Hæstiréttur íslands
Mál nr. 788/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Afhending gagna
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda sóknaraðila nánar tilgreinda muni. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa um afhendingu tiltekinna muna úr hendi varnaraðila verði tekin til greina. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þrotabú Sitrusar ehf., greiði varnaraðila, Teiti Guðmundssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 8. nóvember 2016.
Með beiðni, móttekinni 7. júlí sl., leitaði skiptastjóri sóknaraðila, þrotabús Sitrusar ehf., úrlausnar dómsins um skyldu varnaraðila, Teits Guðmundssonar, forráðamanns sóknaraðila, til að afhenda skiptastjóra sóknaraðila eftirtaldar eignir búsins sem taldar eru staðsettar á heimili varnaraðila að Fróðaþingi 31, Kópavogi:
Magn Vörunúmer Vörulýsing Samtals verð
1 CH3 3TB S 64 72. 3TB SATA3 Seagate Barracuda harður diskur 26.328
(ST3000DM001).
2 CHXS 2TB MIN L. 2TB LaCie 3.5" Minimus flakkari 32MB, USB 3.0. 37.228
1 PRECISIONT1650#05. Dell Precision T1650 vinnustöð. 188.417
Raðnúmer: 78YMMW1.
2 OPTIPLEX3010DT#04. Dell OptiPlex 3010 borðtölva. 199.800
Raðnúmer: 8VFXH5J og 7WFXH5J.
2 P2312H. Dell Professional (1920x1080) 23" LED skjár 70.546
Raðnúmer: CN0YJ3JX7444529OABN og
CN0YJ3JX7444529OAHN.
1 SEV-KS9893 Kæliskápur m.frystib. 29.989
1 PAN-TXP50UT50Y Panasonic 3D 50" FHD plasma. 168.000
1 VCQ600-PB PNY NVIDIA Quadro 600 35.965
1 V313WAIO Dell V313W All-in-One prentari. 16.315
Raðnúmer: 5H8X6Q1.
1 NIT3DS HW BLUE Nintendo 3DS Blá. 39.999
1 PIHTP-SB300 Soundbar fyrir LCD sjónvarp. 77.500
2 PRECISIONT1650#04 Dell Precision T1650 vinnustöð. 443.597
Raðnúmer: B8GZMW1 og C7GZMW1.
1 PET302#02 Dell Power Edge T320 netþjónn 507.468
Raðnúmer: 811MF5J.
4 S2740L Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár. 264.540
Raðnúmer:, 5R71HT1 og 5R4XGT1.
1 ST32000444SS 2TB NL SAS 6Gbp/s 7200rpm 3,5". 44.426
Raðnúmer: 9WM2P106.
1 Z0MR iMac 27" 2.9GHz i5 8GB 1TB. 326.574
Raðnúmer: SC02K54A4DNMN.
1 PRECISIONT3600#07 Dell Precision T3600 vinnustöð 305.993
Raðnúmer: 3DS76X1.
2 S2740L Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár. 119.980
Raðnúmer: F91YGT1 og F8N0HT1.
1 CVE GTX6700OC 2G G Gigabyte GTX 670OC PCI-E3.0 skjákort 2GB 79.900
GDDR5.
1 WE-6531068 Genesis E330 gas grill – svart. 209.500
1 OPTIPLEX3010DT#06 Dell OptiPlex 3010 borðtölva. 109.990
Raðnúmer: HVCC3Y1.
2 Dreamware Render tölva. 604.500
1 CH3 3TB L TB 3TB LaCie 3.5" d2 Thunderbolt flakkari, USB3.0, 54.430
Thunderbolt.
5 CH3 3TB 128 72 3TB SATA3 Seagate Constellation ES.3 harður 261.750
diskur.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts
Málið var tekið til úrskurðar 3. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð þess.
I
Málavextir
Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 21. október 2015 og var Björn Ólafur Hallgrímsson hrl. skipaður skiptastjóri þess. Var innköllun birt í Lögbirtingablaðinu í fyrra sinn 2. nóvember 2015 og rann kröfulýsingarfrestur út 2. janúar 2016. Fyrsti skiptafundur í búinu var haldinn 18. janúar 2016. Frestdagur við skiptin er 19. júní 2015. Samkvæmt hlutafélagavottorði var varnaraðili skráður sem bæði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsinn.
