Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-89
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Erfðaskrá
- Gjöf
- Kröfugerð
- Málsástæða
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 23. júní 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. sama mánaðar í máli nr. 371/2021: A gegn B, C og D á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi og E gengu í hjónaband árið 1980 og gerðu þau sameiginlega erfðaskrá 1. september 2016. Hinn 3. desember 2018 undirritaði E skjal þar sem hann ráðstafaði átta tilgreindum málverkum til gagnaðila en hann lést […] 2019. Það skilyrði var sett í skjalinu að málverkin fengju að vera á heimili leyfisbeiðanda og þau yrðu ekki afhent gagnaðilum fyrr en að E látnum ef leyfisbeiðandi fengi ekki leyfi til setu í óskiptu búi eða eftir andlát þess sem lengur lifði ef fengið yrði leyfi til setu í óskiptu búi. Leyfisbeiðandi fékk ekki vitneskju um skjalið fyrr en eftir andlát E.
4. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum og krafðist aðallega „riftunar á skjalinu“ frá 3. desember 2018 og viðurkenningar á því að málverkin teljist hluti óskipts bús leyfisbeiðanda og E. Til vara var krafist viðurkenningar á því að málverkin teljist til fyrirframgreidds arfs gagnaðila við arfskipti eftir leyfisbeiðanda og E.
5. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Niðurstaða héraðsdóms var að með undirritun skjalsins 3. desember 2018 hefði átt sér stað formleg yfirfærsla eignarréttar til gagnaðila og að gjöfin hefði þá þegar verið efnd af E. Líta yrði svo á að ráðstöfunin hefði því falið í sér gjöf í lifanda lífi sem E hefði verið heimilt að ráðstafa með þeim hætti sem hann gerði með umræddum gerningi. Landsréttur rakti að af efni erfðaskrárinnar frá 2016 yrði ekki ráðið að hún hefði að geyma takmarkanir á heimild arfleiðanda til að ráðstafa eignum sínum í lifanda lífi eins og E gerði með fyrrnefndu skjali. Samkvæmt þessu væru hvorki efni til að verða við kröfum leyfisbeiðanda um riftun þeirrar ráðstöfunar né að fallast á það með henni að um fyrirframgreiddan arf hefði verið að ræða af hálfu E.
6. Leyfisbeiðandi vísar til þess að málið varði það grundvallaratriði hvort aðili geti eftir gerð sameiginlegrar erfðaskrár, sem nái til allra eigna, ráðstafað stórum hluta eigna búsins til ákveðinna aðila með leynd og skert þannig skömmu fyrir andlát sitt eignir búsins og þar með eignir annarra erfingja. Hún byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en ekki hafi mikið reynt á sambærilegt álitaefni á síðastliðnum árum. Þá telur hún dóm Landsréttar bersýnilega rangan, meðal annars um að í gerningnum 3. desember 2018 hafi falist eignaryfirfærsla til gagnaðila.
7. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um form og efni, meðal annars um túlkun 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.