Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
|
|
Mánudaginn 28. apríl 2003. |
|
Nr. 130/2003. |
Lífeyrissjóður verzlunarmanna(Jón Gunnar Zoëga hrl.) gegn Lykilhótelum hf. (Ólafur Gústafsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu L um að felld yrðu úr gildi tvö fjárnám, sem gerð höfðu verið hjá honum fyrir kröfum LV. Var fallist á með héraðsdómara að ekki yrði séð að sýslumaður hafi við framkvæmd fjárnámanna, haft undir höndum nægar upplýsingar um nánar tilgreinda fasteign og veðskuldir, sem á henni hvíldu, til að leggja á raunhæfan hátt mat samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1989 á það hvort eignin gæti nægt til fullnustu kröfum LV. Samkvæmt því var hinn kærði úrskurður staðfestur og fjárnámin felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að felld yrðu úr gildi tvö fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 28. október 2002 fyrir kröfum sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám þessi verði staðfest og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Með vísan til þess, sem greinir í forsendum hins kærða úrskurðar, verður að fallast á með héraðsdómara að ekki verði séð að sýslumaður hafi við framkvæmd fjárnámanna, sem málið varðar, haft undir höndum nægar upplýsingar um fasteignina Breiðumörk 1c í Hveragerði og veðskuldir, sem á henni hvíldu, til að leggja á raunhæfan hátt mat samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1989 á það hvort eignin gæti nægt til fullnustu kröfum sóknaraðila. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, greiði varnaraðila, Lykilhótelum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003.
Máli þessu var skotið til héraðsdóms með bréfi 15. nóvember 2002, er barst dóminum 11. desember. Sóknaraðili er Lykilhótel hf., kt. 590169-6339, Breiðumörk 1c, Hveragerði. Varnaraðili er Lífeyrissjóður verslunarmanna, kt. 430269-4459. Málið var tekið til úrskurðar 3. mars sl.
Sóknaraðili krefst þess að tvær fjárnámsgerðir, mál nr. 011-2001-21128 og 011-2002-07865, sem fram fóru á hendur honum að kröfu varnaraðila hjá sýslumanninum í Reykjavík 28. október 2002 verði ógiltar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að fjárnámsgerðirnar verði staðfestar. Þá krefst hann málskostnaðar.
Umræddar fjárnámsgerðir fóru fram að Suðurlandsbraut 4a í Reykjavík. Fyrir varnaraðila var mættur lögmaður og bókað er að á skráðri starfsstöð sóknaraðila hittist fyrir Valdimar Jónsson, stjórnarmaður. Krafist var fjárnáms fyrir kröfum að fjárhæð 3.231.805 krónur og 1.764.819 krónur, sem eru nánar sundurliðaðar í endurritum gerðanna. Um framkvæmd gerðanna er svohljóðandi bókun (samhljóða í þeim báðum):
“...Bent er á af hálfu fulltrúa gerðarþola á Breiðumörk 1c Hveragerði til tryggingar. Fulltrúi gerðarbeiðanda mótmælir því þar sem hann telur eignina ekki duga fyrir kröfum og sýnir þinglýsingarvottorð þar sem hann telur nafnverð áhvílandi skulda vera um kr. 640 milljónir. Fulltrúi gerðarþola telur eignina vera virði kr. 700 milljóna að lágmarki. Fulltrúi sýslumanns telur verðmæti vera að hámarki kr. 500 milljónir og því ljóst að eignin dugi ekki sem trygging. Fasteignamat eignarinnar er ca. kr. 348 milljónir og brunmat ca. kr. 750 milljónir. Aðspurður kvaðst fulltrúi gerðarþola engar aðrar eignir vilja benda á til tryggingar framangreindum kröfum, en honum er leiðbeint um í hverjum réttindum og eignum fjárnám verði gert og inntur svara sérstaklega um hvort honum tilheyri eitthvað slíkt, sem hann kveður ekki vera...”
Sóknaraðili bendir á að fjárnámsgerðirnar hafi farið fram á starfsstöð sinni, en ekki á lögheimili, en það sé í Hveragerði. Við gerðina hafi orðið ágreiningur með aðilum um verðmæti eignarinnar sem bent var á, Breiðumörk 1c, Hveragerði. Bendir sóknaraðili á að ekki sé bókað að óskað sé mats á eigninni. Þrátt fyrir það og þá staðreynd að eignin sé í öðru lögsagnarumdæmi hafi fulltrúi sýslumanns metið eignina. Þá hafi ekki legið frammi upplýsingar um rétta stöðu áhvílandi lána, en staða þeirra sé mun lægri en upphafleg fjárhæð sem skráð sé í þinglýsingabækur. Sóknaraðili segir að fulltrúi sýslumanns hafi ekki verið hæfur né búið yfir nægri þekkingu til að meta eignina. Þá séu engar forsendur fyrir matinu tilgreindar.
Sóknaraðili segir að fulltrúi sinn við gerðina hafi ekki viljað benda á aðrar eignir til fjárnáms þar sem hann hafi talið umrædda eign vera næga tryggingu. Bendir sóknaraðili á að hann sé eigandi að fleiri eignum. Hafi þær ekki verið metnar og engar upplýsingar hafi legið frammi um skuldir er hvíla á þeim. Þetta leiði og til þess að ógilda beri fjárnámið þar sem það gefi ekki rétta mynd af fjárhag sínum.
Varnaraðili mótmælir því að skylt hafi verið að beina fjárnámsbeiðni til sýslumanns í því umdæmi þar sem sóknaraðili á lögheimili. Segir hann það hafa komið í ljós á liðnum misserum að sóknaraðili hafi ekki sinnt boðunum til að mæta til fjárnáms og því hafi verið brugðið á það ráð að hefja gerðina á starfsstöð hans í Reykjavík.