Með bréfi skiptastjóra sóknaraðila til varnaraðila 23. mars 2016 var skorað á hann að afhenda nánar tilteknar eignir þrotabúsins fyrir 12. apríl 2016 en að öðrum kosti yrði leitað atbeina dómstóla. Meðfylgjandi bréfinu voru afrit reikninga um kaup tækjabúnaðar fyrir félagið sem krafist var afhendingar á. Þá kemur fram í bréfi skiptastjóra að erindi þessu hafi aldrei verið svarað þrátt fyrir ítrekanir en lögmaður varnaraðila ávallt borið fyrir sig að svara væri að vænta innan skamms án þess að nokkur svör bærust skiptastjóra.
Þar sem varnaraðili hafi ekki orðið við þeirri kröfu að afhenda skiptastjóra fyrrgreindar eignir búsins sé skiptastjóra nauðugur einn sá kostur að fara fram á að héraðsdómur úrskurði um skyldu varnaraðila þar að lútandi á grundvelli 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að varnaraðila verði gert að afhenda skiptastjóra áðurnefnda og nánar tilgreinda muni á 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fram komi að þeim sem hafi eignir þrotabús í umráðum sínum sé skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Neiti þrotamaður að afhenda skiptastjóra eignir búsins geti skiptastjóri krafist þess skriflega að héraðsdómari kveði upp úrskurð um skyldu hlutaðeigandi til að láta eign af hendi.
Sóknaraðili greinir svo frá að í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 hafi skiptastjóri aflað upplýsinga og gagna um eignir og skuldir þrotamanns. Í þessari skoðun hafi m.a. falist upplýsingaöflun úr bókhaldi félagsins.
Fram kemur í beiðni sóknaraðila að í skýrslutöku hjá skiptastjóra 16. desember 2015 hafi varnaraðili lýst því yfir að engar eignir væri að finna í búinu. Þegar hann hafi verið inntur eftir svörum við því hvar eignir væru, sem sóknaraðili hafði keypt á fyrri helmingi ársins 2013 og fram kæmu á reikningum sem fylgt hafi kröfulýsingu Emerico ehf. frá 6. nóvember 2015, og sem var móttekin af skiptastjóra þann 11. nóvember 2015, hafi varnaraðili svarað því til að verktaki hjá Sitrusi ehf. hefði tekið eignirnar út í leyfisleysi í nafni félagsins. Varnaraðili kvað verktakann heita Stefán Unnar Sigurjónsson. Könnun skiptastjóra hafi á hinn bóginn leitt í ljós að þrotabúið keypti m.a. verðmætan tölvubúnað á árunum 2013 og 2014. Aðeins lítið brot af þeim eignum sem þrotabúið keypti á árunum 2013 og 2014 er að finna á þeim reikningum sem fylgdu með kröfulýsingu Emerico ehf., 6. nóvember 2015. Þá hafi Stefán Unnar Sigurjónsson þvertekið fyrir það í samtali við skiptastjóra að hafa tekið út vörur í leyfisleysi í nafni félagsins og kveðið engar eignir þrotabúsins vera í sínum fórum.
Skiptastjóri kveðst hafa sent varnaraðila erindi um ofangreint 23. mars 2016. og óskað eftir afhendingu munanna. Varnaraðili hafi ekki orðið við því.
Þá segir í beiðninni að við könnun skiptastjóra á bankareikningi þrotabúsins hjá Landsbankanum nr. 0101-26-051057 sé ekki að sjá að fyrrgreindar eignir búsins hafi verið seldar og að andvirði þeirra hafi runnið inn á reikning búsins hjá bankanum. Telur skiptastjóri ekki ástæðu til að ætla annað en að eignirnar sé að finna á heimili varnaraðila sem hafi verið forráðamaður félagsins.
