Hæstiréttur íslands

Mál nr. 468/2016

A (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Gjafsókn

Reifun

A krafðist bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu B sf., sem félagið hafði tekið hjá VÍ hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann klemmdi vinstri handlegg á milli ljósavélar og áfasts ljósamasturs, en A var að fella mastrið niður er slysið varð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A og C, sem var eina vitnið að slysinu, bæri ekki saman um hvort A hefði einvörðungu verið falið að slökkva á ljósum mastursins eða hvort honum hefði líka verið falið að fella mastrið. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá því að veigamiklar breytingar hefðu orðið á framburði A eftir því sem málinu vatt fram og yrði því að leggja framburð C til grundvallar. Væri samkvæmt því ósannað að A hafi verið beðinn um annað en að slökkva ljós mastursins, sem hefði verið einfalt verk sem ekki hefði þurft að leiðbeina honum með. Hefði A sjálfur tekið ákvörðun um að reyna að fella mastrið án þess að séð yrði að á því hefði verið þörf, en samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins mátti rekja orsakir slyssins til sterks vindar og þess að A hefði togað mastrið til sín þegar það féll ekki sjálfkrafa niður. Þá var ekki talið að A hefði sýnt fram á að af hálfu B sf. hefði verið brotið gegn nánar greindum ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum með þeim hætti að saknæmt gæti talist. Var dómur héraðsdóms um sýknu VÍ hf. því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2016. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 10.548.875 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.780.986 krónum frá 18. nóvember 2010 til 18. nóvember 2011, en af 10.548.875 krónum frá þeim degi til 18. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.857.861 krónu með 4,5% ársvöxtum af 1.780.986 krónum frá 18. nóvember 2010 til 18. nóvember 2011, en af 6.857.861 krónu frá þeim degi til 18. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum komi til frádráttar innborgun 6. júní 2012 að fjárhæð 1.605.924 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að ágreiningi um skaðabótaskyldu B sf. vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir 18. nóvember 2010 á vinnusvæði félagsins undir […]. B sf. var tryggt frjálsri ábyrgðartryggingu hjá stefnda og byggir áfrýjandi aðild stefnda að málinu á 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Áfrýjandi var á slysdegi 22 ára gamall og hafði lokið svokölluðu meiraprófi á rútu, vörubíl og leigubíl. Hann var ráðinn til B sf. sem bílstjóri en sinnti einnig öðrum tilfallandi störfum. Hann hafði starfað hjá félaginu í um fimm mánuði er slysið varð. Slysið, sem varð um klukkan hálfellefu að morgni, var tilkynnt samdægurs til Vinnueftirlits ríkisins. Í skýrslu Vinnueftirlitsins 23. nóvember 2010 er því lýst að áfrýjandi hafi verið að fella niður svokallað ljósamastur á ljósavél er slysið varð. Verður ráðið af skýrslunni að um sé að ræða þriggja þrepa mastur sem reist er upp og fellt niður með stálvírum sem stjórnað er með spili. Eftir að búið er að koma mastrinu fyrir í lóðréttri stöðu er hægt að draga það út og hækka eftir þörfum í allt að 8 metra hæð sem er hámarkshæð mastursins, mælt frá toppi ljósavélarinnar. Þegar búið er að draga ljósamastrið aftur saman í lægstu stöðu, eða sem nemur 2,9 metrum frá toppi ljósavélarinnar, er svo hægt að fella það niður í lárétta stöðu í þar til gerðar festingar ofan á ljósavélinni.

Samkvæmt ljósmyndum er fylgdu skýrslu Vinnueftirlitsins er ljósamastrinu stjórnað frá stjórnborði undir hlíf efst á hlið ljósavélarinnar. Á stjórnborðinu er stjórnrofi með örvum sem vísa upp og niður eftir því hvort hækka á eða lækka ljósamastrið. Rofinn er haldrofi, sem rýfur straum tækisins þegar honum er sleppt. Auk þessa stjórnrofa eru á stjórnborðinu fjórir rofar við myndir af ljósum, merktir 1, 2, 3 og 4 og aðalrofi fyrir straum, kveikjulás með lykli og útsláttarrofar undir plasthlíf.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að talsverður vindur hafi verið þegar áfrýjandi var að fella mastrið og þegar það hafi átt að síga í lárétta stöðu hafi vindurinn haldið á móti, þannig að það hafi ekki sigið. Hafi þá áfrýjandi tekið utan um mastrið og ætlað að toga það niður. Nokkur slaki hafi þá verið kominn á vírinn, sem reisir og fellir mastrið, þannig að það féll niður. Áfrýjandi hafi þá klemmt vinstri handlegg milli mastursins og ljósavélarinnar, með þeim afleiðingum að vinstri upphandleggur og þumalfingur hægri handar hans brotnaði. Að mati Vinnueftirlitsins var orsök slyssins að rekja til þess að mastrið fór ekki í lárétta stöðu vegna mikils vindhraða og að spil hafi ekki verið stöðvað og slaki tekinn af vírnum þegar ljóst var að mastrið færi ekki lárétta stöðu.

Samkvæmt matsgerð D bæklunarskurðlæknis og E hæstaréttarlögmanns, sem aðilar munu hafa sammælst um að afla, var varanleg örorka áfrýjanda vegna afleiðinga slyssins metin 10% og varanlegur miski 10 stig.

Lögregla fór á vettvang sama dag og slysið varð. Í skýrslu lögreglu 22. nóvember 2010 kemur fram að rætt hafi verið við C, samstarfsmann áfrýjanda, en hann var sá eini sem varð vitni að slysinu. Lýsti hann atvikum svo fyrir lögreglu að áfrýjandi hafi verið að slaka niður ljósamastrinu, en vegna vindstyrksins og vindáttarinnar hafi mastrið ekki hallast niður á kerruna sem það standi á, heldur hafi vindurinn haldið því uppi. Hafi áfrýjandi þá reynt að toga mastrið niður. Spilvírinn hafi þá verið orðinn slakur, þannig að við það að áfrýjandi hafi togað í mastrið hafi það fallið niður og á hönd áfrýjanda.

Lögregla ræddi símleiðis við áfrýjanda 21. nóvember 2010. Sagði hann tildrög slyssins hafa verið þau að hann hafi verið að vinna við að taka ljósamastrið saman og að töluverður vindur hafi verið. Þegar hann hafi ætlað að halla því niður á kerruna hafi mastrið ekki hreyfst. Hann hafi því þurft að ýta því niður og það allt í einu fallið niður á hendur hans. Hann kvaðst áður hafa tekið saman ljósamastrið og verið kennd vinnubrögð við það. Í stefnu er atvikum einnig lýst á þann hátt að áfrýjandi hafi togað í mastrið, en það þá fallið niður.

II

Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi því að fyrrgreindur C hafi umræddan dag beðið sig að ,,slökkva og setja niður mastrið“. Honum hafi ekki verið kunnugt um hvaða rofa á stjórnborðinu skyldi nota, annars vegar til að slökkva á ljósamastrinu og hins vegar til þess að fella það niður. Hann kvaðst aldrei hafa gert þetta sjálfur og ekki fengið leiðbeiningar um hvernig skyldi vinna verkið. Einnig kvaðst hann ekki í umrætt sinn hafa komið við mastrið, ,,bara takkaborðið“. Þá sagði hann mastrið alltaf hafa verið tekið niður í lok dags. Spurður um hvort hann hafi vitað til þess að í veðri eins og var þennan dag hafi mastrið verið fellt niður fyrir lok vinnudags svaraði hann: ,,Bara nei, það var nú ekki búið að vera mikið vont veður þarna“.

Framburður vitna fyrir héraðsdómi var ekki samhljóða um hvort það hafi heyrt undir verksvið allra starfsmanna B sf. á vinnusvæðinu, eða einungis ákveðinna starfsmanna félagsins að taka niður mastrið, eða hver hafi haft heimild til þess að mæla fyrir um það. Enga ályktun er því unnt að draga af þeim framburði. Vitnin, F, G, H og C  voru á hinn bóginn samhljóða um að í lok hvers vinnudags hefði mastrið almennt verið fellt og reist að morgni þess næsta. Á sömu lund bar áfrýjandi. Þeir J fyrrverandi verkstjóri hjá B sf. og K fyrrverandi flokkstjóri báru báðir fyrir dómi að mastrið hefði yfirleitt verið fært niður í 2,5 metra, en ekki fellt alveg niður í lok vinnudags. Eitt framangreindra vitna, H, kvað mastrið hafa stundum verið fellt um miðjan dag, ef mikið rok var. Vitnið C bar á hinn bóginn fyrir dómi að deginum áður en slysið varð hafi mastrið ekki verið fellt, þar sem verið hefði norðaustan vindur. Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið af framburði þeirra vitna sem fyrir héraðsdóm komu en að mastrið hafi almennt verið lækkað í lok hvers vinnudags og reist að morgni þess næsta.

Um notkun ljósa á mastrinu bar vitnið G að almennt hafi verið kveikt á mastrinu þegar birtu naut ekki og slökkt þegar dagsbirta hafi verið næg. Á sömu lund bar vitnið L.

III

Fyrrgreindur C var eina vitnið að slysi áfrýjanda. Samkvæmt framburði hans fyrir dómi kallaði hann til áfrýjanda umræddan dag og bað hann um að slökkva á ljósum mastursins, þar sem þau lýstu beint í augu hans. Hafi áfrýjandi orðið við því. Í framhaldi af því hafi hann séð áfrýjanda toga mastrið niður, en hann hafi ekki beðið hann um að fella mastrið. Það hafi síðan fallið á hendur áfrýjanda. Er framangreind frásögn vitnisins á tildrögum slyssins í samræmi við þá lýsingu sem vitnið gaf hjá lögreglu um þetta. Á hinn bóginn er framburður áfrýjanda fyrir dómi í verulegum atriðum frábrugðinn frásögn hans hjá lögreglu eins og að framan hefur verið rakið.

