Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 3

 

Mánudaginn 3. mars 2003.

Nr. 58/2003.

Landsbanki Íslands hf.

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

gegn

Lilju Pálsdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli, sem LÍ höfðaði á hendur L til innheimtu skuldar á kreditkortareikningi, var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Aðilar höfðu ekki lýst gagnaöflun lokið fyrir héraðsdómi þegar málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu L. LÍ lagði nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt, m.a. viðskiptaskilmála LÍ fyrir kreditkort, sem L hafði staðfest að hún hefði kynnt sér og myndi fylgja. Kom þar m.a. fram að korthafa væri sent reikningsyfirlit með umsömdu millibili og hann gæti gert athugasemdir við það yfirlit innan 20 daga frá móttöku þess. Hafði L ekki borið því við í málinu að yfirlitin hafi ekki verið send henni í samræmi við þetta. Málatilbúnaður LÍ þótti því ekki með þeim hætti að varðað gæti frávísun málsins vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Eru það svonefndir viðskiptaskilmálar, sem eru hluti af korthafasamningi málsaðila, tilkynning sóknaraðila 13. mars 2001 um lokun kreditkortareiknings varnaraðila, innheimtubréf sóknaraðila til varnaraðila 31. maí 2001 og ítrekun þess bréfs 7. ágúst sama árs. Aðilar höfðu ekki lýst gagnaöflun lokið fyrir héraðsdómi þegar málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila.

Í fyrrnefndum skilmálum korthafasamnings milli aðila málsins, sem sóknaraðili hefur nú lagt fyrir Hæstarétt, kemur fram að korthöfum sé mánaðarlega send útskrift yfir útistandandi skuldir og beri að greiða skuldina að fullu í síðasta lagi þriðja virkan dag hvers mánaðar til viðkomandi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Á yfirlitinu mun vera tilgreint nafn greiðsluviðtakanda, ásamt dagsetningu og upphæð. Hafi korthafi athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum samkvæmt skilmálunum að tilkynna það viðskiptabanka sínum eða sparisjóði innan tíu daga frá eindaga. Hefur varnaraðili ekki borið því við að reikningsyfirlit hafi ekki verið sent henni í samræmi við þetta. Málatilbúnaður sóknaraðila er samkvæmt öllu framansögðu ekki með þeim hætti að varðað geti frávísun málsins vegna vanreifunar.

Varnaraðili verður dæmd til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 80.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda, að loknum munnlegum málflutningi þann 27. þ.m. er höfðað með stefnu útgefinni 4. október 2002 og var málið þingfest þann 19. nóvember 2002.

          Stefnandi málsins er Landsbanki Íslands hf. kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, en stefnda er Lilja Pálsdóttir, kt. 040644-3349, Meistaravöllum 25, Reykjavík.

          Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 398.747,60 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalagalaga nr. 25/1987 af kr. 398.747,60 frá 06.02.2001 til 01.07.2001 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

          Dómkröfur stefnda eru aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara  að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum, er þess krafist, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

          Málavextir:

          Í stefnu er málavöxtum og málsástæðum lýst svo: „Skuld þessi er til komin vegna úttekta stefndu með VISA-greiðslukorti. Greiðslukortið sem er nr. 4548-9000-0050-9861 var útgefið til stefndu samkvæmt skriflegri umsókn hennar dags. 26.11.1996. Þann 06.02.2001 var gjaldfallin skuld stefnda vegna ofangreinds kr. 398.747,60. Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því nauðsynlegt að höfða mál tilgreiðslu hennar.”

          Til stuðnings kröfum sínum hefur stefnandi lagt fram það sem í skrá um framlögð skjöl er nefnt Útskrift úr viðskiptamannaskrá, en á skjalinu sjálfu er yfirskriftin: Korthafar- Fyrirspurn.

          Á skjali þessu kemur fram kortnúmer í samræmi við það, sem segir í stefnu og nafn, kennitala og heimilisfang stefndu. Þá kemur fram, að kort hafi verið útgefið 04.12.96. Staða sögð vera 515.872,24, þ.a. dráttarvextir 117.124,64. Greiðslud. er sagður 06.02.01. Gjaldfallið er sagt 398.747,60, sem er stefnufjárhæð, og þ.a. eldra 390.656,70.

          Af hálfu stefnda er frávísunarkrafan studd þeim rökum að málatilbúnaður uppfylli alls ekki grundvallarreglu um 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og skiljanlegan málatilbúnað. Málið sé að verulegu leyti vanreifað af hálfu stefnanda. og því ekki unnt fyrir stefnda að taka til efnislegra varna.

          Niðurstaða:

          Ekkert er að finna í gögnum málsins um þær úttektir stefndu með greiðslukorti, sem málatilbúnaður stefnanda virðist byggður á, hvorki, hvernig eða hvenær til þeirra var stofnað, hvort einhverjar þeirra séu færslur bankans sjálfs, né aðrar upplýsingar, sem  óhjákvæmilegt verður að teljast að fyrir liggi, svo að fullnægt sé lagakröfum um skýran málatilbúnað og nauðsynlegar hljóta að teljast til þess að stefndi hafi möguleika á að taka til varna.

          Telja verður samkvæmt þessu, að málatilbúnaður stefnanda í stefnu og öðrum sóknargögnum sé ekki með þeim hætti, að samrýmist ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber að vísa málinu frá dómi.

          Stefnandi greiði stefnda kr. 50.000 í málskostnað

          Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

          Máli þessu er vísað frá dómi.

          Stefnandi greiði stefnda 50.000 krónur í málskostnað.