Hæstiréttur íslands

Mál nr. 588/2006


Lykilorð

  • Samningur
  • Aðild
  • Skuldamál


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. maí 2007.

Nr. 588/2006.

Klettur verkfræðistofa ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Samningur. Aðild. Skuldamál.

Atvik málsins eru þau að forstöðumaður hjá Umhverfisstofnun leitaði til Ó jarðfræðings með beiðni um að hann skoðaði vegarstæði við Jökulsá á Fjöllum vegna fyrirhugaðrar vegalagningar á svæðinu. Ágreiningur reis með aðilum um greiðslu fyrir verkið. Í krafðist sýknu á grundvelli aðildarskorts þar sem hann hefði engin lögskipti átt við K verkfræðistofu heldur einungs við Ó. Í málinu lá fyrir að Ó starfaði hjá K. Í hafði ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir beiðni hans hefði verið sú að Ó gerði reikning vegna verksins í eigin nafni né hefði verið rökstutt að það gæti skipt máli fyrir réttarstöðu hans hvort K eða Ó sæktu reikningskröfuna á hendur honum. Var því ekki fallist á kröfu Í um sýknu vegna aðildarskorts. Varakröfu sína reisti Í á því að greinargerð Ó hefði verið afar rýr að efni til, ófullkomin og í engu samræmi við þann tímafjölda sem krafist var greiðslu fyrir. Þar sem Í lagði ekki fram nein haldbær gögn til stuðnings þessum fullyrðingum sínum varð með hliðsjón af meginreglu kröfuréttar, sem fram kemur í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að fallast á framkomna kröfu K um verklaun. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 20. september 2006, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 1. nóvember 2006. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 15. nóvember 2006. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 577.307 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. febrúar 2006 til greiðsludags. Til vara krefst hann 152.000 króna með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að hann verði dæmdur til að greiða áfrýjanda 152.000 krónur og að málskostnaður verði felldur niður.

Eins og greinir í héraðsdómi hefur stefndi reist varnir sínar á aðildarskorti, þar sem hann hafi engin lögskipti átt við áfrýjanda heldur Óskar Knudsen jarðfræðing. Fram er komið að Árni Bragason, forstöðumaður náttúrverndar- og útivistarsviðs Umhverfisstofnunar, leitaði til Óskars með beiðni um að hann skoðaði vegarstæði við Jökulsá á Fjöllum í þeim tilgangi að meta svæðið með tilliti til fyrirhugaðrar vegalagningar. Óskar skilaði skýrslu um verkið sem dagsett er 31. desember 2004 og vegna vinnu hans gaf áfrýjandi út reikning 1. febrúar 2005. Með reikningnum fylgdi vinnuskýrsla Óskars. Hinn 28. febrúar 2005 sendi lögmaður áfrýjanda innheimtubréf vegna reikningsins. Með bréfi Umhverfisstofnunar 7. mars 2005 til lögmanns áfrýjanda var reikningskröfunni andmælt á þeim grunni að reikningsfjárhæðin væri of há miðað við umfang og afrakstur vinnu Óskars. Í tilefni af andmælum þessum skrifaði Óskar greinargerð 7. júní 2005 sem mun hafa verið send Umhverfisstofnun. Í kjölfarið höfðaði áfrýjandi málið.

Andmæli stefnda á þeim grunni að reikningsgerð stafaði frá röngum aðila komu fyrst fram í greinargerð hans í héraði. Fram er komið að Óskar starfaði hjá áfrýjanda sem meðal annars annast almenna verkfræðiráðgjöf eins og þá sem hér um ræðir. Ekki liggur fyrir skrifleg verkbeiðni og hefur stefndi hvorki sýnt fram á að skilyrði fyrir beiðni hans hafi verið að Óskar gerði reikning vegna verksins í eigin nafni, né rökstutt að það geti skipt hann máli hvort áfrýjandi eða Óskar sæki reikningskröfuna. Þá hefur stefndi ekki vefengt að reikningurinn hafi verið gefinn út í nafni áfrýjanda með vitund og vilja Óskars, enda hefur Óskar borið fyrir dómi að sami háttur hafi verið hafður á við reikningsgerð vegna fyrri starfa hans í þágu ýmissa aðila. Þegar litið er til framangreinds um samskipti aðila fyrir og eftir reikningsgerð stefnda og höfð hliðsjón af dómi Hæstaréttar á blaðsíðu 65 í dómasafni réttarins 1997, mál nr. 277/1996, verður ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts.

