Hæstiréttur íslands
Mál nr. 149/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta
|
|
Þriðjudaginn 10 . mars 2015. |
|
Nr. 149/2015.
|
Fíton ehf. (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) gegn Íslandsstofu og (Lilja Jónasdóttir hrl.) íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur að hluta.
Í efndi til rammasamningsútboðs í nóvember 2011 er nefndist Ísland allt árið og hafði þann tilgang að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna til Íslands. Í kjölfarið gerði Í rammasamninga við F ehf. og ÍA ehf. Samningarnir öðluðust gildi í janúar 2012 og skyldu standa út árið en heimilt var að framlengja þá um eitt ár í senn tvisvar sinnum. Rann samningur Í við F ehf. sitt skeið á enda í lok ársins 2012 en samningurinn við ÍA ehf. var framlengdur tvívegis. Í beindi öllum kaupum á þjónustu á grundvelli rammasamninganna að ÍA ehf. en engum að F ehf. Höfðaði F ehf. mál gegn Í og ÍR og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna þessa. Krafðist F ehf. aðallega efndabóta, til vara viðurkenningar á rétti til skaðabóta vegna missis hagnaðar en að því frágengnu krafðist hann vangildisbóta. Héraðsdómur vísaði öllum kröfum F ehf. frá dómi á grundvelli vanreifunar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að F ehf. hefði ekki sýnt fram á hvernig útreikningur stefnufjárhæðar hans samrýmdist því að geta verið reistur á efndabótagrundvelli. Þá yrði heldur ekki talið að F ehf. hefði gert viðhlítandi grein fyrir því á hvaða grundvelli hann gæti átt rétt til viðurkenningar á þeim efndum sem hann gerði kröfu um samkvæmt varakröfu hans. Aftur á móti væru engir annmarkar á kröfu F ehf. um viðurkenningu á skyldu Í og ÍR til greiðslu vangildisbóta að varðað gætu frávísun þeirrar kröfu. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um frávísun aðal- og varakröfu F ehf. en lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar þrautavarakröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir útboði því sem varnaraðilinn Íslandsstofa efndi til í nóvember 2011 og þeim rammasamningi er sá varnaraðili gerði við sóknaraðila og Íslensku auglýsingastofuna ehf. í apríl 2012 á grundvelli útboðsins. Þá kemur og fram í úrskurðinum að varnaraðilinn Íslandsstofa beindi í framhaldinu öllum kaupum á þjónustu að Íslensku auglýsingastofunni ehf. en engum að sóknaraðila. Snýst efnislegur ágreiningur í málinu um það hvort varnaraðilinn Íslandsstofa hafi með þessu valdið sóknaraðila tjóni sem varnaraðilum sé skylt að bæta.
Aðalkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðilum er um skaðabætur að fjárhæð 86.696.315 krónur. Segir í stefnu að krafist sé efndabóta sem miði að því að gera sóknaraðila eins settan og „við hann hefði verið samið og hann framkvæmt helming þeirra verka sem keypt voru á grundvelli rammasamningsins.“ Þá segir í stefnunni að sóknaraðili hafi á grundvelli rammasamningsins mátt „gera ráð fyrir að hluti af þeim verkefnum sem framkvæmd væru á gildistíma samningsins yrðu falin honum“ og hann mátt gera ráð fyrir því að á „gildistíma samningsins félli helmingur veltu samningsins honum í skaut.“ Með því að fela sóknaraðila engin verkefni hafi varnaraðilinn Íslandsstofa vanefnt rammasamninginn og með því brotið meginreglur opinbers innkauparéttar og stjórnsýsluréttar og á sama tíma meginreglur samninga- og kröfuréttar og bakað sér bótaskyldu gagnvart sóknaraðila. Framangreind háttsemi sem sé ólögmæt hafi orðið til þess að sóknaraðili hafi orðið af viðskiptum sem hann hefði með réttu átt að njóta og myndi verðmæti þessara viðskipta fjárkröfu sóknaraðila. Með því að efna til útboðsins og gera í kjölfarið rammasamninginn hafi varnaraðilinn Íslandsstofa skuldbundið sig til að kaupa þjónustu af þeim sem samningur var gerður við. Í framhaldinu er þess getið með almennum hætti í stefnu að varnaraðilinn Íslandsstofa hafi brotið lög og reglur um opinber innkaup, jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, meginreglur um hagkvæmni og ráðdeild sem fram komi í lögum um opinber innkaup, meginreglur stjórnsýsluréttar og meginreglur kröfu-, samninga og skaðabótaréttar. Einnig segir í stefnunni að sú háttsemi að sniðganga sóknaraðila hafi með öllu verið ólögmæt og falið í sér skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga sem og meginreglu samninga- og kröfuréttar um réttar efndir. Um bótagrundvöll er á öðrum stað í stefnu vísað til 101. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sakarreglunnar og skaðabótareglna kröfuréttar og sagt að tjónið sé í öllum tilvikum hið sama. Fjárhæð stefnukröfunnar, 86.696.315 krónur, sé helmingur af 173.392.630 krónum sem sé samtala allra viðskipta varnaraðilans Íslandsstofu við Íslensku auglýsingastofuna ehf. á grundvelli rammasamningsins við það fyrirtæki. Þá segir í stefnu að verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila í heild og hann ekki talinn eiga rétt til efndabóta sé krafist vangildisbóta en slík krafa falli innan stefnufjárhæðarinnar og styðjist við sömu málsástæður og lagarök. Skaðabæturnar miðast í því tilviki við kostnað stefnanda af því að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði, auk kostnaðar við samningsgerð og ráðstafana sem gerðar hafi verið vegna samningsins.
