Hæstiréttur íslands

Mál nr. 470/2010


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Kyrrsetning
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 17. nóvember 2011.

Nr. 470/2010.

Einar Þór Einarsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

Skuldabréf. Kyrrsetning. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi

A hf. höfðaði mál gegn E til staðfestingar kyrrsetningargerð sem beindist að eignastýringarsafni E hjá A hf. Auk þess gerði A hf. kröfu um að viðurkennt yrði að A hf. ætti kröfu á hendur E samkvæmt tilteknu skuldabréfi að höfuðstól sem gefinn var upp í þremur erlendum myntum. Í beiðni A hf. um kyrrsetningu og kyrrsetningargerðinni sjálfri var krafa bankans tilgreind á sama hátt auk innheimtuþóknunar í íslenskum krónum. Héraðsdómur staðfesti kyrrsetninguna að hluta en hafnaði viðurkenningarkröfu A hf. með vísan til þess að ákvæði í skuldabréfinu stönguðust á við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fyrir Hæstarétti hélt A hf. því fram að héraðsdómur hefði farið út fyrir grundvöll málsins, enda hefði bankinn einungis krafist viðurkenningar á því að hann ætti ótilgreinda fjárkröfu samkvæmt skuldabréfinu en ekki kröfu tiltekinnar fjárhæðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að bersýnilegt væri af 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að kyrrsetning gæti ekki farið fram til tryggingar fjárkröfu án þess að kveðið væri á um fjárhæð hennar. Enn síður gæti staðist að með kyrrsetningu væri unnt að girða fyrir að gerðarþoli ráðstafaði fjármunum sínum til þess að gerðarbeiðandi gæti á síðari stigum leitað fullnustu í þeim fyrir kröfu sem hann teldi sér þó að svo stöddu ófært að ákveða hvers efnis væri. Hvorki varð heldur ráðið af beiðni A hf. um kyrrsetningu né héraðsdómsstefnu að málið hefði varðað kyrrsetningu fyrir, og viðurkenningu á, kröfu að ótilgreindri fjárhæð. Benti Hæstiréttur á að í öllu falli hefði slík kröfugerð ekki staðist ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. A hf. gerði varakröfur fyrir Hæstarétti um viðurkenningu á því að hann ætti kröfu tiltekinnar fjárhæðar á hendur E. Þóttu þær, og málsástæður þeim til stuðnings, of seint fram komnar. Þær þóttu heldur ekki geta samræmst þeim grundvelli málsins sem A hf. byggði á fyrir Hæstarétti að málið hefði í öndverði hvílt á. Málinu var því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2010. Hann krefst þess að „hinum áfrýjaða dómi verði breytt þannig að synjað verði að öllu leyti fyrir staðfestingu kyrrsetningar, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði 18. ágúst 2009 í eignastýringarsafni nr. B # 470500 og að niðurstöðu héraðsdóms um að málskostnaður falli niður, verði hrundið“, en vísað verði frá Hæstarétti varakröfum gagnáfrýjanda, sem nánar greinir hér á eftir. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. október 2010. Hann krefst þess aðallega að „staðfest verði kyrrsetningargerð ... er sýslumaðurinn í Hafnarfirði framkvæmdi þann 18. ágúst 2008 hjá áfrýjanda, þar sem kyrrsett var eign áfrýjanda á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 hjá gagnáfrýjanda, til tryggingar skuld skv. skuldabréfi nr. 327-35-7015, ásamt vöxtum, kostnaði og þóknun, auk kostnaðar við gerðina og eftirfarandi staðfestingarmáls, og að viðurkennt verði að gagnáfrýjandi eigi kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015“. Til vara gerir gagnáfrýjandi sömu kröfu og að framan greinir um staðfestingu kyrrsetningar, en að „viðurkennt verði að gagnáfrýjandi eigi kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af áfrýjanda með gjalddaga þann 1. janúar 2008, að fjárhæð krónur 52.804.508 auk dráttarvaxta frá 01.01.2008 til greiðsludags“, að frádregnum 17 afborgunum á tímabilinu frá 5. mars 2008 til 4. ágúst 2009 að fjárhæð samtals 6.494.481 króna. Að þessu frágengnu gerir gagnáfrýjandi sömu kröfu um staðfestingu kyrrsetningar, en að „viðurkennt verði að gagnáfrýjandi eigi kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af áfrýjanda með gjalddaga þann 1. september 2009, að fjárhæð krónur 63.359.045 auk dráttarvaxta frá 01.09.2009 til greiðsludags.“ Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gaf aðaláfrýjandi út skuldabréf 15. desember 2006 til Kaupþings banka hf. að fjárhæð 147.000.000 krónur og yrði sú skuld bundin vísitölu neysluverðs með grunntölu 266,1 stig og bera svokallaða breytilega kjörvexti með 0,75% álagi. Á fyrsta gjalddaga skuldabréfsins, 1. janúar 2008, átti aðaláfrýjandi að greiða 130.000.000 krónur af höfuðstóli skuldarinnar „auk vaxta og verðbóta frá kaupdegi“, en upp frá því skyldu eftirstöðvar skuldarinnar greiddar ásamt vöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum. Í skuldabréfinu var ekki kveðið á um tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar.

Í málinu hefur aðaláfrýjandi lagt fram greiðsluseðil til sín frá Kaupþingi banka hf. vegna gjalddaga skuldabréfs 1. janúar 2008, en þar var vísað til númers á skuldabréfi, sem framangreint bréf frá 15. desember 2006 bar. Samkvæmt greiðsluseðlinum var þetta fyrsti af 49 gjalddögum skuldabréfsins og skyldi afborgun af nafnverði nema 48.914.539 krónum og af verðbótum 2.885.976 krónum, en að viðbættum vöxtum að fjárhæð 1.003.993 krónur og 510 krónum vegna tilkynningar- og greiðslugjalds átti samtals að greiða 52.805.018 krónur á þessum gjalddaga. Á seðlinum kom fram að „eftirstöðvar með verðb. eftir greiðslu“ yrðu engar. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda hafa engar skýringar komið fram á því hvernig þetta efni greiðsluseðilsins fær samrýmst því, sem kveðið var á um í skuldabréfinu samkvæmt framansögðu.

Aðaláfrýjandi undirritaði 25. janúar 2008 skjal á eyðublaði frá Kaupþingi banka hf. með yfirskriftinni „beiðni um skilmálabreytingu úr íslenskum krónum í erlendar myntir“. Á þessu skjali kom fram að beiðnin sneri að skuldabréfi með sama númeri og skuldabréfið 15. desember 2006 bar og óskaði aðaláfrýjandi eftir að skilmálum þess yrði breytt „með þeim hætti að eftirstöðvar skuldarinnar miðist framvegis við erlendar myntir skv. neðangreindu“, sem yrði „breytileg myntkarfa ... USD 33% ... CHF 34% ... JPY 33%“. Á sama skjali voru síðan reitir, sem voru ætlaðir starfsmanni bankans til útfyllingar, en þar kom meðal annars fram að „höfuðstóll sem skal myntbreyta“ væri 53.869.038 krónur, vextir yrðu 4,35% á ári að viðbættu 1,1% álagi, gjalddagi höfuðstóls yrði einn, 10. febrúar 2009, en vaxta tólf, í fyrsta sinn 10. febrúar 2008. Þessi síðarnefndi hluti skjalsins var dagsettur 29. janúar 2008. Sama dag undirrituðu aðilarnir yfirlýsingu með fyrirsögninni „myntbreyting úr íslenskum krónum í erlendar myntir“, þar sem fram kom að gerð væri skilmálabreyting á skuldabréfi að upphaflegri fjárhæð 147.000.000 krónur, sem gefið hafi verið út af aðaláfrýjanda 15. desember 2006, þannig að það yrði „erlent myntkörfulán með breytilegum vöxtum“. Sagði þar að aðaláfrýjandi óski eftir að skuld samkvæmt þessu skuldabréfi „verði breytt í erlendar myntir“ með sömu skilmálum og getið var í áðurgreindri beiðni, þar á meðal að „veðskuldabréfið verður eftirleiðis í eftirtöldum erlendum myntum: USD % hlutfall af lánsfjárhæð 33 ... CHF % hlutfall af lánsfjárhæð 34 ... JPY % hlutfall af lánsfjárhæð 33“.

Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er vísað til þess að Fjármálaeftirlitið hafi 22. sama mánaðar tekið ákvörðun um að ráðstafa tilteknum eignum og skuldbindingum Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heiti gagnáfrýjanda, og verður að ætla að með þessu beri hann því við að meðal eigna, sem hafi runnið til hans á þessum grunni, hafi verið fyrrgreint skuldabréf aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi undirritaði 31. mars 2009 skjal með fyrirsögninni „breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði“, þar sem aftur komu fram fyrrgreindar upplýsingar um skuldabréfið frá 15. desember 2006. Neðan við fyrirsögnina „sundurliðun eftirstöðva“ sagði meðal annars eftirfarandi: „Eftirstöðvar þann 12.01.2009 jafnvirði ISK 105.700.979“ og „Framreikn. eftirstöðvar jafnvirði ISK 94.265.063“.  Þá kom fram að skilmálar yrðu þannig að lánstími yrði fjórir mánuðir, gjalddagi fyrstu afborgunar, sem væri þó ein, yrði 10. maí 2009, en vaxtagjalddagar yrðu þrír, sá fyrsti 10. febrúar sama ár. Þetta skjal var jafnframt undirritað af hálfu gagnáfrýjanda. Enn undirrituðu aðilarnir skjal með sömu fyrirsögn 4. júní 2009 og var þar vísað á sama hátt og áður greinir til skuldabréfsins frá 15. desember 2006. Þessu sinni sagði að „eftirstöðvar þann 20.05.2009“ væru „jafnvirði ISK 108.267.576“, vextir skyldu reiknaðir frá 14. apríl 2009 og greiðast mánaðarlega í fjögur skipti, í fyrsta sinn 1. maí sama ár, en fyrsti og jafnframt eini gjalddagi höfuðstóls skuldarinnar yrði 1. september 2009.

Með bréfi til gagnáfrýjanda 20. júlí 2009 óskaði aðaláfryjandi eftir því að „eignarhaldi að eignasafni verði breytt og eiginkona mín Steinunn R. Sigurðardóttir ... verði skráð eigandi ásamt mér enda eignasafnið hjúskapareign okkar.“ Aðaláfrýjandi og eiginkona hans tilkynntu gagnáfrýjanda 31. sama mánaðar að þau segðu upp samningi frá 4. júní 2004 um eignastýringu, sem bæri númerið 470500, og var óskað eftir að „andvirði safnsins“ yrði lagt á tiltekinn innlánsreikning. Ekki verður séð af gögnum málsins að gagnáfrýjandi hafi svarað þessum bréfum.

 Gagnáfrýjandi afhenti 12. ágúst 2009 sýslumanninum í Hafnarfirði beiðni um kyrrsetningu hjá aðaláfrýjanda, þar sem þess var farið á leit að kyrrsett yrði „fyrir gerðarbeiðanda eign gerðarþola á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 sem vistað er hjá gerðarbeiðanda, til tryggingar fullnustu eftirfarandi kröfum“. Í framhaldi af þessum orðum sagði eftirfarandi:

„Lýsing kröfu: Skuldabréf nr. 327-35-7015 (upprunalega nr. 327-74-6222)

Krafan sundurliðast nú þannig:

Höfuðstóll                                                          JPY 28.793.898

                                                                            CHF     305.932

                                                                            USD     270.437

Innheimtuþóknun                                               ISK   2.396.909

Virðisaukaskattur                                               ISK      587.243

Samtals ISK                                                                2.984.152

auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands ... komi til gjaldfellingar frá 1. september 2009 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum og eftirfarandi staðfestingarmáls ... Ennfremur fer gerðarbeiðandi fram á það að gerðarþoli verði sviptum umráðum hinnar kyrrsettu eignar og hún verði í vörslu sýslumanns á reikningi hjá gerðarbeiðanda, sbr. 19. gr. laga nr. 31/1990.“

Í beiðninni var greint frá því að Kaupþing banki hf. hafi 15. desember 2006 lánað aðaláfrýjanda 147.000.000 krónur, sem hafi átt að endurgreiða með 130.000.000 krónum auk vaxta og verðbóta 1. janúar 2008, en eftir það með 48 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. febrúar sama ár. Aðaláfrýjandi hafi 29. janúar 2008 óskað eftir skilmálabreytingu, sem bankinn hafi samþykkt, og hafi lánið verið „fært yfir í erlendar myntir“ á þann hátt, sem hér áður greinir. Lánstíminn „skyldi vera 12 ár með gjalddaga þann 10. febrúar 2009“, en „greiða skyldi vexti frá 10. febrúar 2008 til gjalddaga með eins mánaðar millibili.“ Lánið hafi að beiðni aðaláfrýjanda verið „fryst“, þannig „að gjalddagi þess er nú 1. september 2009“. Þetta lán hafi verið „tryggt með innistæðu á markaðsreikningi“ með tilteknu númeri, sem aðaláfrýjanda hafi svo verið heimilað að færa inn á eignastýringarsafn sitt hjá bankanum „án þess að það væri sérstaklega veðsett til tryggingar þessarar skuldar en það eignasafn stendur til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi gerðarþola“. Á þeim reikningi væri yfirdráttarheimild fyrir 7.500.000 krónum, en „inneign á eignasafni“ væri yfir 98.000.000 krónur. Bankinn hafi ekki orðið við beiðni aðaláfrýjanda og eiginkonu hans í fyrrgreindu bréfi 31. júlí 2009, sem fylgdi beiðninni um kyrrsetningu, enda stæði eignastýringarsafnið að handveði fyrir yfirdráttarskuld og væri „reikningurinn ... yfirdreginn.“ Gagnáfrýjanda væri nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því „að kyrrsetja fyrir kröfu sinni ofangreindan reikning“, en hann hefði orðið þess vís í samtölum við aðaláfrýjanda að sá síðarnefndi hygðist ekki „greiða umrædda skuld.“ Aðaláfrýjandi hefði jafnframt óskað eftir að inneign á eignastýringarsafninu yrði „flutt yfir á nafn annars aðila“, en með því myndi tryggingastaða versna „um sem nemur næstum allri innistæðunni.“ Gagnáfrýjandi teldi að mjög myndi draga úr líkindum til að fá fullnustu „skuldarinnar“ eða fullnusta yrði verulega örðugri ef kyrrsetning yrði ekki heimiluð, en sér væri ekki kunnugt um aðra eign aðaláfrýjanda, sem gæti staðið „undir greiðslu þessarar skuldar.“ Teldi gagnáfrýandi að skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri fullnægt til að gerðin mætti fara fram, sem óskað væri eftir að gert yrði án undangenginnar boðunar til aðaláfrýjanda. Krafa um að sá síðastnefndi yrði „vörslusviptur hinni kyrrsettu eign“ væri reist á því að mikil hætta væri á „að eignin verði fjarlægð“ og yrðu þá hagsmunir gagnáfrýjanda í brýnni hættu. Loks var þess sérstaklega getið að „eins og mál standa núna er gerðarbeiðanda ómögulegt að gera fjárnám í eigninni þar sem lánið er ekki enn gjaldfallið.“