Stefndi hefur ekki vefengt fjárhæð tímagjalds sem áfrýjandi reisir kröfu sína á heldur einungis andmælt því hversu langan tíma verkið hafi tekið og talið að niðurstöður greinargerðar um verkið séu rýrar að efni til og ófullkomnar. Auk þess hefur hann mótmælt fjárhæð kröfu um bifreiðakostnað og dagpeninga. Hann hefur hins vegar ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings andmælum sínum, til dæmis með því að afla matsgerðar um reikningsgerð áfrýjanda. Vegna þess og með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar sem meðal annars kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup ber að fallast á framkomna kröfu áfrýjanda um verklaun. Þá hefur krafa hans um greiðslu vegna aksturs og dagpeninga nægilega stoð í reglum stefnda þar um.

Eftir þessum úrslitum skal stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Kletti verkfræðistofu ehf., 577.307 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. febrúar 2006 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

        Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2006.

        Mál þetta var höfðað 14. júní 2005 og var dómtekið 23. maí sl.   

        Stefnandi er Verkfræðistofan Klettur ehf., Bíldshöfða 12, Reykjavík.

        Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur

        Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð  577.307 krónur ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. febrúar 2005, til greiðsludags.  Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, fyrst 16. febrúar 2006.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

        Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að krafa stefnanda á hendur stefnda verði lækkuð um 425.307 krónur, þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 152.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags og að stefnandi verði að auki dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi.

Málavextir

        Stefnandi kveður umstefnda skuld tilkomna vegna vinnu starfsmanns stefnanda, Óskars Knudsen, við skoðun á vegarstæði við Jökulsá á Fjöllum.  Tilgangur skoðunarinnar hafi verið að meta það svæði við Jökulsá á Fjöllum og draga fram helstu atriði sem á því svæði eru með tilliti til fyrirhugaðrar vegalagningar.  Beiðni um að vinna verkið hafi borist frá þjóðgarðsverðinum í Jökulsárgljúfrum, Sigþrúði Stellu Jóhannsdóttur, og Árna Bragasyni, starfsmanni hjá Umhverfistofnun.

        Ekki hafi komið fram í beiðni verkbeiðanda að það væri skilyrði fyrir því að verkið yrði unnið að akstur yrði greiddur af öðrum verkkaupa.  Eingöngu hafi verið minnst á að hentugt væri fyrir stefnanda að vinna verkið í sama mund og önnur verk, ef einhver væru á svæðinu.

        Engar óskir hafi borist frá verkbeiðanda um ferðamáta og stefnandi hafi því verið knúinn til að skaffa eigin bifreið sem starfsmaður stefnanda hafi ekið norður og hafi sama bifreið einnig verið nýtt við rannsóknir starfsmanns stefnanda og starfsmanns þjóðgarðsins, Kára Kristjánssonar, á ofangreindu svæði.

        Stefnandi hafi unnið umbeðið verk á eins hagkvæman hátt og verða mátti á umræddum tíma og hafi sent reikning fyrir unnu starfi að því loknu.  Stefnandi hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir og sé því knúinn til að stefna kröfu sinni til greiðslu.

        Af hálfu stefnda er því haldið fram að í byrjun árs 2004 hafi Árni Bragason, forstöðumaður hjá Umhverfis­stofnun, haft samband við Óskar Knudsen á heimili hans og óskað eftir því að hann færi um svæðið sunnan við Dettifoss að þjóðvegi nr. 1 ásamt starfsmanni þjóðgarðsins næst þegar hann yrði á ferðinni á svæðinu.  Óskar hafi stundað rannsóknir á svipuðu svæði, þ.e. svæðinu frá Kverkfjöllum niður í Möðrudal, nánar tiltekið meðfram Jökulsá á Fjöllum.  Þar sem ætlunin hafi verið að verkið tengdist öðrum störfum Óskars á svæðinu hafi ekki verið samið um tiltekinn tíma til að vinna verkið heldur að hann sinnti verkinu þegar hann ætti næst leið um svæðið vegna starfa sinna þar og því yrði ekki greiddur ferðakostnaður vegna verksins.  Óskar hafi reiknað með að vera á svæðinu við rannsóknir sumarið 2004.  Verkið fólst í að fara með Jökulsá á Fjöllum sunnan Dettifoss að þjóðvegi í samráði við þjóðgarðsvörð í þeim tilgangi að draga fram hvort þar væri eitthvað sem varast skyldi við vegagerð um svæðið og vert væri að vernda.  Engin samskipti hafi verið við Óskar þar til að hann hafi skyndilega birst þar með konu sinni 17. ágúst 2004 án þess að gera boð á undan sér, hafi tjaldað í þjóðgarðinum og sagst vera kominn til að skoða svæðið milli Dettifoss og þjóðvegar nr. 1.  Hafi hann ekki haft nein gögn meðferðis og hafi fengið lánaða hjá þjóðgarðsverði skýrslu um tillögu að matsáætlun Dettifossvegar.  Hafi rannsókn Óskars tekið tvo daga (16 klukkustundir) og hafi hann m.a. tekið margar myndir sem þó komi ekki fram í skýrslu hans að verki loknu.  Í desember sama ár hafi Árni Bragason enn hringt heim til Óskars og hafi fengið þau svör að Óskar væri við vinnu sína í Verslunarskóla Íslands.  Hafi Árni hringt þangað og náð sambandi við Óskar og krafið hann um skil á greinargerð vegna ferðarinnar í lok ágúst.  Til að hjálpa Óskari við vinnuna hafi Árni sent heim til Óskars loftmyndakort frá Vegagerðinni sem sýni veglínur.  Bréf Óskars, dagsett á gamlársdag 2004, ásamt viðauka, sem telja verði niðurstöðu vettvangsferðarinnar, jafnvel þótt hún sé stíluð á Vegagerðina, og stefnanda verkfræðistofunnar Kletts ehf. sé hvergi getið, sé ótrúlega rýrt og segi lítið eftir dagsferð sérfræðings um svæðið, hvað þá eftir tveggja daga ferð eins og Óskar fullyrði að um hafi verið að ræða.  Lýsingar hafi verið almenns eðlis og segi fátt annað en ráða megi af skoðun loftmynda.  Engar myndir hafi verið í greinargerðinni eða annað til að undirbyggja fullyrðingar og ályktanir í bréfi.  Aldrei hafi annað komið fram en að Óskar kæmi að málinu sem einstaklingur sem væri við rannsóknir á svæðinu og stefnanda, Verkfræðistofunnar Kletts ehf., hafi aldrei verið getið, hvað þá að Óskar nefndi að hann væri starfsmaður stefnanda.  Nafn stefnanda hafi fyrst komið fram þegar reikningurinn barst frá stefnanda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

