Hæstiréttur íslands
Mál nr. 142/2010
Lykilorð
- Verksamningur
- Skaðabætur
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2011. |
|
|
Nr. 142/2010. |
GRR-ráðgjöf ehf. (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Deloitte hf. (Garðar Valdimarsson hrl.) |
Verksamningur. Skaðabætur.
G gerði samning við A um tiltekið verk í júlí til október 2007. A átti í fjárhagsörðugleikum og nokkrum dögum síðar gerði A samning við D sem fól það meðal annars í sér að D skyldi sjá um fjármálastjórn A næstu fjóra mánuði. Starfi fjármálastjóra lauk 31. október 2007, og í kjölfar þess reis ágreiningur milli G og A um greiðslu fjögurra reikninga. Höfðaði G mál gegn A sem síðar var úrskurðað gjaldþrota, en enn síðar mál þetta gegn D. Í máli þessu byggði G á því að forsenda fyrir því að félagið hafi tekið að sér verk í þágu A hafi verið sú að fjármálastjórn félagsins yrði í höndum annars en A og að D hafi valdið honum tjóni með því að fjármálastjórinn hafi ekki séð til þess að reikningar G yrðu greiddir. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þeir reikningar sem G krafðist greiðslu á hafi ekki verið komnir í gjalddaga er fjármálastjórinn lauk verkinu fyrir A 31. október 2007 og þegar af þeirri ástæðu hafi honum verið óskylt að greiða þá. Hvað varðaði ágreining aðila um tilgreindan reikning, sem stjórn A taldi ósannaðan, bæri að líta til þess að stjórnin hafi farið með vald til að stjórna félaginu, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Fjármálastjórinn hafi því ekki haft sjálfstæða heimild til að fara gegn ákvörðun stjórnenda félagsins um þetta. Samkvæmt framansögðu hefði G ekki sýnt fram á sök af hálfu D, sem leitt hafi til þess að G hafi orðið af réttmætum greiðslum úr hendi A. Þegar af þeirri ástæðu var talið að G gæti ekki byggt á þeirri málsástæðu sem reist væri á sérfræðiábyrgð D og ströngu sakarmati á starfsemi endurskoðenda, hvort heldur væri á grundvelli þágildandi laga nr. 18/1997 um endurskoðendur eða óskráðum reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Samkvæmt þessu var D sýknað af kröfum G í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 34.461.896 krónur, en til vara 4.108.550 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. desember 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi gerði samning við Arnarfell ehf. 1. júlí 2007, sem fólst í því að eigandi áfrýjanda, Gísli Rúnar Rafnsson, skyldi vera staðarstjóri við framkvæmdir Arnarfells ehf. við svonefnda Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar „á tímabilinu júlí til október 2007“, en Arnarfell ehf. hafði á árunum 2004 til 2006 gert fjóra verksamninga við Landvirkjun, sem voru liður í virkjunarframkvæmdum þess síðastnefnda. Í samningi áfrýjanda við Arnarfell ehf. var endurgjald tilgreint í nokkrum liðum, en hinir helstu voru annars vegar mánaðarleg greiðsla fyrir staðarstjórn, 3.300.000 krónur auk virðisaukaskatts, og hins vegar svonefndar frammistöðutengdar greiðslur, sem skyldu reiknast sem tiltekið hlutfall af öllum greiðslum fyrir aukaverk, viðbætur og niðurfellingu afslátta sem Landsvirkjun myndi samþykkja á tímabilinu frá 5. júlí til 1. nóvember 2007. Um frammistöðutengdu greiðslurnar sagði jafnframt að þær skyldu inntar af hendi „innan 30 daga frá því niðurstaða liggur fyrir skv. reikningi GRR.“ Reikningar áfrýjanda á hendur Arnarfelli ehf. fyrir mánaðarlegu endurgjaldi vegna júlí, ágúst og september 2007 voru greiddir, en ágreiningur reis vegna þriggja reikninga hans fyrir frammistöðu í starfi. Hinn fyrsti þeirra var dagsettur 12. október 2007 og tók til tímabilsins júlí til september sama ár, en þar var tekið fram að hann væri „til gr. 15. okt.“ Annar reikningur var dagsettur 2. nóvember 2007 og fól meðal annars í sér hækkun á greiðslu samkvæmt fyrsta reikningnum, en sá þriðji var dagsettur 5. sama mánaðar og var vegna októbermánaðar. Þá gerði áfrýjandi reikning, sem dagsettur var 1. nóvember 2007, fyrir mánaðarlegu endurgjaldi vegna staðarstjórnar í október 2007. Ágreiningur reis ekki um réttmæti þessa reiknings, en Arnarfell ehf. greiddi hann þó ekki. Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu fjárhæðar, sem nemur aðallega samtölu þessara fjögurra reikninga, en til vara eingöngu fjárhæðar þess síðastnefnda.
Þegar áfrýjandi gerði áðurnefndan samning við Arnarfell ehf. átti það félag í fjárhagsörðugleikum og voru verk þess fyrir Landsvirkjun á eftir áætlun. Þann 5. júlí 2007 gerðu Arnarfell ehf. og Landsvirkjun ásamt tveimur fjármálafyrirtækjum, sem veittu lán til framkvæmdanna, samning í tíu liðum, sem miðaði að því að tryggja áframhald verka Arnarfells ehf. og „systurfélags þess, Norðurverks“ svo að þau stöðvuðust ekki vegna fjárhagsörðugleika félaganna og verklok gætu orðið á tilsettum tíma. Í þriðja lið þess samnings var meðal annars kveðið á um að nýr fjármálastjóri skyldi ráðinn til verktakanna fyrir milligöngu stefnda og ætti hann einn að hafa prókúruumboð fyrir félögin. Þá þegar lá fyrir samningur þessa efnis frá 1. júlí 2007 þar sem stefndi var tilgreindur sem verksali og Arnarfell ehf. verkkaupi. Samkvæmt verklýsingu í samningnum skyldi stefndi sjá um fjármálastjórn Arnarfells ehf. og Norðurverks ehf. næstu fjóra mánuði með því að starfsmaður hans yrði tilnefndur sem fjármálastjóri félaganna. Hann skyldi einn vera prókúruhafi fyrir þau og allar fjárhagslegar skuldbindingar félaganna umfram 1.000.000 krónur háðar samþykki hans. Tekið var fram að efni samningsins væri trúnaðarmál, en með bréfi stefnda 24. september 2007, sem meðal annars var sent áfrýjanda, var kynnt starfssvið fjármálastjórans samkvæmt áðurnefndum samningi og greint frá gildistíma hans.
Af hálfu stefnda var Dagur Eiríksson tilnefndur sem fjármálastjóri verktakanna, en síðasti starfsdagur hans var 31. október 2007 og tilkynnti hann samdægurs um afsal prókúruumboðs síns. Í héraðsdómi greinir nánar frá atvikum þegar áfrýjandi reyndi að fá reikninga sína greidda hjá Arnarfelli ehf. og samskiptum hans við fjármálastjórann af því tilefni. Áfrýjandi höfðaði mál á hendur Arnarfelli ehf. með stefnu 17. desember 2007 til greiðslu sömu fjárhæðar og aðalkrafa hans í máli þessu tekur til og var stefnda þar stefnt til réttargæslu. Stefna í því máli var árituð um aðfararhæfi 26. febrúar 2008. Bú Arnarfells ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. mars sama ár og hefur krafa áfrýjanda á grundvelli stefnunnar verið viðurkennd þar sem almenn krafa. Í máli þessu reisir áfrýjandi kröfu sína gegn stefnda einkum á því að forsenda fyrir því að hann tók að sér verk í þágu Arnarfells ehf. hafi verið sú að fjármálastjórn félagsins yrði í höndum annars en þess sjálfs, en fyrrnefndir samningar frá 1. og 5. júlí 2007 hafi tryggt honum það. Stefndi hafi valdið honum tjóni með því að sjá ekki til þess að reikningar hans yrðu greiddir og verði að bera ábyrgð á því. Til stuðnings sýknukröfu ber stefndi meðal annars fyrir sig að reikningarnir hafi ekki verið komnir í gjalddaga þegar verki fjármálastjórans lauk 31. október 2007.
II
Í héraðsdómi greinir frá því að reikningur áfrýjanda fyrir staðarstjórn í október 2007 hafi verið gefinn út 1. nóvember sama ár og með gjalddaga 5. þess mánaðar. Í skýrslu Dags Eiríkssonar fyrir dómi kom á hinn bóginn fram að hann hafi fengið reikninginn sendan frá áfrýjanda 28. október 2007. Á reikninginn var engu að síður ritaður útgáfudagur og gjalddagi eins og greinir í héraðsdómi.