Varakrafa sóknaraðila er um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna missis þess hagnaðar sem sóknaraðili hafi orðið af við það að varnaraðilinn Íslandsstofa keypti ekki af honum þjónustu á grundvelli áðurgreinds rammasamnings. Sé krafist viðurkenningar á því að sóknaraðili verði jafnsettur fjárhagslega eins og framangreind réttarbrot hefðu ekki orðið og að viðurkennt verði að hann eigi að verða eins settur og ef keypt hefði verið af honum þjónusta eins og stefnda hafi borið að gera. Að frágenginni varakröfunni krefst sóknaraðili viðurkenningar á rétti til vangildisbóta sem miðist þá við að sóknaraðili verði eins settur og hefði hann aldrei lagt í þá vinnu og þann útlagða kostnað sem fólst í þátttöku í innkaupaferlinu og samningsgerð, auk annarra ráðstafana sem gerðar hafi verið vegna samningsins.
II
Af því sem áður var rakið er ljóst að sóknaraðili reisir kröfur sínar í málinu á því að á varnaraðilanum Íslandsstofu hafi eftir útboðið í nóvember 2011 og gerð rammasamningsins í apríl 2012 hvílt skylda til að kaupa nánar tilgreinda þjónustu af sóknaraðila. Þá skyldu hafi varnaraðilinn vanefnt og með því valdið sóknaraðila tjóni sem bótaskylt sé. Í stefnu málsins er ekki leitast við að leiða önnur rök að staðhæfingu sóknaraðila um skyldu varnaraðilans Íslandsstofu til viðskipta við sóknaraðila en þau að vísa með almennum hætti til þess að sóknaraðili hafi mátt gera ráð fyrir viðskiptunum og að hann hafi mátt gera ráð fyrir því að í hans hlut félli helmingur af veltu samkvæmt rammasamningnum.
Með kröfu sinni að fjárhæð 86.696.315 krónur kveðst sóknaraðili vera að sækja varnaraðila um efndabætur sem miði að því að gera hann eins settan og við hann hefði verið samið og hann framkvæmt helming þeirra verka sem keypt voru á grundvelli rammasamningsins. Er um grundvöll bótanna ýmist vitnað til reglna um skaðabætur þegar samningssambandi er ekki til að dreifa, til reglna samninga- og kröfuréttar um afleiðingar vanefnda á samningsskuldbindingum eða til þess að brotnar hafi verið reglur opinbers innkauparéttar og stjórnsýsluréttar. Eins og áður greinir er stefnufjárhæð málsins helmingurinn af 173.392.630 krónum sem er samtala allra viðskipta varnaraðilans Íslandsstofu við Íslensku auglýsingastofuna ehf. á grundvelli rammasamnings við það fyrirtæki.
Efndabætur eru sóttar á grundvelli reglna kröfuréttar og er markmið þeirra að gera kröfuhafa eins settan fjárhagslega og réttar efndir samnings hefðu farið fram. Í því ljósi verður ekki talið að sóknaraðili hafi með málatilbúnaði sínum sýnt fram á hvernig stefnufjárhæð málsins reiknuð út með framangreindum hætti samrýmist því að geta verið reist á efndabótagrundvelli. Þá verður heldur ekki talið að sóknaraðili hafi gert viðhlítandi grein fyrir því á hvaða grundvelli hann geti átt rétt til viðurkenningar á þeim efndum sem hann gerir kröfu um þannig að unnt sé að leggja dóm á varakröfu hans. Aftur á móti eru engir þeir annmarkar á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á skyldu varnaraðila til greiðslu vangildisbóta að varðað geti frávísun þeirrar kröfu. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um frávísun aðal- og varakröfu sóknaraðila en lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar þrautavarakröfu sóknaraðila.
Eftir framangreindum úrslitum er rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri kærumáls þessa.
