Hæstiréttur íslands
Mál nr. 238/2006
Lykilorð
- Samningur
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 14. desember 2006. |
|
Nr. 238/2006. |
Jöklar verðbréf hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Glitni banka hf. (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) og gagnsök |
Samningur. Málsástæður.
Með samkomulagi milli bankans G hf. og lífeyrissjóðsins F frá 6. júní 2003 fól lífeyrissjóðurinn bankanum innheimtu allra skuldabréfa í eigu lífeyrissjóðsins auk þess sem samið var um vaxtakjör sjóðsins hjá bankanum. Deilt var um hvernig skilja bæri tiltekið ákvæði í samningnum þar sem fram kom að umsamin vaxtakjör skyldu einnig gilda fyrir reikninga tengdra félaga við lífeyrissjóðinn en meðal þeirra var J hf., sem er verðbréfafyrirtæki. Laut kjarni ágreiningsins að því hvort samkomulagið tæki eingöngu til reikninga sem J hf. stofnaði í eigin nafni eða einnig til fjárvörslureikninga sem J hf. stofnaði vegna annarra, en hafði eitt ráðstöfunarrétt yfir. Var talið að öll rök hnigju að því að viðsemjandi bankans, lífeyrissjóðurinn F, og J hf. sjálft hafi mátt ætla að samkomulagið tæki bæði til reikninga sem skráðir voru á nafn J hf., sem verðbréfafyrirtækis, og fjárvörslureikninga þess þar sem nafn eiganda innlánsfjárins var jafnframt tilgreint. Yrði G hf. að bera hallann af því að hafa ekki tekið sérstaklega fram í samkomulaginu ef bankinn vildi undanskilja fjárvörslureikninga J hf. sem stofnaðir yrðu í framtíðinni með þeim hætti að getið væri nafns þess sem reikningur væri stofnaður fyrir. Mátti J hf. gera ráð fyrir að fjárvörslureikningur sem félagið stofnaði vegna lífeyrissjóðs A 15. janúar 2004 hjá G hf. myndi njóta hinna umsömdu kjara, á sama hátt og reikningar lífeyrissjóðsins F og lífeyrisjóðs V sem voru á hans vegum. Var krafa J hf. um vangoldna vexti því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. maí 2006. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 26.377.324 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 14.434.172 krónur með sömu dráttarvöxtum. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi hefur tekið við aðild málsins af Íslandsbanka hf. Hann skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2006 og krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með samkomulagi 6. júní 2003 á milli Íslandsbanka hf., útibús að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík, og Lífeyrissjóðsins Framsýnar var bankanum falin innheimta allra skuldabréfa í eigu lífeyrissjóðsins auk þess sem samið var um vaxtakjör sjóðsins hjá bankanum. Skyldu vextir fara stigvaxandi með hærri fjárhæð innlána. Einnig var samið um að þessi vaxtakjör skyldu gilda „fyrir reikninga tengdra félaga í útibúinu, ss. Jöklar verðbréf, Líf.sj. Hlífar og Framtíðar og Alm. Líf.sj. iðnaðarmanna.“ Samkomulagið byggði á eldri munnlegum samningi sem staðfestur hafði verið með bréfi þáverandi útibússtjóra til Lífeyrissjóðsins Framsýnar 11. febrúar 1997. Lífeyrissjóðurinn var við samningsgerðina 2003 meðal eigenda aðaláfrýjanda, sem er verðbréfafyrirtæki eins og nafnið ber með sér. Eðli málsins samkvæmt er því ljóst að hlutverk hans er fyrst og fremst að varðveita og ávaxta fé skjólstæðinga sinna. Eftir áralangt viðskiptasamband hlaut gagnáfrýjanda að vera ljóst í júní 2003 að þetta var hlutverk aðaláfrýjanda, en hann ávaxtaði verulegar fjárhæðir hjá gagnáfrýjanda vegna Lífeyrissjóðsins Framsýnar, Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og síðar einnig Lífeyrissjóðs Austurlands.