Áfrýjanda og vitninu C ber ekki saman um hvort áfrýjanda hafi einvörðungu verið falið að slökkva á ljósum mastursins. Standa því orð áfrýjanda gegn orðum eina vitnisins að slysinu um það. Að slökkva ljós mastursins var einfalt verk og augsýnilegt hvaða rofa þurfti að nota til þess. Ekki verður litið fram hjá því við úrlausn málsins að veigamiklar breytingar urðu á framburði áfrýjanda eftir því sem málinu vatt fram. Verður framburður vitnisins C lagður til grundvallar um að hann hafi umrætt sinn einungis beðið áfrýjanda að slökkva ljós mastursins, enda samrýmist það því sem fram kom í vitnisburði samstarfsmanna áfrýjanda fyrir héraðsdómi, sem gerð hefur verið grein fyrir að framan, um að mastrið hafi almennt ekki verið fellt fyrr en í lok hvers vinnudags. Auk þess hníga rök að því að ljós mastursins væru slökkt þegar birtu var farið að njóta eins og raunin var þann morgun sem slysið varð.

Samkvæmt öllu framangreindu er ósannað að áfrýjandi hafi í umrætt sinn verið beðinn um annað en að slökkva ljós mastursins, sem var eins og fyrr greinir einfalt verk sem ekki þurfti að leiðbeina honum með. Hann tók sjálfur þá ákvörðun að reyna að fella mastrið án þess að séð verði að á því hafi verið þörf og eins og aðstæðum var háttað. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins var orsök slyssins rakin til sterks vindar og þess að áfrýjandi togaði mastrið til sín þegar það féll ekki sjálfkrafa niður. Þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að af hálfu B sf. hafi verið brotið gegn nánar greindum ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, með þeim hætti að saknæmt geti talist. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að málskostnaður milli aðila fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2016.

Mál þetta sem dómtekið var 22. febrúar 2016 var höfðað 15. desember 2014 af hálfu A, […] á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til heimtu skaðabóta.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 10.548.875 krónur með 4,5 % ársvöxtum af 1.780.986 krónum frá 18. nóvember 2010 til 18. nóvember 2011, en af 10.548.875 krónum frá þeim degi til 18. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.605.924 krónum sem stefndi greiddi stefnanda þann 6. júní 2012.

Til vara gerir stefnandi þær kröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 6.857.861 krónu með 4,5 % ársvöxtum af 1.780.986 krónum frá 18. nóvember 2010 til 18. nóvember 2011, en af 6.857.861 krónu frá þeim degi til 18. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.605.924 krónum sem stefndi greiddi stefnanda þann 6. júní 2012.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts úr hendi stefnda að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Vátryggingafélags Íslandi hf., eru aðallega að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar.

Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi, sem er fæddur árið 1988, hefur lokið grunnskólaprófi og einu ári í menntaskóla og hefur einnig aflað sér aukinna ökuréttinda. Stefnandi hóf störf hjá B sf. þann 11. júní árið 2010. Hann var ráðinn sem bílstjóri en sinnti einnig öðrum störfum eftir þörfum og verkefnastöðu félagsins hverju sinni. Stefnandi slasaðist þegar hann vann fyrir B sf. við gerð snjóflóðavarnargarða undir […] þann 18. nóvember 2010. Stefndi greiddi stefnanda 1.605.924 krónur í bætur úr slysatryggingu launþega 6. júní 2012 vegna slyssins. B sf. var einnig með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda, sem stefnt er í máli þessu á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004, til greiðslu skaðabóta vegna afleiðinga slyssins á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar.

Vinnusvæðið undir […] var upplýst með sérstöku ljósamastri sem var áfast CE merktri ljósavél á hjólum. Í skýrslu Vinnueftirlitsins er því lýst að mastrið sé í þremur þrepum, það sé fellt niður með spili og stálvírar dragi það bæði sundur og saman. Mastrið í fullri lengd mælt frá toppi ljósavélar er átta metrar og stysta lengd er 2,9 metrar. Þegar það er fellt fara þrepin fyrst niður í lóðréttri stöðu og þegar það er komið í lágmarkslengd fer það í lárétta stöðu og leggst þá yfir endilangt þak ljósavélarinnar og stendur út af henni að aftan. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins og myndum í henni var stjórnborð undir hlíf efst á hlið ljósavélarinnar. Á stjórnborðinu er stjórnrofi til þess að reisa mastrið og fella. Rofinn er haldrofi, sem rýfur straum að spili tækisins þegar honum er sleppt, og við hann er mynd af mastri með örvum upp og niður. Auk þessa stjórnrofa eru á mynd af stjórnborðinu sjáanlegir fjórir rofar við myndir af ljósum, merktir nr. 1, 2, 3 og 4, aðalrofi fyrir straum samkvæmt merkingu, kveikjulás sem í stendur lykill og öryggjabox undir plasthlíf.

Allhvasst var þennan dag samkvæmt skýrslu vinnueftirlitsins um aðstæður á slysstað, 12 m/sek og sló í 17 til 22 m/sek í vindhviðum. Stefnandi lýsir atvikum svo í stefnu að vegna hvassviðris hafi ekki þótt rétt að láta ljósamastrið standa eftir að birta tók af degi upp úr kl. 10:00 að morgni, en venja hafi verið að fella það niður í lok vinnudags. Stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að fella mastrið frá C, sem farið hafi með verkstjórnarvald í fjarveru verkstjóra. Vegna hvassviðrisins hafi mastrið haldist í lóðréttri stöðu þrátt fyrir að stefnandi hefði réttilega reynt að slaka því niður með spilinu. Stefnandi hafi þá reynt að koma mastrinu í lárétta stöðu ofan á ljósavélinni og togað í það. Við það hafi mastrið fallið svo hratt niður að vinstri handleggur stefnanda varð á milli mastursins og ljósavélarinnar. Við það brotnaði stefnandi á vinstri upphandlegg og einnig á þumalfingri hægri handar.

Stefndi lýsir málavöxtum svo að störf stefnanda á slysdag hafi einkum falist í að vinna við uppsetningu grinda, sem verið hafi stór verkþáttur í snjóflóðavarnarverkefninu. Það starf hafi ekki krafist sérstakrar verkþjálfunar enda hefði stefnandi starfað við hlið annarra starfsmanna og séð þannig í hverju verkið var fólgið. Fyrirkomulag á verkstað hafi verið með þeim hætti að verkstjóri hafi verið yfir verkinu og haft undir sér flokkstjóra sem aftur hafi verið með hóp verkamanna við einstök verk. Verkstjóri verksins sem stefnandi vann við hafi verið J og flokkstjóri hópsins sem stefnandi tilheyrði hafi verið K.

K hafi haft umsjón með verkamönnum sem ekki voru tækjamenn og höfðu að starfi að raða grjóti í grindur auk þess sem hann sá til þess að nóg efni væri á staðnum. Störf hópsins sem K hafði umsjón með hafi farið fram á tveimur til þremur stöðum í einu, K hafi verið á vinnusvæðinu á slysdag en ekki verið þar sem stefnandi var.

Verkstjóri verksins, J, hafi verið staddur á neðri palli vinnusvæðisins þegar slysið varð þar sem hann hafi fylgst með námuvinnslu sem hann hafi talið krefjast meiri yfirumsjónar en það verk sem stefnandi var að vinna. J hafi haft þann hátt á að koma með reglulegu millibili upp á efra svæðið, þar sem m.a. stefnandi var að störfum, í því skyni að ganga úr skugga um að verkið gengi eðlilega og færi rétt fram. Ekki hafi þótt tilefni til þess að hafa verkstjóra eða flokkstjóra yfir mönnum í grindarvinnunni öllum stundum þar sem um frekar einfalt verk var að ræða sem menn höfðu reynslu af vinnu við frá því um sumarið.

C hafi unnið á gröfu við að moka af palli vörubifreiðar, svokallaðrar „Búkollu“ sem stefnandi hafi verið á og hafi starf þeirra á þessum tíma einkum falist í því að raða grjóti við grindurnar. C hafi ekki farið með verkstjórnarvald á svæðinu eða boðvald yfir stefnanda í fjarveru verkstjórans J svo sem haldið sé fram í stefnu. Bæði verkstjóri og flokkstjóri hafi verið á vinnusvæðinu á þessum tíma þó að þeir hafi ekki alltaf verið þar sem stefnandi og C voru að störfum. C hafi starfað sem svokallaður tækjamaður hjá B og m.a. ekið gröfu. Í þeim störfum hans hafi komið fyrir að með honum væri annar starfsmaður sem sinnti ýmsum störfum sem þurfti að vinna utan gröfunnar, eins og að raka með fram grind, fylgja eftir í þjöppun, halda niðri dúk og annað slíkt. Stefnandi hafi verið í slíkum grindastörfum utan gröfunnar og aðstoðað C eftir því sem þurfti við að raða grjóti í grindurnar. C hafi sem tækjamaður haft frumkvæði að því hvernig samstarfsmenn gætu aðstoðað sem best við hið skilgreinda verk við uppsetningu grinda þegar á þurfti að halda. Þeir hafi unnið sameiginlega að verkinu sem þeim hafi verið falið af verkstjóra og/eða flokkstjóra en C hafi borið að leiðbeina þeim sem unnu með honum þegar hann þurfti á aðstoð að halda við einstaka verkþætti.