Dómsorð:
Staðfest er niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi aðal- og varakröfu sóknaraðila, Fíton ehf., en lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar þrautavarakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilum, Íslandsstofu og íslenska ríkinu.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 16. janúar 2015, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 14. febrúar 2014, af Fíton Auglýsingastofu ehf., Sætúni 8, Reykjavík, á hendur Íslandsstofu, Sundagörðum 2, Reykjavík, og íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 4, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu greiði stefnanda óskipt 86.696.315 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 5. október 2013 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu við stefnanda vegna missis á hagnaði, sem stefnandi hefði notið hefði ekki komið til ákvarðana stefnda Íslandsstofu um að hafna því að gera samninga um kaup á þjónustu af stefnanda á grundvelli rammasamnings nr. 332 „Ísland allt árið“.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu við stefnanda vegna kostnaðar stefnanda við að undirbúa tilboð og taka þátt í rammasamningsútboði nr. 15134 og vegna kostnaðar við gerð rammasamnings nr. 332 „Ísland allt árið“.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað.
Af hálfu stefnda, Íslandsstofu, er aðallega krafist frávísunar málsins en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er aðallega krafist frávísunar málsins og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Hinn 16. janúar 2015 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að stefnanda verði úrskurðaður málskostnaður.
I.
Í stefnu er því lýst að í nóvember 2011 hafi stefndi Íslandsstofa látið auglýsa rammasamningsútboð nr. 15134 er nefndist „Ísland allt árið“. Samkvæmt útboðsgögnum byggði verkefnið á markaðsátakinu “Inspired by Iceland“ og hafði þann tilgang að jafna árstíðasveiflu í komu ferðamanna til Íslands. Verkefnið hafi fyrst og fremst falist í því að auglýsa og kynna Ísland sem álitlegan áfangastað á öllum árstímum. Tilgangur útboðsins hafi verið sá, að koma á samningi um hönnun og framleiðslu á markaðsefni, m.a. hönnun prentefnis, vefborða, myndbanda, umhverfisauglýsinga og efnis fyrir vefsíðu.
Á grundvelli rammasamningsútboðsins samdi stefndi Íslandsstofa annars vegar við stefnanda og hins vegar við Íslensku auglýsingastofuna ehf. í apríl 2012 um að veita þjónustu vegna markaðsherferðar með heitinu „Íslandallt árið“. Rammasamningarnir voru að mestu efnislega samhljóða en ákveðið var að Íslenska auglýsingastofan ehf. sæi um mótun á grunnhugmynd verkefnisins. Samningarnir öðluðust gildi 10. janúar 2012 og skyldu þeir standa út árið en heimilt var að framlengja þá um eitt ár í senn tvisvar sinnum. Samningur varnaraðilans við Íslensku auglýsingastofuna ehf. hefur samkvæmt gögnum málsins verið framlengdur tvívegis og gildir nú til 31. desember 2014 en samningurinn við sóknaraðila rann sitt skeið á enda 31. desember 2012. Öll kaup stefnda Íslandsstofu á grundvelli samninganna munu hafa verið gerð við Íslensku auglýsingastofuna ehf. en engum viðskiptum beint til stefnanda. Fyrir heildarkaup á þjónustu á tímabilinu frá september 2011 til september 2012 greiddi stefndi Íslandsstofa 51.593.979 krónur en 65.392.651 krónu fyrir tímabilið upp frá því til september 2013. Samkvæmt fjárhagsáætlun vegna verkefnisins munu kaup undir liðnum „framleiðsla og hönnun“ á tímabilinu september 2013 til september 2014 hafa átt að nema 56.406.000 krónum.
Með bréfi stefnanda, dagsettu 5. september 2013, var stefndi Íslandsstofa krafinn um bætur vegna ólögmætrar framkvæmdar rammasamningsins og þess tjóns sem stefnandi taldi þá þegar liggja fyrir. Stefndi Íslandsstofa hafnaði kröfum stefnanda í bréfi, dagsettu 30. september 2013. Í stefnu kveðst stefnandi hafa látið árið 2013 líða svo endanlegar tölur vegna þjónustukaupa þess árs lægju fyrir. Hinn 2. janúar 2014 óskaði stefnandi eftir frekari upplýsingum um kaup á þjónustu og er svarbréf stefnda Íslandsstofu við því erindi dagsett 21. janúar 2014. Stefnandi höfðaði mál þetta á hendur stefndu 14. febrúar 2014 til heimtu skaðabóta vegna vanefnda stefnda Íslandsstofu á rammasamningnum gagnvart sér. Stefnandi telur að hann hafi orðið af viðskiptum sem hann hefði með réttu átt að njóta sem annar tveggja viðsemjenda stefnda Íslandsstofu á grundvelli útboðsins.
II.
Um aðild að málinu vísar stefnandi til þess að mál þetta sé til komið vegna vanefnda stefnda Íslandsstofu á samningi við stefnanda og feli vanefndin í sér bótaskylda háttsemi. Samkvæmt lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu, sé ekki ljóst hvort Íslandsstofa er sjálfstætt stjórnvald með sjálfstætt aðildarhæfi og sé málinu því beint bæði gegn Íslandsstofu og íslenska ríkinu. Auk þess lúti málið að greiðslu skaðabóta og því sé rétt að stefna ríkinu.
Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi gert samning við stefnanda um kaup á tiltekinni þjónustu og þegar stefndi hefði tekið tilboði stefnanda og gert við hann samning, hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir því að hluti af þeim verkefnum, sem framkvæmd væru á gildistíma samningsins, yrðu falin honum. Í ljósi þess að gerður var rammasamningur við tvo aðila, hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir því að á gildistíma samningsins félli helmingur af veltu samningsins honum í skaut. Stefndi hafi hins vegar vanefnt samninginn gagnvart stefnanda og ekki falið honum nein af þeim verkefnum sem framkvæmd voru innan rammasamningsins. Með þessari háttsemi hafi stefndi Íslandsstofa brotið meginreglur opinbers innkauparéttar og stjórnsýsluréttar. Einnig hafi stefndi Íslandsstofa brotið meginreglur samninga- og kröfuréttar og bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda. Framangreind ólögmæt háttsemi hafi orðið til þess að stefnandi varð af viðskiptum sem hann hefði með réttu átt að njóta. Myndi verðmæti þessara viðskipta fjárkröfu stefnanda og þar sem stefndi Íslandsstofa hafi valdið tjóninu, beri stefndu að greiða stefnanda bætur vegna þess.
Stefnandi byggir á því að þar sem stefndi sé opinber aðili, beri hann sönnunarbyrðina fyrir því að framkvæmd rammasamningsins hafi verið í samræmi við lög og að lagaheimild hafi verið fyrir því að sniðganga stefnanda með öllu. Með því að efna til útboðsins um „Ísland allt árið“ og gera í kjölfarið rammasamning, hafi stefndi skuldbundið sig til þess að kaupa þjónustu af þeim sem urðu aðilar samningsins. Við gerð og framkvæmd rammasamningsins hafi stefndi verið bundinn af lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, lögum nr. 65/1993, um framkvæmd útboða, og meginreglum útboðs- og samningaréttar. Auk þess hafi stefnda, sem stjórnvaldi, borið að fara að meginreglum stjórnsýsluréttarins við framkvæmd samningsins. Með því að gera enga samninga við stefnanda á grundvelli rammasamningsins, hafi stefndi brotið gegn framangreindum lögum og meginreglum.
Stefnandi kveður framkvæmd rammasamninganna af hálfu stefnda hvorki hafa verið í samræmi við 34. gr. né 45. og 72. gr. laga um opinber innkaup, enda hafi forsendur fyrir því að kaupa eingöngu þjónustu af Íslensku auglýsingastofunni ehf. verið ólögmætar og ekki í samræmi við útboðsgögn. Í raun sé staða stefnanda áþekk því að öllum tilboðum hefði verið hafnað með ólögmætum hætti nema tilboði Íslensku auglýsingastofunnar ehf. Einnig megi líkja stöðu stefnanda við að tilboð hans hafi verið valið en síðan hætt við innkaupin á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða og án þess að forsendur innkaupanna hefðu brostið.
Stefndi hafi einnig brotið gegn jafnræðisreglunni við framkvæmd rammasamningsins en hún sé grundvallarregla í opinberum innkaupum, sbr. 1. og 14. gr. laga um opinber innkaup sem og það meginsjónarmið sem lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða, hvíli á. Þá leiði 11. gr. stjórnsýslulaga og meginregla stjórnsýsluréttar um jafnræði til sömu niðurstöðu.
Stefndi hafi ekki gætt jafnræðis við framkvæmd samningsins þegar hann beindi öllum innkaupum á grundvelli rammasamningsins til Íslensku auglýsingastofunnar ehf. en engum til stefnanda. Á grundvelli jafnræðisreglunnar hefði stefnda einnig borið að framlengja rammasamninginn við báða seljendur. Stefnandi hafi haft réttmætar væntingar um að stefndi myndi skipta innkaupum jafnt milli aðila rammasamningsins, þ.e. stefnanda og Íslensku auglýsingastofunnar ehf.
Stefnandi vísar jafnframt til þeirrar meginreglu laganna um opinber innkaup að innkaup skulu stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni, sbr. 1. gr. laganna. Boðið tímagjald stefnanda í alla verkhluta hafi numið 14.753 krónum með virðisaukaskatti. Stefndi Íslandsstofa hafi ekki gefið upp verð í tilboði Íslensku auglýsingastofunnar ehf. en hafi þó upplýst að hæsta boðna verð hennar hafi verið 14.433 krónur með virðisaukaskatti. Hafi því verið 2% munur var á boðnu verði. Hins vegar geti fyrirtæki, sem er með 2% lægra verð, verið mun dýrari kostur á endanum með því einu að gjaldfæra fleiri tíma en samkeppnisaðilinn. Hafi stefndi með engum hætti sýnt fram á að sú ákvörðun að fela Íslensku auglýsingastofunni ehf. alla samninga á grundvelli rammasamningsins hafi í raun verið hagkvæmasti kostur, að teknu tilliti til alls, auk þess sem hún hafi ekki leitt til samkeppni. Ef stefndi hefði í raun ætlað að velja á grundvelli lægsta boðna verðs, hefði það þurft að koma skýrt fram í útboðsgögnum og hefði val tilboða þurft að grundvallast á því. Svo hafi hins vegar ekki verið.