Óumdeilt er að aðaláfrýjandi naut vaxtakjara samkvæmt samkomulaginu frá 6. júní 2003. Kjarni ágreinings aðila í þessu máli lýtur að því hvort samkomulagið tók eingöngu til reikninga sem aðaláfrýjandi stofnaði í eigin nafni eða einnig til fjárvörslureikninga sem hann stofnaði vegna annarra, en hafði einn ráðstöfunarrétt yfir. Af yfirliti sem gagnáfrýjandi gerði um vaxtakjör á fyrri hluta árs 2002, samkvæmt samkomulagi staðfestu 11. febrúar 1997, sést að aðaláfrýjandi var á þeim tíma í viðskiptum hjá gagnáfrýjanda og var bæði með reikninga á eigin nafni og reikning sem skráður var þannig: „Lífeyrissj. Vestm./Jöklar-verðbréf“. Þessir reikningar nutu hinna umdeildu vaxtakjara. Hvað sem líður eldri viðskiptum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og gagnáfrýjanda er ljóst að á þeim tíma sem hér skiptir máli var þessi lífeyrissjóður meðeigandi að aðaláfrýjanda og hafði aðaláfrýjandi stofnað reikning vegna hans hjá gagnáfrýjanda 16. október 2001. Á umsóknareyðublaðinu er umsækjandi tilgreindur sem Lífeyrissjóður Vestamannaeyja en nafn aðaláfrýjanda jafnframt tilgreint á því. Þetta er sá reikningur sem nefndur er á framangreindu yfirliti. Sama dag stofnaði aðaláfrýjandi reikning fyrir Lífeyrissjóðinn Framsýn með sama hætti. Reikningur Lífeyrissjóðs Austurlands var stofnaður á sama hátt 15. janúar 2004, en á þeim tíma var sá lífeyrissjóður orðinn einn eigenda aðaláfrýjanda. Þegar ágreiningur kom upp um vaxtakjör á síðastgreindan reikning í ársbyrjun 2005, benda gögn málsins til þess að aðaláfrýjandi hafi flutt inneign á honum yfir á reikning í útibúinu, sem eingöngu bar hans nafn og naut þar með vaxtakjara samkvæmt samkomulaginu. Gagnáfrýjandi hefur ekki andmælt því að aðaláfrýjandi njóti kjaranna fyrir þá innlánsreikninga sem skráðir eru á nafn hans eins.
Vaxtakjör samkvæmt samkomulaginu benda til þess að markmið gagnáfrýjanda hafi verið að hvetja til sem mestra innlána. Eins og mál þetta liggur fyrir hníga öll rök að því að viðsemjandi gagnáfrýjanda 6. júní 2003, Lífeyrissjóðurinn Framsýn, og aðaláfrýjandi sjálfur hafi mátt ætla að samkomulagið tæki bæði til reikninga sem skráðir voru á nafn aðaláfrýjanda og fjárvörslureikninga hans, þar sem nafn eiganda innlánsfjárins var jafnframt tilgreint. Gagnáfrýjandi verður að bera hallann af því að hafa ekki tekið sérstaklega fram í samkomulaginu ef hann vildi undanskilja fjárvörslureikninga aðaláfrýjanda sem stofnaðir yrðu í framtíðinni með þeim hætti að getið væri nafns þess sem reikningur væri stofnaður fyrir. Aðaláfrýjandi mátti gera ráð fyrir að fjárvörslureikningur sem hann stofnaði vegna Lífeyrissjóðs Austurlands hjá gagnáfrýjanda myndi njóta hinna umsömdu kjara, á sama hátt og reikningar Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem voru á hans vegum, enda blasir við að aðaláfrýjandi hefði að öðrum kosti ekki stofnað slíkan reikning til geymslu fjármuna lífeyrissjóðsins. Verður samkomulagið frá 6. júní 2003 ekki með skynsamlegum hætti skilið á annan veg en þann að það taki til aðaláfrýjanda sem verðbréfafyrirtækis og þar með þeirra reikninga sem hann stofnar hjá gagnáfrýjanda vegna þeirrar starfsemi, jafnvel þó að ljóst sé að þeir séu stofnaðir í þágu tilgreindra viðskiptamanna aðaláfrýjanda.
Höfuðstóll aðalkröfu aðaláfrýjanda byggist á útreikningi gagnáfrýjanda á vöxtum samkvæmt samkomulaginu, að frádreginni þeirri fjárhæð sem greidd var í vexti fyrir árið 2004. Þykir krafan nægilega rökstudd og er tekin til greina. Upphafstíma dráttarvaxta var ekki sérstaklega mótmælt við meðferð málsins í héraði. Komu mótmæli um þetta fyrst fram í greinargerð gagnáfrýjanda í Hæstarétti. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru mótmælin of seint fram komin. Verður dráttarvaxtakrafa aðaláfrýjanda því tekin til greina.
Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Glitnir banki hf., greiði aðaláfrýjanda, Jöklum verðbréfum hf., 26.377.324 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2006.