Á því svæði sem hópur stefnanda hafi verið við störf hafi tvö ljósamöstur verið notuð sem reynt hafi verið að stilla þannig upp að ljósgeislar þeirra næðu saman svo ekki þyrfti að færa þau til. Um klukkan 10:30 þegar bjart var orðið hafi C beðið stefnanda um að slökkva ljósið á mastri sem þar var, þar sem ljósið skein í augu C og truflaði hann við störf. Stefndi mótmælir því að C hafi beðið stefnanda að fella mastrið. Stefnandi hafi getað slökkt ljósið með því að ýta á takka á stjórnborði tækisins alfarið óháð því hvort mastrið væri lækkað eða það fellt með haldrofa.

Stefndi mótmælir því sem fram kemur í stefnu að venja hafi verið að fella mastrið í lok hvers vinnudags. Þvert á móti hafi verið reynt eftir fremsta megni að láta mastrið ávallt standa í hæstu stöðu, þótt það væri ekki í notkun. Mastrið hafi almennt ekki verið fellt nema þegar til stóð að færa það. Þá er því alfarið hafnað að veður hafi verið slíkt þennan dag að ekki hafi þótt rétt að láta mastrið standa, slíkur vindhraði gefi ekki tilefni til að fella mastrið. Hins vegar, ef veður var mjög slæmt þá hafi mastrið oft verið lækkað í þriggja metra hæð og þá af hálfu þeirra er kunnáttu höfðu til. Mastrið hafi hins vegar almennt ekki verið fellt af þeim sökum.

Ákvörðun um það hvort fella ætti mastur eða lækka hafi almennt eingöngu verið á hendi flokkstjóra eða verkstjóra, enda ekki ástæða til að slíkra aðgerða þótt ljós væri slökkt. Að auki hafi það almennt verið þessir aðilar sem önnuðust það verk að lækka eða fella mastur en ekki aðrir starfsmenn. Þeir hafi eingöngu verið beðnir um að aðstoða við það ef þörf var á og einnig slökkva ljósin með því einu að ýta á einn takka. Stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að fella mastrið, en slysið varð þegar mastrið sem hann var að taka niður féll á hendur hans. Verkstjórinn, J, kom þegar á staðinn, flutti stefnanda á sjúkrahús og sá til þess að lögregla var kölluð til og Vinnueftirlit.

Í skýrslu lögreglu er haft eftir stefnanda samkvæmt símtali við hann þann 21. nóvember 2011, að hann hafi verið að taka ljósamastrið saman og að töluverður vindur hafi verið. Mastrið hafi því ekki hreyfst þegar hann ætlaði að halla því að kerrunni vegna vindstyrks. Hann hafi því þurft að ýta því niður en það hafi þá allt í einu fallið niður og hann lent með hendurnar undir því. Aðspurður hafi stefnandi talið að vírinn gæti hafa verið orðinn aðeins slakur, hann hafi verið búinn að reyna að slaka mastrinu áður en hann ýtti á það. Þá segir í skýrslunni að stefnandi hafi aðspurður sagst áður hafa tekið saman ljósamastrið og verið kennd vinnubrögðin við það.

C, samstarfsmaður stefnanda, varð vitni að því sem gerðist. Lýsti hann því þannig fyrir lögreglu á slysdag að stefnandi hafi verið að slaka mastrinu niður, hann hafi fyrst dregið það saman og lækkað en því næst þurfi að slaka því niður til að það leggist ofan á kerruna sem það er fast við. Til þess þurfi að nota stjórntæki sem eru í kerrunni, þ.e. spil og spilvír sem slakar mastrinu niður. Í skýrslunni segir að C hafi sagt sterkan vind hafa verið á vettvangi og vegna hans og vindáttar hafi mastrið ekki hallast að kerrunni þegar því var slakað, heldur hafi vindurinn haldið því uppi. Stefnandi hafi þá reynt að toga mastrið niður þar til það féll hratt niður og á hendur hans. C hafi talið að spilvírinn hafi verið orðinn slakur þegar stefnandi togaði í mastrið og því hafi mastrið fallið þegar vindurinn hélt ekki lengur við það, þar til spilvírinn tók aftur í, en hann gæti þó ekkert sagt um það með vissu.

Umdæmisstjóri Vinnueftirlits kom samdægurs á staðinn ásamt lögreglu, ræddi við vitni og tók myndir og voru aðstæður þá óbreyttar. Atvikum er í skýrslu hans lýst svo að talsverður vindur hafi verið meðan verið var að fella mastrið og þegar það fór að síga í lárétta stöðu hafi vindur haldið á móti þannig að það hafi ekki sigið niður. Stefnandi hafi þá tekið utan um mastrið og ætlað að toga það niður en nokkur slaki hafi þá verið kominn á vírinn sem reisir og fellir það þannig að það hafi fallið niður og stefnandi hafi klemmt vinstri handlegg á milli masturs og ljósavélar. Ekki liggi fyrir hvernig brot á hægri þumalfingri hafi orðið. Talið var að slysið mætti rekja til þess að mastrið fór ekki í lárétta stöðu vegna mikils vindhraða og þess að spil var ekki stöðvað strax og slaki tekinn af vírnum þegar sýnt var að það myndi ekki fara í lárétta stöðu.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að ekki hafi legið fyrir skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir fyrir umræddan verkþátt og gefin voru þessi fyrirmæli um úrbætur: Gera skal leiðbeiningar um hvernig skal reisa og fella mastrið með tilliti til vindhraða og annarra veðurskilyrða. Stefndi tekur fram í málavaxtalýsingu sinni að gerð hafi verið áhættugreining á verkinu í heild sem m.a. hafi náð til uppsetningar umræddra grinda. Það öryggismat hafi legið frammi í kaffistofu starfsmanna B þar sem gert hafi verið ráð fyrir að starfsmenn kynntu sér efni þess.

Stefnandi var óvinnufær í sex mánuði í kjölfar slyssins og kveðst enn hafa skerta getu til að beita hendinni. Samkvæmt matsgerð læknis og lögmanns, dags. 18. maí 2012, er varanlegur miski stefnanda talinn vera 10 stig og varanleg örorka hans 10%.

Með bréfi dags. 5. október 2011, óskaði lögmaður stefnanda þess að stefndi tæki afstöðu til þess hvort skaðabótaskylda vegna tjóns stefnanda yrði viðurkennd ásamt því sem gerð var krafa í frjálsa ábyrgðartryggingu B hjá stefnda. B og stefndi höfnuðu bótaskyldu og var málið borið undir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum. Í úrskurði 22. janúar 2013 taldi nefndin ósannað að stefnandi hefði fengið fyrirmæli um að taka niður mastrið eða að það hafi verið í hans verkahring. Var talið að slysið yrði ekki rakið til ófullnægjandi verkstjórnar né til þess að ekki hefðu verið settar leiðbeiningar eins og Vinnueftirlitið gerði kröfu um. Stefnandi ætti því ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda síns hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi sætti sig ekki við þá niðurstöðu og höfðaði mál þetta.

Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóm og gaf skýrslu. Lýsti hann þá atvikum svo að C hefði sagt honum að slökkva og setja niður mastrið. Hann hafi farið til að setja niður mastrið eða slaka því, þá hafi mastrið skyndilega fokið til hliðar og síðan fokið á hann. Hann hafi bara slökkt á því og látið það svo síga, það hafi byrjað að síga eðlilega en svo allt í einu farið í öfuga átt og fokið á hann. Stefnandi kvaðst fyrir dóminum ekki hafa ýtt á mastrið með handafli og aldrei hafa komið við mastrið sjálft, aðeins takkaborðið. Taldi stefnandi það stafa af misskilningi að haft er eftir honum í lögregluskýrslu að hann hafi þurft að ýta mastrinu niður og einnig það að hann hefði áður tekið mastrið niður og verið kennd vinnubrögð við það. Hann kvaðst aldrei áður hafa komið að stjórnborðinu, hvorki til að slökkva né til að taka mastrið niður, hann hafi bara séð aðra gera það. Hann hafi ekki vitað á hvaða takka ætti að ýta, þar sem aldrei hafi verið farið nákvæmlega yfir það, en hann hafi verið búinn að sjá nokkurn veginn hvernig þetta væri gert og vissi það svona að hálfu leyti. Hann hafi því prófað sig áfram, en hann mundi ekki fyrir víst hvort honum hafi tekist að slökkva á ljósunum áður en mastrið féll á hann. Stefnandi kvaðst ekki hafa vitað hverjir máttu taka niður mastrið eða hver mætti ákveða það. Hann taldi það hafa verið hluta af því að ganga frá eftir daginn að taka niður mastrið, strákarnir gerðu þetta stundum í enda dags, en stefnandi mundi ekki til þess að það hefði áður verið fellt niður um miðjan dag. Hann kvaðst aldrei hafa ákveðið sjálfur að taka niður mastrið, en hann hafi gert það þar sem C hafi sagt honum að slökkva og taka niður mastrið.

Vitnin F og G, sem eru fyrrum samstarfsmenn stefnanda, og K flokksstjóri gáfu vitnaskýrslur gegnum síma við aðalmeðferð málsins og fyrir dóminn komu vitnin H, fyrrum samstarfsmaður stefnanda, J, fyrrum verkstjóri hjá B og C, fyrrum vélamaður hjá B.