Sýslumaður tók þessa beiðni um kyrrsetningu fyrir 18. ágúst 2009 á heimili aðaláfrýjanda án undangenginnar boðunar til hans. Við gerðina var meðal annars fært til bókar að gagnáfrýjandi krefðist þess að „kyrrsett verði eign gerðarþola á eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 ... til tryggingar eftirfarandi kröfu“, sem síðan var tilgreind á sama hátt og í beiðni gagnáfrýjanda um kyrrsetninguna. Aðaláfrýjandi hafi sjálfur hist fyrir og hafi hann haft símsamband við nafngreindan lögmann, en síðan mótmælt „þessari kyrrsetningargerð þar sem hann kveður eiginkonu sína líka vera eigandi að fjármununum.“ Hann hafi óskað eftir „þeirri breytingu“ við gagnáfrýjanda, en sá síðarnefndi „kannast ekki við að hafa orðið við ósk hans og að eignarsafnið sé einungis á nafni gerðarþola.“ Aðaláfrýjandi hafi svo mótmælt að gerðin færi þegar fram og óskað eftir að fá að ráðfæra sig við lögmann sinn. Sýslumaður hafi ákveðið að „kyrrsetningin nái fram að ganga“ gegn tryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur, sem gagnáfrýjandi hafi þegar sett, og var bókað að sýslumaður „kyrrsetur eignarstýringarsafn gerðarþola nr. B # 470500“ án þess að nokkurs væri getið um að aðaláfrýjanda hafi verið gefinn kostur á að benda á eign til kyrrsetningar. Með þessu lauk gerðinni og var ekkert frekar fært til bókar vegna áðurnefndrar kröfu gagnáfrýjanda um að aðaláfrýjandi yrði sviptur umráðum yfir eigninni, sem kyrrsett var.

Gagnáfrýjandi fékk 21. ágúst 2009 útgefna stefnu í máli þessu, sem mun hafa verið birt aðaláfrýjanda 28. sama mánaðar. Í stefnunni gerði hann kröfu um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar, sem var efnislega samhljóða fyrrgreindri kröfu hans fyrir Hæstarétti, en að auki gerði hann þá kröfu að „viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2005 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar.“ Þá krafðist gagnáfrýjandi málskostnaðar. Í stefnunni var málsatvikum og málsástæðum gagnáfrýjanda lýst í sérstökum kafla, sem að efni til var eins og áðurgreind lýsing á atvikum og röksemdum í beiðni hans um kyrrsetninguna. Aðaláfrýjandi tók til varna í málinu, sem var þingfest 9. september 2009, og krafðist þess að hafnað yrði kröfu gagnáfrýjanda um að viðurkennt yrði að hann ætti fyrrgreinda fjárkröfu á hendur sér, svo og aðallega að hafnað yrði með öllu kröfu um staðfestingu kyrrsetningar, en til vara að hún yrði aðeins látin ná til helmings þeirra eigna, sem kyrrsettar voru. Þá krafðist aðaláfrýjandi þess einnig að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 30.000.000 krónur í bætur vegna kyrrsetningarinnar, en um þá kröfu var þó ekki höfðuð gagnsök. Í hinum áfrýjaða dómi var þessari síðastgreindu kröfu vísað frá dómi, hafnað var kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á því að hann ætti fjárkröfu á hendur aðaláfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006, en kyrrsetningin var á hinn bóginn staðfest að því er varðar helming þeirra eigna, sem hún var gerð í.

Á meðan mál þetta var rekið fyrir héraðsdómi höfðaði áðurnefnd eiginkona aðaláfrýjanda mál á hendur gagnáfrýjanda, þar sem hún krafðist þess að honum yrði gert að greiða sér 49.179.500 krónur með dráttarvöxtum frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags auk málskostnaðar. Fjárhæð þessarar kröfu mun hafa numið helmingi inneignar á fyrrnefndu eignastýringarsafni, eins og hún hafi verið tilgreind á yfirliti frá gagnáfrýjanda í ágúst 2009, en krafan var reist á því að eiginkona aðaláfrýjanda ætti þann hlut í safninu á grundvelli tilkynningar til gagnáfrýjanda 20. júlí 2009 og hafi samningi við hann um eignastýringu verið sagt upp með bréfi 31. sama mánaðar. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli 23. mars 2010 var kyrrsetningin 18. ágúst 2009 ekki talin standa þessari kröfu í vegi, enda hafi gerðin tekið til eignastýringarsafns aðaláfrýjanda, en ekki hlutdeildar eiginkonu hans í því, og var krafan tekin til greina. Eiginkona aðaláfrýjanda fékk gert fjárnám hjá gagnáfrýjanda 6. ágúst 2010 fyrir kröfu samkvæmt þessum dómi, sem ekki var áfrýjað. Gagnáfrýjandi greiddi síðan kröfuna 2. september sama ár með samtals 56.653.421 krónu að meðtöldum vöxtum og kostnaði.

II

Samkvæmt greinargerð gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti reisir hann fyrrgreinda dómkröfu sína um að viðurkennt verði að hann „eigi kröfu á hendur áfrýjanda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015“ á því að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið farið út fyrir „þann málsgrundvöll sem gagnáfrýjandi afmarkaði í upphafi málsins.“ Þessi krafa hafi eingöngu varðað kyrrsetningu á tilteknum eignum aðaláfrýjanda og viðurkenningu á því að gagnáfrýjandi ætti fjárkröfu á hendur aðaláfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006, en í héraðsdómsstefnu hafi þessu skuldabréfi aðeins verið lýst og ekki verið gerð krafa um „greiðslu sem unnt væri að fullnægja með aðför.“ Kyrrsetningunni og máli þessu hafi verið ætlað að „tryggja að óbreytt ástand í fjármálum áfrýjanda héldist að tilteknu leyti þar til í ljós kæmi hvort áfrýjandi hygðist standa við skuldbindingar sínar, en skuldin var ekki gjaldfallin þegar stefna í staðfestingarmáli var gefin út.“ Ef aðaláfrýjandi greiddi ekki „skuldina“ hlyti gagnáfrýjandi að höfða annað mál til að afla aðfararhæfs dóms fyrir „kröfunni“, en þar yrðu „lagðar fram kröfur um að áfrýjandi skuldaði gagnáfrýjanda tilteknar fjárhæðir sem krafist væri aðfarar eða aðfararhæfs dóms fyrir“. Jafnframt segir í greinargerðinni að „þrátt fyrir að í stefnunni væri einungis krafist viðurkenningar á því að gagnáfrýjandi ætti fjárkröfu samkvæmt skuldabréfinu, en ekki krafa um greiðslu tiltekinnar fjárkröfu sem unnt væri að fullnægja með aðför“ hafi héraðsdómur tekið afstöðu til fjárhæðar „kröfunnar“ og talið ákvæði í skuldabréfinu stangast á við 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með þessu hafi héraðsdómur andstætt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála farið út fyrir „þann málsgrundvöll sem gagnáfrýjandi afmarkaði í upphafi málsins“, en tilgangur kyrrsetningarinnar og þessa máls hafi verið „einungis að varna því að áfrýjandi ráðstafaði eignum á eignastýringarsafni sínu hjá gagnáfrýjanda, með þeim afleiðingum að draga úr líkindum á því að fullnusta gagnáfrýjanda á kröfu skv. skuldabréfi nr. 327-35-7015 takist eða verði verulega öðrugri.“ Ætlunin hafi ekki verið að afla heimildar til aðfarar, sem gæti leyst „af hólmi bráðabirgðavernd réttinda gagnáfrýjanda með kyrrsetningunni“, en krafa hans hafi ekki verið gjaldfallin þegar héraðsdómsstefna var gefin út og „því ekki tilefni til að höfða mál til heimtu skuldarinnar á þeim tíma.“

Í greinargerð gagnáfrýjanda eru varakröfur hans um að viðurkennt verði að hann eigi kröfu með tiltekinni fjárhæð á hendur aðaláfrýjanda á grundvelli skuldabréfsins frá 15. desember 2006 skýrðar og rökstuddar með því einu að „verði ekki fallist á að krafa gagnáfrýjanda sé einungis viðurkenningarkrafa og jafnframt að myntbreyting lánsins sem gerð var þann 30.01.2009 að beiðni áfrýjanda þann 29.01.2008 gangi gegn VI. kafla laga nr. 38/2001, hljóti upphaflegir skilmálar lánsins að gilda. Gagnáfrýjandi vísar til þess að beiðni um skilmálabreytingu var alfarið að frumkvæði áfrýjanda sjálfs og ef hann telur að víkja eigi þeirri breytingu til hliðar hljóti upphaflegir skilmálar bréfsins að halda gildi sínu.“ Í greinargerðinni var einskis getið um hvernig þessar varakröfur væru reiknaðar út.