Sóknaraðili byggir á því að fyrir liggi að umræddir munir hafi verið keyptir í þágu félagsins. Varnaraðili hafi einn haft prókúru fyrir félagið. Ekkert liggi fyrir um að munir þessir hafi síðar verið seldir og andvirði þeirra ráðstafað inn á bankareikninga félagsins. Engu breyti þótt varnaraðili hafi ekki haft aðstöðu á starfsstöð félagsins.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi í ljósi stöðu sinnar hjá félaginu borið ábyrgð á þeim munum sem keyptir hafi verið í þágu þess. Hann hafi einn haft prókúru hjá félaginu og séð um fjárhagslegan rekstur þess. Fram sé komið í málinu að varnaraðili hafi lokað starfsstöð félagins í febrúar 2015 og skipt um læsingu. Fyrrverandi starfsmenn félagsins hafi allir borið um það fyrir dóminum að á þeim tíma hafi allur tækjabúnaður félagsins verið á staðnum. Framburður varnaraðila fyrir dóminum um að hann viti ekki hvað orðið hafi um búnaðinn sé ótrúverðugur. Þá sé í hæsta máta einkennilegt að hann sem framkvæmdastjóri félagsins hafi ekki haldið betur utan um eignasafn þess. Hafi tæki verið afhent tölvumanni til að taka afrit af gögnum sem á þeim væru sæti það furðu að hann hafi ekki reynt að endurheimta tækin í því skyni að koma þeim í verð til hagsbóta fyrir félagið þar sem um verðmætan búnað hafi verið að ræða. Skýringar varnaraðila um að einhver tæki hafi verið notuð til að greiða skuldir séu ekki sennilegar og varnaraðili hafi ekki gert neinn reka að því að sýna fram að það hafi verið gert. Tækin og búnaðurinn sem krafist sé afhendingar á sé því „að öllum líkindum“ í vörslum varnaraðila á heimili hans að Fróðaþingi í Reykjavík.
Þar sem varnaraðili hafi ekki orðið við óskum sóknaraðila um að afhenda munina sé sóknaraðila nauðugur einn kostur að fara fram á að dómur úrskurði um skyldu hans þar að lútandi.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Kröfu sína um að kröfum sóknaraðila verði hafnað byggir varnaraðili á því að umræddir munir séu ekki í vörslum hans. Hann hafi ekki vitneskju um hvað hafi orðið af þeim. Honum sé því ómögulegt að verða við kröfu sóknaraðila. Þetta hafi skiptastjóri ítrekað verið upplýstur um. Varnaraðili hafi verið forsvarsmaður félagsins en ekki verið með aðstöðu í starfsstöð þess. Félagið hafi framleitt auglýsingar og starfað að auglýsingagerð en varnaraðili sé læknir að mennt og hafi fyrst og fremst komið að félaginu sem fjárfestir. Hann hafi ekki tekið ákvörðun um það hvaða tæki voru keypt eða hvers konar búnaður. Starfsmenn hafi haft með það að gera.
Af hálfu varnaraðila hafi verið gefnar þær skýringar að einhver tæki hafi verið afhent upp í skuldir og starfsmenn hafi fengið önnur. Aðrar skýringar hafi varnaraðili ekki. Þrátt fyrir að sóknaraðili leggi fram fjölda reikninga hafi hann ekki sýnt fram á að umrædd tæki og búnaður hafi verið á starfsstöð félagins er það hætti rekstri eða að þessi tæki og búnaðar sé til staðar á heimili varnaraðila. Þá sé í sumum tilvikum verið að gera kröfu um afhendingu tækja sem upplýst hafi verið undir rekstri málsins að hafi endað annars staðar. Sóknaraðili hafi því ítrekað þurft að breyta kröfugerð sinni og fella brott úr upphaflegri kröfugerð muni sem ljóst sé að varnaraðili sé ekki með.
Hvernig sem á málið sé litið sé krafa sóknaraðila órökstudd. Honum hafi ekki tekist að sýna fram á eða gera líklegt að varnaraðili hafi vörslur umræddra muna. Ljóst sé því að kröfu sóknaraðila verði að hafna.
