Hæstiréttur íslands
Mál nr. 429/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Fimmtudaginn 6. október 2005. |
|
Nr. 429/2005. |
Reginald Iheme(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Fallist var á að skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 væri fullnægt til útgáfu réttarstefnu til flýtimeðferðar á máli, sem I hugðist höfða á hendur íslenska ríkinu til að fá hnekkt úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem hafnað var beiðni hans um að hann fengi notið réttarstöðu flóttamanns á Íslandi og honum vísað úr landi og bönnuð koma til Íslands og annarra ríkja á Schengen svæðinu í þrjú ár. Þá var kveðið á um það í úrskurðinum að það frestaði ekki réttaráhrifum hans að málið yrði borið undir dómstóla.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á máli, sem hann hyggst höfða á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að gefa út stefnu til flýtimeðferðar á málinu í samræmi við reglur XIX. kafla laga nr. 91/1991.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
I.
Málsatvikum og málsástæðum sóknaraðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir kveðst sóknaraðili vera frá Nígeríu, og hefur hann óskað hælis sem flóttamaður á Íslandi þar sem lífi hans og velferð sé hætta búin verði hann sendur aftur til heimalands síns. Í úrskurði Útlendingastofnunar 18. mars 2005 var beiðni hans synjað og einnig var því hafnað að sóknaraðili fengi dvalarleyfi af mannúðarástæðum með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var kveðið á um í úrskurðinum að sóknaraðila yrði bönnuð koma til Íslands í þrjú ár og að hann skyldi skráður í Schengen-upplýsingakerfið, sem hefði þau áhrif að hann teldist óæskilegur á landsvæði allra Schengen ríkjanna í þrjú ár frá þeirri skráningu. Hlaut niðurstaðan staðfestingu í úrskurði dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005. Jafnframt var hafnað kröfu sóknaraðila um að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað meðan mál yrði borið undir dómstóla.
Með fyrirhugaðri málsókn hyggst sóknaraðili freista þess að fá ógiltan með dómi fyrrgreindan úrskurð dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni hans um hæli á Íslandi sem flóttamaður. Þá krefst hann viðurkenningar á að hann njóti réttarstöðu flóttamanns í skilningi VII. kafla laga nr. 96/2002, sbr. alþjóðasamning um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951, sbr. viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Til vara krefst hann viðurkenningar á rétti til dvalarleyfis á Íslandi af mannúðarástæðum með heimild í 2. mgr. 11. gr. nr. 96/2002.
II.
Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um skilyrði þess að mál sæti flýtimeðferð. Kemur þar fram, að hyggist aðili höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða, sem tengjast vinnudeilu og það færi ella eftir almennum reglum laganna, geti hann óskað eftir að málið sæti flýtimeðferð, ef brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.
Til stuðnings kröfum sínum hefur sóknaraðili lagt fram ýmis gögn er varða ástand mannréttindamála í heimalandi hans og stafa frá ýmsum alþjóðlegum samtökum, sem láta sig slík mál varða. Byggir sóknaraðili á því að þessi gögn beri með sér að raunveruleg hætta sé á að lífi hans og heilbrigði sé hætta búin verði honum gert að snúa aftur til heimalands síns. Hefur hann og lýst í skýrslu hjá Útlendingastofnun hvernig hann telji sig hafa orðið fyrir áreiti af hálfu lögregluyfirvalda í heimalandi sínu.
Hvað sem líður réttmæti þeirra upplýsinga sem sóknaraðili hefur samkvæmt framansögðu lagt fram og hvaða vísbendingar þær eru taldar veita um aðstæður hans í heimalandi sínu, liggur fyrir að sóknaraðili hyggst höfða mál til ógildingar á úrskurði stjórnvalds þar sem beiðni hans um að fá réttarstöðu flóttamanns var hafnað og honum jafnframt vísað af landi brott og bönnuð koma til Íslands, sem og annarra ríkja á Schengen svæðinu, í þrjú ár. Á það verður fallist með sóknaraðila, að málið varði stórfellda hagsmuni hans í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Í úrskurðinum var kveðið á um að það frestaði ekki réttaráhrifum hans þótt málið yrði borið undir dómstóla. Allt að einu verður að teljast brýnt fyrir sóknaraðila, meðan hann enn dvelst hér á landi, að fá skjóta úrlausn dómstóla um dómkröfu sína. Samkvæmt framanrituðu teljast skilyrði 123. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt til að heimila flýtimeðferð á máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar á málinu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að gefa út stefnu til flýtimeðferðar á máli sem sóknaraðili, Reginald Iheme, hyggst höfða á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu, til að fá hnekkt úrskurði dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst 2005.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2005.