Sem fyrr segir lauk verki stefnda í þágu Arnarfells ehf. 31. október 2007. Enginn fjögurra reikninga áfrýjanda var þá kominn í gjalddaga og var fjármálastjóranum þegar af þeirri ástæðu óskylt að greiða þá. Að því er varðar sérstaklega reikning, sem dagsettur var 12. október 2007 en „til gr. 15. okt.“, er til þess að líta að áfrýjanda var óheimilt að breyta umsömdum gjalddaga reikninga fyrir frammistöðutengdar greiðslur, sem getið var um að framan hvernig var ákveðinn. Gjalddagi, sem um var samið, gat með engu móti talist vera kominn áður en fjármálastjórinn lauk starfi sínu.
Í héraðsdómi greinir frá því að kröfur áfrýjanda fyrir árangur í starfi mættu andstöðu stjórnar Arnarfells ehf., sem taldi í senn að réttur hans til þessara greiðslna væri ósannaður og að félagið ætti gagnkröfur á hendur honum vegna tjóns, sem gerðir staðarstjórans hafi valdið því. Í héraðsdómi kemur einnig fram að vegna þessarar afstöðu stjórnarinnar hafi fjármálastjóri ekki viljað skipta sér frekar af þessum kröfum áfrýjanda. Um þetta er þess að gæta að stjórn Arnarfells ehf. fór með vald til að stjórna félaginu, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Fjármálastjórinn hafði ekki sjálfstæða heimild til að fara gegn ákvörðun stjórnenda félagsins um þetta og breyttu áðurnefndir samningar, sem gerðir voru í byrjun júlí 2007, eða prókúruumboð hans engu þar um. Áfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á sök af hálfu fjármálastjórans, sem leitt hafi til þess að áfrýjandi hafi orðið af réttmætum greiðslum úr hendi Arnarfells ehf. Þegar af þeirri ástæðu getur ekki komið til álita málsástæða áfrýjanda, sem reist er á sérfræðiábyrgð stefnda og ströngu sakarmati á starfsemi endurskoðenda, hvort heldur er á grundvelli þágildandi laga nr. 18/1997 um endurskoðendur eða óskráðum reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, GRRráðgjöf ehf., greiði stefnda, Deloitte hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar 2010, var höfðað 19. janúar 2009.
Stefnandi er GRR- ráðgjöf ehf., Daggarvöllum 4A, Hafnarfirði.
Stefndi er Deloitte hf., Smáratorgi; Kópavogi.
Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf.
Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur:
Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 34.461.896 krónur, en til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.108.550 krónur. Þess er krafist að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 26. desember 2007 til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati réttarins.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar í málinu.
I.
Í stefnu er atvikum m. a. svo lýst, að með verksamningi dags. 5. juli 2004 (KAR-21) og þremur verksamningum dags. 21. apríl 2006 (KAR-22, KAR-23 og KAR-24) hafi Arnarfell ehf. tekið að sér að vera aðalverktaki við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun hafi verið verkkaupi samkvæmt þessum samningum. Í lok árs 2006 hafi Arnarfell leitað til forsvarsmanns stefnanda, Gísla Rúnars Rafnssonar, um að hann gerðist stjórnandi við verk samkvæmt umræddum fjórum samningum. Hafi samningur náðst um að Gísli yrði byggingarstjóri við Hraunaveitu og hafi hann hafið störf þann 12. mars 2007. Hann hafi heyrt undir staðarstjóra Arnarfells á framkvæmdasvæðinu, en greiðslur fyrir starfið farið í gegnum stefnanda sem sé félag í eigu Gísla Rúnars.
Eftir því sem leið á framkvæmdatímann hafi Arnarfell átt í vaxandi erfiðleikum með að standa fullnægjandi skil á umsömdum verkum. Hafi erfiðleikar verktakans bæði verið vegna rekstrar- og fjárhagsstöðu, en einnig af stjórnunarlegum toga. Hafi þessi staða leitt til þess að verkaupinn, Landsvirkjun, greip til aðgerða í júní 2007, til þess að tryggja að verklok gætu orðið á tilsettum tíma og að verk skv. samningunum stöðvuðust ekki vegna fjárhagserfiðleika verktakans.
Meðal þeirra aðgerða sem Landsvirkjun greip til, hafi verið að krefjast þess að staðarstjórn við Hraunaveitu yrði falin utanaðkomandi aðila, aðila sem ekki væri hópi eigenda og stjórnenda Arnarfells. Hafi þessi ráðstöfun verið talin nauðsynleg sökum þess að staðarstjórar á vegum Arnarfells höfðu ekki náð valdi á rekstri, fjárhag og stjórnun verkefnisins, þrátt fyrir að hafa notið liðsinnis aðila sem sérstaklega voru til kvaddir. Hafi þótt einsýnt að framkvæmdir skv. verksamningum myndu stöðvast nema gerð yrði grundvallarbreyting á stjórnun verkefnisins.
Undir mánaðamótin júní/ júlí 2007 hafi forsvarsmaður stefnanda, Gísli Rúnar Rafnsson, fengið beiðni um það að undirlagi Landsvirkjunar, að hann tæki að sér staðarstjórn á framkvæmdasvæði Hraunaveitu. Gísli Rúnar hafi enn fremur fengið þann 1. júlí 2007 skeyti frá Einari Erlingssyni verkefnisstjóra Landsvirkjunar vegna Hraunaveitu, þar sem fram kom að Landsvirkjun hefði gefið Arnarfelli 14 daga frest til að greiða úr fjárhagsstöðu verkefnisins. Skeyti verkefnisstjórans hafi fylgt skilaboð frá Þórði Bogasyni lögmanni Landsvirkjunar. Af því megi ráða að 14 daga fresturinn hafi tekið að líða þann 29. júní 2007 og að ef Arnarfelli tækist ekki að koma sinum málum í rétt horf, myndi Landsvirkjun vera í stöðu til þess að taka verkið yfir að loknum þeim fresti.
Við þessar aðstæður hafi verið gengið frá samningi milli stefnanda og Arnarfells um að Gísli Rúnar tæki að sér staðarstjórn á framkvæmdasvæði Hraunaveitu frá 1. júlí til 1. nóvember 2007. Lokadagsetningin hafi helgast af þvi að Gísli Rúnar yrði upptekinn í öðrum verkefnum frá þeim tíma.
Upphaflegur samningur sé dagsettur 1. júlí 2007 og hafi honum einkum verið ætlað að taka til helstu atriða en nánara samkomulag hafi síðan verið unnið í samráði Gísla Rúnars og lögmanns Arnarfells, sbr. drög merkt „090807" sem lögmaðurinn útbjó og Gísli Rúnar svaraði. Hafi Gísli Rúnar samþykkt framlögð drög lögmannsins með athugasemd sem eingöngu laut að ítarlegra orðalagi á tveimur atriðum.
Samkvæmt þessum skjölum hafi samkomulagið um endurgjald til stefnanda fyrir þjónustu við staðarstjórn byggst á tveimur þáttum. Annars vegar á grunngreiðslu fyrir hvern mánuð sem ákveðin var 3,3 mkr. að viðbættum virðisaukaskatti. Hins vegar hafi verið samið um frammistöðutengda greiðslu til stefnanda. Hafi þessi svokallaða „bónusgreiðsla" einkum verið ákveðin í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem aðilar umræddra verksamninga höfðu af því að viðsnúningur yrði í rekstri, fjárhag og stjórnun Hraunaveituverkefnisins.
Til þess að tryggja eins og kostur var að viðsnúningur yrði til hins betra hafi Landsvirkjun, sem verkkaupi og byggjandi Kárahnjúkavirkjunar, gengið frá sérstöku samkomulagi við Arnarfell sem aðalverktaka framkvæmdanna og helstu lánardrottna Arnarfells þ.e. Landsbankans og Lýsingar. Þetta samkomulag sé dagsett 5. júlí 2007. Sé jafnframt vísað til samkomulagsins í samningi um endurgjald til stefnanda. Samkvæmt samkomulaginu frá 5. júlí 2007 skyldi verkkaupi, Landsvirkjun, greiða verulegar fjárhæðir fyrir aukaverk og viðbætur skv. þegar gerðum verksamningum, þ.e. KAR-21, 22, 23 og 24. Hafi hluti af heildarfjárhæðinni verið settur fram sem fyrirframgreiðsla upp á 175 mkr. Hafi fyrirframgreiðslan átt að tryggja að stefndi gæti samið við undirverktaka og lánardrottna en heildarfjárhæðinni hafi verið ætlað að duga til þess að lokið yrði við verk skv. gerðum samningum, þar með talið skv. samningi við stefnanda um staðarstjórn. Lykilatriði í þessu samkomulagi helstu hagsmunaaðila við framkvæmdirnar, hafi síðan verið að fela stefnda Deloitte hf. fjármálastjórn stefnda frá 1. júlí 2007 að telja. Kveðið hafi verið á um þetta í 3. lið samkomulagsins þar sem segir:
Tryggt verði að stjórnun verktaka við framkvæmd verksamninga KAR-21,22,23, og 24 verði í samræmi við kröfur Landsvirkjunar á hverjum tíma. Nýr fjármálastjóri verði ráðinn til Arnarfells og Norðurverks fyrir milligöngu Deloitte og hafi hann einn prókúru fyrir félögin. Frá september verði mánaðarlegt afstemmt uppgjör kynnt aðilum fyrir 25. hvers mánaðar.