Stefndu beri sönnunarbyrðina fyrir því að framkvæmd útboðsins og rammasamningsins í kjölfarið hafi verið með lögmætum hætti. Eigi það jafnframt við um sönnunarbyrðina fyrir því að með því að semja einungis við Íslensku auglýsingastofuna ehf. hafi verið gætt að jafnræði, hagkvæmni og stuðlað að samkeppni.
Þótt rammasamningur sé löggerningur, sem skyldur stefnda eigi rót að rekja til samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar, hafi stefndi þó einnig verið bundinn af meginreglum stjórnsýsluréttar, svo sem jafnræðisreglu og kröfum um málefnalegar ástæður gerða sinna, við ráðstöfun einkaréttarlegra réttinda. Í 103. gr. laganna um opinber innkaup segi að ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga um hæfi gildi um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum en að öðru leyti gildi stjórnsýslulögin ekki. Í athugasemdum með lagafrumvarpinu sem varð að innkaupalögunum komi þó fram að við skýringu reglna um opinber innkaup kunni að verða litið til stjórnsýslulaga og ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Þá verði ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar einnig beitt þegar reglur um opinber innkaup taki ekki til álitaefnis. Þannig beri stjórnvöldum við opinber innkaup, eins og ávallt, að hafa meginreglur stjórnsýsluréttar að leiðarljósi, þ.m.t. meginregluna um að ákvarðanir, m.a. um einkaréttarlega samninga, skuli teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og að jafnræðis sé gætt.
Stefnandi kveður samning hafa komist á milli sín og stefnda Íslandsstofu um að hinn síðarnefndi myndi kaupa vörur og þjónustu á tilteknu tímabili. Í samningnum og fylgigögnum sé kveðið á um ýmsar aðal- og aukaskyldur samningsaðila en helsta skylda stefnda Íslandsstofu samkvæmt samningnum hafi verið að kaupa vörur og þjónustu af stefnanda. Hafi stefnda þannig borið að panta og biðja um tiltekin verk á grundvelli samningsins og greiða svo fyrir þau. Þetta hafi stefndi aldrei gert og því vanefnt samninginn með því að brjóta þannig gegn meginreglum samningaréttar, m.a. um að samninga skuli halda, og meginreglum kröfuréttar, m.a. um efndir in natura.
Sú háttsemi stefnda Íslandsstofu að sniðganga samninginn við stefnanda með öllu sé ólögmæt og feli í sér skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga sem og meginreglu samninga- og kröfuréttar um réttar efndir.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanefnt umræddan samning, án réttlætanlegra ástæðna, og eigi stefnandi því rétt á efndabótum. Tjónið felist í missi þeirra greiðslna sem stefnandi hefði fengið frá stefnda ef sá síðarnefndi hefði efnt samninginn með réttum og lögmætum hætti. Krafan miði að því að gera stefnanda eins settan og ef við hann hefði verið samið og hann framkvæmt helming þeirra verka sem keypt voru á grundvelli rammasamningsins.
Stefnandi kveður tjón sitt í öllum tilvikum hið sama en það styðjist við þrenns konar bótagrundvöll. Í fyrsta lagi byggist skaðabótakrafan á 101. gr. laga um opinber innkaup. Stefndi hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup en hann hafi gert samning við stefnanda í kjölfar útboðsins og með því hafi hann tekið afstöðu til þess að stefnandi sé hæfur til að taka að sér verk samkvæmt útboðinu. Hins vegar hafi stefndi í raun hætt við þátttöku í samningi aðila með því að aðhafast ekki samkvæmt honum. Engar málefnalegar forsendur hafi verið fyrir hendi til að hætta við samningsgerð með þessum hætti.
Í öðru lagi byggir krafan á sakarreglunni en öll skilyrði hennar séu uppfyllt. Stefndi hafi viðhaft ólögmæta háttsemi með saknæmum hætti, líkt og rakið hafi verið, enda hafi brot stefnda verið framin af ásetningi eða a.m.k. gáleysi. Tjón stefnanda liggi fyrir og séu orsakatengsl milli þess og háttsemi stefnda og sé tjónið jafnframt sennileg afleiðing af þeirri háttsemi.
Í þriðja lagi sé krafan byggð á skaðabótareglum kröfuréttar sem leiði til þess að stefnda beri að greiða tjón sem af vanefndum leiði.
Sniðganga stefnda á öðrum viðsemjanda sínum sé með engu móti réttmæt, málefnaleg eða sanngjörn, heldur hafi verið um að ræða gerræðislega mismunun sem hafi leitt til þess að annar samningsaðilinn naut verri stöðu en hinn. Annar aðilinn hafi notið alls ábata af samningnum á meðan hinn, stefnandi þessa máls, hafi orðið fyrir tjóni en engar tekjur haft. Þessi ólögmæta háttsemi stefnda verði ekki réttlætt og beri stefndu því að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi sannanlega orðið fyrir vegna hennar.