C, sem var eina vitnið að slysinu, kvaðst hafa verið í gröfu sinni við vinnu og hafa kallað í stefnanda í talstöð og beðið hann um að slökkva á ljósunum á mastrinu sem lýstu í augun á honum. Hann mundi ekki til þess að hafa áður beðið stefnanda um það. Stefnandi hafi farið og slökkt, vitninu hafi síðan verið litið aftur á stefnanda og þá séð hann vera að teygja sig eftir mastrinu og hafi hann þá verið búinn að príla upp á eitthvað, dekkið eða eitthvað annað á hliðinni á ljósavélinni, í sömu mund hafi mastrið fallið niður og lent á honum. Vitnið kvaðst þá strax hafa hlaupið til hans, hann hafi verið hissa á þessu þar sem hann hafi aðeins beðið stefnanda um að slökkva ljósin. Í framburði hans kom fram að varhugavert væri að eiga við mastrið í miklum vindi, það hefði almennt verið lækkað í lok dags, en það ekki fellt þegar hvasst væri, eins og til dæmis daginn áður en slysið varð, þá hafi það verið látið standa.

Í framburði vitna kom fram að engar skriflegar leiðbeiningar hefðu verið til um hvernig fella bæri mastrið eða slökkva ljósin, en stjórnborðið væri einfalt. Mastrið hafi ýmist verið dregið niður á kvöldin eða líka fellt niður. Annars hafi það ekki verið fellt niður nema þegar átti að færa það til og því hafi yfirmenn alltaf stjórnað. Ljósin hafi venjulega verið slökkt yfir miðjan daginn og hafi ýmsir starfsmenn gert það.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að B beri fébótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, þar sem hann hafi slasast sem starfsmaður B á vinnustað fyrirtækisins, við framkvæmd verks í þágu þess, sem stefnanda hafi verið falið að vinna við erfiðar aðstæður og án allra leiðbeininga eða aðstoðar. Byggt sé á því að ábyrgðartrygging félagsins hjá stefnda taki til tjóns B vegna skaðabótaábyrgðar sem félagið beri og sé stefnanda því heimilt að krefjast bóta beint frá félaginu á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

Þá byggi stefnandi jafnframt á sakarreglunni og vísi í þeim efnum til þess að B hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni. Við mat á sök hins vátryggða verði að horfa til þess að á B hafi hvílt rík lögbundin skylda til að tryggja öryggi starfsmanna og að þeir fengju viðhlítandi kennslu eða leiðbeiningu um framkvæmd einstakra verka sem þeim hafi verið falin sbr. 13., 14., 37., 42. og 46. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, sbr. 5., 7. og 8. gr. laganna og reglugerð nr. 367/2006. Stefnandi hafi engar leiðbeiningar fengið frá þeim, sem starfað hafi með honum og haft hafi boðvald yfir honum, um hvernig skyldi staðið að fellingu ljósamastursins við þessar aðstæður. Stefndi og hinn vátryggði verði að bera ábyrgð á því að enginn verkstjóri hafi verið á vettvangi heldur aðeins staðgengill verkstjóra sem hafi skipað stefnanda að fella ljósamastrið.

Óumdeilt sé að þeir sem stýrt hafi og stjórnað vinnu hins vátryggða við varnargarðana hafi litið á ljósamastrið sem verðmætt tæki sem bæri að fella í lok hvers vinnudags og reisa í byrjun þess næsta. Þetta hafi auk þess verið öryggisráðstöfun. Stefnandi byggi á því að hinn vátryggði hafi ekki tryggt nægjanlega öryggi starfsmanna við notkun tækja, líkt og honum hafi borið samkvæmt áður tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum. Við erfiðar aðstæður, eins og þær hafi verið að morgni þann 18. nóvember 2010, verði að ætlast til þess af atvinnurekanda að hann tryggi að eftirlit með starfsmönnum sé nægjanlegt eða að þeim séu gefin skýr fyrirmæli um það hvernig haga beri störfum við hinar erfiðu aðstæður. Enginn verkstjóri hafi verið á staðnum þegar slysið varð en samstarfsmaður stefnanda, C, hafi gefið stefnanda fyrirmæli um að taka mastrið niður. Hafi hann oftar en ekki leiðbeint öðrum starfsmönnum og gefið verkfyrirmæli í tengslum við önnur verkefni félagsins, sem eins konar staðgengill verkstjóra, að verkstjóra fjarstöddum. C hafi haft einna lengstan starfsaldur hjá félaginu og því verið með reynslumeiri starfsmönnum er verkstjóri hafi ekki verið á svæðinu.

Stefnandi byggi á því að verkstjórn hafi þannig verið áfátt. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, beri verkstjóra m.a. að sjá um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustaðnum sem hann hafi umsjón með. Þá skuli verkstjóri, samkvæmt 23. gr. sömu laga, beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórni séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt. Þá skuli hann einnig, verði hann var við einhver þau atriði sem leitt gætu til hættu á slysum eða sjúkdómum, tryggja að hættunni sé afstýrt. Sá aðili sem fyrirmælin hafi gefið, sem eins konar staðgengill verkstjóra, hafi áður tekið niður umrætt mastur. Hann hafi orðið vitni að slysi stefnanda og aðdraganda þess, en hafi ekki brugðist við og aðstoðað stefnanda við að ná mastrinu niður þegar ljóst hafi verið í hvað hafi stefnt. Þessu aðgerðarleysi beri B sf. skaðabótaábyrgð á. Þá telji stefnandi ljóst að verkstjóri hefði átt að vera á staðnum og þá sérstaklega í ljósi aðstæðna þennan umrædda dag en strekkingsvindur var á slysstað. Ríkari skylda hafi því hvílt á verkstjóra til að vera á staðnum til að leiðbeina stefnanda og gæta þess að hætta skapaðist ekki vegna veðurs og öruggt skipulag væri á svæðinu. Vegna þessa verði stefndi, vegna hins vátryggða, að bera ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

Engu skipti fyrir bótaábyrgð stefnda hvort stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að fella ljósamastrið frá öðrum en skráðum verkstjóra verksins. Þá skipti heldur engu fyrir bótaábyrgð stefnda að stefnandi hafi verið bifreiðastjóri hjá hinum vátryggða. Stefnandi og samstarfsmenn hans hjá hinum vátryggða hafi gengið í þau verk sem vinna hafi orðið hverju sinni til þess að hinn vátryggði fengi lokið verki sínu með sóma fyrir viðsemjanda sinn. Við þá vinnu hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á. 

Í athugasemdum við 1. gr. laga nr. 124/2009 um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum, komi fram að þótt notuð séu orðin „í starfi“ hafi reglunni um vinnuveitandaábyrgð verið beitt í fleiri tilvikum en þeim þar sem starfsmaður sé beinlínis í starfi sínu. Þannig falli t.d. undir regluna líkamstjón þar sem starfsmaður sé að vinna í þágu annars vinnuveitanda samkvæmt samkomulagi við upphaflegan vinnuveitanda. Hafi reglan um vinnuveitandaábyrgð verið skýrð með sveigjanlegum hætti í þessu sambandi. Sömu sjónarmið hljóti í þessu sambandi að eiga við þegar starfsmaður vinni verk í þágu vinnuveitanda sem sé á sviði annars starfsmanns eða óljóst sé á starfssviði hvers það sé.

B beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda af völdum slyssins sem ábyrgðartrygging hans hjá stefnda nái til. Brotið hafi verið gegn skráðum réttar- og hátternisreglum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og ákvæðum reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja, sem stefnda hafi verið fullkunnugt um að honum bæri að fylgja í hvívetna. B beri ábyrgð á því að öryggi stefnanda hafi ekki verið tryggt og að öryggisráðstafanir hafi ekki verið forsvaranlegar. Slys stefnanda megi því rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi B enda hafi félaginu borið að tryggja að stefnandi fengi nauðsynlega kennslu og þjálfun í uppsetningu og niðurtöku mastursins til að koma í veg fyrir slysahættu, sbr. og niðurstöðu skýrslu Vinnueftirlits ríkisins þess efnis. B hafi látið þetta undir höfuð leggjast með þeim afleiðingum að stefnandi hafi slasast og verði B að bera ábyrgð á því gagnvart stefnanda. Slysið megi jafnframt rekja til þess að samstarfsmaður stefnanda hafi ekki sinnt varúðar- og aðgæsluskyldu sinni, með því að huga ekki að öryggi hans og veita honum næga aðstoð þegar ljóst hafi verið í hvað stefndi. Stefndi beri vinnuveitandaábyrgð á saknæmum verkum starfsmanna sinna hvort sem þær séu fólgnar í athöfnum eða athafnaleysi þeirra.

Stefnandi hafni því alfarið að slys hans verði rakið til óhappatilviks eða eigin gáleysis. Í þeim efnum beri að líta til ungs aldurs stefnanda sem og reynsluleysis. 

Stefnandi byggi kröfu sína um skaðabætur á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar. Stefnandi telji allar forsendur til að leggja matsgerðina til grundvallar enda hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggt á henni við uppgjör úr slysatryggingu launþega. Aðalkrafa stefnanda, sem nánar er gerð grein fyrir í stefnu, sundurliðast á eftirfarandi hátt:

                1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skbl.         453.016 kr.

                2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.                                                    309.470 kr.

                3. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl.                         1.018.500 kr.

                4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl.                8.767.889 kr.

                Samtals                                                                                               10.548.875 kr.

                Frádráttur v/greiðslu úr slysatryggingu                                          1.605.924 kr.

Auk skaðabóta sé krafist vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar.