Niðurlag hins tilvitnaða ákvæðis hafi verið einkar mikilvægt, en því hafi verið ætlað að tryggja að greiðslur verkkaupa skv. verksamningunum rynnu sannanlega til þeirra verktaka, sem verkið unnu, og lánardrottna. Hnykkt hafi verið á þessu atriði í samkomulagi Lýsingar hf. við Arnarfell og Norðurverk, sem gengið var frá þann 5. júlí 2007, samhliða hinu samkomulaginu.
Þegar formlega var gengið frá þessum gerningum þann 5. júlí 2007 hafði stefndi Deloitte gert samning við Arnarfell (AF) og Norðurverk (NV) urn tímabundna stjórn á fjármálum félaganna. Samningur þessi muni vera dagsettur þann 1. júlí 2007 en kynning á efni hans komi fram í bréfi stefnda dags. 24. september 2007, sem lagt var fram. Í samningnum segir orðrétt:
Tilgangur verksins er að sjá um fjármálastjórn félaganna næstu 4 mánuðina, með því að starfsmaður Deloitte verður tilgreindur sem fjármálastjóri félagsins meðan á verkinu stendur. [..] Fjármálastjórinn verður eini prókúruhafi félaganna, allar fjárhagslegar skuldbindingar umfram 1 miljón króna eru skilyrtar samþykki hans. [..] Fjármálastjórinn hefur fullt bakland í yfirmanni FAS [þ.e. Financial Advisory Services] deildar Deloitte, Heimi Ólafssyni, sem mun koma að öllum þeim verkefnum / samningum sem nauðsynlegt er.
Með framangreindu bréfi stefnda hafi verið gefið út að Dagur Eiríksson væri sá sem Deloitte tilgreindi sem fjármálastjóra félaganna. Hafi jafnframt komið fram að Dagur væri með prókúru fyrir félögin og bæri „skyldur sem slíkur" Tilkynning um Dag sem prókúrhafa hafði verið móttekin hjá fyrirtækjaskrá þann 18. september 2007. Það athugist enn fremur að þegar tilkynnt var um Dag sem fjármálastjóra og prókúruhafa hafi enginn framkvæmdastjóri verið starfandi hjá Arnarfelli enda hafði fyrri framkvæmdastjóri sagt af sér störfum fyrir það félag, sbr. tilkynningu sem móttekin var af fyrirtækjaskrá þann 14. júní 2007. Hafi afsögnin verið þáttur í miklum sviptingum sem áttu sér stað á vettvangi félagsins í maí og júní 2007, eins og sjá megi af gögnum fyrirtækjaskrár.
Um skilgreint verksvið Dags Eiríkssonar, starfsmanns stefnda, sem fjármálastjóra AF og NV, sagði í bréfinu dags. 24. september 2007, að þar undir félli m. a. gerð greiðslu- og rekstraráætlana og gerð mánaðaruppgjöra. Síðan segi Ágúst Heimir Ólafsson, sem ritar undir bréfið fyrir hönd stefnda, að fjármálastjóri hafi einn heimild til þess að skuldbinda félögin um upphæðir umfram 1 mkr. Síðan segir:
Allir starfsmenn og stjórnendur Arnarfells og Norðurverks skulu fara að tilmælum fjármálastjóra um framkvæmd innkaupa, sölu á þjónustu og verðmætum ásamt skráningu á kostnaði, tekjum, vinnu og verðmætum.
Á grundvelli tilvitnaðra bréfa og annarra upplýsingar sem veittar voru á þessu tímamarki, hafi stefnandi talið sig hafa fengið vissu fyrir því að Dagur Eiríksson fjármálastjóri starfaði í umboði stefnda Deloitte og Ágústs Heimis Ólafssonar sem yfirmanns þess fyrirtækis. Þar sem stefnandi vissi einnig að fjárstreymi til verkefna skv. KAR-21 til 24 var tryggt, sbr. greiðsluáætlun stefnda, hafi hann talið sig hafa næga tryggingu fyrir að greiðslur myndu berast vegna staðarstjórnarinnar, sbr. gerða samninga. Í framlagðri greiðsluáætlun stefnda sé fjárstreymi vegna KAR-21 til 24 lýst ítarlega, þar á meðal greiðslum fyrir aukaverk, viðbætur og forsendubreytingar eftir 1. júli 2007. Þessi greiðsluáætlun stefnda hafi hins vegar ekki verið tæmandi og vantaði þar einkum tvö atriði:
Annars vegar að gerð væri grein fyrir endurgreiðslu Arnarfells á fyrirframgreiðslu skv. samkomulagi hagsmunaaðila frá 5. júlí 2007 upp á 175 mkr. Hafi verið ákveðið af hálfu gagnaðila Arnarfells að staðið yrði skil á þessari fjárhæð til verkkaupans Landsvirkjunar með vinnuframlagi, einkum í október mánuði, þegar unnið hafi verið fyrir 113 mkr. upp í endurgreiðsluna. Hafi það leitt til þess að fyrirframgreiðslan taldist að mestu uppgerð í lok október. Stefnandi hafi ekki verið sáttur við þessa uppgjörsaðferð og komið athugasemd á framfæri við fjármálastjórann í október. Hafi stefnandi talið að dreifa ætti fyrirframgreiðslunni á fleiri mánuði þannig að jafnræðis væri gætt milli kröfuhafa.
Hins vegar hafi ekki komið fram í greiðsluáætlun stefnda að aðalverktakinn Arnarfell væri skuldbundinn til þess að greiða Lýsingu rúmlega 100 mkr. Hafi síðar komið á daginn að þessi fjárhæð var tekin út úr fjárstreymi verkefnisins án tillits til annarra liða sem þar voru inni og snertu sérstaklega frammistöðugreiðslur. Taldi stefnandi þetta vera í andstöðu við þá grundvallarforsendu samkomulagsins frá 5. júli 2007, að ráðstöfunarfé yrði varið til greiðslu verka skv. samkomulaginu.
Gísli Rúnar, forsvarsmaður stefnanda, hafi sinnt staðarstjórn á framkvæmdasvæði Hraunaveitu frá 1. júlí 2007 til 30. október 2007, á þeim forsendum sem hér hafa verið raktar, þ.e. samningi stefnanda og Arnarfells, samkomulagi um fjármálastjórn og greiðsluáætlun stefnda. Auk staðarstjórnar hafi Gísli Rúnar einnig verið byggingarstjóri á svæðinu allt til loka október, og borið ábyrgð sem slíkur lögum samkvæmt, enda ekki reynst unnt að ráða tæknimenntaða stjórnendur til þess að sinna byggingarstjórastarfinu.
Sem staðarstjóri hafi Gísli Rúnar haft yfirumsjón með öllum framkvæmdum á svæði Hraunaveitu. Við upphaf starfa hafi hann þurft að leggja mikið sig til að koma rekstri og stjórnun verkefnisins í betra horf, eins og stöðuskýrslur frá þessum tíma bera með sér. Staðfest sé einnig í ummælum verkefnisstjóra Landsvirkjunar að Gísli Rúnar hafi staðið fyrir verulegum breytingum til hins betra á stjórnun verksins sem skiluðu sér í öruggri framvindu þess eftir 1. júlí 2007, eins og staðfest sé í umsögn staðarverkfræðings við framkvæmdaeftirlit Hraunaveitu. Hafi sá árangur sem náðist eftir það tímamark, fyrir tilstyrk Gísla Rúnars, verið alger viðsnúningur frá ráðleysi forsvarsmanna Arnarfells sem áður hafði einkennt verkefnið og stefndi því í þrot.
Gísli Rúnar hafi fljótt orðið þess áskynja, eftir að hann tók við staðarstjórninni, að forsvarsmönnum Arnarfells gramdist hvernig mál höfðu þróast. Hafi gremja þeirra stigmagnast þrátt fyrir að augljóst væri að breytt stjórnun væri fyrst og fremst verktakanum í hag og að Arnarfell/Norðurverk nyti mests afraksturs af þeim árangri sem náðist. Hafi þetta ástand til að byrja með bitnað á samskiptum aðila, en er frá leið hafi forsvarsmenn Arnarfells/Norðurverks beinlínis tekið að vinna gegn Gísla Rúnari sem stjórnanda verkefnisins m.a. með inngripum í eðlilega framvindu og stjórnun verka.
Þessi vinnubrögð forsvarsmanna Arnarfells hafi verið Gísla Rúnari illskiljanleg enda hafi hann lagt sig fram um að gæta hagsmuna verktakans í samskiptum við verkkaupa og eftirlitsaðila. Liggi m.a. fyrir í umsögn staðarverkfræðings að Gísli Rúnar hafi haldið fast á hagsmunum verktakans varðandi ýmsar útfærslur verksins og uppgjörsmál.