Með beiðni sem barst dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september sl. var óskað eftir flýtimeðferð í máli, sem Reginald Iheme, nígerískur ríkisborgari, ætlar að höfða á hendur íslenska ríkinu til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun dómsmálaráðuneytisins þar sem honum var synjað um hæli á Íslandi sem flóttamanni.
Með bréfi dags. 12. september sl. hafnaði dómstjórinn í Reykjavík framangreindri beiðni og synjaði um útgáfu stefnu. Hinn 19. september sl. barst Héraðsdómi Reykjavíkur kæra á þeirri synjun. Beiðanda var tilkynnt um það að óska bæri eftir úrskurði um synjunina í samræmi við 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um úrskurð þar að lútandi barst dóminum 22. september sl.
Samkvæmt þeirri stefnu, sem fylgdi beiðninni, eru gerðar eftirfarandi dómkröfur :
“Aðallega:
Að ógilt verði með dómi stjórnvaldsákvörðun dómsmálaráðuneytisins dags. 31.08.2005 um að staðfestur skuli úrskurður Útlendingastofnunar dags. 18.03.2005 um að synja beiðni stefnanda um hæli á Íslandi sem flóttamanni.
Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á að fá réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna og skuli veitt hæli sem slíkur á Íslandi, sbr. VII. kafla laga um útlendinga nr. 96/2002.
Til vara:
Að ógilt verði með dómi stjórnvaldsákvörðun dómsmálaráðuneytisins dags. 31.08.2005 um að staðfestur skuli úrskurður Útlendingastofnunar dags. 18.03.2005 um að synja beiðni stefnanda um hæli á Íslandi sem flóttamanni.
Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á að fá dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.
Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda... ”
Í beiðninni kemur fram að í úrskurði Útlendingastofnunar sem dómsmálaráðuneytið staðfesti sé tekið fram að beiðandi skuli vera brott af Íslandi svo fljótt sem verða má. Af þeim sökum sé honum nauðsynlegt að fá skjóta úrlausn máls síns þar sem dómafordæmi Hæstaréttar gefi til kynna að eftir að útlendingum hefur verið vísað úr landi hafi þeir ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn sinna mála fyrir dómstólum hérlendis. Tekið er fram að beiðandi sé nígerískur ríkisborgari, fæddur 2. janúar 1967. Vegna ófriðar- og ófremdarástands í Nígeríu hafi honum verið sá kostur lífsnauðsynlegur að flýja heimaland sitt. Ef honum verði gert að snúa aftur til Nígeríu, þar sem lífi hans eða frelsi sé ógnað vegna kynþáttar hans, þjóðernis, aðildar að sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, gegn vilja sínum, þá bíði hans ómannúðlegar refsingar, ofsóknir og jafnvel dauði, sbr. meðfylgjandi gögn.
Vísað er til XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 123. gr. Samkvæmt því ákvæði geti aðili óskað eftir flýtimeðferð máls vegna ákvörðunar stjórnvalds ef brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans. Beiðandi vísar til meðfylgjandi gagna um brýna þörf á skjótri úrlausn og stórfellda hagsmuni hans. Eins og í meðfylgjandi gögnum greini þá sé hætta á að hans bíði m.a. ofsóknir, ítrekaðar árásir og jafnvel dauði ef hann sé neyddur til að snúa aftur til heimalands síns. Hér sé því um líf og velferð hans að ræða.
