Hæstiréttur íslands

Mál nr. 509/2016

Merill Lynch International (Hróbjartur Jónatansson hrl.)
gegn
Kaupþingi ehf. (Grímur Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K ehf. um dómkvaðningu matsmanna þar sem ekki var talið leitt í ljós að bersýnilegt væri að svör við þeim spurningum sem fram komu í matsbeiðni K ehf. skiptu ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2016 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað og að honum verði gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði ekki úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Varnaraðili ber áhættu af sönnunargildi þeirrar matsgerðar sem hann vill afla og stendur straum af matskostnaði. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Merill Lynch International, greiði varnaraðila, Kaupþingi ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2016.

I

Mál þetta, sem þingfest var 6. september 2012, var tekið til úrskurðar 20. júní 2016 um matsbeiðni stefnanda, Kaupþings hf., sem lögð var fram í þinghaldi 10. sama mánaðar. Við þá fyrirtöku málsins mótmælti stefndi, Merrill Lynch International, matsbeiðni stefnanda.

Dómkröfur stefnanda í málinu er þær að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til stefnda, Merrill Lynch International: Hinn 15. september 2008, að fjárhæð 1.197.059,71 evrur vegna viðskipta 10. september 2008 og hinn 24. september 2008 að fjárhæð 8.137.916,67 bandaríkjadollarar  vegna viðskipta hinn 19. september 2008.

Þess er einnig krafist að stefndi greiði stefnanda 1.197.059,71 evru og 8.137.916,67 bandaríkjadollara með dráttarvöxtum af báðum fjárhæðunum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. júní 2012 til greiðsludags.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

Í upphafi krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013. Að því frágengnu krefst stefndi aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

II

         Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindum greiðslum sem hann innti af hendi 15. og 24. september 2008 sem endurgjald fyrir ákveðna hagsmunaeign eða hlutdeild í skuldabréfum sem stefnandi gaf út 2007, eins og nánar er lýst í stefnu stefnanda og greinargerð stefnda. Fyrir liggur að gjalddagi skuldabréfanna var ekki kominn þegar stefnandi innti greiðslurnar af hendi en hann kveðst hafa bókfært greiðslurnar til lækkunar á útistandandi skuldum sínum. Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en honum var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 22. nóvember 2010 var stefnandi tekinn til formlegrar slitameðferðar. Stefnandi krefst enn fremur endurgreiðslu á framangreindum greiðslum á grundvelli 142., sbr. 143. gr., laga nr. 21/1991.

         Stefndi reisir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Auk þess byggir hann á því að umræddar greiðslur hafi ekki falið í sér greiðslu skuldar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 í ljósi skilmála og erlendra réttarreglna sem gilt hafi um viðskiptin. Jafnframt byggir stefndi á því að málsókn þessi sé af hálfu stefnanda ólögmæt tilraun til þess að sniðganga ákvæði tilskipunar nr. 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum vegna verðbréfaviðskipta. Þá telur stefndi m.a. að það leiði af n-lið 99. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og skýra beri þann lið með hliðsjón af 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, að einungis megi rifta þeirri greiðslu, sem tengist viðskiptum stefnda, ef lög á Englandi heimila það. Stefndi byggir á því að lög þar í landi heimili ekki slíka riftun og því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.

         Í þinghaldi í máli þessu hinn 5. desember 2014 er bókað að lögmaður stefnda óski eftir fresti til að leggja fram matsbeiðni til sönnunar á erlendri réttarreglu. Lögmaður stefnanda lýsti því þá yfir að matsbeiðninni yrði mótmælt þegar hún kæmi fram. Í þinghaldi 21. janúar 2015 lagði stefndi fram matsbeiðni gegn mótmælum stefnanda. Lögmaður stefnda dró matsbeiðnina til baka við fyrirtöku málsins 12. febrúar sama ár en lagði fram nýja matsbeiðni 26. sama mánaðar. Af hálfu stefnanda var matsbeiðni mótmælt og fór fram munnlegur málflutningur um þann ágreining daginn eftir. Með úrskurði, uppkveðnum 18. mars 2015, heimilaði dómurinn umbeðna dómkvaðningu matsmanns að hluta en með dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 250/2015 hinn 21. apríl 2015 var fallist á kröfu stefnda um dómkvaðningu að öllu leyti. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu fór hinn 3. júní 2015 fram dómkvaðning Louise Gullifer, prófessors við Oxford háskóla, sem matsmanns í málinu. Lögmaður stefnda lagði fram matsgerð Louise Gullifer prófessors í þinghaldi 16. nóvember 2015 en íslensk þýðing hennar var lögð fram 19. janúar 2016. Í matsgerðinni er svarað eftirfarandi spurningum í matsbeiðni um enskan rétt:

1.   Í samhengi við útgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um stofnun skuldasambands og niðurfellingu kröfu vegna samruna réttinda og skyldna?