Þegar fyrir lá að enginn trúnaður ríkti af hálfu forsvarsmanna Arnarfells / Norðurverks hafi Gísli Rúnar ritað bréf dags. 4. september 2007 þar sem lagðir voru upp tveir kostir. Annars vegar að um starfslok yrði að ræða, eða að Gísli Rúnar héldi áfram sem staðarstjóri til 1. nóvember í samræmi við gerða samninga og að hann hefði þá óskoraða stjórn á verkefninu. Afrit af þessu bréfi hafi m. a. farið til forsvarsmanna stefnda Deloitte sem stjórnenda fjármála verkefnisins. Forsvarsmenn Arnarfells hafi tekið síðari kostinn en þrátt fyrir það hafi enn orðið uppákomur í samskiptum aðila, sbr. bréf dagsett 21. október 2007.
Stefnandi hafi gefið út reikninga fyrir mánaðargreiðslu vegna staðarstjórnar, skv. samningum. Þessum reikningum hafi stefnandi komið til til Dags Eiríkssonar starfsmanns stefnda, sem hafi séð um að þeir voru greiddir vegna júlí, ágúst og september. Hafi stefnandi enga ástæðu haft til þess að ætla annað en að reikningur fyrir október yrði greiddur með sama hætti.
Þegar kom fram í október hafi stefnandi farið þess á leit við stefnda að gengið væri til uppgjörs í samræmi við samninga. Beiðni þessari hafi fyrst verið komið á framfæri við stefnda Deloitte þann 5. október 2007 ásamt útreikningum. Beiðnin hafi verið ítrekuð við stefnda þann 9. október 2007 ásamt nánari útreikningum. Önnur ítrekun hafi verið send þann 12. október 2007. Stefnandi hafi áréttað beiðni um uppgjör með tölvupósti til stefnda þann 21. október 2007. Þann 24. október hafi stefnandi síðan gert stefnda grein fyrir uppgjörsgrundvelli vegna októbermánaðar, vegna aukaverka og viðbóta sem samþykkt höfðu verið vegna þessa mánaðar. Hafi stefnandi þá talið að allar forsendur væru ljósar til þess að gera mætti upp frammistöðugreiðslur. Hafi stefnandi síðan gefið út uppgjörsreikninga vegna frammistöðugreiðslna og staðarstjórnar í október. Stefnandi hafi síðan látið af staðarstjórninni í lok október í samræmi við samning aðila.
Af hálfu Dags Eiríkssonar, starfsmanns stefnda, hafi engar athugasemdir verið gerðar við uppgjörið eða reikninga stefnanda. Þeir hafi hins vegar ekki verið greiddir, þrátt fyrir að eftir því væri gengið. Stefnandi kveður Dag Eiríksson hafa verið enn við störf sem fjármálastjóri þegar kom fram nóvember, sbr. tölvupóst dags. 5. nóvember 2007.
Með bréfi dags. 26. nóvember 2007 hafi stefnandi krafið Arnarfell um greiðslu umræddra fjögurra reikninga. Afrit kröfubréfsins hafi farið til stefnda Deloitte. Lögmaður Arnarfells hafi svarað kröfum stefnanda með bréfi dags. 27. nóvember 2007 þar sem kröfum stefnanda um árangursgreiðslur skv. útgefnum reikningum hafi verið hafnað. Kröfu um samningsbundna greiðslu fyrir staðarstjórn í október 2007 hafi á hinn bóginn ekki verið mótmæ1t.
Stefnandi hafi gefið út stefnu dags. 17. desember 2007 til heimtu skuldar skv. umræddum fjórum reikningum. Deloitte hf., stefnda þessu máli, hafi verið stefnt til réttargæslu. Útivist hafi orðið af hálfu beggja stefndu og hafi dómkröfur málsins verið áritaðar af dómara þann 26. febrúar 2008. Bú Arnarfells ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dags. 3. mars 2008. Stefnandi hafi lýst í búið kröfu skv. áritaðri stefnu og hafi krafan verið samþykkt af skiptastjóra sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Sé ljóst að litið sem ekkert muni fást upp almennar kröfur við skiptalok, en ákvörðun hafi verið tekin á vettvangi þrotabúsins um að höfða ekki nein mál til riftunar á greiðslum hins gjaldþrota félags. Það hafi vakið athygli stefnanda er hann skoðaði lýstar kröfur í bú Arnarfells, að undirverktakar sem unnið höfðu við verk skv. KAR-21 til 24 á grundvelli gerninganna frá 5. júlí 2007, á tímabilinu júlí til og með október, virtust flestir hafa fengið greitt fyrir sin verk. Nánari eftirgrennslan hafi staðfest, að fjármunir hefðu verið til reiðu til uppgjörs allra verka á þessu tímabili, eins og greiðsluáætlun gerði ráð fyrir. Í ljós hafi komið m.a. að sjóðstreymis- og rekstraráætlun sem útbúin var af Degi Eiríkssyni fjármálastjóra sýndi að sjóðstaða Arnarfells væri jákvæð um 200 300 mkr. í október og að það yrði fyrst í byrjun desember sem sjóðstaðan yrði neikvæð. Hafi stefnanda orðið af þessu ljóst að greiðslur til hans hefðu, af einhverjum ástæðum, verið teknar til hliðar þegar fjármálastjórinn Dagur Eiríksson, starfsmaður stefnda, ráðstafaði greiðslum sem inn komu frá Landsvirkjun vegna verksins.
Stefnandi hafi talið þessi vinnubrögð stefnda algerlega óforsvaranleg og leitað eftir viðræðum um uppgjör sem gengi út frá greiðslum á sömu forsendum og aðrir verktakar og lánardrottnar hefðu fengið fyrir það tímabil sem stefndi fór með fjármálastjórnina. Hafi lögmaður stefnanda sent minnisblað til stefnda hvað þetta varðar, dags. 28. ágúst 2008. Í framhaldi af þessu hafi verið haldnir tveir fundir milli aðila. Á síðari fundinum, sem haldinn var þann 11. september 2008, hafi forsvarsmenn stefnda lýst því yfir að ekki yrði gengið til neins uppgjörs við stefnanda. Hafi stefnandi ákveðið í framhaldi af þvi að stefna málinu inn fyrir dómstóla.6
Í málavaxtalýsingu stefnda segir m. a. að málavaxtalýsing stefnanda beri þess merki að hún sé að mestu tekin úr stefnu hans gegn Arnarfelli ehf., en það félag sé nú gjaldþrota og sé ekki stefnt í máli þessu. Fyrir hönd stefnda sé því mótmælt að þessi málavaxtalýsing verði lögð óbreytt til grundvallar í máli þessu þar sem ógerlegt sé fyrir stefnda að staðreyna margt af því sem þar komi fram vegna þeirrar takmörkuðu aðkomu sem hann hafi að málinu.
Stefndi vilji sérstaklega mótmæla eftirfarandi atriðum sem fram koma í stefnunni.
Því sé mótmælt að það hafi verið eitthvert lykilatriði í samkomulagi hagsmunaaðila við framkvæmdirnar að fela stefnda fjármálastjórn eins og segi í stefnu bls. 3 fyrir miðju. Þá vilji stefndi benda á að hæpið sé af stefnanda að halda því fram að upplýsingar um starfssvið fjármálastjóra sem fram komu 24. og 27. september hafi getað verið forsendur fyrir samningum hans um staðarstjórn sem gerðir voru miklu fyrr á árinu eða 1. júlí, en þetta sé gefið í skyn í stefnu. Samkomulag hagsmunaaðila sé dagsett 5. júlí en samningur stefnanda um staðarstjórn 1. júlí eins og að framan sé lýst.
Stefnandi vitni mikið í greiðsluáætlun 2007/2008, sem gerð var fyrir Arnarfell 5. júlí 2007 eða á sama tíma og framangreint samkomulag hagsmunaaðila, og gefi í skyn að hún hafi verið forsenda fyrir ráðningu hans sem staðarstjóra sem gert var við hann 1. júlí. Stefndi fái ekki séð hvernig það geti gengið upp. Enginn tilvísun sé í þessa áætlun í gögnum þeim sem stefnandi hefur lagt fram til upplýsingar um ráðningarsamning sinn sem staðarstjóri. Þá sé því haldið fram af forsvarsmönnum Arnarfells að staðarstjórn stefnanda hafi verið verulega ábótavant af hálfu hans og valdið félaginu tjóni, sbr. minnispunktar stjórnar Arnarfells vegna staðarstjórnar stefnanda til lögmanns Arnarfells, dags. 17. september 2007 og minnisblað eigenda Arnarfells til lögmanns félagsins, dags. 29. september 2007, sbr. einnig bréf fjármálastjóra til stjórnar Arnarfells, dags. 19. október 2007. Þá telji stefndi lýsingar stefnanda á frammistöðu sinni við staðarstjórn og trúnaðarbresti við forráðamenn Arnarfells ekki styðja kröfur hans.
