforsenda stefnda fyrir veitingu lánsins myndi bresta, þ.e. auk gengistryggingarinnar. Þegar af þessum sökum sé ljóst að þriðja skilyrði fyrir beitingu reglna um brostnar forsendur sé ekki uppfyllt, enda myndi beiting reglunnar leiða til óréttlátrar réttarskerðingar fyrir stefnda. Auk þess hafi stefnendur í engu sýnt fram á að skilyrði þess, að forsendan sem ákvörðunarástæða sé mikilvæg, eigi við í málinu.
Í ljósi þess sem rakið er að framan og meginreglunnar um að samninga beri að halda verði að hafna kröfum stefnenda og sýkna stefnda af kröfum um ógildingu samnings vegna brostinna forsendna.
Þá hafnar stefndi því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í máli þessu. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu talin upp í stefnu án þess að heimfæra þau upp á málsatvik málsins og sýna þannig fram á að ákvæðið eigi við í málinu. Gera verði ríka kröfu til þess, í ljósi meginreglunnar um að samninga beri að halda, að aðilar sem beri fyrir sig 36. gr. laga nr. 7/1936 sýni með óyggjandi hætti fram á að ákvæðið eigi sannarlega við.
Þá bendir stefndi á að stefnendur geri ýtrustu kröfur um að samningur verði ógildur (þ.e. vikið til hliðar í heild). Engar kröfur séu um að víkja samningi til hliðar að hluta eða breyta honum. Ein af aðalforsendum þess að stefndi veitti lán til Trégaurs ehf. hafi verið trygging í fasteign stefnenda. Telur stefndi að skilyrði til beitingar greinarinnar séu ekki uppfyllt, enda geti það ekki talist „ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju“ að bera samninginn fyrir sig því að ljóst sé að vilji stefnenda hafi verið að veita veð fyrir a.m.k. jafnvirði 8.250.000 kr., auk vaxta og kostnaðar.
Stefndi áréttar að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að orsakasamhengi sé milli gengistryggingar og gjaldþrots aðalskuldara. Auk þess ítrekar stefndi að alþekkt sé að gengi íslensku krónunnar geti sveiflast mikið, en um þetta megi m.a. vísa til dóms Hæstaréttar frá 30. janúar 2014 í máli nr. 670/2013, sbr. forsendur héraðsdóms sem hafi verið staðfestar í Hæstarétti.
Þá geti það ekki talist ósanngjarnt af stefnda að bera fyrir sig samninginn af þeim sökum að nú þegar hafi stefnendur notið góðs af endurreikningi með hliðsjón af sjónarmiðum um fullnaðarkvittanir og þannig fengið vexti m.v. erlenda gjaldmiðla á lán í íslenskum krónum þannig að lánið hafi lækkað um helming. Sú lækkun hljóti að vera langt umfram eðlilegar væntingar eða forsendur stefnenda í upphafi, þ.e. m.v. að lánið væri gengistryggt eða erlent lán. Þegar af þessum sökum geti 36. gr. laga nr. 7/1936 ekki átt við og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Enn fremur hafnar stefndi því alfarið að 33. gr. laga nr. 7/1936 geti átt við, enda ekki óheiðarlegt að bera samninginn fyrir sig í skilningi ákvæðisins. Megi um það m.a. vísa til þeirrar verulegu lækkunar sem stefnendur hafi notið umfram réttmætar væntingar vegna endurreiknings lánsins. Þá sé ljóst að stefndi ber ekki fyrir sig öll ákvæði skuldabréfsins eins og þau komi fyrir á bréfinu, þ.e. þau ákvæði er varða gengistryggingu.
Einnig hafnar stefndi því að einhverju máli skipti hvort krafan hafi verið keypt með afföllum eða ekki. Meginregla íslensks réttar sé sú að kröfuhafaskipti geti farið fram án samþykkis skuldara (eða veðsala) og breytir „söluverð“ kröfu engu um fjárhæð skuldbindingar skuldara eða ábyrgðarmanna. Með hliðsjón af þessu og viðskiptabréfareglum er gilda um skuldabréfið sé málsástæða stefnenda ótæk, sbr. og dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 2014 í máli nr. 805/2013 en þar segi í forsendum héraðsdóms sem staðfestar hafi verið í Hæstarétti: „Jafnvel þó svo hefði verið að varnaraðili hefði fengið kröfuna á undirverði hefði það ekki haggað gildi bréfsins sem slíks og heimildum kröfuhafa vegna vanefnda skuldara.“ Telja verði að hið sama gildi gagnvart ábyrgðarmönnum eða veðsölum.