Þá er þess að geta að í greinargerð gagnáfrýjanda segir eftirfarandi um kröfu hans um að kyrrsetningin 18. ágúst 2009 verði staðfest: „Gagnáfrýjandi byggir kröfu sína um að kyrrsetning nái til alls eignasafnsins ... að með því að hann hafi greitt eiginkonu áfrýjanda kr. 49.179.500 út af safninu hljóti það sem eftir stendur að standa til tryggingar skuld áfrýjanda við gagnáfrýjanda.“

III

Um fyrrgreindan málatilbúnað gagnáfrýjanda, sem lýtur að aðalkröfum hans fyrir Hæstarétti, verður að gæta að því að samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr.  31/1990 verður í beiðni um kyrrsetningu að greina svo skýrt sem verða má hver sú fjárhæð sé, sem kyrrsetningar er krafist fyrir, og hvernig hún sé sundurliðuð. Þegar af þessu lagaákvæði einu er bersýnilegt að kyrrsetning getur ekki farið fram til tryggingar fjárkröfu, sem gerðarbeiðandi hefur uppi á grundvelli tiltekins réttarsambands við gerðarþola án þess að kveða á um fjárhæð hennar. Enn síður getur í þessu ljósi staðist að með kyrrsetningu sé unnt að girða fyrir að gerðarþoli ráðstafi fjármunum sínum til þess að gerðarbeiðandi geti á síðari stigum leitað fullnustu í þeim fyrir kröfu, sem hann telur sér þó að svo stöddu ófært að ákveða hvers efnis sé. Hafi gagnáfrýjandi þrátt fyrir þetta haft í hyggju að fá hjá aðaláfrýjanda kyrrsetningu fyrir kröfu án tilgreindrar fjárhæðar varð það að minnsta kosti ekki ráðið af beiðni hans um gerðina eða því, sem bókað var að komið hefði fram af hans hálfu við framkvæmd hennar. Af héraðsdómsstefnu verður heldur ekki séð að mál þetta hafi verið höfðað til að fá staðfesta kyrrsetningu fyrir ótilgreindri fjárhæð og viðurkenningu á því að aðaláfrýjandi stæði í ótiltekinni skuld við gagnáfrýjanda á grundvelli skuldabréfsins frá 15. desember 2006, enda fengi slík kröfugerð í dómsmáli heldur ekki staðist ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu virtu er ófært að fella efnisdóm á aðalkröfur gagnáfrýjanda eins og hann hefur borið þær fram fyrir Hæstarétti, en vegna þessa málatilbúnaðar gæti heldur ekki komið til álita að leysa úr málinu á þeim grundvelli, sem það virtist hvíla á fyrir héraðsdómi.

Varakröfur gagnáfrýjanda um að viðurkennt verði að hann eigi kröfu tiltekinnar fjárhæðar á hendur aðaláfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu 15. desember 2006 voru ekki hafðar uppi í héraði og komu því engar málsástæður þar fram til stuðnings þeim. Þessar varakröfur geta heldur ekki samrýmst fyrrgreindum grundvelli, sem gagnáfrýjandi segir nú að hann hafi frá öndverðu ætlað að láta þessa málsókn hvíla á. Að auki hafa þessar kröfur ekki verið reifaðar á þann hátt í málatilbúnaði gagnáfrýjanda að unnt gæti verið að leggja efnisdóm á þær.

Af þeim sökum, sem að framan greinir, verður sjálfkrafa að vísa frá héraðsdómi öllum kröfum gagnáfrýjanda um viðurkenningu á því að hann eigi kröfu á hendur aðaláfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu, sem sá síðarnefndi gaf út 15. desember 2006. Með því að ekki er tekin til greina nokkur krafa gagnáfrýjanda um þau efnislegu réttindi, sem kyrrsetningargerðinni 18. ágúst 2009 var ætlað að tryggja, leiðir af sjálfu að einnig verði að vísa frá héraðsdómi kröfu um staðfestingu hennar.

Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi, Arion banki hf., greiði aðaláfrýjanda, Einari Þór Einarssyni, samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. júlí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. júní sl., var höfðað með réttarstefnu útgefinni 21. ágúst 2009, birtri 28 ágúst  2009.

Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík., en stefndi er Einar Þór Einarsson, Mýrarkoti 6, Álftanesi.

Stefnandi krefst þess að staðfest verði kyrrsetningargerð nr. K-13-2009, er sýslumaðurinn í Hafnarfirði framkvæmdi þann 18. ágúst 2009 hjá stefnda þar sem kyrrsett var eign stefnda í eignastýringarsafni hans nr. B # 470500 hjá stefnanda, til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, ásamt vöxtum, kostnaði og þóknun, auk kostnaðar við gerðina og staðfestingarmál þetta.

Ennfremur krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.             Aðallega að synjað verði fyrir staðfestingu kyrrsetningargerðar nr. K-13-2009 frá 18. ágúst 2009, en til vara að kyrrsetningin nái einungis til helmings eignastýringarsafnsins.

2.             Að synjað verði fyrir kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfur á hendur stefnda að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar.

3.            Krafist er sýknu af kröfum um vexti og kostnað.

4.             Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda í miska og skaðabætur 30.000.000 krónur eða aðra fjárhæð að álitum dóms með dráttarvöxtum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

5.            Krafist er sýknu af kröfum stefnanda um málskostnað.

6.            Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefnandi kveður helstu málavexti þá, að stefndi hafi fengið lán hjá stefnanda í formi skuldabréfs sem hafi verið útgefið þann 15. desember 2006. Lánið var að fjárhæð 147.000.000 krónur. Skyldi lánið endurgreiðast þannig að þann 1. janúar 2008 skyldi greiða 130.000.000 krónur auk vaxta og verðbóta en eftirstöðvar skyldi greiða með 48 greiðslum á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn þann 1. febrúar 2008. Stefndi hafi farið fram á skilmálabreytingu á láninu þann 29. janúar 2008 sem stefnandi hafi samþykkt. Lánið hafi þá verið fært yfir í erlendar myntir þannig að 33% þess skyldi vera í USD, 34% í CHF og 33% í JPY. Lánstíminn skyldi vera vera 12 ár með fyrsta gjalddaga þann 10. febrúar 2009. Greiða skyldi vexti frá 10. febrúar 2008 til gjalddaga með eins mánaðar millibili. Að beiðni stefnda hafi stefnandi fryst lánið vegna þeirrar stöðu sem skapaðist í október 2008, þannig að gjalddagi þess skyldi vera þann 1. september 2009. Lánið hafi verið tryggt með innistæðu á markaðsreikningi nr. 327-13- 300926 hjá stefnanda, en stefndi hafi svo farið fram á að færa þá inneign inn á eignastýringarsafn sitt hjá stefnanda með númerinu B # 470500 án þess að það hafi verið sérstaklega veðsett til greiðslu skuldarinnar.

Stefnandi kveður aðild sína tilkomna vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun dagsettri 22. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að ráðstafa þar tilgreindum eignum og skuldum Kaupþings banka hf. til nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf.