Þá haldi stefnandi því fram að Dagur Eiríksson hafi engar athugasemdir gert við reikninga stefnanda og að hann hafi enn verið starfandi sem fjármálastjóri 5. nóvember. Stefndi mótmæli hvort tveggja sem röngu. Dagur hafi tekið það mjög skýrt fram í samtali við Gísla Rúnar, starfsmann stefnanda, að greiðsla reikninga sem gjaldféllu eftir 31. október 2007 yrði í höndum eigenda Arnarfells og að vegna ágreinings milli stefnanda og stjórnar Arnarfells um frammistöðugreiðslu myndi það vera ámælisvert af honum að samþykkja reikning fyrir aukagreiðslu. Hafi Dagur vísað honum til stjórnar og lögmanns Arnarfells til samþykktar eða synjunar. Stjórn Arnarfells hafi synjað honum um þessar aukagreiðslur með bréfi dags. 17. október 2007.
Stefnandi virðist aðallega byggja kröfur sínar um aukagreiðslur á því að peningar hafi verið til hjá Arnarfelli og aðrir verktakar hafi fengið sínar kröfur greiddar. Stefndi bendi á að málið snýst ekki um það hvort félagið hafi átt peninga heldur hvort stefnda hafi verið heimilt að greiða stefnanda, en samkvæmt því sem stjórn Arnarfells hélt fram hafi stefnandi ekki átt rétt á þessum greiðslum og hafi starfsmanni stefnda því ekki verið heimilt að samþykkja þær til greiðslu.
Þau málsatvik sem að áliti stefnda skipta máli séu eftirfarandi:
Í byrjun júlí 2007 hafi Fjármálaráðgjöf Deloitte (Deloitte FAS) verið ráðin til þess að aðstoða við fjármálastjórn Arnarfells ehf. og Norðurverks ehf. til loka október 2007. Aðstoð þessi hafi farið fram með þeim hætti að einn starfsmaður deildarinnar, Dagur Eiríksson, var gerður að fjármálastjóra Arnarfells frá 9. júlí 2007 og hafi hann í því sambandi verið gerður að eina prókúruhafa félagsins og sérstaklega tiltekið að allar fjárhagslegar skuldbindingar félagsins umfram 1 milljón króna væru háðar samþykki hans. Sem fjármálastjóri hafi Dagur haft fullt bakland í yfirmanni Fjármálaráðgjafar Deloitte. Fjármálaráðgjöf Deloitte hafi á árinu 2007 færst yfir í sérstakt félag, Deloitte FAS ehf., sem stofnað var í júní 2007. Samkvæmt bréfi framkvæmdastjóra síðast nefnds félags, dags. 31. október 2007 og meðundirrituðu af Degi Eiríkssyni, hafi Arnarfelli ehf. og Norðurverki ehf. verið tilkynnt lok verksamnings félagsins við félögin tvö og enn fremur að Dagur Eiríksson myndi láta af störfum sem fjármálastjóri félaganna frá og með sama degi, þ.e. 31. október 2007. Sama dag hafi Dagur Eiríksson tilkynnt til fyrirtækjaskrá RSK að hann gerði það kunnugt að hann hefði ekki lengur með höndum prókúrumboð fyrir félögin Arnarfell ehf. og Norðurverk ehf. og er það bréf stimplað móttekið hjá RSK 1. nóvember 2007. Frá 1. nóvember 2007 hafi Sigurbergur Konráðsson farið með prókúru fyrir Arnarfell ehf., sbr. tilkynningu til RSK.
Fram komi í stefnu að stefnandi muni hafa verið ráðinn sem byggingarstjóri og síðan staðarstjóri við Hraunaveituverkefni Arnarfells ehf. við Kárahnjúka. Samkvæmt samkomulagi milli stefnanda og Arnarfells ehf., dags. 1. júli 2007, átti stefnandi, auk fastrar mánaðarlegrar þóknunar kr. 3.300.000 auk virðisaukaskatts fyrir hvern mánuð samkvæmt reikningum útgefnum af GRR- ráðgjöf, m.a. að njóta frammistöðutengdrar greiðslu fyrir aukaverk sem samþykkt væru af verkkaupa eftir 5. júlí en fyrir 1. nóvember 2007 eins og nánar er rakið í samkomulagi stefnanda og Arnarfells. Reikna hafi átt út heildargreiðslu eftir nánari ákvæðum samkomulagins við starfslok Gísla, eiganda stefnanda, og draga þar frá 175 milljónir króna, en af því sem eftir stæði skyldi greiða til stefnanda 5% innan 60 daga frá því að niðurstaða lægi fyrir skv. reikningi stefnanda. Enginn ágreiningur virðist hafa verið milli stefnanda og Arnarfells um greiðslur reikninga fyrr en í október og hafi reikningar vegna júlí, ágúst og september verið greiddir eins og lýst sé í stefnu. Fyrrihluta október 2007 hafi stefnandi farið fram á það að Dagur, fjármálastjóri Arnarfells, geri upp meintar greiðslur til hans vegna aukaverka og sent fjármálastjóranum einhver gögn þar að lútandi sem hann útbjó sjálfur. Þá hafi stefnandi útbúið eftirtalda reikninga á Arnarfell á tímabilinu 12. október til 5. nóvember 2007:
|
Nr. |
Útgáfudagur |
Texti |
Fjárhæð án VSK |
Gjalddagi/Eindagi |
|
30 |
12.10. 2007 |
Árangursgreiðslur júl.-sept. 07 |
15.957.493 |
15.10.2007 |
|
31 |
01.11. 2007 |
Staðarstjórn í okt. fyrir KAR 21,22,23, og 24 |
3.300.000 |
05.11.2007 |
|
34 |
05.11. 2007 |
Árangursgreiðsla okt. 07 |
2.116.213 |
05.11./15.11.2007 |
|
35 |
02.11.2007 |
Árangurstengd gr. júl- okt. 07 |
6.306.532 |
02/11./12.11.2007 |
Verklagið við greiðslu reikninga hjá Arnarfelli hafi verið þannig að gjaldkeri félagsins, Margrét Konráðsdóttir, annaðist greiðslu allra reikninga. Á því tímabili sem Dagur starfaði sem fjármálastjóri félagsins hafi þurft samþykki hans til greiðslu allra reikninga og gjaldkeri ekki mátt greiða neinn reikning nema samþykki Dags lægi fyrir. Fjármálastjórinn hafi greint stjórn Arnarfells frá kröfum stefnanda og hafi stjórn félagsins sent honum bréf, dags. 17. október 2007 um vanefndir hans á samningi um staðarstjórn við Hraunaveitu. Þar komi m.a. fram að samkvæmt samningnum sé tilskilið að stefnandi ásamt lögmanni félagsins og formanni stjórnar þess skuli standa að samningum um aukaverk við Landsvirkjun. Þá færir stjórnin nánari rök fyrir því að stefnanda beri ekki að fá neinar aukagreiðslur. Í þessu bréfi stjórnar Arnarfells til stefnanda sé kröfugerð hans um aukagreiðslur sem hann beindi til fjármálastjóra félagsins hafnað. Síðar, eða 27. nóvember 2007, reki lögmaður Arnarfells það í bréfi til stefnanda, að félagið hafi haft verulegt tjón af stefnanda vegna starfa hans fyrir félagið og áskildi lögmaðurinn félaginu rétt til að hafa uppi bótakröfur af þessu tilefni. Fjármálastjórinn hafi tjáð stefnanda að hann gæti ekki samþykkt árangursgreiðslurnar og vísað í því sambandi til afstöðu stjórnar félagsins. Stefnandi hafi látið af störfum sem staðarstjóri í lok október eins og greinir í stefnu.
Því sé mótmælt sem segi í stefnu að Dagur Eiríksson hafi enn verið við störf sem fjármálastjóri Arnarfells 5. nóvember 2007, en hann hafi lokið störfum 31. október eins og áður sé lýst. Skýringin á tölvupósti Dags á þessum tíma sé að stefndi hafði á hendi önnur verkefni fyrir Arnarfell alls ótengd fjármálastjórn enda hafi hann ekkert haft með stjórnun fjármála að gera hjá Arnarfelli eftir 31. október 2008.
Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnanda, Gísli Rúnar Rafnsson aðilaskýrslu. Skýrslur vitna gáfu Dagur Pálmar Eiríksson Mörk, hagfræðingur, Einar Erlingsson, byggingaverkfræðingur, Sigurbergur Konráðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Arnarfells ehf., Jóhann Gunnar Bergþórsson byggingarverkfræðingur og Ágúst Heimir Ólafsson endurskoðandi.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi, sem fór með fjármálastjórn Arnarfells ehf., hafi með ólögmætum hætti komið I veg fyrir að stefnandi fengi greiðslur fyrir verk sem hann vann skv. samningi á tímabilinu frá júlí til október 2007. Þessi háttsemi stefnda hafi bakað stefnanda verulegt fjárhagslegt tjón, sem útséð sé um að hann muni fá bætt með úthlutun úr þrotabúi Arnarfells.