Á tímabilinu september 2011 til september 2013 hefðu þjónustukaup stefnda hjá stefnanda átt að vera helmingur af 173.392.630 krónum (51.593.979 + 65.392.651 + 56.406.000) eða 86.696.315 krónur. Beri stefndu því að greiða sameiginlega (in solidum) 86.696.315 krónur. Stefnandi áskilur sér rétt til að auka við kröfur og/eða höfða nýtt mál komi í ljós að tjón stefnanda sé enn meira, t.d. þegar í ljós komi hver endanleg kaup á þjónustu stefnda verði á tímabilinu september 2013 til 31. desember 2014.
Verði ekki fallist á kröfuna í heild, kveður stefnandi í henni felast allar kröfur sem ganga skemur, þ.e. lægri bótakröfur, og áskilji hann sér rétt til að afla matsgerðar þar um. Verði ekki fallist á rétt stefnanda til efndabóta, eigi hann rétt á vangildisbótum. Slík krafa falli innan stefnufjárhæðarinnar og styðjist við sömu málsástæður og lagarök. Skaðabæturnar miðist í því tilviki við kostnað stefnanda af því að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði, auk kostnaðar við samningsgerð og ráðstafanir sem gerðar hafi verið vegna samningsins.
Stefnandi vísar um dráttarvaxtakröfu til III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og miðist upphafstími dráttarvaxta við mánuð eftir að kröfubréf var sent hinn 5. september 2013, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.
Verði ekki fallist á fjárkröfu stefnanda að hluta eða í heild, gerir stefnandi varakröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Um nánari skilyrði fyrir slíkri kröfu vísar hann til fyrri umfjöllunar um reglur útboðs-, skaðabóta- og fjármunaréttar um bætur fyrir fjártjón sem fela það í sér að stefnandi verði jafnsettur fjárhagslega eins og framangreind réttarbrot hefðu ekki orðið. Stefnandi gerir í þessu tilviki þá kröfu að viðurkennt verði að hann eigi að verða eins settur og ef keypt hefði verið af honum þjónusta eins og stefnda hafi borið að gera.
Til þrautavara er gerð krafa um viðurkenningu á rétti til vangildisbóta sem miðast við að stefnandi verði eins settur og ef hann hefði aldrei lagt í þá vinnu og þann útlagða kostnað sem felist í þátttöku í innkaupaferlinu og samningsgerð, auk annarra ráðstafana sem gerðar hafi verið vegna samningsins.
Krafa um viðurkenningu á bótarétti byggist á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en hagnaður af viðskiptum á grundvelli rammasamningsins sé nægjanlega afmarkað tjón til að leggja megi dóm á viðurkenningarkröfuna. Þá sé vinna og kostnaður við undirbúning og þátttöku í útboðsferlinu og samningsgerð einnig nægjanlega afmarkað ferli svo leggja megi dóm á viðurkenningarkröfu um rétt til bóta fyrir kostnaði stefnanda.
Stefnandi kveður gögn um áætlað tjón liggja fyrir, þ.e. það nemi helmingi af heildarkaupunum. Ekki sé nauðsynlegt að leggja fram gögn um kostnað af þátttöku í útboðsferli og samningagerð, enda felist í eðli máls að umsækjendur þurfi að leggja til vinnu og kostnað í slíku ferli. Áskilur stefnandi sér þó rétt til að leggja fram gögn um slíkan kostnað.
Um lagarök vísar stefnandi varðandi fyrirsvar til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um varnarþing til 3. og 4. mgr. 33. gr. sömu laga. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
III.
Stefndi Íslandsstofa kveður bótagrundvöllur krafna stefnanda vera rangan og í ósamræmi við meginreglur kröfu- og skaðabótaréttarins. Meginregla kröfuréttar um efndabætur feli í sér að samningsaðili eigi að vera eins settur eins og samningur hefði verið réttilega efndur. Í efndabótum felist þannig ekki að samningsaðili geti miðað meint tjón sitt við þær greiðslur sem hann hefði notið samkvæmt samningnum, eins og stefnandi geri, heldur geti tjón samningsaðilans einungis falist í missi þess hagnaðar, þ.e. tekjur að frádregnum kostnaði, sem hann hefði notið ef samningurinn hefði verið réttilega efndur.
Stefnandi byggi hins vegar hvorki á því að skaðabótagrundvöllur þessa máls sé krafa um bætur fyrir missi hagnaðar, né liggi frammi gögn í málinu sem sýni fram á hver hagnaður stefnanda hefði orðið ef samningurinn hefði verið efndur með þeim hætti sem stefnandi telur vera réttar efndir samningsins. Af þessum sökum sé stefnda í raun gert ómögulegt að verjast aðalkröfu stefnanda, enda sé hún með öllu órökstudd, vanreifuð og standist ekki almennar reglur.