Mál þetta var höfðað 18. október 2005 og dómtekið 21. f.m.
Stefnandi er Jöklar Verðbréf hf., Sætúni 1, Reykjavík.
Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 26.377.324 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. III. kafla sömu laga frá 1. janúar 2005 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I
Þann 6. júní 2003 var undirritað samkomulag um viðskipti útibús stefnda á Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík og Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Þar er í upphafi kveðið á um að Lífeyrissóðurinn Framsýn feli bankanum innheimtu allra skuldabréfa í sinni eigu, hvort sem um sé að ræða lán til sjóðsfélaga eða annarra verðbréfa. Í samningnum er kveðið á um innheimtuferli og kostnað. Þar er einnig kveðið á um “Kjör á reikningum Framsýnar”. Þar segir að innlánsvextir miðist við ávöxtun á verðbréfamarkaði, kauptilboð í 5 ára ríkisskuldabréf á VÞÍ auk 0,20% álags og á þann grunn reiknist síðan sérstakt álag, stighækkandi eftir meðalstöðu; vextir þessir skyldu taka gildi 1. janúar 2003 og verða endurreiknaðir samkvæmt samningnum. Síðan segir: “Ofangreindir vextir gilda einnig fyrir reikninga tengdra félaga í útibúinu, ss. Jöklar verðbréf, Líf.sj. Hlífar og Framtíðar og Alm. Líf.sj. iðnaðarmanna.”
Áður hafði verið í gildi samkomulag sem kemur fram af bréfi útibússtjóra stefnda á Suðurlandsbraut 30, dags. 11. febrúar 1997, til Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Þar er kveðið á um sérkjör á hlaupareikningi sjóðsins fyrir árið 1997 “eða þá reikninga sem iðgjaldatekjur koma inn á.” Þá liggur frammi yfirlit vaxtaútreiknings sem bankaútibúið sendi Lífeyrissjóðnum Framsýn með tilvísun í framangreint samkomulag frá 11. febrúar 1997 fyrir útreikningstímabilið janúar-ágúst 2002. Þar eru tilgreindur sem reikningshafar eða eigendur reikninga Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Lífeyrissjóður Hlífar og Framtíðar, Jöklar-verðbréf hf., Lífeyrissj. Vestmannaeyja/Jöklar-verðbréf og Alm. lífeyrissjóður iðnaðarmanna.
Þann 15. janúar 2004 stofnaði stefnandi tékkareikning nr. 5965 í þágu Lífeyrissjóðs Austurlands í hinum stefnda banka. Á umsóknareyðublaði er sótt um reikning fyrir Lífeyrissjóðs Austurlands/Jöklar Verðbréf. Umsóknin er undirrituð af Jónasi Dalberg, framkvæmdastjóra stefnanda, og tekið fram að hann hafi einn umboð til úttekta af reikningnum, m.a. með útgáfu tékka. Áður, eða 16. október 2001, hafði á sama hátt verið stofnað til tékkareikninga nr. 5975 í þágu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og nr. 5985 í þágu Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.
Í tölvupósti framkvæmdastjóra stefnanda til Vilborgar Þórarinsdóttur, útibússtjóra stefnda í útibúinu Suðurlandsbraut 30, sem hann sendi 12. janúar 2005 varðandi Lífeyrissjóð Austurlands, spyr hann: “Get ég ekki gengið að því vísu að vaxtakjörin fyrir 0526-26-005965 verði þau sömu fyrir árið 2004 og á öðrum reikningum sem eru á vegum Jökla? (509, 5995, 5975, 5985). ” Svar Vilborgar Þórarinsdóttur, sem var sent í tölvupósti 17. febrúar 2005, er svohljóðandi. “Við erum tilbúin að greiða lífeyrissjóði Austurlands vexti skv. Verðbréfareikningi Íslandsbanka. Vextir Verðbréfareiknings taka mið af fjármagnsmarkaði á hverjum tíma. Vextir verðbréfareiknings fyrir árið 2004 voru 4,56% eða kr. 15.508.602. Ef reiknað hefði verið með vöxtum Framsýnar hefðu vextir fyrir árið 2004 verið 8,18% heildarvextir 27.451.754.”