Fjárhæð aðalkröfu stefnanda byggist á því að tjón hans sé heildarfjárhæð þeirrar kröfu sem lýst var í þrotabú Arnarfells á grundvelli áritaðrar stefnu. Sé vísað til málsástæðna fyrir kröfunni í kaflanum um málsástæður og lagarök í umræddri stefnu. Stefnandi telji þetta tjón sannanlega liggja fyrir með áritun dómara á stefnuna, sem stefnda hafi verið birt sem réttargæslustefnda í því máli.
Fjárhæð varakröfu stefnanda byggist á samningsbundinni greiðslu fyrir staðarstjórn I október, en hvorki stefndi né Arnarfell hafi hreyft nokkurn tímann mótmælum við reikningi og uppgjöri fyrir þann hluta verksins.
Krafa stefnanda sé á því byggð að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að fella megi skaðabótaskyldu á stefnda. Stefnandi telji að um sé að ræða skaðaverk utan samninga, sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt lögfestum og ólögfestum reglum íslensks réttar um sérfræðiábyrgð.
Meginmálsástæða stefnanda fyrir dómkröfum sé að það hafi verið forsenda hans fyrir því að taka að sér staðarstjórn til viðbótar við starf byggingarstjóra, að stefndi hafði tekið yfir fjármálastjórnina. Stefndi, Deloitte, sé eitt kunnasta endurskoðunarfyrirtæki landsins, og hafi tekið að sér fjármálastjórn hjá Arnarfelli við þær aðstæður að það félag hafi ekki haft fjárhagslega burði til þess að ljúka verki og standa við gerða samninga við undirverktaka. Stefnanda hafi þannig verið rétt að treysta því að stefndi stæði þannig að fjármálastjórninni, að stefnanda og öðrum verktökum yrði greitt í samræmi við greiðsluáætlanir, sem voru kynntar Gísla Rúnari forsvarsmanni stefnanda við upphaf verkefnisins.
Stefnandi byggir á því að gera beri ríkar kröfur til Deloitte um aðgæsluskyldu í fjármálastjórninni, enda hafi fjármálastjórn verið tekin úr höndum forráðamanna Arnarfells og falin stefnda sem óháðum sérfræðiaðila er búi yfir þekkingu á fjármálastjórn, endurskoðun og lögfræðilegum þáttum. Hafi stefnda borið rík skylda til þess að fylgja greiðsluáætlunum eftir gagnvart verktökum og þá sérstaklega að gæta þess að mismuna þeim ekki við greiðslur.
Stefnandi telji það hafa verið bæði saknæmt og ólögmætt hreinlega óheiðarlegt af hálfu stefnda Deloitte, að gera ekki upp við stefnanda til jafns við aðra verktaka fyrir það tímabil sem stefndi hafði fjármálastjórnina með höndum. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa sem nemur stefnufjárhæðum.
Til frekari stuðnings málsástæðum stefnanda séu eftirfarandi rök:
Stefndi sé endurskoðunarskrifstofa skv. lögum um endurskoðendur, og beri ábyrgð á tjóni sem starfsmenn stofunnar valda. Fyrir liggi að Dagur Eiríksson var starfsmaður stefnda og starfaði í umboði Ágústs Heimis Ólafssonar löggilts endurskoðanda og yfirmanns FAS deildar stefnda.
2. Um störf endurskoðenda, ráðgjöf og þjónustu þeirra, gilda sett lög og reglur sem stefndi hafi undirgengist. Í þessum ákvæðum sé m.a. mælt fyrir um að skyldur starfsmanna stefnda, í störfum sem þeir taka að sér, helgist af jafnræði, heiðarleika, óhæði, hlutlægni og faglegum vinnubrögðum.
3. Sakarmat hvað varðar störf endurskoðunarskrifstofa sé strangt. Það verði að telja að sakarmatið sé strangara en ella, þar sem stefndi gegndi í raun hlutverki sem miðaði ekki síður að því að gæta hagmuna lánardrottna og kröfuhafa en þess félags er hann var settur fjármálastjóri fyrir. Meta verði í því ljósi ákvæði settra laga um að endurskoðandi skuli rækja störf sin af hlutlægni, kostgæfni og samviskusemi.
4. Telja verði að stefndi hafi með ráðstöfunum sinum brotið gróflega gegn þeim meginskyldum að virða jafnræði og gæta hlutlægni við greiðslur til kröfuhafa Arnarfells. Sérstaklega sé á það bent að aldrei hafi nein athugasemd verið gerð við greiðslu sem stefnandi átti að fá fyrir staðarstjórn í október, sbr. varakröfu. Eina ástæðan sem sé stefnanda sjáanleg fyrir því að sú greiðsla var ekki innt af hendi sé persónuleg óvild forsvarsmanna Arnarfells í garð stefnanda. Það geti ekki samrýmst skyldum stefnda við fjármálastjórn að gera slíka geðþóttaafstöðu að sinni.
5. Þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni, áskoranir og ítrekanir, hafi fjármálastjórinn Dagur Eiríksson starfsmaður stefnda, engu svarað um það hvernig greiðslum yrði háttað fyrir verk stefnanda. Verði að lita svo á að hér sé um brýnt brot að ræða á starfsskyldum stefnda. Megi ljóst vera að hefði stefnandi fengið viðbrögð fyrr við málaleitunum sinum, hefði hann hugsanlega getað takmarkað tjón sitt með því að þá hefði mátt tryggja kröfurnar, með ráðstöfunum gagnvart Arnarfelli, fyrir gjaldþrot þess félags.
Stefndi hafi aldrei gefið stefnanda neitt tilefni til þess að draga í efa að hann fengi greitt fyrir sin verk með sama hætti og aðrir verktakar og kröfuhafar. Með vísan til yfirlýsinga stefnda um vinnubrögð hafi stefnandi mátt treysta því að gert yrði upp við hann af fjármunum sem sérstaklega voru eyrnamerktir þeim verkum sem hann sinnti og voru í þágu verkkaupans og annarra hagsmunaaðila við framkvæmdimar. Óumdeilt sé að verkkaupinn innti þessar greiðslur af hendi og ekkert annað er framkomið, en að fjármunirnir hafi verið til reiðu sjóði Arnarfells þegar til uppgjörs átti að koma.
Stefndi telji auk þess ljóst að önnur skilyrði skaðabótaskyldu séu uppfyllt í málinu, þ.e. um orsakatengsl og vávæni.
Stefndi hafi starfsábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, samkvæmt 10. gr. laga nr. 18/1997, sbr. nú 6. gr. laga nr. 79/2008, sem tekur til fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi störfum starfsmanna endurskoðunarskrifstofu.
Stefnandi vísar til óskráðra reglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð sérfræðinga og ábyrgðar atvinnurekenda á tjóni sem starfsmenn þeirra valda starfi. Þá sé, eftir sem við á, vísað til laga nr. 18/1997, um endurskoðendur sbr. nú lög nr. 79/2008, einkum 6., 7. og 10. gr. fyrrnefndu laganna og til hliðsjónar einkum 3 , 6., 8. 19. og 27. gr. síðarnefndu laganna.
Um vaxtakröfur sínar vísar stefnandi til 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Byggt er á því að starfsmaður stefnda Dagur Eiríksson, sem gegndi störfum fjármálastjóra Arnarfells ehf. frá 9. júlí til 31. október 2007, hafi haft prókúru frá stjórn félagsins. Reikninga á félagið á þessu tímabili hafi ekki mátt greiða nema með samþykki Dags. Þetta hafi að sjálfsögðu ekki falið í sér að hann mætti greiða alla reikninga og kröfur sem beint var að félaginu á greindu tímabili eða gera upp kröfur sem voru umdeildar eða óljósar eða ekki fallnar í gjalddaga. Þá hafi Dagur augljóslega ekki getað skrifað upp á reikninga fyrr en þeir höfðu verið útgefnir en án hans uppáskriftar hafi gjaldkeri ekki mátt greiða þá eins og að framan sé lýst.
Reikningur nr. 31 fyrir staðarstjórn hafi í sjálfu sér ekki verið umdeildur en hann hafi ekki verið útgefinn fyrr en 1. nóvember 2007 en þá hafi prókúra fjármálastjórans verið útrunnin og hann hættur störfum hjá félaginu. Það gefi sig sjálft að ekki hafi verið hægt að greiða reikninginn áður en hann var gefinn út. Hann hafi ekki verið gefinn út fyrr en fjármálastjórinn hafði hætt störfum. Það hafi því verið á ábyrgð stefnanda að gefa reikninginn út og á ábyrgð gjaldkera Arnarfells ehf. og þar með félagsins að greiða hann.