2.   Hvaða reglur gilda í enskum rétti um það hvenær löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum?

3.   Ef löggerningur er talinn vera skaðlegur kröfuhöfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti sem heimila að slíkir gerningar séu vefengdir?

4. Þess er óskað að matsmaður geri sérstaka grein í svörum sínum, við spurningum nr. 1, 2 og 3, fyrir tilvist og efni framangreindra enskra réttarreglna við þær kringumstæður þegar fjármálafyrirtæki, sem er útgefandi allsherjarskuldabréfs, með sömu skilmálum og greinir í dómskjölum nr. 6, nr. og nr. 9, hefur keypt hlutdeildarkröfur í eigin allsherjarskuldabréfi fyrir lokauppgjörsdag þess.

         Í framangreindu þinghaldi óskaði stefnandi eftir frekari fresti til að kynna sér efni matsgerðarinnar og í næsta þinghaldi hinn 1. mars sl. óskaði hann eftir fresti til að leggja fram yfirmatsbeiðni svo sem hann gerði í þinghaldi 23. sama mánaðar. Í yfirmatsbeiðni voru settar fram sömu spurningar og spurt hafði verið í matsbeiðni stefnda en þeim til viðbótar voru settar fram eftirfarandi tvær yfirmatsspurningar:

5.   Í samhengi við útgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um hvort hlutdeildareigendur geti við einhverjar aðstæður höfðað dómsmál gegn útgefanda allsherjarskuldabréfs, og þá við hvaða aðstæður?

6.   Í samhengi við útgáfu á allsherjarskuldabréfum, hvaða reglur gilda í enskum rétti um hvort hlutdeildareigendur geti við einhverjar aðstæður lýst kröfum við skuldaskil útgefanda allsherjarskuldabréfs, þ.m.t. sem skilyrtir kröfuhafar, og þá við hvaða aðstæður?

                Við framlagningu yfirmatsbeiðni stefnanda óskaði lögmaður stefnda eftir fresti til að fara yfir hana en mótmælti jafnframt sérstaklega að í henni væri að finna óskir þess efnis að dómkvaddir yfirmatsmenn yrðu látnir svara nýjum spurningum í yfirmatinu sem hvorki hefði verið fjallað um né svarað í undirmatsgerð. Málinu var frestað til 11. apríl sl. og í þinghaldi þann dag reifuðu lögmenn aðila röksemdir sínar um ágreiningsefnið. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 22. sama mánaðar, var fallist á kröfu stefnanda um dómkvaðningu tveggja yfirmatsmanna til að leggja á ný mat á matsspurningar 1 til 4 samkvæmt yfirmatsbeiðninni en kröfu stefnanda að því er varðaði matsspurningar 5 og 6 var hafnað með þeim rökum að með þeim væri ekki leitað endurmats á sömu atriðum og áður hefðu verið metin. Yrði því ekki leitað svara yfirmatsmanna við þeim á grundvelli 64. gr. laga nr. 91/1991. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 7. júní sl., í máli réttarins nr. 353/2016 var sú niðurstaða staðfest.

         Í þinghaldi málsins 10. júní sl. voru dómkvaddir tveir sérfróðir yfirmatsmenn að ósk stefnanda. Í sama þinghaldi lagði stefnandi fram matsbeiðni, dagsetta sama dag, þar sem þess er krafist að dómkvaðning færi fram í samræmi við beiðnina, þ.e. til mats á tveimur matspurningum sem eru samkvæmt efni sínu sömu spurningar og framangreindar matsspurningar 5 og 6 í fyrrgreindri yfirmatsbeiðni stefnanda. Stefndi krafðist þess að dómkvaðningu yrði hafnað og að stefnandi yrði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar. Bókað var eftir stefnda að hann mótmælti matsbeiðninni sem bersýnilega tilgangslausri og jafnframt sem of seint fram kominni.

         Við munnlegan málflutning um ágreining aðila um hvort dómkvaðning matsmanna færi fram á framangreindum grundvelli, vísaði lögmaður stefnda til þess að hann hefði þegar í greinargerð sinni gert grein fyrir því að hann byggði kröfur sínar í málinu á enskum rétti og því væri matsbeiðni stefnanda, dagsett 10. júní 2016, sem lyti að efni ensks réttar, of seint fram komin. Þá vísaði stefndi til þess að í matsbeiðni væru settar fram ýmsar staðhæfingar sem hvergi kæmu fram í stefnu þar sem lýst væri grundvelli málsins. Yrði því ekki séð að matsspurningarnar lytu að málsástæðum stefnanda í stefnu og væru þær því bersýnilega tilgangslausar.