Þá sé málatilbúnaður stefnanda verulega ruglingslegur. Sé t.d. óljóst hvort stefnandi byggi kröfur sínar um skaðabætur á skaðabótareglum utan eða innan samninga. Þannig byggi stefnandi t.d. á því að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglum, meginreglum útboðsréttar og stjórnsýslulögum. Í stefnu sé meint tjón stefnanda hins vegar rakið til meintra vanefnda stefnda á samningi sínum við stefnanda. Stefnandi virðist því ekki byggja beinlínis á því að meint brot stefnda gegn jafnræðisreglum, meginreglum útboðsréttar og stjórnsýslulögum hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda sem stefnda beri að bæta. Verður því ekki annað séð en að bótagrundvöllurinn sé einungis byggður á meginreglum samninga- og kröfuréttarins.
Ennfremur sé ljóst að krafa stefnanda styðjist að hluta við áætlanir um kostnað verkefnisins. Þannig liggi einungis fyrir raunkostnaðartölur verkefnisins fram til 31. ágúst 2013 en sá kostnaður nemi samtals 116.986.630 krónum. Krafa stefnanda byggist hins vegar á því að hann hefði átt að njóta 50% hlutfalls af 173.392.630 krónum en inni í þeirri fjárhæð séu tölur sem enn séu á áætlunarstigi samkvæmt fjárhagsáætlun verkefnisins frá september 2013 til september 2014. Stefndi krefjist því í raun hlutfalls af kostnaði sem ekki hafi enn fallið til. Krafa stefnanda byggi því á verulegum óvissuþáttum. Að mati stefnda feli slíkt í sér verulega vanreifun krafnanna, auk þess sem hér eigi við ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um að vísa beri máli frá dómi ef meint skylda stefnda er ekki enn orðin til.
Hafi stefnandi því ekki í stefnu gert þá grein fyrir aðalkröfu sinni og sönnunargögnum um hana sem áskilið sé í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi stefnandi þingfest málið á grundvelli stefnu, án þess að fullnægt hafi verið ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna um framlagningu gagna sem varða málatilbúnað stefnanda við þingfestingu. Lög nr. 91/1991 geri ekki ráð fyrir að stefnandi fái frest eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu. Séu því slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að því er varðar aðalkröfu hans að vísa beri henni frá dómi.
Á sama grundvelli verði að vísa vara- og þrautavarakröfum stefnanda frá dómi. Þannig séu hvorki lögð fram gögn sem sanna meint tjón stefnanda né lögð fram gögn sem sýna fram á kostnað stefnanda við að undirbúa tilboð og taka þátt í rammasamningsútboðinu. Séu kröfurnar því með öllu vanreifaðar. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um vara- og þrautavarakröfu sína, þar sem úrlausn um aðalkröfu stefnanda feli jafnframt í sér dóm um bótaskyldu stefnda.
IV.
Stefndi, íslenska ríkið, byggir frávísunarkröfu sína á því að fjárkrafa stefnanda, eins og hún er sett fram í stefnu, uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafan byggist m.a. á fjárhagáætlun meðstefnda Íslandsstofu sem enn sé óljóst hvort muni standast og fáist engin vissa um það fyrr en í fyrsta lagi í október 2014. Beri því að vísa málinu frá dómi, enda andstætt meginreglum réttarfars að dæma svo óvissa kröfu.
Þá sé kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda svo óljós og vanreifaður að það varði frávísun málsins frá dómi, sbr. d-, e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Kröfur á hendur stefnda, íslenska ríkinu, séu ekki rökstuddar og uppfylli stefnan því hvorki skilyrði e- né f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi kveður fjárkröfuna vanreifaða en í stefnu sé ekki gerð grein fyrir því hvers vegna stefnandi dregur hvorki launakostnað né annan rekstrarkostnað frá kröfu sinni. Hann áskilji sér helming andvirðis keyptar þjónustu meðstefnda af samkeppnisaðila, sem án vafa hafi haft margvíslegan kostnað af efndum samningsins á móti fjárhæð útgefinna reikninga sem ætti að koma til frádráttar. Krafan uppfylli því vart skilyrði d-, e-, f- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 skuli stefnandi leggja fram stefnu og þau skjöl sem hann byggir kröfur sínar á. Verulega skorti á framlagningu skjala sem skjóti stoðum undir fjárkröfu stefnanda.
Jafnframt sé grundvöllur málsins gagnvart stefnda óskýr. Ekki verði með neinni vissu ráðið af málsástæðukafla í stefnu hvort krafa stefnanda á hendur stefnda byggi á samningssambandi hans við stefnda og meðstefnda eða á almennum reglum skaðabótaréttarins. Þar sem um sitt hvort réttarsviðið sé að tefla sé örðugt fyrir stefnda að bregðast við málsókninni með málefnalegum hætti. Skilyrði fyrir afdráttarlausri málsmeðferð og málflutningi séu því vart fyrir hendi. Auk þess virðist sem kröfugerðin styðjist við almennar meginreglur kröfuréttar, samningaréttar og skaðabótaréttar án afmörkunar, í það minnsta gagnvart meðstefnda sem stefnandi kjósi að skilgreina sem stefnda í máli þessu. Afleiðing þess sé sú að enginn grundvöllur undir málatilbúnað stefnanda á hendur íslenska ríkinu sé fyrir hendi.