IV
Niðurstaða
Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 21. október 2015. Varnaraðili var stjórnarformaður í félaginu og jafnframt framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess. Fram er komið í málinu að við skýrslutöku hjá skiptastjóra hafi varnaraðili lýst því yfir að engar eignir væru í búinu og að honum væri hvorki kunnugt um kaup tiltekinna muna, sem í máli þessu er krafist að verði afhentir, né hvað hafi um þá orðið nema að einhverjir aðrir hefðu tekið þá af starfsstöð félagsins. Staðfesti varnaraðili þennan framburð sinn fyrir dóminum og ítrekaði að hann hefði ekki vitneskju um hvar eignir þrotabúsins væru. Húsnæðið hafi verið innsiglað og eignum verið komið til aðila í því skyni að taka tölvugögn til afritunar. Þeim eignum hafi verið skilað og þær seldar og annað hafi gengið upp í skuldir.
Í málinu liggja fyrir reikningar úr bókhaldi félagsins vegna kaupa á þeim munum sem krafist er að verði afhentir úr vörslum varnaraðila. Verður að skilja málatilbúnað sóknaraðila svo að hann byggi á því að gögn þessi leiði í ljós að umræddir munir hafi sannarlega verið keyptir í þágu félagsins. Skiptastjóri kveður ekkert í gögnum þrotabúsins benda til þess að munir þessir hafi verið seldir og andvirðinu ráðstafað í þágu félagsins inn á bankareikning þess. Í það minnsta sjáist þess ekki merki á reikningum félagsins. Framburður varnaraðila sé ótrúverðugur og að engu hafandi. Varnaraðili hafi sem slíkur borið ábyrgð á rekstri félagsins. Hafi hann afhent tæki í því skyni að láta taka afrit af gögnum á þeim hafi honum borið að endurheimta munina og koma þeim í verð til hagsbóta fyrir félagið. Varnaraðili virðist ekki hafa gert það og neiti allir vitneskju um það hvað hafi orðið af verðmætum tækjum og búnaði félagsins.
Af hálfu varnaraðila hefur verið á það bent að varnaraðili hafi ekki tekið ákvörðun um kaup á umræddum munum. Hafi það verið í höndum starfsmanna félagsins sem hafi haft til þess faglega þekkingu. Varnaraðili hafi auk þess ekki haft aðstöðu á starfsstöð félagsins. Þá hafi hann þegar afhent þá muni sem hann hafi haft í fórum sínum og aðra hluti geti hann eðli málsins samkvæmt ekki afhent þar sem þeir séu ekki í hans vörslum.
Sóknaraðili hefur fyrir dóminum haldið því fram að umræddir munir séu að „öllum líkindum“ í fórum varnaraðila. Þeir hafi verið til staðar á starfsstöð fyrirtækisins er starfsemi félagsins lauk og varnaraðili skipti um læsingar á húsnæði félagsins. Aðrir hafi ekki haft aðgang að því.
Eins og málið liggur fyrir dóminum verður bæði að telja ósannað að umræddir munir hafi verið á starfsstöð félagsins er húsnæðið var innsiglað eða að þeir séu nú í vörslum varnaraðila. Getur niðurstaða dómsins ekki byggst á getgátum um að umræddir munir séu á heimili varnaraðila. Þá hefur ekki verið leitt í ljós með nægilega skýrum hætti hvaða tæki og búnaður var í húsnæði félagsins er starfsemi þess lauk og húsnæðinu var lokað. Þykir framburður fyrrverandi starfsmanna sóknaraðila ekki varpa ljósi á þetta.
Að mati dómsins hefur sóknaraðili því ekki fært nægar sönnur fyrir kröfu sinni. Eru skilyrði 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 því ekki uppfyllt. Verður að fallast á það með varnaraðila að efnisleg skilyrði standi í vegi fyrir þeim málalokum sem sóknaraðili krefst. Er því óhjákvæmilegt að hafna kröfu sóknaraðila.
Í samræmi við þessi málalok verður sóknaraðila gert, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, að greiða varnaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn, 250.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins og reksturs þess fyrir dóminum, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 13. september sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, þrotabús Sitrusar ehf., um að varnaraðila, Teiti Guðmundssyni, verði gert að afhenda skiptastjóra sóknaraðila tiltekna muni eins og nánar greinir í kröfugerð sóknaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.