Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/1998
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Ítrekun
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 485/1998. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Einari Inga Kristinssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Ítrekun. Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
E var ákærður fyrir ölvunarakstur og fíkniefnabrot. Um var að ræða ítrekaðan ölvunarakstur. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans og E dæmdur til fangelsisrefsingar, sviptingar ökuréttinda ævilangt og upptöku fíkniefna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.
Brot ákærða samkvæmt II. lið ákæru, sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, varðar við 2. mgr. 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 1. gr. laga nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, eins og henni var breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 177/1986. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Einar Ingi Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Héraðsdómur Suðurlands 29. október 1998.
Ár 1998, fimmtudaginn 29. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, í málinu nr. S-92/1998: Ákæruvaldið gegn Einari Inga Kristinssyni kveðinn upp svofelldur dómur:
Mál þetta sem dómtekið var 23. október sl. er höfðað fyrir dóminum með ákæru sýslumannsins á Selfossi, dagsettri 30. september 1998, á hendur Einari Inga Kristinssyni, kt. 080873-3609, Kirkjuvegi 35, Selfossi, fyrir eftirgreind brot:
I. „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 11. maí 1998 ekið bifreiðinni IG 115 undir áhrifum áfengis frá Selfossi, vestur Suðurlandsveg, þar til lögreglan stöðvaði akstur ákærða á móts við Ingólfshvol í Ölfushreppi.
II. fyrir fíkniefnabrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 29. maí 1998 haft innan við 0,1 g af amfetamíni í vörslu sinni á heimili sínu, en lögreglan fann efnið við húsleit og lagði hald á það.
Telst brot ákærða samkvæmt fyrri ákærulið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Telst brot ákærða samkvæmt síðari ákærulið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, sbr. reglugerð nr. 177, 1986, sbr. auglýsingu nr. 84, 1986.“
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar frá 9. júní 1998 samkvæmt 101. og 102. gr., sbr. 103. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57, 1997 og lög nr. 23, 1998.
Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á framangreindu amfetamíni (efnaskrá 5782) samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1984 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16, 1986 og til að sæta upptöku, með vísan til 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga nr. 93, 1994 og 68. gr. lyfsölulaga nr. 30, 1963, á 87 töflum af bolsterum, steralyfi með 5 mg metandóstólón (metandíelnón) í hverri töflu, sem lögreglan fann í vörslu ákærða við húsleit á heimili hans þann 29. maí 1998.
Með skýlausum játningum ákærða þykir sannað að hann hafi framið brot þau sem að honum eru gefin að sök í ákæru og þar eru rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði hefur ekki uppi andmæli við kröfu um upptöku.
Ákærði hefur sætt refsingum, sem hér geta skipt máli sem hér segir: Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 20. október 1992 fangelsi í 3 mánuði skilorðsbundið og sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. 37. gr., 1. mgr. 4., 2. mgr. 44. og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var hann sviptur ökurétti í 20 mánuði frá 7. febrúar 1992. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. maí 1993 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga framið 22. ágúst 1992 og dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 14. júlí 1993 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga framið 20. nóvember 1992. Dómunum var áfrýjað til Hæstaréttar og voru málin sameinuð fyrir réttinum og dæmd í einu lagi með dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. október 1993. Þá var skilorðshluti dómsins frá 20. október 1992 tekinn upp. Í Hæstarétti voru bæði brotin talin varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi. Þá var hann sviptur ökurétti í 3 ár frá uppsögu dómsins með vísan til 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 26. gr. laga nr. 44/1993. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 1994 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og með dómi sama dómstóls 24. febrúar 1995 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 2. sbr. 1. mgr. 257. gr. sömu laga. Loks var ákærði með dómi Héraðsdóms Suðurlands 16. október 1996 dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 13. maí 1997 fékk ákærði reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar 60 dögum.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 20. október 1992 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn m.a. 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var hann með dómi Hæstaréttar 28. október 1993 í málunum frá 28. maí 1993 og 14. júlí s.á. dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, framin 22. ágúst 1992 og 20. nóvember 1992. Með brotinu frá 20. nóvember 1992 gerðist hann sekur um ítrekað ölvunarakstursbrot. Í dómi Hæstaréttar er ákærði með vísan til 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 26. gr. laga nr. 44/1993, sviptur ökurétti í þrjú ár frá uppkvaðningu dómsins. Ölvunarakstursbrot það sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu telst því vera ítrekun öðru sinni í skilningi 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Hinn 13. maí 1997 fékk ákærði reynslulausn í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 60 dögum. Réttarrannsókn út af umferðarlagabroti því sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu og framið var 11. maí 1998, hófst ekki fyrr en eftir lok reynslutímans. Kemur því óafplánuð refsing samkvæmt reynslulausninni ekki til álita við ákvörðun refsingar í máli þessu.
Ákærði hefur greiðlega játað brot sín. Þykir refsing hans fyrir brot þau sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá ber samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá 9. júní 1998, en þann dag var ákærði sviptur ökurétti til bráðabrigða.
Þá verður ákærði með vísan til þeirra lagaákvæða sem vitnað er til í ákæru dæmdur til að sæta upptöku á innan við 0,1 g af amfetamíni og 87 töflum af steralyfi með 5 mg metandóstólón (metandíelnón) í hverri töflu, sem lögreglan fann við húsleit á heimili ákærða.
Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari:
Dómsorð:
Ákærði, Einar Ingi Kristinsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá 9. júní 1998.
Ákærði sæti upptöku á innan við 0,1 g af amfetamíni og 87 töflum af steralyfi með 5 mg metandóstólón (metandíelnón) í hverri töflu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðjóns Ægis Sigurjónssonar, héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.