Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Þriðjudaginn 27. maí 2003. |
|
Nr. 191/2003. |
Kaupfélag Árnesinga og Ásvélar ehf. (Sigurður Jónsson hrl.) gegn þrotabúi Bifreiða- og hjólbarðaverkstæðis Suðurlands ehf. ogSandsölunni ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Málshöfðunarfrestur. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Með bréfi sýslumannsins í Reykjavík 18. desember 2002 var KÁ og Á tilkynnt, að þar sem mótmæli þeirra gegn frumvarpi til úthlutunar á söluverði tiltekinnar gröfu við nauðungarsölu hafi ekki komið fram í tæka tíð, hafi úthlutun söluverðsins orðið endanleg og það þegar greitt út. Leituðu KÁ og Á úrlausnar héraðsdóms um úthlutunina með bréfi 14. janúar 2003. Talið var, að til þess að fá hnekkt ákvörðun sýslumanns um úthlutun hafi KÁ og Á átt þann eina kost samkvæmt lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu að bera ágreining um hana undir héraðsdóm í máli, sem færi eftir XIII. kafla laganna. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. sömu laga hafi þeir þurft að gera það með bréflegri tilkynningu til sýslumanns innan viku frá því að þeim varð ákvörðun hans kunn. Þeim hafi orðið kunnugt um ákvörðunina með fyrrnefndu bréfi sýslumanns 18. desember 2002 en hafi á hinn bóginn fyrst gert reka að því að leita úrlausnar um ágreiningsefnið með bréfi 14. janúar 2003, sem að auki hafi verið beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Með því að frestur í þessu skyni hafi þá verið löngu liðinn yrði að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2003, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum varðandi úthlutun söluverðs við nauðungarsölu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn þrotabú Bifreiða- og hjólbarðaverkstæðis Suðurlands ehf. krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert í sameiningu að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðilinn Sandsalan ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði sýslumaðurinn í Reykjavík tvö fjárnám 14. september 2001 hjá varnaraðilanum Sandsölunni ehf., annað eftir beiðni sóknaraðilans Kaupfélags Árnesinga en hitt samkvæmt beiðni sóknaraðilans Ásvéla ehf. Höfuðstóll kröfu fyrrnefnda sóknaraðilans, sem fjárnám var gert fyrir, var 616.944 krónur, en þess síðarnefnda 423.000 krónur. Í báðum tilvikum var fjárnám gert í átta nánar tilgreindum bifreiðum, svo og gröfu af gerðinni Akerman. Fyrir liggur í málinu beiðni sóknaraðilans Ásvéla ehf. 25. september 2001 til sýslumanns um nauðungarsölu þessara bifreiða og gröfunnar. Af gögnum málsins virðist sóknaraðilinn Kaupfélag Árnesinga jafnframt hafa leitað nauðungarsölu fyrir sitt leyti. Grafan var seld nauðungarsölu við uppboð 5. október 2002 fyrir 750.000 krónur. Fyrir uppboðið hafði Bifreiða- og hjólbarðaverkstæði Suðurlands ehf. sent sýslumanni kröfulýsingu í söluverð gröfunnar fyrir samtals 1.127.981 krónu, sem félagið kvað vera kostnað af viðgerð á henni ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, en fyrir kröfunni taldi félagið sig njóta haldsréttar. Þá lýstu sóknaraðilarnir báðir kröfum til sýslumanns. Að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði taldi Kaupfélag Árnesinga kröfu sína vera alls 1.542.531 króna, en Ásvélar ehf. samtals 762.565 krónur.
Sýslumaður gerði frumvarp til úthlutunar á söluverði fyrrnefndrar gröfu 26. nóvember 2002, sem leiðrétt var síðan 29. sama mánaðar um atriði, sem varðar ekki ágreiningsatriði þessa máls. Samkvæmt leiðrétta frumvarpinu átti að greiða af söluverðinu samtals 198.984 krónur í kostnað af sölu gröfunnar og virðisaukaskatt, en sóknaraðilinn Ásvélar ehf. skyldi síðan fá 135.000 krónur vegna kostnaðar af vörslusviptingu. Eftirstöðvar söluverðsins, 416.016 krónur, áttu að renna til Bifreiða- og hjólbarðaverkstæðis Suðurlands ehf. í skjóli haldsréttar fyrir kröfu félagsins. Tekið var fram í frumvarpinu að athugasemdir við það þyrftu að berast sýslumanni fyrir hádegi 15. desember 2002, en ella teldist það endanleg úthlutun söluverðsins. Fyrir liggur að sóknaraðilar settu sameiginlega fram andmæli gegn tilkalli Bifreiða- og hjólbarðaverkstæðis Suðurlands ehf. til greiðslu af söluverðinu í bréfi 13. desember 2002. Sóknaraðilar kveða bréf þetta hafa verið sent símleiðis til sýslumanns sama dag og frumrit þess jafnframt póstsent. Í bréfi sýslumanns 18. sama mánaðar til lögmanns sóknaraðila var greint frá því að þeim fyrrnefnda hafi þann dag borist umrætt bréf með mótmælum gegn frumvarpi hans frá 29. nóvember 2002. Með því að mótmælin hafi ekki komið fram í tæka tíð hafi úthlutun söluverðsins orðið endanleg og það þegar verið greitt út.