Stefnandi geri til vara kröfu um greiðslu á 6.857.861 kr. úr hendi stefndu, fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefnanda. Varakrafa stefnanda, sem nánar er gerð grein fyrir í stefnu, sé byggð á sömu málsástæðum og sjónarmiðum og aðalkrafa hvað skaðabótaábyrgð stefnda varðar. Krafan sé að öllu leyti byggð á sömu fjárhæðum og aðalkrafa vegna bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska. Fjárhæð varanlegrar örorku sé aftur á móti lægri í varakröfu og grundvallist sá munur á því að varakrafan taki mið af hinum hefðbundna útreikningi á árslaunaviðmiðum tjónþola skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verði ekki fallist á að efni séu til að víkja frá árslaunaviðmiðum og byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þá vísi stefnandi til þess að samkvæmt skattframtölum hafi launatekjur stefnanda árið 2007 verið samtals 2.252.491 króna, árið 2008 samtals 2.218.462 krónur og árið 2009 samtals 2.921.935 krónur. Varakrafa stefnanda nemi því:

1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skbl.        453.016 kr.

2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.                                                    309.470 kr.

3. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl.                         1.018.500 kr.

4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl.                5.076.875 kr.

                Samtals                                                                                                6.857.861 kr.

                Frádráttur v/greiðslu úr slysatryggingu                                          1.605.924 kr.

Dráttarvaxta er krafist með sama hætti og í aðalkröfu.

Um vaxtakröfu vísi stefnandi til 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi geri kröfu um að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska beri vexti frá tjónsdegi samkvæmt ákvæðinu en krafa vegna varanlegrar örorku frá upphafsdegi metinnar örorku. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísi stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. 9. gr. sömu laga. Stefnandi byggi á því að allar upplýsingar hafi legið fyrir um tjónsatvik og fjárhæðir bóta þegar matsgerð hafi legið fyrir 18. maí 2012. Því skuli dráttarvextir reiknast frá þeim degi er mánuður sé liðinn frá því að upplýsingarnar lágu fyrir, þ.e. frá 18. júní 2012. 

Um lagarök vísi stefnandi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, almennu skaðabótareglunnar, reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og til reglunnar um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað. Þá byggi stefnandi á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13., 14., 37., 42. og 46. gr. Þá byggi stefnandi á reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, og viðaukum við hana, sérstaklega 5., 7. og 8. gr., og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 2.-7. gr. og 15.-16. gr.

Um aðild vísi stefnandi til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísi stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Varðandi vaxtakröfu af skaðabótum vísi stefnandi til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993, um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga. Loks vísi stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi virðisaukaskatt sem leggjast skuli á málflutningsþóknun.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í máli þessu gildi almennar sönnunarreglur skaðabótaréttar utan samninga. Af þeim reglum leiði að sönnunarbyrðin hvíli óskipt á stefnanda um að slysið sé að rekja til atvika sem B beri að lögum skaðabótaábyrgð á og þar með að bótaréttur hafi stofnast stefnanda til handa úr ábyrgðartryggingunni hjá stefnda, sbr. skilmála tryggingarinnar. Þá beri stefnandi jafnframt sönnunarbyrðina fyrir því að hafa orðið fyrir tjóni sem og umfangi þess. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki sannað þessi atriði og því komi ekki til álita að hann eigi bótarétt úr ábyrgðartryggingu B hjá stefnda.

Sýknukrafa stefnda byggi á því að ósannað sé að B beri að lögum skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á umstefndu slysi, með þeim hætti sem stefnandi haldi fram og byggi kröfur sínar á. 

Í fyrsta lagi sé byggt á því að slysið hafi orðið fyrir hreint óhappatilvik eins og það hugtak hafi verið skýrt í skaðabótarétti. Í því tilviki sé ekki til staðar réttur til skaðabóta þar sem skaðabótaábyrgð verði að lögum ekki lögð á þriðja aðila þegar þannig hátti til og byggi það á dómvenju. Enda sé þá ekki um það að ræða að saknæm háttsemi hafi valdið slysinu. Fyrir liggi, eins og stefnandi segi sjálfur í lögregluskýrslu, að ástæða þess að mastrið hafi ekki hreyfst þegar hann hafi ætlað að halla því að kerrunni hafi verið vindstyrkur. Hann hafi því þurft að fella ljósamastrið með handafli. Þá segi í skýrslu Vinnueftirlitsins að ástæða þess að mastrið hafi ekki farið í lárétta stöðu hafi verið mikill vindhraði. Stefndi telji því liggja ljóst fyrir að það hafi ekkert verið sem við komi mastrinu sjálfu eða stjórntækjum þess, hvað þá vinnuaðstæðum eða öryggismálum á vinnustað, sem hafi orðið þess valdandi að stefnandi hafi handleggsbrotnað. Orsök þess hafi eingöngu verið vindur eins og stefnandi sjálfur byggi á. Hér hafi því eingöngu verið um að ræða tilviljunarkenndan atburð sem ekki hafi gerst fyrir tilstuðlan eins eða neins annars en veðurs. Ekkert saknæmt hafi verið á ferðinni heldur hafi eingöngu verið um óhappatilviljun að ræða sem enginn beri að lögum skaðabótaábyrgð á. Fyrir liggi að hafi einhverjum verið um að kenna, öðru en vindinum, þá hafi það eingöngu verið stefnanda sjálfum, sem ákveðið hafi upp á sitt eindæmi að taka mastrið niður þegar hann hafi eingöngu verið beðinn um að slökkva ljósið á því. Á því beri vinnuveitandi stefnanda ekki skaðabótaábyrgð þannig að bótaréttur stofnist til hans úr hendi stefnda.

Stefndi byggi sýknukröfu sína í öðru lagi á því að það sé með öllu ósannað að B hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þeim hætti sem stefnandi byggi á í stefnu. Málatilbúnaður stefnanda byggi á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum auk tiltekinna ákvæða reglugerðar nr. 367/2006. Nánar sé byggt á því að leiðbeiningum um framkvæmd einstakra verka hafi verið áfátt. Sömuleiðis beri lagatilvísanir stefnanda með sér að hann byggi á því að fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar hafi ekki verið gætt við framkvæmd vinnu hjá B né hafi fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta verið gætt. Þá hafi verkstjórn sömuleiðis verið áfátt. Stefndi mótmæli þessu alfarið sem röngu og ósönnuðu enda séu málsatvik þvert á móti skýr um að sé einhver sök fyrir hendi liggi hún öll hjá stefnanda sjálfum.

Í málavaxtakafla og skýrslu Vinnueftirlitsins sé því lýst að slysið hafi átt sér stað þegar stefnandi hafi verið að fella ljósamastur. Vindáttin hafi staðið þannig að mastrið hafi haldist í lóðréttri stöðu þrátt fyrir að stefnandi hafi slakað vír sem það hafi verið fest í. Þegar stefnandi hafi tekið að toga mastrið niður með handafli hafi það skyndilega fallið, enda mótstaðan af vírnum sem það hafi verið fest í þá engin verið. Vinnuveitandaábyrgð grundvallist á því að einhver starfsmaður vinnuveitanda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og það hafi valdið öðrum tjóni. Eðli málsins samkvæmt leiði saknæm háttsemi stefnanda sjálfs ekki til þess að B beri skaðabótaábyrgð á þessum grundvelli gagnvart stefnanda. Til að svo sé verði saknæmið að felast í einhverri háttsemi annarra starfsmanna B sem þá hafi valdið því að stefnandi hafi slasast. Stefnandi hafi hvorki verið beðinn um að taka umrætt ljósamastur niður né hafi það falist í verkskyldum hans að annast slíkt. Stefnandi hafi sjálfur tekið ákvörðun um að fella mastrið og þar með hvernig hann gerði það.

Ekki sé fyllilega ljóst af málatilbúnaði stefnanda hvort byggt sé á því að útbúnaður ljósamastursins sjálfs hafi verið ófullnægjandi eða að vinnustaðurinn sjálfur hafi verið vanbúinn. Allt að einu mótmæli stefndi því sem röngu og með öllu ósönnuðu að útbúnaði ljósamastursins og vinnuaðstæðum hafi á einhvern hátt verið ábótavant. Vísi stefndi einkum til skýrslu Vinnueftirlitsins þar sem í engu hafi verið fundið að útbúnaði eða aðstæðum á slysstað. Ljóst sé að öllum skilyrðum laga nr. 46/1980 hafi verið fullnægt um öryggi, aðbúnað og hollustuhætti á vinnusvæðinu og þar með geti í engu verið um að ræða saknæma háttsemi B að því leyti. Stefndi byggi einnig á því að með öllu sé ósannað að skortur á öryggi á vinnustaðnum eða á skipulagi þar hafi valdið slysinu. Stefndi hafni öllum fullyrðingum í stefnu í þá áttina sem röngum og ósönnuðum.

Stefnandi hafi ekki verið beðinn um að fella umrætt mastur. Ljóst megi vera að ómögulegt sé fyrir vinnuveitanda að koma í veg fyrir að starfsmenn taki óumbeðið að sér einhver verk utan við starfsskyldur þeirra. Þar sem stefnandi hafi tekið upp á því, upp á sitt eindæmi, að fella niður ljósamastrið verði ekki með nokkru móti séð hvernig hægt hefði verið að afstýra því sem gerðist þó að verkstjóri hefði verið á svæðinu eða öryggismál verið í einhverju öðru horfi en raunin hafi verið. Hvergi í stefnu sé gerð grein fyrir því hvernig rétt hefði þá verið að hátta öryggismálum svo koma hefði mátt í veg fyrir umrætt slys. Stefndi telji því ósannað með öllu að vinnustaðurinn, og/eða mastrið, hafi verið vanbúinn eða eitthvað verið athugavert við öryggisráðstafanir þar. Þvert á móti hafi fyllsta öryggis verið gætt í hvívetna enda ljóst af atvikum að orsakir hafi eingöngu verið að rekja til athafna stefnanda sjálfs og því ekki unnt að koma í veg fyrir umrætt slys með nokkrum öryggisráðstöfunum sem B geti talist hafa borið ábyrgð á.