Með bréfi stefnanda til stefnda, dags. 16. mars 2005, var, með vísun til framangreinds samkomulags frá 6. júní 2003, farið fram á að “Íslandsbanki, útibú Suðurlandsbraut 30, greiddi umsamda vexti af innstæðu ofangreinds reiknings eins og samningurinn kveður á um. . .” Erindið var ítrekað 12. apríl 2005. Svarbréf er dagsett 12. apríl 2005. Þar er að meginefni vísað til þess að samkvæmt umræddum samningi hafi verið um að ræða óvenjulega hagstæð samningskjör, sérkjör, sem hafi eingöngu verið veitt með tilliti til eldri viðskipta Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Lífeyrissjóðir Hlífar, Framtíðar og Iðnaðarmanna séu hluti Lífeyrissjóðsins Farmsýnar. Jöklar Verðbréf hf. sé vissulega tilgreint í samningnum sem tengt félag en því fari fjarri að samningnum sé ætlað að taka til þeirra félaga sem eigi Jökla Verðbréf. Samkvæmt þessu sé ekki hægt að verða við beiðni stefnanda en útibú bankans á Suðurlandsbraut 30 vilji ítreka fyrra boð sitt. Fram er komið að það tilboð hafi ekki verið samþykkt.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda kröfubréf 17. maí 2005. Þar segir m.a. að krafa sé gerð f.h. stefnanda máls þessa. enda sé um að ræða sameiginlegan reikning hans og Lífeyrissjóðs Austurlands auk þess sem téðir fjármunir varði fjárvörslu stefnanda í þágu lífeyrissjóðsins. Vísað er til þess að samkvæmt upplýsingum, sem fram komi í tölvupósti Vilborgar Þórarinsdóttur frá 17. febrúar 2005, hefðu vextir af reikningi nr. 5965 fyrir árið 2004 átt að vera 27.451.754 krónur. Krafist var greiðslu þeirrar fjárhæðar auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Framangreindri kröfu var hafnað með bréfi stefnda 20. september 2005.
Þá liggur frammi yfirlýsing Lífeyrissjóðs Austurlands, dags. 1. júní 2005, um framsal til stefnanda á kröfu sinni vegna vaxtakjara samkvæmt samkomulagi frá 6. júní 2003 um vexti á milli stefnda í máli þessu og Lífeyrissjóðsins Framsýnar.
II
Stefnandi byggir á því að hann svo og eigendur félagsins, þ.m.t. Lífeyrissjóður Austurlands, eigi rétt á þeim vaxtakjörum sem greind eru í samkomulagi stefnda og Lífeyrissjóðsins Framsýnar dags. 6. júní 2003. Í samkomulaginu, sem skrifað sé á bréfsefni stefnda og samið af honum, sé ekki að finna skilgreiningu á tengdum félögum. Þess í stað sé vísað til stefnanda og tilgreindra lífeyrissjóða með orðunum “svo sem”. Sé af því ljóst að vaxtakjörunum hafi verið ætlað að ná til annarra aðila en þeirra sem beinlínis voru tilgreindir og jafnframt að tengdir aðilar Framsýn voru sambærilegir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður Austurlands falli ótvírætt undir þá skilgreiningu. Þegar við bætist að hann hafi verið einn þriggja eigenda Jökla Verðbréfa hf. ásamt Framsýn sé vafalaust að Lífeyrissjóður Austurlands teljist eiga rétt til sömu vaxtakjara og greinir í téðu samkomulagi.
Höfuðstóll stefnukröfu nam 27.451.754 krónum en var lækkaður við aðalmeðferð um þá fjárhæð, 1.074.430 krónur, sem samkvæmt yfirliti sem þá var lagt fram nemur vöxtum sem færðir voru í árslok 2004 inn á umræddan reikning, nr. (526-26-)5965, þann 31. desember 2004 og samsvara 0,5% ársvöxtum af meðalinnstæðu ársins.
III
Af hálfu stefnda er á því byggt að umræddu samkomulagi frá 6. júní 2003 hafi aldrei verið ætlað að taka til þeirra félaga sem eigi stefnanda og taki ekki til Lífeyrissjóðs Austurlands.
Við túlkun samninga beri að grafast fyrir um þær ástæður og forsendur sem lágu að baki samningsgerð. Meginatriði samkomulagsins hafi verið gagnkvæm viðskipti. Stefndi hafi getað boðið Lífeyrissjóðnum Framsýn sérkjör þar sem hann hafi séð um að innheimta öll bréf sjóðsins, markaðsbréf sem og lán til sjóðsfélaga og fengið tekjur af innheimtunum. Sambærileg viðskipti séu ekki milli stefnda og Lífeyrissjóðs Austurlands.