Þá bendir stefndi á að stefnendur vísi reglulega til þess að stefndi hafi átt að meta kröfuna og tryggingar að baki henni, m.a. við yfirfærslu skuldabréfsins. Stefndi vill í þessu samhengi benda á að óformlegt mat starfsmanna stefndu þyki benda til þess að krafan sé að fullu tryggð í eign stefnenda.
Þá vísar stefndi í þessu sambandi til þess sem áður segir um að stefnendur hafi þegar notið verulegs hagræðis til lækkunar á skuldinni vegna gengistryggingarinnar og að vilji stefnenda á sínum tíma hafi verið að tryggja skuld upp á a.m.k. jafnvirði 8.250.000 kr., auk vaxta og kostnaðar. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að skilyrði til ógildingar samningsins séu uppfyllt á grundvelli brostinna forsendna og það geti því ekki verið óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936 að bera fyrir sig samninginn vegna brostinna forsendna.
Hvað varðar málsástæður stefnenda um meginreglur laga og eðli máls og hins vegar ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu vísar stefndi til þess sem áður segir um að engu breyti um skuldbindingu stefnenda hvort stefndi hafi haft möguleika til að meta kröfuna samhliða yfirtöku hennar. Um sé að ræða viðskiptabréf auk þess sem skuldarar/ábyrgðarmenn hafi almennt ekkert um það að segja hver sé eigandi að kröfu á þá. Eigi það sérstaklega við þegar um er að ræða viðskiptabréf líkt og í þessu máli en það sé beinlínis gengið út frá því, í viðskiptabréfareglum, að slík bréf skipti um eigendur án verulegra vandkvæða.
Stefndi hafnar því að veðréttindin standi ein eftir óbreytt í bréfinu. Líkt og áður hefur verið rakið hafi stefnendur notið góðs af þeim breytingum sem urðu á skuldinni við endurreikning, þ.e. verulegrar lækkunar kröfunnar auk þess að fá lága LIBOR-vexti á skuld í íslenskum krónum um nær fimm ára tímabil. Vert sé í þessu samhengi að líta til þess að upphaflega hafi átt að endurgreiða skuldabréfið á sex árum og ætti það því að vera uppgreitt í dag samkvæmt upphaflegum skilmálum þess. Stefndi hafnar því alfarið að hann beri ábyrgð á því hvernig komið er fyrir aðalskuldara bréfsins og áréttar að það hafi ekki verið hann sem setti aðalskuldara í þrot.
Stefndi telur að tilvísanir stefnenda til 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu hafi enga þýðingu fyrir málið. Hvorugt ákvæðið geti takmarkað rétt kröfuhafa til að kaupa eða selja kröfur né geti framsal eða yfirfærsla krafna talist brot á ákvæðunum. Fráleitt sé að telja að veita beri skuldurum eða ábyrgðarmönnum aðkomu að ákvörðunum um hvort kröfur séu seldar eða færðar á milli aðila. Þá verði að telja að ef stefnendur telji að ákvæði laga hafi valdið þeim tjóni og brjóti gegn framangreindum ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu þá geti það ekki verið stefnda til tjóns, sem fari ekki með löggjafarvald. Stefnendur verði þá að leita réttar síns gagnvart löggjafanum, þ.e. með því að fara í skaðabótamál við íslenska ríkið.
Í ljósi alls ofangreinds telur stefndi að sýkna beri hann af kröfum stefnenda, enda hafi þeim ekki tekist að sýna fram á eða sanna að skilyrði til ógildingar séu fyrir hendi. Engar forsendur séu til að lækka kröfuna verulega, enda krefjist stefnendur ógildingar í heild á samningi en ekki að hluta eða breytingu á samningi. Krafa vegna brostinna forsendna geti að auki aldrei falið í sér annað en ógildingu samnings í heild sinni.
Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna fjármuna- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Þá er vísað til ákvæða samningalaga nr. 7/1936, einkum 33. og 36. gr. auk ólögfestra reglna samningaréttar um brostnar forsendur. Jafnframt vísast til viðskiptabréfareglna.
Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Eins og rakið hefur verið veittu stefnendur veð í eign sinni að Reynihvammi 5 í Kópavogi til tryggingar veðskuldabréfi útgefnu af Trégaur ehf. Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að tryggingin verði felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni.