         Stefnandi byggir kröfu sína um að matsmenn verði dómkvaddir í samræmi við matsbeiðni á því, að ýmsar niðurstöður í framlagðri matsgerð Louise Gullifer prófessors séu rangar, auk þess sem hún sé að mörgu leyti reist á ófullnægjandi eða röngum forsendum. Stefnanda sé nauðsynlegt að afla matsgerðarinnar þar sem ekki sé í fyrirliggjandi matsgerð Louise Gullifer prófessors gerð grein fyrir öllum hliðum skuldarsambands milli útgefanda allsherjarskuldabréfs og hlutdeildareigenda og því gefi matsgerðin ekki nákvæma mynd af réttarsambandi málsaðila. Þar sé því réttarreglum um samruna réttinda og skyldna hvorki lýst með réttum hætti né í réttu samhengi. Tilgangur stefnanda með matsbeiðninni sé því að fá fram fullnægjandi lýsingu á þessu réttarsambandi, auk þess sem stefnandi hyggist sanna að milli útgefanda og eiganda hlutdeildar í allsherjarskuldabréfi sé skuldarsamband en slíkt skuldarsamband hafi áhrif á beitingu reglunnar um samruna réttinda og skyldna að enskum rétti.

III

         Aðili að máli, sem rekið er fyrir dómstólum á grundvelli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, á að meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á til stuðnings málatilbúnaði sínum. Það er því almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því, nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema matsbeiðni fullnægi ekki skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróður matsmaður, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.

         Ljóst er að rekstur máls þessa hefur tekið langan tíma og þá hefur verið lagður fram í málinu mikill fjöldi gagna, auk þess sem leysa hefur þurft úr ýmsum ágreiningi aðila undir rekstri málsins. Þegar litið er til ferils málsins, einkum í kjölfar matsbeiðni stefnda og síðar framlagningar matsgerðar Louise Gullifer prófessors og gangi málsins í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms og Hæstaréttar Íslands um yfirmatsbeiðni stefnanda, verður ekki fallist á það með stefnda að líta verði svo á að það verði talið stefnanda til einhvers konar vanrækslu að hafa ekki lagt matsbeiðni sína frá 10. júní sl. fram fyrr. Liggur enda fyrir að matsspurningar stefnanda í umræddri matsbeiðni hans eru sprottnar af efnistökum og niðurstöðum í framangreindri matsgerð Louise Gullifer. Að þessu virtu verður því ekki talið að matsbeiðnin sé of seint fram komin.

         Fram er komið að stefnandi telur að í margnefndri matsgerð prófessors Louise Gullifer prófessors sé ekki gerð nægileg grein fyrir öllum hliðum skuldarsambands milli útgefanda og eiganda hlutdeildar í allsherjarskuldabréfi að enskum rétti og því gefi matsgerðin ekki nákvæma mynd af réttarsambandi aðila þessa máls. Óumdeilt virðist að þeim matsspurningum, sem lagðar eru fyrir í umræddri matsbeiðni stefnanda frá 10. júní sl., hefur ekki nú þegar verið svarað í matsgerð. Þá liggur fyrir að stefndi byggir dómkröfur sínar í málinu á enskum rétti. Matsspurningar stefnanda lúta að skuldarsambandi að enskum rétti, annars vegar um heimildir hlutdeildareigenda til að höfða dómsmál gegn útgefanda allsherjarskuldabréfs og hins vegar heimild hlutdeildareiganda til að lýsa kröfum við skuldaskil útgefanda allsherjarskuldabréfs. Liggur fyrir að í framlagðri matsgerð Louise Gullifer prófessors var vikið að atriðum sem matsspurningar stefnanda í umþrættri matsbeiðni lúta að, án þess þó að fyrir liggi sjálfstætt mat á þeim í skilningi 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að ekki sé leitt í ljós að það sé bersýnilegt að svör við umræddum matsspurningum í matsbeiðni stefnanda skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og hafa engin haldbær rök komið fram sem styðja fullyrðingu stefnda að því leyti.

         Að öllu framangreindu virtu er fallist á matsbeiðni stefnanda eins og hún er fram sett.

         Ekki eru efni til þess á þessu stigi málsins að taka afstöðu til kröfu stefnda um málskostnað í þessum þætti málsins.

         Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Fallist er á að dómkveðja tvo hæfa og óvilhalla matsmenn til þess að leggja mat á matsspurningar í matsbeiðni stefnanda á dómskjali nr. 269 sem lagt var fram í þinghaldi 10. júní 2016.

                Ekki er skorið úr um kröfu stefnda um málskostnað.