Reikningar nr. 34 og 35 hafi verið umdeildir, en vegna þess að þeir voru ekki gefnir út fyrr en eftir að fjármálastjórinn hætti störfum hafi hann hvorki getað samþykkt þá né afhent gjaldkera til greiðslu. Allt sem gerðist eða gerðist ekki í Arnarfelli eftir að fjármálastjórinn lét þar af störfum sé á ábyrgð stjórnar félagsins og þess manns sem tók við prókúru í félaginu frá og með 1. nóvember 2007 og gjaldkera félagsins. Kröfum samkvæmt þessum þremur reikningum nr. 31, 34, og 35 sé þannig ranglega beint að stefnda sem eigi enga aðild að þeim og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann. Um reikning nr. 30 vilji stefndi taka fram eftirfarandi. Fjármálastjórinn varð í starfi sínu að vera í stöðugu sambandi við stjórn Arnarfells og þá aðila sem höfðu komið að samningum félagsins við verktaka þess, þeirra á meðal lögmann félagsins. Lögmaður félagsins hafði tjáð fjármálastjóranum það munnlega í ágúst 2007 að ágreiningur væri milli stefnanda og Arnarfells um þann lið í samkomulagi þeirra sem fjallaði um aukagreiðslur. Stefnandi byggi kröfur sínar um aukagreiðslur á samkomulagi við stjórn Arnarfells ehf. Fjármálastjóri félagsins hafi því hlotið að leita til stjórnar félagsins og lögmanns þess sem hafði komið að nefndu samkomulagi þegar stefnandi kom fram með tugmilljónakröfur byggðar á því. Eins og lýst hafi verið hér að framan hafi stjórn Arnarfells hafnað með skriflegum hætti kröfum stefnanda um aukagreiðslur þann 17. október 2007, auk þess sem lögmaður félagsins gerði fyrirvara um gagnkröfur vegna skaðabóta er stefnandi bæri ábyrgð á. Fjármálastjórinn, Dagur Eiríksson, sem starfaði í umboði stjórnar félagsins hafi því ekki getað samþykkt þessar aukakröfur til greiðslu. Með því hefði hann farið út fyrir umboð sitt og skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart félaginu og öðrum kröfuhöfum þess. Þá sé þess einnig að geta að samkvæmt nefndu samkomulagi skyldi heildarfjárhæð til grundvallar hugsanlegum aukagreiðslum reiknuð við starfslok stefnanda en þau hafi verið 1. nóvember 2007, sbr. það sem fram kemur í stefnu bls. 2 neðst. Útreikningar hans til grundvallar hugsanlegum aukagreiðslum hafi því verið ótímabærir, einhliða og án fullnægjandi forsenda. Þá vilji stefndi benda á að jafnvel þótt reikna hefði mátt út hugsanlegar aukagreiðslur og gefa út reikninga, sem stefndi mótmæli, þá hafi gjalddagi þeirra samkvæmt samkomulaginu í fyrsta lagi verið 30 eða 60 dögum eftir að reikningur skyldi liggja fyrir eða í öllu falli eftir að fjármálastjórinn lét af störfum hjá Arnarfelli.
Stefndi haldi því aðallega fram varðandi kröfur samkvæmt reikningum nr. 31. til 35. að þeim sé beint til rangs aðila þar eð starfsmaður hans hafi verið hættur störfum þegar þeir voru gefnir út. Varðandi reikning nr. 30, og að sínu leyti reikninga nr. 34 og 35 til vara, haldi stefndi því fram að stjórn Arnarfells hafi hafnað kröfum samkvæmt þessum reikningum og honum því verið óheimilt að samþykkja þá til greiðslu, auk þess sem kröfur stefnanda hafi verið ótímabærar og ógjaldfallnar á þeim tíma sem starfsmaður stefnda starfaði hjá Arnarfelli.
Með vísan til framangreinds krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Komist dómurinn mót sannfæringu stefnda að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á framangreindum grundvelli viji stefndi koma eftirfarandi að. Stefndi hafi tekið að sér fjármálastjórn hjá Arnarfelli ehf. samkvæmt sérstökum verksamningi um þjónustu og komið í því verki fram sem verktaki en félagið verið í hlutverki verkkaupa. Skilmálar verkefnisins gagnvart verkkaupa hafi verið á þann veg að verkið hafi eingöngu verið unnið fyrir verkkaupa og beri stefndi því ekki ábyrgð á tjóni eða kostnaði sem kunni að stafa af ákvörðunum sem þriðji aðili kunni að hafa tekið á grundvelli þess. Þriðji aðili, þ.e. í þessu tilfelli stefnandi, geti ekki byggt rétt sinn á samningi milli stefnda og Arnarfells eða gögnum sem stefndi kunni að hafa unnið fyrir Arnarfell, t.d. greiðsluáætlunum sem stefnandi vísar til. Stefndi geti því ekki borið ábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Stefndi geti heldur ekki borið ábyrgð á yfirsjónum stefnanda eða starfsmanns hans, sbr. athugasemdir stjórnar Arnarfells og lögmanns stjórnar Arnarfells.
Stefnandi haldi því fram að stefndi beri skaðabótaábyrgð á háttsemi sinni sem verktaki um fjármálastjórn Arnarfells, viðsemjanda stefnanda, samkvæmt „lögfestum og ólögfestum reglum íslensks réttar um sérfræðiábyrgð“, eins og það er orðað í stefnunni. Vísi stefnandi til þess að stefndi sé endurskoðunarskrifstofa skv. lögum um endurskoðendur þar sem sakarmat um störf endurskoðenda sé strangt. Á þeim tíma sem stefndi vann fyrir Arnarfell hafi verið í gildi lög nr. 18/1997 um endurskoðendur og vísi stefnandi sérstaklega til 7. gr. þeirra laga. Samkvæmt 1. mgr. 7. greinar er gerður greinarmunur á störfum endurskoðenda sem felast í endurskoðun reikningsskila og annarra fjárhagsupplýsinga annars vegar og ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða hins vegar. Mikill munur sé á ábyrgð endurskoðanda eftir því undir hvorn flokkinn störf hans falla í einstökum tilfellum. Hið stranga sakarmat um störf endurskoðenda sem sérfræðinga nái eingöngu til starfa í fyrri flokknum, þ.e. endurskoðunarstarfa í þrengri merkingu, og í þeim tilfellum eingöngu komi til álita að þriðji aðili geti byggt rétt sinn á þeim yfirlýsingum sem endurskoðandinn undirritar. Stefndi haldi því fram að þetta stranga sakarmat eigi ekki við um þau störf sem hann vann eða á hans vegum voru unnin fyrir Arnarfell ehf. á tímabilinu 1. júlí til 31. október 2007.
Stefndi haldi því fram að hann og starfsmaður hans hafi í einu og öllu farið að lögum í störfum sínum fyrir Arnarfell ehf. og ekki á nokkurn hátt í athöfnum sínum eða athafnaleysi brotið á stefnda eða valdið honum með beinum eða óbeinum hætti nokkru tjóni. Þá verði ekki séð að nokkurt samband sé milli athafna eða athafnaleysis stefnda og því tjóni sem stefnandi tjáist hafa orðið fyrir.
Þá sé fjárhæð aðaltjónkröfu stefnanda mótmælt sem órökstuddri og því enn fremur mótmælt að tjón þetta liggi sannanlega fyrir með áritun dómara á stefnu. Sú áritun geti á engan hátt talist bindandi fyrir stefnanda sem aðeins var stefnt sem réttargæsluaðila í því máli.
Þá sé því mótmælt að forsenda stefnanda fyrir ráðningu hans sem staðarstjóra hafi verið að stefndi hafði tekið að sér fjármálastjórnunarverkefni fyrir Arnarfell. Þessi staðhæfing styðjist engan vegin við gögn málsins. Þá hafi stefnanda verið ljóst vegna starfa sinna fyrir Arnarfell að greiðsluáætlanir Arnarfells voru í stöðugri endurskoðun eftir því sem á verkið leið og að verkið, m.a. fyrir hans tilstilli, varð miklu kostnaðarsamara en áætlað hafði verið upphaflega. Þá mótmæli stefndi því að verktökum hafi verið mismunað varðandi greiðslur. Þá telji stefndi það óviðkomandi stefnanda hvort peningar voru til fyrir greiðslu reikninga hans í þeim tilfellum sem kröfum hans hafði verið hafnað af stjórn Arnarfells, eins og tilfellið var með kröfur um aukagreiðslur sem fjallað hefur verið um hér að framan.
Varðandi varakröfuna minnist stefndi þess ekki að hafa hafnað kröfu um greiðslu fyrir staðarstjórn í október 2007, en bendi ítrekað á að sá reikningur hafi ekki getað komið til greiðslu í fjármálastjórnartíð hans vegna þess að stefnandi gaf hann ekki út fyrr en 1. nóvember 2007, eða eftir að störfum hans fyrir Arnarfell lauk.
Þá sé kröfu stefnanda um dráttavexti mótmælt og því hafnað að reikna beri hana frá þeim degi er stefnandi tilgreinir í stefnu.
Stefndi krefjist sýknu af bæði aðalkröfu og varakröfu stefnanda.
Stefndi krefjist málskostnaðar og vilji í því sambandi benda á að hann telji málshöfðun stefnanda tilefnislausa og að stefnandi hafi uppi staðhæfingar sem honum sé ljóst að eru rangar og haldlausar, sbr. 1. mgr. 131. gr. eml. Af því tilefni áskilji stefndi sér kröfu um álag á málskostnað.