Þegar samkomulagið hafi verið undirritað hafi stefnandi verið í eigu tveggja lífeyrissjóða, þ.e. Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Lífeyrissjóður Austurlands hafi eignast hlut í stefnanda árið 2004. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hafi fengið sérkjör sín á grundvelli eldri samninga en ekki verið aðili að því samkomulagi sem hér um ræðir.
Um umræddan samning segir að hann hafi verið gagnkvæmur og viðsemjandi stefnda vanur samningsgerð á þessu sviði. Samkvæmt meginreglu samningaréttar verði að gera sérlega ríkar kröfur til skýrleika viljayfirlýsingar vilji yfirlýsingargjafi öðlast óvenjulega hagstæð samningskjör.
Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að ósannað sé að honum hafi mátt vera ljóst að stefnandi sem og Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi litið svo á að reikningar stefnanda í umræddu útibúi stefnda í þágu eigenda sinna nytu sömu vaxtakjara, sérkjara. Samningsákvæði um tengd félög sé skýrt enda um tæmandi talningu að ræða og skammstöfunin “ss” vísi til “sama sem”.
IV
Sem fyrr greinir byggist kröfugerð stefnanda á framsali Lífeyrissjóðs Austurlands, dags. 1. júní 2005, á kröfu sinni vegna vaxtakjara samkvæmt samkomulagi frá 6. júní 2003 milli stefnda og Lífeyrissjóðsins Framsýnar um vexti og reynir á skýringu samningsákvæðisins: “Ofangreindir vextir gilda einnig fyrir reikninga tengdra félaga í útibúinu, ss. Jöklar verðbréf, Líf.sj. Hlífar og Framtíðar og Alm. Líf.sj. iðnaðarmanna.” Ekki er deilt um rétt sem stefnandi nýtur samkvæmt upptalningu í samkomulaginu.
Um gagnkvæman samning er að ræða og jafnræði með samningsaðilum. Vitnið Bjarni Brynjólfsson, þáverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar, og vitnið Vilborg Þórarinsdóttir, útibússtjóri stefnda, undirrituðu samkomulagið f.h. samningsaðila en einnig var viðstaddur vitnið Örn Arnþórsson, þáverandi skrifstofustjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Ekkert þeirra greindi frá orðaskiptum sem lytu að því að eigendur stefnanda skyldu njóta sérstakra vaxtakjara samkvæmt samkomulaginu. Bjarni Brynjólfsson bar að samkomulagið hefði verið skrifað í bankanum en hann hefði átt hugmyndina að gerð þess. Vilborg Þórarinsdóttir bar að samkomulagið hefði verið samið upp úr “gömlu skjali frá 1997” en með því er átt við framangreindan samning (yfirlýsingu) frá 11. febrúar 1997. Ekki er fram komið hvernig skilja beri skammstöfunina “ss” og verður ekki fullyrt að upptalning í samkomulaginu sé tæmandi. Meginúrlausnarefni er því hvað átt muni vera við með “tengdum félögum”. Ótvírætt verður talið að átt sé við þá aðila sem tengdust samningsaðilanum Lífeyrissjóðnum Framsýn.
Við samningsgerðina voru eigendur stefnanda Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Lífeyrissjóður Austurlands eignaðist hlut í stefnanda í janúar 2004. Þá er upplýst að Lífeyrissjóðurinn Framsýn sé ekki lengur eignaraðili að stefnanda. Samkvæmt vitnisburðum Bjarna Brynjólfssonar og Vilborgar Þórarinsdóttur höfðu lífeyrissjóðir Hlífar og Framtíðar runnið inn í Lífeyrissjóð Framsýnar á þessum tíma en það að þeir eru nefndir skýrist af því að reikningar á kennitölum þeirra hafi “lifað áfram” í útibúinu. Stefnandi og Alm. Lífeyrissjóður iðnaðarmanna nutu sérstakra vaxtakjara á grundvelli hins eldri samnings milli stefnda og Lífeyrissjóðsins Framsýnar og eru síðan sérstaklega tilgreindir í samkomulaginu frá 6. júní 2003. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja naut einnig sérkjara á grundvelli eldri samningsins og óumdeilt er að hann hafi áfram notið sérkjara eftir gerð hins síðara samkomulags þótt hans væri þar eigi getið. Tengsl Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja birtast hvað sem öðru líður í því að þeir voru sameigendur að stefnanda.
Ekkert er fram komið því til stuðnings að umræddu samkomulagi væri ætlað að taka til hvers þess aðila, og þar með Lífeyrissjóðs Austurlands, sem eftir gerð þess yrði eignaraðili að stefnanda.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jökla Verðbréfa hf.
Málskostnaður fellur niður.