Stefndi kveðst hafa um árabil átt umtalsverð viðskipti við Kaupþing banka hf. og í hvívetna lotið fjármálaráðgjafar sérfræðinga þess félags. Hann hafi átt umtalsverðar inneignir í bankanum, þ. e. sparifé, m. a. fjármuni í eignastýringu samkvæmt samningi dagsettum 4. júní 2004. Í samræmi við ákvæði samningsins hafi stefndi tilkynnt stefnanda um breytingu á eignarhaldi að safninu skriflega 20. júlí 2009. Eignasafnið hafi verið án kvaða og hafi stefnanda borið að verða við kröfum stefnda og færa það enn fremur á nafn Steinunnar Sigurðardóttur, án undandráttar. Lögmaður stefnda hafi sett fram skriflegar kröfur um þetta við bankastjórn stefnanda.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi aðilaskýrslu en skýrslur vitna Ása Bergsdóttir Sandholt, ftr. sýslumannsins í Hafnarfirði, Sigurður Þór Snorrason, Bergstaðastræti 73, Reykjavík og Elín Guðlaug Stefánsdóttir,  Laugarnesvegi 63, Reykjavík.

Stefndi skýrði svo frá að sýslumaður hefði ekki leiðbeint honum um réttarstöðu hans við aðfarargerðina og ekki bent á að hann gæti krafist tryggingar. Stefndi kvaðst hafa rekið fyrirtækið Samtak, selt það og lagt söluandvirðið inn á eignastýringarreikning hjá stefnanda. Hann reki byggingarfyrirtækið Hraunás og hafi hann stofnað til skulda vegna kaupa á íbúðum í smíðum. Fyrir skuldunum hafi verið veð í öllum íbúðunum. Hraunás hafi lagt fram veðin og skuldin hafi verið vegna Hraunáss. Stefnandi hafi haft tryggingar sem áttu að tryggja allar hans skuldir. Þá hafi stefnandi fjármagnað kaup á umræddum íbúðum fyrir kaupendur þeirra. Stefndi kvað lánið samkvæmt skuldabréfi því er mál þetta varðar hafa verið lokalán vegna fasteignakaupanna og hafi það runnið til þess aðila er byggði fasteignirnar. Að 130.000.000 krónur skyldu greiðast af láninu eftir 2 ár hafi byggst á ætlan að þá yrði búið að selja allar íbúðirnar. Hann kvað aldrei hafa verið rætt almennilega um það hvernig lánið stæði. Hann hefði ekki fengið kvittanir vegna innborgana árið 2007, en gengið út frá því að allar greiðslur færu inn á lánið. Hann hefði einungis tvisvar fengið tilkynningar um ráðstöfun greiðslna. Hann kvaðst ekki hafa fengið erlendan gjaldeyri er láninu var skuldbreytt í erlendar myntir. Þetta hefði verið gert innan bankans. Hann hefði ekki sótt um þá breytingu. Hann kannaðist ekki við að hafa gefið yfirlýsingu um að hann ætlaði sér ekki að greiða lánið.

Ása Bergsdóttir Sandholt, fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði, bar fyrir dóminum að frumrit skuldabréfsins sem krafa stefnanda sé reist á hefði komið fram þegar farið var á heimili stefnda. Ekki hefði verið búið að leggja það fram áður. Stefnandi hefði komið með frumritið á heimili stefnda. Ljósrit skuldabréfsins hefði fylgt beiðni stefnanda. Bókun sem hafði verið vélrituð áður en farið var heim til stefnda hefði því tilgreint ljósrit skuldabréfs. Áður en málið var tekið fyrir hefði stefnandi hins vegar komið með frumritið. Hún staðfesti að gerðarþoli hefði ekki verið boðaður til gerðarinnar á skrifstofu sýslumanns og því hefði verið farið á heimili gerðarþola þar sem hann hittist fyrir. Hún hefði gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart gerðarþola, sem hefði hringt í lögmann sinn auk þess sem hún hefði sjálf talað við lögmann stefnda. Hún kvað stefnda hafa lagt fram bréf stefnda dagsett 20. júlí 2009 sem hann hafði sent stefnanda þar sem beðið var um breytingu á eignaraðild að eignastýringarsafninu og uppsögn á því. Stefnandi hefði við fyrirtökuna mótmælt því að Steinunn eiginkona stefnda væri orðin eigandi safnsins að hálfu. Lögmaður stefnda hefði vísað til þessa bréfs en stefnandi hefði hafnað þessu. Þetta hefði ekki gefið sýslumanni tilefni til skoðunar að svo stöddu þar sem stefnandi sagðist hafa hafnað beiðninni um breytingu á eignaraðild að safninu. Hún kvað engar athugasemdir hafa verið gerðar við bókanir sýslumanns.

Sigurður Þór Þórðarson, forstöðumaður á viðskiptabankasviði stefnanda kvaðst fara yfir allar stærri lánveitingar og samþykkja þær. Hann hefði komið að málum stefnda er hann rak fyrirtæki og seldi. Lánsbeiðni hefði komið frá stefnda á árinu 2006. Þá hefði stefndi verið með fjármuni til fjárfestinga. Bankinn hefði lánað stefnda peninga til að kaupa fasteignir í Hafnarfirði. Stefndi hefði verið svokallaður fasteignaheildsali. Átt íbúðir og selt þær með gróða og óskað frekari lánafyrirgreiðslu. Því hefði vitnið verið andvígt. Stefndi hefði selt eignir og orðið fyrir einhverju fjárhagstjóni. Stefndi hefði ekki notað alla innkomna peninga til að greiða lán sín. Hann hefði viljað láta peningana liggja á reikningi. Á þessum tíma hefði verið hægt að taka áhættu og hagnast með vaxtaskiptasamningum. Áhættan felist í því  að vextir breytist eða gengið fari af stað. Það hefði gerst og tap myndast. Lánum hefði þá verið breytt og endurfjármögnun átt sér stað. Skuldabréfið í máli þessu hefði verið liður í þeim viðskiptum. Viðskiptin hefðu verið á nafni stefnda við bankann, en félagið Hraunás hefði komið inn í myndina. Vitnið kvað bankann ekki hafa tekið ákvörðun um skilmálabreytingar á stóra láni stefnda. Stefndi hefði haft mikil samskipti við bankann, viljað breytingar og viljað taka mikla áhættu. Stefnandi hefði aldrei auglýst erlend lán. Þeim hefði aldrei verið haldið að viðskiptavinum bankans. Hins vegar hefði verið mikil pressa frá viðskiptavinum gagnvart bankanum um að fá erlend lán, einnig frá stefnda.

Vitnið kvað stefnda hafa selt fyrirtækið Samtak og úr þeirri sölu hefðu komið talsverðir fjármunir sem stefndi lagði inn í fjárfestingar sínar. Stefndi hafi rekið fyrirtæki á eigin kennitölu að segja mætti. Hann hefði lagt fram eigið fé og bankinn lánað á móti. Þegar fasteignir voru seldar hefðu fjármunirnir verið handveðsettir á reikningi. Eignastýringarféð hefði verið handveðsett um tíma samkvæmt handveðsgerningi. Alltaf hefði verið skýrt að eignasafnið stæði undir lánum stefnda. Vitnið kvað augljóst að stefndi hefði ekki ætlað sér að borga skuld sína um það leyti sem farið var í kyrrsetninguna. Krafan um kyrrsetningu hefði verið þung ákvörðun fyrir bankann. Viðræður um lausn hefðu átt sér stað áður en ekki tekist að finna lausn. Fram hefði komið í samtali Elínar starfsmanns stefnanda við stefnda Einar að hann ætlaði sér ekki að greiða. Vitnið kvaðst hafa vitað um beiðni stefnda um að eignastýringarsafnið yrði einnig skráð á eiginkonu hans. Vitnið kvað stefnda hafa boðið fram veð í aflaheimildum. Það hefði ekki verið talið ásættanlegt, en stefndi hefði óskað eftir peningum úr eignastýringarsafni sínu til að fjármagna aflaheimildakaup.