        Stefnandi byggir kröfur sína á því að um verkið hafi verið beðið af Umhverfisstofnun.  Verkið hafi því verið unnið samkvæmt beiðni þar um.  Byggir stefnandi á að verkbeiðnin hafi verið staðfest með bréfi Umhverfisstofnunar 7. mars 2005 og hafi stofnunin sönnunarbyrði fyrir því að kostnaðurinn sé ósanngjarn, en stefnandi eigi rétt á verklaunum fyrir verk sitt.  Hafi starfsmaður stefnanda, Óskar Knudsen, hagað vinnunni eins og hann hafi talið nauðsynlegt svo verkið yrði unnið á fullkominn hátt og hafi verkbeiðnin ekki verið skilin á annan hátt en svo skyldi gert.

        Skuldin sé samkvæmt reikningi dagsettum 1. febrúar 2005, með eindaga 15 dögum seinna, sem merktur sé stefnanda og stílaður á Umhverfisstofnun.  Sé stefnukrafa þannig fundin:

        Vinnustundir verkfræðings  48,0 x 7000 336.000 kr.

        Dagpeningar 3 dagar x 15.700        47.100 kr.

        Akstur 1300 km x 62   80.600 kr.

        Vsk.   113.607 kr.

        Samtals.         577.307 kr.

 

        Sé reikningurinn byggður á gjaldskrá stofunnar og dagpeningaþóknun og akstur á leiðbeiningum ríkisskattstjóra.

        Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum verktakaréttar, kröfuréttar, samningaréttar  og meginreglum kauparéttar.  Skírskotað er til 45. greinar kaupalaga og til ákvæða VII. kafla laga um þjónustukaup.

        Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

        Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðildarskorti stefnanda að máli þessu.  Umhverfisstofnun hafi samið munnlega við Óskar Knudsen um að vinna fyrir stofnunina tiltekið verk, með tilteknum hætti, og hafi Óskar Knudsen skilað skýrslu í eigin nafni án þess að senda reikning vegna verksins.  Umhverfisstofnun hafi engin samskipti átt við starfsmenn stefnanda, Verkfræðistofuna Klett ehf., vegna verksins. 

        Varakröfu sína byggir stefndi á að krafa stefnanda um greiðslu fyrir vinnu við skoðun á vegstæði við Jökulsá á Fjöllum sé ekki í samræmi við gangverð fyrir sams konar vinnu og sé krafan bersýnilega ósanngjörn.  Niðurstöður stefnanda séu afar rýrar að efni til og ófullkomnar, auk þess að vera í engu samræmi við þá vinnu sem stefnandi telur sig hafa lagt í verkið, alls 32 klukkustundir auk aksturs.  Samkomulag hafi verið milli aðila um að stefndi greiddi stefnanda ekki ferðakostnað vegna verkefnisins, heldur kæmi stefnandi sér sjálfur á staðinn stefnda að kostnaðarlausu.  Verkið hafi því ekki verið unnið á þann hagkvæmasta hátt sem unnt hafi verið og samkomulag var um.  Þá séu útreikningar á dagpeningum og akstursgjaldi rangt reiknaðir að teknu tilliti til þeirra auglýsinga sem í gildi voru er ferðin var farin.  Upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda sé jafnframt hafnað sem röngum.