Stefnandi vísi um meint saknæmi til 13., 14., 37., 42. og 46. gr. laga nr. 46/1980 sbr. 5., 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 367/2006. Af stefnu megi ráða að brotið hafi verið gegn tilvitnuðum ákvæðum þar sem stefnandi hafi ekki fengið kennslu eða verið leiðbeint um framkvæmd einstakra verka sem honum hafi verið falin. Stefndi hafni því alfarið sem röngu og ósönnuðu að B hafi með saknæmum hætti brotið gegn tilgreindum lögum, reglugerðum og reglum. Fyrir það fyrsta þá sé heimfærsla stefnanda til tilvitnaðra lagaákvæða og rök hans um ætlaða saknæma háttsemi nokkuð óljós. Stefndi hafni því að saknæmi verði byggt á nefndum ákvæðum enda sé hér um að ræða almenn ákvæði sem veiti ekki leiðbeiningar um sakarmat. Þá dugi ekki að vísa almennt til nefndra lagaákvæða um meinta sök heldur verði að tilgreina hvaða ákvæði nákvæmlega hafi verið brotin og þá með hvaða hætti. Verulega skorti á að slíkt sé gert í stefnu og þar með sé ósannað að um einhverja saknæma háttsemi hafi verið að ræða. Í annan stað bendi stefndi á að í skýrslu Vinnueftirlitsins hafi fyrirmæli um úrbætur verið einskorðuð við það að gera skyldi leiðbeiningar um hvernig skyldi reisa og fella mastrið með tilliti til vindhraða og annarra veðurskilyrða. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við vinnuaðstæður eða mastrið sjálft.

Varðandi skort á leiðbeiningum og kennslu þá sé leiðbeiningum um tiltekin verk eðli máls samkvæmt almennt ekki beint til annarra en þeirra sem þau verk vinni. Haft sé eftir stefnanda hjá lögreglu að honum hafi verið kennd vinnubrögðin við að taka mastrið niður. Fullyrðingar í stefnu sem bendi í þá átt að hann hafi ekki vitað hvernig átti að bera sig að við það séu því rangar. Stefnanda hafi í fyrsta lagi ekki verið falið að fella mastrið. Stefndi bendi í því sambandi á að í stefnu segi um framangreind lagaákvæði að þau varði aðeins leiðbeiningar „um framkvæmd einstakra verka sem [starfsmönnum] voru falin“. Þar sem stefnanda hafi ekki verið falið umrætt verk geti skorti á leiðbeiningum um það verk vart talist ábótavant svo saknæmt geti talist. Í öðru lagi árétti stefndi að niðurtaka mastursins hafi ekki verið á verksviði stefnanda heldur hafi aðrir starfsmenn séð um það verk. Engin ástæða hafi því verið til að kenna stefnanda eða leiðbeina honum um það hvernig bæri að taka niður mastrið. Liggi þó fyrir í gögnum málsins að stefnandi hafi kunnað til verka við það.

Verkstjóri og flokkstjóri hafi þar að auki farið með ákvörðunarvald um hvort mastrið skyldi tekið niður og eftir atvikum hvar það skyldi sett upp aftur. Þá hafi C sem tækjamaður gjarnan þurft að koma að því að færa mastrið þar sem því hafi í einhverjum tilfellum verið komið þannig fyrir að notast hafi þurft við lyftara, gröfu eða önnur tæki við að færa það. Lagt hafi verið fyrir verkamenn að bera það undir flokkstjóra teldu þeir birtu ekki næga og þar með tilefni til að færa möstrin. Það hafi svo verið undir flokkstjóra komið, eða eftir atvikum verkstjóra, að taka ákvörðun um að möstrin skyldu færð og hafi þeir staðið að því að fella þau. Í öðrum aðstæðum hafi möstrin ekki verið felld á verkstað á meðan vinna fór þar fram og í engum tilvikum hafi verið til þess ætlast að verkamenn felldu umrædd ljósamöstur nema þá hugsanlega að þeir væru kallaðir til aðstoðar verkstjóra, flokkstjóra eða tækjamanns sem þá hefðu frumkvæði að því hvernig staðið væri að því og veittu samhliða leiðbeiningar eftir því sem þyrfti.

Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að það hafi falið í sér saknæma háttsemi af hálfu B að hafa ekki útbúið leiðbeiningar um hvernig ljósamastrið skyldi fellt með tilliti til vindhraða og annarra veðurskilyrða og kynnt þær leiðbeiningar sérstaklega fyrir stefnanda. Í öllu falli telji stefndi ljóst að jafnvel þó að sýnt þyki að B hafi sýnt af sér einhverja saknæma háttsemi, að því leyti að hafa ekki samið eða látið semja leiðbeiningar, þá séu engin orsakatengsl milli þeirrar ætluðu saknæmu háttsemi og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir. Helgist það af því að jafnvel þó að þær leiðbeiningar hefðu legið fyrir hefði B ekki haft nokkra ástæðu til að kynna slíkar leiðbeiningar fyrir stefnanda þar sem umrætt verk hafi ekki verið á hans verksviði og á engan hátt hafi verið ætlast til þess af honum að hann ynni umrætt verk. Engu hefði því breytt fyrir stefnanda hvort leiðbeiningarnar hefðu verið til eða ekki.

Í stefnu sé vísað til þess að enginn verkstjóri hafi verið á staðnum og verkstjórn hafi verið áfátt með vísan til 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980. Sýnist stefnda stefnandi byggja það helst á því að verkstjóri hafi ekki gætt að öryggi á svæðinu og hafi ekki leiðbeint stefnanda um það hvernig fella bæri mastrið. Stefndi hafni þessu alfarið sem röngu og ósönnuð og telji þvert á móti að verkstjóri hafi í hvívetna gætt að þeim skyldum sem á honum hafi hvílt lögum samkvæmt. Verkstjóri verksins hafi verið á vinnusvæðinu þó að hann hafi ekki verið staddur á þeim stað þar sem stefnandi var að vinna þegar slysið átti sér stað. Verkstjóri hafi ekki beðið stefnanda um að fella mastrið heldur hafi það alfarið verið ákvörðun stefnanda sjálfs. Því verði ekki séð að hvaða leyti verkstjórn hafi verið ábótavant þegar stefnandi hafi ákveðið að fella mastrið í stað þess að slökkva eingöngu ljósið á því eins og hann hafi verið beðinn um að gera.

Það sé rangt sem haldið sé fram í stefnu að „staðgengill verkstjóra hafi skipað stefnanda að fella ljósmastrið“ en skilja megi málatilbúnað stefnanda hvað þetta varði sem svo að þessi „staðgengill“ hafi átt að verkstýra stefnanda þegar hann hafi verið að fella mastrið og leiðbeina honum. Stefndi hafni því alfarið sem röngu og ósönnuðu að einhver hafi verið staðgengill verkstjóra og með því borið einhverjar slíkar skyldur gagnvart stefnanda. Sá sem stefnandi nefni sem „staðgengil verkstjóra“ hafi verið samstarfsmaður stefnanda, C. Sá maður hafi hvorki verið verkstjóri yfir stefnanda né komið í stað verkstjóra og hafi því ekkert boðvald haft til að segja stefnanda fyrir verkum eða hafi borið skyldur til að leiðbeina honum um einstök verk. Stefnandi hafi verið að vinna verk sem honum hafi ekki verið falið að vinna heldur hafi sjálfur ákveðið að taka sér fyrir hendur. Eðli máls samkvæmt og eins og komi fram í 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 nái þær skyldur verkstjóra sem þar sé kveðið á um eingöngu til þess hluta verks sem sé undir umsjón verkstjóra og þeirra starfa sem starfsmenn eigi að vinna þar. Hér sé ekki um það að ræða að verkstjóri beri ábyrgð á að starfsmenn séu upplýstir um allar mögulegar varhugaverðar aðstæður sem upp geti komið á vinnustaðnum, hvað þá í störfum sem falli utan við svið viðkomandi starfsmanns og/eða ekki sé ætlast til að viðkomandi starfsmaður vinni. Þannig sé það ekki í verkahring verkstjóra að passa upp á að hver og einn einasti starfsmaður, sem undir verkstjórn hans sé, ákveði ekki upp á sitt eindæmi að taka að sér önnur verk en þau sem þeim hafi verið falið að vinna. Leiðbeiningar og eftirlitsskylda verkstjóra geti aldrei náð yfir slík óumbeðin verk sem ekki séu hluti af starfsskyldum starfsmannsins. 

Í skýrslu Vinnueftirlitsins hafi verið fundið að því einu að leiðbeiningar hafi ekki verið til um hvernig skyldi reisa og fella mastrið með tilliti til vindhraða og annarra veðurskilyrða. Þar sé í engu fundið að verkstjórn á staðnum eða því að verkstjórn hafi skort eða fundið að öryggi og aðbúnaði að öðru leyti. Það verk sem stefnandi og C hafi unnið við á slysdag, að raða grjóti í grindur snjóflóðavarnargarðsins, hafi verið einfalt starf sem þeir hefðu unnið við um allnokkurt skeið og því ekki þörf á sérstakri verkstjórn. Verkstjóri verksins hafi haft þann hátt á að koma reglulega á það svæði sem stefnandi og C hafi unnið á og litið eftir því að allt færi þar fram með réttum hætti en ekki hafi þótt tilefni til að verkstjóri stæði yfir þeim öllum stundum í ljósi hins einfalda verks sem þeir höfðu með höndum.

Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að atvik hafi verið með þeim hætti að á C, samstarfsmanni stefnanda, hafi hvílt athafnaskylda sem hann hafi brugðist. Engin slík skylda hafi hvílt á C, hvorki samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum, samkvæmt samningi né af öðrum ástæðum. Stefndi hafni því alfarið að skaðabótaskylda verði byggð á ætluðu athafnaleysi C. Hann hafi í fyrsta lagi ekki gefið skipun um að stefnandi skyldi fella ljósamastrið heldur hafi hann beðið stefnanda eingöngu að slökkva á ljóskösturum þar. C hafi því enga ástæðu haft til að ætla að stefnandi myndi fella mastrið og hafi þar af leiðandi enga ástæðu haft til að fylgjast sérstaklega með því sem hann hafði beðið stefnanda að gera, þ.e. að þrýsta á einn takka til að slökkva ljósið. Í öðru lagi hafi aðstæður ekki verið þannig að tilefni væri til að fella ljósamastrið enda hafi ekki staðið til að það yrði fært. Í þriðja lagi hafi C verið staðsettur við vinnu sína það langt frá stefnanda og ljósamastrinu að honum hafi með öllu verið ómögulegt að bregðast við á þeim tíma sem liðið hafi frá því að stefnandi hafi hafist handa við að draga mastrið niður með handafli og þar til stefnandi hafi klemmst undir því þegar það hafi fallið. Í fjórða lagi hafi stefnandi ekki óskað eftir því við C að hann aðstoðaði sig við að fella mastrið, hvorki í upphafi né síðar þegar honum hafi orðið ljóst, eða hafi mátt vera orðið ljóst, að það reyndist erfiðara en ella vegna vinds.

Allt framangreint sýni svo ekki verði um villst að slysið hafi á engan hátt orðið vegna saknæmrar háttsemi B, heldur sé það fyrst og fremst að rekja til óhappatilviljunar og/eða aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Bótaréttur sé því ekki til staðar úr ábyrgðartryggingu B hjá stefnda enda verði honum að lögum ekki gert að bera ábyrgð gagnvart stefnanda í slíkum tilvikum. Jafnvel þótt litið verði svo á að eitthvað hafi verið athugavert við vinnustaðinn þannig að saknæmt geti talist þá megi ljóst vera að stefnandi hafi ákveðið alfarið upp á sitt eindæmi að vinna umrætt verk, að fella mastrið, án þess að farið væri fram á það við hann eða ætlast til að hann ynni það verk. Sök, hafi einhver verið, liggi því alfarið hjá stefnanda sjálfum og sé niðurstaða úrskurðarnefndar vátryggingarmála um að bótaskylda sé ekki til staðar því rétt.

Stefndi byggi sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að jafnvel þó að niðurstaðan verði að stefnandi eigi bótarétt hafi hann glatað þeim rétti að fullu vegna stórfellds gáleysis sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993 auk þess sem það byggi á dómvenju. Atvikið sem málið snúist um hafi eingöngu orðið vegna athafna stefnanda sjálfs. Það hafi verið hann sjálfur sem hafi ákveðið að taka mastrið niður og þar með hvernig það væri gert. Samkvæmt lýsingu stefnanda sjálfs hafi hann ekki getað slakað mastrinu á kerruna vegna vindstyrks. Hann hafi þá gripið til þess ráðs að toga það niður með handafli, en þá hafi mastrið fallið á hann.

Stefnandi hafi með þessu sýnt af sér verulega gálausa hegðun. Hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að vírarnir sem veittu mastrinu viðnám væru orðnir lausir og því líklegt að þeir héldu ekki við mastrið, enda vírarnir greinilega sýnilegir þegar horft sé upp eftir mastrinu. Ganga megi út frá því að stefnanda hafi verið ljós, eða mátt vera ljós, hættan sem gæti falist í því að toga til sín með handafli jafn stóran og þungan hlut án nokkurs viðnáms annars en vindsins. Þá hafi engin ástæða verið til þess að hafa hlíf stjórnborðs ljósavélarinnar opna og sé þar engu öðru um að kenna en gáleysi stefnanda sjálfs. Stefnanda hefði í þessum aðstæðum, og með vísan til 26. gr. laga nr. 46/1980, borið að tilkynna um aðstæður, leita sér aðstoðar við verkið eða í öllu falli ana ekki út í aðstæður sem hann hafi ekki ráðið við. Augljóst sé að stefnandi hafi þannig sýnt af sér verulega gálausa hegðun sem hann sjálfur verði að bera ábyrgð á. Byggi það á meginreglum skaðabótaréttar og langri dómvenju um brottfall bótaréttar þegar þannig standi á.

Haft sé eftir stefnanda í lögregluskýrslu og einnig í matsgerð að honum hafi verið sýnt hvernig stjórntakkar mastursins væru notaðir og honum kennd vinnubrögðin við að taka mastrið niður. Þannig virðist stefnandi hafa fengið upplýsingar um hvernig umrætt tæki virkaði jafnvel þó að það hafi ekki verið í hans verkahring að taka það niður. Renni það enn styrkari stoðum undir það að stefnanda hafi ekki getað dulist að sú aðferð sem hann hafi beitt við að fella mastrið, þ.e. með handafli, hafi verið óeðlileg og röng og falið í sér mikla hættu á að slys gæti hlotist af. Stefndi telji ljóst af öllu framangreindu að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann hafi ákveðið óumbeðinn að fella umrætt mastur og án þess að leita sér fyrst leiðbeininga um hvernig honum bæri að haga sér við það verk og/eða óska eftir aðstoð við það, teldi hann þess þörf. Slík hegðun stefnanda sé sérstaklega gálaus í ljósi þess að hann hafi vitað eða mátt vita, að umrætt starf væri ekki í hans verkahring og ekki væri ætlast til þess af honum að hann framkvæmdi það. Ljóst sé því að hafi eitthvað saknæmt verið á ferðinni sem leitt hafi til slyss stefnanda sé það eingöngu að rekja til hans sjálfs. Á því beri B ekki skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda og því sé ekki til staðar bótaréttur úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá stefnda.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 46/1980 skuli starfsmenn stuðla að því að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Sérstaklega sé vísað til 2. mgr. 26. gr. þar sem tekið sé fram að starfsmanni beri að tilkynna það umsvifalaust verði hann var atriða sem leiða kunni til skerts öryggis sem hann geti ekki sjálfur bætt úr. Ekkert liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi gert athugasemdir við aðstæður eða aðbúnað er varði mastrið.

Verði ekki fallist á sýknukröfu byggi stefndi á því til vara að lækka beri stefnukröfur verulega. Það eigi bæði við um að sök verði skipt og einnig að einstakir liðir stefnukröfunnar lækki, óháð því hvort fallist sé á sakarskiptingu. Stefndi byggi á því að skipta beri sök vegna stórfellds gáleysis stefnanda sbr. 23. gr. a í skaðabótalögum og byggi það á dómvenju. Hegðun stefnanda er hann hafi unnið við umrætt verk hafi verið stórfellt gálaus.

Stefndi byggi í öðru lagi á því að óháð sakarskiptingu beri að hafna einstökum liðum stefnukröfunnar og/eða lækka þá.

Stefndi telji ekki unnt að leggja útreikning stefnanda til grundvallar kröfulið hans um tímabundið atvinnutjón. Af hálfu stefnanda skorti á að upplýst sé um greidd laun frá vinnuveitanda frá slysdegi og allt til 2. mars 2011 og rangt sé að horfa eingöngu til launa stefnanda síðustu þrjá mánuði fyrir slys eins og stefnandi geri. Miða beri við meðaltal heildarlauna stefnanda þá mánuði sem hann hafi haft laun hjá B fram að slysinu. Reiknuð fjárhæð samkvæmt þessum kröfulið geti hæst numið 2.206.444 krónum. Samanlagðir frádráttarliðir samkvæmt stefnu nemi 1.969.813 krónum. Byggi stefndi á því að tímabundið atvinnutjón stefnanda, að teknu tilliti til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, geti ekki verið hærra en 255.561 króna.

Stefnandi geri kröfu um 309.470 krónur í þjáningabætur miðað við að verðbæta skuli fjárhæðir fram til útgáfu stefnu í desember 2014. Verði fallist á það með stefnanda að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við þann dag er mánuður var liðinn frá því að matsgerðin lá fyrir, þ.e. frá 18. júní 2012, byggi stefndi á því að óhjákvæmilega beri þá að leggja til grundvallar að bótafjárhæðin hafi verið ákveðin í skilningi 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga þegar þann 18. maí 2012. Á þeim grundvelli beri því að miða við vísitöluna á þeim degi, þ.e. 7801 stig, og reikna þjáningarbætur samtals 289.298 krónur. Sömu sjónarmið eigi við um varanlegan miska varðandi útreikninga vísitölu. Verði fallist á framangreinda viðmiðunardagsetningu beri því að miða við 7801 stig í stað 8356. Á þeim grundvelli gæti krafa stefnanda vegna varanlegs miska ekki numið hærri fjárhæð en 950.750 krónum.

Stefndi byggi á því að stefnandi geti ekki átt rétt til hærri bóta fyrir varanlega örorku en greini í varakröfu hans, enda taki sú krafa mið af meðalatvinnutekjum stefnanda að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefndi byggi á því að bætur fyrir varanlega örorku geti ekki numið hærri fjárhæð en samtals 7.545.263 krónum, að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku úr slysatryggingu launþega, samtals 1.605.924 krónum. Stefndi geri hins vegar athugasemd við að ekki sé upplýst í málinu um hvaða bætur hafi verið greiddar af Sjúkratryggingum Íslands eða hvort stefnandi hafi notið einhverra annarra greiðslna sem beri að draga frá samkvæmt skaðabótalögum.

Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt og bent á að allir vextir eldri en fjögurra ára frá málshöfðun séu fallnir niður fyrir fyrningu. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Engin efni séu til að reikna dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu enda ekki ljóst fyrr en þá hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefnda. Fyrst í stefnu sé sett fram fjárkrafa á hendur stefnda, eða um tveimur og hálfu ári eftir að matsgerð hafi legið fyrir. Engin efni séu til að reikna dráttarvexti með þeim hætti sem stefnandi geri, eða frá 18. júní 2012, og sé því mótmælt að það tímamark 9. gr. vaxtalaga, sem geti markað upphafstíma dráttarvaxta, sé þann dag.

Stefndi vísi einkum til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði, óhappatilvik og stórfellt gáleysi, skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 46/1980, vátryggingarskilmála AA20, auk laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eftir því sem við eigi. Krafa stefnda um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um það hvort fyrrum vinnuveitandi stefnanda, B sf., beri skaðabótaábyrgð á slysi sem stefnandi varð fyrir 18. nóvember 2010, þannig að stefnda beri að greiða stefnanda bætur úr ábyrgðartryggingu vinnuveitandans hjá stefnda. Svo sem ítarlega er rakið í kafla um málsatvik hér að framan greinir aðila á um tiltekin atriði varðandi það hvernig slysið bar að. Um það voru gerðar skýrslur strax eftir slysið bæði af hálfu lögreglu og vinnueftirlits, sem leggja verður ásamt því sem fram kom fyrir dóminum til grundvallar um málsatvik, en þegar framburður fyrir dómi er metinn verður ekki fram hjá því litið að langt er um liðið frá því slysið varð.

Þegar litið er til þess sem ráða má af framburði vitna um hvað venjulegt hafi verið á vinnustaðnum verður að telja ólíklegt að stefnanda hafi verið gefin fyrirmæli um að fella mastrið á þessum tíma dags. Fær það frekari stuðning af því sem fram kom hjá vitninu C um að fremur hafi það verið látið vera að fella mastrið í lok dags ef veður var vont, vegna þeirrar hættu sem því gat fylgt, en að fella það til að forða því frá foktjóni, svo sem stefnandi hélt fram fyrir dómi. Ekkert vitnanna gat staðfest að stefnanda hefði áður en slysið varð verið falið að fella mastrið eða slökkva á ljósunum. Styður það framburð stefnanda fyrir dóminum um að hann hefði aldrei notað stjórnborðið áður, þótt annað sé haft eftir honum í lögregluskýrslu rétt eftir slysið. Ekki er útilokað að ummæli í lögregluskýrslu sem lögregla ritar eftir símtali við stefnanda, um að hann hefði áður tekið saman ljósamastrið, eigi rætur að rekja til misskilnings, eins og stefnandi hélt fram fyrir dóminum.

Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði aðeins komið við stjórnborð ljósavélarinnar og að hann hefði ekki snert mastrið fyrr en það féll á hann. Sá framburður er í ósamræmi við lýsingu hans í stefnu og það sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu og umsögn Vinnueftirlitsins, en það eru samtímagögn sem byggja á lýsingum stefnanda sjálfs og C eftir slysið um það hvernig það bar að. Vitnið C bar fyrir dóminum að hann hefði séð stefnanda teygja sig upp í mastrið. Samkvæmt framburði C um líkamsstöðu stefnanda hafði hann teygt sig upp og inn yfir þak ljósavélarinnar. Hefði hann ekki gert það og aðeins staðið við stjórnborðið á hlið ljósavélarinnar verður ekki séð hvernig mastrið gat lent á upphandlegg hans með umræddum afleiðingum þegar það féll niður á þakið á ljósavélinni. Hvort sem stefnandi hefur í raun náð til mastursins til að snerta það, eins og hann kvaðst í upphafi hafa gert, eða ekki, er ljóst að það vakti fyrir honum að fella mastrið. Upplýst er að hvasst var og fyrirmæli C til stefnanda um að slökkva á mastrinu voru gefin í gegnum talstöð. Ekki er útilokað að stefnanda hafi heyrst C segja honum að „slaka“ mastrinu, en hann er sagður hafa tekið svo til orða í skýrslu lögreglu eftir slysið við lýsingu á tilraun sinni til að fella mastrið, að hann hafi verið búinn að reyna að slaka því áður en hann ýtti á það.

Af öllu því sem fram er komið í málinu þykja ekki efni til að ætla að stefnanda hafi við umræddar aðstæður verið gefin fyrirmæli um annað en að slökkva á ljósunum á mastrinu. Stefnanda, sem þekkti orðið til verklags á staðnum, mátti vera það ljóst að kveikja þyrfti ljósin aftur þegar birtu tæki að bregða á ný og að til þess að birtu nyti á vinnusvæðinu þyrfti mastrið að vera uppi. Aðstæður gáfu honum því ekkert tilefni til að túlka fyrirmæli C svo að hann ætti að fella mastrið niður.

Stefnandi reisir bótakröfur sínar á vinnuveitandaábyrgð, þar sem hann hafi slasast sem starfsmaður B á vinnustað fyrirtækisins, við framkvæmd verks í þágu þess. Óumdeilt er að atvikið er vinnuslys og hefur stefndi þegar greitt stefnanda bætur úr slysatryggingu launþega vegna þess. Stefnandi byggir á sakarreglunni og vísar til þess að starfsmenn sem B ber ábyrgð á hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið slysinu. Til þess að sakarábyrgð verði viðurkennd þarf stefnandi samkvæmt almennum reglum að sanna saknæmi og ólögmæta háttsemi, en við mat á sök hins vátryggða verður jafnframt að horfa til þess að á B hvíldi rík lögbundin skylda til að tryggja öryggi starfsmanna og að þeir fengju viðhlítandi kennslu eða leiðbeiningar um framkvæmd einstakra verka sem þeim væru falin í samræmi við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.

Kröfur stefnanda um skaðabætur reisir hann á því að stefnanda hafi verið falið að vinna verk við erfiðar aðstæður og án allra leiðbeininga eða aðstoðar. Samkvæmt því sem í ljós þykir leitt í málinu var stefnanda ekki falið að fella mastrið. Varðandi vitneskju stefnanda um það hvernig nota bæri stjórnborð ljósavélarinnar er til þess að líta að fyrir dóminum kvaðst stefnandi hafa verið búinn að sjá nokkurn veginn hvernig þetta væri gert og vissi það svona að hálfu leyti. Í skýrslu lögreglu er haft eftir stefnanda að honum hefðu verið kennd vinnubrögðin við að taka saman mastrið. Þá kemur fram í matsgerð D læknis 18. maí 2012, sem stefnandi leggur fram í málinu, að læknirinn hefur það eftir stefnanda, að honum hefði verið sýnt hvernig stjórntakkar til að fella mastrið væru notaðir, en hann hefði sjálfur aldrei unnið við það áður. Í ljósi framburðar stefnanda sjálfs og leiðbeininga á stjórnborði ljósavélarinnar verður að telja að stefnanda hafi verið nægilega kunnugt um hvernig slökkva skyldi ljósin á mastrinu og hafi ekki þurft frekari leiðbeiningar við það einfalda verk. Fyrirmæli Vinnueftirlits um að útbúnar skyldu leiðbeiningar um það hvernig fella beri mastrið með tilliti til vindhraða breyta engu um þá niðurstöðu dómsins að stefnandi verður talinn hafa fengið viðhlítandi leiðbeiningar um það verk sem honum var falið, að slökkva ljósin.

Þá heldur stefnandi því fram að sá starfsmaður vátryggingartaka sem fyrirmælin gaf og varð vitni að slysinu hafi ekki brugðist við og aðstoðað stefnanda við að ná mastrinu niður þegar ljóst hafi verið í hvað stefndi. Þessu aðgerðarleysi beri B sf. skaðabótaábyrgð á. Samkvæmt lýsingum stefnanda sjálfs bar fall mastursins mjög brátt að og samkvæmt framburði vitnisins C leit hann á stefnanda í þann mund sem mastrið féll. Verður ekki talið að C hafi haft ástæðu til að fylgjast náið með stefnanda við það verkefni að slökkva ljósin á mastrinu og ekki verður séð að hann hafi haft tækifæri til að bregðast við eða koma stefnanda til aðstoðar áður en slysið varð þegar honum varð ljóst að stefnandi var að reyna að fella mastrið.

Loks telur stefnandi að verkstjóri hefði átt að vera á staðnum til að leiðbeina stefnanda í ljósi aðstæðna þennan umrædda dag þar sem strekkingsvindur var á slysstað. Stefnandi hafði með höndum tiltölulega afmarkað verkefni við að raða grjóti í grindur með C, sem hann hafði unnið að áður og verður ekki fallist á að það eitt að verkstjóri hafi ekki verið á staðnum er atvikið varð feli í sér ófullnægjandi verkstjórn.

Slysið varð samkvæmt niðurstöðu Vinnueftirlitsins vegna mikils vindhraða og vegna þess að stefnandi stóð ekki rétt að því að fella mastrið með tilliti til vindhraða. Stefnanda hafði ekki svo upplýst sé verið leiðbeint um það sérstaklega hvernig ætti að fella mastrið þegar hvasst væri, en ekki verður heldur talið að honum hafi verið falið að fella mastrið þennan dag. Sú háttsemi starfsmanna eða verkstjóra B að gera ekki ráðstafanir til að koma í veg fyrir að stefnandi reyndi að fella mastrið þennan dag verður ekki talin saknæm vanræksla af þeirra hálfu sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar eða að vátryggingartaki hafi á annan hátt brotið gegn lögbundnum skyldum sínum sem vinnuveitandi þannig að bótaábyrgð á slysinu verði felld á stefnda. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hans í samræmi við gjafsóknarleyfið úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., sem ákveðin er 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.