Kröfu sína byggja stefnendur í fyrsta lagi á því að forsendur hafi brostið fyrir samþykki þeirra á umræddri veðsetningu. Það er grundvallarregla samningaréttar að menn verða almennt að standa við samninga sína og bera áhættuna af því að forsenda þeirra fyrir samningsgerð getur brostið. Það eitt að umrætt lán hafi reynst ólögmætt gengistryggt lán leysir stefnendur ekki undan ábyrgð sinni og að mati dómsins er ljóst að veðið var grundvallarforsenda af hálfu stefnda fyrir veitingu lánsins. Stefnendur gátu ekki vænst þess að greiðslubyrði af láninu yrði ávallt óbreytt, enda geta sveiflur verið á gengi og heimild var í 5. tl. veðskuldabréfsins til að breyta vaxtaálagi til hækkunar. Gegn mótmælum stefnda er ósannað að stefndi hafi sagt fyrirsvarsmanni Trégaurs ehf. þegar lánið var tekið að líklegt væri að gengi íslensku krónunnar hefði náð lágmarki og að krónan færi að styrkjast og afborganir af láninu myndu lækka. Eftir að fyrir lá að lánið væri ólögmætt gengistryggt lán var greiðslum af láninu frestað tímabundið og á tilteknum tímabilum voru mánaðarlegar greiðslur festar. Ekki var greitt af láninu í langan tíma. Lánið var svo endurútreiknað í samræmi við lög og dómafordæmi Hæstaréttar og skuldari og stefnendur nutu góðs af því. Stefnendur geta í máli þessu ekki byggt á því að stefndi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, enda hefur stefnda ekki verið gerð refsing vegna umrædds láns eða sambærilegra lána. Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram á að hið ólögmæta lán eða önnur slík lán hafi valdið því að Trégaur ehf. varð gjaldþrota, enda var það ekki stefndi sem fór fram á gjaldþrotaskiptin heldur sýslumaðurinn í Hafnarfirði vegna opinberra gjalda og svo virðist sem meginástæðan fyrir vanda Trégaurs ehf. hafi verið verkefnaskortur. Samkvæmt öllu framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að fella beri trygginguna niður á grundvelli reglna um brostnar forsendur.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður jafnframt að hafna því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera veðskuldabréfið fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, eða óheiðarlegt, sbr. 33. gr. sömu laga. Yfirburðastaða stefnda sem banka gegn stefnendum sem einstaklingum getur ekki ein og sér leitt til þess að ákvæðin eigi við. Þá verður að hafna því að það hafi þýðingu hvernig yfirfærslan á láninu fór fram á milli stefnda og Byrs sparisjóðs og að stefnendur hafi ekki getað gætt réttar síns þegar stefndi tók við réttindum samkvæmt veðskuldabréfinu af Byr sparisjóði, enda fóru kröfuhafaskiptin fram á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 17. október 2011, sem tók gildi 29. nóvember 2011, og það er meginregla kröfuréttar að kröfuhafi getur framselt öðrum kröfuréttindi sín án aðkomu skuldara. Er málsástæðum stefnenda um eðli máls eða brot gegn jafnræðisreglu hafnað.
Við aðalmeðferð málsins var enn fremur byggt á því af hálfu stefnenda að hver og einn þeirra hafi staðið í þeirri trú að hann væri aðeins að veðsetja eignarhlutdeild sína í umræddri eign. Af hálfu stefnda var þessu mótmælt sem nýrri málsástæðu sem væri of seint fram komin. Í stefnu er ekki byggt á þessu sem málsástæðu og gegn mótmælum stefnda kemst hún ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Einnig var á því byggt í málflutningsræðu lögmanns stefnenda að stefnendur séu ekki bundnir af veðsetningunni þar sem þeim hafi ekki verið sendar tilkynningar um ábyrgðir þeirra fyrr en í til stefnanda Jónínu 20. mars 2013. Vísaði lögmaður stefnenda í þessu sambandi til d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en þar er kveðið á um að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns, sem ábyrgð stendur fyrir, og yfirliti yfir ábyrgðir. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Af hálfu stefnda var bent á að ekki væri byggt á þessu sem málsástæðu í stefnu, ekki væri vísað þar til laga nr. 32/2009 og stefndi hafi ekki getað brugðist við þessari málsástæðu, s.s. með því að leggja fram gögn um fleiri tilkynningar sem kunna að hafa verið sendar stefnendum. Í stefnu málsins er ekki byggt á því sem málsástæðu að ábyrgð eigi að falla niður á grundvelli þess að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og að ábyrgð stefnenda eigi því að falla niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Þá er í stefnu hvergi vísað til laga nr. 32/2009. Að þessu virtu og þar sem stefndi mótmælir þessari málsástæðu sem of seint fram kominni kemst hún ekki að í málinu og verður ekki tekin afstaða til hennar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til alls framangreinds verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnenda, Bergþóru Eiríksdóttur, Jónínu Eggertsdóttur og Jóns Heimis Örvar.
Málskostnaður fellur niður.