Hæstiréttur íslands
Mál nr. 557/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 29. september 2010. |
|
|
Nr. 557/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jónsdóttir fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaess 27. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. október 2010 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um tilhögun gæsluvarðhalds verði felld úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. október 2010, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er hann kom til landsins með flugi nr. FI-451 frá London sunnudaginn 26. september sl., vegna gruns um innflutning fíkniefna. Kærði hafi verið tekinn til skoðunar hjá tollgæslu og fíkniefni fundist á honum, um 5 g af kannabisefni. Hafi kærði verið færður í röntgenskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og við röntgenskoðun hafi hann reynst vera með tvo aðskotahluti innvortis. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærða hingað til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða. Telur lögreglustjóri að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus auk þess sem rannsóknarhagsmunir geti spillst þar sem kærði hafi ekki losað sig við innvortis aðskotahluti sem lögregla telur rökstuddan grun á að séu fíkniefni.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum, sbr. a-, c-, d-, e- og f-liði 1. mgr. sömu greinar.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. október 2010 kl. 16.00.
Eins og rakið hefur verið var kærði handtekinn í gær vegna rökstudds gruns um að vera með fíkniefni og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða haft áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. október 2010, kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.