Varnaraðili segir að við gerðirnar hafi verið bent á fasteignina Breiðumörk 1c í Hveragerði. Lagt hafi verið fram þinglýsingarvottorð sem sýni að samanlagður höfuðstóll lána sem hvíli á eigninni hafi numið 639 milljónum króna. Fasteignamatsverð eignarinnar sé hins vegar 348.243.000 krónur. Sýslumaður hafi metið eignina á ekki hærri fjárhæð en 500 milljónir króna. Það sé í samræmi við meginregluna í 2. mgr. 38. gr. laga nr. 90/1989 að sýslumaður meti sjálfur.
Varnaraðili bendir á að sýslumaðurinn á Selfossi hafi metið þessa sömu fasteign 4. nóvember 2002. Hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að eignin væri að verðmæti 494.433.000 krónur, en að áhvílandi veðskuldir næmu 499.981.175 krónum. Eftir að þetta mat lá fyrir hafi forsvarsmenn sóknaraðila ekki mætt til fjárnámsgerða á Selfossi. Telur varnaraðili að þetta mat sýslumannsins á Selfossi styðji það mat sem til umfjöllunar sé í þessu máli.
Varnaraðili telur að vegna ákvæðis 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989 hafi hann ekki þurft að hlíta ábendingu á eign sem hafi óvisst verðgildi eða örðugt sé að selja.
Þá segir varnaraðili að við gerðirnar hafi talsmaður sóknaraðila ekki bent á aðrar eignir. Því hafi aðrar eignir ekki komið til skoðunar.
Loks segir varnaraðili að þó að sóknaraðili greiði síðar af áhvílandi lánum leiði það ekki til þess að fjárnámið sé ógilt.
Niðurstaða.
Með dómum Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 90/1989, fyrst H 1994-2412, hefur verið mörkuð sú stefna að dómstólar skuli fjalla um gildi fjárnámsgerða, þó að þeim ljúki án árangurs. Hins vegar verður ekki í kærumáli samkvæmt lögum nr. 90/1989 leyst úr því hvort árangurslaus fjárnámsgerð gefi rétta mynd af fjárhag skuldara. Ekki verður leyst úr öðru en því hvort gerðin hafi með réttu farið fram og hvort réttra aðferða hafi verið gætt við gerðina. Kæmi eftir atvikum til skoðunar við kröfu um gjaldþrotaskipti hvort árangurslaus gerð gefi rétta mynd af fjárhag, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.
Ekki er ágreiningur um að fullgild aðfararheimild var til staðar. Þá var hér heimilt að hefja gerðina í Reykjavík, enda segir sóknaraðili að starfsstöð sín sé í Reykjavík.
Við gerðina var mætt af hálfu sóknaraðila og bent á tiltekna fasteign í Hveragerði. Þar sem aðilar óskuðu ekki eftir því að sérstakur matsmaður yrði tilkvaddur var fulltrúa sýslumanns rétt að meta eignina með það fyrir augum að ákvarða hvort ætla mætti að fullnusta fengist fyrir kröfum varnaraðila af söluandvirði eignarinnar. Upplýsingar koma fram í bókun af gerðinni um fasteignamat og brunabótamat eignarinnar. Ekki er ljóst hvaðan þær upplýsingar fengust. Þá er bókað að fulltrúi gerðarbeiðanda sýni þinlýsingarvottorð " þar sem hann telur nafnverð áhvílandi skulda vera um kr. 640 milljónir."
Þessi aðferð sýslumanns við mat á því hvert verð mætti fá fyrir eignina á uppboði og hverjar skuldir hvíldu á eigninni er hafa myndu forgang, var með öllu ófullnægjandi. Bókun ber ekki með sér að fyrir liggi upplýsingar um stærð eða gerð eignarinnar eða almennt ástand hennar, eða önnur þau atriði sem kaupendur slíkra eigna vilja vita og hafa áhrif á söluverð. Þá er þess að gæta að þinglýsingarvottorð gefur ekki upplýsingar um annað en hvaða veðkröfur hvíli á eign og hver upphafleg fjárhæð þeirra hafi verið, en er ótraust heimild um hversu há hver krafa sé á þeim tíma er vottorðið er ritað. Dugar slíkt vottorð ekki sem heimild um áhvílandi skuldir er meta skal hvort næg trygging sé í tiltekinni eign.
Niðurstaða sem komist hefur verið að við aðrar aðfarargerðir skiptir ekki máli þegar metið er hvort rétt hefur verið að verki staðið við þær aðfarargerðir sem til umfjöllunar eru í þessu máli.
Tilvísun varnaraðila til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989 á ekki við, en þar er einungis veitt heimild til þess að gerðarbeiðandi við fjárnám velji milli eigna sem mögulegt er að gert verði fjárnám, en honum ekki gefið val um að gerð verði lokið sem árangurslausri.
Þegar þetta er virt er niðurstaðan sú að óheimilt hafi verið að ljúka umræddri gerð sem árangurslausri, þar sem ekki hafi verið fram komið nægilega að eign sú sem bent var á dygði ekki til lúkningar kröfunni. Ber því að fella fjárnámsgerðina úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila 70.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Framangreindar aðfarargerðir nr. 011-2001-21128 og 011-2002-07865 eru felldar úr gildi.
Varnaraðili, Lífeyrissjóður verslunarmanna, greiði sóknaraðila, Lykilhótelum hf., 70.000 krónur í málskostnað.