Sóknaraðilar leituðu úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um framangreinda úthlutun söluverðs með bréfi 14. janúar 2003, sem þeir hafa sýnt fram á fyrir Hæstarétti að hafi borist héraðsdómi sama dag. Mál þetta var þingfest af þessu tilefni 14. febrúar 2003, en með hinum kærða úrskurði var því sem áður segir vísað frá dómi.
II.
Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 90/1991 fer úthlutun söluverðs lausafjármuna við nauðungarsölu að meginreglu eftir ákvæðum 50.-54. gr. laganna ef fleiri en einni kröfu hefur verið lýst um greiðslu af því, svo sem átti við í því tilviki, sem mál þetta varðar. Til þess að fá hnekkt ákvörðun sýslumanns um úthlutun áttu sóknaraðilar þann eina kost eftir lokamálslið 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 að bera ágreining um hana undir héraðsdóm í máli, sem færi eftir XIII. kafla laganna. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. sömu laga urðu sóknaraðilar að gera það með bréflegri tilkynningu til sýslumanns innan viku frá því að þeim varð þessi ákvörðun hans kunn. Sóknaraðilar kveða sér hafa orðið kunnugt um ákvörðunina með fyrrnefndu bréfi sýslumanns 18. desember 2002. Þeir gerðu á hinn bóginn fyrst reka að því að leita úrlausnar um ágreiningsefnið með bréfi 14. janúar 2003, sem að auki var beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Með því að frestur í þessu skyni var þá löngu liðinn verður að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Dæma verður sóknaraðila til að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Kaupfélag Árnesinga og Ásvélar ehf., greiði í sameiningu varnaraðila, þrotabúi Bifreiða- og hjólbarðaverkstæðis Suðurlands ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2003.
Mál þetta var þingfest 14. febrúar 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 10. apríl sl.
Sóknaraðilar eru Kaupfélag Árnesinga, kt. 680169-5869, Austurvegi 3-5, Selfossi, og Ásvélar ehf., kt. 640594-2179, Hrísholti, Laugarvatni.
Varnaraðilar eru BHS ehf., kt. 640101-3690, Austurvegi 69, Selfossi, og Sandsalan ehf., kt. 450685-0389, Hyrjarhöfða 8, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru „að úthlutun sýslumannsins í Reykjavík sem þeim var tilkynnt með bréfi dags. 18. desember 2002 verði felld úr gildi og að úthlutun uppboðsandvirðis beltagröfunnar EB 0165 verði breytt á þann veg að haldsréttarkröfu BHS kt. 649191-3690 verði hrundið og uppboðsandvirðinu þess í stað úthlutað til Ásvéla og KÁ. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi BHS vegna kröfulýsingar þeirra."
Dómkröfur varnaraðila, BHS ehf., eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili að sóknaraðilar verði in solidum úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Af hálfu varnaraðila, Sandsölunnar ehf., hefur ekki verið sótt þing.
Helstu málavextir eru að grafa af tegundinni Akerman, árg. 1982, skráð hjá vinnueftirliti númer EB-0165, var seld nauðungarsölu á uppboði af sýslumanninum í Reykjavík 5. október 2002. Gerðarbeiðendur voru m.a. sóknaraðilar og BHS ehf. en gerðarþoli var Sandsalan ehf. Söluverð var 750.000 kr. Að frádregnum sölulaunum, 5% af söluverði, eða 37.500 kr., komu til útborgunar 712.500 kr. sem þannig var skipt í frumvarpi af úthlutunargerð, dags. 29. nóvember 2002:
Vaka hf. kr. 13.894-
BHS ehf. (haldsréttur) kr. 563.606-
Ásvélar ehf. (vörslusviptingarkostnaður) kr. 135.000-
Tekið var fram að athugsemdir við frumvarpið þyrftu að berast sýslumanni fyrir kl. 12 þann 15. desember 2002. Að öðrum kosti yrði það endanleg úthlutunargerð söluverðs.