Í úrskurði Útlendingastofnunar dags. 18.03.2005 var komist að þeirri niðurstöðu að aðstæður Reginalds Iheme væru ekki slíkar að hann ætti rétt á eða hefði þörf fyrir vernd í skilningi alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og laga um útlendinga nr. 96/2002. Var því ekki fallist á að hann sé flóttamaður í skilningi 2. tl. A-liðar flóttamannasamningsins eða ákvæða útlendingalaganna og var beiðni hans um hæli hér á landi synjað með vísan til 44.- 46. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá þótti heldur ekki koma til álita að veita honum dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi á grundvelli 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga. Með úrskurði dómsmálaráðuneytisins dags. 31.08.2005 var úrskurður Útlendingastofnunar staðfestur auk þess sem kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar Útlendingastofnunar var hafnað.
Svo sem fram kemur í gögnum máls og rakið er í greindum úrskurðum kom Reginald Iheme til Íslands með flugi frá Stokkhólmi þann 29. september 2004. Hann var á leið til Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi. Hann var með farmiða til Boston og framvísaði vegabréfi, sem var útgefið í Svíþjóð. Það reyndist tilheyra öðrum manni. Þegar honum var tilkynnt um það að hann fengi ekki að halda för sinni áfram sótti hann um hæli hérlendis. Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti hann m.a. aðdraganda að stofnun samtakanna MASSOB ( Movement for Actualization of the Sovereign State of Biafra), sem starfrækt hafa verið í austurhluta Nígeríu frá því á gekk til liðs við hreyfinguna og aftur var farið að tala um aðskilnað austurhlutans (Biafra) frá Nígeríu. Starfsemi samtakanna hafi vakið athygli nígerskra stjórnvalda og ofsóknir hófust gegn meðlimum samtakanna. Beiðandi kvaðst ekki hafa verið félagi í þessum samtökum, en haft samúð með þeim. Í viðtalinu gerði hann grein fyrir afskiptum lögreglu af sér vegna gruns um aðild að þessum samtökum.
Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að það sé mat ráðuneytisins að ekkert í frásögn beiðanda komi í veg fyrir að hann verði sendur aftur til Nígeríu og að hans bíði ekki misþyrmingar, pyntingar eða dauði, verði hann endursendur, eins og hann hefur lýst. Fjöldamörg ríki senda ríkisborgara Nígeríu til síns heima eftir að neikvæður úrskurður hefur fallið vegna umsóknar um hæli, en engar fyrirliggjandi upplýsingar séu til um það að ríkisborgarar Nígeríu sem sótt hafa um hæli á erlendri grund megi eiga von á vansæmandi meðferð við heimkomu.
Af greindum úrskurðum og meðfylgjandi gögnum, þ.m.t. frásögn beiðanda sjálfs í viðtali hjá Útlendingastofnun, verður ekki ráðið að um líf og velferð hans sé að ræða, ef honum er gert að snúa aftur til heimalands síns. Verður því ekki talið, eins og atvikum er hér háttað, að uppfyllt sé það skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir flýtimeðferð að málið varði stórfellda hagsmuni beiðanda.
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Þá var kröfu beiðanda um frestun réttaráhrifa úrskurðar Útlendingastofnunar hafnað með úrskurði ráðuneytisins. Þegar þetta er virt verður ekki heldur séð að uppfyllt sé það skilyrði flýtimeðferðar að brýn þörf sé á skjótri úrlausn.
Samkvæmt framansögðu er hafnað beiðni Reginalds Ihem um flýtimeðferð máls sem hann ætlar að höfða á hendur íslenska ríkinu til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun dómsmálaráðuneytisins þar sem honum var synjað um hæli á Íslandi sem flóttamanni. Jafnframt er synjað um útgáfu stefnu.
Eggert Óskarsson varadómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er beiðni Reginalds Ihem um flýtimeðferð máls sem hann ætlar að höfða á hendur íslenska ríkinu til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun dómsmálaráðuneytisins þar sem honum var synjað um hæli á Íslandi sem flóttamanni. Jafnframt er synjað um útgáfu stefnu.