        Stefndi byggir kröfur sína á almennum reglum verktakaréttar, kröfuréttar, samningaréttar og meginreglum kauparéttar.  Skírskotað er til 45. gr. kaupalaga.  Um aðildarskort vísast til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Um dráttarvexti styðst stefndi við 5. og 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.  Kröfur um málskostnað styður stefndi við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

        Af hálfu stefnda er því haldið fram og á því byggt að stefnandi sé ekki réttur aðili þessa máls.  Umhverfisstofnun hafi samið við Óskar Knudsen um að vinna tiltekið verk með tilteknum hætti en hafi ekki samið við stefnanda, Verkfræðistofuna Klett ehf.  Krefst stefndi því sýknu vegna aðildarskorts.

        Fram er komið að á vordögum 2004 leitaði Árni Bragason, forstöðumaður náttúruverndar- og útivistarsviðs Umhverfisstofnunar, til Óskars Knudsen jarðfræðings með beiðni um að Óskar skoðaði vegarstæði við Jökulsá á Fjöllum í þeim tilgangi að meta svæðið og draga fram helstu atriði sem á svæðinu eru með tilliti til fyrirhugaðrar vegalagningar.  Var um það rætt þeirra í millum að hentugt væri ef þessi rannsókn gæti farið fram í tengslum við aðrar rannsóknir sem Óskar væri að vinna að á svæðinu.

        Fyrir liggur að Óskar mætti á svæðið í ágúst 2004 og hafði samband við þjóðgarðsvörð, Sigþrúði Stellu Jóhannsdóttur, sem bauð Óskari að starfsmaður hennar færi með honum um svæðið.  Samkvæmt framburði Sigþrúðar fyrir dómi heyrir starf hennar undir Umhverfisstofnun.

        Dráttur varð á því að Óskar skilaði skýrslu um rannsókn sína og bar Árni Bragason að hann hefði haft samband við Óskar 7. desember 2004 til þess að reka á eftir skýrslunni.  Kvaðst Árni hafa sent Óskari kort með vegalínum til þess að auðvelda honum skýrslugerðina.

        Skýrsla Óskars barst Umhverfisstofnun í byrjun janúar 2005.  Reikningur frá stefnanda er dags. 1. febrúar 2005.  Samkvæmt framburði Árna Bragasonar fyrir dómi kom það mjög á óvart að reikningur stafaði frá Verkfræðistofunni Kletti ehf.  Innheimtubréf frá lögmanni stefnanda er dags. 28. febrúar 2005.  Af hálfu stefnda er sent bréf til lögmanns stefnanda 7. mars 2005 þar sem lýst er óánægju með greinargerð Óskars og reikningi mótmælt á þeirri forsendu að hann sé í engu samræmi við það sem um hafi verið rætt og í engu samræmi við þá greinargerð sem Óskar hafi gert eftir ferðina.  Hinn 7. júní 2005 svarar Óskar Knudsen þessu bréfi Umhverfisstofnunar.

        Fram er komið að starfsmaður Umhverfisstofnunar, Árni Bragason, leitaði til Óskars Knudsen og samdi við hann um það verk sem deilt er um í máli þessu.  Bar Árni fyrir dómi að samskiptin hefðu farið fram með þeim hætti að hann hefði hringt heim til Óskars eða í Verslunarskólann þar sem hann var að kenna.  Fram er komið, sbr. framburð Þorgríms Eiríkssonar, framkvæmdastjóra stefnanda, að Óskar hefur starfað hjá stefnanda að einstökum verkefnum sem tengjast sérsviði hans.  Hins vegar  liggur ekki fyrir að Árna hafi verið kunnugt um það eða að Óskar hafi upplýst Árna um að hann væri starfsmaður Verkfræðistofunnar Kletts ehf. og að hann kæmi til með að vinna verkið á vegum verkfræðistofunnar.   Greinargerð sú sem Óskar skilaði af sér er undirrituð af Óskari Knudsen, Fannafold 122, Reykjavík, og ber hún ekki með sér að vera unnin á vegum stefnanda.  Athugasemdum Umhverfisstofnunar í bréfi 7. mars 2005 svarar Óskar Knudsen persónulega, eins og áður er getið.

        Þegar þetta er virt þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi samið við Umhverfisstofnun um umrætt verk.  Gegn andmælum stefnda er ósannað að samningssamband hafi stofnast milli stefnanda og stefnda í máli þessu um það verk er Óskar Knudsen vann að beiðni Umhverfisstofnunar.  Ber því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

        Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.

        Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

         Stefndi, íslenska ríkið vegna Umhverfisstofnunar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Verkfræðistofunnar Kletts ehf.

         Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.