Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-147
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Virðisaukaskattur
- Bókhaldsbrot
- Hegningarauki
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 11. apríl 2019 leitar Gunnar Rúnar Gunnarsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. mars sama ár í málinu nr. 504/2018: Ákæruvaldið gegn Gunnari Rúnari Gunnarssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með áðurnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur eins og í héraðsdómi fyrir meiri háttar brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listflísa ehf. og daglegur stjórnandi 36 ehf. látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskatti félaganna. Þá var hann einnig sakfelldur eins og í héraðsdómi fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa bókhald síðarnefnda félagsins í samræmi við lög nr. 145/1994 um bókhald vegna starfsemi þess á tilteknu rekstrarári. Á hinn bóginn hnekkti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa á tilteknu uppgjörstímabili staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu fyrir hönd fyrrnefnda félagsins. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils leyfisbeiðanda og tekið tillit til 77. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem refsing hans var tiltekin sem hegningarauki. Var hún ákveðin fangelsi í sex mánuði, auk þess sem honum var gert að greiða 13.600.000 króna sekt.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að þar sem Landsréttur hafi sýknað hann af ákærulið sem hann hafi verið sakfelldur fyrir í héraði hafi ekki verið unnt að láta héraðsdóm standa óraskaðan, hvorki um refsingu né sakarkostnað. Þá telur hann að Landsréttur hafi ranglega talið brot hans ítrekuð og ákveðið refsingu sem hegningarauka og hafi hún þannig orðið þyngri en efni standi til. Hafi málið af þessum sökum almenna þýðingu auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.