Vitnið Elín Stefánsdóttir kvaðst starfa á viðskiptabankasviði stefnanda. Hún hefði verið undirmaður vitnisins Sigurðar Þórs og framkvæmt ákvarðanir hans. Hún hefði verið tengiliður við útibú og afgreitt mál til lánanefndar. Er stefndi hefði óskað eftir flutningi á peningum yfir á nafn eiginkonu sinnar hefði bankinn séð fram á neikvæðan vaxtamun. Ákveðið hefði verið að bjóða stefnda að borga strax inn á lán sín vegna stöðugrar veikingar krónu. Áður hefði bankinn hleypt peningum út af eignastýringarreikningi til einkaneyslu stefnda. Þá hefði ríkt jafnvægi. Eftir bankahrunið hefðu lán hækkað og hefði þá verið tekið fyrir úttekt af eignastýringarreikningnum. Vitnið kvað stefnda hafa sagt að hann bæri ekki ábyrgð á hruninu og hefði hann tekið tilmælum bankans illa. Boðist í mesta lagi til að borga höfuðstól láns. Í ljós hefði komið að stefndi hafði lokað reikningum í útibúi, losað handveð, skráð hesthús á nafn eiginkonu o.fl. Vitnið kvaðst hafa verið viðstödd er kyrrsetning fór fram. Vitnið var spurt út í dsk. 11 og dskj. 30. Vitnið kvað þetta varða færslukerfi. Reiknistofa bankanna gæti ekki haldið utan um erlend lán. Með dskj. nr. 30 sé því verið að færa skuld milli kerfa. Á dskj. nr. 11 sé greiðsluseðil sem aðeins hafi verið gefinn út í tengslum við færslu milli kerfa, en þarna hefði átt sér stað myntbreyting úr íslenskum krónum yfir í erlendar myntir. Þetta skjal hefði eingöngu verið gefið út í tengslum færsluna samkvæmt dskj. 30. Vitnið kvað stefnda hafa óskað eftir myntbreytingunni. Það hefði verið hans frumkvæði að færa lán yfir í erlenda mynt.

II.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að honum sé nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja ofangreindan eignastýringarreikning fyrir kröfu sinni. Þar sem krafan sé ekki gjaldfallin sé honum ekki mögulegt að fullnægja kröfunni með aðför. Stefnandi hafi orðið þess vís í samtölum við gerðarþola að hann hefði í hyggju að greiða umrædda skuld ekki á gjalddaga. Ennfremur hafi stefnandi orðið þess vís að að stefndi hefði í hyggju að færa alla inneign sína á umræddu eignastýringarsafni yfir á nafn konu sinnar. Sjái stefnandi ekki annað en að með þessu muni endurgreiðslumöguleikar stefnda versna sem nemi allri innistæðunni. Þá hafi stefnandi orðið þess vís að eiginkona stefnda sé nú orðin eigandi að eign stefnda að Kaplaskeiði 22 í Hafnarfirði. Telji stefnandi að það muni draga verulega úr líkindum til að fullnusta skuldarinnar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri komi ekki til þess að umbeðin kyrrsetning verði heimiluð. Stefnanda sé ekki kunnugt um aðra eign í eigu stefnda en hinn kyrrsetta reikning, sem staðið geti undir greiðslu þessarar skuldar.

Stefnandi telji með vísan til framangreinds að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 til að heimila umrædda kyrrsetningu. Um staðfestingu kyrrsetningarinnar vísar stefnandi til VI. kafla laga nr. 31/1990. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988 og því að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

III.

Kröfu um að synjað verði staðfestingu á kyrrsetningu byggir stefndi á því að beiðni stefnanda sé ekki í lögformlegu formi. Krafan sé sett fram á grundvelli ljósrita af skuldabréfum en ekki frumritum eins og 6. gr. laga nr. 31/1990 áskilji. Sýslumanni hafi þegar borið að synja um kyrrsetningu af sjálfsdáðum.

Þá séu skilyrði 5. gr. kyrrsetningarlaga ekki fyrir hendi með því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda.

Þá hafi stefnandi haft uppi rangar staðhæfingar í kyrrsetningarbeiðni er hann staðhæfði að eignasafn stefnda stæði til tryggingar tékkareikningi. Handveðssamningar er fylgdu beiðni séu báðir úr gildi. Þá hafi stefnandi uppi svigurmæli í garð stefnda er hann staðhæfi að stefndi hafi lýst því yfir að hann ætlaði ekki að efna skyldur sínar.

Þá hafi kyrrsetningin farið fram án boðunar á heimili stefnda og fulltrúi sýslumanns ekki gætt leiðbeiningarskyldu. Stefndi hafi mótmælt kröfu stefnanda og óskað eftir fresti gerðar. Þá hafi stefndi upplýst og framvísað frumriti tilkynningar til stefnanda um eignarhald Steinunnar Sigurðardóttur að hálfu að eignasafni, dags. 20. júlí 2009, móttekinni af stefnanda sama dag. Fulltrúi sýslumanns hafi ekki svarað andmælum stefnda um ágreining og ekki bókað um framlagningu gagna af hans hálfu en kyrrsett allt eignsafnið án þess að huga að 13. gr. kyrrsetningarlaga. Þá sé framlagt endurrit kyrrsetningargerðar ekki samhljóða bókun á vettvangi. Þá hafi stefnda ekki verið kynnt efni bókunar eða hann undirritað hana.

Varakröfu um að kyrrsetning nái einvörðungu til hálfs eignasafnsins byggir stefndi á því að eiginkona hans Steinunn Sigurðardóttir sé eigandi þess að hálfu og því séu ekki skilyrði til að kyrrsetja hennar hluta. Stefnanda hafi verið kunnugt um eignarhluta hennar er hann setti fram beiðni um kyrrsetningu.

Dómkröfu sína um sýknu samkvæmt lið 2 byggir stefndi í fyrsta lagi á grundvelli aðildarskorts samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 in fine. Kröfur stefnanda byggist á ljósritum og telji stefndi ósannað að stefnandi eigi framangreindar fjárhæðir hjá honum. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn er styðji staðhæfingar hans um eignarhald á stefnukröfum.

Þá byggir stefndi á því að stefndi hafi notið sérfræðiráðgjafar starfsmanna stefnanda er hann tók lán hjá bankanum að fjárhæð 147.000.000 krónur samkvæmt skuldabréfi. Samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins hafi stefndi átt að greiða 130.000.000 krónur af höfuðstól lánsins á 1. gjalddaga auk áfallinna vaxta og verðbóta. Stefndi ætli að með þessu hafi stefnandi sniðgengið verðtryggingarheimildir VI. kafla laga nr. 38/2001 og verðtryggt skammtímalán, en samkvæmt ákvæðum laganna og reglugerð nr. 492/2001 skuli verðtryggt lán vera til a.m.k. 5 ára og verðtryggt með neysluvísitölu og nái ákvæðin til allrar fjárhæðar lánsins. Stefndi telji að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins sé ekki skuldbindandi og beri að horfa framhjá því ákvæði. Stefnandi hafi sent gíróseðil um gjalddaga 1. janúar 2008 sem staðfesti staðhæfingar stefnda um uppgreiðslu lánsins sem hafi í reynd aðeins verið til eins árs.

Þá geri stefnandi ekki grein fyrir því með hverjum hætti greiðslur sem bárust stefnanda á tímabilinu janúar 2007 til 18. október 2007, samtals að fjárhæð 105.853.094 krónur, voru nýttar.