Sóknaraðilar byggja á því að hafa verið fjárnámshafar á 1. veðrétti í beltagröfunni sem hér um ræðir. Grafan hafi verið seld á nauðungaruppboði að Eldshöfða 4, Reykjavík, laugardaginn 6. október 2002 (svo) að kröfu sóknaraðila. Uppboðsandvirðið, 750.000 kr., hafi verið greitt til sýslumannsembættisins. Þegar nokkrar vikur voru liðnar frá uppboðinu hafi sóknaraðilar gengið eftir því að þeir fengju því úthlutað. Þá hafi komið í ljós að haldsréttarkrafa hafði verið gerð í uppboðsandvirðið. Sýslumanns-embættið hafi síðan gefið út frumvarp að úthlutunargerð 29. nóvember 2002 með þeim fyrirmælum að athugasemdir við frumvarpið þyrftu að berast sýslumanni fyrir kl. 12.00 15. desember 2002. Samkvæmt frumvarpinu hafi 563.606 kr. verið úthlutað upp í haldsréttarkröfuna. Af hálfu KÁ og Ásvéla var unnið að gagnaöflun vegna mótmæla fram til 13. desember 2002 þegar formleg mótmæli hafi verið send tvisvar á faxi til sýslumanns þ.e. kl. 15.03 og kl. 15.31. Frumrit mótmælabréfsins hafi síðan verið póstlagt. Það hafi því komið sóknaraðilum mjög á óvart þegar þeim barst bréf sýslumannsins í Reykjavík, dags. 18. desember 2002, um að embættið hefði tekið þá ákvörðun að láta ofangreint frumvarp standa sem endanlega úthlutunargerð og hefði þá þegar greitt uppboðsandvirðið til BHS.
Efnislega byggja sóknaraðilar á því að viðgerðarreikningur BHS sé málamyndareikningur, útbúinn einungis í því skyni að komast yfir uppboðsandvirði gröfunnar. Kunningsskapur sé með forsvarsmönnum BHS og forsvarsmanni uppboðsþolans, Sandsölunnar. Hafi forsvarsmaður Sandsölunnar fengið kunningja sína til þess að gefa út umþrættan reikning án þess að BHS hafi unnið að viðgerð gröfunnar. En hafi BHS á einhvern hátt komið að viðgerð gröfunnar þá sé reikningur vegna þess allt of hár og útilokað að hann geti verið þeirrar fjárhæðar sem raun ber vitni. Þá er dagsetningu reikningsins mótmælt, en reikningurinn hafi verið dagsettur og útbúinn á svipuðum tíma og uppboðið fór fram. Reikningur Arentsstáls, sem fylgir, sé einnig ótrúverðugur, hluti hans sé prentaður út úr tölvukerfi og hluti hans handskrifaður auk þess sem hann sé stílaður á Styrkingu hf. en ekki BHS ehf. Jafnframt sé reikningurinn kvittaður um að hafa verið greiddur af uppboðsþolanum, þ.e. með árituninni Sandsalan kt. 450685-0398, leyst út fyrir BHS. Uppboðsþolinn hafi greitt reikninginn en samt sé honum lýst sem hluta af haldsréttarkröfu vegna ógreidds viðgerðarreiknings á hendur uppboðsþola.