Krafa stefnda styðst við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, reglur samninga- og kröfuréttar, l. nr. 18/1997 um endurskoðendur og almennar reglur skaðabótaréttar.
Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI: kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Ágreiningur aðila er einkum þessi:
Stefnandi, sem starfaði sem staðarstjóri Arnarfells ehf. við framkvæmdasvæði Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunnar frá 1. júlí til 1. nóvember 2007, heldur því fram að stefndi beri sem endurskoðandi og sérfræðingur skaðabótaábyrgð vegna starfa sinna að fjármálastjórn fyrir Arnarfell ehf. frá 1. júlí til 31. október 2007. Telur stefnandi einkum að það hafi verið forsendan fyrir því að hann tók að sér staðarstjórn að stefndi tæki að sér fjármálastjórn og telur að stefndi hafi mismunað sér í greiðslum miðað við aðra verktaka og ekki fylgt greiðsluáætlunum sem hann telur að hafi verið forsenda ráðningar hans. Hafi stefnandi því orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni af völdum stefnda.
Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að kröfum stefnanda sé ekki beint að réttum aðila og beri því að sýkna hann þegar af þeim ástæðum. Stefndi heldur því enn fremur fram að engin mismunun hafi átt sér stað gagnvart stefnanda og sé ástæða þess að stefnandi fékk ekki greiddar sínar kröfur að þeim hafi verið hafnað af stjórn Arnarfells, þær hafi ekki verið gjaldfallnar og eða reikningar vegna þeirra ekki legið fyrir fyrr en eftir að stefndi lét af fjármálstjórn fyrir Arnarfell. Þá hafnar stefndi því að skaðabótaábyrgð hans verði metin út frá reglum um sérfræðiábyrgð endurskoðenda enda hafi verksamningur hans verið þjónustusamningur við Arnarfell ehf. og geti stefnandi ekki byggt rétt á honum sem þriðji aðili.
Við úrlausn máls þessa verður að miða við að fjármálastjórn stefnda fyrir Arnarfell ehf. lauk þann 31. október 2007. Eftir þann dag starfaði fjármálastjóri á vegum stefnda, Dagur Eiríksson, eigi lengur fyrir Arnarfell hf. sem fjármálastjóri og var prókúruumboð hans jafnframt fallið niður. Eftir 31. október hafði hann því hvorki heimild til að samþykkja reikninga frá stefnanda né að mæla fyrir um greiðslu slíkra reikninga.
Af hálfu stefnanda er byggt á því sem meginmálsástæðu að það hafi verið forsenda hans fyrir því að taka að sér staðarstjórn til viðbótar starfi byggingarstjóra að stefndi hafi tekið að sér fjármálastjórnina. Gegn mótmælum stefnda og í ljósi þess að málsástæða þessi á sér ekki stuðning í gögnum málsins þykir ekki unnt að byggja niðurstöðu málsins á henni.
Reikningur stefnanda vegna staðarstjórnar fyrir októbermánuð 2007, að fjárhæð 3.300.000 krónur auk virðisaukaskatts, hefur ekki sætt ágreiningi, en hann var ekki gefinn út fyrr en 1. nóvember 2007 og var með gjalddaga 5. nóvember 2007. Fjármálastjórn stefnda var þá lokið og hafði fráfarandi fjármálastjóri hvorki heimild til að samþykkja reikninginn né afhenda gjaldkera Arnarfells ehf. reikninginn til greiðslu.
Reikningur stefnanda vegna árangursgreiðslu fyrir október 2007, að fjárhæð 2.116.213 krónur auk virðisaukaskatts, var gefinn út 5. nóvember 2007 og tekið fram að gjalddagi væri 5. nóvember 2007 en eindagi 10 dögum síðar eða 15. nóvember 2007. Fjármálastjórn stefnda var þá lokið og hafði fráfarandi fjármálastjóri hvorki heimild til að samþykkja reikninginn né afhenda gjaldkera Arnarfells ehf. reikninginn til greiðslu.
Reikningur stefnanda vegna árangurstengdra greiðslna fyrir tímabilið júlí til október 2007, að fjárhæð 15.957.493 krónur auk virðisaukaskatts, var gefinn út 12. október 2007 og tekið fram að gjalddagi væri 15. október 2007. Fram kemur í gögnum málsins að ágreiningur var milli stjórnar Arnarfells ehf. og stefnanda um þennan reikning stefnanda og var fjármálastjóra tilkynnt um þann ágreining. Þennan reikning byggir stefnandi á samkomulagi sínu við Arnarfell ehf. um aukagreiðslur. Af hálfu stefnda er á því byggt að fjármálastjórinn hafi hlotið að leita til stjórnar Arnarfells ehf. og lögmanns félagsins, sem komið hafði að samkomulaginu, þegar stefnandi kom fram með kröfur ym tugmilljónir byggðar á samkomulaginu. Samkvæmt gögnum hafnaði stjórn Arnarfells ehf. kröfum stefnanda um aukagreiðslur með bréfi dagsettu 17. október 2007 auk þess sem lögmaður Arnarfells ehf. gerði fyrirvara um gagnkröfur vegna skaðabótakröfu áhendur stefnanda. Við þessar aðstæður neitaði fjármálastjórinn Dagur að samþykkja aukakröfur samkvæmt þessum reikningi til greiðslu. Með hliðsjón af stöðu málsins ber að fallast á þau sjónarmið stefnda að með því að samþykkja reikninginn til greiðslu í andstöðu við vilja stjórnar félagsins kynni fjármálastjórinn að hafa farið út fyrir umboð sitt og með því bakað sér og stefnda skaðabótaskyldu gagnvart félaginu og öðrum kröfuhöfum félagsins. Þá ber einnig til þess að líta varðandi þennan kröfulið að samkvæmt samkomulagi stefnanda og Arnarfells skyldi heildarfjárhæð til grundvallar hugsanlegum aukagreiðslum reiknuð við starfslok stefnanda sem voru 1. nóvember 2007 og gjalddagi vera 30 dögum síðar.
Samkvæmt framansögðu verður kröfu vegna fyrrnefndu reikninganna tveggja, sem gefnir voru út í nóvember 2007 ekki beint til stefnda þar sem starfsmaður stefnda hjá Arnarfelli hf., fjármálastjórinn Dagur Eiríksson, hafði þá látið af störfum. Þá verður kröfu vegna síðst nefnds reikningsins ekki beint gegn stefnda þar sem stjórn Arnarfells hf. hafði hafnað þeim reikningi og stefnda hefði því verið óheimilt að samþykkja þann reikning til greiðslu auk þess sem krafan var ógjaldfallin á þeim tíma sem starfsmaður stefnda starfaði hjá Arnarfelli ehf.
Af hálfu stefnanda er einnig byggt á því að gera beri ríkar kröfur til stefnda um aðgæsluskyldu í fjármálastjórninni, enda hafi fjármálastjórn verið tekin úr höndum forráðamanna Arnarfells ehf. og falin stefnda sem óháðum sérfræðiaðila er búi yfir þekkingu á fjármálastjórn, endurskoðun og lögfræðilegum þáttum. Hafi stefnda því borið rík skylda til þess að fylgja greiðsluáætlunum eftir gagnvart verktökum og gæta þess sérstaklega að mismuna þeim ekki við greiðslur.
Í þessu sambandi ber til þess að líta að stefndi tók að sér fjármálastjórn hjá Arnarfelli ehf. sem verktaki samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við Arnarfell ehf. sem verkkaupa. Hið umsamda verk var því unnið fyrir verkkaupann Arnarfell ehf. Er fallist á þau sjónarmið stefnda að stefnandi geti ekki sem þriðji maður byggt rétt sinn á samningi milli stefnda og Arnarfells ehf. eða á gögnum sem stefndi vann fyrir Arnarfell ehf., t.d. greiðsluáætlunum. Þá er ekki fallist á þær málsástæður stefnanda að stefndi hafi bakað sér skaðabótaábyrgð á grundvelli sérfræðiábyrgðar og strangs sakarmats um störf endurskoðanda. Ber í þessu sambandi að líta til þess að störf stefnda fyrir Arnarfell ehf. fólust ekki í endurskoðun reikningsskila og öðrum fjárhagsupplýsingum, heldur í ráðgjöf og þjónustu samkvæmt verktakasamningi. Á því hið stranga sakarmat samkvæmt lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, er voru í gildi er störf stefnda voru innt af hendi, ekki við um störf hans. Verða kröfur stefnanda því ekki heldur teknar til greina af þessum ástæðum. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi mismunað kröfuhöfum og með því bakað sér skaðabótaskyldu.
Samkvæmt því sem hér að framan er rakið er ekki fallist á að stefndi hafi með ólögmætum hætti komið í veg fyrir að stefnandi fengi greiðslur fyrir verk sem hann vann fyrir Arnarfell ehf. samkvæmt samningi á tímabilinu frá júlí til október 2007 og þar með bakað sér skaðabótaskyldu eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 300.000 krónur
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Stefndi, Deloitte hf., er sýkn af kröfum stefnanda, GRR- ráðgjafar ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.