Að endingu fær stefndi ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega leyst úr varakröfu og þrautavarakröfu, þar sem úrlausn á aðalkröfu stefnanda, felur jafnframt í sér dóm um bótaskyldu stefnda. Verði stefndi sýknaður af fjárkröfu stefnanda verður bótaskylda hans ekki viðurkennd sérstaklega, enda sú bótaskylda frumforsenda aðalkröfunnar. Ber því að vísa varakröfu og þrautavarakröfu frá dómi með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá verður ekki ráðið af málatilbúnaði stefnanda hvort varakrafan byggi á skaðabótaskyldu innan eða utan samninga enda styðst varakrafa að sögn við sömu réttarsvið að því er virðist, útboðsrétt, skaðabótarétt og fjármunarétt eins og stefnandi kemst að orði. Brýtur málatilbúnaður stefnanda gegn skilyrðum e og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti.
Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en að öðru leyti til þeirra lagaákvæða sem þegar hefur verið vísað til af hans hálfu.
V.
Í kaflanum um málsgrundvöll í stefnu segir að fjárkrafan í aðalkröfu stefnunnar miðist við verðmæti þeirra viðskipta sem stefnandi átti með réttu að njóta en varð af vegna ólögmætrar háttsemi stefnda Íslandsstofu. Segir jafnframt í kafla um bótagrundvöll að krafist sé efndabóta vegna vanefnda stefnda á samningi aðila, án réttlætanlegra ástæðna. Stefnandi byggir á því að efndabæturnar skuli miða við helming þeirra greiðslna sem Íslenska auglýsingastofan ehf. fái frá stefnda Íslandsstofu vegna umrædds rammasamnings, þ.e. 86.696.315 krónur. Markmið efndabóta er að gera samningsaðila eins settan fjárhagslega og ef réttar efndir hefðu farið fram. Sem sönnunargögn fyrir kröfu sinni hefur stefnandi einungis lagt fram fjárhagsáætlanir sem auk þess voru að hluta ekki komnar til framkvæmda þegar málið var höfðað. Hins vegar er í stefnu engin grein gerð fyrir því hver kostnaður stefnanda sjálfs hefur verið af efndum samningsins, enda snúa málsástæður að baki aðalkröfunni ekki að missi hagnaðar af verki fyrir stefnda Íslandsstofu, heldur að stefnandi hafi orðið af helmingi heildarþóknunar fyrir slíkt verk.
Stefnandi byggir kröfu sína einnig á því að stefndi Íslandsstofa hafi brotið gegn lögum og reglum um opinber innkaup nr. 84/2007, lögum nr. 65/1993, um framkvæmd útboða, og meginreglum útboðs- og samningsréttar. Tilgreinir stefnandi sérstaklega ákvæði 34. gr., 45. gr., 72. gr. og 101.gr. laga nr. 84/2007, án þess að gera nánari grein fyrir því með hvaða hætti stefndu hafa brotið gegn þeim.
Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi Íslandsstofa hafi brotið gegn meginreglum kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar. Hins vegar er í stefnu hvorki að finna nánari lýsingu á þeim ákvæðum umrædds rammasamnings, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, né er þar með nægilega skýrum hætti gerð grein fyrir því hvernig stefndi Íslandsstofa braut gegn ákvæðum samningsins og vanrækti þannig skyldur sínar samkvæmt honum og framangreindum meginreglum.
Af stefnu verður ráðið að til stuðnings varakröfu sinni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu og þrautavarakröfu um viðurkenningu á rétti stefnanda til vangildisbóta vísi stefnandi til sömu sjónarmiða og vegna aðalkröfu. Varakrafan og þrautavarakrafan eru settar fram með vísan til heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Áskilnaður þess ákvæðis um lögvarða hagsmuni hefur verið skýrður á þá leið að sá sem krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Eiga því einnig við um þessar kröfur þær athugasemdir, sem hér að framan hafa verið raktar í tengslum við málatilbúnað stefnanda um aðalkröfuna.
Fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991 miða að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Af öllu framangreindu er ljóst að verulegir annmarkar eru á málatilbúnaði stefnanda í máli þessu og er það mat dómsins að málatilbúnaðurinn sé svo óskýr og óljós að hann fullnægi ekki kröfum d-, e-, f- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá verður að fallast á það með stefnda, íslenska ríkinu, að aðild hans að málinu sé einnig vanreifuð. Jafnframt verður á það fallist með stefndu að svo verulega skorti á gagnaframlagningu stefnanda til stuðnings kröfum hans að það brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Verður því, þegar af þessum ástæðum, að fallast á kröfur stefndu um að vísa beri frá dómi öllum kröfum stefnanda vegna vanreifunar.
Með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða hvorum stefnda um sig 350.000 krónur í málskostnað.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda, Íslandsstofu, 350.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í málskostnað