Ef talið verður að BHS ehf. hafi raunar unnið við viðgerð gröfunnar, þá byggja sóknaraðilar á því að þrátt fyrir það hafi BHS ekki haft vörslur hennar þegar vörslusvipting fór fram í Hvammsgryfju í septemberlok. Hvammsgryfja sé í eigu Sigrúnar Haraldsdóttur á Lýtingsstöðum og sé athafnasvæði gryfjunnar ekkert á vegum BHS. Hins vegar hafi grafan verið í gryfjunni við að moka möl á bíla í þágu Styrkingar í eigu aðila sem séu nákomnir BHS. Skilyrði haldsréttar um vörslur andlagsins hafi því ekki verið uppfyllt.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðilar hafi ekki mótmælt frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík til úthlutunar söluverðs gröfunnar EB-0165 innan þess frests er sýslumaður gaf, þ.e. fyrir kl. 12,00 þann 15. desember 2002. Ber því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum sóknaraðila enda sé frumvarp sýslumanns endanleg úthlutunargerð söluverðs, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðili bendir á að ekki sé ágreiningur um að sóknaraðilar hafi móttekið frumvarp sýslumanns til úthlutunar heldur aðeins hvort sóknaraðilar hafi mótmælt því innan þess frests er sýslumaður gaf. Varnaraðili telur fullyrðingar sóknaraðila um að hafa símsent mótmæli sín til sýslumanns ósannaðar gegn yfirlýsingu sýslumanns um að hafa ekki móttekið mótmæli sóknaraðila fyrr en að liðnum fresti. Því til stuðnings vísar varnaraðili m.a. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 348/1996 er kveðinn var upp þann 30. september 1996 en þar segi m.a.:
"Verður almennt ekki talið sannað, að skjal hafi verið sent á tilgreindum tíma úr símbréfstæki eða móttekið af þeim, sem það er ætlað, jafnvel þótt sendandi hafi í höndum staðfestingarmiða úr tækinu. Er því ekki unnt að fallast á, að áskilnaði 13. gr. húsaleigulaga um sönnun sé fullnægt í máli þessu."
Þá telur varnaraðili að hafna beri kröfum sóknaraðila eða eftir atvikum vísa frá dómi þegar af þeirri ástæðu að liðinn hafi verið frestur til að vísa málinu til héraðsdóms, skv. 80. gr. laga nr. 90/1991, er sóknaraðilar óskuðu eftir úrlausn héraðsdóms þann 14. janúar sl.
Varnaraðili telur lýsingu sóknaraðila á málavöxtum ranga. Hann mótmælir sem röngum ásökunum sóknaraðila um að reikningur hans hafi verið gerður til málamynda og í því skyni að „komast yfir uppboðsandvirði gröfunnar." Þá sé röng sú fullyrðing sóknaraðila að reikningur varnaraðila hafi ekki verið gefinn út þann 16. ágúst 2002 eins og greinir á reikningnum sjálfum.
Varnaraðili mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að reikningur varnaraðila sé alltof hár. Sóknaraðilar mótmæli reikningi Arentsstáls ehf. um útlagðan kostnað varnaraðila vegna viðgerðar á vélinni. Þau mótmæli sóknaraðila eiga ekki við rök að styðjast. Varnaraðili hafi greitt þennan reikning Arentsstáls ehf. vegna viðgerðar á vélinni. Eigandi varnaraðila sé einnig eigandi Styrkingar ehf. en fyrir misskilning Arentsstáls ehf. hafi reikningurinn verið gefinn út á hendur Styrkingu ehf. en ekki varnaraðila.
Enn fremur er því mótmælt að grafan hafi ekki verið í vörslu varnaraðila er hún var færð á uppboðsstað. Staðreyndin sé sú að grafan bilaði við vinnu í Hvammsgryfju og hafi varnaraðili tekið að sér að gera við vélina þar sem hún var staðsett. Grafan sé 42 tonn á þyngd og af þeim sökum hafi verið ákveðið gera við vélina þar sem hún var staðsett en ekki að flytja á verkstæði. Varnaraðili bendir á að það hefði kostað mörg hundruð þúsund krónur að flytja vélina á verkstæði og hefði sá flutningur ekki verið í þágu hagsmuna Sandsölunnar ehf. né kröfuhafa. Varnaraðili hafi því fengið vörslur vélarinnar í Hvammsgryfju og gert við vélina þar.
Niðurstaða: Beiðni um úrlausn um gildi úthlutunar uppboðsandvirðis varð sóknaraðili að koma til héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því að uppboðinu var lokið samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í endanlegu frumvarpi til úthlutunar söluverðs, dagsettu 29. nóvember 12002, gaf sýslumaður frest til 15. desember, klukkan 12.00, til að koma að athugsemdum við frumvarpið. Er beiðni sóknaraðila um úrlausn um gildi úthlutar, dagsett 14. janúar 2002, var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. janúar 2003 voru meira en fjórar vikur liðnar frá því að nauðungarsölunni lauk 15. desember 2002. Þá liggur ekki fyrir samþykki allra aðila nauðungarsölunnar, sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, að leggja málið fyrir héraðsdóm, sbr. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991.
Samkvæmt framangreindu verður málinu vísað frá dómi.
Rétt er að sóknaraðilar greiði varnaraðila BHS ehf. óskipt samtals 50.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Sóknaraðilar, Kaupfélag Árnesinga og Ásvélar ehf., greiði óskipt varnaraðila, BHS ehf., 50.000 kr. í málskostnað.