Þá hafi eftirstöðvar lánsins verið uppgreiddar með skuldfærslu 1. janúar 2008 samkvæmt yfirliti stefnanda. Stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því.

Þá ætli stefndi að skilmálabreytingar stefnanda á veittu verðtryggðu láni í íslenskum krónum í erlendar myntir hafi verið stefnanda óheimilar og fari í bága við grunnheimildir verðtrygginga og beri að horfa framhjá þeim.

Stefndi telji því ósannað að hann standi í skuld við stefnanda eins og dómkröfum er háttað og því beri að sýkna hann. Þá telji stefndi að málatilbúnaður stefnanda fari gegn ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð o. fl. og séu löggerningarnir því ógildir. Ennfremur vísi stefndi til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki um góða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Sýknukröfu samkvæmt 3. lið af kröfu stefnanda um vexti og kostnað byggir stefndi á því að krafan sé engum gögnum studd. Ekki sé getið um vaxtafót og/eða vaxtatíma.

Kröfu samkvæmt lið 4 um miska og skaðabætur hefur stefndi uppi ex tuto til skuldajafnaðar en ella til sjálfstæðs dóms. Byggir hann kröfuna á VIII. kafla laga nr. 31/1990. Stefndi og eiginkona hans hafi gert út fiskiskipið Glað IS 121. Þau hafi gert ráðstafanir til leigu á aflaheimildum í verulegum mæli fyrir um 60.000.000 krónur og náð þar verulega hagstæðum verðum. Með ólögmætri kyrrsetningu sparifjár þeirra hafi stefndi ekki getað efnt samninga. Þá hafi stefnandi lokað öllum reikningum stefnda. Með þessum aðgerðum hafi stefnandi valdið stefnda verulegu fjártjóni, miska og verulegum spjöllum á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem honum beri að bæta. Stefndi telji kröfur sínar hóflegar enda hagsmunir brýnir og verulegir. Stefndi hafi á fundum með stefnanda vakið sérstaka athygli á þessari stöðu málsins og boðið bankanum veðtryggingar gegn því að fjármunir væru leystir undan kyrrsetningu til öflunar aflaheimilda. Beiðni hans hafi verið hafnað.

IV.

Eins og að framan greinir byggir stefndi kröfu sína um að synjað verði staðfestingu kyrrsetningar í fyrsta lagi á því að beiðni stefnanda sé ekki í lögformlegu formi, í öðru lagi að krafan sé sett fram á grundvelli ljósrita af skuldabréfum en ekki frumritum eins og 6. gr. laga nr. 31/1990 áskilji. Hafi sýslumanni þegar borið að synja um kyrrsetningu af sjálfsdáðum. Í þriðja lagi hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda og þar með séu skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 ekki fyrir hendi. Þá hafi stefnandi haft uppi rangar staðhæfingar í beiðninni og haft uppi svigurmæli um stefnda. Þá hafi kyrrsetning farið fram án boðunar á heimili stefnda og fulltrúi sýslumanns ekki gætt leiðbeiningarskyldu og ekki tekið  mótmæli stefnda til greina eða orðið við frestbeiðni hans. Þá séu rangfærslur í endurriti kyrrsetningar og endurritið ekki samhljóða bókun á vettvangi.

Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnda að kyrrsetningarkrafa stefnanda sé ekki í lögformlegu formi eins og það er orðað af hálfu stefnda. Krafan er að formi til í samræmi við þær kröfur sem í lögum nr. 31/1990 eru gerðar. Þá er ekki fallist á að það girði fyrir kyrrsetningu að einungis ljósrit skuldabréfa þeirra sem ætluð skuld stefnda byggðist á fylgdu kröfunni til sýslumanns. Var gerð sérstök grein fyrir því í kröfugerð stefnanda hvers vegna frumrit fylgdu ekki. Fram hefur komið í málinu að frumritin voru til staðar og voru sýnd er gerðin fór fram á heimili stefnda. Telja verður það fullnægjandi.

Af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram að hann sé skuldlaus við stefnanda. Það telst sannað á grundvelli framlagðra gagna að stefndi skuldar stefnanda umtalsverðar fjárhæðir og fær sú staðhæfing stefnda að stefnandi eigi ekki lögvarða kröfu á hendur stefnda ekki staðist og er þeirri málsástæðu hafnað. Aðrar málsástæður sem stefndi teflir fram varðandi kyrrsetningargerðina þykja ekki hagga gildi hennar. Fallist er á það mat sýslumanns að stefnanda hafi verið nauðsyn á að fá eignir stefnda kyrrsettar vegna skulda hans við stefnanda sem voru ekki gjaldfallnar er kyrrsetning fór fram vegna hættu á að ella kynni að draga mjög úr líkindum til að fullnusta skuldarinnar tækist. Að framangreindu virtu er því ekki fallist á kröfu stefnda um að staðfestingu kyrrsetningarinnar verði hafnað. Á hinn bóginn kemur til skoðunar varakrafa stefnda um að kyrrsetningin taki einvörðungu til eignastýringarsafnsins að hálfu þar sem eiginkona stefnda sé eigandi safnsins að hálfu. Í máli sem eiginkona stefnda höfðaði gegn stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var fallist á að hún væri eigandi safnsins að hálfu og að stefnanda hafi borið að verða við tilmælum stefnda sumarið 2009 að skrá eiginkonu hans sem eiganda safnsins að hálfu. Þá hafði stefnandi safnið hvorki að handveði eða til tryggingar skuldum stefnda með öðrum hætti. Með dómi 23. mars 2010 varð niðurstaðan sú að eiginkona stefnda ætti helminginn af eignastýringarsafninu og að stefnda hefði borið að verða við þeirri kröfu að greiða hennar hlut inn á sparisjóðsreikning hennar er þess var ósakað 6. ágúst 2009. Dóminum var ekki áfrýjað en þann 13. apríl 2010 lýsti stefnandi yfir skuldajöfnuði með kröfum sem hann telur sig eiga á hendur eiginkonu stefnda gagnvart tildæmdri kröfu hennar á hendur stefnanda. Umræddur dómur var lagður fram í máli þessu. Að mati dómsins voru ekki skilyrði til kyrrsetningar á öllu eignastýringarsafni því sem var skráð eign stefnda, er kyrrsetning fór fram þar sem þá lá fyrir tilkynning frá stefnda og eiginkonu hans, sem var í samræmi við ákvæði í samningi stefnda og stefnanda um eignastýringarsafnið, að skrá skyldi það að hálfu sem eign eiginkonu stefnda. Á þeim tíma naut stefnandi hvorki handveðs né annarra trygginga í safninu. Er því niðurstaðan sú að framangreind kyrrsetning sýslumannsins í Kópavogi er staðfest að því er varðar helming eignastýringarsafnsins.

Stefndi teflir fram nokkrum málsástæðum til styrktar þeirri kröfu sinni að synjað verði kröfu stefnda um að að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar. Telur stefndi ósannað að stefnandi eigi hjá honum ofangreindar fjárhæðir.

Í greinargerð sinni krafðist stefndi sýknu vegna aðildarskorts samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 á þeim grundvelli að stefnandi hefði ekki lagt fram nein gögn er styðji staðhæfingar hans um eignarhald á stefnukröfu. Í munnlegum málflutningi vék stefndi ekkert að þessari málsástæðu og andmælti eigi þeirri staðhæfingu sem fram kom í málflutningi lögmanns stefnanda að hann hefði þar með fallið frá  málsástæðunni. Verður því að byggja á því að stefndi hafi fallið frá málsástæðu sinni byggðri á aðildarskorti enda þykir mega fullyrða að slík málsástæða hefði ekki stoðað stefnda.

Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnda að verðtryggingarákvæði skuldabréfsins frá 15. desember 2006 sé ekki skuldbindandi og að horfa beri framhjá því. Skuldabréfið var til 5 ára og er ekki fallist á að stefnandi hafi sniðgengið verðtryggingarheimildir með því að stór hluti umrædds láns var á fyrsta gjalddaga lánsins. Þykir í þessu sambandi mega vitna til framburðar stefnda fyrir dóminum er hann var spurður um ástæðu þessa að greiða skyldi 130.000 000 krónur af 147.000.000 króna láni á fyrsta gjalddaga. Kvað hann ástæðu þessa hafa verið þá að reiknað var með að íbúðir sem fjármagnaðar voru með láninu hefðu þá selst.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi geri ekki grein fyrir því með hverjum hætti greiðslur sem honum bárust á tímabilinu janúar 2007 til 18. október 2007, samtals að fjárhæð 105.853.094 krónur voru nýttar og þá hafi stefnandi ekki gert grein fyrir því að samkvæmt yfirliti hans hafi eftirstöðvar lánsins verið uppgreiddar með skuldfærslu 1. janúar 2008. Af hálfu stefnda voru undir rekstri málsins lögð fram gögn um ráðstöfun á umræddum 105.853.094 krónum inn á skuld stefnda og þykir því engum vafa undirorpið hvernig þeim greiðslum var varið. Hvað síðara tilvikið varðar ber að horfa til dómskjala nr. 11 og 30 og framburðar starfsmanns stefnanda, vitnisins Elínar Stefánsdóttur, sem gerði grein fyrir þessum skjölum fyrir dómi. Dómskjal 11 er greiðsluseðill þar sem fram kemur að skuld stefnda nam á gjalddaga 1. janúar 2008, 52.805.018 krónum. Þar kemur ekkert fram um að skuldfærsla hafi átt sér stað umræddan dag. Þann 29. janúar 2008 var eftirstöðvum skuldar stefnda samkvæmt skuldabréfinu, sem var gefið út 15. desember 2006 og var í íslenskum krónum, breytt í erlent myntkörfulán með breytilegum vöxtum með skilmálabreytingu. Kemur fram á myntbreytingarskjalinu að þann dag, eða 29. janúar 2008, myntbreytingardaginn, hafi höfuðstóll lánsins verið að jafnvirði íslenskra króna: 53.869.038. Það er í samræmi við yfirlit á dskj. nr. 30, þar sem fram kemur að þann 1. febrúar 2008 hafi „stefnandi greitt“ eftirstöðvar láns stefnda, sem nam samkvæmt greiðsluseðlinum á dómskjali. nr. 11, 52.805.018, en að viðbættu tilkynningar- og greiðslugjaldi að fjárhæð 510 krónur og dráttarvöxtum 1.063.425 krónum, 53.869.038 krónum. Vitnið Elín Stefánsdóttir var spurð út í dskj. 11 og dskj. 30. Kvað vitnið þetta varða færslukerfi. Reiknistofa bankanna gæti ekki haldið utan um erlend lán. Með dskj. nr. 30 sé því verið að færa skuld milli kerfa. Á dskj. nr. 11 sé greiðsluseðil sem aðeins hafi verið gefinn út í tengslum við færslu milli kerfa, en þarna hefði átt sér stað myntbreyting úr íslenskum krónum yfir í erlendar myntir. Þetta skjal hefði eingöngu verið gefið út í tengslum færsluna samkvæmt dskj. 30. Að þessu virtu telur dómurinn engum vafa undirorpið að þegar myntbreytingin átti sér stað nam skuld stefnda við stefnanda 53.869.038 krónum. Er því ekki fallist á þau sjónarmið stefnda að hið verðtryggða lán hafi verið greitt upp og að líta beri á myntkörfulánið sem nýtt lán.

Samkvæmt framangreindu er því sýknukröfu stefnda af þessum ástæðum hafnað.

Af hálfu stefnda er byggt á því að skilmálabreytingar stefnanda á veittu verðtryggðu láni í íslenskum krónum í erlendar myntir hafi verið stefnanda óheimilar og fari í bága við grunnheimildir verðtrygginga og beri að horfa framhjá þeim. sé því ósannað að stefndi standi í skuld við stefnda.

Eins og að framan greinir fékk stefndi upphaflega lánaðar hjá stefnanda samkvæmt skuldabréfi útgefnu 15. desember 2006 147.000 íslenskar krónur. Í janúar 2008, er skuld stefnda nam samkvæmt framlögðum gögnum 53.869.038 krónum, var gerð svokölluð myntbreyting á láninu undir yfirskriftinni: Myntbreyting úr íslenskum krónum í erlendar myntir. Í undirtexta stendur eftirfarandi: Skilmálabreyting á skuldabréfi í íslenskum krónum í erlent myntkörfulán með breytilegum vöxtum. Síðan er í bréfinu fjallað um skilmála bréfsins svo sem vexti og gjalddaga og kveðið á um það að eftirleiðis verði veðskuldabréfið í þar tilgreindum erlendum myntum og hlutfalla getið. Aftan á myntbreytingarbréfinu er síðan getið um höfuðstól lánsins á myntbreytingardegi, jafnvirði íslenskra króna: 53.869.038 krónur. Þá liggja fyrir tvær breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins með erlendu myntviðmiði eins og það er orðað í bréfunum. Þar er getið eftirstöðva skuldar á ákveðnum tímum að jafnvirði í íslenskum krónum. Í málinu er því ekki haldið fram eða á því byggt að stefndi hafi fengið í hendur erlenda mynt í samræmi við myntbreytinguna eða að hann hafi verið krafinn um greiðslu afborgana í erlendum myntum eða að hann hafi greitt slíkar afborganir með erlendum myntum. Upphafleg lánsfjárhæð var greidd út í íslenskum krónum og þykir mega slá því föstu að samið var um lánið í íslenskum krónum. Hér var því ekki um erlent lán að ræða heldur lán í íslenskum krónum og sömdu aðilar um að lánið yrði framvegis gengistryggt. Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 þar sem dæmt var um gildi þess að gengistryggja lán í íslenskum krónum sagði m.a.: „ Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum. Fyrrnefnd ákvæði í samningi stefnda og áfrýjanda um gengistryggingu voru því í andstöðu við fyrirmæli laganna og skuldbinda þau ekki áfrýjanda af þeim sökum.“ Með vísan til framangreindra dóma og tilvitnaðrar setningar úr dómunum, er niðurstaða dómsins að ákvæðin í samningi málsaðila sem dómurinn telur í raun hafa falið í sér gengistryggingu, hafi verið í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og að þau skuldbindi ekki stefnda af þeim sökum.

Stefnandi hefur ekki gert kröfu til vara um að viðurkennt verði með dómi að stefndi skuldi honum tiltekna fjárhæð, sem kunni að standa eftir af skuld hans án þess að fjárhæð hennar væri reiknuð með tilliti til bindingar við gengi erlendu gjaldmiðlanna, sem um ræddi í myntbreytingarsamningi aðila. Ljóst þykir af gögnum að sú fjárhæð nemur 53.869.038 krónur auk áfallinna vaxta en að frádregnum innborgunum stefnda samkvæmt yfirliti stefnanda að fjárhæð 6.495.081 krónur. Á hinn bóginn er dómurinn bundinn af kröfugerð stefnanda og málsástæðum og þar sem stefnandi gerir ekki varakröfu samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu hans að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar.

Að mati dómsins þykir krafa stefnda um miskabætur úr hendi stefnanda svo vanreifuð að á hana verði ekki lagður efnisdómur. Ber því að vísa kröfunni frá dómi.

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

Dómsorð:

Staðfest er kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði framkvæmdi þann 18. ágúst 2009 í eignastýringarsafni stefnda nr. B # 470500 hjá stefnanda, en þó einvörðungu í helmingi eignastýringarsafnsins.

Kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar er hafnað.

Kröfu stefnda um miskabætur úr hendi stefnanda að er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.